Greinar

Guðmundur Erlingsson
Mál og málgerðir

1. Málgefin skepna

Maðurinn er eina dýrategundin sem talar. Flestar aðrar dýrategundir geta haft einhver samskipti sín á milli en samskiptatækni þeirra er mun frumstæðari en mannamál. Sum dýr hafa þó ýmsa eiginleika sameiginlega manninum hvað varðar vitsmuni og hugsun. Til dæmis má nefna að apaungar virðast eins og mannabörn hafa meðfæddan hæfileika til að bera skynbragð á fjölda hluta, sem er grundvöllur þess að geta hugsað um og unnið með tölur sem hlutbundin hugtök. Einnig benda rannsóknir til þess að apar geti skynjað mun málhljóða eins og ‘pa’ og ‘ba’, hafi það sem kallað er FLOKKAMIÐUÐ TALSKYNJUN líkt og maðurinn, en fræðimenn telja þann hæfileika skilyrði þess að forfeður okkar gátu nýtt sér hljóð til samskipta. En af einhverjum ástæðum var mannskepnan eina dýrategundin sem náði nægum vitsmunaþroska til að geta gert sér mat úr slíkum hæfileikum.

Tungumálið hefur reynst manninum svo mikilvægt vopn í lífsbaráttunni að það hefur haft áhrif á líkamlega þróun hans. Háls og munnhol apa eru til að mynda nægilega víð til að matur eigi þar greiða leið um og niður í maga. Matur stendur því aldrei í öpum sem er afar heppilegur eiginleiki í lífsbaráttunni. Háls og munnhol manna eru hins vegar þröng og hætta er á að stórir matarbitar standi í þeim, sem getur valdið köfnun. Þessir líkamshlutar virðast því hafa þróast á þann hátt hjá mannskepnunni að auðveldara væri að nota þá til máls á kostnað hæfileikans til að kyngja.

1.1 Uppruni tungumálsins

Enginn veit hver varð fyrstur til að tala né heldur hvenær það gerðist eða hvers vegna. Upplýsingar sem lesa má úr líkamsleifum forfeðra mannsins benda til þess að fyrir um það bil 200.000 árum hafi talfæri þeirra verið orðin það þróuð að þau væru brúkleg til máls en heilar þeirra hafa líkast til verið of vanþróaðir. Talið er að tungumálið hafi komið fyrst fram einhvern tímann á tímabilinu 100.000 til 20.000 f.Kr., sem er auðvitað ekki nákvæm tímasetning. Sannleikurinn er sá að elstu heimildir um sögu tungumála eru ritheimildir sem eru um 5000 ára gamlar. Með aðferðum samanburðarmálfræðinnar má komast ögn lengra aftur í tímann eða um það bil 6000 ár. En lengra verður vart komist svo að einhverju haldi verði og því lítið hægt að fullyrða um upphaf mannslegs máls.

1.2 Fjöldi tungumála og helstu málaættir

Ekki er vitað með fullri vissu hversu mörg tungumál eru töluð í heiminum. Summer Institute of Linguistics hefur sett upp gagnagrunn sem kallast ETHNOLOGUE og þar má finna upplýsingar um þekkt tungumál í heiminum. Þar eru talin upp 6703 mál og athygli vekur að einungis 225 þeirra eru töluð í Evrópu eða 3% allra mála.

Dreifing mála eftir landsvæðum. Hér sést hvernig heimsálfurnar skipta á milli sín tungum heimsins. Athygli vekur hversu lítill hluti þeirra er talaður í Evrópu (Heimild: http://www.sil.org/ethnologue/distribution.html, Summer Institute of Linguistics).

Evrópa er líka fátæk að málaættum miðað við aðrar heimsálfur. Ástæðan fyrir því er líklegast sú að indóevrópska málaættin náði almennri útbreiðslu í Evrópu og eru einungis litlar leifar eftir af þeim málum sem þar voru fyrir. Auk þess er tiltölulega stutt síðan indóevrópsk mál héldu innreið sína í álfuna og því hafa málin ekki klofnað meir en raun ber vitni.

Flest tungumál er hægt að flokka eftir skyldleika þeirra við önnur mál með aðferðum samanburðarmálfræðinnar og finna þeim stað í málaættum. Flest þekkt tungumál í heiminum tilheyra einhverri málaætt en þó er nokkur fjöldi mála sem ekki tilheyra neinni ætt og teljast því einangruð (e. isolated languages) og ekki skyld neinum öðrum málum svo vitað sé. Auk þessara flokkunarþátta ber að nefna svokölluð blendingsmál sem eru afsprengi tveggja ólíkra og oft óskyldra mála.

2. Algildi

Ýmis einkenni eru öllum málum í heiminum sameiginleg. Þá er sagt að þeir þættir séu ALGILDIR og talað um ALGILDI í tungumálum. Sem dæmi má nefna að öll mál hafa sérhljóð og samhljóð og helstu orðflokkar eins og nafnorð, lýsingarorð og sagnorð koma fyrir í þeim öllum. Þetta eru því algild einkenni. Slík algildi eru þó fremur sjálfsögð og birta engin ný sannindi um mál í heiminum. Önnur algildi geta átt við mjög afmarkaðan hluta tungumálsins og krefst það oft nokkurrar þekkingar á málfræði að geta áttað sig á þeim. Sem dæmi um slíkt algildi má nefna:

Í yfirgnæfandi meirihluta mála er frumlagið haft á undan andlaginu í fullyrðingasetningum þar sem bæði frumlag og andlag eru nafnorð

Þetta algildi er mun sérhæfðara en þau sem áður voru nefnd. Þarna er verið að segja að flest mál hafa sterka tilhneigingu til að haga sér líkt og íslenska í setningunni hundurinn elti köttinn. Þarna er hundurinn frumlagið og kötturinn andlagið og kemur frumlagið því á undan andlaginu. Það tengist líkast til því að frumlagið er oft tengt orsök en andlagið afleiðingu. Hundurinn er þannig orsakavaldur og hrindir af stað þeirri atburðarás sem felst í sögninni elta. Afleiðing atburðarásarinnar bitnar svo á kettinum. Það er því rökrétt að hafa frumlagið á undan andlagi í setningunni þar sem orsök kemur alltaf á undan afleiðingu. Það eru þó til mál sem virðast ekki fylgja þessari reglu en þau eru eru ekki mörg.

Algildum má skipta í tvo flokka: LEIÐANDI ALGILDI og HREIN ALGILDI.

2.1 Leiðandi algildi og hrein algildi

LEIÐANDI ALGILDI (e. implicational universals) segja fyrir um það að þegar tungumál hefur eitthvert ákveðið einkenni megi af því leiða að málið hafi einnig eitthvert annað ákveðið einkenni. Dæmi um leiðandi algildi er sú regla að ‘öll tungumál sem hafa kyn hafa einnig tölu’. Möguleikarnir eru því alls fjórir:

  1. Málið hefur kyn og tölu
  2. Málið hefur ekki kyn en hefur tölu
  3. Málið hefur kyn en ekki tölu
  4. Málið hefur hvorki kyn né tölu

Íslenska er dæmi um fyrsta flokkinn, mál með kyn og tölu. Nafnorð í íslensku eru ýmist karlkyns, kvenkyns eða hvorugkyns og standa annaðhvort í eintölu eða fleirtölu. Baskneska er dæmi um annan flokkinn sem hefur ekki kyn en hefur tölu. Nafnorð í basknesku skiptast ekki í kyn en standa ýmist í eintölu eða fleirtölu. Víetnamska er dæmi um mál sem hvorki hefur kyn né tölu, en ekkert mál hefur fundist sem fellur að þriðja flokki, þ.e. hefur kyn en ekki tölu. Því má slá því föstu að ofangreind regla sé algild.

HREIN ALGILDI (e. absolute universals) eru þættir og einkenni sem eru sameiginleg öllum tungumálum. Hrein algildi eru fundin með því að bera saman tungumál og notkun þeirra og eru því raunveruleg fyrirbæri en ekki hlutbundin. Sum hrein algildi er altæk og eiga við um öll tungumál, dæmi um slíkt er reglan ‘öll tungumál hafa sérhljóð’. Sú regla á við öll mál í heiminum án nokkurra undantekninga. Önnur hrein algildi geta fremur verið TILHNEIGINGAR TIL ALGILDA (e. universal tendencies), og eiga þá við svo stóran hóp mála að ekki er hægt að skýra það sem tilviljun eina þrátt fyrir að einstaka undantekningar finnist. Dæmi um slíka tilhneigingu er eitt algilda Greenbergs:

Í yfirgnæfandi meirihluta þeirra mála sem hafa SFA sem grunnorðaröð, er lýsingarorðið staðsett á eftir nafnorðinu í setningu.

2.2 Ástæður algilda í málum

Ekkert mál er algjörlega einstakt. Jafnvel þótt málið sé einangrað og ekki skylt neinu þekktu máli hefur það fjölda einkenna sem finna má í öðrum málum. Mannlegu máli virðast því nokkur takmörk sett. Sumir hafa haldið því fram að ein ástæða þess sé að öll mál heimsins séu afkomendur sömu móðurtungu sem töluð hafi verið í árdaga mannkyns og taki einkenni sín í arf frá henni. Seint verður hægt að sýna fram á að svo sé þar sem slíkt mál hefur verið talað fyrir mjög löngu, ef það var þá raunverulega til. Það nægir heldur ekki sem skýring út af fyrir sig þar sem erfitt er að sjá hvers vegna upplýsingar um einstök ólík algildi, sem geta verið ansi sérhæfð, ættu að hafa erfst í málum í svo langan tíma. Auk þess hefði slík móðurtunga þurft að vera fjölbreytt ef hægt á að vera að rekja alla þætti í ólíkum málgerðum til hennar.

Önnur skýring er sú að þar sem kunnátta eða hæfileiki okkar til að tala sé meðfæddur hljóti það að skýra tilvist algilda í málum, þau séu ‘innbyggð’ í huga okkar ef svo má segja. Þótt sú skýring dugi upp að vissu marki nægir hún ekki til að skýra allan þann fjölda algilda sem upp geta komið og í rauninni óþarft að ganga svo langt. Til dæmis er eðlilegra að skýra sum algildi út frá notagildi þeirra eða röklegu samhengi. Sem dæmi má nefna að flest ef ekki öll mál bjóða upp á einhverja aðferð til að bera saman ólíka hluti, líkt og stigbreyting í íslensku (sbr. ‘Þetta hús er stærra en hitt’). Þar sem fólk þarf iðulega að grípa til slíkra aðferða þegar það lýsir umhverfi sínu er eðlilegt að það birtist í málinu.

3. Málgerðir

Tungumál heimsins eru geysilega fjölbreytt hvað sem öllum algildum líður. Áður hefur verið rakið hvernig hægt er að flokka ólík mál eftir skyldleika þeirra og skipa þeim í málaættir, en það er einnig hægt að skipa málum í flokka eftir ólíkum málgerðum óháð því hvort málin eru skyld eða ekki. Slík flokkun er viðfangsefni málgerðarfræði.

Flokkun mála eftir málgerðum byggist annars vegar á algildum einkennum sem málin eiga sameiginleg og hins vegar á því sem greinir þau frá öðrum gerðum mála. Hér á eftir verða raktar nokkrar flokkunarleiðir. Þetta er langt frá því að vera tæmandi umfjöllun en nefnd verða mikilvæg og áhugaverð atriði sem varða mismunandi málgerðir.

3.1 Orðaröð

Þegar farið var að rannsaka tungumál með tilliti til ólíkra málgerða var orðaröð eitt það fyrsta sem menn skoðuðu. Ólík mál raða orðum og setningarhlutum á mismunandi hátt og rannsóknir á orðaröð hafa það að markmiði að finna út hver SJÁLFGEFIN ORÐARÖÐ tiltekins máls er og hvernig hún tengist öðrum þáttum í formgerð og innri byggingu málsins.

Með sjálfgefinni orðaröð er átt við hvernig mikilvægustu þáttum setningar, FRUMLAGI, SÖGN og ANDLAGI er raðað í setningu. Oftast er þá miðað við einfaldar fullyrðingasetningar. Alls eru sex möguleikar í uppröðun (hér táknar F frumlag, S sögn og A andlag): FAS, FSA, SFA, SAF, ASF og AFS. Þrjár fyrstu raðirnar eru algengastar en fundist hafa dæmi um mál sem raða sínum þáttum samkvæmt fimm fyrstu röðunum. Sjötta röðin virðist hins vegar vera afar sjaldgæf.

Dæmi um mismunandi raðir:

Gizonak liburua botatzen du (BASKNESKA, FAS)
maðurinn bókinni kastað hefur
‘maðurinn fleygði bókinni’

Maðurinn stal brauðinu (ÍSLENSKA, FSA)

Lladdodd y ddraig y dyn (VELSKA, SFA)
drap drekinn manninn
‘drekinn drap manninn’

Nahita ny mpianatra ny vehivavy (MALAGASÍSKA, SAF)
sá nemandann konan
‘konan sá nemandann’

Toto yahosiye kamara (HIXKARANA, ASF)
manninn hann-hremmdi-hann jagúarinn
‘jagúarinn hremmdi manninn’

Sjálfgefin orðaröð mála er í mörgum tilvikum ljós. Þó getur ýmislegt flækt málið þar sem orðaröð er misfrjáls í málum. Til dæmis er orðaröð í ensku í flestum tilvikum niðurnjörvuð ef merking á að haldast sú sama. Merking setningarinnar man bites dog er allt önnur en setningarinnar dog bites man. Í íslensku er orðaröð hins vegar frjálsari. Setningarnar ég sá spóa, sá ég spóa og spóa sá ég bera allar sömu merkingu og enginn Íslendingur ætti í vandræðum með að skilja þær, þótt flestir raði orðum sínum eins og í fyrstu setningunni. Í enn öðrum málum getur orðaröð verið nær algjörlega frjáls þannig að ómögulegt er að greina einhverja ákveðna grunnorðaröð.

Nokkur mál klofna í afstöðu sinni til orðaraðar. Þýska hefur til að mynda orðaröðina FSA í fullyrðingasetningum: Der Mann SAH den Jungen ‘maðurinn sá drenginn’, en hins vegar FAS í aukasetningum: Ich weiß, [daß der Mann den Jungen SAH] ‘ég veit að maðurinn sá drenginn’

Orðaröð tungumála er grundvallaratriði í flokkun þeirra. Á grundvelli hennar er hægt að setja fram nánari reglur um formgerð málsins og framsetningu merkingarbærra eininga í setningum.

3.2 Beygingarleg einkenni

Önnur flokkunarleið sem oft er notuð er sú að flokka mál eftir því hvernig orðhlutum og beygingarendingum er komið fyrir í málinu. Allajafna eru settir fram fjórir mögulegir flokkar: STOFNAMÁL, LÍMINGAMÁL, SAMRUNAMÁL og FJÖLSAMSETT MÁL

Í flokki STOFNAMÁLA (e. isolating languages) eru mál sem hafa litlar sem engar beygingar. Upplýsingar sem í íslensku kæmu fram í beygingarendingum (t.d. kyn, tala, fall o.s.frv.) koma fram í stökum orðum í setningunum. Víetnamska kemst líklega næst því að vera hreinræktað stofnamál:

mây cái bàn này
fáir hlutur borð þetta
‘þessi fáu borð’

Nam lây bút cúa cô y-tá
Nam taka penni eign hjúkrunarkona
‘Nam tók penna hjúkrunarkonunnar’

Öll orð í þessum setningum eru óbreytanleg, þ.e.a.s. það eru engar ólíkar beygingarmyndir eins og í íslensku. Eign er til dæmis táknuð með sérstöku orði, cúa. Annað einkenni stofnamála sést vel þarna en þar er hvert orð einungis einn orðhluti, engin samsett eða afleidd orð (samsett orð finnast að vísu í víetnömsku þó þau séu hlutfallslega færri en t.d. í íslensku).

Í span class="smaller">LÍMINGAMÁLUM (e. agglutinate languages) eru orðhlutarnir alltaf skýrt afmarkaðir og bera hver og einn takmarkaðar upplýsingar. Dæmi um það er beyging nafnorðsins ev ‘hús’ í tyrknesku:

EINTALA:

ev- ‘hús’
ev-i ‘hús hennar/hans’
ev-den ‘frá húsi’
ev-in-den ‘frá húsi hennar/hans’

FLEIRTALA:

ev-LER ‘hús (ft.)’
ev-LER-i ‘hús (ft.) hennar/hans’
ev-LER-den ‘frá húsum’
ev-LER-in-den ‘frá húsum hennar/hans’

Hér sést vel hve hinar beygingarlegu formdeildir eru skýrt afmarkaðar. Beygingarendingar fyrir hvert fall eru alltaf hinar sömu bæði í eintölu og fleirtölu, en viðskeytinu -ler einfaldlega skotið inn á milli stofnsins og beygingarendingarinnar til að sýna fleirtöluna.

Í SAMRUNAMÁLUM (e. fusional languages) eru mörkin á milli orðhluta hvers orðs óskýr. Þar er allajafna ekki hægt að greina hverja beygingarendingu eftir einstökum merkingarlegum þáttum heldur geta þær geymt margvíslegar upplýsingar. Gott dæmi um þetta er íslenska:

EINTALA
nf. hell-ir
þf. hell-i
þgf. hell-i
ef. hell-i

FLEIRTALA
nf. hell-ar
þf. hell-a
þgf. hell-um
ef. hell-a

Hér sést að það er eiginlega ekki hægt að greina hverja beygingarendingu í einstaka hluta eftir þeim upplýsingum sem þeir geyma. Í endingunni -um í þágufalli fleirtölu er ekki hægt að greina einhvern orðhluta sem ber merkinguna FLEIRTALA og annan orðhluta sem merkir ÞÁGUFALL. Beygingarendingin myndar því eina heild sem geymir margvíslegar upplýsingar.

FJÖLSAMSETT MÁL (e. polysynthetic languages) eru mál þar sem orðum og orðhlutum er skeytt saman þannig að eitt orð getur jafnvel borið merkingu heillar setningar. Dæmi um slíkt mál er júpíska:

angya-ghlla-ng-yug-tuq
bát-STÆKKUN-EIGNAST-ÓSK-3.P.EINTALA
‘hann vill fá stóran bát’

Hér ber orðið merkingu heillar setningar og athygli vekur að einungis fyrsti hluti orðsins, angya-, er raunverulegur orðhluti úr orðasafni málhafans en aðrir hlutar bera einungis málfræðilegar upplýsingar. Önnur fjölsamsett mál geta einnig skeytt saman fleiri en einum orðhluta úr orðasafninu í eitt orð auk málfræðilegra orðhluta.

Þessir fjórir flokkar mynda nokkurs konar andstæðupör.

Flokkar tungumála. Límingamál og samrunamál mynda andstæða póla og sömuleiðis stofnamál og fjölsamsett mál.

Stofnamál og fjölsamsett mál mynda greinilega andstæðu þar sem hreint stofnamál hefði engin samsett orð en í hreinu fjölsamsettu máli væri hver setning eitt samfellt orð. Límingamál og samrunamál mynda svo annað andstæðupar þar sem mörk á milli stofns og beygingarendinga væru skýrt afmörkuð í hreinum límingamálum en í hreinum samrunamálum væri ómögulegt að greina mörkin. Tungumál heimsins lenda þannig á ýmsum stöðum á milli þessara andstæðu póla eftir því hversu sterk einkenni hvers flokks eru en ekkert mál hefur eingöngu einkenni eins flokks.

Sú kenning hefur verið sett fram að þrír af þessum fjórum flokkum geti skipt máli í málsögulegu tilliti. Samkvæmt því þróast mál frá einum flokki til annars. Mál sem í upphafi er t.d. stofnamál þróast ef til vill í þá átt að samsett orð myndast og stakir orðhlutar sem geyma málfræðilegar upplýsingar festast við orðin sem þeir fylgja. Smátt og smátt er málið því orðið límingamál. Þvínæst fara mörkin á milli orðhluta að verða ógreinileg og málið þróast í þá átt að verða samrunamál. Eftir því sem orðhlutarnir í samrunamálinu renna meira saman nálgast málið það að verða aftur stofnamál. (Hér eru fjölsamsett mál skilin út undan, aðallega vegna þess að þau geta haft sterk einkenni annaðhvort límingamála (mörk milli orðhluta eru skýr) eða beyginga- eða samrunamála (mörk milli orðhluta eru óskýr)). Það má finna ýmis rök fyrir þessari kenningu í sögu mála en þó er ekkert sem bendir til þess að þetta sé endilega ráðandi eða undantekningarlaust ferli.

3.3 Tal og tónar

Í um helmingi mála í heiminum er mögulegt að breyta merkingu orðs með því einu að breyta tónhæðinni sem talað er í. Slík mál eru kölluð tónamál. Tónum í þessum málum má allajafna skipta í tvo hópa: 1) tóna sem halda jafnri tónhæð (STÖÐUTÓNAR, e. contour tones) og 2) tóna sem breyta um tónhæð (SKRIÐTÓNAR, e. gliding tones). Tónamálum má því samkvæmt þessu skipta í tvo hópa, mál sem nota skriðtóna (t.d. kínverska og tælenska) og mál sem nota eingöngu stöðutóna (t.d. zúlú og hása (í Afríku)).

Tónamál nota misjafnlega marga tóna. Zúlú-málið í Suður-Afríku hefur til dæmis aðeins tvo en kanton-kínverska (töluð í Suður-Kína) hefur sex. Í mandarínkínversku eru til að mynda fjórir tónar og getur orðmyndin ma haft fjórar merkingar eftir því hvaða tóni er beitt:

ma1 ‘móðir’ (HÁR-STÖÐUTÓNN)
ma2 ‘hampur’ (HÁR-RÍSANDI)
ma3 ‘hestur’ (LÁGUR-HNÍGANDI-RÍSANDI)
ma4 ‘skamma’ (HÁR-HNÍGANDI)

Úr þessum efnivið má búa til margvíslega tungubrjóta eða öllu heldur raddbandabrjóta þar sem hér reynir fyrst og fremst á tónvísi þess sem talar:

Mama1 qi ma3. Ma3 man. Mama1 ma4 ma3.
‘Mamma ríður hesti. Hestur hægfara. Mamma skammar hest’

Þarna má sjá hvernig má breyta merkingu einstakra orða með því að nota mismunandi tóna. Í öðrum málum geta tónar fremur haft beygingarlegt hlutverk. Í bini, sem talað er í Vestur-Afríku, táknar lágur tónn nútíð en hár tónn þátíð. (Byggt á Crystal, 1987:172).

Tónar eru því óaðskiljanlegur hluti hljóðkerfis og jafnvel beygingakerfis tónamála. Þannig er ‘a2’ ekki sama hljóðið og ‘a3’ í mandarín-kínversku og orðin ma2 : ma3 því lágmarkspör. Önnur tegund tónamála eru mál sem hafa tónkvæði. Þar eru tónarnir hluti áherslumynsturs málsins en ekki inngrónir í málkerfið. Norska og sænska hafa til að mynda tvo tóna og má jafnvel finna þar orðmyndir sem hafa tvær merkingar eftir tónum. Norska orðmyndin bønner þýðir til dæmis ýmist ‘bændur’ eða ‘baunir’ eftir því hvoru áherslumynstrinu er beitt. Það er jafnvel talið að slíkt tónkvæði hafi verið í forníslensku enda á tónkvæðið í norsku og sænsku sér sögulegan uppruna.

3.4 Ergatíf mál og þolfallsmál

Samspil frumlags, sagnar og andlags er aðalkjarni í merkingu setningar. Sögnin er kjarni setningarinnar og stjórnar að miklu leyti hvers eðlis frumlagið og andlagið eru. Áhrifslausar sagnir eins og ganga og sofa fela oft í sér athafnir sem krefjast ekki mikils frumkvæðis af frumlaginu. Setningin maðurinn sefur felur þannig fyrst og fremst í sér lýsingu á ástandi mannsins og frumlagið því HLUTLAUST. Áhrifssagnir lýsa hins vegar oft verknaði sem krefst þess að frumlagið sé GERANDI eða ORSAKAVALDUR (e. agent) og andlagið ÞOLANDI. Maðurinn í setningunni maðurinn lemur hundinn er tvímælalaust gerandi og hundurinn þolandi og frumlagið hefur áhrif á andlagið með verknaðinum sem felst í sögninni. Í beygingamálum eru þessi þrjú merkingarhlutverk, GERANDI, HLUTLAUS og ÞOLANDI, afmörkuð með beygingarendingum. Allajafna eru tvær beygingarmyndir látnar nægja en skipta má málum í tvo flokka eftir því hvaða merkingarhlutverk þau afmarka sérstaklega. Þetta eru ÞOLFALLSMÁL og ERGATÍF MÁL.

Íslenska er dæmi um ÞOLFALLSMÁL. Frumlagið er nánast alltaf í nefnifalli hvort sem merkingarhlutverk þess er GERANDI eða HLUTLAUS og andlag áhrifssagnar er aðgreint sérstaklega og er oftast í þolfalli. Þannig er enginn beygingarlegur munur á frumlaginu maður í setningunum maðurinn gengur og maðurinn lemur hundinn. Í fyrri setningunni er maðurinn fremur hlutlaust frumlag með áhrifslausri sögn en í þeirri seinni er hann gerandinn í setningu með áhrifssögn og hefur áhrif á andlagið.

Í öðrum málum fá merkingarhlutverkin HLUTLAUS og ÞOLANDI sömu beygingarendingu, nefnifall, en merkingarhlutverkið GERANDI er aðgreint sérstaklega með sérstakri beygingarendingu. Þannig er frumlag áhrifslausrar sagnar og andlag áhrifssagnar haft í nefnifalli en frumlag áhrifssagnar fær sérstakt fall sem kallast ERGATÍFT FALL (e. ergative). Slík mál kallast ERGATÍF MÁL. Best er að sýna þetta með dæmum. Baskneska er ergatíft mál. Baskneska sögnin hil ‘að deyja/að drepa’ getur bæði verið áhrifssögn og áhrifslaus eftir merkingu og samhengi:

gizona hil da (hil sem áhrifslaus sögn)
maðurinn dáið hefur
‘maðurinn er dáinn’

emakume-ak gizona hil du (hil sem áhrifssögn)
konan manninn drepið hefur
‘konan hefur drepið manninn’

Í fyrri setningunni er gizon ‘maður’ HLUTLAUST frumlag og setningin lýsir fyrst og fremst ástandi frumlagsins. gizon stendur því í nefnifalli. Í síðari setningunni er gizon andlagið og stendur áfram í nefnifalli en frumlagið emakume er GERANDI með áhrifssögn og fær því ergatífu endinguna -(a)k.

Í setningum þar sem sögnin er áhrifslaus stendur því frumlagið alltaf í nefnifalli hvort sem málið er þolfallsmál eða ergatíft mál. En þegar sögnin er áhrifssögn fá frumlagið og andlagið meira afgerandi merkingarhlutverk og þar skilur leiðir. Þolfallsmál (eins og íslenska) greina þá andlagið (merkingarhlutverkið ÞOLANDI) sérstaklega að, en í ergatífum málum er frumlagið (GERANDI) aðgreint sérstaklega

Merkingarhlutverk. Hér sést hvernig þolfallsmál og ergatíf mál skipta með sér merkingarhlutverkunum (Úr Dixon, 1979).

.

3.5 Aðalorð og fylliliðir

Kjarni hverrar setningar er sögnin. Venjulega er talað um sögnina sem aðalorð setningarinnar og aðra setningarhluta sem fylliliði. Hver setningarliður er einnig byggður upp í kringum eitt aðalorð og önnur orð í liðnum er fylliliðir hans. Í nafnlið er nafnorðið til dæmis aðalorðið en önnur orð sem því fylgja fylliliðir. Í nafnliðnum hús mannsins er hús aðalorðið eða kjarni liðarins en mannsins er fylliliður sem kveður nánar á um hlutverk aðalorðsins og bætir við merkingu setningarliðarins. Tungumálum má skipta í flokka eftir því hvernig merkingarþáttur eins og EIGN er táknaður og hvort hann er markaður á aðalorð eða fyllilið.

MÖRKUN AÐALORÐS (e. head-marking) felst í því að aðalorð hvers liðar fær mörkun eins og þegar gerð er grein fyrir merkingarþættinum EIGN. Ungverska markar til að mynda aðalorðið í slíkum setningarliðum:

az ember ház-a
maðurinn hús-hans
‘hús mannsins’

Íslenska er hins vegar dæmi um hið gagnstæða, mál þar sem MÖRKUN FYLLILIÐAR er ráðandi einkenni: hús mannsins þar sem fylliliðurinn mannsins fær eignarfallsendinguna.

Það eru einnig til mál sem falla undir hvorugan þessara flokka. Tyrkneska markar til að mynda bæði aðalorð og fyllilið:

adam-in ev-i
mannsins hús-hans
‘hús mannsins’

en í sumum málum eru hvorugur liðanna markaður. Haruai er dæmi um það:

nöbö ram
maður hús
‘hús mannsins’

Skilgreining á mörkun aðalorðs annars vegar og fylliliðar hins vegar getur skipt miklu máli við greiningu annarra þátta tungumálsins. Það hefur til dæmis verið bent á það að mörkun aðalorðs er gjarnan ráðandi í málum þar sem sögnin (sem jafnframt er aðalorð setningarinnar) er höfð fremst í setningu. Það má færa málnotkunarleg rök fyrir þessum tengslum. Með því að kynna aðalorðið með allri sinni mörkun strax í upphafi setningar veit málnotandinn hvað gera á við þá liði sem á eftir koma. Væri sögnin sett aftast í setninguna fær mælandinn hins vegar fyrst nokkra ómarkaða liði og getur ekki unnið úr innbyrðis tengslum þeirra fyrr en sögnin birtist.

Heimildir

Animal communication. Encyclopædia Britannica Online. <http://search.eb.com/bol/topic?idxref=393753&pm=1> [Skoðað 9. ágúst, 1999]

Brockman, John. 1999. Animal Minds. A Talk with Marc D. Hauser [prófessor í þróunarsálfræði við Harvardháskóla]. Edge 54. <http://www.edge.org/documents/archive/edge54.htm> [Skoðað í ágúst 1999].

Comrie, Bernard. 1989. Language Universals and Linguistic Typology. 2. útgáfa. Blackwell, Cambridge.

Crystal, David. 1987. The Cambridge Encyclopedia of Language. Cambridge University Press.

Dixon, R.M.W. 1979. Ergativity. Language. Vol. 55, no. 3. Bls. 59–138.

Grimes, Barbara F. (ritstj.) 1999. Ethnologue. Languages of the World. Thirteenth edition. <http://www.sil.org/ethnologue> [Skoðað í ágúst 1999].

Ðành-Hoà, Nguyên. 1997. Vietnamese. John Benjamins, Amsterdam/Philadelphia.

Language. Encyclopædia Britannica Online. <http://search.eb.com/bol/topic?eu=114866&sctn=1&pm1> [Skoðað 9. ágúst 1999]

Nichols, Johanna. 1986. Head-marking and Dependent-marking Grammar. Language. Vol. 62, no. 1. Bls. 56–119.

Nichols, Johanna. 1990. Linguistic Diversity and the First Settlement of the New World. Language. Vol. 6, no. 3. Bls. 475–521.

Nichols, Johanna. 1993. Ergativity and Linguistic Geography. í Australian Journal of Linguistics. 12:39–89.

Pinker, Steven. 1994. The Language Instinct. Penguin, London.

Saltarelli, Mario. 1988. Basque. Croom Helm Descriptive Grammars. Croom Helm, New York.