Greinar

Guðrún Þórhallsdóttir
Söguleg málvísindi

1. Söguleg málvísindi

SÖGULEG MÁLVÍSINDI (e. historical linguistics) kallast sú grein málvísinda sem fæst við breytingar á tungumálum í tímans rás. Sumir málfræðingar sem fást við söguleg málvísindi reyna að komast að því hvað fyrirbærið málbreyting er, hvernig tungumál breytast og hvers vegna. Aðrir einbeita sér að rannsóknum á sögu tiltekins tungumáls, t.d. íslenskri málsögu eða norskri málsögu.

Þeir málfræðingar sem fást við málsögu vinna ekki ósvipað sagnfræðingum, þ.e. þeir reyna að grafast fyrir um það hvernig tungumálið hefur þróast á liðnum tímum. Þessir málfræðingar geta ekki spurt lifandi fólk frá liðnum öldum hvernig eitthvert orð sé borið fram eða hvernig það beygist, heldur eru heimildir um eldri málstig fyrst og fremst ritaðir textar. Þess vegna er meira vitað um fornt ritmál en talmál.

1.1 Undirgreinar sögulegra málvísinda

Söguleg málvísindi skiptast í nokkrar undirgreinar eftir því hvaða hliðum málþróunar menn einbeita sér að. Söguleg hljóðkerfisfræði fjallar um breytingar á hljóðkerfi, söguleg beygingafræði um þróun beyginga og söguleg setningafræði um breytingar á gerð setninga.

1.2 Málsaga og málþróun

Margir gera greinarmun á hugtökunum MÁLSAGA og MÁLÞRÓUN. Þá er orðið MÁLSAGA látið eiga við sögu tiltekins tungumáls og t.d. talað um íslenska málsögu, rétt eins og orðið ÍSLANDSSAGA er notað um sögu Íslands. Orðið MÁLÞRÓUN er hins vegar oft notað í almennari merkingu um breytingar á tungumáli í tímans rás.

1.3 Málstig

Hugtakið MÁLSTIG er notað um tímabil í sögu tungumáls. Þannig er íslenska á 13. öld eldra málstig en íslenska á 20. öld, og þessi málstig geta málfræðingar borið saman. Af samanburðinum má draga ályktanir um það hvernig málið hefur breyst á þeim tíma sem liðið hefur á milli:

13. öld: Gunnhildr ok synir Eiríks fóru til Danmerkr
20. öld: Gunnhildur og synir Eiríks fóru til Danmerkur

Á þessum setningum má sjá merki um tvær breytingar sem orðið hafa milli 13. og 20. aldar. Annars vegar hafa Gunnhildr og Danmerkr breyst í Gunnhildur og Danmerkur vegna u-innskots og hins vegar er ok orðið að og (önghljóðun lokhljóðs í enda orðs). Ályktanir um þetta tvennt er hægt að draga beint af rithættinum en reyndar er gert ráð fyrir að framburður orðanna í þessari setningu hafi breyst meira en þetta. Það koma nefnilega ekki allar framburðarbreytingar fram í stafsetningu.

1.4 Málbreytingar

Undir hugtakið MÁLBREYTING falla hvers konar breytingar sem kunna að verða á tungumáli, þ.e. bæði hljóðbreytingar, breytingar á beygingum, breytingar á setningagerð og merkingarbreytingar.

2. Hljóðbreytingar

Hugtakið HLJÓÐBREYTING er haft um breytingu á málhljóði sem verður í tungumáli (eða mállýsku) á einhverju tilteknu stigi í sögu tungumálsins. Hljóðbreytingar eru af margvíslegu tagi, því að málhljóð geta breyst á margan hátt. Þær geta verið óskilyrtar eða verið háðar hljóðfræðilegum skilyrðum. Eins eru þær misjafnlega afdrifaríkar fyrir hljóðkerfi tungumálsins, því að sumar hljóðbreytingar raska hljóðkerfinu, en aðrar ekki.

2.1 Óskilyrt hljóðbreyting

Við óskilyrta hljóðbreytingu breytist hljóðið sem um ræðir á sama hátt í öllum orðum þar sem það kemur fyrir. Ekki skiptir máli hvar í orði það stendur eða hvaða hljóð eru í grenndinni.

Dæmi um óskilyrta hljóðbreytingu er afkringing á y-hljóðum í íslensku.

Í þessari breytingu varð sérhljóðið ‘y’ að sérhljóðinu ‘i’ í öllum orðum; það skipti ekki máli hvar í orði það stóð eða hvaða hljóð voru umhverfis.

2.2 Skilyrt hljóðbreyting

Margar hljóðbreytingar eru þess eðlis að málhljóðið sem um ræðir breytist aðeins ef tilteknum skilyrðum er fullnægt, t.d. aðeins ef hljóðið er í upphafi orðs eða ef einhver tiltekin hljóð eru í grenndinni. Slíkar hljóðbreytingar kallast SKILYRTAR eða STÖÐUBUNDNAR og skilyrðin eru hljóðfræðilegs eðlis, þ.e. eiga eingöngu við það umhverfi sem hljóðið er í.

Dæmi um skilyrta hljóðbreytingu í íslensku er breyting samhljóðaklasans ‘kn’ í ‘hn’ í upphafi orðs. Þegar orðið kné varð að hné breyttist hljóðið ‘k’ í hljóðið ‘h’ en sú breyting varð því aðeins að ‘k’ væri í upphafi orðs og ‘n’ færi næst á eftir. Þar sem ‘kn’ kom fyrir inni í orði (t.d. í vakna) hélst það því óbreytt.

2.3 Sjálfsprottin hljóðbreyting

Flestar tegundir hljóðbreytinga virðast vera reglulegar í þeim skilningi að viðkomandi hljóð breytist á sama hátt í öllum orðum sem það kemur fyrir í; við skilyrtar hljóðbreytingar þurfa umhverfisskilyrði breytingarinnar þó að vera uppfyllt.

Hins vegar eru einnig til hljóðbreytingar sem eru ekki reglulegar, heldur geta komið fyrir í einstökum orðum; slíkar hljóðbreytingar kallast SJÁLFSPROTTNAR (e. sporadic). Það eru einkum hljóðbreytingarnar frálíking og hljóðavíxl sem haga sér þannig.

2.4 Hljóðrétt þróun

Þróun einhverrar tiltekinnar orðmyndar er sögð vera HLJÓÐRÉTT ef myndin hefur eingöngu orðið fyrir hljóðbreytingum en áhrifsbreytingar hafa ekki komið við sögu.

Dæmi: Nafnháttur sagnarinnar hnýta hefur þróast hljóðrétt frá forníslenskum tíma til nútímamáls, því að breytingarnar frá fornmálsmyndinni knýta til hnýta í nútímamáli eru eingöngu hljóðbreytingar, þ.e. annars vegar breyting ‘kn’ í ‘hn’ í upphafi orðs og hins vegar breyting á framburði ‘ý’. Orðmyndin hnýta er því kölluð HLJÓÐRÉTT MYND.

2.5 Tegundir hljóðbreytinga

Tegundir hljóðbreytinga eru margar því að málhljóð eru ólíkum eiginleikum gædd og geta breyst á margvíslegan hátt. Ef menn kunna skil á hljóðfræðilegum eiginleikum, mismunandi myndunarstöðum og myndunarháttum, skýra heiti sumra hljóðbreytinga sig nánast sjálf. Það kallast t.d. RÖDDUN þegar óraddað hljóð verður raddað, en aftur á móti AFRÖDDUN ef raddað hljóð verður óraddað. Það heitir KRINGING þegar ókringt sérhljóð verður kringt, en hins vegar AFKRINGING þegar kringt sérhljóð verður ókringt. Sú hljóðbreyting heitir ÖNGHLJÓÐUN þegar lokhljóð breytist í önghljóð, og á hinn bóginn LOKHLJÓÐUN þegar önghljóð verður að lokhljóði. Þannig mætti lengi áfram telja.

2.6 Brottfall

Hljóðbreytingin BROTTFALL á við það þegar málhljóð, annaðhvort sérhljóð eða samhljóð, fellur brott úr orði í tilteknu hljóðumhverfi. Hljóð geta fallið brott úr rót orðs, viðskeyti eða beygingarendingu og brottfall hljóðs getur orðið í framstöðu, innstöðu eða bakstöðu.

físl. gnógr > nísl. nógur (Brottfall samhljóðs í framstöðu)
físl. kembdi > [cʰɛmtɪ] (Brottfall samhljóðs í innstöðu)

2.7 Innskot

Það er nefnt INNSKOT þegar málhljóði, sérhljóði eða samhljóði, er skotið inn í orð í tilteknu hljóðumhverfi.

físl. hestr > nísl. hestur (u-innskot á undan ‘r’ í bakstöðu)

2.8 Samlögun

Sú hljóðbreyting heitir SAMLÖGUN þegar eitt málhljóð samlagast öðru hljóði, oftast grannhljóði sínu, og verður líkara því (svonefnd ÓFULLKOMIN SAMLÖGUN) eða breytist beinlínis í sama hljóð (FULLKOMIN SAMLÖGUN). Ef hljóðið sem veldur samlöguninni stendur aftar í orðinu en hljóðið sem breytist, kallast samlögunin AFTURVIRK, en FRAMVIRK ef það stendur framar í orðinu.

‘hrað+t’ > hratt
(FULLKOMIN SAMLÖGUN, AFTURVIRK)

‘kom+du’ > kondu
(ÓFULLKOMIN SAMLÖGUN, AFTURVIRK)

‘gæt+ði’ > gætti
(FULLKOMIN SAMLÖGUN, FRAMVIRK)

2.9 Frálíking

Það er nefnt FRÁLÍKING þegar tiltekið málhljóð í orði verður ólíkara öðru hljóði, annað hvort grannhljóði sínu eða hljóði sem stendur fjær. Frálíking og samlögun eru því andstæður. Frálíking er ekki alltaf regluleg breyting, heldur getur komið fyrir í einstökum orðum, þ.e. verið sjálfsprottin. Frálíking er sérstaklega algeng þegar hljóðin ‘r’ og ‘l’ eru annars vegar.

2.10 Hljóðavíxl

Sú hljóðbreyting kallast HLJÓÐAVÍXL þegar málhljóð í orði skipta um sæti. Þessi breyting á það sameiginlegt með frálíkingu að vera oftar sjálfsprottin en regluleg og koma sérstaklega oft fyrir hljóðin ‘r’ og ‘l’.

Sem dæmi má nefna að lýsingarorðin argur og ragur eru talin vera tvær útgáfur af sama orði. Orðmyndin argur er talin upprunalegri, en í ragur hafa a-hljóðið og r-hljóðið þá skipt um sæti.

2.11 Hljóðvarp

Sú hljóðbreyting heitir HLJÓÐVARP þegar tiltekið sérhljóð í orði breytist fyrir áhrif frá öðru hljóði (oftast sérhljóði) í næsta atkvæði á eftir. Hljóðið sem veldur hljóðvarpinu er kallað HLJÓÐVARPSVALDUR og við hljóðvarpið verður hljóðið sem breytist líkara honum. Hver tegund hljóðvarps er kennd við hljóðvarpsvaldinn, þannig að ‘u’ veldur ‘u-hljóðvarpi’, ‘i’ veldur ‘i-hljóðvarpi’ o.s.frv.

et. tala : ft. tölur (‘a’ > ‘ǫ’ (síðar ‘ö’) við u-hljóðvarp)
no. hús : no. hýsi (frnorr. ‘u’ > físl. ‘ý’ við i-hljóðvarp)

Hljóðvarpsvaldur getur fallið brott eftir að hafa valdið hljóðvarpinu en hljóðvarpið haldist áfram.

et. barn : ft. börn (‘a’ > ‘ǫ’ (síðar ‘ö’) við u-hljóðvarp)
Fleirtölumyndin var *barnu þegar hljóðvarpið varð.

3. Áhrifsbreytingar

ÁHRIFSBREYTING (e. analogical change) er oftast í því fólgin að orðmynd breytist vegna áhrifa frá annarri orðmynd (eða öðrum orðmyndum) sem hún á eitthvað sameiginlegt með; það geta verið beygingarleg, setningafræðileg eða merkingarleg líkindi. Áhrifsbreyting er því ólík hljóðbreytingu að því leyti að hún verður ekki af hljóðfræðilegum orsökum, er ekki hrein framburðarbreyting, heldur eiga annars konar atriði hlut að máli. M.a. er algengt að beygingar orða verði fyrir áhrifsbreytingu á þann hátt að skipt er um beygingarendingu til samræmis við önnur orð sem eru notuð á svipaðan hátt í setningum, hafa líka merkingu eða eru af einhverjum ástæðum oft nefnd í sömu andrá.

Margar tegundir áhrifsbreytinga eru til og þær eru misjafnlega víðtækar, geta náð til heils beygingarflokks, lítils hóps orða eða aðeins eins orðs. Sumar gerðir áhrifsbreytinga eru nokkuð reglulegar (hlutfallsbundin áhrifsbreyting og útjöfnun) en aðrar óreglulegri.

3.1 Hlutfallsbundin áhrifsbreyting

Við HLUTFALLSBUNDNA ÁHRIFSBREYTINGU (e. proportional analogy) lagar beyging orðs (eða fleiri orða) sig að öðru beygingarmynstri og oft er auðvelt að koma auga á áhrifavaldinn. Slíkum breytingum er lýst með hlutfallsjöfnum til að sýna í fljótu bragði hvaðan áhrifin hafa komið.

Í hlutfallsjöfnunni á myndinni

Úr því að sögn með nafnháttinn fjúka hefur þátíðina fauk, býr sögn með nafnháttinn fljúga sér til nýja þátíð af sama tagi, þ.e. X, og nýja þátíðin X verður flaug.

er því lýst hvernig þátíð sagnarinnar fljúga, sem var fló í fornu máli, breyttist í flaug fyrir áhrif frá beygingu sagnarinnar fjúka (þt. fauk) og annarra sagna með sömu beygingu.

3.2 Útjöfnun

ÚTJÖFNUN (e. leveling) er sú tegund áhrifsbreytinga kölluð sem miðar að því að gera beygingu orðs einfaldari og reglulegri með því að útrýma einhverri óreglu.

Sem dæmi um útjöfnun má nefna breytingu þágufallsmyndar nafnorðsins högg, sem var höggvi í fornu máli en varð síðar höggi.

Dæmi um útjöfnun í beygingu af orðinu högg, þgf. et. höggvi breytist í höggi vegna áhrifa frá hinum föllunum.

Engin önnur beygingarmynd þessa orðs hafði ‘v’ og þess vegna hvarf það úr þágufallsmyndinni. Önnur útjöfnun varð í beygingu nafnorðsins stöð sem hafði þessa fleirtölubeygingu í fornu máli.

Dæmi um útjöfnun í beygingu af orðinu stöð, þgf. flt. stöðum breytist í stöðvum fyrir áhrif frá hinum föllunum.

Hér var ‘v’ skotið inn í þágufallið af því að það var í öðrum myndum fleirtölunnar; þá er sagt að ‘v’ hafi verið alhæft (generalized) í fleirtölunni.

Heimildaskrá

Grunnrit:

Guðrún Þórhallsdóttir. 1996. Um forsögu íslenzkrar tungu. Erindi um íslenskt mál. Íslenska málfræðifélagið, Reykjavík.

Hreinn Benediktsson. 1964. Upptök íslenzks máls. Þættir um íslenzkt mál eftir nokkra íslenzka málfræðinga. Ritstj. Halldór Halldórsson. Bls. 9–28. Almenna bókafélagið, Reykjavík.

Ítarefni:

Hock, Hans Henrich. 1986. Principles of Historical Linguistics. Mouton de Gruyter, Berlin/New York/Amsterdam.

Sérfræðileg rit og greinar:

Krahe, Hans og Wolfgang Meid. 1969. Germanische Sprachwissenschaft I. Einleitung und Lautlehre. Walter de Gruyter & Co, Berlin.