Hér verður ekki rakin eiginleg saga íslenskra þýðinga, hvorki bókmenntalegra né annarra, aðeins minnt á mikilvægi þeirra á öllum öldum. Þar er enn mjög margt órannsakað, þáttur þýðenda og verka þeirra í endurnýjun og viðhaldi tungunnar og einnig sú hlið sem snýr að íslenskri bókmenntasögu. Um þýðingarfræði hefur talsvert verið skrifað á íslensku á síðari hluta tuttugustu aldar og er vísað á nokkuð af því í ritaskrá.
Þýðingar hafa fylgt mannkyninu frá ómunatíð og í víðasta skilningi að sjálfsögðu frá því fyrst hittust manneskjur sem töluðu ólíkar tungur en reyndu að skilja hvor aðra! Oft er vitnað í frásögn Biblíunnar um Babelsturninn til að sýna nauðsyn þýðinga og þekktar eru bókmenntaþýðingar frá því fyrir Krists burð, til dæmis er elsta latneska þýðingin á Ódysseifskviðu frá því á þriðju öld f.Kr.
Elsta prentaða bókin sem varðveist hefur á íslensku er þýðing Odds Gottskálkssonar á Nýja testamentinu, prentuð í Hróarskeldu árið 1540. Hefur sú þýðing gefið tóninn í flestar yngri þýðingar Nýja testamentisins og enn lifir talsvert úr henni í síðustu þýðingum.
Lofsöng Páls postula um kærleikann (Fyrra Korintubréf, 13. kapítuli) þýddi Oddur svona.
Meðal allra elstu handrita sem varðveita íslenska texta eru bækur eða bókabrot með þýddum helgisögnum eða predikunum og nægir þar að nefna Íslensku hómilíubókina. Getur verið fróðlegt að bera saman það orðalag sem þá var haft á grundvallaratriðum trúarinnar við síðari tíma stíl, til að mynda á Faðirvorinu.
Faðirvor í þrem þýðingum.
Mynd sem sýnir mikilvægi þýðinga á síðustu áratugum 20. aldar.
Þýðingar af öllu tagi hafa frá upphafi vega verið virkur þáttur í íslenskum bókmenntum. Þær hafa kynnt nýja strauma, nýjar hugsanir og hugmyndir í miklu ríkari mæli en frumsamdir íslenskir textar hafa gert. Þannig hafa þær skipað mikilvægan en að miklu leyti órannsakaðan sess í íslenskri bókmenntasögu.
Í nýyrðasmíð hafa þýðendur átt mjög mikinn hlut, enda augljóst að oft er fyrst fjallað um ný fyrirbæri í þýddum fréttaskeytum eða greinum. Má gera því skóna að daglega birtist í íslenskum dagblöðum ný orð til skýringar einhverju sem þar er verið að kynna í fyrsta skipti. Þýddir textar af ýmsu tagi eru þannig viðbót við frumsamdar íslenskar bókmenntir á flestum eða öllum sviðum menningarinnar, sama hvort litið er á leiðbeiningar með nýjum tækjum, kynningar á nýjum hugmyndum og rannsóknum, hræringar í fagurbókmenntum, frásagnir af smátíðindum og stórviðburðum samtíðarinnar eða skemmti- og afþreyingarefni í sjónvarpi og kvikmyndahúsum. Allt er þetta til marks um mikilvægi vandaðra þýðinga í fámennu menningarsamfélagi.
Það er ekki fyrr en á síðari hluta 20. aldar sem að marki er farið að fjalla um þýðingar sem fræðilegt eða vísindalegt viðfangsefni á Íslandi. Lengi hafa mönnum þó verið kunnar vangaveltur fyrri tíðar manna sem reyndu að skilgreina viðfangsefni þýðenda og gefa fyrirmæli eða leiðbeiningar um vinnubrögð. Þar takast snemma á tvennar öfgar, aðrar segja að þýða skuli ORÐRÉTT, hinar leggja áherslu á EFNISRÉTTA þýðingu. Til einföldunar má orða það svo að það sé einkanlega þegar í hlut eiga bókstafstrúarmenn sem lögð hefur verið áhersla á hina orðréttu þýðingu, og þá vitaskuld ekki síst þegar ‘guðsorð’ á í hlut. Er þar fróðleg goðsögnin um sjötíumannaþýðinguna sem sýnir að sjálfsögðu einkum fyrirvaralausa trú manna á hinn eina rétta texta Biblíunnar.
Á ofanverðri tuttugustu öld hefur mjög margt verið skrifað um þýðingarfræði og stefnur, ekki síst byggt á viðamiklum rannsóknum og fræðastarfi kringum biblíuþýðingar á tungumál sem átt hafa sáralitla rithefð.
Hér verður drepið á nokkur atriði úr hinni fræðilegu umræðu þótt allt sé það til einföldunar á flóknum málum.
Á hverju ári kemur út á íslensku fjöldi bóka, bæklinga og blaðagreina með þeim upplýsingum að rit þetta hafi verið „þýtt“ af þessum og hinum eða að „þýðandi“ sé Pétur eða Páll. Mætti því ætla að full eining sé um skilning hugtaksins ÞÝÐING, það merki eitthvað eitt og aðeins það. Nú er öllum íslenskum málnotendum samt ljóst að svo er ekki. Í daglegu tali getur þýðing til dæmis merkt ‘gildi’ („Hefur þetta nokkra þýðingu?“) og er þá greinilega komið talsvert langt frá bókarþýðingunni. Viðtekinn skilningur á slíkum þýðingum mun hins vegar vera nokkuð ljós:
Því fer hins vegar fjarri að þýðingarfræðingar láti sér nægja svona einfalda skilgreiningu. Til dæmis hefur þríþætt skilgreining málvísindamannsins Romans Jakobsons verið íslenskuð svona:
Orðið þýðing mun rótskylt nafnorðinu þjóð og hefur þá væntanlega merkt fyrir öndverðu að gera almenningi (þjóðinni) eitthvað skiljanlegt. Þannig mun mega skilja orðið í Fyrstu málfræðiritgerðinni þar sem „þýðingar helgar“ eru taldar meðal þess sem fyrst hafi verið skrifað á íslensku. Þar munu einmitt hafa verið á ferðinni útskýringar fremur en þýðingar í okkar skilningi, en þá einmitt textar sem gerðu alþýðu skiljanleg hin helgu fræði.
Þótt það sé í eðli sínu merkilegt viðfangefni að kanna hvernig frásögn eða einhver annar texti er fluttur til innan málsamfélags, ‘þýddur’ á nýja framsetningu, verður það ekki gert að sérstöku umræðuefni hér. Í því sem hér segir um þýðingar er einungis horft á þann þáttinn sem felur í sér að flytja merkingu milli tungumála, og ber þá að taka fram að MERKING er haft í víðum skilningi og felur bæði í sér HVAÐ og HVERNIG samkvæmt orðalagi Helga Hálfdanarsonar.
Þýðing er eins konar sía sem erlendur frumtexti fer í gegnum. Ef aðeins er horft á tungumálin tvö, það sem þýtt er úr (frummál) og hitt sem þýtt er á (viðtökumál), má t.d. skoða eftirtaldar einingar sem þýðandi þarf að fást við (sbr. Heimi Pálsson og Höskuld Þráinsson 1988:12):
Vitanlega þarf sjaldan að glíma við ‘þýðingar’ einstakra málhljóða og naumast verður það sérverkefni nema við talsetningu leikinna kvikmynda eða þegar þýða skal söngtexta og ljóð. Þá getur blær sérhljóða og samhljóða orðið mikilvægur:
Þótt dæmi af þessu tagi séu fágæt eru ljóðaþýðingar þó oft gagnrýndar fyrir það að þýðandinn hafi glatað hljómi orðanna. Samt er ekki til í almennri málnotkun orðalag eins og að þýða hljóð fyrir hljóð. Hins vegar er þeim mun tíðara að talað sé um að þýða orð fyrir orð og er þá átt við að hvert orð þýðingarinnar samsvari orði í frumtexta. Í almennri málnotkun er þetta svo algengt að oft er aðeins talað um tvær gerðir þýðinga: orðrétta þýðingu og efnisrétta þýðingu.
Á sumum sviðum er réttur viðtökumálsins eða heimamálsins þó augljóslega sterkari en frummálsins. Eðlilegt er t.d. að þýða setningu á borð við e. her hair is very long eða d. hendes hår er meget langt með hún er með mjög sítt hár, en ekki hún er með mjög langt hár, þegar átt er við hársídd. Hið sama á við um dönsku orðin høj snedrive sem flestum þætti væntanlega eðlilegra að þýða djúpur skafl en hár skafl, þegar um er að ræða venjulega snjóskafla.
Föst orðasambönd og orðastæður eru næstu einingar málsins á eftir stökum orðum. Þar verður oftar en ekki að leita staðgengla í þýðingu því ekki eru notaðar sömu líkingar og myndhverfingar í öllum málum. Augljós er vandinn ef litið er á einfalt dæmi.
Þegar stórrigning gengur yfir er eðlilegt á ensku að taka svo til orða að það sé raining cats and dogs. Íslenskur þýðandi léti sér varla detta í hug að tala um að rigni köttum og hundum. Hann yrði að grípa til einhvers staðgengils þessarar myndar, hvort sem það yrði nú að það rigndi eins og hellt væri úr fötu eða eitthvað annað.
Flestir þýðendur óbundins máls telja rétt að láta setningagerð og málsgreinar frumtextans halda sér eftir því sem nokkur kostur er. Að vísu getur orðið erfitt að byggja jafnlangar málsgreinar á íslensku og þýsku en oft sýnist það vera svo mikilvægt einkenni stílsins að eðlilegt sé að teygja íslensku þýðinguna eins langt og auðið er. Hér skiptir þó miklu hvort verið er að ræða bókmenntaþýðingar eða þýðingar nytjatexta. Skynsamleg leiðsöguregla gæti hljóðað á þessa leið: Sé setningagerð mikilvægt einkenni frumtextans á hún líka að verða einkenni þýðingarinnar. Gildir þá einu hvort um er að ræða langar málsgreinar eða stuttar. Hinn þýddi texti verður til dæmis að bera með sér hvort um er að ræða aðalsetningastíl Hemingways eða lotulangan stíl Thomasar Manns.
Að jafnaði leggja þýðendur mikla áherslu á trúnað við blæ og svipmót verka og virðast einatt hugsa sér að unnt sé að skila einhvers konar heildarmynd sem kunni að orka svipað á lesendur viðtökumálsins og frumtextinn orkaði á hina upphaflegu lesendur. Þeir hafa þá leitað sér stílfræðilegra staðgengla ekkert síður en merkingarfræðilegra, bætt það upp með nýjum stílbrögðum þegar ekki tókst að fylgja frumtextanum í smáatriðum.
Þegar rætt er um vandaðar þýðingar er þeim oft talið það helst til gildis að þær séu „trúar frumtextanum“. Í alþýðlegri málnotkun er nokkuð ljóst hvað þar er átt við, en þegar grannt er skoðað verður ýmislegt uppi.
Í ritgerðum og bókum um biblíuþýðingar hefur málvísindamaðurinn Eugene A. Nida lagt áherslu á hin nánu tengsl frumtextans við menningarheim sinn. Með því er vísað til þess að hver texti byggist gjarna á aðstæðum sem aðeins eru kunnar í viðkomandi menningu. Íslendingum er tamt að líkja einhverju hvítu við snjó. Þeim sem engan snjóinn þekkir er sú líking óskiljanleg. Venjulegur íslenskur málnotandi getur talað um Gróu á Leiti eða Þránd í Götu og vitað hvað við er átt, jafnvel án þess að hafa nokkru sinni lesið MANN OG KONU eða FÆREYINGA SÖGU. Á þeim grundvelli hefur Nida síðan mótað kenningu um það hvernig skuli þýða BIBLÍUNA og lýst með skýringarteikningu.
Teikning Nida hefur hér verið íslenskuð. B merkir boð eða texti og er B1 þá frumtextinn en B2 og B3 þýðingar. Nida gerir ráð fyrir að allt saman, sendandinn (S), viðtakandinn (V) og boðin fái hverju sinni form sitt (eða skilning) frá menningarumhverfi sínu (M).
Það sem þarna er lýst kemst einna næst því að vera staðfærsla. Því fer samt fjarri að hún hafi orðið ríkjandi í íslenskum biblíuþýðingum. Til marks um það er dæmisagan um úlfaldann og nálaraugað og fleiri sögur sem fengnar eru úr allt öðru umhverfi en við eigum að venjast. Kemur hvort tveggja til að engir eru úlfaldarnir á Íslandi og að nálaraugað sem um ræðir í sögunni var ekkert nálarauga heldur eitt af borgarhliðum Jerúsalem og kallaðist Nálaraugað af því að það var þröngt! Meðal kunnustu dæma Nida um staðfærslu er hins vegar þegar guðslambið í frumtextanum breytist í guðskópinn í grænlensku þýðingunni, enda allar dæmisögur um lömb og góða hirða heldur torskildar í því menningarumhverfi.
Það sem oftast gerist í þýðingu mætti sýna á skýringarteikningu með því að breyta mynd Nida ofurlítið.
Hér eru sett upp þrjú afbrigði þýðinga. Í fyrsta dæminu (I) er gert ráð fyrir fullkominni staðfærslu, hinn nýi texti (B2) hefur tekið á sig form umhverfisins (M2). Dæmi II sýnir þá hið gagnstæða og gerir því skóna að textinn geti áfram haft allt snið sitt frá fyrra umhverfi. Líklega yrði slík þýðing flestum lesendum heldur torskilin. Dæmi III sýnir það sem oftast virðist gerast: Þýðingin tekur mið af hvorri tveggja menningu frumtextans og menningu viðtökumálsins.
Um verkefni og vanda þýðenda, einkum bókmenntaþýðenda, er oft vitnað til franska húmanistans Etiennes Dolets og jafnvel staðhæft að hann hafi fyrstur fjallað af skynsamlegu viti um þetta efni í ritgerð sem hann birti árið 1540. Meginatriðin í lýsingu hans á viðfangsefninu og verklagi góðra þýðenda mætti orða svona á íslensku (sbr. Heimi Pálsson og Höskuld Þráinsson 1988:96–97 og Ástráð Eysteinsson 1996:57):
Um þessa skilmála Dolets verður að nokkru fjallað hér á eftir.
Þegar rætt er um skilning á frumtexta er átt við skilning allra þeirra þátta sem mynda heildarmerkingu textans. Dugir þá skammt að skilja hvert orð fyrir sig heldur verður að gera sér grein fyrir málsniði, samhengi og vísunum textans. Algengustu þýðingarvillurnar stafa einatt af því að þýðandi hefur ekki gert sér grein fyrir öllum merkingum orðs eða blæbrigðum í merkingu þess og valið þýðingu áður en fullur skilningur lá fyrir. Í sænskum texta við íslenska kvikmynd var þýdd línan úr vögguvísu Jóhanns Sigurjónssonar mamma geymir gullin þín. Þýðandi hafði ekki varað sig á margræðni orðsins gull og þýddi: mamma förvarar ditt guld, ‘mamma geymir GULLIÐ þitt’ – og varð talsvert hjákátlegt fyrir þá sem könnuðust við að það væri útilegukonan Halla sem þarna raulaði við barn sitt í sárustu neyð og fátækt!
Þótt það ætti að liggja í augum uppi að þýðandi verði að skilja þann texta sem hann fæst við eru þess mörg og sorgleg dæmi að þýðandinn hefur talið sig skilja öll orðin án þess að gera sér grein fyrir að þarna var verið að nota kunnuglegt orð í óvenjulegri merkingu eða merkingu sem honum var einmitt ekki kunn. Fróðlegt og meinlaust dæmi má benda á úr nýyrðasmíð á ofanverðri 20. öld. Til landsins barst ávöxtur sem ekki var algengur áður og heitir á ensku passion fruit. Svo er að sjá sem heitin ástríðuávöxtur eða ástaraldin ætli að festast við hann. Vissulega er það algeng merking orðsins passion, en í þessu dæmi mun víst áreiðanlega vera um að ræða ávöxt sem tengdur hefur við við passíuna eða píslarsögu Krists, þá sem Hallgrímur orti um Passíusálma, og hefur lítil tengsl við fýsnir og ástríður!
Í reynd er oftast fullkomlega óraunsætt að gera þá kröfu að þýðandi sé jafnvígur á bæði málin, frummál og heimamál. Fjölmörg dæmi sýna að næmir þýðendur geta komist langt þótt þeir hafi nauman skilning á frummálinu ef þeir hafa tök á og vilja til að afla sér upplýsinga. Hins vegar verður enginn þýðandi góður nema hann valdi vel stíl þess máls sem hann þýðir á.
Grundvallaratriði er að greining frumtextans sé eins vönduð og nokkur kostur er. Það felur þá í sér að þýðandinn hafi aflað sér glöggrar vitneskju um merkingu, stíl og annað það sem máli skiptir og geti síðan valið í þýðingu sinni bæði af rökvísi og smekkvísi það sem best fer á.
Því fer vissulega fjarri að full samsvörun sé milli tungumála þannig að orð svari til orðs eða að myndir og myndhverfingar málanna séu hinar sömu. Oft er gripið til samanburðar á litarorðum í Afríkumálunum shona og bassa annars vegar og íslensku hins vegar eins og sést á mynd.
Þetta dæmi sýnir hvernig þeir sem tala Afríkumálin shona og bassa skipta litastrengnum, samanborið við íslenska málnotendur.
Oftar snýst þessi munur þó um það sem við getum kallað myndir málsins eða einfaldlega aðferðir til þess að skilgreina. Á íslensku er eðlilegt að kalla það fjallsrætur sem Þjóðverjar nefna yfirleitt Fuß des Berges eða fjallsfót. Danir kalla það snestorm sem Íslendingar nefna stórhríð en ekki snjóstorm. Þegar málin eru fjarskyldari getur munurinn orðið öllu meiri. Íslendingar hafa tileinkað sér þá lýsingu á lífseiglu kattarins að hann hafi níu líf og er oft jafnað til þess þegar maður þykir lífseigur. Ef ætti að þýða þetta á spænsku kæmi fram skemmtilegur munur, því í spænsku hefur kötturinn bara átta líf – og að sögn aðeins sjö í Portúgal. Íslenskum þýðanda fer þá jafnan best þegar hann spyr einfaldlega hvernig eðlilegast sé að segja þetta eða hitt á íslensku. Geti sú lausn gengið er hún oftast best. Og varla yrði spænskur þýðandi sakaður um að misskilja töluorðin í íslensku þótt hann léti átta samsvara níu í ævatali kattar!
Hver texti á sér tiltekið menningarumhverfi sem getur orðið samslungið merkingu hans. Áður eru nefndar vísanir í önnur rit en margt fleira kemur til álita. Þegar minnst er á síðustu kvöldmáltíðina sjá Íslendingar vafalítið fyrir sér tólf eða þrettán menn sem sitja við langt borð. Þetta er eðlileg hugmynd, m.a. vegna þess að fjöldi málverka hefur verið gerður sem sýna Krist með postulunum við borðhald sem er ekki sérlega frábrugðið okkar borðhaldi. Hafi nú þessi atburður átt sér stað árið 33 er næstum öruggt að enginn hefur setið við borðið. Þar lágu menn útaf. Vestræn menning hefur hins vegar ekki látið sér nægja að þýða textann, hún hefur líka þýtt umhverfið!
Um bókmenntaþýðingar gilda vitanlega allar almennar ábendingar um vanda og viðfangsefni þýðenda. Í umfjöllun er algengt og eðlilegt að gera nokkurn greinarmun á þýðingu á lausu máli og bundnu og verður það gert hér. Í báðum tilvikum virðist þó meginatriðið vera hið sama: Því aðeins verður þýðing góð að hún byggist á vandaðri greiningu frumtextans og yfirfærslu þeirra þátta sem þar reynast skipta mestu til þess að byggja heildarmynd verksins.
Allt frá upphafi ritaldar á Íslandi hafa þýðingar á bókmenntatextum í lausu máli verið snar þáttur íslenskrar ritmenningar. Fyrst tengjast þær einkum fræðiritum, helgiritum, heilagra manna sögum eða biblíusögum, en síðan bætast við riddarasögur og afþreyingarbókmenntir af ýmsu tagi. Þar má sjá takast á hinar tvær meginstefnur í vinnubrögðum þýðenda: trúnað við ORÐIÐ og trúnað við HEILDARMERKINGUNA (sjá t.d. Heimi Pálsson og Höskuld Þráinsson 1988:66). Engin rannsókn liggur fyrir sem sýnir að þýðendur miðaldatexta hafi litið viðfangsefni sitt öðrum augum en þýðendur á síðari öldum. Það hefur greinilega verið meginstefna í þýðingum, eins og allri algengri málnotkun, að íslenska beri sem nákvæmlegast og algerlegast þannig að ekki séu notaðar erlendar slettur eða önnur þau orð sem brjóta gegn íslenskri málstefnu. Þýðingarnar hallast þess vegna að hreintungustefnu, líka þar sem verið er að kynna nýjar hugmyndir og hugsanir og íslenskur orðaforði er ekki tiltækur fyrirfram.
Oft leiðir þessi stefna til þess að þýðendur nota meira en ella af staðgenglum og staðfærslu í verkum sínum en ella yrði. Þannig virðist þess gætt að hyggja einkanlega að því hvað fari vel á íslensku jafnvel þótt einhverrar ónákvæmni gæti. Þegar kemur að margrómuðum lausamálsþýðendum 20. aldar eins og Halldóri Laxness, Jóni Sigurðssyni frá Kaldaðarnesi eða Ingibjörgu Haraldsdóttur og Guðbergi Bergssyni vekur yfirleitt fyrst athygli hin fullkomna ‘íslenskun’ textans, og svo mun einnig vera stefna þýðenda annarra þjóða. Er jafnvel stundum haft við orð að þá sé þýðing best þegar engin leið sé að sjá að hún er þýðing.
Í þýðingum á ljóðum og öðru bundnu máli hefur stefnan um aldir greinilega verið mjög svipuð og í lausamálsþýðingum: Stefnt er að því að gera hið þýdda eins ‘íslenskt’ og tök eru á. Þetta kemur meðal annars skýrt fram í vali bragarhátta og í aðlögun erlendra bragarhátta að íslensku ljóðmáli. Jafnvel í elstu þýðingum leitast íslensk skáld við að beita fyrir sig kunnuglegum brag. DISTICHA CATONIS, latneskt spakmælakvæði undir hexametri var t.d. þýtt á þrettándu öld, að talið er, og valinn á það sami bragarháttur og fyrir var á Hávamálum, ljóðaháttur. Hann er gerólíkur frumhættinum en þjónar hugsanlega svipuðu hlutverki og hefur vísast verið skynsamlegur staðgengill.
Svipuð orð mætti hafa um eitt af stórvirkjum íslenskra bókmenntaþýðinga, PARADÍSARMISSI, sem Jón Þorláksson á Bægisá þýddi eftir þýskri þýðingu á PARADISE LOST eftir John Milton. Frumkvæðið er á BLANK VERSE, fimmliðuhætti, sem kallaður hefur verið stakhenda eða pentajambi. Þýska þýðingin var á hexametri, en Jón Þorláksson notaði hins vegar fornyrðislag í þýðingu sinni. Hér virðist Jón hafa litið svo á að eðlilegast væri að velja þann bragarhátt sem landar hans höfðu helst notað á frásagnarkvæði sem staðgengil hinnar ensku stakhendu eða hins þýska hexameturs. Örsmátt dæmi getur gefið hugmynd um breytingarnar (sbr. Heimi Pálsson 1976:59–60):
Þegar erlendir bragarhættir, t.d. stakhenda, eru notaðir á íslenskan brag eða ‘þýddir á íslensku’ er föst regla að bæta við í þá ljóðstöfum að íslenskum hætti. Með því móti eru þeir gerðir eins íslenskir og unnt er. Um þá aðferð má að sjálfsögðu deila en hún virðist hafa tíðkast alla okkar sögu – ef frá eru teknir þýddir og frumkveðnir sagnadansar þegar íslenskir ljóðstafir voru látnir lönd og leið, hinir elstu þýddu sálmar sem og margir dægurlagatextar tuttugustu aldar, bæði þýddir og frumortir.
Bragarhættirnir hafa með þessu lagi verið staðfærðir og hugsanlega hefur sú aðferð fremur stuðlað að því að ljóð séu almennt staðfærð í þýðingum. Það virðist hafa verið orðið hefð þegar á dögum Jóns á Bægisá. Sveinbjörn Egilsson, Jónas Hallgrímsson og síðan hver ljóðaþýðandinn af öðrum fylgja þeirri stefnu ljóst og leynt og hún skýtur líka upp kollinum í þýðingum afkastamesta ljóðaþýðandans á ofanverðri 20. öld, – og að margra viti hins snjallasta –, Helga Hálfdanarsonar.
Í íslenskri bókmenntasögu hafa ljóðaþýðingar líklega verið enn virkari en þýðingar lausa málsins. Til dæmis er varla vafi á að þýðingar rómantísku skáldanna Steingríms Thorsteinssonar og Matthíasar Jochumssonar höfðu bein áhrif á íslenska ljóðlist á síðustu árum 19. aldar og fyrstu áratugum hinnar tuttugustu. Það gildir hugsanlega ekki síst um afburðavinsæl söngljóð sem þeir þýddu og urðu almenningseign á Íslandi.
Mikill hluti þeirra þýðinga sem stundaðar hafa verið á tuttugustu öld geta fallið undir það sem kallað hefur verið þýðingar ‘nytjatexta’ af ýmsu tagi, en með því er átt við hvers konar texta aðra en þá sem að jafnaði eru taldir til fagurbókmennta, sagna, ljóða eða leikrita (þótt ekki sé þar með sagt að það sé allt ónytsamlegt). Hér verður aðeins vikið að þremur gerðum nytjatexta, leiðbeiningum, námsefni og lögum og reglugerðum. Þýðingar á kvikmyndum og sjónvarpsefni eru stundum settar undir sama hatt og nytjatextar en standa að mörgu leyti nær fagurbókmenntum; um þær verður fjallað sérstaklega síðar.
Tæknibylting, aukin verslun og innflutningur vara á síðari öldum hafa kallað á miklar þýðingar á notkunarreglum og leiðbeiningum hvers konar. Um þær þýðingar gilda að sjálfsögðu flestar almennar reglur um þýðingar. Þýðandi verður að gera sér nákvæma grein fyrir merkingu þeirra orða sem þýða skal. Hann tekur hins vegar væntanlega minna mark á stíl og stílbrögðum en ef um væri að ræða ljóð eða leikrit. Hann getur samt sem áður lent í alls konar hremmingum.
Þegar þýtt er úr ensku (eins og algengast mun vera) rekast leiðbeiningaþýðendur oft á þann vanda að þar eru notaðar mismunandi mælieiningar. ENSK–ÍSLENSK ORÐABÓK Arnar og Örlygs birtir um það töflur sem taka heila opnu í bókinni – og er önnur síðan aðeins samanburður á metrakerfinu og engilsaxnesku einingunum. Þótt fróðleikurinn sé fenginn er samt ekki alltaf auðvelt að þýða. Til dæmis er ferfet sagt vera 929,03 fersentimetrar. Varla dytti þó þýðanda í hug að segja að some ten square-feet séu 9290,3 fersentimetrar, heldur tæpur fermetri. Vandinn er miklu meiri ef ferfetin eru þrjú, og yfirleitt sýnast þýðendur oft sælast til þess að nota hina erlendu mælieiningu, jafnvel þótt þeir hætti á að íslenskum lesendum verði hún illa skiljanleg. Sjálfsagt er að hvetja þýðendur til staðfærslu, einkum þegar um er að ræða mælieiningar sem fáir kannast við.
Á síðustu árum 20. aldar hefur mjög færst í vöxt að erlent námsefni sé þýtt til notkunar í íslenskum skólum. Þetta er samt talsvert flókið og að vonum hefur reynst þurfa að staðfæra það mjög mikið. Hvert tungumál hefur sína aðferð til þess að nálgast þekkingarheiminn og lýsa honum og þegar til námsefnisins kemur er nauðsynlegt að taka tillit til þess. Þýðendur námsefnisins verða þá umfram allt að hugsa málið upp á nýtt, leggja niður fyrir sér hvað af einkennum og framsetningu frumtextans sé nauðsynlegt, skynsamlegt eða eðlilegt við nýjar aðstæður viðtökumálsins og laga þýðinguna að því.
Ábendingar til þýðenda nytjatexta hafa m.a. verið orðaðar svo (Heimir Pálsson og Höskuldur Þráinsson 1988:95):
Með nánari samvinnu þjóða hafa aukist verulega þýðingar hvers konar reglugerða sem þá fá ‘alþjóðlegt’ gildi. Samhliða þeim þýðingum á íslensku hafa farið fram margvíslegar athuganir og rannsóknir á þýðingaferli, ekki síst þar sem nauðsynlegt er að gæta mikils samræmis. Viðamesta verkefnið var þýðingar reglugerða og laga Evrópusambandsins sem að var unnið á síðasta áratug 20. aldar. Það var óvenju viðamikið verkefni á þessu sviði og hið fyrsta sem unnið var þar sem notaður var gagnagrunnur á tölvutæku formi til þess að tryggja samræmi í hugtakanotkun (sjá t.d. Aldísi Guðmundsdóttur 1995). Augljóst er að það varðar réttaröryggi fólks meiru með hverju árinu hvernig til tekst um slíkar þýðingar þegar samræming laga og reglugerða milli þjóða er forsenda samskiptanna. Sjálfsagt á margt fróðlegt eftir að koma í ljós á næstu árum og ef marka má fréttir fjölmiðla í september 1998 er þegar komið fram dæmi um ‘þýðingarvillu’ sem leitt hefur til málaferla.
Meðal þess sem fyrst er vitað um þýðingar eru sögur af túlkum, fólki sem þýðir munnlega og meira og minna óundirbúið af einni tungu á aðra til þess að gera þeim kleift að skiptast á skoðunum sem ekki skilja hverjir aðra. Til dæmis má nefna að í Babýlon á dögum Hammúrabís (um 2100 f. Kr.) voru töluð mörg tungumál og fóru túlkar þá flokkum saman til að auðvelda viðskipti og almenn samskipti ólíkra hópa. Eru varðveittir orðalistar frá þessum tíma, skráðir með fleygletri. Má bera þá saman við íslenska orðalista sem ætlaðir voru til að auðvelda samskipti við baskneska fiskimenn og kaupmenn (sjá E.A. Nida 1964:11 og Helga Guðmundsson 1979:75–87).
Í nútímasamfélagi má skipta túlkun í þrennt:
Með tölvuvæðingu 20. aldar hafa kviknað vonir um að unnt verði að semja forrit sem komi að verulegu gagni við þýðingar og geti a.m.k. flýtt stórlega fyrir þýðendum. Þegar þetta er ritað (1998) virðist að vísu mjög langt í land með bókmenntaþýðingar. Hins vegar hefur náðst umtalsverður árangur á sviði nytjaþýðinga, einkum á takmörkuðum sviðum. Íslenskur málvísindamaður, Guðrún Magnúsdóttir, hefur t.d. unnið að vélþýðanda sem sérhæfður er í lýsingum á lyfjum og getur þýtt slíka texta á mörg tungumál. (Sjá Guðrúnu Magnúsdóttur 1990). Í því tilviki er enska lögð til grundvallar og öllum textum fyrst snúið á það mál áður en þeir eru þýddir á aðrar tungur. Vandinn sem við blasir er þá vitanlega margræðni orða. Tölvuforritið þarf að verða mjög stórt til þess að geta kannað samhengi og dregið ályktanir af því um merkinguna sem við á það og það sinnið. Orðabók gefur til að mynda einar sex mismunandi merkingar í kvenkynsorðinu skeið og a.m.k. jafnmargar í samhljóða hvorugkynsorði. Lætur að líkum að flókið yrði að mata tölvu á öllum þeim upplýsingum sem þyrfti til þess að ráða við svo fjölrætt orð. – Stefán Briem hefur gert merkilegar tilraunir til þess að nota esperanto sem „millimál“ og kann að vera að slíkar leiðir eigi eftir að skila merkilegum árangri (sjá Stefán Briem 1990).
Íslendingar eru í hópi þeirra þjóða sem þýða allt erlent myndefni í kvikmyndahúsum og sjónvarpi. Á myndbandaleigum fást stundum óþýddar kvikmyndir en langflestar myndir eru þó þýddar. Einstaka sinnum eru beinar útsendingar af heimsviðburðum eða íþróttaefni í sjónvarpi sendar út óþýddar en þá er kynnir oftast látinn draga saman efnið jafnóðum eða öðru hverju.
Myndir með ensku tali eru í miklum meirihluta af því myndefni sem hér er í boði, eins og í öllum hinum vestræna heimi. Um alla Asíu er hins vegar geysimikil kvikmyndaframleiðsla sem afar sjaldan kemur fyrir augu Vesturlandabúa. Efnið er allt á móðurmáli þessara þjóða og eru þær að miklu leyti sjálfum sér nógar um kvikmyndir og sjónvarpsefni.
Hér á landi er efni fyrir yngstu börnin, svo og sumt fræðsluefni, oftast talsett en mestur hluti annars efnis er textað.
Svokölluð textun er algengust við þýðingar myndefnis á íslensku. Þá er þýðingin birt sem texti, oftast neðst á myndfletinum.
Meðal þeirra þjóða sem setja texta við erlent myndefni eru allar Norðurlandaþjóðirnar, Belgar, Hollendingar, Portúgalar og Ísraelsmenn, svo nokkrar þjóðir séu taldar. Þessi aðferð hefur einnig verið notuð allmikið í Austur-Evrópulöndum og í Frakklandi. Sjónvarpsefni er víða textað þar sem íbúar eru tví- eða fleirtyngdir, t.d. í Baskahéruðunum á Norður-Spáni (erlent efni er þar textað á spænsku en jafnframt talsett á basknesku (sbr. Gottlieb 1991:38)), og auk þess eiga áhugamenn um listrænar kvikmyndir oft kost á að sjá erlendar myndir með texta fremur en talsettar. Í ýmsum fámennum málsamfélögum eru sjónvarpsþýðingar hluti opinberrar málstefnu, svo sem á Íslandi, í Katalóníu og í Wales.
Þessi aðferð við þýðingar á myndefni hefur tíðkast nánast frá upphafi talmynda (fyrsta talmyndin var THE JAZZ SINGER, 1927). Einhver elsta þýðingin af þessu tagi er frá 1929 en þá var THE SINGING FOOL (1928) textuð þegar hún var sýnd í Danmörku. Textun í sjónvarpi þekkist allt frá 1938, eitthvert elsta dæmið mun vera þýsk mynd í breska sjónvarpinu það ár (Gottlieb 1991:15).
Erfitt er að gera sér góða grein fyrir umfangi íslenskra textaþýðinga enda hafa þær lítið verið rannsakaðar. Til fróðleiks má geta þess að í Svíþjóð munu undirtextar við erlent myndefni vera helmingur þess sem þýtt er þar í landi (Ivarsson 1992).
Margar þjóðir hafa valið að talsetja erlendar kvikmyndir og sjónvarpsefni.
Talsetning er í grundvallaratriðum tvenns konar: a) talsetning leikinna mynda og teiknimynda, b) talsetning fræðslumynda. Fyrri tegundin er sú sem venjulega er átt við þegar rætt er um talsetningu. Þessar tvær tegundir gera mismunandi kröfur til þýðandans. Í fyrra tilfellinu er um að ræða þýðingu leiktexta og þarf þá jafnframt að samræma munnhreyfingar leikara þegar þeir bera fram orð á sínu máli og framburð orða í málinu sem þýtt er á. Enn fremur þarf að gæta vel að lengd orða og setninga. Í síðara tilfellinu er um að ræða að mestu leyti hefðbundinn ritmálstexta sem lesinn er með mynd. Þá þarf einkum að hafa í huga að texti standist á við myndskeið eða kafla í mynd, jafnframt því að hann sé auðskilinn og skipulega fram settur.
Þeim sem vanir eru talsetningu þykir textun myndefnis gjarnan óþægileg og til trafala. Þeir benda á að textinn steli tíma frá áhorfandanum sem þarf að fylgjast með tvennum skilaboðum í einu, hinum myndrænu og textanum, og flökta sífellt á milli myndar og texta. Enn fremur þykir þeim textinn lýta myndina, enda getur hann skyggt á mikilvægan hluta myndflatarins. Loks gerir textinn þær kröfur til áhorfenda að þeir séu vel læsir, enda staldrar textinn ekki lengi við í hvert sinn, og oftast er ekki hægt að fara til baka og lesa aftur það sem komið er.
Hinir sem venjast textun eru hins vegar lítið hrifnir af því að þekktir leikarar breyti um rödd og tali jafnvel með óeðlilegum lestrartóni. Talsetning krefst þess líka að munnhreyfingar og málhljóð falli sem best saman. Þýðandinn þarf þá helst að prófa hvert orð og bera saman munnhreyfingar í frummáli og málinu sem þýtt er á, og raunar einnig að mæla allnákvæmlega lengd orðsins. Þetta á einkum við þegar leikarar sjást í nærmynd, en skiptir minna máli í teiknimyndum þar sem munnhreyfingar eru oft ónákvæmar. Hvort tveggja veldur þýðandanum oft miklum vanda og getur bæði þvingað hann til að breyta textanum efnislega og fjarlægja hann frá eðlilegu máli. T.d. er oftast ómögulegt að láta varastöðu og hljóð líta sannfærandi út þegar já eða jú eru sett í stað enska orðsins yes í talsetningu. Orðunum já og jú lýkur nefnilega á kringdu hljóði en yes á ókringdu, og staða varanna er því gerólík.
Talað mál í sjónvarpi og kvikmyndum skiptist í grundvallaratriðum í þrennt:
Þessar þrjár megintegundir talaðs máls í myndmiðlum eru talsvert ólíkar. Ritmál í myndmiðlum er að flestu leyti líkt öðru ritmáli. Venjulega á textinn þó að styðja myndmálið og þarf því að lúta kröfum þess, t.d. um lengd setninga, og gæti sjaldnast staðið sjálfstæður – án myndmálsins kæmu t.d. skallar í frásögnina. Stöku sinnum snýst þetta við og úr verður eins konar ‘myndskreyttur texti’, t.a.m. þegar landslagsmyndir eða ljósmyndir eru sýndar með lesnum ljóðum eða bókartexta.
Talmálið í myndmiðlum er að miklu leyti óundirbúið, sem hefur í för með sér að setningar geta verið ómarkvissar og sundurslitnar, orð og setningar eru endurteknar og ýmiss konar hikorð eða málhækjur eru algengar.
Leiktexti er saminn sérstaklega og er því ekki raunverulegt talmál þótt hann hljómi oft líkt því. Hann er samþjappaðri og markvissari en talmál og minna er um endurtekningar, hik, hikorð, ranga setningargerð, málvillur o.s.frv., sem einkenna eðlilegt talmál.
Æskilegt er að ritmál, einkum ljóð, komist óstytt til skila í þýðingu og fari sem næst frumtextanum. Talmálið þarf oftast að stytta og laga til. Leiktextinn er nokkuð annars eðlis; í leiknum myndum skiptir myndmálið jafnmiklu eða meira máli en textinn og því þarf þýðandi að gæta þess að þýðing hans skyggi ekki á myndmálið, sé hvorki of mikil né orðalag of flókið eða ritmálskennt. Í heimildarmyndum og fréttaþáttum blandast ritmál, talmál og leiktexti oft saman.
Í þýðingum fyrir myndmiðla er ein helsta krafan sú að textinn skuli vera stuttur, að hugsunin komist til skila í stuttu og einföldu máli. Því má segja að textun og bókmenntaþýðing séu ekki fyllilega sambærileg fyrirbæri; besta þýðingin, miðað við hefðbundnar kröfur til vandaðra bókmenntaþýðinga, getur vel verið ónothæf sem skjátexti.
Sjálft birtingarformið sníður skjátextanum þröngan stakk og birtingarform frumtextans og þýðingarinnar er gjörólíkt: Hinn talaði frumtexti getur verið hraður, hægur, skýr, óskýr, mikill, lítill o.s.frv., en á sjónvarpsskjá eða tjaldi er aðeins rúm fyrir u.þ.b. 30 stafi í línu og tvær línur, þ.e. 8–12 orð hverju sinni.
Áhorfandinn þarf að geta lesið textann og jafnframt horft á myndina. Flestir geta lesið tveggja lína texta á 4 sekúndum og sumir þurfa enn minni tíma. Flestir áhorfendur horfa hins vegar til skiptis á texta og mynd og það tekur um 0,35 sekúndur hverju sinni að skipta á milli (Ivarsson 1992). Þar sem myndin flytur jafnframt ýmsar aðrar upplýsingar, sem hugurinn þarf einnig að vinna úr, má gera ráð fyrir að margir þurfi allt að 6 sekúndum til að lesa tveggja línu texta. Efnismikið tal hraðmæltra manna er því oft ógerningur að þýða frá orði til orðs. Þýðandinn þarf því að draga saman, stytta, leita að þeim lykilorðum sem mestu máli skipta fyrir merkinguna og leitast við að koma henni á framfæri á skýru og einföldu máli.
Eitt af því sem þýðendur þurfa að varast er að slíta sundur setningu eða orðasamband á óheppilegum stað þannig að hluti merkingarheildar birtist ekki fyrr en í næsta texta:
Enn fremur ætti þýðandinn að forðast að eyðileggja leikrænar þagnir með því að birta t.d. ögrandi spurningu og afdrifaríkt svar í sama texta; þar væri rétt að bíða eftir svarinu og birta þá fyrst hina íslensku þýðingu.
Grundvallarkrafa til skjátexta er að hann sé eins fljótlesinn og auðið er. Textinn þarf því að vera á einföldu og auðskiljanlegu máli því að áhorfandinn þarf að vinna úr tvennum skilaboðum í einu, hinum myndrænu og textanum. Af þessu leiðir að orðaröð og setningargerð skjáþýðinga þarf að vera einföld og helst bein, og textinn hnitmiðaður og helst ekki of orðmargur. Stutt orð eru heppilegri en löng orð. Varasamt er að nota fágæt orð, hvort sem það eru mállýskuorð, fagorð, nýyrði eða slangur. Óráðlegt er að nota skjátexta til að kenna áhorfendum ný orð. Slíkt seinkar skilningi og getur truflað áhorfandann (því má ekki gleyma að textinn er einungis hafður með af illri nauðsyn).
Þýðandinn þarf að spyrja sig að því hversu langt skuli ganga í að nálgast anda textans og umhverfi, tíma, stétt o.s.frv., t.d. hvort nota skuli hátíðleg eða sjaldgæf orð til að endurspegla tiltekna þjóðfélagsstétt eða tímabil. Einnig þarf þýðandinn að taka afstöðu til þess hvort texti hans eigi að vera algerlega hlutlaus endurgerð á því sem myndin hefur fram að færa, eða hvort hann megi leyfa sér að sneiða hjá slangri, götumáli, dónaskap og ruddalegu málfari. Um þetta eru skiptar skoðanir. Færa má rök að því að ef leikstjóri ætlast til að texti myndar gangi fram af áhorfendum, misbjóði þeim, jafnvel skelfi þá, þá eigi að leitast við að ná þeim áhrifum einnig í skjáþýðingu. Samkvæmt því væri vafasamt að milda, breyta, lagfæra, umorða eða sleppa orðum eða setningum sem gætu verið dónaleg, siðlaus eða á annan hátt ógeðfelld. En hér er erfitt við að eiga því að mörgum misbýður líklega meira að lesa ógeðfelld orð á móðurmálinu en heyra þau sögð á erlendu máli.
Oftast er frumtextinn að mestu leyti á samtalsformi (nema í fræðslumyndum). Það er því réttmæt krafa að þýðingin sé sem næst eðlilegu talmáli, hvorki hátíðleg, tilgerðarleg né óeðlileg að öðru leyti. Myndir sem gerast eiga á fyrri tímum eru stundum á gömlu máli eða hafa a.m.k. að geyma tiltekin máleinkenni sem eru fornleg í frummálinu og eiga að gefa textanum sérstakan svip. Fyrir kemur að reynt er að ná fram sömu áhrifum í þýðingum, t.d. með því að nota þérun, orðmyndir eins og vér og oss o.s.frv. Slíkt missir þó marks nema þýðendur séu vel að sér í orðfæri fyrri alda. Að auki gerir fyrning textann oftast seinlesinn. Þá er hætta á að textinn taki að skyggja um of á myndina og jafnvel að mestur tíminn fari í að lesa þýðinguna.
Kvikmynd er í eðli sínu samspil myndar og tals. Textinn er aðskotahlutur sem leikstjórar mynda gera yfirleitt ekki ráð fyrir að muni koma neðst á skjá eða tjald og þess vegna þarf að huga vel að því að þetta samspil skaðist sem minnst. Textinn á aðeins að vera til stuðnings þeim sem hafa annað móðurmál en notað er í myndinni og helst á hann að vera svo lítið áberandi að áhorfandinn taki naumast eftir honum. Markmið vanra sjónvarps- og kvikmyndaþýðenda er að textinn sé því sem næst ‘ósýnilegur’. Með því að hafa hann á fremur knöppu og áreynslulausu nútímamáli er reynt að nálgast það markmið.
Séreinkenni textaðra kvikmynda og sjónvarpsefnis er að áhorfandinn tekur við tvöföldum texta, frumtextanum sem töluðu máli og þýðingunni sem skjátexta. Mikill hluti erlends myndefnis í íslensku sjónvarpi og kvikmyndahúsum er með ensku tali. Margir skilja ensku allvel og sumir mjög vel. Það veldur þýðendum nokkrum vanda sem þeir verða síður varir við þegar um önnur tungumál er að ræða. Sumir áhorfendur hlusta eingöngu á frumtextann, sumir styðjast aðeins við þýdda textann en flestir gera líklega hvort tveggja, að lesa og hlusta. Þeir heyra frumtextann og ef þeir skilja hann ætlast þeir gjarnan til að það sem þeir lesa sé bein þýðing, helst með sömu orðaröð og frumtextinn, og birtist á skjánum um leið og samsvarandi orð eða setningarhlutar í frumtextanum.
En orðaröð er ekki eins í öllum tungumálum og má taka dæmi um það úr íslensku og ensku:
Af eðlilegum ástæðum er nafn skipsins og persónufornafnið it/það á ólíkum stöðum í ensku og íslensku setningunum. Í íslensku vísar persónufornafn til baka í nafn eða annað persónufornafn og sé því snúið við og sagt í þessu tilfelli: Þegar það kom loks til eyjanna ... var H.M.S. Brittany mikið skemmt er eðlilegast samkvæmt íslenskum reglum að gera ráð fyrir því að það og H.M.S. Brittany séu ekki eitt og hið sama. Þessu er ekki svona farið í ensku. Þegar þýðing á þessari málsgrein er birt í kvikmynd, með ensku tali undir, finnst sumum áhorfendum sem þarna sé farið rangt með.
Hér væri það einkum misræmið milli hins talaða orðs og textans sem einhverjir ættu kannski erfitt með að sætta sig við. En við þessu er ekkert að gera og fráleitt er að reyna að móta íslenskar setningar eftir erlendum setningarreglum, þótt slíkt sjáist stöku sinnum í slökum þýðingum.
Ef það kemur ekki niður á þýðingunni hafa þýðendur þó gjarnan hugsanlega málakunnáttu áhorfenda í huga, og koma til móts við þá með því að fara eins nálægt orðaröð frumtextans og hægt er og nota sambærileg – jafnvel skyld – orð. Þegar setning eins og t.d. We went home after the ball er þýdd er eðlilegast að hafa sömu orðaröð í íslensku þýðingunni, t.d. Við fórum heim eftir ballið fremur en Eftir ballið fórum við heim eða Að dansleiknum loknum héldum við heim.
Stundum leiðir eðlilegasta þýðingin af sér togstreitu milli þýðingar og frumtexta. Dæmi um það má sjá þegar litið er á svör við spurningunni Do you mind ...? á ensku og algengri samsvörun hennar á íslensku, Má ég ...?
Styst, þjálust og eðlilegust væri þessi þýðing:
Hér er svarið nei í frummálinu en já í íslensku, sem vissulega getur truflað áhorfanda sem bæði les textann og heyrir hvað sagt er á frummálinu. Orðrétt þýðing (miðað við merkingu ensku sagnarinnar mind) væri e.t.v. á þessa leið:
eða
Í stað 3ja atkvæða (11 stafbila) í Do you mind eru komin 7–9 atkvæði í þýðingunni (19–25 stafbil). Áhorfandinn verður lengur að lesa textann en ella, og þýðandinn missir e.t.v. af dýrmætu plássi fyrir viðbótartexta.
Greina má á milli tveggja megintegunda skjátextunar (sjá Gottlieb 1992):
Frá tæknilegu hliðinni má greina skjátexta niður í tvennt:
Íslendingar eru vanastir textun milli tungumála (1a) og þá jafnframt skjátextum sem fylgja myndefni (2a). Í kvikmyndahúsum er textinn hluti af sjálfri filmunni og birtist á tjaldinu um leið og myndin. Á útsendingarmyndböndum sem notuð eru á sjónvarpsstöðvum er hins vegar sérstök rás með tímamerkjum sem textinn er tengdur við. Þegar þýðingin er tilbúin þarf fortextari (þýðandi eða annar starfsmaður) að horfa einu sinni á myndina og „kóða“ hana. Það fer þannig fram að stutt er á hnapp þegar textinn á að birtast og aftur þegar hann á að hverfa. Þetta þarf að gera við alla myndina og getur oft tekið umtalsverðan tíma, aldrei skemmri en útsendingartíma myndarinnar en oft talsvert lengri. Textinn sjálfur er þá á disklingi í sérstakri textatölvu. Nákvæmur tímakóði leggst við textann á disklingnum þegar kóðað er og þegar myndin er síðan send út á öldum ljósvakans leitar tölvuforrit að tímamerkjum á myndbandi og disklingi og sendir þau út samtímis.
Þýðandi fær venjulega í hendur nákvæmt eða allnákvæmt handrit af frumtexta myndar. Oft eru þar skýringar á orðum auk upplýsinga um framvindu myndarinnar, svo sem um nýtt umhverfi, færslu í tíma, samskipti persóna o.fl. Stundum eru handrit þó einungis uppskrift textans án nokkurra skýringa. Jafnframt fá þýðendur, a.m.k. þýðendur sjónvarpsefnis, myndefnið ævinlega á myndbandsspólu. Kvikmyndaþýðendur þurfa stundum að láta sér nægja að horfa á myndina á sérstakri sýningu í kvikmyndahúsinu og taka þá e.t.v. textann upp á snældu.
Fyrir kemur að handrit er ekki til og þá þarf þýðandinn að þýða að öllu leyti eftir myndbandi. Það er meira verk en margir kynnu að halda, enda er oft erfitt að heyra það sem sagt er þegar ýmis leikhljóð renna saman við textann.
Bókmenntatextar lengjast gjarnan talsvert við þýðingu, að meðaltali um 5%. Ein ástæðan getur verið sú að viðtökumálið eigi ekki til orð með nákvæmlega sömu merkingu og í frummálinu, og þurfi þá að notast við samsetningar eða orðasambönd. Að því er íslensku varðar má ekki gleyma beygingarendingum og fjölda langra samsetninga sem lengja málið þegar allar eru taldar saman.
Þýðing á myndefni má hins vegar aldrei vera lengri en frumtextinn og þarf í reynd helst að vera styttri en hann. Þeir sem hafa samið efni frá eigin brjósti eða þýtt vita hversu erfitt það er að skera niður og stytta, en það er krafa sem sjónvarpsþýðendur verða sífellt að gera til sjálfra sín.
Flestir þýðendur nota að mestu leyti sömu aðferðir í starfi sínu. Algengast er að þýða að mestu leyti orð fyrir orð eða með sambærilegu orðalagi:
The war is over, you can come up.
Stríðinu er lokið, þið getið komið upp.
What time is it? –Almost time.
Hvað er klukkan? –Næstum orðin.
Í seinna dæminu er ekki hægt að þýða orð fyrir orð, bæði vegna ólíkrar málvenju í ensku og íslensku (hvorug eftirfarandi setning er eðlilegt mál: *What is the clock?, *Hvaða tími er það?) og vegna þess að svarið í frumtextanum er að hluta til orðaleikur sem ekki er mögulegur í íslensku (*Næstum því klukka/tími).
Sum orð eru yfirleitt ekki þýdd, t.d. ýmis sérnöfn. Þegar annað tungumál blandast inn í frumtextann er það stundum látið óþýtt. Þá verða MÁLVÍDDIR þýðingarinnar þrjár, frummálið, hitt erlenda málið og íslenska.
Stundum þarf að nota staðgengla fyrir orð úr seinna erlenda málinu, t.d. þegar persóna í mynd ‘slettir’ tungumáli sem Íslendingum er ekki tamt. Ef persóna í mynd sem á að gerast á 19. öld slettir t.a.m. frönsku í þeim tilgangi að sýna lærdóm sinn, væri e.t.v. eðlilegast að nota dönsku eða latínu í íslensku þýðingunni.
Mjög algengt er að stytta frumtextann og er það reyndar oft og tíðum nauðsynlegt til að koma merkingunni fyrir.
Er du helt sikker på at der ikke findes noget vand her nede i kælderen?
Ertu viss um að það sé ekkert vatn hérna niðri?
Algengt er að textinn sé styttur talsvert meira en hér var sýnt. Stundum er það vegna þess að a) þýðandi álíti efnisatriðið vera óþarft fyrir heildarmerkinguna, b) þýðandi skilji ekki textann nógu vel (eða heyri ekki frumtextann) og sleppi vísvitandi hluta úr honum, c) þýðandi hlaupi óvart yfir efnisatriði. Þegar söngtextar, kveðjur, ávarpsorð eða mannanöfn eru látin óþýdd kemur það sjaldnast að sök, en stundum getur mikil stytting ráðið talsverðu um heildarskilning:
As you know, John and whole his family came up here last year and rented a house for a month or more, as they do almost every summer!
John og fjölskylda hans dvaldist hér í fyrra eins og venjulega.
Hins vegar kemur líka fyrir að textinn lengist. Oft er það nauðsynlegt til að textinn verði eðlilegur í viðtökumálinu:
en stundum er álitamál hvort aukning er til bóta:
Ekki er ljóst að Ertu núna sé nauðsynlegt hér, a.m.k. virðist orðið núna óþarft.
Öðru hverju þarf að koma til skila mállýskumun eða sérstökum framburði orðs. Oft þarf þýðandinn þá að nota íslensk mállýsku- eða framburðaratriði sem staðgengla fyrir erlendu atriðin:
You should pronounce it as
MEIT, not MIGHT ...
Það á að bera það fram sem
VINUR, ekki VENUR.
Hér er flámæli notað sem staðgengill fyrir enskan lágstéttarframburð á orðinu mate (‘félagi, vinur’). – Stundum er þó ómögulegt að ná fyllilega fram áhrifum frumtextans, eins og sést í þessu dæmi:
Ert þú Ígor?
–Nei, það er borið fram Æ-gor.
Í þeirri mynd sem hér um ræðir (YOUNG FRANKENSTEIN) var athyglinni beint sérstaklega að augum persónunnar, sem eru stór og útstæð, og jafnframt leikið með tvenns konar framburð á nafninu Igor.
Þýðandinn þarf líka stundum að taka sérstakt tillit til frumtextans, t.d. þegar spurning kallar á neitandi svar í frummálinu en játandi svar í því máli sem þýtt er á.
Do you mind if I come in? –No.
Má ég koma inn?
–Já.
Hér ætti þýðandi e.t.v. kost á að fara kringum efnið og velja aðra leið, t.d. Viltu að ég standi úti? –Nei., til þess að svörin í frummáli og viðtökumáli stangist ekki á. Slíkt er þó aðeins hægt ef samhengið leyfir.
Orðaleikir, misskilningur og misheyrn er meðal þess sem erfiðast er að koma til skila svo vel sé. Eftirfarandi samtal á sér stað í bíl á miklum hraða og í miklum hávaða:
A: Stop! You have to PULL OVER!
Stoppaðu! Þú verður að BEYGJA!
B: It's not a PULLOVER, it's
a SWEATER my mother gave me.
Þetta er ekki TREYJA.
Þetta er PEYSA sem mamma gaf mér.
A: I said „Pull Over“, fool,
not „pullover“!
Ég sagði „beygja“,
ekki „treyja“!
Þótt orðaleikurinn fari fyrir lítið, þá tekst þýðandanum að halda í merkinguna með því að nota orð sem hafa líkan hljóm í íslensku.
Orðtök, málshættir og ýmis föst orðasambönd geta einnig verið vandasöm í þýðingu. Stundum á þýðandi kost á að nota samsvarandi orðtak, málshátt eða orðalag úr eigin máli, ef til er. Ef ekki, getur þýðandinn t.d. reynt að þýða yfir á daglegt mál:
Á sænsku er ekki til neitt sambærilegt við Þar lágu Danir í því og hér tók sænskur þýðandi íslenskrar myndar því þann kost að þýða þetta óvenjulega orðatiltæki yfir á daglegt mál.
Allir þýðendur gera stundum mistök og þýða rangt. Stundum er gleymsku eða yfirsjón um að kenna:
You think you're not the only one, don't you?
Þú heldur að þú sért sá eini, er það ekki?
Hér hefur þýðanda sést yfir orðið not í frumtextanum (eða einfaldlega gleymt að setja inn orðið ekki í þýdda textann) og því verður merkingin öfug við frumtextann. Oftast stafa þýðingarvillur þó af því að þýðandinn skilur ekki frumtextann. Orðatiltæki, málshættir og orðtök eru sérlega varhugaverð og hefur margur þýðandinn farið flatt á því að leita ekki til orðabóka þegar kemur að sérkennilegu orðalagi sem hann skilur ekki til fulls. Dæmi um það er þegar enska orðatiltækið He doesn't hold a candle to my father ‘hann stenst föður mínum ekki snúning’ var þýtt sem Hann getur ekki haldið á kerti fyrir föður minn.
Sumar þýðingarvillur má flokka undir svokallaða „falsvini“, þ.e. orð sem líkjast mjög eða eru jafnvel eins í frummáli og viðtökumáli, en hafa ólíka merkingu. Dæmi um slíkt er þegar þýska orðið Öl ‘olía’ er þýtt sem öl eða danska orðið bleg ‘fölur’ er þýtt sem bleikur. Villur af þessu tagi benda til ónógrar þekkingar þýðandans á frummálinu eða einhverjum þáttum þess, en jafnframt of mikillar vissu hans um að hann skilji rétt.
Ýmsar aðrar villur stafa einnig af slakri þekkingu þýðandans, t.d. þegar kaffi og vínarbrauð sem á ensku heitir coffee and danish í daglegu tali (danish pastry ‘vínarbrauð’) er þýtt sem kaffi og danskar. Annað dæmi er þegar H-moll messa Bachs verður að messutónlist í B-moll eftir Bach (enskumælandi menn nefna þá tóntegund B sem ýmsar aðrar þjóðir kalla H).
Sú hefð hefur myndast um kvikmyndir að þær séu um 1 ½ klst. að lengd. Undantekningar frá því eru að vísu margar, en sjaldnast eru myndir þó undir 75 mínútum eða yfir 2 klst. að lengd. Í venjulegri kvikmynd eru gjarnan um 900 textar, þ.e. nálægt 10 textum á mínútu. Dæmi eru um að textafjöldi í 90 mínútna mynd fari niður fyrir 400 í vissum tegundum kvikmynda (spennumyndum, náttúrumyndum) og yfir 1800 (t.d. í myndum gerðum eftir sígildum leikritum og í söngvamyndum), en hvort tveggja er sjaldgæft. Í framhaldsþáttum fyrir sjónvarp eru oft heldur fleiri textar að meðaltali en í kvikmyndum. Mikill orðafjöldi getur þýtt að um ódýra framleiðslu sé að ræða, því að upptaka innanhúss á samtölum er ódýrari en flóknar, leiknar tökur utandyra.
Í 900 texta kvikmyndarþýðingu má gera ráð fyrir 22–23 þúsund stöfum, nálægt 25 stöfum í texta að meðaltali. Sú venja hefur skapast hér á landi (m.a. af tæknilegum ástæðum) að í tveggja línu texta séu ekki fleiri en 60–62 stafir.
Aldís Guðmundsdóttir. 1995. The Creation of an Icelandic Term Bank for EEA Translations. Terminologi og kvalitet, bls. 83–93. (NORDTERM 7). Nordterm, Reykjavík.
Ástráður Eysteinsson. 1996. Tvímæli. Þýðingar og bókmenntir. (Fræðirit 9). Bókmenntafræðistofnun, Háskólaútgáfan, Reykjavík.
Ástráður Eysteinsson. 1998. Þýðingar, menntun og orðabúskapur. Málfregnir. 8/1:9–16.
Gleason, H.A., Jr.1969. An Introduction to Descriptive Linguistics. Holt, Reinhart & Winston, London.
Gottlieb, Henrik. 1991. Tekstning. Synkron billedmedieoversættelse. Guldmedaljeafhandling, Engelsk Institut, Københavns Universitet.
Gottlieb, Henrik. 1992. Subtitling – A New University Discipline. Teaching Translation and Interpreting. Training, Talent and Experience, bls. 161–170. John Benjamins Publishing Company, Amsterdam/Philadelphia.
Guðrún Kvaran, Gunnlaugur Ingólfsson og Jón Aðalsteinn Jónsson. 1988. Um þýðingu Odds og þessa útgáfu. Nýja testamenti Odds Gottskálkssonar, bls. xxi–xxxii. Lögberg, Reykjavík.
Guðrún Magnúsdóttir. 1990. Collocations in Knowledge Based Machine Translations. Í Jörgen Pind og Eiríkur Rögnvaldsson. 1990.
Gunnar Ágúst Harðarson. 1989. Inngangur. Þrjár þýðingar lærðar frá miðöldum. Hið íslenska bókmenntafélag, Reykjavík.
Heimir Pálsson. 1976a. En översättares funderingar. Kring en opublicerad översättning av Sven Delblancs Åminne. Scripta Islandica. Isländska sällskapets årsbok 27/1976:13–23.
Heimir Pálsson. 1976b. Inngangur. Jón Þorláksson. Kvæði, frumort og þýdd, bls. 7–61. (Íslensk rit 1). Rannsóknastofnun í bókmenntafræði og Menningarsjóður, Reykjavík.
Heimir Pálsson. 1991. Hvað er þá orðið okkar starf? Tímarit Máls og menningar. 2/1:4–13, Reykjavík.
Heimir Pálsson og Höskuldur Þráinsson. 1988. Um þýðingar. Iðunn, Reykjavík.
Heimir Pálsson og Jónína Margrét Guðnadóttir. 1992. Skýrsla um stöðu þýðingarmála, gerð fyrir menntamálaráðuneytið að beiðni Íslenskrar málstöðvar. [Óprentuð]
Heimir Pálsson. 1993. Aumingja blessuð manneskjan. Orðaforði heyjaður Guðrúnu Kvaran. Umsjón Ásta Svavarsdóttir o.fl. Reykjavík.
Helgi Guðmundsson. 1979. Um þrjú basknesk-íslensk orðasöfn frá 17. öld. Íslenskt mál 1:75–87.
Helgi Hálfdanarson. 1987. Ögn um þýðingar. Móðurmálið. Fjórtán erindi um vanda íslenskrar tungu á vorum dögum, bls. 79–84. Ólafur Halldórsson sá um útgáfuna. (Ráðstefnurit I). Vísindafélag Íslendinga, Reykjavík.
Ivarsson. Jan. 1992. Subtitling for the Media. A Handbook of an Art. Stockholm.
Íslensk hómilíubók. Fornar stólræður. 1993. Sigurbjörn Einarsson, Guðrún Kvaran og Gunnlaugur Ingólfsson rituðu inngang. Hið íslenska bókmenntafélag, Reykjavík.
Jörgen Pind og Eiríkur Rögnvaldsson (ritstj.). 1990. Papers from the Seventh Scandinavian Conference of Computational Linguistics. Institute of Lexicography & Institute of Linguistics, Reykjavík.
Margrét Pálsdóttir. 1992. Talað mál. Mál og menning, Reykjavík.
Nida, Eugene A. 1964. Toward a Science of Translating. J.E. Brill, Leiden.
Nida, Eugene A. 1966 (1959). Principles of Translation as exemplified by Bible Translating. On Translation, bls. 11–31. Ritstj. Reuben A. Brower. Oxford University Books, New York.
Páll Eggert Ólason. 1944. Saga Íslendinga. Sextánda öld. Höfuðþættir. Menntamálaráð og þjóðvinafélag, Reykjavík.
Sigurbjörn Einarsson. 1988. Oddur Gottskálksson. Nýja testamenti Odds Gottskálkssonar, bls. vii–xx. Lögberg, Reykjavík.
Stefán Briem. 1990. Maskinoversættelse fra esperanto til islandsk. Í Jörgen Pind og Eiríkur Rögnvaldsson. 1990, bls. 138–145.
Þorgeir Þorgeirson. 1984. Um þýðingarleysi. Nokkrar óheimspekilegar vangaveltur. Tímarit máls og menningar 45/1:79–84.
Þórbergur Þórðarson. 1971. Einum kennt – öðrum bent. Einum kennt – öðrum bent. Tuttugu ritgerðir og bréf 1925–1970, bls. 199–243. Mál og menning, Reykjavík.