Greinar

Guðrún Þórhallsdóttir
Forsaga íslensks máls

1. Forsaga íslensks máls

Þeir norrænu landnámsmenn sem settust að á Íslandi á 9. og 10. öld fluttu með sér móðurmál sitt úr byggðum norrænna manna í Noregi, Danmörku, Svíþjóð og á Bretlandseyjum. Hin eiginlega saga íslensks máls hófst að sjálfsögðu ekki fyrr en við landnám á Íslandi og heimilda um sögu tungumálsins fyrir þann tíma, þ.e. forsögu íslensku, þarf að leita erlendis.

Næsta skeið málsögunnar fyrir landnám Íslands kallast frumnorrænn tími og nær hann yfir tímabilið frá lokum 2. aldar e.Kr. til loka 8. aldar. Tungumál norrænna manna á þeim tíma er nefnt frumnorræna. Á undan frumnorrænum tíma var tímabil frumgermönsku á 1. árþúsundi fyrir Krist og enn fyrr tímabil frumindóevrópsku, en þegar komið er svo langt aftur í tímann eru tímamörk skeiðanna harla óljós.

2. Frumnorræna

Germönsk mál

Norræn mál(einnig nefnd norðurgermönsk mál) eru grein á ættartré germanskra mála og hin sameiginlega móðurtunga norrænu málanna er frumnorræna.

Eftir því sem næst verður komist var mál norrænna manna á frumnorrænum tíma ein sameiginleg tunga. Þó hefur mállýskumunur vafalaust verið einhver, en erfitt er að dæma um það þar sem heimildir frá þessum tíma eru takmarkaðar.

2.1 Heimildir um frumnorrænu

Á frumnorrænum tíma var ritun handrita með latnesku stafrófi ekki hafin en texti á norrænni tungu hefur varðveist í rúnaáletrunum sem fundist hafa víða á Norðurlöndum. Áletranirnar eru mjög takmarkaðir textar, flestar eru aðeins örfá orð. Sumar þeirra hafa heldur ekki varðveist í heilu lagi því að gripirnir sem letrað var á hafa margir skaddast og rúnasteinar máðst og brotnað.

Þessi rúnasteinn er kenndur við Tune í Noregi. Heimild: Krause. Die Runeninschriften im älteren Futhark.

Auk þess gerir það málfræðingum erfitt fyrir að það var t.d. ekki föst regla að sýna orðaskil eða gera greinarmun á löngum og stuttum samhljóðum eða sérhljóðum. Af þessum sökum er erfitt að ráða ýmsar áletranir.

2.2 Rúnaletrið

Rúnaletur er elsta letur germanskra þjóða og var notað til að rista á steina og á tré. Stafróf rúnaletursins nefndist fúþark eftir fyrstu sex stöfum letursins. Í rúnaletrinu voru 24 stafir sem skiptust í þrjár ættir og voru átta stafir í hverri ætt. Elstu rúnaristur eru frá því skömmu eftir Krists burð en flestar frumnorrænar áletranir eru frá því á 3. og fram á 7. öld. Í síðari tíma norrænu rúnaletri (9. og 10. öld) fækkaði rúnunum í 16. Hér sést stafróf rúnaleturs. Engar rúnaáletranir íslenskar eru til eldri en frá því um 1200 og er talið að Íslendingar hafi af einhverjum ástæðum rist minna á steina en grannþjóðirnar gerðu.

Frumnorrænir textar eru ritaðir með rúnaletri, stafrófi sem var sameiginlegt germönskum þjóðflokkum. Elstu áletranirnar eru frá 2. öld e.Kr. eða þar um bil en tilurð letursins er ekki þekkt með vissu. Lögun margra tákna bendir til áhrifa frá latneska stafrófinu (t.d. ‘f’, ‘r’ og ‘h’), og einnig hefur verið bent á líkindi við letur Etrúra á Norður-Ítalíu sem var byggt á latneska og gríska stafrófinu. Í rúnunum eru mestmegnis beinar línur, enda hafa þær einkum verið höggnar í tré og annað hart efni.

Rúnaletrið heitir FÚÞARK eftir fyrstu sex rúnunum í stafrófinu; menn vita að stafrófsröðin var þessi af því að rúnastafrófið er varðveitt letrað á nokkra gripi og einnig hafa rúnaþulur varðveist. Ein frægasta rúnaáletrunin fannst á horni úr gulli við Gallehus á Jótlandi og er talin vera frá því um 400.

2.3 Yngra rúnaletrið

Á tímabilinu 600–800 urðu breytingar á rúnaletrinu á Norðurlöndum. Rúnirnar breyttust sumar að gerð og einnig fækkaði þeim, þannig að úr varð nýtt stafróf með 16 rúnum í stað 24.

Yngra rúnastafrófið. Haugen 1976:143.

Táknin í yngra rúnaletrinu voru óheppilega fá. T.d. var sama rúnin notuð til að tákna bæði ‘i’ og ‘e’, önnur var látin tákna ‘t’, ‘d’ og ‘nd’ og sú þriðja táknaði bæði ‘k’, ‘g’ og ‘ng’. Þessu var reynt að bjarga um og eftir árið 1000 með því að nota punkta til að greina að rúnir með mismunandi hljóðgildi og kallast rúnir með punkti stungnar rúnir. Þannig táknaði ‘k’-rún með punkti ‘g’.

Þótt norrænar þjóðir kynntust latneska stafrófinu og tækju að rita með latínuletri á bókfell, lifði rúnaletrið áfram samhliða, en rúnirnar voru ekki skrifaðar á bækur heldur ristar í annað efni eins og áður. Kirkjan amaðist ekki við notkun rúna, sem voru þó arfur úr heiðnum sið, og þær voru m.a. ristar á legsteina og skírnarfonta. Mun minna hefur varðveist af rúnaristum á Íslandi en annars staðar á Norðurlöndum.

Elstu rúnir íslenskar eru á tréreku sem fannst á Indriðastöðum í Borgarfirði. Hún er frá 12. öld og hér má lesa: "boalliatmik inkialtr kærþi" eða með nútíðarstafsetningu: Páll lét mig, Ingjaldr gerði. Telja fræðimenn að fyrri setningin merki: Páll lét gera mig, búa mig til. Þjóðminjasafnið. Ljósm. Ívar Brynólfsson.

3. Frumnorrænar málbreytingar

Á fyrstu öldum frumnorræns tíma er ekki að sjá miklar breytingar á máli rúnaáletrana en á árunum 600–800 koma umfangsmiklar hljóðbreytingar í ljós. Einkum varð kerfi sérhljóða fyrir breytingum og kallast þær helstu hljóðvörp og klofning. Einnig urðu mjög víðtæk brottföll sérhljóða sem kallast einu nafni stórabrottfall.

4. Hljóðvörp

Við hljóðvarp tekur tiltekið sérhljóð breytingu fyrir áhrif frá öðru hljóði (oftast sérhljóði) síðar í orðinu. Hljóðið sem veldur breytingunni er kallað hljóðvarpsvaldur.

Á frumnorrænum tíma ollu hljóðvörp miklum breytingum á sérhljóðum, bæði a-hljóðvarp, i/j-hljóðvarp og u/w-hljóðvarp (kennd við hljóðvarpsvaldana ‘a’, ‘i’ og ‘j’ og ‘u’ og ‘w’). Hljóðvarpsvaldarnir féllu stundum brott síðar en hljóðvarpið sem þeir höfðu valdið hélst.

4.1 a-hljóðvarp

Myndin sýnir áhrif a-hljóðvarps á sérhljóðakerfi frumnorrænu. Sérhljóðin 'i' og 'u' tóku breytingum fyrir áhrif frá 'a'-hljóði í næsta atkvæði á eftir.

Við a-hljóðvarp breyttist frumgermanskt ‘i’ í ‘e’ og sömuleiðis ‘u’ í ‘o’ vegna áhrifa frá a-hljóði í næsta atkvæði á eftir (sjá mynd).

Breytingar við a-hljóðvarp

4.2 i/j-hljóðvarp

Við i-hljóðvarp var hljóðvarpsvaldurinn ‘i’ og við j-hljóðvarp var hann ‘j’ en þar sem þessi hljóð ollu sömu breytingum á sérhljóðum í næsta atkvæði á undan eru þessar breytingar oft spyrtar saman og nefndar I/J-HLJÓÐVARP.

Myndin sýnir áhrif i/j-hljóðvarps á sérhljóðakerfið. Frumnorrænu sérhljóðin 'a', 'o' og 'u' tóku breytingum fyrir áhrif frá 'i'- eða 'j'-hljóði í næsta atkvæði á eftir.

Hljóðin ‘i’ og ‘j’ höfðu þau áhrif að sérhljóð varð nálægara og/eða frammæltara en áður(sjá mynd).

Breytingar við i-hljóðvarp

4.3 u/w-hljóðvarp

Við u-hljóðvarp var hljóðvarpsvaldurinn frumnorrænt ‘u’ og við w-hljóðvarp var hann ‘w’. Þessi hljóð ollu sömu breytingum á sérhljóðum í næsta atkvæði á undan, þ.e. gerðu sérhljóðin kringd, og eru þær breytingar oft nefndar einu nafni U/W-HLJÓÐVARP

Myndin sýnir áhrif u/w-hljóðvarps á sérhljóðakerfið. Frumnorrænu sérhljóðin 'i', 'e' og 'a' tóku breytingum fyrir áhrif frá 'u'- eða 'w'-hljóði í næsta atkvæði á eftir.

(sjá næstu mynd).

Breytingar við u/w-hljóðvarp

4.4 g/k-hljóðvarp

Hugtakið G/K-HLJÓÐVARP er notað um nokkur sértilvik i-hljóðvarps, þegar þannig stóð á að frumnorrænt stutt eða langt ‘e’ hafði breyst í ‘i’ vegna áhrifa g- eða k-hljóðs sem fór næst á undan og valdið i-hljóðvarpi (sjá mynd).

Myndin sýnir áhrif u/w-hljóðvarps á sérhljóðakerfið. Frumnorrænu sérhljóðin 'i', 'e' og 'a' tóku breytingum fyrir áhrif frá 'u'- eða 'w'-hljóði í næsta atkvæði á eftir.

4.5 R-hljóðvarp

Venjan er að kalla þá frumnorrænu breytingu R-hljóðvarp þegar sérhljóð urðu frammælt á undan önghljóðinu ‘R’. Í rauninni er það rangnefni að kalla þessa breytingu hljóðvarp því það er næsta samhljóð á eftir sérhljóðinu sem veldur breytingunni en ekki (sér)hljóð í næsta atkvæði á eftir. Ástæða nafngiftarinnar er sú að hér breytast sérhljóðin á sama hátt og við i/j-hljóðvarp (sjá mynd).

Breytingar við r-hljóðvarp

5. Klofning

Við hljóðbreytingu sem kallast klofning breyttist frumnorrænt stutt ‘e’ í áhersluatkvæði í forníslenskt ‘ja’ vegna áhrifa frá a-hljóði í næsta atkvæði á eftir, en í ‘j’ ef u-hljóð var í næsta atkvæði á eftir. Breytingin er ýmist nefnd a-klofning eða u-klofning eftir því hvort hljóðið olli henni. (sjá mynd).

Breytingar við a/u klofningu

6. Stórabrottfall

Á síðari hluta frumnorræns tíma, einkum á árunum 600–800, urðu viðamikil brottföll sérhljóða og kallast þær hljóðbreytingar einu nafni stórabrottfall. Sá reginmunur sem er á frumnorrænu og forníslensku máli stafar ekki síst af þessum breytingum.

Það sem gerðist við stórabrottfall var að stutt sérhljóð sem ekki voru nefkveðin féllu brott ef þau voru í áherslulausri stöðu. Þar með hurfu mörg þeirra hljóða sem valdið höfðu hljóðvörpum og klofningu (sjá mynd).

Breytingar við stórabrottfall.

7. Frumgermanska

Næsta tímabil málsögunnar á undan frumnorrænum tíma er tímabil frumgermönsku sem er móðurtunga germanskra mála. Jafnframt mynda germönsku málin sjálfstæða grein á ættartré indóevrópsku málaættarinnar. Erfitt er að setja frumgermönskum tíma nákvæm mörk en miðað er við 1. árþúsund f.Kr.

7.1 Germanska málagreinin

Þegar ættkvísl germanskra mála er skipt í undirgreinar er venjan að líta svo á að frumgermanska hafi klofnað í þrjár greinar, norður-, vestur- og austurgermönsk mál.

Germönsk mál.

Norðurgermönsk (öðru nafni NORRÆN) mál eiga móðurtunguna frumnorrænu.

Vesturgermönsk fornmál eru vel varðveitt í textum, en þau eru fornenska, fornsaxneska, fornfrísneska og fornháþýska, og afkomendur þeirra lifa í nútímamálunum ensku, hollensku, flæmsku, frísnesku, þýsku, jiddísku og afríkönsku.

Hér sést hvernig má hugsa sér að vestur-germönsku málin greinist.

Hins vegar eru austurgermönsk mál útdauð og heimildir um austurgermönsku fornmálin (mál Gota, Búrgunda, Vandala o.fl. þjóðflokka) rýrar en hin merkasta er hluti gotneskrar biblíuþýðingar frá 4. öld e.Kr.

7.2 Germanska hljóðfærslan

Á frumgermönskum tíma urðu viðamiklar breytingar á kerfi samhljóða sem kallast einu nafni germanska hljóðfærslan. Þessar hljóðbreytingar eru eitt helsta sameiginlega einkenni germanskra mála og eitt þeirra atriða sem greina þau frá öðrum indóevrópskum málum.

Þessi tafla sýnir hvaða hljóð breyttust og hvernig við germönsku hljóðfærsluna.

Við germönsku hljóðfærsluna urðu órödduð lokhljóð að órödduðum önghljóðum, rödduð lokhljóð að órödduðum lokhljóðum og rödduð, fráblásin lokhljóð að rödduðum önghljóðum. Myndunarstaður hvers hljóðs breyttist hins vegar ekki.

Germanska hljóðfærslan er einnig nefnd LÖGMÁL GRIMMS og kennd við þýska málfræðinginn Jacob Grimm sem gerði grein fyrir henni í málfræðiriti frá árinu 1822, en nokkrum árum áður hafði Daninn Rasmus Kristian Rask reyndar uppgötvað fyrirbærið og sagt frá því í ritgerð.

7.3 Vernerslögmál

Vernerslögmál er heiti samhljóðabreytingar frá frumgermönskum tíma. Það er kennt við danska málfræðinginn Karl Verner sem vakti athygli á því árið 1875.

Verners-víxl, tafla sem sýnir hvaða hljóð breyttust og hvernig samkvæmt Verners-lögmáli.

Breytingin er í því fólgin að frumgermönsk órödduð önghljóð í innstöðu urðu rödduð ef áhersla var ekki á næsta sérhljóði á undan.

Flest órödduðu önghljóðin sem urðu rödduð skv. reglu Verners, þ.e. ‘f’, ‘þ’, ‘x’ og ‘xw’, höfðu orðið til við germönsku hljóðfærsluna. Með því að setja fram regluna tókst Verner að útskýra tilvik sem höfðu áður litið út fyrir að vera undantekningar frá germönsku hljóðfærslunni, orðmyndir með raddað önghljóð þar sem búist var við órödduðu. Uppgötvun Verners hafði mikil áhrif í þá átt að gera málfræðingum ljóst að leita þyrfti skýringa á undantekningum frá hljóðbreytingareglum; ástæða undantekningar væri iðulega önnur hljóðbreyting sem menn hefðu ekki komið auga á.

Með hjálp Vernerslögmáls var m.a. hægt að útskýra sérkennileg víxl samhljóða í beygingu sterkra sagna því að reglan hafði verkað í 3. og 4. kennimynd en ekki í 1. og 2. kennimynd.

Nokkur dæmi sem sýna hvernig Verners-víxl birtast í nútímaíslensku.

7.4 Germanskt beygingarkerfi

Beygingarkerfi germanskra mála eiga rætur sínar að rekja til sameiginlegs upphafs, þ.e. kerfis móðurtungunnar frumgermönsku. Glöggt má sjá á fornum germönskum textum að beygingarkerfi forníslensku, fornensku, gotnesku o.s.frv. voru nauðalík þótt nútímamál af germönskum toga séu að vísu orðin býsna ólík að þessu leyti. Það má ekki aðeins finna þar alla sömu orðflokkana heldur einnig að langmestu leyti sömu beygingarflokka með svipuðum beygingum (sömu föllum, tölum, háttum, tíðum o.þ.h.).

Beygingarflokkar bera sömu nöfn í fræðiritum um öll forngermönsku málin. Þar eru nafnorð flokkuð eftir gerð stofns og hver flokkur kenndur við sitt viðskeyti (miðað við að orð skiptist í rót, viðskeyti og beygingarendingu). Þannig myndar hópur orða með viðskeytið ‘-a-’ flokk a-stofna, orð með viðskeytið ‘-i-’ flokk i-stofna og til voru margir fleiri flokkar.

Yfirlitstafla yfir flesta helstu nafnorðaflokka í fornu máli, í fyrsta dálki er nafn stofns, þá rót, því næst viðskeyti, þá beygingarending og síðast dæmi um orð úr fornu máli.

Viðskeytin eru arfur frá eldri málstigum og flest viðskeyti sem koma fyrir í germönskum nafnorðum er hægt að rekja allt aftur til indóevrópska frummálsins. Gert er ráð fyrir að upphaflega hafi viðskeytin haft hlutverk þannig að hvert þeirra hafi verið notað til að mynda orð með tiltekna merkingu. Hlutverk viðskeytanna virðast ekki mjög skýr þegar litið er á orðaforða íslensks fornmáls en t.d. má benda á að flokkur r-stofna hefur að geyma fimm orð sem öll tákna skyldmenni: faðir, bróðir, móðir, dóttir og systir. Þessi sömu orð eru einnig til í öðrum indóevrópskum málum en germönskum og beygingarflokk r-stofna má finna vítt og breitt um indóevrópsku málaættina. T.d. eru samsvaranir þessara orða til í indverska fornmálinu sanskrít, þ.e. pitar-, bhrā atar-, mā atar-, duhitar- og svasar-.

Við hljóðbreytingar á frumnorrænum tíma féllu viðskeytin brott eða urðu óþekkjanleg. Þess vegna eiga nútímamenn erfitt með að sjá samhengið milli orðsins armur og heitisins a-stofn svo að dæmi sé tekið.

Sagnorð hafa ýmist sterka eða veika beygingu. Sagnirnar eru síðan flokkaðar nánar, sterkar sagnir eftir hljóðskiptaröðum en veikar sagnir eftir viðskeytum (líkt og nafnorðin).

Heimildaskrá

Grunnrit:

Guðrún Þórhallsdóttir. 1996. Um forsögu íslenzkrar tungu. Erindi um íslenskt mál. Íslenska málfræðifélagið, Reykjavík.

Halldór Halldórsson. 1950. Íslenzk málfræði handa æðri skólum. Ísafoldarprentsmiðja, Reykjavík.

Hreinn Benediktsson. 1964. Upptök íslenzks máls. Þættir um íslenzkt mál eftir nokkra íslenzka málfræðinga. Ritstj. Halldór Halldórsson. Bls. 9–28. Almenna bókafélagið, Reykjavík.

Ítarefni:

Iversen, Ragnvald. 1973. Norrøn grammatikk. 7. útg. Aschehoug, Oslo.

Haugen, Einar. 1976. The Scandinavian Languages. An Introduction to their History. Faber and Faber Limited, London.

Sérfræðileg rit og greinar:

Krahe, Hans og Wolfgang Meid. 1969. Germanische Sprachwissenschaft I. Einleitung und Lautlehre. Walter de Gruyter & Co, Berlin.