Greinar

Margrét Pálsdóttir
Framsögn

1. Framsögn

Margir virðast eiga auðvelt með að tala yfir hópi manna en öðrum er það mikið kvalræði. Flestir finna fyrir ótta við slík tækifæri þótt það sjáist ekki alltaf. Hæfilegur kvíði er oftast merki um að manneskjan vilji gera vel og haft hefur verið eftir mörgum leikurum og vönum ræðumönnum að þeir geti varla hugsað sér að koma fram nema þeir finni fyrir einhverjum sviðsskrekk. Menn þurfa að nýta sér þennan kvíða. Það er óttinn við óttann sem er slæmur og getur skemmt fyrir fólki. Með því að kynna sér ýmis undirstöðuatriði góðrar framsagnar má draga úr kvíða og öðlast meira öryggi í ræðustól eða á sviði.

Með orðinu FRAMSÖGN er venjulega átt við tvennt: upplestur og ræðumennsku.

2. Að koma fram

Þótt upplestur og ræðumennska séu að ýmsu leyti ólíkar athafnir eru það að miklu leyti sömu atriðin sem fólk þarf að huga að. Framkoma á sviði eða í ræðustóli skiptir máli, svo og líkamsbeiting, handahreyfingar, þagnir, augnsamband og stefna.

2.1 Framkoma

Framkoma skiptir máli þegar talað er eða lesið fyrir framan hóp manna. Áheyrendur þurfa að finna að sá sem talar hafi áhuga á því sem hann er að segja og leggi sig fram um að ná sambandi við þá. Hann þarf alltaf að muna að markmiðið er ekki bara að koma efninu ‘frá’ sér heldur líka að koma því ‘til’ þeirra sem hlusta. Hafi hann þetta í huga er líklegt að menn skynji það í framkomu hans.

Margir eru óöruggir og telja sig ekki nógu góða til að koma fram. Þetta endurspeglast stundum í framkomu þeirra og líkamsbeitingu. Líði mönnum illa eru þeir oft hoknir, horfast ekki í augu við viðmælendur sína og tala lágri röddu. Slík framkoma er ekki beinlínis til þess fallin að vekja athygli og áhuga þeirra sem á hlýða. Finni sá sem talar hins vegar til öryggis batnar líkamsbeitingin og líklegt er að rödd hans berist betur og menn hlusti á það sem hann segir.

Áður en byrjað er að tala eða lesa fyrir hóp af fólki skiptir máli að koma sér vel fyrir og byrja ekki fyrr en maður er tilbúinn. Gott er að líta yfir hópinn og ná sambandi við áheyrendur, þá verður framkoman ósjálfrátt eðlilegri. Ekki er æskilegt að ræðumaður standi grafkyrr allan tímann. Hann þarf að vera stöðugur en líka sveigjanlegur. Stundum er til þess ætlast að menn haldi sig í ræðustólnum, eins og þegar talað er í hljóðnema, en það getur verið tilbreyting í því að færa sig úr stað. Þetta verður að vega og meta hverju sinni, mestu máli skiptir að koma eðlilega fram. Margir koma sér hjá því að líta yfir hópinn og reyna að komast í gegnum efnið án þess að mæta nokkurn tíma augum áheyrenda. En þá geta þeir ekki skynjað viðbrögð þeirra og eiga erfiðara með að vera eðlilegir, bæði í framkomu og tali.

Ýmislegt í framkomu ræðumanna getur truflað áheyrendur. Sumir eru með hendur í vösum og hringlar þá stundum í lyklum eða öðru lauslegu. Aðrir fikta mikið við hár sitt eða andlit. Þetta getur verið truflandi. Sumir þekkja kæki sína en aðrir ekki. Því getur verið lærdómsríkt að taka sjálfan sig upp á myndband og skoða útkomuna. Samt getur verið varasamt að hugsa of mikið um að sleppa kækjunum, því að óþarflega mikil orka getur farið í það. Og sleppi menn einum kæk byrja þeir stundum á einhverjum öðrum, því að kækir stafa oft af óöryggi. Í raun og veru er æskilegast að stefna að því að vera eðlilegur og öruggur og einbeita sér að efninu. Takist það er líklegt að kækirnir hverfi eða verði ekki eins áberandi.

2.2 Líkamsbeiting

Oft er hægt að lesa út úr líkamsbeitingu manna og líkamstjáningu hvernig þeim líður. Þeir síga saman ef þeim líður illa en rétta úr sér og bera sig vel þegar þeim líður vel. Líkamsstaðan hefur áhrif á raddbeitinguna. Ef menn standa rétt geta þeir andað frjálst og óhindrað, en það er skilyrði þess að hægt sé að beita röddinni rétt. Þegar talað er fyrir framan hóp er því mikilvægt að koma sér vel fyrir og standa beinn í baki.

Mikilvægt er að finna að allur líkaminn taki þátt í tjáningunni. Þótt venjulega sé sagt að við tölum með talfærum og raddböndum hjálpa fleiri vöðvar til. Kviðvöðvarnir geta stutt við loftið þegar talað er. Þess vegna skiptir máli að vera til dæmis ekki í þröngum buxum eða pilsi og alls ekki með þröngt belti. Það getur hindrað eðlilega öndun.

Lærdómsríkt er að fylgjast með hvernig ung börn anda. Þegar þau anda að sér þenst kviður þeirra út en dregst aftur inn þegar þau anda frá sér og gefa frá sér hljóð. Hægt er að sjá hvernig kviðvöðvarnir ýta á eftir loftinu. Menn glata oft þessu eðlilega sambandi útöndunar og tals, hætta að finna hvernig kviðvöðvarnir geta fylgt á eftir loftinu þegar talað er. Þá er hætta á því að öndunin verði grunn og vöðvar í hálsinum spennist. Við það verður röddin líka spennt, hún berst ekki vel og menn þreytast í hálsinum ef þeir þurfa að tala eitthvað að ráði.

Algengt er að menn spenni hökuna upp og hnakkann aftur á bak. Þá er hætta á að hálsinn og raddböndin spennist og öndun og raddbeiting verði óeðlileg. Best að beita líkamanum þannig að sem minnst álag sé á hálsinn þegar talað er.

2.3 Handahreyfingar

Þegar talað er fyrir framan hóp af fólki er gott að hafa hendurnar frjálsar. Stundum er gott að nota þær til að leggja aukna áherslu á mikilvæg atriði. Sumir mæla jafnvel með því að fólk æfi sig í að leggja áherslu á orð sín með því að nota hendurnar. Þó er best að fara varlega í allt slíkt. Fátt er klaufalegra en maður sem baðar út höndum án þess að það sé í samræmi við innihald ræðunnar og raddbeitinguna. Flestir eru í einhverjum vandræðum með hendurnar þegar þeir byrja að tala en svo gleyma þeir sér og þetta hættir að vera vandamál. Þeir fara að tjá sig eðlilega og nota hendur til áhersluauka áður en þeir vita af.

Líklega er best að hugsa ekkert of mikið um hendurnar og nota þær eins og menn gera venjulega. Sumir nota hendur mikið þegar þeir tala og hvers vegna skyldu þeir ekki halda því áfram frammi fyrir hópi fólks? Á hinn bóginn getur verið óeðlilegt að sjá fólk, sem er vant að hreyfa hendur lítið þegar það talar, fara að nota þær mikið. Handahreyfingarnar verða þá oftar en ekki óeðlilegar.

2.4 Augnsamband og stefna

Sá sem talar frammi fyrir hópi manna þarf að ná góðu augnsambandi við áheyrendur. Þeir þurfa að finna að hann sé að tala við þá en ekki ræðupúltið, loftið eða veggina. Sá sem horfir á fólk þegar hann talar er eðlilegri en sá sem horfir niður á blöðin sín allan tímann.

Ræðumannastíll. Teikning: Jón Óskar.

Hann getur fylgst með því hvort áheyrendur skilja það sem hann segir og ræðan verður ekki eintal heldur nokkurs konar samtal. Menn tjá sig mikið með augunum og því er mikilvægt að áheyrendur sjái augun í ræðumanni. Menn taka líka meira mark á þeim sem þorir að horfa í augun á þeim, það er oft merki um óöryggi þegar menn líta ekki í augun á viðmælendum sínum.

Sumir segja að óundirbúnar ræður séu best fluttar. Það er hugsanlega vegna þess að þá talar ræðumaður oft beint við þá sem hlusta. Hann horfir á þá, gefur sér tíma til að hugsa og fylgir orðum sínum eftir. Þessu tapa margir þegar þeir eru með undirbúna ræðu. En það þarf ekki að vera svo.

Sá sem flytur skrifaða ræðu þarf auðvitað að fylgjast með blöðum sínum. En hann getur líka reynt að líta upp á milli efnisatriða og ná sambandi við áheyrendur. Best er að vera vel undirbúinn og með gott handrit. Hægt er að merkja við staði þar sem gott er að líta upp og gefa sér tíma til að horfast í augu við áheyrendur. Í lok efnisatriða er hægt að líta upp og fylgja orðunum eftir alla leið til áheyrenda. Áhrifaríkt getur verið að reyna að horfa sem mest fram þegar verið er að tala en þegja þegar horft er niður, t.d. á minnisblöð eða skrifaða ræðu.

Sá sem les texta eftir annan er ekki alltaf í eins persónulegu sambandi við áheyrendur og ræðumaður. Því er ekki alltaf nauðsynlegt að hann horfist í augu við þá. Þá getur verið betra og eðlilegra að horfa á einhvern ákveðinn stað í salnum.

Þótt ekki sé alltaf hægt að ná augnsambandi við áheyrendur, til dæmis ef talað er í stórum sal, eða í útvarp eða sjónvarp, er mikilvægt að hafa stefnuna skýra. Menn þurfa alltaf að muna að þeir eru að tala við fólk. Og sá sem talar þarf að bera virðingu fyrir áheyrendum sínum og leggja sig fram um að koma efni sínu til þeirra, hvort sem hann sér þá eða ekki.

2.5 Þagnir

Þegar menn tala frammi fyrir öðrum eru þeir stundum hræddir við þagnirnar. Ræðumanni eða lesara getur fundist stutt þögn vera heil eilífð. En fyrir áheyrendur getur hún verið kærkomin. Hún gefur þeim tíma til að melta það sem sagt er.

Í venjulegu samtali hafa allir sama rétt á að tala, enginn einn hefur orðið. Stundum keppast menn um að ná orðinu og halda því (sjá nánar í umfjöllun um orðræðugreiningu). Allir þurfa að hugsa áður en þeir tala og margir nota ýmiss konar HIKHLJÓÐ og HIKORÐ til að komast hjá því að þegja á meðan. Þetta geta verið hljóð eins og ‘uuu’, ‘iii’ eða ‘eee’ og orð eins og hérna, þarna, sem sagt og sko.

Flestir nota einhver hikorð eða hikhljóð þegar þeir tala og menn taka sjaldnast eftir þeim nema þau séu sérstaklega áberandi. Þá geta þau farið að spilla fyrir, menn hætta að taka eftir nokkru öðru. Hikorðin eru stundum kölluð TALHÆKJUR vegna þess að gott getur verið að styðjast við þau. En auðvitað hlýtur að vera best að geta gengið óstuddur og vera óháður orðum og hljóðum sem eru eingöngu til að fylla upp í þagnir.

Þegar menn tala fyrir framan hóp af fólki þurfa þeir sjaldnast að hafa áhyggjur af því að aðrir grípi fram í fyrir þeim. Þeir geta leyft sér að þegja og gefið sér tíma til að hugsa. Og þeir hafa tíma til að vanda mál sitt og framsögn. Þeir geta hugsað um að ná til fólksins, tala þannig að stór hópur fólks heyri og skilji hvað þeir eru að segja.

3. Ræðumennska

Það er mikilvægt að geta tekið til máls þegar menn hafa eitthvað að segja. Lýðræðisþjóðfélag byggist meðal annars á því að þegnar þess láti skoðanir sínar í ljós. Og þá skiptir máli að allar skoðanir heyrist. Þeir sem eiga auðvelt með að tala eiga ekki neinn einkarétt á því að segja skoðanir sínar.

Margir þekkja það að hafa farið heim af fundi og hugsað að þeir hefðu nú átt að segja eitthvað. En þeir þorðu ekki, héldu að einhverjir aðrir segðu það sem þeir vildu segja. Ýmsum finnst þeir ekki geta flutt ræðu því að þeir hafi aldrei lært það. Þeir eru hræddir um að verða sér til skammar, hræddir um að fara að skjálfa og titra, roðna, svitna eða stama. Þeir eru vissir um að röddin verði skrýtin og þeir gleymi hvað þeir ætluðu að segja.

En skyldi þetta þurfa að vera svona? Hvað er svona hræðilegt við það að vera á fundi og segja það sama og menn sögðu daginn áður yfir kaffibolla við vini sína eða vinnufélaga?

Það er sama hvers konar ræða er flutt. Gert er ráð fyrir að ræðumaðurinn tali og áheyrendur hlýði á. En þótt áheyrendur blandi sér sjaldnast í ræðuflutninginn má segja að ræða sé í rauninni samtal en ekki eintal, því að þótt áheyrendur tali ekki þá gefa þeir ýmiss konar merki um að þeir séu að hlusta. Þeir svara með þögninni, svipbrigðum og ýmiss konar látbragði. Þetta getur auðveldað ræðumanni flutninginn því að hann er að öllum líkindum vanur því að tala við fólk þótt við aðrar aðstæður sé.

Þegar ræða er samin fyrirfram eða ætlunin er að flytja annað frumsamið efni, þurfa menn líka að undirbúa sig, huga að uppbyggingu og samningu ræðunnar, málfari og því hvort þeir skuli flytja ræðuna eða lesa. Þeir þurfa líka að kynna sér aðferðir eins og notkun minnismiða og hjálpartækja, eins og myndvarpa og skjávarpa.

3.1 Undirbúningur

Margir telja að einungis útvaldir geti orðið góðir ræðumenn. En staðreyndin er sú að ræðumennska krefst æfingar. Fjölmargir góðir ræðumenn, sem virðast ekkert þurfa að hafa fyrir því að tala, segjast ætíð undirbúa sig vel þegar þeir þurfi að flytja ræðu.

Mönnum gengur yfirleitt betur í ræðustólnum ef þeir eru vel undirbúnir. Þá vita þeir hvað þeir ætla að segja og verða fyrir vikið öruggari í framkomu. Ræðumaður þarf helst að vita mun meira um ræðuefnið en hann getur sýnt þegar hann flytur mál sitt.

Menn þurfa alltaf að hafa í huga hverjir áheyrendur eru og hvert tilefni ræðunnar og markmið er. Er ætlunin að skemmta hlustendum, fræða þá eða hafa áhrif á þá? Hve mikið vita þeir um efnið?

Þegar byrjað er að undirbúa ræðu er gott að setja fyrst niður á blað allt sem kemur upp í hugann. Margir kalla þetta þankahríð, þankaregn eða eitthvað þess háttar. Oft er mælt með því að skrifað sé á lítil blöð og aðeins sé skrifað eitt atriði á hvert blað. Það auðveldar mönnum að velja og hafna þegar kemur að því að skipuleggja ræðuna og raða efnisatriðunum upp. Þá er hægt að flokka miðana eftir efni og leggja drög að uppbyggingu ræðunnar.

Sumir mæla með því að menn séu alltaf tilbúnir með upphafsorð og lokaorð, þá séu þeir alveg öruggir. Meginmálið geti svo komið af sjálfu sér, þegar þeir eru komnir í gang. Það er að minnsta kosti öruggt að góð upphafs- og lokaorð hjálpa ræðumanni mikið.

3.2 Málfar

Málfar mótast oft af aðstæðum. Það getur verið mismunandi eftir því við hverja menn tala hverju sinni. Málsnið getur verið formlegt eða óformlegt, alveg eins og klæðnaður og framkoma. Þegar menn koma fram og tala þurfa þeir að gera sér grein fyrir því hvers konar málsnið er við hæfi. Hvers konar mál skilja áheyrendur? Hvernig er hægt að sýna þeim virðingu? Og hvernig er best að ná til þeirra?

Þótt Íslendingar tali allir íslensku eru mörg dæmi um orð og setningar sem einungis eru notaðar í ákveðnum hópum. Því er gott að hafa áheyrendur alltaf í huga og reyna að tala mál sem þeir skilja. Ekki er æskilegt að nota sértækt fagmál nema menn séu vissir um að það skiljist, t.d. þegar talað er við fólk innan sömu stéttar. Ekki er heldur til fyrirmyndar að nota slettur og slanguryrði sem viðmælandinn skilur ekki. Allir eiga sama rétt á að skilja ræðumann.

Þegar menn koma í ræðustól er algengt að þeir finni til smæðar sinnar og finnist þeir þurfa að afsaka sig á einn eða annan hátt. Oftast er það óþarfi. Áheyrendur hafa mestan hug á að heyra hvað ræðumaður hefur fram að færa en ekki því hvort hann hafði nægan tíma til að undirbúa sig eða ekki.

Mönnum virðist finnast það sem þeir ætla að segja vera ómerkilegt. Þeir segjast ætla „að segja bara aðeins frá svona smá-verkefni“, eða að þeir ætli „að segja aðeins bara í örstuttu máli“ frá einhverju. Hér eru úrdráttarorð notuð, líklega af hæversku, en áheyrendum getur fundist að ræðumaður hafi nú ekki mikið að segja. Líklega vita þeir hvort hann ætlar að tala lengi eða stutt, hvort hann hefur tíma til að kafa djúpt í efnið eða ekki. Því er sjaldnast þörf á að taka fram að menn ætli að segja eitthvað „í örstuttu máli“.

3.3 Ræða flutt eða lesin

Ein aðferð við undirbúning ræðu er að skrifa hana niður frá orði til orðs. Þetta getur haft sína ókosti vegna þess að flestum reynist erfitt að flytja texta af blaði þannig að hann hljómi eins og eðlilegt tal. En það veitir ákveðið öryggi að vera með ræðu alveg tilbúna. Heima geta menn unnið hana vel, valið rétt orð og raðað þeim saman, vel og vandlega. Og þeir þurfa ekki að hafa áhyggjur af að standa í ræðustóli og vita ekki hvað þeir eiga að segja.

Þegar menn eru með skrifaða ræðu er nauðsynlegt að hafa gott línubil í handritinu og góðar spássíur. Á vinstri spássíuna er hægt að skrifa minnisatriði, punkta, og nota eftir þörfum. Mörgum finnst líka gott að merkja við þau orð sem þurfa að fá sérstaka áherslu og orð sem eru erfið í framburði. Einnig er hægt að merkja við staði þar sem ræðumaður ætlar að gefa sér góðan tíma til að líta upp og ná sambandi við áheyrendur.

Ef flytja á ræðu sem er skrifuð frá orði til orðs er nauðsynlegt að æfa sig. Þá er gott að lesa hana oft upphátt, og ekki er verra að fá einhverja til að hlusta á ræðuflutninginn og gefa góð ráð. Sumir ákveða að læra ræðu sína utan að. Það er vandasamt því að hætta er á að flytjandinn ruglist í ríminu einhvers staðar í ræðunni og þá getur reynst erfitt að taka flugið á ný. Hann ætti að minnsta kosti að vera með minnismiða til öryggis.

Ræðumaður þarf alltaf að vera með hugann við það sem hann er að segja. Hann þarf að einbeita sér. Ef menn eiga erfitt með að horfa fram þegar þeir tala og eru bundnir handritinu, er gott að hafa í huga að betra er að líta sjaldan upp en að hreyfa höfuðið í sífellu upp og niður og ná engu sambandi. Menn geta verið í góðum tengslum við hlustendur þótt þeir geti ekki horfst í augu við þá. Gott er að reyna að sjá fólk fyrir sér og tala við það. Þetta er t.d. nauðsynlegt þegar talað er í útvarp eða sjónvarp og þegar talað er á stóru sviði þar sem áheyrendur eru mjög margir.

3.4 Notkun minnismiða

Oft er gott að tala út frá minnismiðum. Þá þarf ræðumaður að þekkja efnið mjög vel. Meginkosturinn er sá að ef vel tekst til er talað beint til áheyrenda og þá eru meiri líkur á því að ræðan verði lifandi. Að vísu þarf að velja orðin jafnóðum – þá þarf bara að gefa sér tíma til þess að hugsa áður en talað er.

Ræðumenn þurfa að vera óhræddir við að þegja á meðan þeir eru að hugsa. Þeir geta notað þagnirnar til að anda að sér og slaka á og til að ná sambandi við hlustendur, horfa í augun á þeim. Stundum er hægt að ná sterkum áhrifum með því að stansa stundarkorn og fylgjast með því hvort áheyrendur hafa skilið það sem sagt var. Best er að segja það sem segja þarf og rugla ekki þá sem talað er við með einhverjum orðum eða hljóðum sem koma efninu ekki við.

Sumir raða minnisatriðunum upp á myndrænan hátt, t.d. eins og tré, þar sem er einn stofn, nokkrar stórar greinar og svo minni greinar á þeim. Þannig sést á fljótlegan hátt hver eru aðalatriðin og hver aukaatriðin og hvernig efnisatriðin tengjast innbyrðis.

3.5 Notkun hjálpartækja

Algengt er að ræðumenn og fyrirlesarar noti ýmiss konar hjálpartæki til að koma efni sínu sem best á framfæri. Hægt er að höfða til fleiri skynfæra en heyrnarinnar með því að sýna efni á tjaldi, til dæmis með hjálp myndvarpa eða skjávarpa. Þá heyra menn það sem sagt er og sjá texta eða mynd um leið. Sá sem notar slík tæki þarf alltaf að muna að þau eru einungis til hjálpar. Þau eiga að styðja við það sem sagt er en ekki að koma í staðinn fyrir það. Ræðumaður ætti að horfa eins mikið fram og hann getur og varast að falla í þá freistni að horfa mest á tjaldið og þær fallegu glærur sem hann hefur útbúið. Yfirleitt er mælt með því að menn bendi á glæruna á myndvarpanum sjálfum vegna þess að ef þeir benda alltaf á tjaldið er líklegt að þeir horfi þangað sjálfir, snúi baki í áhorfendur og missi þannig sambandið við þá.

Það sem ræðumaður segir þarf að heyrast vel. Að sama skapi þarf það sem hann sýnir að sjást vel. Þess vegna þarf að hafa stórt og skýrt letur á því sem sýnt er á tjaldi.

Mælt er með því að menn slökkvi á myndvarpanum á milli glæra. Við það verður framsetningin markvissari því að kaflaskil koma í flutninginn. Ef mönnum finnst þeir varla gera annað en að kveikja og slökkva ættu þeir að velta því fyrir sér hvort þeir séu ef til vill með allt of margar glærur.

4. Upplestur

Það er vandasamt að lesa upp texta þannig að fólk hlusti. Þegar menn lesa fyrir sjálfa sig gera þeir það venjulega í hljóði – og eru oft fljótir að því. En stundum miðla menn texta til annarra og þá þurfa þeir að hugsa um það hvernig þeir geti komið honum sem best til skila.

Í hvert skipti sem texti er lesinn upp er hann gæddur nýju lífi. Lesarinn bætir einhverju við, túlkar textann á einhvern hátt, meðvitað eða ómeðvitað.

Í mjög grófum dráttum má segja að til sé tvenns konar upplestur. Annars vegar einhvers konar hlutlaus lestur, þar sem markmiðið er að koma textanum til skila og leyfa hlustanda sjálfum að túlka hann, og hins vegar listrænn upplestur þar sem upplesarinn gefur mikið af sjálfum sér. Slíkur lestur krefst langrar þjálfunar.

Þegar upplestur er undirbúinn skiptir máli hvað er lesið og fyrir hverja. Einnig þarf að hafa í huga að ákveðinn munur getur verið á lestri og tali.

4.1 Hvað er lesið?

Þeir sem ætla að lesa upp fyrir aðra þurfa að kynna sér textann vel. Þeir þurfa bæði að þekkja textann sjálfan og vita hvernig hann hljómar. Þeir mega ekki gleyma að æfa sig með því að lesa hann nokkrum sinnum upphátt. Og ekki má gleyma því að áheyrendur sjá textann ekki á blaði, þeir þurfa að treysta algjörlega á upplesarann. Upplesarinn þarf að hjálpa þeim, gefa þeim tíma, til að heyra og njóta þess sem lesið er.

Nauðsynlegt er að átta sig vel á því hvers eðlis textinn er. Er um að ræða fræðslutexta eða gamansögu, mataruppskrift, ljóð eða annan skáldskap? Sé efnið flókið þarf að gefa því nægan tíma í upplestri, leggja áherslu á mikilvægustu orðin og lesa erfið orð hægt. Einnig er nauðsynlegt að nota þagnir á markvissan hátt. Séu þær notaðar á undan orðum eða setningum benda þær til að á eftir fari eitthvað sem skiptir máli. Og þagnir á eftir orðum eða setningum gefa áheyrendum tækifæri til að hugsa um það sem verið var að segja.

Sá sem flytur texta þarf að reyna að halda athygli hlustenda, halda þeim vakandi. Það getur hann m.a. gert með hraðabreytingum og tónbreytingum, þar sem það á við. Þegar lesinn er texti sem er auðskiljanlegur, t.d. samtöl manna, getur verið óþarfi að fara mjög hægt. Þá má auka talhraðann. Svo má hægja á þegar skipt er um frásagnarstíl eða við einhvers konar kaflaskil. Mestu máli skiptir alltaf að virða hlustandann og hafa í huga hve hratt hann getur tekið við efninu.

Lærdómsríkt getur verið að hlusta á rithöfunda lesa úr verkum sínum. Þeir þekkja þau manna best, vita hvað þeir voru að hugsa þegar þeir sömdu textann og þekkja allar aðstæður. Allt þetta þarf lesarinn að kynna sér. Hann þarf að reyna að gera textann að sínum, lesa hann bæði í hljóði og upphátt, til að finna hvernig hann hljómar. Þá eru meiri líkur til að hann komist vel til skila.

4.1.1 Fréttir

Fréttalestur býður ekki upp á mikla tilbreytingu í flutningi. Þar er markmiðið að greina hlutlaust frá atburðum og hlustandinn á sjálfur að túlka það sem sagt er. Miklu skiptir að lesa skýrt og með góðum áherslum, þ.e. leggja áherslu á þau orð sem hafa mest upplýsingagildi.

4.1.2 Sögur

Þegar lesa á sögu fyrir aðra þarf lesari að gæta þess, eins og ævinlega, að vera búinn að lesa söguna og kynna sér hana áður. Sögur geta auðvitað verið margs konar og flutninginn þarf að miða við efnið hverju sinni. Miklu máli skiptir að upplesarinn þekki söguna í heild og geti hrifið hlustendur með sér. Ef hann vill auðkenna persónur sögunnar með sérstöku málfari þarf hann að gæta vel að samræminu. Flestir munu þó sammála um að best sé að fara varlega í sakirnar í þeim efnum.

4.1.3 Ljóð

Ljóð eru vandmeðfarin í flutningi. Lesarinn þarf að reyna að koma efni ljóðsins til skila án þess að það sé á kostnað formsins en formið þarf líka að fá að njóta sín án þess að það sé á kostnað efnisins. Lesari þarf að gera ráð fyrir því að einhver ástæða sé til þess að höfundur valdi efninu ljóðform og hann þarf að bera virðingu fyrir þessu formi.

Ljóð er ekki bara röð af línum. Segja má að það sé röð af myndum. Ljóðlínur eru ekki alltaf heilar setningar eða heil hugsun. Algengara er að setningar, hugsanir eða myndir nái yfir fleiri en eina línu. Og stundum er punktur inni í miðri línu. Upplesurum hættir til að lækka tóninn í lok hverrar ljóðlínu, rétt eins og í lok setningar. En þá skynjar hlustandinn það sem svo að setningu sé lokið, að nú taki við ný setning, ný hugsun. Sé ljóð flutt þannig að tónninn fari niður í lok hverrar línu er hætt við því að flutningurinn verði innantómur og spilli ljóðinu jafnvel.

Þegar upplesari vill koma því til skila að setningu sé ekki lokið í lok línu, heldur haldi hún áfram í þeirri næstu, þarf hann að hugsa um hvað hann er að segja. Hann þarf að finna að hugsunin heldur áfram. Oft er betra að hika ögn þegar línan er búin en stansa alveg. Lesarinn þarf að hugsa um setninguna í heild, hugsa um efnið, um myndina. Þá er líklegt að honum takist að samræma form og inntak ljóðsins.

Stundum lendir fólk í erfiðleikum vegna þess að takturinn í ljóðlínunni fer ekki alveg saman við eðlilega hrynjandi málsins. Bragarhátturinn getur til dæmis krafist þess að áhersla sé höfð á síðari hluta orðs sem í eðlilegu tali er borið fram með áherslu á fyrsta atkvæði. Þarna þarf að reyna að hjálpa til í upplestrinum. Það er til dæmis hægt að gera með því að lengja síðari hluta orðsins, án þess að tónninn hækki. Þá finna menn að ekki er um að ræða sérstaka orðáherslu, ekki eru á ferðinni tvö orð, heldur eitt.

Hægt er að leggja mikla vinnu í að undirbúa túlkun, og sumir segja að það sé aðeins á færi örfárra að lesa ljóð virkilega vel. En hér ber að hafa í huga að ekki er síður mikilvægt að flytja ljóð þannig að áheyrandi geti túlkað það sjálfur. Því getur verið ágætt að leggja megináherslu á að koma því skýrt frá sér, þekkja efnið til hlítar og reyna að sjá það fyrir sér ef hægt er, móta hljóðin nákvæmlega og fylgja orðunum og hugsuninni vel eftir.

4.2 Fyrir hverja er lesið?

Sá sem les upp fyrir aðra verður alltaf að hafa í huga fyrir hverja hann er að lesa og bera virðingu fyrir áheyrendum sínum. Hvort sem lesið er fyrir börn eða fullorðna þarf að muna að áheyrendur hafa textann ekki fyrir framan sig og þurfa því að treysta algjörlega á upplesarann. Rödd hans þarf að berast vel og framburður hans svo skýr að orðin skiljist alltaf. Hann má ekki fara of hratt yfir efnið, heldur verður hann að gefa fólki tíma til að taka á móti því, skilja það og melta. Það er mikilvægt að fylgjast með viðbrögðum áheyrenda og muna að markmiðið er ekki að koma efni frá upplesara heldur til áheyrenda.

Ekki er gott að hlustendur þurfi að eyða allri orku sinni í að reyna að skilja orðin, þá er ekki mikill tími eftir til að njóta þess sem verið var að lesa.

4.3 Lestur og tal

Upplesari þarf að reyna að flytja texta sinn á sem eðlilegastan hátt. Þótt hann vilji lesa skýrt þarf hann að muna að ekki er eðlilegt að bera fram öll hljóð í öllum orðum. Í eðlilegu tali laga menn hljóðin hvert að öðru, án þess að taka eftir því. Auðvitað hlýtur alltaf að vera einhver munur á töluðu máli og upplestri en hann þarf ekki að vera mikill. Reyndar er það svo að þeir sem hafa þjálfað sig sérstaklega geta lesið þannig að áheyrendum finnist þeir vera að tala beint frá hjartanu. Þetta á t.d. við um góða útvarpsmenn.

5. Raddbeiting

Með röddinni tjáir fólk tilfinningar sínar og kemur skoðunum sínum á framfæri. Engar tvær raddir eru eins. Sumir virðast vera fæddir með góða rödd og þurfa ekkert að hafa fyrir því að láta heyra í sér. Þegar þeir tala hlusta allir. En raddbeiting er ekki meðfædd, menn læra hana smátt og smátt, meðvitað og ómeðvitað.

Menn tala oftast þegar þeir anda frá sér. Loftið berst þá frá lungunum upp barkann og fer milli raddbandanna í barkakýlinu. Við það taka raddböndin að sveiflast og tónn myndast. Styrkur raddarinnar fer eftir því hve mikill kraftur loftsins er og þar skiptir öndunin verulegu máli. Hljómurinn ræðst aðallega af því hvernig hljómhol líkamans eru, t.d. munnhol og nefhol. Raddir eru mismunandi háar og fer tónhæðin (tíðnin) aðallega eftir gerð raddbandanna sjálfra, þykkt þeirra og lengd. Raddbönd karlmanna eru t.d. þykkari og lengri en raddbönd kvenna og röddin þar af leiðandi dýpri.

Í barkakýlinu eru vöðvar sem geta strekkt og slakað á raddböndunum og breytt tóninum, hækkað hann og lækkað. Mikilvægt er að hver og einn tali í þeirri tónhæð sem honum er eiginleg, þannig að sem minnst álag sé á raddböndunum. Blæbrigði raddarinnar geta verið margbreytileg og þegar menn tala opinberlega skiptir máli að þau séu sem eðlilegust. Allir viðurkenna nauðsyn þess að söngvarar og leikarar viti eitthvað um rödd og raddbeitingu. En það er í rauninni ekki síður mikilvægt fyrir aðra sem þurfa að koma fram og tala. Þurfi menn að nota röddina mikið í leik eða starfi þurfa þeir að huga að raddvernd. Þeir sem þekkja rödd sína og fara vel með hana eiga síður en aðrir á hættu að verða þreyttir eða veikir í hálsi og talfærum.

5.1 Öndun

Þegar menn tala hugsa þeir sjaldnast um það hvernig þeir fari að því að anda. Þeir bara tala og anda svo að sér þegar þeir þurfa þess með. Þannig er eðlilegast að öndunin sé. En þegar menn koma fram fyrir aðra ruglast þetta jafnvægi stundum og menn gleyma jafnvel að anda eða reyna að koma sem mestu efni frá sér án þess að anda. Þetta gerist ekki síst þegar menn eru með skrifaða ræðu. Í venjulegu tali anda menn oft að sér, innöndunin tekur stuttan tíma og svo fer lengd útöndunar eftir því hvað menn segja mikið.

Þegar menn anda að sér þrýstist þindin niður í kviðarholið, lungun fylgja á eftir, stækka og fyllast af lofti og kviðurinn þenst út. Axlirnar eru slakar, þær taka engan þátt í hljóðmyndun, þó að mörgum finnist þeir þurfa að lyfta öxlum þegar þeir anda að sér. Ef einungis eru notaðir brjóstholsvöðvar fá lungun minna loft og spenna getur myndast í efri hluta líkamans. Þegar menn anda frá sér og tala um leið geta þeir hjálpað til við að koma loftinu út, á milli raddbandanna, með því að þrýsta á eftir því með kviðvöðvunum. Það er oft kallað að STYÐJA VIÐ LOFTIÐ, og sagt að notaður sé STUÐNINGUR. Þess háttar öndun er ýmist nefnd KVIÐARÖNDUN, MAGAÖNDUN, ÞINDARÖNDUN, DJÚPÖNDUN eða RÉTT ÖNDUN.

Lítil börn anda rétt og nýta sér rétta öndun þegar þau tala eða gefa frá sér önnur hljóð. Menn ættu að fylgjast með því hvernig þau nota kviðvöðvana. Vel er hægt að sjá hvernig kviðurinn þenst út þegar þau anda að sér og þrýstist inn þegar þau anda frá sér, til dæmis þegar þau tala eða gráta. Kviðvöðvarnir hjálpa til við að þrýsta á eftir loftinu, styðja við röddina. Þess vegna geta börnin gefið frá sér ótrúlega kraftmikil hljóð þótt lítil séu, án þess að verða hás.

Þegar talað er ‘með stuðningi’ er líklegra að röddin berist vel og um leið er minni hætta á að spenna myndist í raddböndunum sjálfum. Margir sem þjást af raddþreytu eða hæsi nota grunna öndun og spenna vöðva í hálsi þegar þeir tala. Þetta lagast oft þegar fólk fer að nota rétta öndun í tali og temur sér rétta líkamsbeitingu.

Menn tala oftast um leið og þeir anda frá sér, þ.e. á útöndun. Stundum talar fólk þó líka um leið og það andar að sér, þ.e. „á innsoginu“. Íslendingar eru reyndar frægir fyrir þetta. Þótt mörgum finnist þetta vera skemmtilegt þjóðareinkenni getur það verið slæmt fyrir röddina. Þá soga menn loft, sem er oft óhreint og kalt, beint niður í barkann og nota það til að koma raddböndunum á hreyfingu. Þegar menn anda frá sér og tala um leið er loftið hins vegar heitt og rakt og fer það mun betur með röddina.

5.2 Raddstyrkur

Menn tala misjafnlega hátt, eru með missterka rödd. Venjulega fer raddstyrkurinn eftir því hvar talað er hverju sinni, við hverja og hvernig hljómburðurinn er. Fyrir kemur þó að menn tala alltaf með sama raddstyrk, annað hvort of hátt eða of lágt. Þeir ættu að íhuga betur hve mikinn raddstyrk þarf hverju sinni.

Sumir tala of lágt vegna þess að þeir eru feimnir eða líður illa á einhvern hátt. Oft er rödd of lág vegna þess að öndun er of grunn og loftið frá lungunum ekki notað eins og hægt er. Öndunina er hægt að þjálfa. Ýmsar æfingar geta hjálpað og alltaf er gott að fá aðstoð góðs kennara. Stundum má bæta lága rödd upp með því að vanda framburðinn, röddin berst betur ef framburðurinn er skýr.

Þegar menn þurfa að tala hærra en venjulega, t.d. þegar þeir flytja ræðu í stórum sal, þurfa þeir að auka styrk raddarinnar. Það er best að gera með því að nota djúpa öndun og ‘styðja við loftið’ með kviðvöðvunum, en ekki með því að hækka tóninn. Þannig geta menn ‘sent röddina betur áfram’, ef svo má að orði komast. Þegar menn tala þurfa þeir að slaka á í hálsinum en kviðvöðvarnir mega vel við því að vinna! Menn þurfa að finna að þeir ‘tali með öllum líkamanum’ en ekki með hálsinum. Það getur reynst gott að æfa breytingar á raddstyrk áður en talað er í stórum sal.

5.3 Tónhæð

Tónhæð raddarinnar er eitt af megineinkennum hennar. Tónn kvenraddar er venjulega hærri en karlraddar og barnsrödd er hærri en rödd fullorðins. Tónhæðin ræðst m.a. af gerð raddbandanna, því þykkari og lengri sem þau eru, þeim mun dýpri er tónninn.

Þegar menn tala hækkar tónninn venjulega og lækkar til skiptis. Þegar áhersla er lögð á orð breytist tónninn yfirleitt, oftast hækkar hann örlítið. Í barkakýlinu eru vöðvar sem menn nota ómeðvitað þegar þeir tala. Þessir vöðvar geta strekkt og slakað á raddböndunum og hækkað tóninn eða lækkað.

Það fer mikið eftir aðstæðum og uppeldi í hvaða tónhæð menn tala og hve miklar tónsveiflur eru í talinu. Menningin hefur líka áhrif, það er misjafnt eftir samfélögum hvers konar raddir þykja fallegastar. Sums staðar temja konur sér að tala í hærri tóni en þeim er eiginlegt, það þykir jafnvel kvenlegt. Annars staðar þykir kynþokkafullt að tala með sem dýpstri röddu. En það er alls ekki æskilegt að beita röddinni of hátt eða lágt. Best er að reyna að tala í eins eðlilegum tóni og unnt er.

En hvernig er þá hægt að finna þennan eðlilega tón? Hvernig geta menn fundið ‘sína eigin rödd’? Ein aðferð er sú að prófa að jánka og segja ‘m-hm’. Þá er röddin venjulega slök og eðlileg og tónhæðin rétt. Síðan geta menn reynt að tala í svipaðri tónhæð. Einnig er gott að reyna að finna lægsta tón raddar sinnar. Þá er líklegt að eðlilegur tónn raddarinnar sé tveimur til þremur tónum þar fyrir ofan.

Í venjulegu tali eru raddböndin slök og röddin hljómar eðlilega, enda finna menn sjaldnast fyrir raddþreytu í spjalli við kunningja. Við álag, eins og þegar talað er frammi fyrir hópi manna, er alltaf hætta á því að röddin spennist og tónninn hækki. Þá er gott að muna eftir að slaka á og reyna að finna rétta tóninn, t.d. með því að humma lágt. Þá verður eftirleikurinn auðveldari. Og ef menn einbeita sér að því sem þeir eru að segja er líklegt að tónninn breytist eftir því hvað er sagt og talið verði blæbrigðaríkt. Séu menn beðnir um að tala hærra er nauðsynlegt að gæta þess að hækka ekki tóninn heldur reyna að auka raddstyrkinn.

5.4 Blæbrigði raddarinnar

Tilfinningar manna hafa áhrif á raddblæinn. Þeir geta verið glaðir eða hryggir og það kemur fram í röddinni. Stundum er mönnum mikið niðri fyrir, þeir tala hratt og tónninn hækkar en svo koma líka tímar þar sem mönnum liggur ekkert á, þeir hafa nægan tíma og gæla við hvert orð.

Þegar menn koma upp í ræðustól, eða tala í útvarp eða sjónvarp, eiga þeir stundum erfitt með að tala eðlilega. Talið verður líflaust, röddin missir blæbrigðin, öll orðin fá svipað vægi og hver setning verður annarri lík. Þá er hætta á að fólk missi áhugann á því hvað verið er að segja.

5.5 Raddvernd

Menn þurfa að fara vel með röddina. Segja má að hún sé hljóðfæri þeirra. Reykur, ryk og þurrt loft, allt er þetta slæmt fyrir röddina, þurrkar upp slímhúðina í barkakýlinu og raddböndin geta roðnað og þrútnað. Æskilegt er að sem mestur raki og hiti leiki um raddböndin. Séu menn þurrir í hálsinum er gott að fá sér vatn að drekka, þó hvorki ískalt né sjóðandi heitt. Gott er að hafa í huga að hægt er að hlífa raddböndunum með því að anda með nefinu. Þegar andað er með munninum fer kalda og þurra loftið beinustu leið niður á milli raddbandanna og getur ert þau. Af sömu ástæðu er slæmt að ‘tala á innsoginu’ og varla þarf að minna á að reykingar eru sérstaklega slæmar fyrir raddböndin. Ræskingar eru heldur ekki góðar fyrir röddina því þær erta raddböndin. Ef mönnum finnst þeir þurfa að ræskja sig er best að reyna að kyngja, hósta létt eða fá sér vatn að drekka.

Hæsi getur átt sér ýmsar skýringar. Raddböndin geta verið bólgin, til dæmis vegna veirusýkingar í hálsi. Bólgan gerir það að verkum að raddböndin geta ekki sveiflast eðlilega og röddin verður ekki hrein. Í öðru lagi geta myndast svokallaðir hnútar á raddböndunum. Algengt er að þeir myndist í framhaldi af bólgu í hálsi og barka. Þá er röddinni stundum beitt mikið og rangt þegar hún ætti að vera í hvíld. Hnútarnir gera það að verkum að raddböndin ná ekki saman og röddin verður hás. Þessi kvilli er nokkuð algengur meðal starfsstétta sem þurfa að nota röddina mikið, t.d. söngvara, leikara og kennara.

Ef menn fá kvef og röddin verður hás ættu þeir að hvíla hana eins og þeir mögulega geta. Ekki er ráðlegt að hvísla, það fer ekki sérstaklega vel með raddböndin ef þau eru viðkvæm. Betra er að reyna að beita röddinni rétt, slaka vel á í hálsi og talfærum, snúa að þeim sem talað er við og móta málhljóðin vel.

Allir sem þurfa að nota röddina mikið ættu að huga vel að því að gera upphitunaræfingar fyrir röddina og gæta þess að misbjóða ekki þeim líffærum sem þeir nota við raddbeitinguna. Engum spretthlaupara dytti í hug að fara beint í startholurnar án þess að hita upp fyrst. Hann veit að ef hann hitar vel upp minnka líkur á meiðslum og hann nær betri árangri. Leikarar og söngvarar hafa sama háttinn á, þeir gera upphitunaræfingar fyrir röddina áður en þeir ganga inn á sviðið.

6. Framburður

Sá sem talar fyrir framan hóp af fólki þarf að tala þannig að allir skilji það sem hann segir. Röddin þarf að berast vel og framburðurinn þarf að vera vandaður. Talhraði þarf að vera hæfilegur, sérhljóð og samhljóð þurfa að vera skýr og áherslur réttar og eðlilegar. Og þegar fluttur er skrifaður texti er nauðsynlegt að átta sig á muninum á lestri og tali.

6.1 Vandaður framburður

Þegar menn vilja láta aðra heyra vel það sem þeir eru að segja ættu þeir að reyna að ‘taka utan um orðin’ þegar þeir tala, þ.e. móta þau vel. Þetta á sérstaklega við um lykilorð í setningum. Einnig þarf að gæta þess að missa ekki hljóminn í lok setninga.

Hvenær eru menn orðnir óskýrmæltir? Þessu er erfitt að svara nema tekið sé fram við hvaða aðstæður er talað, hvers konar málsnið er um að ræða. Framburður sem er í sjálfu sér eðlilegur í venjulegu, óformlegu talmáli getur talist óskýrmæli í útvarpi eða sjónvarpi eða í framsöguræðu.

Algengt er að framburður verði óskýr þegar talhraðinn er of mikill. Þá geta orð og setningar runnið saman. Þetta er rétt að hafa í huga ef ætlast er til þess að allir skilji það sem sagt er, því að stundum týnast orð sem skipta miklu máli fyrir merkinguna. Einnig er algengt að fólk temji sér að hreyfa talfærin lítið og móta málhljóðin ónákvæmt. Þá verður talið óskýrt og jafnvel þvoglulegt og búast má við að þeir sem tala þannig verði taldir óskýrmæltir.

Þegar fólk vill vanda framburð sinn er viss hætta á ferðum, sérstaklega ef það veit ekki að hverju það á að stefna. Þá fara sumir að tala óskaplega skýrt, bera öll orð og hljóð jafnskýrt fram, þannig að talið verður óeðlilegt fyrir vikið. Þetta er oft nefnt ofvöndun og er ekki það sem ber að stefna að. Æskilegt er að velta því fyrir sér hvernig orðin eru venjulega sögð og bera þau svo fram skýrt samkvæmt því.

Talað mál er ekki bara runa af stökum orðum. Saman mynda þau eina heild og talið verður óeðlilegt ef þessi heild er rofin með því að bera hvert orð fram eins og það stæði eitt og sér. Þótt orð endi á samhljóði og það næsta á eftir hefjist á öðru (e.t.v. því sama), er óþarfi að slíta orðin svo rækilega sundur að inn á milli þrengi sér áherslulaust aukasérhljóð, einhvers konar ‘ö’ eða ‘i’. Það heyrist þó oft.

6.2 Talhraði

Algengt er að fólk tali of hratt þegar það kemur fram. Sá sem talar veit hvað hann ætlar að segja en sá sem hlustar hefur engan texta fyrir framan sig og þarf tíma til að skilja það sem sagt er. Flestir sem koma fram hafa gott af því að reyna að tala hægar en þeim er eiginlegt. Menn þurfa að bera orðin fram svo skýrt að þau heyrist. Þó þarf að gæta þess að slíta þau ekki í sundur, það er hægt að tala eðlilega þótt talað sé skýrt.

Þegar menn tala of hratt verða þeir oft óskýrmæltir og þá falla stundum brott hljóð sem betra er að hafa með í orðum til að þau skiljist án fyrirhafnar. Dæmi um þetta er þegar sagt er ‘Íslidingar’ eða ‘Isldigar’ í stað Íslendingar, ‘Keflikingar’ eða ‘Keflingar’, í staðinn fyrir Keflvíkingar og ‘Reykikingar’ eða ‘Reykingar’ í staðinn fyrir Reykvíkingar. Stundum er sagt ‘dabla’ í stað dagblað og jafnvel ‘tamsti’ en ekki tannbursti. Orð eins og aðallega og agalega geta orðið eins í framburði, ‘ala’. Og þúsund, þú veist og þúst eru stundum borin fram eins, ‘þúst’. Framburður sem þessi getur ekki talist vandaður.

6.3 Talfæri

Ef menn opna ekki munninn þegar þeir tala verður framburðurinn óskýr. Þegar menn tala með samanbitnar tennur á hljóðið erfitt með að komast út. Þá heyrist álíka mikið í þeim og ef þeir héldu fyrir munninn þegar þeir töluðu. Sé munnurinn ekki opnaður þegar talað er eykst álagið á tunguna. Hún þarf þá ein að sjá um að mynda hljóðin. Málhljóðin verða skýrari ef kjálki og varir eru líka notaðar til að mynda þau og móta. Til talfæra teljast öll líffæri sem á einn eða annan hátt koma við sögu við hljóðmyndun. Það er misjafnt eftir því hvaða hljóð um ræðir hvert talfæranna gegnir lykilhlutverki.

Nokkuð algengt er að menn hreyfi talfærin lítið þegar þeir tala. Þá verður framburðurinn ónákvæmur. Auk þess verða talfærin stirð ef þau eru lítið hreyfð, t.d. ef menn venja sig á að tala án þess að hreyfa munninn nokkuð að ráði. Talfærin þarf að liðka, eins og vöðva líkamans og til eru ýmsar talfæraæfingar sem menn geta gert. Góð þjálfun fæst líka með því að þylja tungubrjóta, þ.e. flóknar setningar sem reyna talsvert á liðleika talfæranna.

6.4 Sérhljóð

Segja má að sérhljóðin séu máttarstólpar framburðarins því að í hverju atkvæði er eitt sérhljóð. Því er afar mikilvægt að þau séu borin fram skýrt og vel. Sérhljóðin eru öll rödduð, og í íslensku eru þau öll munnhljóð.

Sérhljóð eru ýmist löng eða stutt í íslensku eftir því hvar í orði þau standa og hvaða hljóð eru næst þeim.

Þegar menn vilja vanda framburð sinn er gott að nýta sér löngu hljóðin í orðum. Þegar sérhljóð er langt geta menn nýtt sér það og lengt það eins og þeir vilja. Við það fær orðið meiri áherslu og verður skýrara. Þetta getur þannig hjálpað til við að skerpa áherslur í tali og það hefur líka áhrif á hrynjandina.

6.5 Áherslur

Eitt af einkennum íslenskunnar er að aðaláherslan er yfirleitt á fyrsta atkvæði orða. Menn segja MAÐur en ekki maðUR og KOna en ekki koNA. Þó er stundum hægt að gera undantekningar. Vilji menn leggja sérstaka áherslu á orðhluta geta þeir það. Þess háttar áhersla er kölluð ANDSTÆÐUÁHERSLA. Vilji kona til dæmis leggja áherslu á að hún sé þingKONA en ekki þingMAÐUR getur hún gert það með því að leggja áherslu á síðari lið orðsins.

Sumir forliðir eru ýmist með áherslu eða áherslulausir. Til dæmis er hægt að segja að einhver sé hálfLATUR – eða hálfHEIMSKUR, en varla er hægt að segja að kjöt sé hálfSOÐIÐ, heldur gæti það verið SOÐIÐ, HÁLFsoðið eða hálfHRÁTT.

Þegar menn leggja sérstaka áherslu á orð eða orðhluta í íslensku er algengast að tónninn hækki um leið. Oft lengja menn hljóðin líka og stundum auka þeir raddstyrkinn. Þetta samspil tónhæðar, lengdar og styrks er eitt af því sem einkennir áherslur. Í venjulegu tali leggja menn áherslur án þess að taka sérstaklega eftir því hvernig þeir gera það. En þegar kemur að því að lesa upp texta eða flytja ræðu geta menn nýtt sér þessa eiginleika raddarinnar. Þá getur verið gaman að þjálfa sig í að leggja áherslur á mismunandi hátt, með því að hækka tóninn, lengja áhersluatkvæði eða auka styrk raddarinnar.

6.6 Stafsetning og framburður

Töluverður munur er á stafsetningu og framburði í íslensku, ekki síður en öðrum tungumálum. Menn þurfa ekki að hafa áhyggjur af þessu þegar þeir tala en þegar þeir ætla að lesa texta af blaði getur ýmislegt vafist fyrir þeim. Miklar umræður hafa verið um verndun tungunnar og nauðsyn þess að vanda framburð og fólk vill vanda sig. En þá byrja stundum erfiðleikarnir. Sumir horfa á orðin og reyna að bera þau fram frá staf til stafs og halda að SKÝRMÆLI felist í því.

6.6.1 Stafir og hljóð

Í sjálfu sér er óþarfi að hafa áhyggjur af orðum sem eru algeng og lesaranum töm, en þegar kemur að sjaldgæfum orðum gæti lesari látið blekkjast af stafsetningunni. Engum dytti í hug að lesa orðið kafli með ‘f’-hljóði, því það er vel þekkt orð. Öðru máli gegnir um orðið dýflissa. Það orð er ekki á vörum manna hversdagslega og þess vegna bera margir það fram með ‘f’-hljóði. Eðlilegur framburður er hins vegar ‘dýblissa’.

Bókstafur er ekki það sama og hljóð. Sami stafurinn getur táknað mismunandi hljóð eftir því hvar í orði eða setningu hann stendur. Stafurinn f táknar alltaf ‘f’ ef hann stendur fremst í orði, en inni í orðum, á milli raddaðra hljóða táknar hann raddað hljóð, ‘v’ eins og í afi. Og í lok orðs táknar hann ýmist ‘f’ eða ‘v’ eftir því hvaða hljóð fer á eftir í setningunni. Þar að auki getur átt að bera stafinn f fram sem ‘b’, þ.e. þegar hann stendur næst á undan ‘l’ eða ‘n’ inni í orði eða aftast í því eins og í t.d. kafli, hefna og hrafl. Í orðum þar sem þessi sambönd eru fremst, til dæmis flaska og fnæsa, er hins vegar borið fram ‘fl’ og ‘fn’.

Annað dæmi um bókstaf sem getur táknað mismunandi hljóð er stafurinn g. Hann táknar ekki sama hljóð í orðunum gata og gefa. Og svo er þriðja hljóðið í sagt, það fjórða í orðinu vega, og fimmta afbrigðið kemur svo fyrir í orðinu eigi, en þar táknar bókstafurinn g hljóðið ‘j’.

Orðið varla er ýmist hægt að bera fram ‘vardla’ eða ‘vadla’. Í dæminu sem hér fylgir á það að ríma við orðin kalla og alla og því verður að sleppa ‘r’-inu úr framburðinum.

Hljóður sat hann, hreyfðist varla, –
í hljóði mælti eg þá, að kalla:
Sá ég víkja vini alla;
vonir svíkja eins og þeir;
(Úr Hrafninum eftir Edgar Allan Poe í þýðingu Einars Benediktssonar)

Í næsta dæmi kemur fyrir orðið illan, sem ýmist er borið fram með hljóðinu ‘i’ eða ‘í’. En vegna þess að það þarf að ríma við stilla hann og vill hann, verður að bera það fram með ‘i’-hljóði þegar ljóðið er lesið. Annars tapast rímið.

Hjartslátt setti að mér illan,
og ég margtók til að stilla' hann:
„Þetta er gestur. Gjörla vill hann,
gengið sé til dyra, heyr.
Aðeins það og ekki meir.“
(Úr Hrafninum eftir Edgar Allan Poe, í þýðingu Einars Benediktssonar)
6.6.2 Brottföll úr samhljóðaklösum

Oft er eðlilegt að þar sem nokkur samhljóð standa saman í klasa, falli eitt þeirra brott. Til dæmis er eðlilegra að sleppa ‘f’-inu í orðum eins og þurfti, horft og djarft. Sama gildir um hljóðasambandið ‘rkt’, þar er eðlilegt að ‘k’-ið falli brott. Eðlilegur framburður á orðinu sterkt er ‘stert’, og óeðlilegt er að bera það fram ‘ster-k-t’. Í hljóðasambandinu ‘skt’ gerist það sama, miðsamhljóðið fellur brott. Orðið íslenskt er því ‘íslenst’ en ekki ‘íslens-k-t’. Við segjum líka ‘mart’ en ekki ‘mar-g-t’ og ‘kemdi’ og ‘kemt’ en ekki ‘kem-b-di’ og ‘kem-b-t’ þótt stafsetningin sýni annað.

Algengt er að ‘r’-ið falli brott á undan ‘s’-i, eins og í orðunum bursti og þorskur og er það fullkomlega eðlilegur framburður. En í sumum orðum og þá helst sjaldgæfum virðist ‘r’-ið oft haldast (eins og til dæmis í horskur, sem er fremur sjaldgæft og merkir ‘vitur’ eða ‘hygginn’). Þetta tengist þeirri almennu tilhneigingu, sem er í málinu, að því algengara sem orð er, þeim mun meiri líkur eru á ýmiss konar brottföllum og samlögunum.

Þessi brottföll úr samhljóðaklösum eru ekki ný af nálinni. Í Passíusálmum Hallgríms Péturssonar sem eru frá 17. öld má t.d. sjá mörg dæmi þess að ‘rst’ í orðum eins og fyrst og verst og stærstur rími við ‘st’.

Í hljóðasamböndum þar sem ‘g’ stendur næst á eftir ‘ú’ og tvíhljóðum þar sem seinni liðurinn er ‘ú’, þ.e. hljóðunum ‘á’ og ‘ó’, fellur ‘g’ yfirleitt brott. Orðin nógur og skógur eru oftast borin fram ‘nóur’ og ‘skóur’. Lágum er borið fram ‘láum’, og smjúga og ljúga eru borin fram ‘smjúa’ og ‘ljúa’. Í orðum sem þessum er þetta brottfall eðlilegt. Mörg dæmi er hægt að finna í kveðskap sem sýna þetta.

Sams konar brottfall á sér stundum stað á hljóðinu ‘v’ á eftir sömu hljóðum (‘ú’, ‘ó’ og ‘á’). Þar eru þau reyndar ekki eins algeng og yfirleitt er framburðarmynd með ‘v’-inu líka þekkt. Til dæmis er ýmist sagt lófi með ‘v’-i eða ‘lói’, tófa eða ‘tóa’ og húfa eða ‘húa’. ‘v’-lausi framburðurinn í þessum dæmum og nokkrum öðrum er fullkomlega eðlilegur og hefur tíðkast lengi, eins og sést meðal annars á ríminu í þessu dæmi.

6.6.3 Áherslulaus persónufornöfn

Í töluðu máli eru áherslulaus persónufornöfn oft borin fram öðruvísi en þegar þau hafa áherslu. Sástu hann? er oftast borið fram ‘sástann?’ og ‘sérðana?’ er líklega eðlilegra en sérðu hana?. Vegna áhersluleysisins fellur hljóðið ‘h’ brott, og það er fullkomlega eðlilegt, hvort sem er í tali eða lestri. Sama er að segja um fornöfn, aðallega persónufornöfn, sem byrja á ‘þ’. Algengt er að ‘þ’ verði raddað, eða m.ö.o. breytist í ‘ð’, þegar það er borið fram án áherslu. Eðlilegt er að segja ‘sástu ða?’ í stað sástu það? þegar sá sem talar gerir ráð fyrir því að sá sem hlustar viti hvað við er átt, og setur því ekki sérstaka áherslu á persónufornafnið.

Það eru ekki eingöngu persónufornöfnin sem geta breyst eftir því hvort þau bera áherslu eða ekki. ‘Þ’ getur breyst í ‘ð’ í atviksorðum eins og þarna og þangað, og ‘h’ getur á sama hátt fallið brott í orðum eins og hérna og hingað þegar þau eru áherslulaus. Til dæmis er stundum sagt ‘kondu íngað’ (eða jafnvel ‘kondíngað’) og ‘farðu ðángað’ (eða jafnvel ‘farðángað’), og er líklega ekkert athugavert við það, a.m.k. ekki við sumar aðstæður. Hins vegar þarf að varast að breyta öllum ‘þ’-um í ‘ð’, hvar sem þau finnast í texta. Í ábendingarfornöfnum er t.d. oft beinlínis rangt að breyta ‘þ’-i í ‘ð’, vegna þess að ábendingarfornöfnin bera oft áherslu, þau vísa til einhvers sem kemur seinna í textanum („Systir góð, sérðu það sem ég sé?“). Eignarfornöfn bera líka oft áherslu og taka verður tillit til þess.

Erfitt er að gefa einfalda, algilda reglu um það hvenær megi fella brott ‘h’ og breyta ‘þ’ í ‘ð’. Áhersla ræður þarna mestu, auk þess sem talhraði virðist hafa áhrif. Því er líklega ráð að einbeita sér að því að hafa áherslur réttar, hvort sem er í tali eða lestri og treysta því að hitt komi af sjálfu sér. Þetta á einnig við um eðlileg brottföll sérhljóða.

6.6.4 Fleiri brottföll hljóða
Köttur úti í mýri
setti upp á sig stýri
og úti er ævintýri.

Eðlilegt er að áherslulaust sérhljóð í lok orðs falli brott þegar næsta orð hefst á sérhljóði, eins og í þulubrotinu hér að framan. Það er alltaf borið fram: Köttur út´í mýri sett´upp á sig stýri og út´er ævintýri. Og menn segja oft ‘komdinn’ eða ‘farðút’, en ekki ‘komdu inn’ eða ‘farðu út’ og ‘hvað ertað gera’ en ekki ‘hvað ertu að gera’, nema þeir séu að leggja sérstaka áherslu á það sem þeir eru að segja og vilji láta öll orðin heyrast skýrt.

Einnig er algengt að samhljóð í enda orðs falli brott ef næsta orð byrjar á samhljóði. Þetta á einkum við um önghljóð í áherslulitlum orðum eins og nafnháttarmerki, forsetningum, atviksorðum, samtengingum og fornöfnum. Sagt er ‘Hvað ert(u) a(ð) lesa?’ ‘Hvert ert(u) a(ð) fara.’ ‘Ertu me(ð) bók?’ ‘Já, o(g) hva(ð) me(ð) þa(ð)?’ ‘É(g) bara spurði!’

En þetta geta líka verið önnur samhljóð, eins og t.d. ‘r’. ‘Ég ræð mér ekki fyri(r) kæti.’ ‘Takk fyri(r) mig.’

Áhersla og talhraði hafa mjög mikil áhrif á það hvort og hvenær samhljóð falla brott á þennan hátt. Í dæmunum hér að framan var samhljóðið í áherslulausu atkvæði. Þessi samhljóð falla oft brott á undan öðrum samhljóðum en hinsvegar er eðlilegt að bera þau fram þegar sérhljóð fer á eftir þeim. ‘Við þökkum fyrir okkur.’ ‘Hún er úti.’

Þegar fólk fer að vanda sig verða samhljóð, sem eðlilegt er að fái lítið vægi í venjulegum framburði, stundum mjög áberandi og við það getur talið orðið óeðlilegt. Þá er ef til vill hægt að segja að það sé skýrt en það þarf alls ekki að þýða að það sé eðlilegt.

Heimildaskrá

Andresen, Solveig Gran, Jon Stenklev og Kare Hegseth. 1986. Þú hefur orðið. Leiðbeiningar um ræðumennsku. Þráinn Hallgrímsson þýddi. Menningar- og fræðslusamband alþýðu, Reykjavík.

Ari Páll Kristinsson, Friðrik Magnússon, Margrét Pálsdóttir og Sigrún Þorgeirsdóttir. 1985. Um andstæðuáherslu í íslensku. Íslenskt mál 7:7–47.

Ásgeir S. Björnsson og Baldur Hafstað. 1988. „Eitt verð ég að segja þér...“ Listin að segja sögu. Iðunn, Reykjavík.

Benkholt, J., M. Buan, H.M. Dalhaug og A. Berntsen. 1993. Kennslufræði fyrir leiðbeinendur. Hólmfríður Gísladóttir þýddi. Rauði kross Íslands og Landsbjörg, Reykjavík.

Björg Árnadóttir og Sonja B. Jónsdóttir. Hátt og snjallt [myndband]. Námsgagnastofnun, Reykjavík.

Boone, Daniel R. 1991. Is your voice telling on you? (How to find your natural voice.) Singular Publishing Group, Inc., San Diego.

Brodnitz, R. Friedrich. 1988. Keep your voice healthy. [2. útgáfa]. College-Hill Press, Boston.

Erlendur Kristjánsson, Gunnar Árnason og Margrét Pálsdóttir. 1990. Vertu með! 1. hefti. Námsgagnastofnun og Æskulýðsráð ríkisins, Reykjavík.

Erlendur Kristjánsson, Sigurður Albert Ármannsson og Ólafur Ásgeirsson. 1991. Vertu með! 2. hefti. Námsgagnastofnun og Æskulýðsráð ríkisins, Reykjavík.

Hannes Jónsson. 1963. Félagsstörf og mælska. Félagsmálastofnun, Reykjavík.

Hilde Helgason, Margrét Pálsdóttir og Sverrir Páll Erlendsson. 1988. Orð í belg. Mál og menning, Reykjavík.

Hurst, Bernice. 1996. [Fyrst gefin út 1991.] The Handbook of Communication Skills. Kogan Page Limited, London.

Indriði Gíslason, Baldur Jónsson, Guðmundur B. Kristmundsson, Höskuldur Þráinsson. 1988. Mál og samfélag. Um málnotkun og málstefnu. Iðunn, Reykjavík.

Indriði Gíslason og Höskuldur Þráinsson. 1993. Handbók um íslenskan framburð. Rannsóknarstofnun Kennaraháskóla Íslands, Reykjavík.

Ingvar Sigurgeirsson. 1996. Myndvarpakverið. Handbók fyrir kennara. Rannsóknarstofnun Kennaraháskóla Íslands.

Ingvar Sigurgeirsson. 1990. Stutt námskeið – strangur skóli! Leiðbeiningar um undirbúning og kennslu á stuttum námskeiðum. Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands, Reykjavík.

Jay, Antony og Ros Jay. 1996. Effective presentation. How to be a top class presenter. Útg. höfundar.

Jewett, Martha og Rita Margolies (ritstj.). 1987. [Fyrst gefin út 1979.] How to run better business meetings. A reference guide for managers. McGraw-Hill, Inc.

Laus við skrekkinn [myndband um ræðumennsku]. 1995. Námsgagnastofnun, Reykjavík.

Lyle, Jane. 1990. Kroppens språk. The Hamlyn Publishing Group Limited.

Margrét Pálsdóttir. 1989. Mælt mál. Skíma 28:38–45.

Margrét Pálsdóttir. 1989. Hljóðsnælda með bókinni Orð í belg. [Margrét les dæmi úr köflum sínum, 4. og 5. kafla.] Mál og menning, Reykjavík.

Margrét Pálsdóttir. 1990. Hlustunarefni við Málvísi I. [ýmiss konar hlustunarefni sem tengist fyrstu tveimur köflum bókarinnar, Málið í samskiptum manna og Talað mál. Handrit fylgir.] Námsgagnastofnun, Reykjavík.

Margrét Pálsdóttir o.fl. 1990. Nordspråknámskeið á Visingsö. Skíma 29:4–11.

Margrét Pálsdóttir. 1990. Markviss framsögn. Útg. höfundur.

Margrét Pálsdóttir. 1992. Talað mál. Mál og menning, Reykjavík.

Margrét Pálsdóttir. 1994. Frá Íslendingum til Isslidigga. Morgunblaðið. Þjóðhátíðarblað, 17. júní, bls. 58.

Newble, David og Robert Cannon. 1989. A handbook for teachers in Universities & Colleges. A guide to improving teaching methods. Kogan Page.

Nina Björk Eliasson. 1986. Sangbogen. Systime a/s, Herning.

Nyfløt, Sverre. 1987. Gissur Ó. Erlingsson þýddi úr norsku. Orðið er laust. Ráð og hugmyndir fyrir ræðufólk. Hörpuútgáfan, Reykjavík.

Kristensen, Birgitte og Bente Hovmand. 1986. BAK-þankar. Hólmfríður K. Gunnarsdóttir, Hulda Ólafsdóttir og Vilhjálmur Rafnsson þýddu. Vinnueftirlit ríkisins, Reykjavík.

Ramacharaka, Yogi. 1989. Hathayoga heilsufræðin. Vasaútgáfan, Reykjavík.

Eiríkur Örn Arnarson. 1987. Slakaðu á. Dr. Eiríkur Örn Arnarson hjálpar þér til þess að slaka á. [Hljóðsnælda.] Almenna bókafélagið, Reykjavík.

Wolstrup, Preben 1975. Den store bog om taler til enhver lejlighed. Chr. Erichsens Forlag.