Greinar

Heimir Pálsson
Bragfræði

1. Bragfræði

Sú fræðigrein sem fæst við að lýsa ytri formseinkennum hefðbundins skáldskapar eða bundins máls og skilgreina þær reglur sem þar er fylgt nefnist bragfræði. Í íslensku fjallar bragfræði einkum um hrynjandi, ljóðstafi, rím, ljóðlínur(vísuorð) og bragarhætti. Af þessum fimm þáttum skipta hinir þrír fyrstnefndu mestu fyrir málsögu og rannsóknir íslenskrar hljóðfræði, en tengjast að sjálfsögðu allir bókmenntasögunni og þar með almennri menningarsögu.

2. Hrynjandi

Í ljóðlist flestra þjóða má finna það sem kallað er HÁTTBUNDIN HRYNJANDI og er eins konar taktur sem myndast við það að á skiptast þung og létt atkvæði eftir tilteknum reglum. Í ritum um bragfræði er algengt að tala um bragliði og skipta þeim í rétta og öfuga bragliði, stýfða liði og forliði. Þetta er þó alls ekki fullnægjandi ef lýsa skal eðlilegri íslenskri hrynjandi, heldur sýnist skynsamlegt að hlusta allt í senn eftir bragaráherslu, framburðaráherslu og merkingaráherslu.

Bragaráhersla mótast ekki síst af því hvernig bragliðirnir skipa sér í HÁKVEÐUR og LÁGKVEÐUR.

Fyrsti bragliður eða kveða hverrar ljóðlínu fær nokkru þyngri bragaráherslu en hinn næsti og síðan skiptast á þung og létt kveða. Þessi skipting í hákveður og lágkveður verður svo forsenda fyrir réttri skipun ljóðstafa.

Í nútímaíslensku ræður áhersla hrynjandinni, en í fornu máli skipti lengd atkvæða mjög miklu. Það sést meðal annars af því að niðurlag hverrar ljóðlínu í dróttkvæðum hætti varð ævinlega að hafa sama snið: langt atkvæði + stutt atkvæði. Regluleg ljóðlína í þeim bragarhætti varð líka að hafa a.m.k. þrjú löng atkvæði (reyndar gátu tvö stutt atkvæði komið í stað eins langs eftir ströngum reglum). Sé ‘;—’; látið tákna langt atkvæði en ‘;⏑’; stutt má skýra þetta með dæmum. Tækar ljóðlínur í dróttkvæðum hætti eru til dæmis:

Þél höggr stórt fyr stáli (— — — ◡ — ◡)
Undrask öglis landa (— ◡ — ◡ — ◡)

En ótæk með öllu að fornum sið hefði verið línan:

Glaður var að gleði (◡ ◡ ◡ ◡ ◡ ◡)

þó svo hún virðist smíðuð með réttri setningu ljóðstafa og hendinga og eðlilegri hrynjandi eftir kröfum nútímamáls.

Annað dæmi til marks um gildi hljóðlengdarinnar að fornu var að lokabragliður í þriðju og sjöttu línu ljóðaháttar hefur næstum alltaf sniðið ◡ ◡:

en sé manvit mikið
síns til geðs gumi

ellegar einfaldlega ◡:

allt er víl sem var.

Frávik frá þessu eru að vísu greinilega leyfileg en þó ber flestum saman um að eitthvað sé athugavert ef lokabragliðurinn verður — ◡.

Í elsta íslenskum kveðskap, eddukvæðunum, virðist hrynjandin byggjast á sameiginlegri hefð germanskra mála og er stundum talað um hinn germanska frumbrag:

Megineinkenni þess bragar er blæstríð kveðandi þar sem hljómfall hins talaða máls er dregið fram og ýkt fremur en þvingað eins og oft ber við í kveðskap með mjög reglubundna hrynjandi.
(Vésteinn Ólason 1992:63).
Þessi skilningur hins germanska bragar byggir annars vegar á vitund um merkingarhrynjandi málsins og hins vegar lengd og bragarhrynjandi. Fyrir þeim skilningi tala einnig rannsóknir Kristjáns Árnasonar (1991) á dróttkvæðum hætti.

Freistandi er að líkja hrynjandi ljóðlistar við takt í tónlist, enda hefur það oft verið gert. Samt verður að leggja áherslu á að reglulegur taktur í tónlist er miklu bundnari og þá einkum háðari tíma (nótnalengd) en hrynjandi ljóðsins er. Flytjandi tónlistar getur ekki leyft sér eins mikil frávik frá skrifuðum takti og flytjandi ljóðs, sem getur breytt til næstum því eftir því sem andinn innblæs honum. Skýrt dæmi fæst með því að lesa upphátt ljóðlínur Jónasar Hallgrímssonar (1807–1845):

Nú andar suðrið sæla vindum þýðum,
á sjónum allar bárur smáar rísa
og flykkjast heim að fögru landi ísa

Hér er greinilega um að ræða mjög háttbundna hrynjandi þar sem skiptast á þung og létt atkvæði og mætti annaðhvort kalla réttan tvílið (Þ-L) þar sem hver braglína hefst á forlið ellegar þá tala um öfuga tvíliði (L-Þ). Samt er hægt að gefa sér mikið frelsi í hraða, dvöl á mismunandi orðum, áherslu — eða í einu orði: hrynjandi.

Næst mætti syngja þessar sömu línur, t.d. við lag Inga T. Lárussonar. Þá skerðist allt frelsi til muna. Að vísu er hægt að fara mishratt með lagið en sé ekki gætt að hlutföllum innan lagsins brenglast það og hljómar ranglega. Taktur lagsins er með öðrum orðum miklu bundnari en einstakir þættir í hrynjandi bragarháttarins.

3. Ljóðstafir

Helstu séreinkenni hefðbundins íslensks bragar eru STUÐLAR og HÖFUÐSTAFIR eða LJÓÐSTAFIR eins og þeir eru nefndir einu nafni. Stuðull merkir einnig ‘;stoð’; eða ‘;stólpi’; og í bragfræðinni er líkingin vafalaust hugsuð svo að stuðlarnir styðji formið, beri það með einhverjum hætti uppi. Það kemur vel heim við það að ljóðstafirnir birtast yfirleitt í merkingarríkum orðum, síður áherslulausum smáorðum. Stuðlar eru einn eða tveir og yfirleitt aðeins í stöku ljóðlínunum (vísuorðunum) en kallast á við höfuðstaf í hinum jöfnu.

Notkun ljóðstafa, eða stuðlasetning, felst í því að endurtaka með stuttu millibili sama eða samskonar hljóð í upphafi áhersluatkvæðis. Þegar sérhljóð eru í hlutverki ljóðstafa þarf ekki að endurtaka sama hljóðið því að hvert sérhljóð stuðlar líka við öll önnur sérhljóð. Þegar stuðlað er með samhljóði verður hins vegar að endurtaka sama hljóðið og reyndar er það ekki alltaf nóg því ‘;sp’; stuðlar aðeins við ‘;sp’;, ‘;sk’; aðeins við ‘;sk’; og ‘;st’; aðeins við ‘;st’;. Kveður svo rammt að þessu að jafnvel sníkjuhljóðið ‘;d’; í orðum eins og Snorri (sem er borið fram ‘;sdnorri’;) getur stuðlað við ‘;st’;:

Sturla kvað yfir styrjar-hjarli,
Snorri sjálfur á feigðar-þorra
(Matthías Jochumsson 1835–1920)

Höfuðstafur skal ávallt koma í fyrsta áhersluatkvæði jöfnu braglínanna. Stuðlarnir hafa hins vegar meira svigrúm í stöku braglínunum. Þó verður annar þeirra ávallt að sitja í áhersluþungum braglið, hákveðu. Ekki má heldur verða of langt á milli stuðlanna því þá virðast tengslin milli þeirra rofna og þeir ná ekki að binda saman braglínuna. Eins er um fjarlægð milli síðari stuðuls og höfuðstafs, þar má ekki verða meira en einn bragliður á milli og má þá orða regluna fyrir venjulega ferskeytlu svo: Síðari stuðull verður að vera í síðasta eða næstsíðasta braglið stöku braglínanna. Sé hann í síðasta bragliðnum (lágkveðunni) verður fyrri stuðullinn að vera í næstu hákveðu á undan.

Í fljótu bragði virðast þessar reglur mjög flóknar og ekki líklegar til þess að hafa verið virkar í ljóðagerðinni. Reynslan sýnir hins vegar hið gagnstæða. Reglurnar tileinka menn sér mjög fljótt með því að læra rétt kveðnar vísur og koma sér upp því sem kallað hefur verið „;brageyra“; og gerir þeim kleift að heyra hvort vísa er rétt kveðin — án þess að þurfa að kunna beinlínis reglur um stuðlasetningu.

Í fyrri alda kveðskap var meginreglan sú að stuðlasetningin tengdi saman tvær og tvær braglínur. Í kveðskap 20. aldar er margoft vikið frá þessari reglu og skáldin beita stuðlasetningu á sjálfstæðari hátt enn fyrr. T.d. er algengt að stuðla hverja línu fyrir sig og hafa þá ekki höfuðstaf í þeirri næstu:

Ég bíð þess sem ei verður, sem aldrei getur gerzt
ég bíð þess samt, ég bíð þess:
að dag einn fylli orð mín svo ungt og máttugt líf

höf og stormar hlýði mínum munni!
(Hannes Pétursson 1931–)

Ekki er heldur undantekningarlaust að stuðlar séu tveir. Ef braglínan er ekki lengri en þrír bragliðir (þ.e. a.m.k. þrjú þung atkvæði) þarf ekki nema einn stuðul. Þetta er talsvert algengt í eddukvæðaháttum og einnig í ljóðum tuttugustu aldar:

Blessað veri grasið
sem grær kringum húsin
bóndans og les mér
ljóð hans
(Snorri Hjartarson 1906–1986)

Ef braglína er lengri en fimm bragliðir skiptir hrynjandin henni í tvo hluta og kemur þá braghvíld á milli. Eru slíkar ljóðlínur stundum kallaðar samsettar línur. Þá geta fyrri og síðari hluti línunnar tengst saman með ljóðstöfum eða hvor hluti haft stuðla fyrir sig. Þetta sést ágætlega í tveim fyrstu línunum í kvæði Jónasar Hallgrímssonar, Ísland (braghvíldin táknuð með ‘;//’;, ljóðstafir feitletraðir):

Ísland! farsælda-frón // og hagsælda hrímhvíta móðir!
Hvar er þín fornaldar frægð // frelsið og manndáðin best?

Hér fellur fyrri línan í tvennt og er hvor hluti sér um stuðla; hin síðari er stuðluð eins og hún væri tvær línur í ferskeytlu og síðari hlutinn fær því aðeins höfuðstaf.

Þriðji möguleikinn í samsettum línum er sá að fyrri hluti stöku línunnar sé án ljóðstafa en tveir stuðlar í síðari huta hennar og höfuðstafur í fyrsta áhersluatkvæði næstu braglínu:

þér finnst þinn dalur lítill // og myrk og meinleg ævi;
þú minkar bráðum sjálfur — // og þá er allt við hæfi.
(Þorsteinn Erlingsson 1858–1914)

4. Rím

RÍM má með hóflegri einföldun skilgreina svo að það sé endurtekning áhersluatkvæða eða orða sem hljóma líkt. Venjulega hefst endurtekningin með sérhljóðinu sem áherslu ber og nær yfir eftirfarandi samhljóð og áherslulaus atkvæði. Samhljóð sem kunna að standa í upphafi atkvæðis koma hins vegar ekki við sögu. Þannig ríma saman fugl og rugl, bolli og skolli; kettlingur og vettlingur; ægilegur og nægilegur. Rím af þessu tagi er kallað ALRÍM, þar sem bæði sérhljóð og eftirfarandi samhljóð eru þau sömu í orðunum sem ríma. Í HÁLFRÍMI er einungis annað þessara atriða sameiginlegt, annað hvort sérhljóðið (t.d. fuglgull) eða samhljóðin (t.d. fuglhagl). Fyrrnefnda afbrigðið nefnist sérhljóðarím og hefur ekki verið hátt skrifað í íslenskri kveðskaparhefð þótt því bregði fyrir hér og þar. Það síðarnefnda kallast skothent rím og gegnir m.a. stóru hlutverki bæði í dróttkvæðum og rímum.

Í íslenskum kveðskap frá síðari öldum má kalla að rím sé einkum notað á tvennan hátt: endarím þar sem rímatkvæðin standa í lok braglínu og innrím þar sem rímatkvæði eru framar í línu. Endarím var ekki þáttur í elstu braglist germana og fer mjög lítið fyrir því í íslenskum kveðskap fyrstu aldirnar. Sérstök tegund innríms, svokallaðar hendingar eru hins vegar höfuðeinkenni dróttkvæðs háttar og afbrigða hans, auk þess sem þær koma við sögu í mörgum rímnaháttum. Hendingar í dróttkvæðum eiga þann skyldleika við endarímið að síðara rímatkvæðið í hverri línu er ávallt síðasta þunga atkvæði línunnar. Er því svo að sjá að hendingar og endarím hafi alla tíð verið notað í ákveðnum bragarháttum til þess að marka lok braglínu.

Ef rím tekur aðeins yfir eitt atkvæði er það nefnt KARLRÍM (ást : brást), taki það til tveggja atkvæða er það nefnt KVENRÍM (unna : kunna) en þriggja atkvæða rím nefnist VEGGJAÐ RÍM (sandali : skandali). — Í íslenskum ferskeytlum er algengast að stöku braglínurnar rími saman og aftur hinar jöfnu saman. Það er kallað VÍXLRÍM:

Yfir kaldan eyðisand
einn um nótt ég sveima.
Nú er horfið Norðurland,
nú á ég hvergi heima.
(Kristján Jónsson 1842–1869)

Er venja að tákna þessa rímstöðu svona: abab. Þegar samliggjandi línur ríma saman er það yfirleitt nefnt RUNURÍM en rímnahættir með því einkenni eru nefndir STAFHENDA (aabb) og SAMHENDA (aaaa). Vilji menn greina milli karl- og kvenríms þegar rímskipun er táknuð með þessum hætti er lítill stafur (a, b, c) látinn tákna karlrím en upphafsstafur (A, B, C) kvenrím. Samkvæmt því væri rímskipunin í vísunni hér að ofan táknuð: aBaB

Rímaður kveðskapur fyrri alda getur veitt mikilvægar vísbendingar um málsögu, einkum um þróun hljóðkerfisins. Breytingar á hljóðkerfinu hafa iðulega í för með sér breytingar á rími, annað hvort þannig að hljóð og orð sem áður rímuðu saman hætta að gera það eða öfugt. Sem dæmi má nefna að í fornum kveðskap var óhugsandi að orð eins og vinir og synir mynduðu aðalhendingu eða alrím þar eð ‘;i’; og ‘;y’; voru tvö ólík sérhljóð. Á 15. öld fara sum skáld að láta þessi hljóð ríma saman; það er til marks um að í máli þeirra var ekki lengur neinn munur á hljóðunum. Breytingu sem þessa er ekki hægt að lesa út úr rithætti — í stafsetningu er enn greint á milli ‘;i’; og ‘;y’; — en rímið kemur upp um hljóðbreytinguna.

5. Ljóðlínur – vísuorð

Áhersluþung og áherslulétt atkvæði skipa sér saman eftir tilteknum reglum og mynda braglínur eða vísuorð. Ljóðstafasetning og rím taka mið af slíkri skipun atkvæðanna og ráða miklu um mótun bragarhátta. Í hefðbundnum íslenskum bragarháttum eru vísuorðin ekki lengri en fjórar kveður eða bragliðir. Er sennilegt að sú vísuorðalengd ráðist af ljóðstöfunum, sem ná ekki að binda saman lengri línur en fimm kveður. Fimmliðuhátt eða stakhendu, sem m.a. er ríkjandi háttur í leikritum Shakespeares, má stuðla með íslenskum hætti eins og sést í þessum línum úr Rómeó og Júlíu í þýðingu Helga Hálfdanarsonar:

Ef taka mætti mark á smjaðri svefnsins,
þá ræð ég draum minn fyrir gleðifregn.
Létt situr brjóstsins herra á hástól sínum,
og óvænt lífsfjör lyftir mér í dag
langt yfir jörð á glöðu hugarflugi.

Fyrstu þrjár braglínurnar eru hér sér um stuðla en fjórða og fimmta braglína tengdar saman með stuðlum og höfuðstaf. Þetta er í fullu samræmi við íslenskar venjur. Í umfjöllun um ljóðstafi er hins vegar sýnt að í sexliðahættinum, hexametrum, verður að leysa línurnar í tvær ljóðstafaeiningar, líkt og þær liðist sundur í styttri vísuorð. Það er líka athyglisvert að Hallgrímur Pétursson (1614–1674) grípur til þess að ríma sexliðuna bæði með innrími og endarími þegar hann reynir að laga hana að íslenskum háttum:

Holdið of kátt veit fyrirfram fátt // hvað falla mun hægra,
reiðir sig þrátt á megn sitt og mátt // eða mannorðið frægra
(sbr. Kristján Árnason 1991:38)

Braglínum er yfirleitt skipað saman í vísur eða erindi. Virðist það hafa fylgt norrænu bragarháttunum frá upphafi Íslandsbyggðar og líklega mun lengur. Hins vegar eru kvæði þau sem varðveitt eru undir germanska frumbragnum ekki erindaskipt, hvort heldur eru fornháþýsk (t.d. Niflungaljóð) eða engilsaxnesk (t.d. Bjólfskviða). Á báðum þessum menningarsvæðum eru þó einnig þekktir erindaskiptir bragarhættir.

6. Bragarhættir

Í ritum um íslenska bragfræði hafa verið greindir tugir og jafnvel hundruð mismunandi bragarhátta, en bragarháttur er reglubundið bragform eða munstur sem tekur til hrynjandi, ljóðstafa, ríms og skiptingar í braglínur og erindi. Hér verður aðeins minnst á örfáa bragarhætti og skiptist umfjöllunin í fornhætti, órímaða og rímaða, rímnahætti og erlenda hætti.

6.1 Órímaðir fornhættir

Elstu íslensku bragarhættirnir eru taldir vera þeir sem kenndir eru við eddukvæði og kallaðir EDDUHÆTTIR, þ.e. fornyrðislag, málaháttur og ljóðaháttur, allir órímaðir. Fjórði órímaði fornhátturinn er kviðuháttur en hann kemur ekki fyrir á eddukvæðum. Samkvæmt íslenskri hefð á síðari öldum leikur sjaldan nokkur vafi á hrynjandi þessara hátta. Hún byggist á áherslunum þrem, merkingar-, bragar- og framburðaráherslu. Að fornu fór hrynjandin hins vegar líka eftir lengd atkvæðanna og virðist nútímafólki það nokkuð flókinn vefur.

6.1.1 Fornyrðislag

FORNYRÐISLAG er sá hátturinn sem venjulega er talinn standa næst germanska frumbragnum og hafa þróast beint frá honum. Samkvæmt íslenskri hefð er litið á háttinn sem átta braglína hátt þar sem hvert vísuorð hefur tvö áhersluatkvæði eða þung atkvæði en nokkuð óreglulegan fjölda áherslulausra eða léttra atkvæða, eins og hér er reynt að sýna með táknum (Þ=þungt atkvæði, L=létt atkvæði):

Hittust æsir
á Iðavelli,
þeir er hörg og hof
hátimbruðu;
afla lögðu,
auð smíðuðu,
tangir skópu
og tól gerðu.
(Völuspá)
6.1.2 Málaháttur

MÁLAHÁTTUR er nauðalíkur fornyrðislagi og þessir tveir hættir virðast líka oft blandast saman. Meginreglan segir að í vísuorðum málaháttarins séu þrjú ris eða áherslur, en ekki er ljóst hvort allar eru jafnþungar. Hér er dæmi úr Atlakviðu:

Drukku þar dróttmegir,
en dyljendr þögðu,
vín í valhöllu,
(v)reiði sást þeir Húna.
Kallaði þá Knéfröðr
kaldri röddu,
seggr hinn suðræni,
sat hann á bekk hám.

Augljóst er af dæminu að málahátturinn er hreint ekki reglulegur og hefur líklega þróast frá fornyrðislagi á löngum tíma.

6.1.3 Kviðuháttur
VIÐUHÁTTUR er reglulegastur órímuðu fornháttanna, enda sá eini sem notaður er af virðulegum dróttkvæðaskáldum, sem greinilega lögðu mikið kapp á formfestu. Í hættinum skiptast á þríkvæðar og ferkvæðar línur og eru þrjú atkvæði í fyrstu línunni, fjögur í þeirri næstu og svo koll af kolli. Undir þessum hætti yrkir Egill Skallagrímsson Arinbjarnarkviðu og er þar þessi vísa:

Hafðak endr
Ynglings burar
ríks konungs
reiði fengna
drók djarfhött
of dökkva skör,
létk hersi
heim of sóttan.

Hér er reglufestan greinilega orðin meiri en vænta má af munnlegri kveðskaparhefð og farin að minna meira á rithefðina.

6.1.4 Ljóðaháttur

LJÓÐAHÁTTUR er hinn eini edduháttanna sem er einungis kunnur af kvæðum sem varðveist hafa á Íslandi. Hver vísa ljóðaháttar er aðeins sex vísuorð og eru þriðja og sjötta vísuorð lengri en hin og sér um ljóðstafi. Hátturinn fær á sig talsverðan spakmælasvip þar sem löngu línurnar verða „;þyngri“; en hinar stuttu og boða erindislok eða málalyktir með sínum hætti. Dæmi eru auðsóttust til Hávamála:

Deyr fé,
deyja frændr,
deyr sjálfr hið sama.
Eg veit einn
að aldrei deyr:
dómr um dauðan hvern.

Einkenni háttarins eru augljós. Tvær fyrri línurnar í hvorum vísuhelmingi eru eins og í fornyrðislagi og mörgum hefur dottið í hug að hátturinn hafi orðið til við það að slengt var saman 3. og 4. vísuorði í venjulegum fornyrðislags-vísuhelmingi.

6.2 Rímaðir fornhættir

Endarím í nútímaskilningi virðist ekki hafa verið hluti af þeirri braghefð sem norrænir menn tóku með sér út til Íslands og hér sýnist einkum þörf að geta þriggja bragarhátta þar sem hendingar og endarím varða miklu, en það eru dróttkvæður háttur, hrynhenda og runhenda.

6.2.1 Dróttkvæður háttur

Elstu öruggu dæmi um DRÓTTKVÆÐAN HÁTT er að finna á sænskum rúnaristum frá því um 1000. Hátturinn kemur reyndar líka fyrir í vísum sem eignaðar eru Braga skáldi Boddasyni og talinn er hafa verið á dögum kringum 850 og hafa þá ort kvæðið Ragnarsdrápu. Erindi úr því kvæði eru þó ekki varðveitt fyrr en í EDDU Snorra Sturlusonar nálægt 1220 og verður að viðurkennast að margt hefur getað skolast til á þeim 370 árum sem þar liðu á milli. Um margt eru þó vísurnar sem Snorri tilfærir býsna fornlegar og vekur m.a. athygli að bragarhátturinn virðist ekki eins fastmótaður og í kvæðum sem talin eru yngri. Samt er ljóst að stefnt er að sex atkvæðum í hverju vísuorði og þar af eru þrjú áhersluþung. Stuðlasetning er reglubundin: tveir stuðlar í stöku vísuorðunum og höfuðstafur í þeim jöfnu. Hendingar eru aftur á móti óreglulegar og ekki með því lagi að skothendingar séu settar í stöku vísuorðin og aðalhendingar í hin jöfnu, en þessi eru megineinkenni dróttkvæðs háttar þegar hann er fullmótaður.

Best sjást hendingar dróttkvæðs háttar af dæmi. Þau hljóð sem ríma eru rituð með hástöfum, ljóðstafir feitletraðir:

Ek myNDa nú aNDask,
UNGr vask harðr í tUNGu,
seNN, ef sálu miNNi,
sORGlaust vissak bORGit;
veiTK, at væTKi of sýtik,
vALDi guð, hvar ALDri,
dauÐr verðr hverr, nema hÐumk
helvÍTi, skal slÍTa.
(Hallfreður Óttarsson vandræðaskáld; skv. sögunni um hann er vísan ort árið 1007.)
Skýringar

Mörgum virðast dróttkvæðar vísur næsta óskiljanlegar og veldur þar ýmislegt. Í fyrsta lagi eru kenningar mikið notaðar svo að stundum er fátt eitt nefnt „;réttum“; nöfnum. Konungarnir eru kallaðir gullbrjótar eða hringþveitar, hermaðurinn sverð-Freyr eða Ullur randar (skjaldar), konan ölselja eða hringa Hlín o.s.frv. Einnig koma fyrir mörg fágæt orð og oft er vísað í goðsagnir eða hetjusögur sem áheyrendur (eða lesendur) þurfa að kannast við til að skilja hvað við er átt. Þá er orðaröð í dróttkvæðum mjög ólík því sem gerist í mæltu máli. Samt má kalla að áheyrendum og síðar lesendum sé lögð líkn með þraut því ýmisleg hjálpartæki eru til.

Kenningasmíð dróttkvæðaskálda var ekki alltaf eins flókin og hún lítur út fyrir að vera. Fjöldi kenninga er sóttur í sama sjóðinn, hermanni líkt við goð og goðið kennt við vopn, skipið kallað hestsnafni og kennt við sjókonung, orrustan kölluð hátíð hræfuglanna og þar fram eftir götunum. Hlustendur hafa því fljótt lært að ráða í þennan orðaforða.

Á síðari öldum hafa verið gerðar merkar tilraunir til að endurvekja dróttkvæðan hátt og gera hann um leið ljóðrænni. Eru þar merkust dæmi Jónasar Hallgrímssonar í kvæðinu Grátittlingnum, þar sem meðal annars eru þessar vísur:

Ungur var eg, og ungir
austan um land á hausti
laufvindar blésu ljúfir,
lék eg mér þá að stráum.

En hretið kom að hvetja
harða menn í bylsennu,
þá sat eg enn þá inni
alldapur á kvenpalli.

Jónas gerir háttinn liðugri með því að nota þríliði í bland við tvíliðina og verður hvert vísuorð þá að jafnaði sjö atkvæði í stað sex.

6.2.2 Hrynhenda

HRYNHENDA eða hrynhendur háttur er á síðari öldum stundum kallaður Liljulag eftir að kunnasta helgikvæði Íslendinga, Lilja, var ort með því lagi. Hrynhendan virðist koma til sögunnar á elleftu öld og er eins konar skreyting eða víkkun á dróttkvæðum hætti með því að hvert vísuorð er lengt um einn braglið. Verða réttir tvíliðir (Þ-L) þá ríkjandi í hættinum og hrynjandin því reglulegri en áður þekktist. Tvær vísur úr Lilju, sem þá um leið eru til marks um skáldskapar- og málstefnu höfundarins, eru fullnægjandi til skýringar á þessum bragarhætti. Þótt skáldið geri lítið úr „;eddu reglu“; í fyrra erindinu þykir honum samt ástæða til að skreyta braginn með einkennum dunhendu í lokaerindi, en þá rímaði síðari hending í stöku vísuorðunum við fyrri hendingu í hinum jöfnu. Þegar sama rímatkvæði er notað í öllum vísuorðunum eins og hér sprettur upp endarím:

Veri kátar nú virða sveitir;
vættig þess, í kvæðis hætti
vorkynni, þótt verka þenna
vandag miðr en þætti standa;
varðar mest, til allra orða
undirstaðan sé réttlig fundin,
eigi glögg þótt eddu regla
undan hljóti að víkja stundum.

Sá er óðinn skal vandann velja
velr svo mörg í kvæði að selja
hulin fornyrði að trautt má telja,
tel eg að það má skilning dvelja.
Vel því að hér má skýr orð skilja,
skili þjóðir minn ljósan vilja,
tal óbreytiligt veitt af vilja,
vil eg að kvæðið heiti Lilja.

6.2.3 Runhenda

RUNHENDA eða runhendur háttur virðist koma til sögunnar á tíundu öld eða svo og er eini endarímaði fornhátturinn. Það orkar reyndar tvímælis að telja runhendu sérstakan bragarhátt því að nýmæli hans felast í því að endarími er bætt við ýmsa hætti sem fyrir voru, oftast fornyrðislag, en hrynjandi helst óbreytt.

6.3 Rímnahættir

RÍMUR voru öldum saman höfuðgrein íslensks kveðskapar. Þær komu fyrst til sögunnar á 14. öld og nutu vinsælda allt fram á 20. öld. Með rímunum kom fram sú bragtíska sem flestir kannast við sem „;hefðbundinn brag“; og einkennist af stuðlum og endarími. Rímnahættirnir eru ýmist 2, 3, eða 4 línur og eru ferskeyttu hættirnir elstir og algengastir. Réttir tvíliðir eru ráðandi í hrynjandi þeirra en einnig koma fyrir réttir þríliðir. Rímnahættirnir eru geysimargir og fjölbreyttir en þeim er skipt í þrjár aðalættir, ferskeytluætt, stafhenduætt og braghenduætt.

6.3.1 Ferskeytluætt

Elsta ríma sem varðveist hefur er Ólafs ríma Haraldssonar, sem skrásett var á FLATEYJARBÓK á ofanverðri 14. öld. Er jafnan talið að rímnakveðskapur hafi hafist á þeirri öld. Í Ólafs rímu hefur þegar mótast að nokkru sá bragarháttur sem vinsælastur og frjósamastur varð þau 600 ár sem rímur voru kveðnar á Íslandi. Þetta var ferskeytlan. Er til hennar rakin sérstök ætt bragarhátta. Einkenni ferskeytlu eru þau að hver vísa er fjórar braglínur með fjórum þungum atkvæðum í stöku braglínunum en þrem í hinum jöfnu. Fyrsta og þriðja lína enda yfirleitt á stýfðum braglið, þ.e.a.s. þungu atkvæði og rímið er víxlrím, en þá ríma saman 1. og 3. braglína annars vegar, 2. og 4. hins vegar:

Ferskeytlan er Frónbúans
fyrsta barnaglingur,
en verður seinna í höndum hans
hvöss sem byssustingur.
(Andrés Björnsson)

Hér sjást öll einkennin — að því viðbættu að leyfilegt er að skjóta léttu atkvæði inn fremst í línu (sbr. 3. braglínu) og er það venjulega kallað FORLIÐUR í bragfræðinni.

Af ferskeytlu mynduðust smám saman fjölmörg afbrigði og varð mikil íþrótt að kunna að nefna þau. Rímnaskáldin gerðu sér far um að skreyta háttinn, bæði með innrími og öðrum brögðum. HRINGHENDA þótti vandaður og skrautlegur háttur, en þá er innrím til viðbótar við endarímið:

Meðan glóð í gígum er,
gáski í blóði ungu,
munu ljóðin leika sér
létt á þjóðartungu.
(Ólöf frá Hlöðum)

En mest þótti samt mörgum til um það þegar rímfléttunni var svo fyrir komið að vísuna mátti lesa jafnt afturábak og áfram! Þá hét bragurinn SLÉTTUBÖND:

Grundar dóma, hvergi hann
hallar réttu máli.
Stundar sóma, aldrei ann
örgu pretta táli.
(Jón Þorgeirsson)

Þetta er lofsamleg mannlýsing en sé hún lesin afturábak kárnar heldur gamanið:

Táli pretta örgu ann,
aldrei sóma stundar.
Máli réttu hallar hann,
hvergi dóma grundar!

Á barokktímanum, sautjándu öld, gekk skreytifíkn íslenskra rímnaskálda hvað lengst og er vandséð hvernig komist verður lengra en Árni skáld Böðvarsson gerði í lokaerindi þriðju rímu Brávallarímna þegar hann kvað þessa ALDÝRU vísu:

Góðum rjóði glóða fljóða
gróður ljóða bjóði slóð
hljóða, fróðleiks hróður óðar
hnjóði ei Lóðins móða fljóð.

Hátturinn er, samkvæmt bragvísindum rímna, langhenda sextánmælt og aldýr. En um efni vísunnar segir útgefandi: „;Skáldið biður landsfólkið að lasta ekki rímuna.“;

6.3.2 Stafhenduætt

STAFHENDUÆTT nefnist önnur ætt ferhentra rímnahátta. Hún er að formi svipuð ferskeytlunni nema nú er hver braglína með fjórum þungum atkvæðum og rímið runurím. Þá heitir STAFHENDA ef tvær og tvær línur ríma saman, SAMHENDA ef þær ríma allar fjórar. Í stafhenduættinni má síðan finna ýmisleg afbrigði eftir dýrleika rímsins. Til dæmis að taka heitir þetta STAGHENDA (endarímorðin eru endurtekin í upphafi næstu línu, sbr. dunhentu vísuna úr Lilju, sjá hrynhendu):

Ör lét búa mastra mar,
marinn skall á súðum þar,
þar sem rétti kólga kló
kló þenjandi dröfnin hló.
(Árni Böðvarsson)

Næsta vísa rímunnar hefst svo á orðinu hló, og þannig koll af kolli. Má kalla talsverða íþrótt að koma þó svona skýrri merkingu og sjávarlýsingu fyrir í svo njörvuðum brag, hvað þá að geta sagt sögu í bundnu máli þegar frelsi sögumanns er sniðinn svona þröngur stakkur. Enn snúnari er þó samhenda sem venjulega er eignuð Bólu-Hjálmari og staghent og aldýr:

Nógan gefur snjó á snjó,
snjó um vefur flóa tó,
tófa grefur móa mjó,
mjóan hefur skó á kló.
6.3.3 Braghenduætt

BRAGHENDA var þriðja ætt rímnaháttanna og voru af henni tvö meginafbrigði, BRAGHENDA og AFHENDING. Þær skera sig úr að því leyti að braghenda hefur aðeins þrjú vísuorð og afhendingin tvö. Fyrsta lína braghendunnar hefur sex þung atkvæði en hinar línurnar fjögur. Venjulega rímuðu allar þrjár línur braghendunnar en algengt var þó að hafa skothent rím í hinni fyrstu. Það var kölluð BAKSNEIDD BRAGHENDA:

Sólskríkjan mín situr þarna á sama steini
og hlær við sínum hjartans vini
honum Páli Ólafssyni.

Sigurður Breiðfjörð lýsti hins vegar aðdáun sinni á afhendingunni:

Afhendingin er mér kærst af öllum brögum
þegar yrki óð af sögum.

6.4 Erlendir hættir

Á öllum öldum hafa íslenskar bókmenntir orðið fyrir margvíslegum áhrifum frá erlendum bókmenntum. Sjálfar rímurnar, hin séríslenska kveðskapargrein, voru að verulegu leyti sniðnar eftir fyrirmyndum í frönskum og enskum kvæðum (sbr. Véstein Ólason 1976). Enn augljósari eru þó fyrirmyndirnar að danskvæðum miðalda, sem bæði eru kveðin undir erlendum háttum og eru stundum góðar heimildir um slettur í málinu. Einn flokkur danskvæða eru SAGNADANSAR.

Á Íslandi er auðveldast að þekkja þessi kvæði á bragarháttunum. Í hverju erindi eru ýmist fjögur eða tvö vísuorð (þá er viðlagið ekki talið til erindisins) með rími XAYA eða AA (X, Y o.s.frv. er hér notað um órímuð vísuorð en A, B o.s.frv. um endarím) og mest fjórum risum í hverju vísuorði. Ljóðstafir eru ekki settir eftir íslenskum reglum. (Vésteinn Ólason 1979:12).

Eins og hér kemur fram eru viðlög eða stef fastir fylgifiskar flestra sagnadansa og VIKIVAKA. Er sennilegast að kvæðin hafi verið sungin hérlendis eins og danskvæðin í Færeyjum eru flutt, einn sungið fyrir en aðrir a.m.k. tekið undir viðlagið. Kvæðin eru illa varðveitt enda hafa þau verið búin að ganga lengi í munnlegri geymd þegar farið var að safna þeim á sautjándu öld. Engir höfundar eru kunnir og engum dettur í hug að unnt sé að finna „;frumtexta“; danskvæða. Ein gerð Karlamagnúsar kvæðis hefst svona (viðlagið sýnt með fyrstu tveim erindum):

Drottningin stár undir loftsins sala
mitt hjarta grór svo gjarna,
hlýddi á það hennar kóngur réð tala.
Sól og hin ljósa stjarna.
„Eg vilda mín drottningin væri dauð,
mitt hjarta grór svo gjarna,
þá skyldi eg unna þér, rósin rauð.“
Sól og hin ljósa stjarna.

Drottning spyr að skemmumey sín:
„Hvað talaði minn kóngur til mín?“

„Hann vildi mig í moldu
en þig á grænni foldu.“

„Skrökvar þú, Ingibjörg skemmumey mín,
annað talaði minn kóngur til þín.“

Í þessum kvæðum voru oftast sagðar átakamiklar ástarsögur og stundum þungur harmur kveðinn að persónum kvæðanna. Allt mat á þeim verður hins vegar að tengjast lögunum sem þeim fylgdu. Hér var verið að semja brag að hrynjandi tónlistarinnar rétt eins og tíðkast á síðari öldum um danslagatexta.

Nátengdur tónlist var einnig hinn elsti SÁLMAKVEÐSKAPUR á Íslandi. Ber því að meta hann í því ljósi, auk þess sem skiljanlegt er að fyrstu sálmaskáldin þyrðu lítið að víkja frá erlendu textunum af þeim einföldu ástæðum að þau óttuðust að gera sig sek um guðlast og ranga kenningu. Það var einmitt mikilvægt að útbreiða krossins orð Krists „frá allri villu klárt og kvitt“ eins og Hallgrímur Pétursson orðaði það. Með tímanum voru sálmahættirnir lagaðir að íslenskum bragreglum með stuðlum og höfuðstöfum eins og hefðin bauð. Með sálmunum bættust við margir nýir bragarhættir og voru sumir þeirra mikið notaðir á frumortum veraldlegum kvæðum.

Á síðari öldum hefur íslensk braglist verið auðguð mörgum nýjum bragarháttum. Þeir hafa jafnan verið sveigðir undir reglur ljóðstafa og íslenskrar hrynjandi, stundum svo að fyrirmyndirnar eru alls ekki auðþekktar. Oft hafa þessir erlendu bragargestir orðið skemmtileg viðbót við íslenska skáldskaparflóru og má þar nefna þann sem einna síðast haslaði sér völl á tuttugustu öldinni, enska lausavísnaháttinn LIMERICK, sem á íslensku er oftast kallaður LIMRA.

Rétt eins og í rímnakveðskapnum hafa limruskáld smíðað sér alls konar afbrigði háttarins og sumir rímleikirnir eru orðnir býsna ólíkir frumgerðinni:

Grauturinn brann,
gimbillinn rann,
prestur stóð í stólnum
í stóra svarta kjólnum
og þá jarmaði hann.
(Þorsteinn Valdimarsson).

Heimildaskrá

Björn K. Þórólfsson. 1965. Inngangur. Brávallarímur eftir Árna Böðvarsson. Rit Rímnafélagsins. VII. Bls. xi–ccxix. Rímnafélagið. Reykjavik.

Bragi Halldórsson [og] Knútur Hafsteinsson. 1995. Ljóðamál. Kver um bragfræði og stíl ljóða. Mál og menning. Reykjavík.

Böðvar Guðmundsson. 1993. Nýir siðir og nýir lærdómar — bókmenntir 1550–1750. Íslensk bókmenntasaga. II. (Ritstj. Vésteinn Ólason). Mál og menning. Reykjavík.

Helgi Hálfdanarson. 1995. Flutningur bundins máls. (Samið 1952). Tímarit Máls og menningar 56/4:4–17. Reykjavík.

Jón Helgason. 1959. Að yrkja á íslensku [birtist fyrst í Frón 1944]. Ritgerðakorn og ræðustúfar. Félag íslenskra stúdenta í Kaupmannahöfn. Reykjavík.

Kristján Árnason. 1991. The Rhythms of Dróttkvætt and other Old Icelandic Metres. Institute of Linguistics. University of Iceland. Reykjavík.

Óskar Ó. Halldórsson. 1972. Bragur og ljóðstíll. Hið íslenzka bókmenntafélag. Reykjavík.

Óskar Ó. Halldórsson. 1996. Bókmenntir á lærdómsöld 1550–1770. Hið íslenzka bókmenntafélag. Reykjavík.

Ragnar Ingi Aðalsteinsson. 1990. Bögubókin. Höfundur gaf út. Reykjavík.

Vésteinn Ólason. 1976. Nýmæli í íslenskum bókmenntum á miðöld. Skírnir. Tímarit Hins íslenzka bókmenntafélags. 150:68–87.

Vésteinn Ólason. 1979. Inngangur. Sagnadansar. Íslensk rit. 5. Rannsóknastofnun í bókmenntafræði og Menningarsjóður. Reykjavík.

Vésteinn Ólason. 1989. Vikivakakvæði. Íslensk þjóðmenning. Ritstjóri Frosti F. Jóhannsson. VI. Bls. 390–400. Bókaútgáfan Þjóðsaga. Reykjavík.

Vésteinn Ólason. 1992. Íslensk bókmenntasaga I. [Einkum kaflinn Bragfræði bls. 63–72.] Mál og menning. Reykjavík.