Greinar

Ásta Svavarsdóttir
Beygingafræði

1. Inngangur

1.1 Hvað er beyging?

Núþálegar sagnir
framsöguháttur viðtengingarháttur
eintala 1. pers. kann á veit kunni eigi viti nú-tíð
2. pers. kannt átt veist kunnir eigir vitir
3. pers. kann á veit kunni eigi viti
fleirtala 1. pers. kunnum eigum vitum kunnum eigum vitum
2. pers. kunnið eigið vitið kunnið eigið vitið
3. pers. kunna eiga vita kunni eigi viti
boðháttur
(2. pers.et.)
eigðu vittu
lýsingarháttur
nútíðar
kunnandi eigandi vitandi
eintala 1. pers. kunni átti vissi kynni ætti vissi þá-tíð
2. pers. kunnir áttir vissir kynnir ættir vissir
3. pers. kunni átti vissi kynni ætti vissi
fleirtala 1. pers. kunnum áttum vissum kynnum ættum vissum
2. pers. kunnuð áttuð vissuð kynnuð ættuð vissuð
3. pers. kunnu áttu vissu kynnu ættu vissu
lýsingarháttur
þátíðar
kunnað átt vitað

Beyging er breyting á formi orða eftir merkingu og umhverfi. Mörg orð koma fyrir í fleiri en einni mynd og val orðmyndar hverju sinni ræðst af tilteknum merkingarþáttum eða af sambandi orðanna við önnur orð í setningunni. Setningapör þar sem öll orðin eru hin sömu og orðaröðin eins geta haft ólíka merkingu:

  1. Strákurinn fer klukkan átta
    Strákarnir fara klukkan átta
  2. Guðjón kemur í vikunni
    Guðjón kom í vikunni
  3. Hann fór með mömmu sinni til læknis
    Hann fór með mömmu sína til læknis
  4. Stelpan stríddi stráknum
    Stelpunni stríddi strákurinn

Munurinn kemur fram í mismunandi beygingarmyndum eins eða fleiri orða og felur í sér merkingarandstæðu eða andstætt hlutverk orðanna. Munur setninganna í (1) snertir fjölda, í (2) ræðst hann af tímasetningu, í (3) af sambandi þeirra sem koma við sögu og í (4) af hlutverki þeirra, hvor er gerandi og hvor þolandi stríðninnar. Einstakir beygingarþættir af þessu tagi kallast formdeildir.

Til að hægt sé að líta á samband tveggja orðmynda sem beygingu verða hliðstæðar myndir að vera til af öllum eða velflestum orðum af sama tagi (sama orðflokki) og munur á merkingu eða hlutverki orðmyndanna verður að vera sams konar í þeim öllum. Þetta þýðir t.d. að fjöldi eða tala er beygingarformdeild í máli ef reglulegar formbreytingar í afmörkuðum hluta orðaforðans haldast í hendur við reglulega breytingu á merkingarþættinum þannig að önnur orðmyndin táknar ‘einn’ af einhverju en hin ‘marga’ af því sama. Það er t.d. raunin í íslenskum nafnorðum:

strákur ~ strákar
hundur ~ hundar
hestur ~ hestar
barn ~ börn
folald ~ folöld
stelpa ~ stelpur
kind ~ kindur
o.s.frv.

Formbreytingin er ekki alltaf sú sama en mergur málsins er sá að á milli orðmyndanna tveggja er alltaf hliðstætt samband – önnur vísar til eins og hin til fleiri einstaklinga eða eintaka en að öðru leyti er merking þeirra nákvæmlega sú sama.

Sá hluti orðaforðans sem beygingarformdeild tekur til getur verið misstór frá einu tungumáli til annars. Í íslensku er tala t.d. beygingarformdeild í flestum beygjanlegum orðum, bæði fallorðum og sögnum, en í ensku tengist hún fyrst og fremst nafnorðum og fornöfnum:

SLENSKA:

Hann keypti nýjan bíl
Þeir keyptu nýja bíla

ENSKA:

He bought a new car
They bought new cars

Mynd allra orðanna í íslensku setningunni breytist í fleirtölu – fornafns, sagnar, lýsingarorðs og nafnorðs – en í þeirri ensku breytist einungis fornafnið og nafnorðið auk þess sem óákveðni greinirinn hverfur.

Beygingar eru misáberandi einkenni tungumála. Munurinn getur bæði falist í fjölda beygingarformdeilda og umfangi þeirra – með öðrum orðum hvað þær ná til stórs hluta orðaforðans. Andstæða í merkingu eða hlutverki sem táknuð er með beygingu í einu máli kemur stundum alls ekki fram á kerfisbundinn hátt í öðru máli. Það eru t.d. til tungumál þar sem tala er ekki formdeild og þar af leiðandi ekki gerður neinn formlegur munur á eintölu og fleirtölu. Í öðrum tilvikum birtist sama andstæða í tveimur eða fleiri málum en á ólíkan hátt. Í íslensku kemur merkingarhlutverk nafnorða t.d. fyrst og fremst fram í mismunandi fallmyndum en í málum sem hafa enga eða mjög takmarkaða fallbeygingu gegnir orðaröðin aftur á móti lykilhlutverki og þar skipa forsetningar líka stóran sess:

ÍSLENSKA:

  1. Hundurinn eltir köttinn
  2. Köttinn eltir hundurinn
  3. Kötturinn eltir hundinn

DANSKA:

  1. Hunden jager katten
  2. Katten jager hunden

Í íslensku merkja a og b það sama þótt orðaröðin sé önnur því orðmyndirnar eru þær sömu í báðum. Aftur á móti hefur c gagnstæða merkingu. Í dönsku sker orðaröðin ein úr um merkingarhlutverk nafnorðanna svo þar hlýtur merking b alltaf að vera andstæða a. Fallbeygingin leiðir því til þess að oft er hægt að segja það sama á fleiri en einn veg í íslensku og öðrum málum sem hafa föll, ekki bara með öðrum orðum heldur líka með öðru orðalagi:

  1. Jón missti konu sína unga
  2. Konu sína missti Jón unga
  1. Ég sendi vinkonu minni langt bréf
  2. Ég sendi langt bréf til vinkonu minnar

1.2 Beyging og orðmyndun

Ekki eru allar formbreytingar orða beyging því eitt orð er líka leitt af öðru með svipuðum breytingum, ýmist með viðbótum við orðstofninn: breyta ~ breyting, versla ~ verslun, glaður ~ glaðlegur eða öðrum breytingum á honum: kátur ~ kæti ~ kæta og kallast slík orðmyndun afleiðsla.

Yfirleitt eru tiltölulega skýr mörk milli orðmyndunar og beygingar og auðvelt að greina hvort tvær formlega og merkingarlega tengdar orðmyndir eru beygingarmyndir sama orðs eða myndir tveggja skyldra orða þótt mörkin geti verið óljós í stöku tilviki.

Í fyrsta lagi hafa tvær beygingarmyndir sama orðs alltaf nákvæmlega sömu merkingu þegar frá er talin sú merkingarandstæða sem beygingin felur í sér. Orðmyndirnar krakki og krakkar merkja t.d. það sama að öðru leyti en því að sú fyrri, sem er eintala, vísar til eins en sú síðari, sem er fleirtala, til tveggja eða fleiri. Beygingarmyndir orðs mynda líka eins konar heild þannig að ef breytingar verða á merkingu orðsins ná þær jafnt til þeirra allra. Þegar farið var að nota orðið skjár í nútímamerkingu þess – um sjónvörp, tölvur og fleiri tæki – gilti það ekki einungis um orðmyndina skjár heldur líka skjá, skjáir o.s.frv. Tvö skyld orð lifa aftur á móti hvort sínu lífi þótt upprunalega hafi annað verið leitt af hinu og hvort þeirra sem er getur orðið fyrir merkingarbreytingum sem ekki snerta hitt. Formlega og merkingarlega er samband beygingarmynda því að jafnaði nánara og reglulegra en samband skyldra orða.

Í öðru lagi nær beyging almennt séð til allra orða af tilteknum flokki þótt sú regla sé ekki án undantekninga fremur en aðrar. Afleiðsla er hins vegar miklu tilviljunarkenndari, jafnvel þau ferli sem eru einna reglulegust.

Í þriðja lagi hefur beyging aldrei áhrif á orðflokk en afleidd orð falla oftar en ekki í annan flokk en orðin sem þau eru dregin af, þannig að nafnorð er t.d. leitt af sögn: kennari af kenna eða lýsingarorð af nafnorði: skítugur af skítur.

Loks má nefna að afleidd orð fá sína eigin beygingu og þeir orðhlutar sem leiða orð af orði, svonefnd viðskeyti, standa jafnan á undan öllum beygingarendingum í orðmyndinni því þeir eru hluti af stofni orðsins:

skip+un-um   (kvk.no. í þgf.ft. < so. skipa)
glað+leg-ast-ur  (lo. í est.kk.nf.et. < lo. glaður)

Röð orðhlutanna er því þannig að fyrst kemur rótin og síðan orðmyndunarviðskeyti. Saman mynda þau stofn orðsins. Þar á eftir fer svo beygingarendingin eða -endingarnar.

1.3 Tengsl beyginga og setningagerðar

Beyging er ekki einangrað fyrirbæri og einstakar orðmyndir verða ekki túlkaðar nema í samhengi því oft getur sama orðmynd haft mismunandi hlutverk og merkingu. Orðmyndin ræður segir manni t.d. ósköp lítið ein og sér, hún öðlast ekki merkingu fyrr en hún birtist í tengslum við önnur orð:

  1. Margar RÆÐUR voru haldnar í afmælinu
  2. Þú RÆÐUR þessu

Það sést einungis af samhenginu að í a er orðmyndin fleirtala af nafnorðinu ræða en í b er nákvæmlega sama orðmynd aftur á móti nútíð sagnarinnar ráða. Þetta er mjög algengt og sumar orðmyndir eru ekki bara tvíræðar heldur margræðar. Menn hafa t.d. leikið sér með margræðni myndarinnar á. (Sjá mynd.)

Trausti á Á á á.

Þarna kemur sama orðmynd fram sem forsetningin á, bæjarnafnið Á, beygingarmynd sagnarinnar eiga (3. pers. et. nt.) og beygingarmynd nafnorðsins ær (þf. et.).

  • Beygingardæmi: Núþálegar sagnir, kunna, eiga, vita.

  • Beygingardæmi: mús, lús, kýr, ær, mær, hönd.

Margt í beygingu orða ræðst af stöðu þeirra og hlutverki í setningum og af sambandi þeirra við önnur orð. Mynd nafnorðs byggist t.d. bæði á stöðu þess gagnvart sögninni og því hver sögnin er:

SVEINN ekur bílnum
SVEINN keyrir bílinn
Ég ók SVEINI heim
Ég keyrði SVEIN heim

Og það er ekki einungis nafnorðið sem lýtur stjórn sagnarinnar heldur verður hún líka fyrir áhrifum frá nafnorðinu sem stendur á undan henni:

STELPAN FER illa með dótið sitt
STELPURNAR FARA illa með dótið sitt

Það er með öðrum orðum ákveðið samræmi milli sagnmyndar og nafnorðs. Á svipaðan hátt er samræmi milli beygingarmyndar nafnorðs og orða sem mynda setningarlega heild (setningarlið) með því:

Gamla konan prjónaði ÞESSA HLÝJU OG FALLEGU PEYSU
Gamla konan prjónaði ÞESSAR HLÝJU OG FALLEGU PEYSUR

Þetta er nefnt sambeyging.

Samband beygingar og setningagerðar felst líka í því að sömu eða hliðstæð fyrirbæri eru ýmist táknuð beygingarlega eða setningarlega. Dæmi um að það sama sé sýnt á mismunandi hátt eftir því hvaða orð eiga í hlut má sjá í setningum sem fela í sér samanburð:

Elín er GLAÐARI í dag en í gær
Elín er MEIRA UNDRANDI í dag en í gær

Hreinn er FEGNASTUR af öllum
Hreinn er MEST HISSA af öllum

Merking orðasambandanna meira undrandi og mest hissa er þarna hliðstæð merkingu ákveðinna beygingarmynda af einstökum lýsingarorðum.

2. Formdeildir

2.1 Hvað er formdeild?

Tilteknir merkingarþættir eru byggðir inn í málkerfið þannig að þeir koma fram hvenær sem fólk segir eitthvað eða skrifar. Þessir þættir felast í einföldum andstæðum eins og EINN ~ FLEIRI EN EINN, LIÐIÐ ~ EKKI LIÐIÐ, ÉG (sem tala) ~ ÞÚ (sem talað er við/til) ~ AÐRIR. Merkingarandstæðan tengist alltaf einhvers konar formlegum mun. Hún birtist gjarnan í kerfisbundnum breytingum á formi orðanna: tölva (ein) ~ tölvur (fleiri en ein), borða (ekki liðið) ~ borðaði (liðið). Hún getur þó líka komið fram sem reglubundin orðasambönd eða setningagerðir: er að borða (yfirstandandi) ~ búin(n) að borða (lokið). Loks eru slíkar merkingarandstæður eðlislægar sumum orðum, t.d. má segja að andstæðan EINN ~ FLEIRI EN EINN greini að merkingu orðanna annar og báðir, en þær koma yfirleitt ekki fram á jafn kerfisbundinn hátt í orðaforðanum og í formi orða eða setningagerð. Merkingarþættir af þessu tagi kallast formdeildir.

Þar sem formdeildir eru hluti málkerfisins hafa málnotendur þá merkingarþætti sem í þeim felast ekki nema að takmörkuðu leyti á valdi sínu – þeir velja að vísu milli andstæðra póla en þeir geta ekki sniðgengið þá alveg. Sá sem segir frá atburði á íslensku hefur það í hendi sér hvort hann tiltekur nákvæmlega hversu margir koma við sögu og hvort hann tímasetur atburðinn nákvæmlega eins og í setningunum í (1). Hann kemst þó aldrei hjá því að láta í ljós hvort einungis er um einn þátttakanda að ræða eða marga og heldur ekki hvort atburðurinn er um garð genginn eða ekki. Ástæðan er sú að orðin sem hann velur verða að vera annaðhvort í eintölu (EINN ÞÁTTTAKANDI) eða fleirtölu (MARGIR ÞÁTTTAKENDUR) og sögnin annaðhvort í nútíð (EKKI LIÐIÐ) eða þátíð (LIÐIÐ) eins og sést í (2)a–d:

    1. Einn strákur dettur alltaf í vatnið á sunnudögum
    2. Þrír strákar duttu í vatnið fyrir hádegi í gær
    1. Strákurinn dettur í vatnið (EINN; EKKI LIÐIÐ)
    2. Strákarnir detta í vatnið (MARGIR; EKKI LIÐIÐ
    3. Strákurinn datt í vatnið (EINN; LIÐIÐ)
    4. Strákarnir duttu í vatnið (MARGIR; LIÐIÐ)

Þetta er vegna þess að tala og tíð eru formdeildir í íslensku og reyndar í mjög mörgum tungumálum öðrum.

Formdeildir byggjast alltaf á a.m.k. tveimur andstæðum pólum, bæði formlega og merkingarlega. Þá er stundum sagt að andstæðan sé tvíhliða og það á t.d. við um tölu og tíð. Andstæðir pólar geta verið fleiri en eru þó sjaldan fleiri en svo að þá megi telja á fingrum annarrar handar. Fjöldinn er breytilegur frá einni formdeild til annarrar, t.d. fela formdeildirnar kyn og fall í sér marghliða andstæðu í íslensku því kynin eru þrjú og föllin fjögur. Oft hefur annar eða einn póll andstæðunnar víðari og almennari skírskotun en hinn eða hinir. Er þá sagt að hann sé ómarkaður gagnvart hinum.

2.2 Beygingarformdeildir og aðrar formdeildir

Bæði tíð og tala eru formdeildir í íslensku og þar sem þær koma fram í breytilegri mynd orða kallast þær beygingarformdeildir. Beygingarformdeildir geta náð til misstórs hluta orðaforðans eins og þessar tvær sýna því tala kemur bæði fram í fallorðum og sögnum en tíð kemur aðeins fram í sögnunum.

Andstæður í merkingu og hlutverki sem táknaðar eru kerfisbundið í málinu geta líka komið fram á annan hátt, einkum setningarlega í ýmiss konar orðasamböndum. Tími og afstaða í tíma skipta miklu máli í frásögn af atburðum eða gjörðum fólks. Hin beygingarlega tíð sagnarinnar, þ.e.a.s. hvort hún er í nútíð eða þátíð, sýnir hvort það sem sagt er frá er liðið eða ekki þegar greint er frá því. Tíðin táknar með öðrum orðum afstöðuna milli innri tíma setningarinnar og ytri tíma. Afstaða þeirra atburða sem sagt er frá hvers til annars er líka táknuð kerfisbundið í íslensku en það er ekki gert beygingarlega heldur setningarlega. Samband hjálparsagnarinnar hafa og aðalsagnarinnar táknar að það sem sambandið vísar til gerist á undan einhverju öðru sem verið er að segja frá:

Hann fer þegar hann HEFUR LOKIÐ við verkið
Brynja HAFÐI ÁTT húsið lengi þegar hún seldi það

Enn eitt sjónarhorn sem snertir tíma er staða þess sem sagt er frá, t.d. hvort því er lokið eða ekki, hvort það er að hefjast eða stendur yfir. Þetta er látið í ljós með sagnasamböndum sem stundum eru kennd við horf:

Krakkarnir ERU AÐ BORÐA (ÓLOKIÐ)
Krakkarnir ERU BÚNIR AÐ BORÐA (LOKIÐ)

Trausti FER AÐ KOMA (ÓLOKIÐ)
Trausti ER BÚINN AÐ KOMA (LOKIÐ)

Sambönd af þessu tagi eru stundum kölluð samsett beyging vegna þess að þau gegna svipuðu hlutverki og beyging orða.

Loks geta merkingarandstæður, sem stundum birtast kerfisbundið í formi orða – þ.e.a.s. sem beyging – eða í tilteknum orðasamböndum sem setningarlegar formdeildir, verið eðlislægur eiginleiki sumra orða. Fallorð, önnur en nafnorð, beygjast í kyni því mynd þeirra breytist eftir því hvert kynið er: glaður (kk.) ~ glöð (kvk.) ~ glatt (hk.); báðir (kk.) ~ báðar (kvk.) ~ bæði (hk.). Málfræðilegt kyn er aftur á móti samgróið íslenskum nafnorðum því hvert nafnorð hefur ákveðið og óumbreytanlegt kyn. Þar er því ekki um beygingu að ræða heldur fast einkenni orðsins. Gera verður greinarmun á náttúrulegu og málfræðilegu kyni. Málfræðilegt kyn er formlegt einkenni allra nafnorða sem hefur áhrif á beygingu þeirra: rót ~ rótin ~ flt. rætur (kvk.); rót ~ rótið (hk.; ekki til í fleirtölu). Kyn nafnorðsins ákvarðar líka mynd þeirra orða sem tengjast því, t.d. lýsingarorða: GÓÐ saga (kvk.); GOTT ljóð (hk.). Náttúrulegt kyn er aftur á móti merkingarþáttur. Hann kemur bara fram í sumum nafnorðum því karlkyn og kvenkyn í þeim skilningi geta einungis tengst lifandi verum. Kyn sem formdeild í íslensku tekur bara til málfræðilega kynsins þótt vissulega fylgist málfræðilegt og náttúrulegt kyn oft og tíðum að.

2.3 Formdeildir í íslensku og öðrum tungumálum

Beygingar eru misáberandi einkenni á tungumálum en í öllum málum eru ýmsar merkingarlegar og málfræðilegar andstæður samt táknaðar kerfisbundið með reglulegum breytingum á formi orða eða setninga. Enda þótt sömu formdeildir komi fram í mismunandi tungumálum getur munurinn verið margvíslegur.

Andstæða sem er formdeild í einu máli, beygingarleg eða setningarleg, þarf ekki að vera það í öðru en jafnvel þótt sama formdeild sé í tveimur málum kemur hún oft fram á ólíkan hátt. Hún getur t.d. náð til misstórs hluta orðaforðans í málunum eða andstæðurnar sem hún felur í sér verið mismarghliða. Þetta sést t.d. með því að bera saman málfræðilegt kyn í íslensku og nokkrum nágrannamálum. Kyn er formdeild í öllum norrænu málunum.

Germönsk mál.

Í íslensku, færeysku og sumum norskum mállýskum er greint kerfisbundið milli þriggja kynja en einungis tveggja í hinum málunum, samkyns og hvorugkyns. Franska hefur líka málfræðilegt kyn en þar er gerður greinarmunur á karlkyni og kvenkyni en ekkert hvorugkyn er til. Í ensku er aftur á móti ekki málfræðilegt kyn:

ÍSLENSKA:

GARÐURINN er fallegur. Hefur þú séð HANN? (karlkyn)
RÓSIN er falleg. Hefur þú séð HANA? (kvenkyn)
TRÉÐ er fallegt. Hefur þú séð ÞAÐ? (hvorugkyn)

DANSKA:

HAVEN er smuk. Har du set DEN? (samkyn)
ROSEN er smuk. Har du set DEN? (samkyn)
TRÆET er smukt. Har du set DET? (hvorugkyn)

FRANSKA:

LE JARDIN est beau. Tu l'a vu? (karlkyn)
LA ROSE est belle. Tu l'a vue? (kvenkyn)
L'ARBRE est beau. Tu l'a vu? (karlkyn)

ENSKA:

THE GARDEN is beautiful. Have you seen IT?
THE ROSE is beautiful. Have you seen IT?
THE TREE is beautiful. Have you seen IT?

Í frönsku er tíð formdeild eins og í íslensku en þar eru andstæðir pólar fleiri. Í íslensku er einungis greint milli þess sem er liðið (þátíð) og þess sem ekki er liðið (nútíð) en í frönsku nær aðgreiningin einnig til hins ókomna (framtíð):

ÍSLENSKA:

Barnið SEFUR (núna/á morgun) (EKKI LIÐIÐ: nútíð)
Barnið SVAF (í gær) (LIÐIÐ: þátíð)

FRANSKA:

L'enfant DORT (maintenant) (YFIRSTANDANDI: nútíð)
L'enfant DORMIRAIS (demain) (ÓKOMIÐ: framtíð)
L'enfant DORMAIS (hier) (LIÐIÐ: þátíð)

Nútíðarmynd íslensku sagnarinnar vísar jafnt til framtíðar og nútíðar en í frönsku er sín myndin fyrir hvora.

3. Formleg greinimörk beygingar

Beyging kemur ævinlega fram sem einhvers konar tilbrigði í mynd orðs. Það getur því birst í a.m.k. tveimur mismunandi myndum sem skiptast á eftir merkingu og umhverfi. Aftur á móti er svolítið breytilegt hvers konar breyting verður á formi orðsins. Algengast er að beyging komi fram í sérstökum orðhlutum sem er bætt við stofn orðsins. Í íslensku eru það alltaf endingar en einnig eru til mál þar sem þeim er skeytt framan við eða jafnvel inn í orðstofninn. Beygingin felst í því að þessum orðhlutum er bætt við, skipt um þá eða þeir felldir brott allt eftir því hver beygingarmyndin er: strák-ur ~ strák- ~ strák-ar ~ strák-a.

Stundum svarar einn merkingarþáttur til hverrar beygingareiningar og í sumum málum er það meginreglan. Komi margar formdeildir fram í einni og sömu orðmyndinni eru formlegu einingarnar þá jafnmargar þeim. Í íslensku er hins vegar algengast að formin séu samsett þannig að ein ending tákni fleiri en einn merkingarþátt í senn: strák-ar (fleirtala + nefnifall), (við) hlaup-um (fleirtala + 1. persóna). Einstaka formdeild hefur þó sérstakt greinimark eða -mörk sem ekki hafa annað hlutverk. Það á t.d. við um stigbreytingu lýsingarorða: fljót-AR-i, fljót-AST-ur og einnig tíð í svonefndum veikum sögnum: skreyt-T-um. Í þessum orðmyndum tákna orðhlutarnir ‘-ar-’, ‘-ast-’ og ‘-t-’ eingöngu miðstig, efsta stig og þátíð. Á eftir þeim fer svo annar orðhluti, ending, sem táknar aðra beygingarþætti.

Samfara beygingunni koma fram tilbrigði í stofni sumra orða. Oft tengjast stofnbreytingar mismunandi endingum: saga ~ sögu, þáttur ~ þættir, fjörður ~ firði ~ fjarðar, glaður ~ glöðum, brjóta ~ brýtur. Í sumum tilvikum er þó engin ending og þá bera þessar breytingar beyginguna nánast uppi: barn ~ börn, kem ~ kom, fagur ~ fögur. Stofntilbrigði af ýmsu tagi eru mjög algeng í íslensku en í flestum tilvikum koma þau fram ásamt endingum og gegna ekki höfuðhlutverki í beygingunni.

4. Beygingarlýsingar

4.1 Beygingafræði

Beygingafræði er sú grein málfræðinnar sem fæst við að lýsa beygingum og beygingakerfum tungumála. Beyginga- og orðmyndunarfræði eru oft spyrtar saman þar sem báðar fást við greiningu orðmynda – annars vegar beygingarmynda og hins vegar samsettra og afleiddra orða – og þessar greinar eru stundum nefndar einu nafni orðhlutafræði. Beygingar snerta líka viðfangsefni setningafræði og þeim eru oft gerð nokkur skil á þeim vettvangi, sérstaklega formdeildum sem tengjast sambandi orða innan setninga eins og fall.

Beygingafræði á sér langa sögu sem hagnýt grein við kennslu og nám tungumála, sérstaklega klassísku málanna latínu og grísku þar sem eru ríkulegar beygingar. Lengi vel var latína líka skyldunámsgrein í vestrænum menntaskólum, þannig að margir kynntust beygingum af eigin raun hvort sem þær voru áberandi í móðurmáli þeirra eða ekki. Einnig hafa beygingakerfi ýmissa tungumála og þróun þeirra verið rannsökuð um langt skeið. Þegar leið á 20. öldina dvínaði nokkuð áhuginn á beygingafræði sem rannsóknarefni. Um tíma beindist áhugi málfræðinga mjög að hljóðkerfisfræði og síðan setningafræði en beygingafræði féll í skuggann, a.m.k. sem sjálfstæð grein. Það kann líka að hafa haft sín áhrif að nýjar hugmyndir og kenningar í málvísindum, sem einkum eru raktar til bandaríska málfræðingsins Noam Chomsky, byggðust í upphafi fyrst og fremst á rannsóknum á ensku þar sem beygingar eru ekki fyrirferðarmiklar. Á síðasta fjórðungi aldarinnar beindust þó sjónir manna aftur að beygingafræði og áhugi málvísindamanna á henni hefur farið sívaxandi.

4.2 Beygingardæmi og beygingarflokkar

Hin hefðbundna leið til að lýsa beygingu orða er að setja beygingarmyndirnar upp í eins konar töflur þar sem hver mynd á sitt fyrirfram ákveðna sæti. Slíkar töflur nefnast beygingardæmi. Til að lýsa kerfinu í heild eru orðin flokkuð saman eftir því hvernig þau beygjast og eitt eða fleiri beygingardæmi gefin sem sýnishorn fyrir hvern beygingarflokk. Þannig er beygingu íslenskra orða lýst í flestum handbókum um málfræði og í kennslubókum í íslensku. Með þessu móti er hægt að gefa nákvæmt og tiltölulega skýrt yfirlit yfir beygingakerfið.

Flokkunin tekur mið af ákveðnum beygingareinkennum, fyrst og fremst endingum tiltekinna beygingarmynda en að nokkru leyti einnig af hljóðbrigðum í stofni. Yfirleitt er horft framhjá smávægilegum tilbrigðum, einkum þeim sem fylgja almennum reglum og eru fyrirsegjanleg út frá stofni orðs eða öðrum beygingarmyndum. Það getur bæði átt við um tilbrigði í stofni orðanna og í öðrum endingum en þeim sem flokkunin miðast við. Orð sem teljast til sama flokks beygjast því ekki endilega eins í öllum smáatriðum þótt meginviðmiðin séu hin sömu. Einnig má nefna að höfundar kennslubóka og handbóka hafa ekki allir nákvæmlega sömu viðmið. Það getur valdið því að flokkarnir standist ekki að öllu leyti á og að fjöldi flokka og flokkun einstakra orða sé örlítið breytileg frá einni málfræðibók til annarrar. Munurinn er þó yfirleitt mjög lítill.

Beygingardæmi gefur glögga mynd af beygingarmyndum hvers orðs og sambandi þeirra innbyrðis. Þar sést því vel hvað myndunum er sameiginlegt og hvað greinir þær að. Þegar orðum er skipað í beygingarflokka er aftur á móti lögð megináhersla á það sem greinir þau að enda byggist flokkunin á því. Það fellur þá óhjákvæmilega í skuggann að mörg beygingareinkenni eru sameiginleg stórum hluta orðaforðans og sum þeirra koma jafnvel fram í heilum orðflokkum.

4.3 Beygingar- og hljóðbeygingarreglur

Á síðari árum hafa málfræðingar verið að þreifa fyrir sér með aðrar aðferðir við lýsingu beygingakerfisins, einkum þeir sem aðhyllast hina svonefndu málmyndunarfræði (reglumálfræði, generatíf málfræði). Þeir setja fram reglur um það hvernig hinar ýmsu beygingarmyndir eru leiddar hver af annarri eða af grunnmynd orðsins og reyna þannig að höndla fyrirsegjanleikann í beygingakerfinu. Markmiðið er því ekki fyrst og fremst að finna nýja hagnýta aðferð til að lýsa beygingu einstakra orða heldur er leitast við að greina og lýsa þeim öflum sem eru að verki í beygingakerfinu og að skilja hvernig málnotendur læra beygingar og beita þeim. Samkvæmt því eiga reglurnar að endurspegla ferlið sem þær lýsa. Regla sem gerir grein fyrir því sem er algengt og víðtækt á því að vera formlega einfaldari en regla sem segir fyrir um það sem er sjaldgæfara og nær til minni hluta orðaforðans. Þannig ætti regla um að öll nafnorð fái endinguna ‘-um’ í þágufalli fleirtölu til dæmis að vera miklu einfaldari en regla sem segir að karlkynsorð með stofn sem endar á ‘-andi’ fái ‘-ur’ í nefnifalli og þolfalli fleirtölu.

Gerður er greinarmunur á tvenns konar reglum: beygingarreglum sem leiða eina mynd af annarri með því að bæta við eða skipta um endingar og hljóðbeygingarreglum sem lýsa ýmiss konar hljóðavíxlum sem verða í stofni orðsins samfara beygingunni.

Enda þótt reglur séu notaðar til að lýsa beygingarferlum hafa nýjar hugmyndir og aðferðir ekki rutt hinni hefðbundnu lýsingu með beygingardæmum og beygingarflokkun úr vegi. Hún er í fullu gildi þar sem hún á við og í nýlegum skrifum um beygingafræði má víða sjá beygingarreglur og beygingardæmi notuð jöfnum höndum, ýmist til að varpa ljósi á ólíka þætti í greiningu og lýsingu beygingakerfisins eða til að skoða einstaka þætti frá mismunandi sjónarhornum.

5. Beygingarkerfi íslensku

5.1 Beygingar í nútímamáli

Beygingar eru mjög ríkur þáttur í íslensku. Þær koma fram í öllum stærstu orðflokkunum – nafnorðum, lýsingarorðum og sögnum – auk fornafna og töluorða, svo og í atviksorðum þótt í minna mæli sé.

Beygingin kemur einkum fram í endingum orðmynda en jafnhliða verða oft hljóðbreytingar í stofni orðsins. Í flestum orðflokkum tengjast tvær eða fleiri formdeildir beygingu orðanna og þær eru oftar en ekki samtvinnaðar í einni og sömu beygingarendingu. Í beygingarmyndinni bókum táknar endingin ‘-um’ t.d. hvort tveggja í senn, fleirtölu og þágufall.

Talsverð tilbrigði eru í beygingunni þannig að orðin skipa sér í allmarga beygingarflokka þótt munurinn liggi stundum í einni eða tveimur beygingarmyndum. Nafnorðin skeið og leið teljast t.d. hvort til síns flokks af því að annað fær endinguna ‘-ar’ í nefnifalli og þolfalli fleirtölu en hitt ‘-ir’: skeiðar ~ leiðir. Að öðru leyti beygjast þau samt eins. Auk þess beygjast nokkur orð óreglulega, einkum nafnorð og sagnir.

Það er undantekning ef orð í helstu orðflokkunum beygjast ekki og einn mikilvægasti liðurinn í aðlögun tökuorða er að fella þau að beygingakerfinu. Það gerist yfirleitt átakalítið og nokkurn veginn af sjálfu sér, sérstaklega hjá sögnum og nafnorðum en tökulýsingarorð hafa aftur á móti tilhneigingu til að vera óbeygð. Hugsanlega helst þeim það fremur uppi en öðrum tökuorðum af því að fyrir er í málinu allnokkur hópur óbeygjanlegra lýsingarorða, t.d. hissa, undrandi.

Beygingarflokkar eru mjög misstórir og þeir eru líka misopnir fyrir nýjum orðum. Yfirleitt eru það stærstu og reglulegustu flokkarnir sem eru jafnframt móttækilegastir, t.d. fá nánast allar tökusagnir sömu beygingu: ég fíla (nt.) ~ fílaði (þt.)

Beygingardæmi: Veikar sagnir, skrifa.

en nafnorð skiptast á nokkra flokka, aðallega eftir því hvaða kyn þau fá:
  • Skandall - Beygingardæmi: akur, hamar, læknir, himinn, gaffall.

  • Plebbi - Veik beyging karlkynsorða.

  • Törn - Beygingardæmi: mynd, höfn.

  • Maskína - Beygingardæmi: tunga, saga, kirkja, tölva.

  • Pop - Beygingardæmi: borð, land, ríki.

5.2 Breytingar frá fornu máli

Beygingar hafa tiltölulega lítið breyst frá fornu máli og minna en aðrir hlutar málkerfisins. Helst hafa orðið breytingar á beygingu einstakra orða sem hafa þar með flust milli beygingarflokka. Kvenkynsorðið grein hafði t.d. fleirtöluendinguna ‘-ir’ í fornu máli en nú er fleirtalan greinar; með deild er þessu öfugt farið því þar var endingin ‘-ar’ en er nú ‘-ir’. Miklu færri breytingar snerta beygingakerfið í heild eða afmarkaða hluta þess. Þó má nefna sem dæmi að viðtengingarháttur sagna hafði sérstakar endingar til forna í ríkari mæli en nú er. Það var því gerður skýrari greinarmunur á framsöguhætti og viðtengingarhætti í fornu máli en í nútímamálinu. Einnig má nefna karlkynsorð eins og hellir og læknir. Á tímabili breyttist beyging slíkra orða þannig að r-ið hélst í öllum beygingarmyndum og fleirtalan varð því hellirar eða jafnvel hellrar. Sú breyting er nú að mestu gengin til baka og beygingin komin aftur í fyrra horf.

5.3 Tilbrigði í beygingu

Lítið er um mállýskumun og önnur samtímaleg tilbrigði í beygingum. Helst er um það að ræða að nafnorð hafi ekki sama kyn og þá um leið ekki sömu beygingu í máli allra landsmanna, t.d. er orðið skúr í merkingunni ‘rigningarskúr’ ýmist kvenkyns eða hvorugkyns og þótt sykur sé oftast karlkynsorð er það hvorugkyns sums staðar á landinu. Slík tilbrigði má líka sjá í nýlegum tökuorðum, sennilega vegna þess að ekki er enn komin á föst venja um kyn þeirra, t.d. er djús ýmist karlkyns eða hvorugkyns og jafnvel mun kvenkynsmyndum bregða fyrir líka. Í langflestum tilvikum er ein og sama beyging þó ríkjandi í máli allra landsmanna.

6. Beyging íslenskra fallorða

6.1 Beygingarformdeildir fallorða í íslensku

Fallorð er samheiti fyrir nokkra flokka orða sem hafa það sameiginlega einkenni að orðin í þeim beygjast í föllum. Með því er átt við að hvert fallorð getur haft fjórar mismunandi myndir sem eru kallaðar föll:

nefnifall (nf.): grænn hattur; þessi bók
þolfall (þf.): grænan hatt; þessa bók
þágufall (þgf.): grænum hatti; þessari bók
eignarfall (ef.): græns hatts; þessarar bókar

Flokkar fallorða eru nafnorð (no.), lýsingarorð (lo.), fornöfn (fn.) og töluorð (to.) auk greinisins (gr.) sem er bara eitt orð, hinn, eða viðskeyti við nafnorð, -inn eða -nn.

Nefnifall er eins konar grunnmynd orðanna og það er t.d. sú mynd sem tilgreind er í orðabókum. Önnur föll eru stundum kölluð einu nafni aukaföll. Samhengið ræður mestu um það í hvaða falli orðin eru – hvar þau standa í setningu og með hvaða orðum – en merking orðanna og hlutverk hafa líka sín áhrif. Frumlag er venjulega í nefnifalli en andlag í aukafalli og ræður sögnin fallinu – sumar sagnir taka með sér þolfall: segja söguna, aðrar þágufall: heilsa fólkinu og fáeinar sagnir stýra eignarfalli: sakna fjölskyldunnar. Auk þess stýra forsetningar falli orðanna sem standa með þeim: um helgina (þf.), úr sveitinni (þgf.), til Reykjavíkur (ef.).

Auk fallbeygingarinnar hafa allir flokkar fallorða tölubeygingu þannig að langflest orðanna eru til bæði í eintölu (et.) og fleirtölu (ft.) eftir því hvort vísað er til eins eða fleiri: (einn) hestur ~ (margir) hestar; þessi (eina) mynd ~ þessar (mörgu) myndir; (eitt) skemmtilegt blað ~ (mörg) skemmtileg blöð.

Aðrar beygingarformdeildir koma einungis fram í sumum flokkum fallorða. Kyn kemur að vísu við sögu í þeim öllum en það er þó ekki beygingarformdeild í nafnorðum því þau hafa hvert um sig eðlislægt kyn, ef svo má segja, en beygjast ekki í kynjum eins og önnur fallorð. Í íslensku eru kynin þrjú:

karlkyn (kk.): þungur steinn, hinn velþekkti leikari
kvenkyn (kvk.): þung taska; hin kunna söngkona
hvorugkyn (hk.): þungt hlass; hið fallega ljóð

Meðal þessara formdeilda má enn fremur nefna ákveðni sem birtist sem ákveðinn viðskeyttur greinir í nafnorðum en sem svokölluð sterk og veik beyging lýsingarorða:

ÓÁKVEÐIÐ: tölva; grænn frakki; eitthvert stórt hús
ÁKVEÐIÐ: tölvan; græni frakkinn; þetta stóra hús

Í sumum tilvikum er ákveðni fastur einkennisþáttur orða en ekki eiginleg beyging, t.d. í sérnöfnum og ábendingarfornöfnum. Þetta sést á því að með slíkum orðum hafa lýsingarorð veika beygingarmynd eins og þegar nafnorðin sem þau standa með hafa ákveðinn greini: Palli LITLI (samanber: litli strákurinn) og þessi FALLEGA mynd (samanber: fallega myndin).

Loks hafa lýsingarorðin stig eða stigbreytingu. Grunnmynd þeirra kallast frumstig (fst.): SVARTUR hattur; Bíllinn er NÝLEGUR. Þegar tvennt eða fleira er borið saman koma lýsingarorð einnig fyrir í miðstigi (mst.) eða efsta stigi (est.) (sem er líka nefnt hástig):

Sveinn er STÓR (fst.), Brynjólfur er STÆRRI (mst.) en Finnur er STÆRSTUR (est.)

6.2 Beyging nafnorða

Þau hugtök sem tengjast beygingu nafnorða eru: kyn, tala, fall, sterk og veik beyging. Nafnorð beygjast þó einungis í tölu og falli því kyn og þau einkenni sem nefnd hafa verið sterk og veik beyging nafnorða eru einungis beygingarleg kennimörk orðanna.

Kynið er fastur fylgifiskur nafnorða. Þau eru ýmist karlkyns, kvenkyns eða hvorugkyns og kyn þeirra breytist hvorki eftir merkingu né samhengi. Þar er því ekki um beygingu að ræða heldur formlegt (og að litlu leyti merkingarlegt) einkenni hvers orðs. Hitt er annað mál að kyn nafnorðs hefur áhrif á beygingu þess og er eitt þeirra kennimarka sem skipar þeim í beygingarflokk. Sama máli gegnir um svokallaða veika og sterka beygingu nafnorða. Þau hugtök vísa til formlegra einkenna á beygingu orðanna og hvert nafnorð beygist annaðhvort veikt eða sterkt. Ef eignarfall eintölu endar á sérhljóði beygist orðið veikt: sími ~ ef. símA; plata ~ ef. plötU; auga ~ ef. augU en ef það endar á samhljóði er beygingin sterk: stafur : ef. stafS; hurð : ef. hurðaR; gólf : ef. gólfS. Aðallega er talað um veika og sterka beygingu nafnorða í sambandi við skipan þeirra í beygingarflokka.

Hin eiginlega beyging nafnorða felst því í tölu og falli. Þau hafa átta beygingarmyndir, fjórar fallmyndir í hvorri tölu. Þetta þýðir þó ekki að orð komi fram í átta mismunandi orðmyndum því algengast er að tvær eða fleiri beygingarmyndir séu samhljóða. Þegar ákveðnum greini er skeytt við þær skilur hann hins vegar oft á milli beygingarmynda sem eru að öðru leyti eins.

EINTALA

óákveðiðákveðið

nf. rós – rósin
þf. rós – rósina
þgf. rós – rósinni
ef. rósar – rósarinnar

FLEIRTALA

nf. rósir – rósirnar
þf. rósir – rósirnar
þgf. rósum – rósunum
ef. rósa – rósanna

Samfall af þessu tagi er víða í beygingakerfinu og gengur þvert á beygingarflokka. Samfallið nær þó ekki til kerfisins í heild og það er breytilegt frá einum flokki til annars hvaða myndir eru eins. Þess vegna er óhjákvæmilegt að gera ráð fyrir átta beygingarmyndum þótt einhverjar tvær (og oft fleiri) beygingarmyndir af hverju einstöku orði séu samhljóða.

Nafnorð skiptast í allmarga flokka eftir því hvernig þau beygjast. Þótt beygingarmunstrin í heild séu mismunandi í flokkunum koma ákveðnar beygingarendingar fram í fleiri en einum flokki og sumar þeirra eru jafnvel sameiginlegar öllum nafnorðum. Það eru því iðulega talsverð líkindi með tveimur eða fleiri beygingarflokkum.

Skipting nafnorða í beygingarflokka miðast við nokkur einkenni sem í langflestum tilvikum duga til að segja fyrir um beyginguna í heild.

  1. Kyn orða
  2. Hvort eintala hefur eingöngu sérhljóðsendingar eða hvort einhverjar myndir endi á samhljóði (veik eða sterk beyging)
  3. Hvaða endingu þau fá í nefnifalli fleirtölu
  4. Hvaða endingu þau fá í eignarfalli eintölu

Rekist maður á óþekkt orð dugar yfirleitt að fá vísbendingu um kyn þess, nefnifalls- og eignarfallsmyndir eintölu og nefnifall fleirtölu til þess að beygja orðið rétt. Þetta eru einmitt þær upplýsingar sem gefnar eru í orðabókum. Þar er sjálf uppflettimynd orðsins að jafnaði nefnifall eintölu og endingar hinna fallanna eru svo sýndar að auki. Þessi þrjú föll nefnast einu nafni kenniföll.

Eftir ofangreindum viðmiðum skiptast nafnorðin í 16 meginflokka:

KARLKYN –veik beyging:

  • Veik beyging karlkynsorða.

  • Veik beyging þjóðanafna.

  • Beyging lýsingarháttar nútíðar og annarra orða sem enda á -(a)ndi.

KARLKYN –sterk beyging:

  • Algengasta beyging sterkra karlkynsorða.

  • Beygingardæmi: grautur, skógur, höfundur.

  • Beygingardæmi: gestur, dalur, leikur, guð, her.

  • Beygingardæmi: fundur, þáttur, köttur, fjörður, sonur, björn.

  • Beygingardæmi: bróðir, faðir, fingur, vetur, fótur.

KVENKYN–veik beyging:

  • Beygingardæmi: tunga, saga, kirkja, tölva.

  • Beygingardæmi: lygi, festi, hreysti.

  • Beygingardæmi: ævi.

KVENKYN–sterk beyging:

  • Beygingardæmi: mynd, höfn.

  • Beygingardæmi: skeið, skel, stöð.

  • Beygingardæmi: kind, eik, tönn, tá, eik, brú.

  • Beygingardæmi: steik, flík, mjólk, pólitík.

KVENKYN–óregluleg beyging:

Beygingardæmi: systir, móðir, dóttir.

HVORUGKYN–veik beyging:

Beygingardæmi: auga, hjarta, þema.

HVORUGKYN–sterk beyging:

Beygingardæmi: borð, land, ríki.

HVORUGKYN–óregluleg beyging:

Beygingardæmi: tré, hné, fé.

Nefnifallsmyndin ein ásamt kyninu segir talsverða sögu. Öll karlkynsorð sem enda á ‘-i’ beygjast t.d. veikt og það sama á við um öll kven- og hvorugkynsorð sem enda á ‘-a’. Önnur orð beygjast langflest sterkt. Miklu máli skiptir að þekkja kyn orðs af því að kynið verður ekki ráðið af nefnifallsmyndinni með óyggjandi hætti. Sem dæmi má nefna að til eru kvenkyns- og hvorugkynsorð sem enda á ‘-ur’ þótt sú ending sé fyrst og fremst einkennandi fyrir karlkynsorð. Í kvenkyni og hvorugkyni er ‘-ur’ yfirleitt stofnlægt en það sést á því að r-ið helst í allri beygingunni (u-ið hverfur í sumum myndum):

  • Beygingardæmi: fjöður, verslun, löngun, þúsund.

  • Beygingardæmi: skeið, skel, stöð.

  • Beygingardæmi: hreiður, hundrað, líkan, folald.

fjöður, lifur (kvk.); hreiður, myrkur (hvk.). Það er þó ekki alveg einhlítt í kvenkyni því þar hafa fáein orð endinguna ‘-ur’, t.d. brúður.

Almennt er mikilvægt að átta sig á mörkum stofns og endingar. Í karlkynsorðum getur ‘-ur’ t.d. líka verið hluti af stofninum þótt yfirleitt sé það beygingarending nefnifalls eintölu. Dæmi um það eru orð eins og: akur og vetur og þau eru því í rauninni endingarlaus í nefnifalli. Einkvæð karlkynsorð sem enda á ‘-r’ geta líka verið tvenns konar að þessu leyti því r-ið er ýmist nefnifallsending eins og í skór eða stofnlægt eins og í her. Í öllum slíkum tilvikum eru aðrar beygingarmyndir nauðsynlegar til að skera úr um hvort heldur er, t.d. eignarfall eintölu. Ef ‘-(u)r’ er stofnlægt kemur það fram þar á undan endingunni: fjaðr-ar, hreiður-s, akur-s, her-s en annars fellur það brott: brúð-ar (kvk.), skó-s (kk.).

Sum orð beygjast á tvennan hátt, t.d. fá nokkur karlkynsorð ýmist ‘-s’ eða ‘-ar’ í eignarfalli eintölu: veggs ~ veggjar. Þá má líta svo á að þau geti tilheyrt tveimur beygingarflokkum. Einnig finnast ýmiss konar regluleg tilbrigði innan beygingarflokka þannig að sum orð skera sig úr í einstökum myndum. Öll kvenkynsorð með viðskeytið ‘-ing’ fá t.d. endinguna ‘-u’ í þolfalli og þágufalli: skiptingu, breytingu þótt flest orð í sömu flokkum séu endingarlaus í þessum myndum: skeið, mynd. Einnig hafa fáein orð sem enda á ‘-ur’ eða ‘-i’ í nefnifalli endinguna ‘-i’ í þessum sömu föllum: brúður, helgi.

Ýmis tilbrigði í beygingu ganga þvert á tvo eða fleiri beygingarflokka. Það á t.d. við um þágufall sterkra karlkynsorða sem ýmist hefur endinguna ‘-i’ eða er endingarlaust og um eignarfall veikra kven- og hvorugkynsorða sem endar ýmist á ‘-a’ eða ‘-na’. Flest tilbrigði sem felast í breytingum á stofni orða samfara beygingunni ná líka til fleiri en eins beygingarflokks og jafnvel til margra orðflokka. Þetta eru ýmiss konar regluleg hljóðavíxl sem koma fram í myndum með ákveðin formleg einkenni. Útbreiddust eru sérhljóðavíxl sem kennd eru við u-hljóðvarp: land ~ lönd; höfn ~ hafnir en svonefnd i-hljóðvarpsvíxl koma líka víða við sögu: þráður ~ þræðir. Einnig má nefna reglulegt brottfall sérhljóða sem verður í stofni margra tvíkvæðra orða: hamar ~ hamrar, trefill ~ treflar og samlögun hljóða í stofni og endingu sem verður í sumum orðum sem hafa brottfall en líka í öðrum: gaffall, himinn, bíll, steinn. Loks má nefna að á mörkum stofns og endingar falla hljóðin ‘j’ og ‘v’ brott í mörgum myndum: egg, ríki ~ eggjum, ríkjum; stöð, egg ~ stöðvar, eggjar. Öll þessi tilbrigði í stofni orða eru háð ákveðnum skilyrðum og þau leiða til þess að víxlin verða í sumum orðum en öðrum ekki. Þannig geta tvö orð beygst á nákvæmlega sama hátt að öðru leyti en því að tiltekin víxl verða í öðru en ekki hinu. Orðin flaga og fluga fá t.d. sömu endingar í öllum beygingarmyndum en í því fyrra verða hljóðavíxl í sumum myndum (flögu, flögur) en ekki í því síðara (flugu, flugur).

Allnokkur orð beygjast óreglulega að meira eða minna leyti. Mörg orð hafa bara eina afbrigðilega mynd en beygjast að öðru leyti reglulega, t.d. kona þar sem eignarfall fleirtölu er kvenna og orðin dagur og ketill sem hafa þágufallsmyndirnar degi og katli í eintölu. Beyging sumra annarra orða er hins vegar svo frábrugðin beygingu allra annarra orða að hún verður að teljast óregluleg. Þar má nefna orðin maður, eyrir, hönd, kýr og fleiri.

Ýmis nafnorð eru einungis notuð í annarri hvorri tölunni þótt þau beygist að öðru leyti reglulega. Efnisheiti eins og hveiti, sykur, mjólk og málning eru yfirleitt einungis notuð í eintölu og sama máli gegnir um ýmis orð sem hafa huglæga merkingu – vísa til tilfinninga, hugar- og líkamsástands eða einhvers annars sem er óáþreifanlegt: kæti, þreyta, kvíði, uppgjöf, tónlist, rómantík. Sum orð af þessu tagi eru notuð í fleirtölu í ákveðinni afmarkaðri merkingu þótt þau komi almennt ekki fyrir í fleirtölu, t.d. vatn þar sem fleirtalan er bara notuð um stöðuvötn og jörð þar sem hún er einungis höfð um bújarðir. Í öðrum tilvikum er fleirtalan bundin við tiltekna notkun eða ákveðin orðasambönd, t.d. er talað um að standa yfir moldum einhvers og að himnarnir opnist þótt alla jafna séu mold og himinn bara höfð í eintölu.

Önnur orð eru einungis til í fleirtölu. Þar má nefna orðin buxur, skæri, hljómleikar, stjórnmál. Yfirleitt er engin sýnileg ástæða fyrir þessu í merkingu orðanna þótt einstök orð vísi reyndar til e.k. tvenndar eins og gleraugu. Það sem orðin vísa til er oft og tíðum teljanlegt og þegar svo er má ekkert síður tala um eitt en margt þrátt fyrir það að formlega séu orðin fleirtala: einir tónleikar ~ tvennir tónleikar, einar buxur ~ þrennar buxur. Sem sjá má eru notuð sérstök töluorð með þessum orðum, þau sömu og höfð eru um pör, og mynd nafnorðsins breytist ekki hvort sem talað er um eitt eða fleira.

6.3 Mannanöfn og önnur sérnöfn

Mannanöfn og önnur sérnöfn, t.d. örnefni, skepnuheiti og nöfn á skipum, flugvélum eða fyrirtækjum, eru í rauninni nafnorð og beygjast í aðalatriðum eins og þau. Allnokkur sérnöfn eru samhljóma venjulegu samnafni og oftast beygjast þau þá nákvæmlega eins: Hrafn eins og hrafn, Foss eins og foss og Vík eins og vík. Eigi að síður haga sérnöfn sér stundum dálítið öðru vísi en önnur nafnorð og mörg sérnöfn hafa beygingu sem er miklu fátíðari í samnöfnum. Það er því ástæða til að skoða þau sérstaklega.

Sérnöfn beygjast ýmist veikt eða sterkt, þ.e.a.s. þau hafa ýmist sérhljóðs- eða samhljóðsendingu í eignarfalli eintölu. Eðli málsins samkvæmt eru mannanöfn annaðhvort karlkyns eða kvenkyns og þau eru ekki notuð í fleirtölu nema í undantekningartilvikum:

Báðir JÓNARNIR eru ókomnir
Það eru margar GUÐRÚNAR í minni fjölskyldu

Önnur sérnöfn eru yfirleitt annaðhvort eintölu- eða fleirtöluorð. Reyndar eru ýmis dæmi um að tvö örnefni svari hvort til sinnar tölu af sama nafnorði, t.d. Núpur og Núpar, en þar sem þau eru þá nöfn tveggja mismunandi staða verður að líta á þau sem tvö orð.

Mannanöfn skiptast einungis í fimm beygingarflokka eftir því hvernig þau eru í nefnifalli og eignarfalli eintölu:

KARLKYN:

KVENKYN:

| Erna | Hlín |

Ef litið er til fleiri beygingarmynda en eignarfallsins kemur reyndar í ljós að þolfall og þágufall er með þrennu móti í sterkum kvenmannsnöfnum. Sum eru endingarlaus: Hlín, Sif, Hrund, Dröfn. Önnur fá endinguna ‘-i’: Unni, Ragnhildi, Ástríði, Hafdísi. Og loks hafa ýmis nöfn endinguna ‘-u’: Björgu, Guðrúnu, Rannveigu, Katrínu. Þessar endingar eru líka til í samnöfnum eins og sést á beygingu orðanna brúður og meri svo og í orðum með viðskeytið ‘-ing’: breyting, hreyfing. Þær eru aftur á móti miklu algengari í sérnöfnum.

Sterk karlmannsnöfn og reyndar önnur karlkyns sérnöfn einnig skera sig líka nokkuð úr öðrum nafnorðum. Þau fá flest þágufallsendinguna ‘-i’ þótt sú ending komi einungis fram í sumum samnöfnum. Stundum er jafnvel munur á samhljóða sérnafni og samnafni að þessu leyti: Bóndinn á HÓLI stendur uppi á HÓL. Í samnöfnum er eignarfallsendingin ‘-ar’ líka heldur víkjandi gagnvart endingunni ‘-s’ en í mannanöfnum er þessu öfugt farið. Í þeim vinnur ‘-ar’ á og nöfn sem áður höfðu ‘-s’ í eignarfalli fá nú ekki síður ‘-ar’: Haralds, Höskulds ~ Haraldar, Höskuldar. Reyndar er víða svolítið sérkennileg verkaskipting milli þessara endinga ef litið er á föðurnöfn fólks því stundum er s-ending í föðurnafninu þótt sama nafn fái ‘-ar’ í eignarfalli þegar það stendur eitt sér: Þau fóru til Guðmundar Guðmundssonar. Þetta kemur ekki síst fram í nöfnum þar sem endingin hefur breyst eða er að breytast því s-ið helst gjarnan í föðurnöfnunum: Haraldsson, Höskuldsdóttir. Líka er til í dæminu að kven- og karlföðurnöfn geti verið sitt með hvoru móti að þessu leyti: Sigurðsson en Sigurðardóttir.

Langflest gælunöfn beygjast veikt og yfirleitt felst myndun gælunafna m.a. í því að nafn með sterka beygingu myndar gælunafn með veika. Af nöfnunum Ásgeir, Karl og Ásmundur eru dregin gælunöfnin Geiri, Kalli og Ási eða Mundi og nöfnin Ragnheiður, Elín og Bergljót verða að Ragga eða Ranka, Ella og Begga. Sjaldgæft er að gælunöfn myndist af nöfnum sem sjálf hafa veika beygingu þótt það sé til, t.d. þegar Pálína er kölluð Palla, og þá er að jafnaði um styttingu að ræða. Sömuleiðis hafa tiltölulega fá gælunöfn sterka beygingu. Fyrir utan hina gamalkunnu styttingu Gvendur (af Guðmundur) eru það helst gælunöfn sem enda á ‘-ó’, ‘-í’ (eða ‘-ý’) og ‘-ú’, flest kvenmannsnöfn: Gógó, Bíbí, Sirrí/Sirrý, Dúdú en einnig fáein karlmannsnöfn, t.d. Bóbó.

Oft er eins og sérnöfn verði viðskila við samsvarandi samnöfn og um leið hina upprunalegu merkingu sína. Þau fara að lifa eigin lífi sem heiti á stöðum, fyrirtækjum eða öðru sem þau vísa til en hafa ekki eiginlega merkingu fremur en önnur nöfn. Þetta birtist stundum í formlegum eiginleikum og hegðun sérnafna, þar á meðal í beygingu. Þannig er yfirleitt farið með verslananöfn eins og Hagkaup sem eintöluorð þótt eðlilegri merkingartengsl væru við fleirtöluna, t.d. í sambandinu gera góð kaup, og algengt er að farið sé með Flugleiðir eins og karlkynsorð og þolfallið haft Flugleiði þótt upprunalega hafi nafnið verið myndað af fleirtölu orðsins leið. Einnig er velkunnugt að heimamenn fari með örnefnið Laugar á sama hátt og tali um að fara í Lauga þótt samsvarandi samnafn, laug, sé auðvitað kvenkyns.

6.4 Lýsingarorð

Þótt það hljómi eins og þversögn er beyging lýsingarorða í senn flóknari og einfaldari en beyging nafnorða. Hún er að því leyti flóknari að hún er miklum mun margbreytilegri. Lýsingarorð beygjast í tölu og falli eins og nafnorð en þar að auki beygjast þau í kyni, hafa mismunandi myndir eftir því hvort þau standa með ákveðnum eða óákveðnum orðum (veik og sterk beyging) og loks stigbreytast þau. Þegar allt er talið eru beygingarmyndir venjulegs lýsingarorðs 120 að tölu – þótt þar sé sem betur fer ekki átt við formlega aðgreindar myndir! Beyging lýsingarorða er nefnilega að því leyti einfaldari en beyging nafnorða að margar beygingarmyndir þeirra eru samhljóða. Beygingin er auk þess tiltölulega regluleg, mismunandi beygingarmunstur eru fá og lítill munur á þeim.

Þann ógnarfjölda beygingarmynda sem nefndur var hér að ofan má rekja til margfeldisáhrifa beygingarformdeildanna sem lýsingarorðin hafa umfram nafnorð. Kynbeygingin leiðir til þess að hvert einstakt lýsingarorð hefur sérstakar karlkyns-, kvenkyns- og hvorugkynsmyndir: GÓÐUR matur (kk.) ~ GÓÐ súpa (kvk.) ~ GOTT veður (hvk.). Þetta á við um hvert fall og báðar tölur þannig að alls verða það 24 myndir.

Einnig er gerður greinarmunur á lýsingarorðsmyndum í ákveðnum og óákveðnum nafnliðum, t.d. eftir því hvort nafnorð sem lýsingarorðið stendur með hefur viðskeyttan greini eða ekki: rauður bíll ~ rauði bíllinn eða eftir því hvort ábendingarfornafn fer á undan lýsingarorðinu eða ekki: FALLEGT málverk ~ ÞETTA FALLEGA málverk. Þessi greinarmunur kallast sterk og veik beyging lýsingarorðsins. Líta má á sterku beyginguna sem eins konar grunnmynd orðsins því það er sú mynd sem kemur fram þegar það er sérstætt:

Þessi bók er SKEMMTILEG
Sagan er óskaplega FYNDIN
Heimskur er jafnan HÖFUÐSTÓR

Veikar og sterkar lýsingarorðsmyndir koma fram í öllum föllum og kynjum og báðum tölum þannig að þá eru myndirnar orðnar 48.

Loks bætist stigbreytingin við. Oftast eru lýsingarorð í frumstigi. Það eru þær myndir sem lýsingarorð hefur almennt þegar það er notað til að lýsa eiginleikum manna, hluta og fyrirbæra. Þar að auki koma lýsingarorð fyrir í myndum sem kallast miðstig og efsta stig (eða hástig) og þær eru notaðar í hvers kyns samanburði. Miðstig er notað þegar eitthvað tvennt er borið saman:

Brúin er MJÓRRI en vegurinn
Núna er símaskráin ÞYKKARI en í fyrra

en efsta stig þegar eitthvað er sagt bera af í samanburði við tvennt eða fleira:

Þetta er SKEMMTILEGASTA mynd sem ég hef séð
STÆRSTA stelpan í bekknum er líka STERKUST

Miðstig beygist einungis veikt en efsta stigið hefur bæði sterkar og veikar myndir í öllum föllum og kynjum og báðum tölum. Stigbreytingin hleypir því tölu beygingarmyndanna upp í þær 120 sem áður voru nefndar.

Beyging lýsingarorða er mjög regluleg og tilteknar beygingarmyndir eru ævinlega samhljóða, bæði í sterku beygingunni og í enn ríkari mæli í þeirri veiku. Efsta stigið fær allar sömu endingar í kyni, tölu og falli og frumstigið, bæði í sterkri og veikri beygingu. Miðstigið hefur aftur á móti bara veika beygingu.

Venjulega er nefnifall eintölu í karlkyni og sterkri beygingu birt sem uppflettimynd í orðabókum og sú mynd dugir oft til að segja fyrir um beyginguna. Stundum er þó gert ráð fyrir tveimur fallbeygingarflokkum auk óreglulegrar eða blandaðrar beygingar en munurinn er sáralítill í raun því hann kemur einungis fram í örfáum myndum og bara í frumstigi með sterka beygingu. Í grófum dráttum lítur skiptingin þannig út miðað við endingu þolfalls eintölu í karlkyni og nefnifall hvorugkyns:

Mörkin milli stofns og endingar skipta líka máli, t.d. til að skera úr um það hvort ‘-r’ í enda orðs er stofnlægt eða ekki. Það sést t.d. í kvenkyninu sem ekki hefur neina beygingarendingu í nefnifalli eintölu og r-ið kemur því fram þar jafnt og í karlkyni ef það er hluti stofnsins. Þetta á bæði við þegar orðið endar á ‘-ur’: vitur og þegar r-ið fer strax á eftir stofnsérhljóðinu í einkvæðum orðum: stór, mjór.

Önnur tilbrigði í beygingunni eiga flest rót sína að rekja til mismunandi stofngerðar orðanna. Þau eru mörg hver ekki bundin við lýsingarorðin ein heldur koma einnig fram í nafnorðum og jafnvel víðar. Þar er einkum um að ræða u-hljóðvarp og ýmiss konar hljóðbreytingar á mörkum stofns og endingar, einkum samlögun í beygingarmyndum eins og hrein-nar, lengingu eða tvöföldun r-sins í mjó-rrar og brottfall áherslulausa hljóðsins í ýmsum beygingarmyndum tvíkvæðra lýsingarorða: fyndinn ~ fyndnir.

Loks koma fram tilbrigði í stofni tvíkvæðra lýsingarorða sem enda á ‘-inn’ sem ekki verða rakin til stofngerðarinnar. Sum þeirra hafa víxlmyndir með ‘in’ og tannhljóðunum ‘ð’ eða ‘d’. Þau hljóð koma fram í myndum þar sem sérhljóðið fellur brott: marinn ~ marðir, hruninn ~ hrundir, taminn ~ tamdir.

Efsta stig beygist alveg eins og frumstig í kyni, tölu og falli, sterkri og veikri beygingu. Það fylgir ævinlega sama beygingarmunstri og orð sem hafa nefnifallsendinguna ‘-ur’ í karlkyni eintölu og fellur því allt í sama beygingarflokk og hvítur.

Miðstigið beygist aftur á móti bara veikt og beygingin er jafnvel enn einfaldari en í frum- og efsta stigi því endingarnar eru bara tvær, ‘-a’ í hvorugkyni eintölu og ‘-i’ í öllum öðrum myndum:

Barnið er ÞREYTTARA (hk.et.) en mamman og hún er ÞREYTTARI (kvk.et.) en pabbinn
Börnin eru ÞREYTTARI (hk.ft.) á kvöldin en morgnana

Miðstig og efsta stig eru mynduð með viðskeytum sem fara á undan beygingarendingunni, ‘-ar-’ eða ‘-r-’ í miðstigi en ‘-ast-’ eða ‘-st-’ í efsta stigi. Það er svolítið mismunandi hvernig þessi viðskeyti raðast saman í einstökum orðum þannig að lýsingarorðin skiptast í nokkra flokka eftir því hvernig þau stigbreytast:

hvítur: -ar-, -ast-
þunnur: -r-, -st- auk tilbrigða í stofni (i-hljóðvarp)
nýlegur: -r-, -ast-
óregluleg stigbreyting

Óreglulega stigbreytingin felst því að orðin hafa annan stofn í miðstigi og efsta stigi en í frumstigi: gamall ~ eldri (mst.), elstur (est.). Þær myndir hafa hins vegar viðskeytin ‘-r-’ og ‘-st-’ alveg eins og sum orð með reglulega stigbreytingu, t.d. þunnur, svangur.

Til eru lýsingarorð sem af merkingarlegum ástæðum eru bara notuð í ákveðnum beygingarmyndum en öðrum ekki. Orðin margir og fáir eru t.d. mestmegnis notuð í fleirtölu í karlkyni og kvenkyni þótt eintalan komi fyrir í meira eða minna föstum samböndum, sérstaklega karlkynið. Aftur á móti er hvorugkyn eintölu talsvert notað:

MARGUR er knár þótt hann sé smár (kk.)
Það var FÁTT fólk á götunum (hk.)
Hann sagði ekki MARGT (hk.)

Önnur orð eru þess eðlis að þau koma tæplega fyrir í miðstigi eða efsta stigi, t.d. dáinn og dauður, en einnig eru til orð sem einungis koma fyrir í þeim stigum, t.d. efri, efstur; neðri, neðstur; síðri, sístur.

Loks eru allmörg lýsingarorð alveg óbeygjanleg. Sameiginlegt einkenni þeirra er að þau enda öll á sérhljóði, annaðhvort á ‘-a’ (andvaka, miðaldra, sammála, hissa) eða ‘-i’ (hugsi, vakandi, grátandi). Þau síðartöldu eru flest leidd af sögnum með viðskeytinu ‘-andi’ (lýsingarháttur nútíðar). Reyndar er hægt að stigbreyta sumum þessara orða en það er ekki gert með beygingu heldur með atviksorðunum meira, mest:

Ég er MEIRA UNDRANDI á Jóni en konunni hans
Þá varð ég MEST HISSA í lífinu

6.5 Fornöfn

Fornöfn eru lokaður orðflokkur. Þau eru afar sundurleit og skiptast í allmarga flokka eftir merkingarlegu og setningarlegu hlutverki sínu. Í hverjum flokki eru bara örfá orð, allt frá einu og upp í rúman tug. Orðin fallbeygjast, flest þeirra eru bæði til í eintölu og fleirtölu og mörg beygjast í kyni. Þar við bætist að í persónu- og eignarfornöfnum er gerður greinarmunur á því hvort þau vísa til talanda (ég, minn), viðmælanda (þú, þinn) eða einhvers annars (hann, hún, það; sinn) þótt venja sé að líta á myndirnar sem mismunandi orð fremur en eiginlega persónubeygingu. Í fornu máli var líka til svokölluð tvítala af þessum orðum því þá var gerður greinarmunur á því hvort vísað var til tveggja eða fleiri. Raunar eimir eftir af slíkri aðgreiningu í sumum fornöfnum þótt ekki sé litið á hana sem beygingu í nútímamáli heldur einungis sem merkingarþátt í tilteknum orðum. Þannig eru orðin báðir, hvor, hvorugur notuð um tvo en allir, hver, enginn um margra.

Einstakar beygingarmyndir fornafna gegna oft sjálfstæðara hlutverki en títt er um önnur orð. Það er t.d. algengt að skýr skil séu milli notkunar á eintölu- og fleirtölumyndum og merkingarmunur þeirra er stundum meiri en einungis fjöldi þess sem vísað er til. Þannig er eintalan allur nánast eingöngu notuð með nafnorði (hliðstæð) og merkir eiginlega ‘í heild’:

Allur heimurinn er leiksvið
Öll mjólkin er búin

Þegar orðið stendur eitt sér (sérstætt) hefur hvorugkyn eintölu svipaða merkingu: Það er allt búið. Karlkyn fleirtölu gegnir hins vegar lykilhlutverki þegar orðið stendur eitt sér og vísað er til fjölda. Það táknar þá eiginlega ‘hver einasti’:

Það eru allir farnir
Öllum er sama

Almennt er algengt að hvorugkyn eintölu af sérstæðu fornafni vísi til óskilgreindra hluta eða fyrirbæra, einhvers sem er í eðli sínu óáþreifanlegt og/eða óteljanlegt en karlkynið – ýmist eintala eða fleirtala eftir atvikum – vísi aftur á móti til fólks ef kynið er annaðhvort óþekkt eða skiptir ekki máli:

HVORUGKYN:

Segirðu EITTHVAÐ í fréttum?
HVAÐ fékkstu þér að borða?
ALLT fór vel að lokum

KARLKYN:

Hringdi EINHVER (et.) meðan ég var úti?
HVER (et.) borðaði eplið?
Það skemmtu sér ALLIR (ft.) vel

Beyging flestra fornafna er mjög óregluleg en sums staðar má greina sömu eða svipaðar beygingarendingar og í lýsingarorðum.

6.5.1 Persónufornöfn og afturbeygt fornafn

Persónufornöfn og afturbeygt fornafn eiga sitthvað sameiginlegt, bæði hvað hlutverk og beygingu varðar. Persónufornöfnin eru ég sem vísar til þess sem talar (1. persóna), þú sem vísar til þess sem talað er við (2. persóna) og hann, hún, það sem notuð eru um þá eða það sem talað er um (3. persóna). Afturbeygða fornafnið, sig, vísar einnig til 3. persónu. Í ákveðnu umhverfi er það notað á hliðstæðan hátt og ákveðnar myndir af 1. og 2. persónufornöfnunum og það beygist eins og þau:

Ég meiddi MIG (1. persónu fornafn)
Þú meiddir ÞIG (2. persónu fornafn)
Hann/hún meiddi SIG (afturbeygt fornafn)

Ekki er gerður greinarmunur á kyni í 1. og 2. persónu og sömu myndir eru þar af leiðandi notaðar hvort sem talandi eða viðmælandi er karl eða kona. Það sama á við um afturbeygða fornafnið og það er heldur ekki til í fleirtölu.

Samband eintölu og fleirtölu er svolítið óvenjulegt í fornöfnum 1. og 2. persónu. Venjulega vísar fleirtala einfaldlega til margra einstaklinga eða eintaka af því sem orðið er haft um og því má segja að bækur merki nokkurn veginn það sama og bók + bók (+ bók ...). Þannig er því aftur á móti ekki varið í 1. persónu. Eðli málsins samkvæmt er bara einn talandi í senn og þegar hann segir „við“ (1.p.ft.) á hann við sjálfan sig og einhverja fleiri, t.d. viðmælandann (ég + þú) eða einhverja aðra, einn eða fleiri (ég + hann/hún/þeir/þær). Þetta á líka að nokkru leyti við um 2. persónu. Að vísu getur fleirtalan þið vísað til margra viðmælenda í senn (þú + þú (+þú ...)) en hún getur einnig vísað til viðmælanda og einhverra fjarstaddra (þú + hann/hún/þeir/þær).

Afturbeygða fornafnið er fyrst og fremst notað sem andlag: Barnið meiddi SIG eða með forsetningu: Hann bauð þeim heim til SÍN þegar þessir liðir vísa til þess sama og frumlagið. Það er hins vegar ekki til í nefnifalli.

Í 3. persónu eru mismunandi persónufornöfn fyrir hvert kyn. Oft ræðst kynið af kynferði þeirra sem rætt er um og þá eru karlkynsmyndir notaðar um karla en kvenkynsmyndir um konur. Annars tekur það mið af málfræðilegu kyni orðsins sem persónufornafnið er staðgengill fyrir:

Ég veit ekkert hvort HÚN getur komið
(hún = kona/stelpa sem talandi og viðmælandi þekkja)

Bókin lá hérna áðan en nú er HÚN horfin
(hún = bókin)

Í hátíðlegu máli er stundum notað persónufornafnið vér í 1. persónu fleirtölu: VÉR mótmælum allir. Í 2. persónu væri þá notað fornafnið þér. Sá er munur á þessum orðum að jafnvel þótt þér sé formlega fleirtala er orðið ekki síður notað þegar einungis ein manneskja er ávörpuð og kallast það þérun eða þéring. Notkun þessara orða er mjög á undanhaldi og fáir þérast nú á dögum.

6.5.2 Eignarfornöfn

Eignarfornöfn eru fyrst og fremst minn, þinn og sinn. Þau beygjast tiltölulega reglulega í kyni, tölu og falli og fylgja öll sama beygingarmunstri. Sumar endingar þeirra minna mjög á lýsingarorðabeyginguna.

Þessi orð kallast á við persónufornöfnin á þann hátt að minn er 1. persóna og er því notað þegar talandinn er eigandi, þinn er 2. persóna og merkir að eigandinn sé sá sem talað er við. Fornafnið sinn er 3. persóna og afturbeygt og það svarar því til afturbeygða fornafnsins sig:

ÉG tók hatt MINN og staf
ÞÚ tókst hatt ÞINN og staf
HANN/HÚN tók hatt SINN og staf

Ekki eru til sérstök eignarfornöfn í 3. persónu önnur en það afturbeygða og þar sem það á ekki við er notað eignarfall persónufornafnanna:

Hún tók hatt HANS og staf
Ég hengdi upp kápuna HENNAR

Þarna er ekki um eiginleg eignarfornöfn að ræða heldur einungis eina af beygingarmyndum persónufornafna, jafnvel þótt hlutverkið sé það sama. Þess vegna laga þessar orðmyndir sig ekki að orðinu sem þær standa með – ekki frekar en eignarfall nafnorða sem oft kemur fyrir í sömu stöðu:

Er þetta penninn ÞINN/tölvan ÞÍN/blaðið ÞITT? (eignarfornafn)
Er þetta penninn ÞEIRRA/tölvan ÞEIRRA/blaðið ÞEIRRA? (persónufornafn)
Er þetta penni JÓNS/tölva JÓNS/blað JÓNS? (nafnorð)

Fjórða eignarfornafnið er vor. Það er einungis notað í hátíðlegu máli: Faðir VOR ..., land VORT og þjóð. Það svarar að sínu leyti til persónufornafnsins vér.

6.5.3 Ábendingarfornöfn

Ábendingarfornöfnin eru þrjú: , þessi og hinn. Þau beygjast í kyni, tölu og falli og auk þess eru þau í eðli sínu ákveðin. Það sést á því að lýsingarorð sem standa með þeim birtast í veikri beygingu, jafnvel þótt nafnorð sem stendur með þeim sé án greinis:

SÁ FYRSTI sem kemur...
ÞESSI SKEMMTILEGA bók...

Orðin og þessi beygjast óreglulega en hinn beygist líkt og lýsingarorð.

6.5.4 Spurnarfornöfn

Spurnarfornöfnin eru hver, hvor og hvaða. Tvö þau fyrrnefndu beygjast tiltölulega reglulega í kyni, tölu og falli. Beygingu þeirra svipar mjög til beygingar lýsingarorða. Þriðja spurnarfornafnið, hvaða, sem einungis er notað með nafnorði, er alveg óbeygjanlegt.

Munurinn á hver og hvor felst í því að hver er notað almennt en hvor þegar einungis er spurt um annan af tveimur. Í nefnifalli og þolfalli eintölu eru til tvær hvorugkynsmyndir af því fyrrnefnda. Önnur þeirra, hvað, er notuð þegar orðið stendur eitt sér (sérstætt) og hún hefur því almenna skírskotun. Hin myndin, hvert, er aftur á móti notuð þegar orðið stendur með nafnorði (hliðstætt):

HVAÐ er á seyði?
HVERT hjólið/hjólanna á Ása?
6.5.5 Óákveðin fornöfn

Óákveðin fornöfn eru stærsti fornafnaflokkurinn. Margar kynslóðir skólanema hafa lært ágæta vísu til að minna sig á hver þau helstu eru:

Annar, fáeinir, enginn, neinn,
ýmis, báðir, sérhver,
hvorugur, sumur, hver og einn,
hvor og nokkur, einhver.

Óákveðin fornöfn beygjast í kyni, tölu og falli. Sum þeirra eru þó ekki notuð í eintölu af merkingarlegum ástæðum, t.d. báðir og fáeinir, og önnur aðeins að hluta, t.d. koma aðrar eintölumyndir en hvorugkynið ýmist og sumt sjaldan fyrir af þeim orðum.

Beyging óákveðinna fornafna er mjög misregluleg. Oft svipar henni til lýsingarorðabeygingar, t.d. beygjast hvorugur, sjálfur, sumur og nokkur eins og regluleg lýsingarorð. Önnur orð svara beygingarlega til ákveðinna töluorða, t.d. annar, fáeinir, einn og neinn. Einnig svarar beyging ýmissa óákveðinna fornafna til beygingar fornafna í öðrum flokkum, einkum spurnarfornafna: hver, hvor, sérhver og einhver. Fáein óákveðin fornöfn eiga sér þó ekki beina samsvörun í beygingu annarra orða þótt það eigi yfirleitt bara við um eina eða fáar beygingarmyndir. Þetta eru enginn, ýmis og báðir.

6.6 Töluorð

Af hreinum töluorðum beygjast bara fjögur þau fyrstu. Þau beygjast í kyni og falli en þar sem hvert þeirra um sig táknar tiltekna tölu eru þau annaðhvort bara til í eintölu eða bara í fleirtölu. Að vísu eru til fleirtölumyndir af orðinu einn sem notaðar eru í sérstökum tilvikum. Það orð beygist líkt og reglulegt lýsingarorð. Orðin tveir, þrír og fjórir hafa aftur á móti óreglulegri beygingu.

Orðin hundrað, þúsund og milljón beygjast líka. Þau eru í rauninni nafnorð og beygjast sem slík. Þau eru þó sjaldnast fallbeygð þegar þau eru notuð sem hrein töluorð:

Hann eyddi fjögur HUNDRUÐ krónum í sælgæti
Stelpan týndi fimm ÞÚSUND krónum

Þúsund er ýmist notað sem kvenkyns- eða hvorugkynsorð. Í talningu er venjulega notað hvorugkyn og einnig þegar nákvæmur fjöldi einhvers er tilgreindur:

2999 (tvö ÞÚSUND ...) – 3000 (þrjú ÞÚSUND) – 3001 ...
Eftir fjögur ÞÚSUND ár...

Þegar talað er um ótilgreindan fjölda er aftur á móti frekar notað kvenkyn: ÞÚSUNDIR manna voru saman komnar.

Raðtölurnar fyrsti, annar, þriðji, fjórði, fimmti o.s.frv. beygjast allar í kyni, tölu og falli. Beyging flestra þeirra er eins og regluleg lýsingarorðabeyging. Orðið annar hefur þó sérstaka beygingu sem er talsvert óreglulega þótt henni svipi til sterkrar beygingar lýsingarorða.

Með nafnorðum sem eingöngu eru til í fleirtölu eru notuð sérstök töluorð. Það fyrsta, einir, er formlega fleirtala af töluorðinu einn en hin orðin eru tvennir, þrennir og fernir. Þau beygjast öll á sama hátt og regluleg sterk lýsingarorð í fleirtölu. Sömu orðin eru notuð til að telja pör og þannig er gerður greinarmunar á tveimur skóm og tvennum skóm, þremur vettlingum og þrennum vettlingum.

Ýmis önnur orð hafa tölumerkingu, t.d. orð sem notuð eru um aldur fólks, t.d. tvítugur, þrítugur og níræður, og orð eins og tvöfaldur, þrefaldur. Yfirleitt er þó litið á þau sem lýsingarorð enda beygjast þau sem slík.

6.7 Greinirinn

Í íslensku er enginn óákveðinn greinir og ákveðni greinirinn er oftast viðskeyttur þannig að hann kemur fram sem ending á nafnorðum en ekki sem sjálfstætt orð. Viðskeytti greinirinn hagar sér þó ekki eins og venjuleg beygingarending eða -viðskeyti heldur fremur sem laustengdara viðhengi við orðin. Hann stendur alltaf aftast í orðum, á eftir öllum öðrum viðskeytum og endingum, og hann fær sínar eigin beygingarendingar. Í nafnorðum með greini eru því í rauninni tvær fall- og töluendingar, önnur á stofninum og hin á greininum: hest-ar+n-ir; bók-ar+inn-ar. Greinirinn veldur heldur ekki breytingum sem almennt verða í stofni nafnorða á undan beygingarendingum, jafnvel þótt hann virðist skapa hin hljóðfræðilegu skilyrði sem til þarf. Einkum má nefna að seinna sérhljóðið í stofni tvíkvæðra orða fellur sjaldnast brott á undan greininum, jafnvel þótt hann hefjist á sérhljóði: hamar-inn, trefill-inn. Tvíkvæð kven- og hvorugkynsorð eru þó undantekning: fjöðrin (kvk.), nöldrið (hk.).

Auk viðskeytta greinisins er stundum notaður laus greinir, hinn, þegar lýsingarorð er með nafnorðinu. Hann stendur þá á undan lýsingarorðinu:

HINIR ástsælu Spaðar leika fyrir dansi
H nýja og glæsilega ráðhús borgarinnar

Greinirinn hefur mismunandi myndir eftir því hvort hann stendur með karl-, kven- eða hvorugkynsorði. Hann beygist því í kyni og auk þess í falli og tölu. Beygingin er tiltölulega regluleg og hún er í aðalatriðum sú sama og beyging óákveðna fornafnsins hinn. Greinirinn beygist eins hvort sem hann er laus eða viðskeyttur en þegar honum er skeytt aftan við nafnorð hverfur ‘h’-ið framan af og í sumum tilvikum einnig sérhljóðið.

7. Beyging íslenskra sagna

7.1 Formdeildir sagna

Í sagnorð)um koma að verulegu leyti fram aðrar beygingarformdeildir en í fallorðum og það skipar sögnunum á sérstakan bás. Þær formdeildir sem eru sameiginlegar eru auk þess eðlisólíkar í þessum tveimur meginflokkum orða. Þannig hafa sagnir tölubeygingu eins og fallorðin en talan gegnir öðru hlutverki í þeim. Hún snýst ekki um fjölda þeirra atburða eða uppátækja sem sögnin vísar til heldur fjölda gerendanna. Hún ræðst með öðrum orðum af því hvort frumlagið er í eintölu eða fleirtölu:

STRÁKURINN HENDIR boltanum einu sinni/tvisvar/oft... (et.)
STRÁKARNIR HENDA boltanum einu sinni/tvisvar/oft... (flt.)

Tala nafnorðsins strákur ræður sem sagt tölu sagnarinnar en ekki það hvort boltanum er hent einu sinni eða oft.

Persóna kemur lítið við sögu í fallorðum þótt hún sé eðlisþáttur persónu- og eignarfornafna. Hún er hins vegar beygingarþáttur í sögnum og á það sameiginlegt með tölunni að hún ræðst af frumlaginu.

VIÐ KOMUM rétt bráðum (1. pers.)
KOMIÐ ÞIÐ ekki bráðum? (2. pers.)
ÞEIR/ÞÆR KOMA eftir augnablik (3. pers.)
BÖRNIN KOMA í fyrramálið (3. pers.)
HVERJIR KOMA í fyrramálið? (3. pers.)

Sem sjá má breytist mynd sagnarinnar eftir því hvort með henni stendur persónufornafn í 1., 2. eða 3. persónu. Með nafnorðum og öðrum fornöfnum en persónufornöfnum er sögnin líka í 3. persónu.

Þriðja beygingarformdeildin í sagnorð)um er háttur. Beygingarmyndir sagna skipa sér í tvær aðalfylkingar eftir því hvort þær teljast til svokallaðra persónu- eða fallhátta. Persónuhættirnir eru hinar eiginlegu sagnmyndir sem sýna atburði eða ástand frá mismunandi sjónarhornum. Þeir eru þrír: framsöguháttur (fh.), viðtengingarháttur (vh.) og boðháttur (bh.). Fallháttarmyndir sagna eru aftur á móti lýsandi ef svo má segja enda skiptast þær í sagnmyndir sem kallast lýsingarhættir nútíðar (lh.nt.) og þátíðar (lh.þt.) en auk þeirra telst nafnháttur (nh.) til fallhátta. Þessar myndir geta aldrei staðið einar sér sem fullgildar sagnmyndir.

Tíðbeygingin er yfirleitt talin eitt megineinkenni sagna. Beygingarlega er einungis greint á milli tveggja tíða, nútíðar (nt.) og þátíðar (þt.). Aðgreiningin kemur bara við sögu í persónuháttum og reyndar er einn þeirra, boðháttur, þess eðlis að hann einskorðast við nútíð (maður getur ekki skipað fyrir um það sem er liðið). Enda þótt lýsingarhættirnir tveir séu kenndir við nútíð og þátíð er munurinn á þeim annars eðlis en hin eiginlega tíðbeyging.

Fimmta og síðasta formdeildin, mynd, er líka bundin við sagnirnar einar. Gerður er greinarmunur á germynd (gm.), miðmynd (mm.) og þolmynd (þm.). Mynd lýtur að sjónarhorninu á verknað eða atburð, hvort athyglinni er t.d. beint að þeim sem fremur hann – gerandanum, þeim sem verður fyrir honum – þolandanum, eða fyrst og fremst að atburðinum sjálfum:

Höfundurinn seldi bókina (gm.)
Bókin var seld (af höfundinum/í búðinni) (þm.)
Bókin seldist vel (mm.)

Mynd er ekki nema að litlu leyti táknuð beygingarlega í íslensku. Þolmynd kemur ævinlega fram sem samband hjálparsagnarinnar vera og lýsingarháttar þátíðar af aðalsögninni og hún tengist jafnframt tiltekinni setningagerð:

Músin ÁT ostinn (gm.)
Osturinn VAR ÉTINN (af músinni) (þm.)

Það er því nær að líta á þolmynd sem setningafræðilegt fyrirbæri enda er það oft gert. Miðmyndin felur aftur á móti í sér breytingu á myndum sjálfrar sagnarinnar sem þar fá viðskeytið ‘-st’: hittumst, berjast, sést. Eigi að síður er samband germyndar og miðmyndar ekki eins reglubundið og algengast er milli beygingarmynda og merkingarhlutverk miðmyndarinnar með tilliti til germyndar er heldur ekki fullkomlega reglulegt. Þetta er þó svolítið mismunandi eftir sögnum og jafnvel eftir umhverfi. Samband myndanna: hitta ~ hittast, kyssa ~ kyssast, heilsa ~ heilsast er t.d. hið sama í öllum tilvikum og í orðasambandinu farast á mis við einhvern hefur miðmyndin svipuð tengsl við germyndina fara. Þau eru hins vegar ekki fyrir hendi í setningunni Báturinn fórst. Það má því segja að miðmynd sé á mörkum beygingar og orðmyndunar.

7.2 Beyging sagna

Beyging íslenskra sagna er talsvert margbrotin. Formdeildirnar eru fimm og sumar þeirra fela í sér andstæðu milli þriggja eða jafnvel fleiri póla. Mismunandi beygingarmyndir hverrar sagnar eru því nokkuð margar þegar allt er talið og samband myndanna með ýmsu móti. Þar við bætist að allnokkur formleg tilbrigði eru í beygingunni og sagnir skiptast því í nokkra beygingarflokka.

Yfirleitt er litið á nafnhátt sem eins konar grunnmynd sagna, m.a. vegna þess að sú mynd er notuð þegar talað er um sagnir: „Sögnin vera beygist óreglulega“ eða „Hvað merkir sögnin graðga?“ Hann er uppflettimynd sagna í íslenskum orðabókum og öðrum handbókum. Eigi að síður gefur nafnhátturinn engar vísbendingar um beygingu sagnanna því hann er eins í þeim flestum. Hann svarar til stofns sagnarinnar að viðbættri endingunni ‘-a’ nema stofninn endi á sérhljóði, þá er hann endingarlaus: hlaupa, ganga, læðast, dansa; , sjá, þvo, ske. Af þessum sökum eru frekari upplýsingar nauðsynlegar og þær eru yfirleitt gefnar með því að birta svokallaðar kennimyndir sagnarinnar. Þær eru ýmist þrjár eða fjórar. Auk nafnháttarins eru það þátíð eintölu í 1. persónu, þátíð fleirtölu af sterkum sögnum og loks lýsingarháttur þátíðar:

NH. ÞT. ET. (ÞT.FT) LH. ÞT.

kalla kallaði kallað
bíða beið biðum beðið

Af þessum myndum er hægt að leiða allar aðrar myndir sagnarinnar eftir ákveðnum reglum.

Af hverri sögn er bara ein nafnháttarmynd og það sama á við um lýsingarhátt nútíðar og boðhátt. Þær myndir eru báðar leiddar af stofni nafnháttarins, lýsingarhátturinn með viðskeytinu ‘-andi’ (lif-andi) og boðhátturinn með viðskeyti sem dregið er af 2. persónu fornafninu þú. Það hefur ýmist myndina ‘-ðu’, ‘-du’ eða ‘-tu’: borða-ðu, horf-ðu, vel-du, bít-tu, hlaup-tu. Einstöku sinnum kemur boðháttur þó fyrir án viðskeytisins, einkum í formlegu eða hátíðlegu máli: GEF oss í dag vort daglegt brauð.

Í öllum öðrum beygingarmyndum tvinnast tvær eða fleiri formdeildir saman. Þar má líka víða sjá ýmiss konar formleg tilbrigði í beygingu og það flækir málið með tilliti til skiptingar í beygingarflokka að tilbrigði sem koma fram í nútíðar- og þátíðarmyndum sagnanna standast ekki að öllu leyti á. Sagnir með sams konar persónu- og tölubeygingu í nútíð geta haft ólíka þátíð:

Hann FLYTUR (nt.)
Hann FLUTTI (þt.)

Hann BRÝTUR (nt.)
Hann BRAUT (þt.)

Sagnir sem mynda þátíð á sama hátt geta líka haft mismunandi beygingu í nútíð:

Hún GÁÐI (þt.)
Hún GÁIR (nt.)

Hún NÁÐI (þt.)
Hún NÆR (nt.)

Sögnum er skipt í tvo meginflokka, sterkar og veikar sagnir. Langflestar íslenskar sagnir fylla flokk hinna veiku en þó að sterkar sagnir séu tiltölulega fáar eru margar algengustu sagnir málsins þeirra á meðal. Sterkar sagnir mynda lokaðan flokk í þeim skilningi að engar nýjar sagnir bætast í hann, hvorki nýyrðitökuorð.

Skipting sagna í sterkar og veikar tekur eingöngu mið af því hvernig þær eru í þátíð. Í veikum sögnum hefur þátíðin sérstakt viðskeyti, tannhljóð sem ýmist kemur fram sem ‘-ð’, ‘-d’ eða ‘-t’: bannaði, náði, taldi, mætti. Þátíð sterkra sagna hefur aftur á móti annan stofn en nútíðin, oftast með öðru sérhljóði en stundum er munurinn meiri: (ég) bít(nt.) ~ beit (þt.);(nt.) ~ fékk (þt.); vind (nt.) ~ vatt (þt.). Oft hefur þátíð fleirtölu annað sérhljóð en eintalan og lýsingarháttur þátíðar enn annað. Þess vegna eru kennimyndir sterkra sagna fleiri en veikra:

VEIKAR SAGNIR:

missa – missti – misst
svæfa – svæfði – svæft
skrifa – skrifaði – skrifað

STERKAR SAGNIR:

taka – tók – tókum – tekið
sofa – svaf – sváfum – sofið
liggja – lá – lágum – legið

Sérhljóðavíxlin í kennimyndum sterku sagnanna kallast hljóðskipti. Þau eru ekki af sama tagi og önnur sérhljóðavíxl í beygingu orða og þau koma hvergi annars staðar fyrir í beygingakerfinu, hvorki í sagnbeygingunni né í öðrum orðflokkum.

Sagnir hafa persónu- og tölubeygingu bæði í nútíð og þátíð. Allar þrjár persónurnar hafa mismunandi myndir í eintölu og fleirtölu þannig að myndirnar eru sex í hvorri tíð. Þar sem þetta gildir jafnt um framsöguhátt og viðtengingarhátt eru myndirnar 24 alls. Munur beygingarmynda kemur bæði fram í stofni sagnanna og endingum. Í þátíð hafa veikar sagnir sérstakar endingar og sterkar sagnir aðrar en tilbrigðin eru talsvert meiri í nútíð. Það á þó aðeins við um framsöguhátt því viðtengingarháttur hefur sömu endingar í öllum sögnum.

Sé einungis miðað við mynd 1. persónu eintölu skiptast sagnir í þrjá mismunandi flokka í nútíð en ef litið er til beygingarinnar í heild koma fram fimm afbrigði. Hvort sem flokkarnir eru taldir þrír eða fimm þegar miðað er við nútíðarbeyginguna þá standast þeir ekki að öllu leyti á við skiptingu sagnanna í sterkar og veikar sagnir sem ræðst af þátíð þeirra:

I. skrifa (VEIK):
(ég) skrif-a, (þú/hann) skrif-ar; þt. skrif-aði
II. læsa (VEIK):
nt. (ég) læs-i, (þú/hann) læs-ir; þt. læs-ti
III. velja (VEIK):
nt. (ég) vel-, (þú/hann) vel-ur; þt. val-di
bjóða (STERK):
nt. (ég) býð-, (þú/hann) býð-ur; þt. bauð
IV. flýja (VEIK):
nt. (ég) flý-, (þú) flý-rð, (hann) flý-r; þt. flú-ði
deyja (STERK):
nt. (ég) dey-, (þú) dey-rð, (hann) dey-r; þt.
V. verja (VEIK):
nt. (ég) ver-, (þú) ver-ð, (hann) ver-; þt. var-ði
lesa (STERK):
nt. (ég) les-, (þú) les-t, (hann) les-; þt. las

Ýmsar sagnir hafa að einhverju leyti óreglulega beygingu. Segja má að allar eða velflestar sterkar sagnir beygist óreglulega í ljósi þeirra tilbrigða sem verða í stofni þeirra jafnvel þótt þær beygist flestar eins í aðalatriðum ef einungis er litið á endingar hinna ýmsu mynda. Sumar sterkar sagnir eru þó óreglulegri en aðrar, t.d vera og koma. Nokkrar veikar sagnir beygjast líka óreglulega að meira eða minna leyti, oftast vegna þess að í stofni þeirra verða hljóðbreytingar sem ekki verða almennt í sögnum með sömu beygingu. Frávikin má stundum rekja til þess að sögnin hefur upprunalega verið sterk og ber þess einhver merki. Dæmi um óreglulegar veikar sagnir eru þvo og valda.

Meðal óreglulegra sagna eru svokallaðar núþálegar sagnir. Þær hafa það megineinkenni að nútíð þeirra svipar til þátíðar sterkra sagna en hins vegar mynda þær þátíð með viðskeyti eins og veikar sagnir. Þess vegna er líka stundum sagt að þær hafi blandaða beygingu. Í þessum hópi eru nokkrar algengar sagnir sem margar eru notaðar bæði sem aðalsagnir og sem eins konar hjálparsagnir í sambandi við aðrar sagnir, svonefndar háttarsagnir. Sagnirnar munu og skulu eru þó eingöngu hjálparsagnir og beyging þeirra er skert að því leyti að ýmsar beygingarmyndir eru ekki til af þeim. Til er vísa sem skólanemar hafa lært til að minna sig á hverjar þessar sagnir eru:

Unna, kunna, muna, má,
munu, eiga, skulu,
þurfa, vilja, vera, kná,
vita tylftarþulu.

Sögninni vera er reyndar ofaukið þarna því hún er sterk sögn.

Loks eru fáeinar sagnir sem fá viðskeytið ‘-r-’ í þátíð yfirleitt taldar til óreglulegra sagna: gróa, núa, róa, snúa .

Í miðmynd hafa sagnir sömu persónu-, tölu- og tíðbeygingu og endranær að viðbættu viðskeytinu ‘-st’. Því er með öðrum orðum skeytt aftan við venjubundnar beygingarendingar þótt þær einfaldist reyndar oft og falli jafnvel brott á undan viðskeytinu. Þar af leiðandi falla beygingarmyndir í ríkari mæli saman í miðmynd en í germynd. Sagnir sem einungis eru til með st-viðskeyti, t.d. ferðast, hamast og heppnast, beygjast eins og miðmynd.

7.3 Lýsingarhættir og samsett beyging

Lýsingarhættir standa aldrei einir sér sem sjálfstæðar sagnmyndir, hvorki lýsingarháttur nútíðar né þátíðar. Annaðhvort eru þessar myndir fylgifiskar hjálparsagna í ýmiss konar sagnasamböndum eins og sýnt er í (1) eða þær hafa svipaða stöðu og fallorð, aðallega lýsingarorð, eins og kemur fram í (2) og (3):

1. Ég hef KOMIÐ hingað áður (LH.ÞT.)
Geturðu ekki HLAUPIÐ hraðar? (LH.ÞT.)
Þau eru FARIN (LH.ÞT.)
Hríðin fer VAXANDI (LH.NT.)

2. Bíllinn er BILAÐUR (LH.ÞT. = LO.)
Bíllinn er ÓNÝTUR (LO.)

3. Hvaða GRÁTANDI barn er þetta? (LH.NT. = LO.)
Hvaða TÁRVOTA barn er þetta? (LO.)

Lýsingarháttur nútíðar stendur sjaldan í fastmótuðum sagnasamböndum en aftur á móti myndar lýsingarháttur þátíðar sambönd með ýmsum sögnum. Í sumum þeirra beygist hann í kyni og tölu og hann fallbeygist jafnvel ef umhverfið býður upp á það enda er nafnið fallháttur dregið af því einkenni:

Borðið var EYÐILAGT (hk.et.)
Stóllinn var EYÐILAGÐUR (kk.et.)
Borðin voru EYÐILÖGÐ (hk.ft.)

Hún taldi strákana vera FARNA (kk.ft.þf.)
Þau sögðu stelpurnar vera FARNAR heim (kvk.ft.þf.)

Í öðrum samböndum er lýsingarhátturinn þó óbeygður, t.d. með hjálparsögnunum hafa og geta. Þá kemur hann fram í mynd sem endar á tannhljóði, ‘-t’ eða ‘-ð’, og svarar til hvorugkyns eintölu: (ég hef/get) horft, synt, lesið, lifað. Lýsingarháttur þátíðar í slíkum samböndum er stundum nefndur sagnbót.

Beygingarlega svara lýsingarhættirnir til lýsingarorða. Lýsingarháttar þátíðar beygist alveg eins og lýsingarorð sem sömu stofngerð: eyðilagður, farinn, talinn. Lýsingarháttur nútíðar er aftur á móti óbeygjanlegur líkt og lýsingarorð sem enda á sérhljóði.

Ýmis nafnorð og lýsingarorð eru leidd af sögnum með sömu viðskeytum og lýsingarhættir og mörkin milli beygingar og orðmyndunar eru því víða óljós. Einkum er erfitt að greina á milli eiginlegra sagnmynda og lýsingarorða sem leidd eru af sögnum því þar er ekki einungis um sömu viðskeyti að ræða heldur er beygingin líka sú sama.

Sagnasambönd eru af ýmsu tagi og þau gegna mismunandi hlutverki. Sum þeirra eiga sér svo fastan sess í málkerfinu að stundum er talað um samsetta beygingu þó að strangt tiltekið sé fremur um setningarfræðileg atriði að ræða. Það gildir einkum um tvenns konar sambönd. Annars vegar á þetta við um þolmynd sem mynduð er úr hjálparsögninni vera ásamt lýsingarhætti þátíðar af aðalsögninni: Þjófurinn VAR HANDTEKINN (af lögreglunni). Hins vegar er átt við sambönd hjálparsagnarinnar hafa og lýsingarháttar þátíðar af aðalsögn. Þau tákna tímaafstöðu þess sem sagt er frá hvers til annars – að eitt gerist á undan öðru:

Ég HEF KOMIÐ hingað áður
Hann HAFÐI LOKIÐ verkinu áður en hann kom

Þegar hjálparsögnin er í nútíð er talað um núliðna tíð en þáliðna tíð ef hún er í þátíð.

Fleiri sambönd tengjast tímasetningu eða tímaafstöðu þess sem um er rætt, t.d. vísa sambönd með hjálparsögnunum munu, ætla, fara (að) og jafnvel skulu til framtíðar þótt það sé ekki eina hlutverk þeirra. Slík sambönd eru hins vegar fremur viðfangsefni setningafræði og merkingarfræði en beygingafræði.

8. Stigbreyting atviksorða

Atviksorð beygjast ekki að öðru leyti en því að mörg þeirra taka stigbreytingu. Formlega er hún hliðstæð stigbreytingu lýsingarorða í öllum meginatriðum. Miðstig myndast með viðskeytinu ‘-ar-’ eða ‘-r-’ og efsta stig með ‘-ast-’ eða ‘-st-’. Þessi viðskeyti koma við sögu í öllum miðstigs- og efsta stigs myndum atviksorða en beygingarmunstrið er tæplega eins reglulegt og í lýsingarorðum. Oft og tíðum eru líka lausari tengsl milli stigbreyttra mynda atviksorða en algengast er um beygingarmyndir.

Einfaldast er að skipta atviksorðum í þau sem hafa meira eða minna reglulega stigbreytingu þar sem viðskeytin tengjast stofni frumstigsins (seintseinnaseinast) og óreglulega stigbreytingu þar sem stofn miðstigs og efsta stigs er annar en frumstigs (velbeturbest). Einnig eru til atviksorð sem einungis hafa miðstigs og efsta stigs myndir en ekkert frumstig: síður, síst.

9. Óbeygjanleg orð

Í öllum orðflokkum eru til einstök orð sem ekki beygjast, ýmist vegna þess að þau eru einungis notuð í föstum samböndum og koma þar af leiðandi bara fyrir í einni mynd eða vegna þess að þau eru af einhverjum orsökum óbeygjanleg. Óbeygð eða óbeygjanleg nafnorð eru fá en nefna má dæmi eins og gær og býti í sambandinu í býtið. Allnokkur lýsingarorð eru aftur á móti óbeygjanleg og einnig má nefna spurnarfornafnið hvaða. Þetta eru þó einangruð frávik frá því sem almennt tíðkast í þessum orðflokkum.

Aftur á móti eru í málinu heilir flokkar óbeygjanlegra smáorða þar sem beygingarleysið er eitt af einkennum orðanna. Það eru einkum forsetningar og samtengingar. Atviksorð eru líka óbeygjanleg að mestu þótt sum þeirra stigbreytist og það er eitt af því sem skilur þau frá lýsingarorðum.

10. Lesefni

Mikið er til af ritum sem gefa yfirlit yfir beygingar í íslensku, einkum kennslubækur fyrir ýmis skólastig. Hér eru bara nefnd nokkur þau ítarlegustu og/eða nýjustu, einkum þau sem stuðst hefur verið við í greininni.

Ásta Svavarsdóttir. 1993. Beygingakerfi nafnorða í nútímaíslensku. Málvísindastofnun Háskóla Íslands, Reykjavík.

Ásta Svavarsdóttir og Margrét Jónsdóttir. 1998. Íslenska fyrir útlendinga. Kennslubók í málfræði. [2. útgáfa.] Málvísindastofnun Háskóla Íslands, Reykjavík.

Eiríkur Rögnvaldsson. 1990. Íslensk orðhlutafræði. Kennslukver handa nemendum á háskólastigi. [4. útgáfa.] Málvísindastofnun Háskóla Íslands, Reykjavík.

Höskuldur Þráinsson. 1995. Handbók um málfræði. Námsgagnastofnun, Reykjavík.

Jörgen Pind [ritstj.], Friðrik Magnússon og Stefán Briem. 1991. Íslensk orðtíðnibók. Orðabók Háskólans, Reykjavík.

Kress, Bruno. 1982. Isländische Grammatik. VEB Verlag Enzyklopädie, Leipzig.

Lyons, John. 1968. Introduction to Theoretical Linguistics. Cambridge University Press, Cambridge.

Valtýr Guðmundsson. 1922. Islandsk grammatik. Islandsk nutidssprog. H. Hagerups Forlag, Kaupmannahöfn. [Ljósprentuð útgáfa 1983: Rit um íslenska málfræði I. Málvísindastofnun Háskóla Íslands, Reykjavík.]