Greinar

Orðræðugreining
Þórunn Blöndal

1. Orðræða – orðræðugreining

1.1 Orðræða

Hugtakið ORÐRÆÐA er haft um hvort sem er talað mál eða ritað. Í skilgreiningu á orðræðu eru einkum farnar þrjár leiðir. Stundum kjósa menn að líta aðeins á formlega þáttinn, í þessu samhengi lengd þeirrar einingar sem fengist er við. Sé það sjónarhorn valið er orðræða skilgreind sem máleining stærri en einstök setning eða málsgrein en þær eru stærstu einingarnar sem fengist er við í hefðbundinni málfræði.

Annað sjónarhorn fæst ef litið er fram hjá forminu og einblínt á hlutverk máleiningarinnar. Þá er sagt að orðræða sé texti af einhverjum toga sem hefur verið notaður í samskiptum milli manna, í ræðu eða riti.

Þriðja leiðin er að fara bil beggja og það gera líklega flestir sem fást við orðræðugreiningu. Þá er hugtakið ORÐRÆÐA notað yfir textabút, talaðan eða skrifaðan, sem venjulega er lengri en setning eða málsgrein, og á upphaf sitt í raunverulegum málaðstæðum. Hversdagsleg samtöl milli manna, símtöl, frásagnir, brandarar og samskipti kennara og nemanda í kennslustofu eru allt dæmi um orðræðu; dæmi um orðræðu í rituðu máli eru sendibréf, tölvupóstur, auglýsingar og leiðbeiningar í símaskrá. Hér er litið á orðin ORÐRÆÐU og TEXTA sem samheiti en á þessu tvennu vilja margir gera greinarmun.

1.2 Orðræðugreining

ORÐRÆÐUGREINING er athugun á öllum þáttum málnotkunar. Hún beinist oft að því að greina áhrif umhverfisins á orðræðuna og er þá bæði átt við textaumhverfi, þ.e. það samhengi sem textinn birtist eða heyrist í, og aðstæður þær sem mynda bakgrunn orðræðunnar. Í orðræðugreiningu er sjónum beint að tungumálinu eins og það er notað í raun og veru, hvort sem er í rituðum texta eða töluðu máli, allt frá hversdagslegu samtali til formlegra skrifa.

1.3 Viðfangsefni orðræðugreiningar

Þegar menn segjast vinna við orðræðugreiningu er í raun ekkert sagt um rannsóknaraðferð, heldur aðeins gefið til kynna að unnið sé úr ákveðinni gerð af gögnum, þ.e. textabút sem er lengri en málsgrein og hefur þjónað einhverju hlutverki í töluðu eða rituðu máli. Í orðræðugreiningu er alltaf fengist við málbeitingu, þ.e. málið eins og það er notað, en ekki málkerfi eða undirliggjandi málfræðireglur.

Orðræðu má nálgast út frá mismunandi stefnum eða skólum. Meðal þeirra eru:

Kenning um talfólgna þætti (sjá Málnotkunarfræði), samskiptamálfræði, málnotkunarfræði, samtalsgreining og breytileikafræði.

Rannsóknarsviðum orðræðugreiningar má með nokkurri einföldun skipta í tvennt; annars vegar fást menn við að rannsaka samtöl milli manna, hins vegar fást þeir við greiningu á ýmsum einkennum orðræðu, s.s.samloðun og samfellu.

Engar heildstæðar rannsóknir eru til um íslenska orðræðu og er því einungis hægt að greina frá því sem komið hefur í ljós í erlendum rannsóknum.

1.4 Skyldar greinar

Orðræðugreining er venjulega talin til félagslegra málvísinda. Oft er erfitt að greina mörkin á milli orðræðugreiningar og

málnotkunarfræði; greinarnar taka báðar tillit til textaumhverfis og aðstæðna. Sumir vilja þó draga þau mörk að orðræðugreining fáist alltaf við lifandi mál, þ.e. mál sem orðið hefur til við eðlilegar aðstæður, en í málnotkunarfræði sé oft fengist við tilbúnar setningar sem þjóna ákveðnum tilgangi. Tengsl þessara tveggja greina eru þó það mikil að algengt er að finna kafla um málnotkunarfræði í bók um orðræðugreiningu.

Það eru ekki eingöngu málfræðingar sem hafa áhuga á málnotkun og málhegðun fólks; félagsfræðingar, sálfræðingar, mannfræðingar, þjóðháttafræðingar, heimspekingar og bókmenntafræðingar nýta sér þá vitneskju sem má fá með því að kynna sér orðræðu ólíkra hópa og vafalaust fólk úr fleiri fræðigreinum en þeim sem hér eru nefndar.

2. Samtöl

2.1 Samskiptahæfni

MÁLHÆFNI er hugtak sem bandaríski málvísindamaðurinn Noam Chomsky notar yfir þá ómeðvituðu vitneskju um reglur móðurmálsins sem hver málnotandi býr yfir. Á sama hátt er hugtakið SAMSKIPTAHÆFNI notað um hæfileika málnotenda til að hlíta þeim óskráðu reglum sem gilda í samtölum milli manna við ólíkar aðstæður. Þetta á ekki aðeins við um form samtala heldur má líka segja að samkomulag ríki milli þeirra sem talast við, t.d. um hversu lengi megi tala í einu og um að það megi treysta því að það sem sagt er sé mikilvægt í tengslum við samtalið sem á sér stað (sjá

Málnotkunarfræði). Þetta samkomulag er augljóslega oft brotið. Fólk virðir t.d. ekki alltaf reglur um að einn skuli tala í einu eða að þátttakendur í samtali skuli skiptast á um að tala, svo eitthvað sé nefnt.

2.2 Samtöl

Í öllum mállegum samskiptum eigast við SENDANDI og VIÐTAKANDI; þ.e. sá sem talar eða skrifar og sá eða þeir sem hlusta eða lesa. Það hefur komið í ljós að samtöl manna virðast lúta ákveðnum reglum sem sérhver þátttakandi þekkir og býst við að viðmælendur hans fari eftir, svokölluðu samvinnulögmáli. Þess vegna bregður mönnum þegar viðmælendur þeirra óhlýðnast þessum óskráðu reglum, t.d. með því að grípa fram í, þegja of lengi eftir að þeir fá orðið eða skipta fyrirvaralaust um umræðuefni.

Samtöl geta verið af ólíku tagi og mótast af tengslum þeirra sem ræðast við og kringumstæðum. Samtöl geta verið formleg, t.d. viðtal vegna atvinnuumsóknar; þau geta verið sprottin af nauðsyn og haft ákveðinn tilgang, eins og samtal læknis og sjúklings, og þau geta líka verið eðlileg og sjálfsprottin. Ef tveir jafningjar ræðast við verður samtalið alla jafna öðruvísi en þegar einn þátttakenda er áberandi valdamestur (t.d. í samtali yfirmanns við undirsáta) eða hefur slíka stöðu í samtalinu (t.d. læknir við sjúkling; kennari við nemanda o.s.frv.).

Sérstök grein innan orðræðugreiningar fæst við að greina samtöl, svokölluð samtalsgreining sem oft er tengd Bandaríkjunum en hefur líka talsvert verið stunduð í Svíþjóð og í Finnlandi. Greining á formlegum samtölum er aftur á móti kennd við Bretland.

2.2.1 Hvað ræður sniði og formi samtala?

Það sem venjulega er fellt undir hugtakið SAMTAL getur verið afar margbreytilegt. Þeir þættir sem einkum hafa áhrif á það form sem samtalið tekur á sig eru þessir:

2.2.2 Sjálfsprottin samtöl

Helstu einkenni eðlilegra eða sjálfsprottinna samtala eru að þau eru

Þegar kemur að því að skilgreina einkenni sjálfsprottinna samtala vandast málið. Flestir eru þó sammála um að eitt megineinkenni slíkra samtala sé það að þau verði til við samvinnu og séu spunnin upp á staðnum.

Fleiri atriði má nefna; til dæmis telja margir að sjálfsprottið samtal þurfi að falla undir eftirtaldar skilgreiningar:

Hér eru nokkur atriði lítt skilgreind; hvað eru t.d. ‘fáir’ þátttakendur? Augljóslega þurfa a.m.k. tveir að vera viðriðnir samtal, algengt er að þátttakendur séu þrír og fjórir en þegar þeir eru orðnir fjórir eða fleiri er alltaf hætta á að það sem í upphafi var eitt samtal leysist upp í tvö eða fleiri. Og hvað er ‘stutt’ lota? 10 orð? 50 orð? Hér er eðlilegast að líta á meðallengd lotu í óformlegum samtölum og miða við hana (sjá samtalslotur).

Það sem telja má dæmigerða umgjörð fyrir EÐLILEGT, SJÁLFSPROTTIÐ SAMTAL er:

Þá má nefna að í samtölum eins og þeim sem hér um ræðir má venjulega gera ráð fyrir sameiginlegum þekkingargrunni, menningarlegum, félagslegum og oftast persónulegum.

2.2.3 Samtalslotur

Augljósasta reglan í samtölum er sú að þátttakendur skiptast á um að tala. Einingin frá því einn málnotandi tekur orðið þangað til annar tekur við kallast SAMTALSLOTA eða LOTA. Sumar lotur eru aðeins eitt orð, t.d. , nei eða bara, aðrar eru miklu lengri, t.d. þegar mælandi segir sögu eða setur á langa ræðu máli sínu til stuðnings. Niðurstöður ýmissa rannsókna á sjálfsprottnum samtölum sýna að meðallengd lotu virðist vera um 10 orð. Lágmarkslotur eru mjög algengar, en svo má kalla svör eins og og nei þegar þau koma fyrir í því samhengi. Slík smáorð eru líka algeng sem örvun en teljast þá ekki sem lota vegna þess að markmiðið er ekki að ná orðinu af þeim sem talar.

Samtalslotur eru þær einingar sem samtalið er gert úr. Oft er tiltölulega auðvelt fyrir þann sem hlýðir á samtal að greina hvar í samtalinu þátttakendur eru staddir hverju sinni. Þannig má greina tiltekna þætti samtals, svo sem upphaf eða inngang samtals, örvun, merki um að lotu sé að ljúka, kynningu nýs umræðuefnis og samtalslok.

2.2.4 Lotuskipti

Ef þátttakendur í samtali eru fleiri en tveir getur verið tilviljanakennt hver tekur orðið við lotuskipti. Þó er hægt að velja ‘eftirmann’ sinn, bæði með látæði og eins með því að nefna hann til sögu:

Hvað finnst þér um það, Ásta?

Þessi segð velur ekki aðeins næsta mælanda heldur býður hún upp á lotuskipti vegna þess að hún er í formi spurningar sem krefst svars.

Ýmsar aðferðir eru notaðar til þess að sýna viðmælanda að lotulok nálgist. Þetta má t.d. sýna með því að tilkynna það beint eða láta það óbeint í ljós með því að hika og setja á langar þagnir:

Beint: . . . ég ætla ekki að segja meira í bili . . .
Óbeint: . . . eða. . . ég bara . . . já. . . . .ég veit það ekki . . . .

Annað ótvírætt merki um lotulok er að hljómfall breytist og endar á lágum ‘tóni’. Þetta verður áberandi í upptalningu:

Hún keypti kók, poppkorn, tópaspakka, tyggjó, súkkulaði og lakkrís

Það má líka segja að og í dæmasetningunni þjóni því hlutverki að láta viðmælanda okkar vita að þessu sé að ljúka; nú fari að líða að því að hann komist að!

Venjulega er örstutt þögn undanfari lotuskipta og ótvírætt boð um að næsta manni sé velkomið að taka við. Myndin sýnir ‘eðlileg’ lotuskipti; punkarnir tákna þögn.

Hér má sjá dæmi um hvernig sýna má eðlileg lotuskipti í samtali tveggja. Punktarnir tákna þögn.

Þótt hér sé látið í veðri vaka að viðmælendur skiptist á um að tala og aðeins einn hafi orðið í einu er raunveruleikinn oft annar. Talsvert er um svokallað samhliða tal, sem sé að tveir eða fleiri tali samtímis um lengri eða skemmri tíma. Þá eru örvun og viðkvæði algeng í samtölum.

2.2.5 Segðapör

Tvær segðir eru stundum algjörlega háðar hvor annarri og geta tæpast staðið einar; augljóst dæmi um slíkt er parið spurning og svar. Þegar spurningu er varpað fram er oftast gert ráð fyrir svari og ef við heyrum segð eins og

Já, ég held það

vitum við strax að eitthvað hefur farið á undan. Spurningu og svar má kalla SEGÐAPAR. Segðapör eru ‘samtalsvæn’ þar sem þau gera ráð fyrir viðbrögðum; þau stuðla að lotuskiptum og virkja þannig fleiri en einn þátttakanda í samtalinu. Hér koma nokkur dæmi um segðapör.

Nokkur dæmi um segðapör.

Seinni hluti segðapars er ekki alltaf næsta segð við þá fyrri. Dæmi eins og hér er sýnt er sennilega kunnuglegt:

A: Hvað kostaði þessi peysa?
B: Af hverju spyrðu?
A: Bara, mig langar að vita það
B: Hún var frekar dýr
A: Kostaði hún meira en 3000 krónur?
B: 3500

Hér fæst svarið við fyrstu spurningunni ekki fyrr en eftir nokkurt þóf en kemur þó í lokin.

2.3 Samhliða tal

Samtalslotur eru áberandi þáttur í samtölum og loturnar óumdeilanlega aðaleiningar samtalsins. Samt sem áður er það líka eitthvað sem allir þekkja að fleiri en einn tali í einu, fólk skjóti inn orði og orði í annarra manna lotur og tali jafnvel ofan í viðmælanda sinn. Þetta er kallað SAMHLIÐA TAL.

Hér er samhliða tali skipt í nokkra hluta eftir eðli og hlutverki; þeir eru skörun, negling,framígrip, örvun og viðkvæði.

2.3.1 Skörun

SKÖRUN kallast það þegar tveir eða fleiri þátttakandur í samtali hefja mál sitt á sama tíma og tala um stund báðir eða allir, líklega vegna þess að þeir hafa gripið orðið þegar tækifæri gafst án þess að huga hver að öðrum. Venjulega bakka allir fljótlega út úr lotunni nema einn sem fær tækifæri til að halda áfram.

Skörun má sýna á mynd, þar sem A og B eru þátttakendur samtals; á myndunum er gert ráð fyrir að A haldi orðinu en auðvitað getur það farið á hinn veginn.

Dæmi um skörun í samtali.

Skörun getur líka orðið vegna þess að þátttakandi í samtali byrji lotu áður en sá sem hefur orðið hefur lokið sinni; þá tala þeir hvor ‘ofan í annan’ um stund en oft endar þetta á þann veg að sá sem hafði orðið heldur áfram eins og ekkert hafi í skorist. Þetta er sérstaklega áberandi í samtölum milli einstaklinga sem þekkjast vel (sjá mynd).

Dæmi um skörun í samtali.

Algengast er að skörun verði þegar stutt þögn eða hlé verður í máli þess sem hefur orðið og líkleg skýring á sköruninni er að þögnin sé túlkuð sem lotulok; á myndinni er þögnin sýnd með þremur punktum.

Dæmi um skörun í samtali.

Skörun getur haft það hlutverk að bæta ‘rennslið’ í orðræðunni – samtalið gengur hraðar og verður lipurra þegar þessum brögðum er beitt. Ef skörun verður til þess að sá sem hafði orðið þagnar og eftirlætur það þeim sem greip inn í þá er það oft matsatriði hvort það flokkast undir skörun, sem er hlutlaust eða jákvætt hugtak, eða framígrip sem í hugum flestra hefur neikvæða merkingu.

2.3.2 Negling

NEGLING er þegar þátttakandi í samtali byrjar nýja lotu um leið og sá sem hafði orðið lýkur sinni lotu, án undangenginnar þagnar eins og venjulega má greina á lotumörkum en á þögnina má líta sem merki um að lotu sé lokið.

Negling er því náskyld skörun að því leyti að hún felst í því að hefja lotu á óhefðbundnum stað. Neglingu má sýna svona á mynd.

Dæmi um neglingu í samtölum

2.3.3 Framígrip

FRAMÍGRIP eru af mörgum álitin neikvæð og eru það vitanlega oft. Ekki er alltaf einfalt að greina milli skörunar og framígripa. Einna helst er þó að greina hvar í samtalinu gripið er inn í og í hvaða skyni það er gert. Eiginleg framígrip koma oft fyrir inni í miðri lotu en ekki þegar skil eða þagnir verða í lotunni, t.d. á mótum málsgreina eða segða. Það er því ekki hægt að túlka eiginleg framígrip sem mistök heldur verður að líta á þau sem afdráttarlausa kröfu um að komast strax að í samtalinu. Ef það sem lítur út sem skörun í fyrstu endar með því að sá sem hafði orðið hættir og eftirlætur það öðrum má kalla það framígrip. Þá má líta á það sem ótvíræð framígrip ef þátttakandi í samtali brýst inn í miðja lotu hjá öðrum og skiptir um umræðuefni; nema aðstæður krefjist þess að hann bregðist snöggt við og leiði samtalið að öðru.

Stundum eru framígrip réttlætanleg. Þau eru t.d. nauðsynleg til þess að leiðrétta missagnir í máli þess sem hefur orðið eða koma að mikilvægum viðbótar-upplýsingum. Þetta má gera með lagni og byrja á afsökunarbeiðni:

Fyrirgefðu, en ég get ekki orða bundist . . .
Má ég aðeins grípa inn í . . . ?

Stundum má réttlæta framígrip með því að sá sem talar þá stundina hafi brotið samvinnulögmálið; hann hafi ofboðið viðmælanda sínum með því að tala of lengi eða halda langa ræðu um lítilfjörlegt efni.

2.3.4 Örvun

ÖRVUN er það kallað þegar viðtakandinn lætur á sér heyra að hann sé að hlusta og finnist áhugavert það sem verið er að segja. Þetta er gert með því að skjóta inn mhm eða þar sem við á. Stundum lætur fólk sér nægja að kinka kolli eða sýna með látbragði að það sé með á nótunum.

2.3.5 Viðkvæði

Ákveðin orð og föst orðasambönd sem skotið er inn í samtalslotur og láta í ljós afstöðu hlustanda til þess sem sagt er má kalla VIÐKVÆÐI. Þetta eru t.d. orðasambönd eins og hvað ertu að segja?, ja hérna!, ég á ekki orð og guð minn góður! Hlutverk þessara orða er það sama og hlutverk örvunar, þau gefa til kynna að verið sé að hlusta og gefa viðtakanda tækifæri til þess að láta í ljós álit sitt á því sem sendandi segir, t.d. samþykki sitt, undrun eða hneykslun. Í hópsamræðum er algengt að hálfgerðir viðkvæðakórar myndist, t.d. í frásögnum sem oft má finna inni í samtölum.

2.4 Frásagnir í samtölum

Frásagnir inni í samtölum eru talsvert algengar. Þær þykja spennandi athugunarefni, ekki aðeins fyrir málfræðinga heldur líka mannfræðinga og sálfræðinga. Eitt þekktasta nafnið í frásagnarfræðum er William Labov en það var hann sem fyrstur vakti athygli á því sem hann kallaði ÞVERSÖGN ATHUGANDANS (the observer's paradox). Þversögnin felst í því að málvísindamaður sem reynir að festa á segulband eðlilegt og óþvingað mál býr um leið til óeðlilegar málaðstæður með segulbandinu og rannsókninni. Labov reyndi að vinna gegn þessu með því að fá viðmælendur sína til að segja sér frá skelfilegu atviki sem þeir endurlifðu í frásögninni og gleymdu um leið segulbandinu og tilbúnum aðstæðum rannsóknarinnar.

Labov skiptir frásögninni í nokkra hluta. Þeir eru þessir:

2.5 Kynbundnar samtalsvenjur

Það hefur komið í ljós í erlendum rannsóknum að konur og karlar hegða sér á ólíkan hátt í samtölum. Konur spyrja fleiri spurninga en karlar, þær nota örvun og viðkvæði oftar en karlar, t.d. innskot eins og mhm, og hvað ert að segja, og hvetja þannig sendanda til að halda áfram. Meiri sveiflur eru í tónfalli hjá konum en körlum og konur nota oftar fornöfnin þú og við.

Karlar eru hins vegar líklegri til þess að grípa fram í (í sumum rannsóknum gera þeir það þrisvar sinnum oftar en konur). Þeir vefengja líka oftar það sem sagt er auk þess sem þeir hvetja viðmælendur sína síður til að halda áfram. Í samtölum milli karla og kvenna eru það oftast karlarnir sem ráða umræðuefninu og þeirra samtalsstíll einkennist af yfirlýsingum, staðreyndum og skoðunum. Í rannsóknum á einkynja hópum (þ.e. karlahópum og kvennahópum) hefur komið í ljós að umræðuefni kynjanna eru ólík; konur tala mest um fólk og tilfinningar en karlmenn um hluti og atburði.

Það sem hér er sagt um málhegðun kynjanna ber að taka með varúð því ekki er hægt að fullyrða að mismunurinn sé endilega kynbundinn. Erlendar rannsóknir hafa sýnt að ýmsir þættir aðrir en kyn geta haft áhrif á þá mynd sem hér er gefin; t.d. stétt og valdastaða þeirra sem talast við. Þá má líka ítreka að allt sem hér er sagt er byggt á erlendum rannsóknum; rannsóknir á íslenskum veruleika gætu gefið aðra mynd.

2.6 Samtalsskráning

Tvær leiðir eru færar til þess að taka upp samtöl; önnur og sú algengari er að nota segulband, hin er að nota myndbandsupptöku. Síðari leiðin er áhugaverð vegna þess að þá nást á bandið svipbrigði og annað látbragð sem segulbandið nemur ekki. Sú leið er þó síður valin, einkanlega vegna þess að það truflar fólk meira að hafa myndbandsupptökuvél í gangi heldur en segulband. Ef ætlunin er að ná á band sjálfsprottnu og eðlilegu samtali reyna rannsóknarmenn að hafa aðstæður sem eðlilegastar. Jafnvel lítið segulbandstæki getur haft truflandi áhrif á stað þar sem það er augljós aðskotahlutur, eins og t.d. á matarborði.

Það er vandaverk að skrá samtal og þættir eins og augnatillit, svipbrigði og látæði hljóta að fá minna vægi á pappírnum en í samtalinu sjálfu. Til þess að auðvelda skráninguna eru notuð ýmis tákn sem sýna þagnir, samhliða tal, hækkaðan róm og fleira sem þykir skipta máli. Skráning samtals tekur langan tíma. Óhætt er að gera ráð fyrir að það taki að minnsta kosti eina viku í fullri vinnu að fullskrá 10 mínútna samtalsbút ef hann inniheldur samtal milli fleiri en tveggja aðila en heldur skemmri tíma ef aðeins tveir tala saman.

Á það skal minnt að skráning samtals er ekki samtalið sjálft heldur aðeins ófullkomin útgáfa af því. Sá sem rannsakar samtöl verður því alltaf að hafa aðgang að upptöku á samtalinu til að glöggva sig á málaðstæðum.

3. Samloðun og samfella

3.1 Hvað er orðræða?

Hvaða skilyrði þarf texti eða orðræða að uppfylla til þess að geta staðið undir nafni? Augljóslega er ekki nóg að hrúga rétt mynduðum setningum og málsgreinum saman og setja punkta og kommur á rétta staði til þess að úr verði eitthvað sem má kalla heillegan og samhangandi texta. Þar þarf meira til.

Forsendur þess að um eiginlegan texta geti verið að ræða er að

Þessar forsendur eru jafn nauðsynlegar í talmáli og ritmáli.

3.2 Samloðun

Með SAMLOÐUN er átt við það að einingar í orðræðu tengist hver annarri svo úr verði heild. Í íslensku eins og öðrum málum er hægt að velja úr fjölda samloðunartengja en svo nefnast orð sem notuð eru í því skyni að líma textaeiningar saman. Ef vel tekst til verður textinn eins og vefur þar sem þættir tengjast saman svo úr verður heild. Það er heldur ekki tilviljun að orðið texti er komið af latnesku orðinu textus sem merkir ‘vefnaður’ og er dregið af sögninni texere sem merkir ‘að vefa; fella saman’.

3.3 Samloðunartengi

SAMLOÐUNARTENGI skiptast í vísanir, staðgengla og brottföll og tengla; þar til viðbótar má ná fram samloðun með orðavali. Hverjum flokki má svo skipta í undirflokka eins og sjá má á meðfylgjandi mynd.

Tafla yfir samloðunartengi

3.3.1 Vísanir

A. PERSÓNULEG VÍSUN felst aðallega í notkun fornafna; þau þjóna því hlutverki að vísa til einstaklinga, hluta, atburða eða fyrirbæra sem áður hafa verið nefnd í orðræðunni eða koma við sögu síðar. Í dæminu er vísunin hann sýnd með hástöfum; það sem vísað er til er feitletrað:

Ég beið eftir síðasta þættinum í heila viku. Svo þegar til kom fannst mér ekkert varið í HANN.

Í dæminu er vísunin anafórísk eða ENDURVÍSANDI; hún vísar í eitthvað sem þegar hefur verið nefnt. Í talmáli er talsvert algengt að vísað sé í hina áttina, þ.e. í eitthvað sem kemur á eftir eins og í dæminu:

HANN var nú frekar lélegur, síðasti þátturinn.

Slík vísun kallast katafórísk eða FRAMVÍSANDI.

B. ÁBENDINGARVÍSUN felst í notkun greinis, ábendingarfornafna og einstakra atviksorða. Einingarnar sem vísað er til geta verið einstök orð, setningarliðir eða enn lengri textabútar. Dæmið sýnir afturvísun:

Fjölmiðlar sögðu frá því að allri þjóðinni væri boðið í afmælið. ÞETTA varð reyndar með öðrum hætti en til stóð.

Dæmi um framvísun:

ÞETTA var ótrúlegt! Flugeldurinn stefndi beint inn um opinn gluggann.

C. SAMANBURÐARVÍSUN er látin í ljós með notkun lýsingarorða, atviksorða eða orðasambanda með samanburðarmerkingu. Í þessu skyni eru notuð orð eins og slíkur, samur, jafn, sams konar, svona, meira en, færri, og til viðbótar svo eitthvað sé nefnt. Samanburðurinn tengir textahlutana saman:

Ég horfði undrandi á kjólinn sem hann kom með. Þetta var SAMS KONAR kjóll og amma var í á brúðarmyndinni.
3.3.2 Staðgenglar og brottföll

STAÐGENGLAR koma í staðinn fyrir önnur orð á sama tíma og þeir vísa til þeirra og mynda á þann hátt samfellu í textanum. Stundum er óþarfi að setja eiginlegan staðgengil fyrir eitthvað sem nýlega hefur komið fram í orðræðunni. Þá er skilin eftir eyða og oftast er alveg ljóst hvað hefur fallið brott; þetta er kallað BROTTFALL.

Ástæðan fyrir því að staðgenglar og brottföll eru hér sett undir einn hatt er sú að líta má á brottföll sem eina gerð staðgengla. Í því tilviki vill bara svo til að staðgengillinn er ekki orð heldur eyða.

Hér verða sýnd dæmi um staðgengla fyrir nafnorð, sagnir og setningu. Staðgengillinn er sýndur með hástöfum en það sem hann stendur fyrir er feitletrað.

A. STAÐGENGILL FYRIR NAFNORÐ:

Ég get ekki gert upp á milli þessara mynda. Ég held ég kaupi HVORUGA.

B. STAÐGENGILL FYRIR SÖGN:
A: Þú drekkur of mikið.
B: Þú GERIR ÞAÐ líka.

C. STAÐGENGILL FYRIR SETNINGU:

A: Heldurðu að Suðurlandsskjálftinn verði á næstu árum?
B: SVO segja jarðfræðingar.

Brottföll (táknuð með O) eru hér sýnd á sama hátt, fyrst brottfall fyrir nafnorð, síðan fyrir sagnorð og loks fyrir setningu.

A. BROTTFALL FYRIR NAFNORÐ:

Hvort viltu grænan eða rauðan brjóstsykur? Ég vil grænan O.

B. BROTTFALL FYRIR sagnorð:
Hann fór í sund og O O svo í skólann.

Hér er reyndar eyða fyrir fornafnið hann líka.


C. BROTTFALL FYRIR SETNINGU:
Veistu hvort Sigga ætlaði með okkur? Ekki sagði hún O.

Brottföll af þessu tagi er helst að finna í nágrenni við það sem vísað er til; innan sömu málsgreinar eða í næstu málsgrein.

3.3.3 Tenglar

Tengsl milli málsgreina og efnisgreina eru oft mynduð með því að nota orð eða orðasambönd af ýmsu tagi. Orðasambönd þessi má kalla TENGLA.

Tenglar tengja textahluta saman á ýmsan hátt eins og hér eru sýnd dæmi um:

A. GAGNSTÆÐISTENGLAR: Orð eins á hinn bóginn, samt sem áður, þrátt fyrir það, þótt, samt sem áður, engu að síður og aftur á móti tengja andstæðu við það sem áður hefur komið fram í orðræðunni.

Dæmi um gagnstæðistengla:

Ég fór snemma heim úr veislunni í gær.
SAMT SEM ÁÐUR skemmti ég mér vel.

B. VIÐBÓTARTENGLAR: Orð eins og og, auk þess, að auki, jafnframt, líka, enn fremur og því til viðbótar tengja einhverja viðbót við það sem komið er.

Dæmi um viðbótartengla:

Þar með myndast líka sveiflur í loftinu þar OG nefholið verður að hljómholi.

C. TÍÐARTENGLAR: Orð eins og í öðru lagi, þá, eftir það, síðan, seinna, síðast en ekki síst, fyrst . . . síðan, í upphafi og að lokum gefa til kynna tímann innan orðræðunnar.

Dæmi um tíðartengla:

LOKUM vil ég ítreka það sem ég sagði Í UPPHAFI...

D. ORSAKARTENGLAR: Orð og orðasambönd eins og þess vegna, af því leiðir, svo að og af þessum sökum tengja orsök og afleiðingu í orðræðunni.

Dæmi um orsakartengla:

Nú vita flestir að sterkt kaffi er ekki heilnæmt. ÞESS VEGNA er jurtate orðið vinsæll drykkur meðal ungs fólks
3.3.4 Orðaforði

Hægt er að ná fram samloðun með vali orða sem eru merkingarlega tengd. Algengast er að í þessu skyni sé notað eitthvert afbrigði klifunar. Undir klifun fellur endurtekning, notkun samheita, notkun yfirskipaðra og undirskipaðra orða svo og notkun almennra orða og sértækra.

A. Samloðun með endurtekningu felst í því að nota sama orðið aftur:

Dæmi:

Ég var búinn að hlakka til að slappa af og horfa á SJÓNVARPIÐ allt kvöldið. Svo þegar til kom var ekkert spennandi í SJÓNVARPINU.

B. Samloðun gegnum samheiti felst í því að tengja textabúta með því að nota ólík orð sem vísa til sama fyrirbæris:

Dæmi:

Láttu bílinn renna niður HALLANN. BREKKAN er ekki svo brött.

C. Algengt er að samloðun náist í texta með því að nota yfirskipuð og undirskipuð orð. Í dæminu má sjá að fyrst er notað undirskipað orð og síðan yfirskipað.

Dæmi:

LUNGNABÓLGA er tiltölulega algeng þar sem kalt er og rakt í veðri. SJÚKDÓMURINN leggst á alla, allt frá smábörnum til eldra fólks.

D. Samloðun fæst líka með því að nota til skiptis almenn orð og sértæk eins og sést í dæminu þar sem fyrst er notað mjög almennt orð sem hægt er að hafa yfir nánast hvað sem er en sértækt orð notað á eftir.

Dæmi:

Ég er á móti ýmsum HLUTUM, t.d. BYGGINGU STÓRIÐJUFYRIRTÆKJA.

E. Það hljómar kannski ótrúlega en það er algengt að samloðun verði við það að andheiti eru notuð á markvissan hátt.

Dæmi:

Margir eru hrifnastir af GÖMLUM kvikmyndum. Ég fyrir mitt leyti hef aðeins áhuga á NÝJUM myndum.
3.3.5 Samloðun og kennsla ungra barna

Það er mikilvægt fyrir kennara og uppalendur að gera sér grein fyrir því hvernig samloðun birtist í texta og hvaða hlutverki samloðunartengi gegna. Leikni í lestri og skrift byggist á skilningi á því hvernig texti hangir saman og kannanir sem gerðar hafa verið erlendis sýna að börnum gengur betur við þá iðju ef þau eru beinlínis þjálfuð í að nota samloðunartengi á markvissan hátt.

3.4 Samfella

Með SAMFELLU er vísað til þeirrar tilfinningar viðtakanda að texti myndi samfellda heild. Ekki er hægt að benda á einstök atriði í texta sem stuðla að samfellu; það er undir viðtakanda komið hvaða upplýsingar hann nýtir sér til þess að mynda samfellu. Þó má segja að forsenda þess að viðtakandi skynji texta sem samfellt mál er að hann loði vel saman.

Það er útbreiddur misskilningur að við skiljum mælt mál og ritað einvörðungu af því að við vitum hvað hvert einstakt orð merkir og kunnum að túlka stöðu orðanna í setningunni. Þetta tvennt er þó vitaskuld nauðsynleg forsenda málskilnings. Því til viðbótar búa málnotendur yfir alls kyns vitneskju um veröldina, samfélagið og þann sem þeir eiga orðaskipti við. Sú vitneskja myndar ákveðinn þekkingargrunn og getur skipt sköpum í allri málnotkun. Ef viðtakandi fær ekki nógu skýr skilaboð þá bætir hann fúslega inn í þau sjálfur um leið og hann hlustar og hann er tilbúinn að teygja sig býsna langt til að komast að því hvað sendandi hafði í huga.

3.4.1 Þekkingargrunnur

Þegar fólk talast við (eða skrifast á) gerir það ráð fyrir ákveðnum þekkingargrunni hjá viðmælendum sínum og hagar máli sínu samkvæmt því. Sumt er sammannleg þekking, t.d. það að jörðin er hnöttur og að dagur og nótt skiptast á. Annað er bundið ákveðnum samfélögum. Í íslensku málsamfélagi teljum við okkur geta sagt við hvern sem er án frekari útskýringa:

Embættið breyttist þegar Vigdís var kjörin og varð sýnilegra heldur en í tíð fyrirrennara hennar.

Við yrðum sjálfsagt hissa ef viðmælandi okkar spyrði: „Hvaða embætti? Hver er þessi Vigdís?“ Sennilega myndum við álykta sem svo að viðkomandi væri alls ekki Íslendingur eða hefði dvalið fjarri landinu um langa hríð. Reyndar væri líka hugsanlegt að nota svörin í þeim tilgangi að sýna andúð á forsetaembættinu og þeim sem því hafa gegnt.

Málnotendur búa yfir margvíslegri þekkingu, ekki bara um tungumálið, heldur líka um siði og venjur sem gilda í samtölum manna svo og um samfélagið í heild. Þetta nýta þeir sér þegar þeir nota málið. Vitneskjan er gagnkvæm; þ.e. sendandi og viðtakandi gera báðir ráð fyrir að hinn aðilinn sé með á nótunum, dragi sínar ályktaniraf því sem sagt er og byggi brýr ef þeirra er þörf.

Fyrirsagnir í dagblöðum gera margvíslegar kröfur til forþekkingar lesendanna.

3.4.2 Ályktanir

Það er algengt að viðtakandi verði að draga sínar eigin ályktanir til að komast að því hvað sendandi meinti með því sem hann sagði; þ.e. hann þarf að fara frá hinni bókstaflegu merkingu að þeirri merkingu sem liggur að baki. Hugsum okkur að sagt sé:

Finnst þér ekki kalt að hafa gluggann svona galopinn?

Hvað merkir þessi spurning? Ef hún er tekin bókstaflega má svara henni með jú-i eða nei-i án þess að hafast neitt að. Einhvern veginn væru það nú samt óeðlileg viðbrögð. Það liggur beinna við að skilja spurninguna sem beiðni um breytingu; hún merkir nánast:

Lokaðu glugganum – mér er kalt!

en hljómar kurteislegar. Sennilega myndi fólk líka reka upp stór augu ef spurningin

Geturðu rétt mér saltið?

væri skilin bókstaflega og aðeins svarað játandi eða neitandi.

3.4.3 Brúarsmíð

Við notum stundum ályktunarhæfni okkar til að byggja brýr þar sem samhengið (eða samhengisleysið) krefst þess. Eftir orðanna hljóðan er þessi málsgrein samhengislaus:

Ég þurfti að hreinsa ísskápinn. Eplin voru farin að skemmast

Samt sem áður skynjum við hana ekki sem samhengislausa. Við einfaldlega drögum þá ályktun að meðal þess sem var í ísskápnum hafi verið epli. Vitneskjan um að epli eru oft og iðulega geymd í ísskápum styður þá ályktun. Það sem viðtakandi gerir í þessu tilviki er að hann byggir brú milli setninganna. Brúin er þessi:

Í ísskápnum sem var nefndur voru meðal annars epli

Í brúarsmíðinni getur líka birst vitneskja okkar um veröldina, samfélag manna og allt sem tilheyrir. Þess vegna veldur engum vandkvæðum að skilja a. og b. setningarnar; við grípum undireins til þekkingarforðans og byggjum brú (c-setning):

  1. a. Ég keypti mér nýtt hjól um daginn
    b. en ég kann ekki við stýrið.
    c. Það er stýri á hjólum.
  2. a. Í myndinni var sýnt hrottalegt morð
    b. en glæpurinn komst aldrei upp.
    c. Morð er glæpur.
  3. a. Ég seldi hestinn minn í gær
    b. og ætla að reyna að kaupa mér
    hljómflutningstæki fyrir peningana
    c. Kaup og sala hafa eitthvað með peninga að gera.

4. Talað mál og ritað

4.1 Talmál og ritmál

Talað mál er mörg þúsund árum eldra en ritmálið og er vitaskuld forsenda fyrir þróun ritaðs máls. Öll heilbrigð börn læra að tala móðurmál sitt án beinnar kennslu ef þau alast upp í umhverfi þar sem þau hafa samskipti við annað fólk. Til þess að ná góðum tökum á lestri og skrift þarf aftur á móti margra ára nám. Menn tala alls staðar í veröldinni, tjá skoðanir sínar, langanir og þrár á móðurmálinu og nota málið líka sér til skemmtunar og dægradvalar. Hins vegar eru mjög mörg tungumál sem eiga ekkert ritmál.

Á talmáli og ritmáli er oft talsverður munur en svo þarf þó ekki að vera. Formlegt talað mál má til dæmis heyra í fréttatímum útvarps og sjónvarps þar sem augljóst er að fréttamennirnir ‘segja’ alls ekki fréttirnar; þeir lesa þær upp:

Mikill vöxtur hefur hlaupið í Skeiðará og er búist við að. . .

Orðalagið á þessari fréttabyrjun er langt frá því sem við gætum búist við að heyra í samtali milli manna. Fyrirlestrar í háskólum eru oft ritmálslegir svo og erindi sem flutt eru í útvarpi – enda hvort tveggja undirbúið og skrifað.

Á hinn bóginn getum við líka séð talmálslegt ritmál á póstkortum milli kunningja og öðrum persónulegum skrifum, þ.á m. tölvupósti eins og hér er sýnt dæmi um:

Hæ, hæ!
SJó var að hvísla því að mér núna rétt áðan (kl. ca 9.00) að skötuhjúin væru mætt og víst í skýjunum. Sel það ekki dýrar en ég keypti. Ég ætla að reyna að hlera nákvæmlega HVAÐ er að gerast. Tala betur við þig.
Bæjó
Svenni

Þessi ritaði texti ber augljós talmálseinkenni og væri fullkomlega eðlilegur sem tveggja manna tal ef frá eru talin ávarps- og kveðjuorð.

Þegar talað er um ritmál og talmál og þetta tvennt borið saman er venjulega átt við það sem er dæmigert fyrir hvort um sig; dæmigert talmál myndi þá vera óformleg samtöl og frásagnir en dæmigert ritmál væri að finna í formlegum ritgerðum og blaðagreinum (undirbúið mál og óundirbúið).

4.2 Er ritað mál ‘betra’ en talmálið?

Saga málvísinda sýnir að um aldaraðir var ritmálið álitið talmálinu æðra. Þær þjóðir sem eiga fornar bókmenntir, eins og t.d. Íslendingar, hafa gjarnan litið á málið á þessum gömlu textum sem hið fullkomnasta form sem tungan gæti tekið á sig. Reglur málfræðinnar um réttar og rangar beygingar og setningagerðir hafa líka verið miðaðar við mál á rituðum textum. Þess vegna hefur verið amast við ýmsu sem heyrst hefur í töluðu máli en væri óhugsandi að finna í Íslendingasögunum. Slík gagnrýni er byggð á hæpnum forsendum. Á síðustu áratugum hafa æ fleiri málvísindamenn snúið sér að því að rannsaka talað mál og bera saman við ritmál og í ljós hefur komið að á þessu tvennu er oft talsverður munur sem engin ástæða er til að amast við.

4.3 Málaðstæður

Talað og ritað mál gera ólíkar kröfur til sendanda og viðtakanda. Í samtölum (nema í símtölum) eru þeir báðir viðstaddir og geta fylgst með svipbrigðum hvor annars og skotið inn spurningum eða athugasemdum jafnóðum. Ritað mál býður ekki upp á þessar aðstæður og þess vegna verður að velja orðin vandlega og gæta þess að öllu sé til skila haldið. Það er ekki nóg með að sendandi og viðtakandi séu ekki á sama stað heldur geta þeir oft ekki gert sér í hugarlund kringumstæður hins aðilans. Þetta þarf að hafa í huga við skrifin.

4.4 Textaþéttleiki

Ýmislegt greinir að talað mál og ritað. Ritmál einkennist oft af tiltölulega flóknum setningum þar sem miklum upplýsingum er þjappað saman. Talmálið er ‘óagaðra’; þar er mörgum setningum skeytt hverri aftan við aðra og tengdar með samtengingum eða annars konar samloðunartengjum.

Ritmál er líka ólíkt talmáli að því leyti að þar er að finna hærra hlutfall INNTAKSORÐA – þ.e. þeirra orða sem bera merkingu (t.d. nafnorð, lýsingarorð og sagnir) – á móti KERFISORÐUM – þ.e. orðum sem einkum gegna því hlutverki að láta textann loða saman (t.d. forsetningar, samtengingar og fornöfn) – heldur en í talmáli. Þetta er kallað TEXTAÞÉTTLEIKI. Dæmin sýna hvað átt er við:

a. Niðurstöður kannana sýna að notkun bílbelta fækkar alvarlegum umferðarslysum

b. Það hefur komið í ljós í könnunum að með því að nota bílbelti eru minni líkur á því að maður lendi í alvarlegum umferðarslysum

Í a-setningunni sem gæti verið úr ritmáli eru inntaksorðin 8 en aðeins eitt kerfisorð; í b-setningunni, sem er talmálslegri, eru 13 inntaksorð á móti 11 kerfisorðum.

4.5 Gerð málsgreina í töluðu máli og rituðu

Talmál einkennist af ófullkomnum málsgreinum og mikilli notkun hliðskipaðra setninga en undirskipaðar setningar eru fátíðari. Þetta dæmi einkennist af hliðskipuðum aðalsetningum tengdum með og og gæti verið úr töluðu máli:

Ég talaði við Óla OG hann bað okkur að kaupa miðana á leiðinni OG svo ætlar hann að hitta okkur niðri í bæ OG labba með okkur uppeftir

Í óformlegu talmáli er mikið um endurtekningar og lagfæringar; menn byrja á málsgrein en breyta í miðjum klíðum um orðalag eða setningagerð og hætta jafnvel við hálfkláraða málsgrein:

Sigga sagði mér. . . . mér var sagt að Jóhann ætlaði ekkert að vera. . . . koma til. . . koma heim í sumar. . . en. . . veist þú eitthvað um . . .

Orðaforði ritmáls getur verið ólíkur orðaforða talmáls. Til dæmis er líklegt að fleiri merkingarlítil ákvæðisorð sé að finna í talmáli:

Hann fékk ALVEG HEILAN HELLING af myndum hjá vini sínum . . . FERLEGA FLOTTAR myndir

Í talmáli eru alls konar hikorð algeng:

Ég fór ÞARNA á myndina, ÞÚ VEIST í gær og HÉRNA mér fannst hún fín SKO en Jói, hann MAÐUR svaf SKO allan tímann

Slík orð sjást yfirleitt ekki í rituðu máli nema þá að verið sé að reyna að ljá textanum talmálslegan blæ.

Talað mál lítur oft mjög einkennilega út þegar það hefur verið skrifað á blað með öllu sem því fylgir. Eitt af því fyrsta sem menn taka eftir við slíkan texta er hversu erfitt er að finna út nákvæm skil málsgreina. Þetta kemur í ljós í frásögninni sem hér fylgir og menn geta spreytt sig á að finna hvar einni málsgrein lýkur og önnur tekur við.

4.6 Samanburður á tal- og ritmáli

Samanburður á tal- og ritmáli er erfiður því um er að ræða tvær afar ólíkar textategundir og oftast gjörólík málsnið. Sá sem þetta reynir rekur sig fljótt á alls kyns hindranir, t.d. er setningagerð eiginlega ósambærileg, ólíkum meðulum er beitt til þess að ná fram samloðun, orðaforði getur verið ólíkur og svo má lengi telja.

Einna helst hefur verið reynt að bera saman frásagnir, munnlegar og skráðar, eftir sama einstakling. Venjulega er sá háttur hafður á þessu að fyrst er fólk beðið að segja frá einhverju minnisstæðu atviki og síðan skömmu síðar (venjulega nokkrum dögum) er það beðið að skrifa sömu frásögnina. Ekki er hægt að segja að niðurstöður úr slíkum samanburði séu afdráttarlausar en þó má segja að venjan sé sú að munnlegu frásagnirnar séu lengri, ítarlegri og líflegri. Á þessu eru þó margar undantekningar. Hér er sýnt dæmi um frásögn sem fyrst var sögð og síðan rituð nokkrum dögum síðar. Eins og sjá má er skrifaða útgáfan mun styttri en það þarf þó ekki að vera vegna mismunar á talmáli og ritmáli heldur gæti ástæðan verið sú að sögumaður var nýbúinn að segja rannsóknarmanni söguna og hefur ekki þótt ástæða til að hafa hana eins ítarlega í seinna skiptið. Um það verður ekkert fullyrt.

Heimildir

Grunnrit:

Cook, Guy. 1989. Discourse. [4. prentun 1993]. Oxford University Press, Oxford.

Crystal, David. 1989. The Cambridge Encyclopedia of Language. Cambridge University Press, Cambridge.

Norrby, Catrin. 1996. Samtalsanalys. Så gör vi när vi pratar med varandra. Studentlitteratur, Lund.

Nunan, David. 1993. Introducing Discourse Analysis. Penguin, London.

Renkema, Jan. 1997. Discourse Analysis. John Benjamins, Amsterdam.

Ítarefni:

Brown, Gillian og George Yule.1993. Discourse Analysis. Cambridge University Press, Cambridge.

Fairclough, Norman. 1994. Discourse and Social Change. Polity Press, Cambridge.

Halliday, M.A.K. og Ruqaiya Hasan. 1976. Cohesion in English. [14. prentun 1995]. Longman, London.

Indriði Gíslason og Höskuldur &Thorn;ráinsson. 1993. Handbók um íslenskan framburð. Rannsóknarstofnun Kennaraháskóla Íslands.

MacCarthy, Michael. 1991. Discourse Analysis for Language Teachers. Cambridge University Press, Cambridge.

Schiffrin, Deborah. 1995. Approaches to Discourse. Blackwell, Oxford.

Frásögn:

Sögumaður: Björn Jakobsson. Upptökurnar voru gerðar í Kvennaskólanum í Reykjavík vorið 1996.