Greinar

Jón Hilmar Jónsson
Orðasöfn og orðabækur

1. Orðabækur og orðasöfn

Orðabók er uppflettirit þar sem fjallað er um orðaforða tiltekins tungumáls eða úrval úr honum, ýmist í ljósi sama málsins (einmála orðabók) eða í ljósi annars tungumáls, eins eða fleiri (tvímála orðabók, fjölmála orðabók).

Orðabækur eru afar ólíkar að stærð og efni, allt frá vasaorðabókum með fáeinum þúsundum flettiorða til orðabóka í mörgum bindum. Sem dæmi um prentaðar orðabækur af stærri gerðinni má taka OXFORD ENGLISH DICTIONARY (2. útg. 1989, 20 bindi í stóru broti, samtals ca. 20.000 bls.) og ORDBOG OVER DET DANSKESPROG (1918-1956, 27 bindi, ca. 19.000 bls.). Með tilkomu rafrænna orðabóka eru öll stærðarmörk orðabókarverka vitaskuld orðin ógleggri. Heitið ORÐABÓK virðist reyndar bundið ákveðnu lágmarki stærðar og efnislegrar fjölbreytni. Þegar í hlut eiga uppflettirit þar sem einungis er að finna (stafrófsraðaðan) lista orða með örstuttum skýringum eða jafnheitum á erlendu máli er fremur talað um ORÐASAFN (sbr. Tækniorðasafn og Dansk-íslenskt orðasafn). Viðfangsefnið er þá gjarna orðaforði tiltekinnar starfs- eða fræðigreinar, svo að stærðarmörkin geta verið rúm (sbr. t.d. Íðorðasafn lækna). Stundum eru uppflettirit af þessu tagi einnig kölluð orðaskrár eða orðalistar, en þau heiti geta einnig vísað sérstaklega til rita þar sem flettiorðin standa ein án nokkurra skýringa. Um orðabækur og gerð þeirra fjallar sérstök fræðigrein, orðabókarfræði.

2. Tegundir orðabóka

Orðabækur eru ákaflega margbreytilegar að efni og útliti og þær má flokka í ólíkar tegundir eftir margvíslegum einkennum. Hér verður aðeins drepið á nokkur meginflokkunarmörk og vikið að fáeinum orðabókartegundum sem eiga sér fulltrúa meðal íslenskra orðabóka.

2.1 Megintegundir

Sérstaða orðabóka í hópi uppflettirita er fólgin í því að hlutverk þeirra er einkum að miðla upplýsingum um mál og orðaforða. Orðabækurnar hafa tungumálið sjálft að meginviðfangsefni meðan öðrum uppflettiritum, s.s. alfræðiorðabókum, er ætlað að lýsa (með orðum) hlutum og fyrirbærum sem ekki heyra málinu til.

2.1.1 Viðfangsefni og efnistök

Á grundvelli viðfangsefnis og efnistaka er gerður greinarmunur á almennum og sérhæfðum orðabókum.

  • Í almennum orðabókum er leitast við að fjalla um allan almennan orðaforða tungumáls og þar tekur orðlýsingin til allra helstu einkenna orðanna. Hér er Íslensk orðabók, sem flestir þekkja undir heitinu Orðabók Menningarsjóðs, skýr fulltrúi, og meðal tvímála orðabóka má nefna Íslensk-danska orðabók Sigfúsar Blöndals og Rússnesk-íslenska orðabók Helga Haraldssonar.
  • Í sérhæfðum orðabókum er viðfangsefnið takmarkaðra, jafnframt því sem sjónarhornið er oft þrengra. Í þeim hópi eru bæði bækur sem taka aðeins til afmarkaðs hluta orðaforðans, s.s. íðorðabækur og slangurorðabækur, og þær sem takmarka orðlýsinguna við tiltekin atriði, t.d. réttritunarorðabækur, samheitaorðabækur og orðsifjabækur, svo nefndar séu nokkrar tegundir sem Íslendingar þekkja vel til.
2.1.2 Orð og inntak

Orðabókum má skipta í tvo flokka eftir því hvaða sjónarhorn þær hafa á orð og merkingu.

  • Segðarskipaðar orðabækur ganga út frá einstökum orðum og gera grein fyrir merkingu þeirra. Þær eru mun algengari, t.d. falla flestar almennar orðabækur í þennan flokk.
  • Inntaksskipaðar orðabækur leggja merkingu eða inntak til grundvallar og rekja hvaða orðum merkingin tengist. Þekktasti fulltrúi íslenskra orðabóka af þessu tagi er Íslensk samheitaorðabók.
2.1.3 Samtími og saga

Orðabækur greinast að eftir því hvort verið er að lýsa máli samtímans eða málsögulegri þróun. Í íslenskri orðabókarhefð blandast þetta reyndar mjög saman, eins og best kemur fram í Íslenskri orðabók, þar sem mál samtímans er til umfjöllunar en hinn málsögulegi þáttur ræður víða ferðinni, t.d. í merkingar- og beygingarlýsingu orða, auk þess sem hann setur svip sinn á val flettiorðanna.

Tvö dæmi úr Íslenskri orðabók.

  • Í samtímalegum orðabókum er tekið mið af máli og orðaforða samtímans. Sumar orðlýsingin sögulega dýpt og nær jafnvel aftur til elstu ritheimilda um málið sem verið er að lýsa. Mörg stór orðabókarverk sameina samtímalega og sögulega lýsingu á þennan hátt, t.d. OXFORD ENGLISH DICTIONARY (2. útg. 1989) og ORDBOG OVER DET DANSKE SPROG (1918-1956).
  • Í sögulegum orðabókum er viðfangsefnið að lýsa tilteknu máli á ákveðnum tíma eða tímaskeiði í fortíðinni. Lýsingin getur haft sögulega dýpt og t.d. afmarkast af einhverjum tímamótum í málsögu viðkomandi tungumáls. Orðabækur um íslenskt fornmál eru skýrir fulltrúar sögulegra orðabóka. Í ORDBOG OVER DET NORRØNE PROSASPROG, sem hafin er útgáfa á á vegum Árnanefndar í Kaupmannahöfn, lýsingin til elsta tímabils íslenskrar málsögu (fram að siðaskiptum). Merkingarleg flokkun og ýtarlegar merkingarskýringar eru í fyrirrúmi, og hvert atriði er stutt ríkulegu safni dæma með nákvæmum heimildarvísunum. Auk þess er víða vísað til orðabóka og annarraorðsöguheimilda þar sem finna má frekari fróðleik um orðið.

Dæmi úr Ordbog over det norrøne prosasprog.

2.1.4 Rétt og rangt mál

Annað athyglisvert greinimark með tilliti til íslenskra orðabóka varðar þá afstöðu sem þær birta til málnotkunar og hugmynda um rétt eða vandað mál. Þetta er ekki síst athyglisvert þegar litið er á íslenskar orðabækur, þær eru flestar greinilega normkvæðar, ýmist beinlínis leiðbeinandi um málnotkun eða a.m.k. trúar ríkjandi viðhorfum í því efni. En orðabækur geta einnig verið lýsandi, aðeins ætlað sér það hlutverk að lýsa málnotkuninni eins og hún er í raun og veru.

2.1.5 Eitt mál eða fleiri

Eitt augljósasta greinimark orðabóka er fólgið í því hvort fjallað er um eitt mál eða fleiri. Meginskilin eru á milli einmála og tvímála orðabóka, fjölmála orðabækur eru tiltölulega sjaldgæfar og þá er yfirleitt um sérhæfðar orðabækur að ræða.

2.1.6 Notkun

Gera má greinarmun á orðabókum eftir því hvernig þær eru notaðar.

  • Uppflettiorðabækur kallast þær orðabækur sem menn eiga erindi við vegna einangraðs orðs eða efnisatriðis hverju sinni. Langflestar orðabækur falla í þennan flokk.
  • Lestrarorðabækur eru miklu sjaldgæfari. Þær eru, öðrum þræði a.m.k., ætlaðar tilsamfellds lestrar. Í slíkri bók myndar efnismikil orðlýsing samfellda heild, sýnir t.d. málsögulegar breytingar eða er samofin menningarsögulegum upplýsingum. Dæmi um íslenska orðabók af þessu tagi er Mergur málsins, þar sem rakin er merkingar- og notkunarsaga íslenskra orðatiltækja.
2.1.7 Hlutverk

Loks er að nefna atriði sem skiptir orðabókarnotendur afar miklu og er jafnframt grundvallaratriði við gerð orðabóka, efnisskipan þeirra og framsetningu. Orðabækur eru einkum notaðar við tvenns konar aðstæður og eftir því má skipa þeim í tvo hópa.

  • Í skilningsorðabók miðast efni og framsetning við að notandinn grípi til bókarinnar þegar hann brestur skilning á orði eða orðasambandi, t.d. við lestur á samfelldum texta.
  • Málbeitingarorðabók er hins vegar ætlað að auðvelda eða vísa veginn um beitingu málsins, t.d. sýna hvaða falli tiltekin sögn stýrir, hvaða forliður er hafður til áherslu með tilteknu lýsingarorði eða hvaða samsvörun orðtak í móðurmáli notandans á sér í öðru tungumáli.

Margar orðabækur hafa óskýra stöðu að þessu leyti og notendur geta ekki vænst þess að ein og sama orðabókin sinni hvoru tveggja hlutverkinu til hlítar.

2.2 Sérhæfðar orðabækur

Margar orðabækur eru sérhæfðar á einn eða annan veg með tilliti til hlutverks, viðfangsefnis o.fl. Sumar þeirra, s.s. fagorðabækur og slangurorðabækur, fjalla einungis um afmarkaðan hluta orðaforðans, en í öðrum er sérhæfingin fólgin í hlutverki eða efnistökum. Sem dæmi má nefna bækur þar sem orðlýsingin takmarkast að mestu við atriði eins og rithátt eða uppruna.

2.2.1 Fagorðabækur

Í mörgum sérhæfðum orðabókum er fengist við að lýsa orðaforða á tilteknu sviði, t.d. orðaforða starfs- eða fræðigreinar. Slíkar fagorðabækur geta tekið til einnar greinar (t.d. Líforðasafn) eða sameinað orðafar margra starfs- eða fræðigreina (Tækniorðasafn). Heitið íðorðabók er einnig haft um slíkar orðabækur en á þó einkum við um bækur þar sem hugtökum og heitum tiltekinnar greinar eru gerð skil á heildstæðan hátt, með því að lýsa innbyrðis skipan og venslum hugtakanna og velja þeim viðeigandi heiti (sjá t.d. Tölvuorðasafn).

Dæmi úr Tölvuorðasafni.

2.2.2 Réttritunarorðabækur

Réttritunarorðabækur (stafsetningarorðabækur) eru að líkindum sú tegund orðabóka sem flestir komast fyrst í kynni við og margir nota þær allra orðabóka mest. Meginhlutverk réttritunarorðabóka er að leiðbeina um ritun orða í samræmi við þær reglur sem gilda um stafsetningu, en auk þess er yfirleitt getið um nokkur helstu málfræðiatriði, svo sem orðflokk, kyn nafnorða og jafnvel beygingu. Í sumum réttritunarorðabókum er ritháttur orða studdur málsögulegum rökum.

Dæmi úr Réttritunarorðabók handa grunnskólum.

2.2.3 Orðsifjabækur

Orðsifjabækur (upprunaorðabækur) fjalla um uppruna orðanna og sögulegan skyldleika þeirra við önnur orð, ekki aðeins í sama máli heldur ekki síður í öðrum málum. Í efnismiklum orðsifjabókum er lögð áhersla á að rekja tengsl orðanna við orð í skyldum málum, oft með hliðsjón af endurgerðum orðmyndum og orðrótum í sameiginlegri frumtungu. Sé um tökuorð að ræða er rakið hvaðan þau eru fengin, gjarna með málsögulegum og menningarsögulegum rökum. Merkingarskýringar og merkingartengsl við upprunamyndir eru einnig veigamikið atriði í flestum orðsifjabókum.

Dæmi úr Íslenskri orðsifjabók.

Stuttar athugasemdir um uppruna orða er einnig að finna sem sérstakt efnisatriði í mörgum almennum orðabókum, sérstaklega þegar fjallað er um tökuorð.

2.2.4 Slangurorðabækur

Flestar orðabækur takmarka orðaforða sinn við það sem kalla má viðurkennt mál. En ýmiss konar orðafar er sérstaklega bundið ákveðnum félagshópum og einkum viðhaft í óformlegu tali. Orðafar af þessu tagi er sérstakt viðfangsefni slangurorðabóka. Í Orðabók um slangur bera flettiorðin allt annan svip en menn eiga að venjast í íslenskum orðabókum.

Dæmi úr Orðabók um slangur, slettur, bannorð og annað utangarðsmál.

2.2.5 Orðtíðnibækur

Með tilkomu tölvutækninnar varð mögulegt að greina stór textasöfn og athuga fyrirferð orða og ýmissa orðeininga í rituðu máli. Niðurstöður slíkra athugana hafa birst í mörgum orðtíðnibókum (tíðniorðabókum), þ.á m. í Íslenskri orðtíðnibók. Í orðtíðnibókum má m.a. fá upplýsingar um tíðni og þar með tíðniröð orða, athuga tíðni orða úr einstökum orðflokkum og ganga að orðmyndum í stafrófsröð eftir niðurlagi.

Dæmi úr Íslenskri orðtíðnibók.

Slíkar upplýsingar geta t.d. verið afar gagnlegar við mállýsingu. Sérhæfðari upplýsingar nýtast fremur við fræðilega umfjöllun um mál og orðaforða, svo sem samanburðartölur um fyrirferð einstakra falla nafnorða eða hlutfallslega tíðni tíða og hátta sagna.

2.2.6 Orðtök og orðasambönd

Margar sérhæfðar orðabækur fjalla á einn eða annan hátt um tengsl orða við önnur orð í setningarlegu samhengi. Þar er sumpart um að ræða umfjöllun um orðasambönd, ekki síst föst orðasambönd svo sem orðtök og málshætti. Góður fulltrúi slíkra orðabóka er Mergur málsins, þar sem fengist er við að lýsa íslenskum orðatiltækjum á víðtækan hátt, saga þeirra rakin, merkingin skilgreind og brugðið upp notkunardæmum. Lýsingu einstakra orðasambanda er skipað undir meginorð í flettiorðaskránni (undir flettiorðinu skógur er t.d. að finna orðasamböndin ganga ekki heill til skógar, lofa e-m gulli og grænum skógum og sjá ekki skóginn fyrir trjánum).

Dæmi úr Mergur málsins. Íslensk orðatiltæki.

Í Íslensku orðtakasafni er sérstaklega fengist við myndhverf orðtök, og lýsingin er að verulegu leyti málsöguleg.

Dæmi úr Íslensku orðtakasafni.

2.2.7 Orðtengslabækur

Lýsing orðasambanda getur einnig varðað stöðu orðanna í setningu, hvaða setningarhlutum flettiorðið tengist, jafnvel hvers konar merkingarlegar takmarkanir gilda um nálæga setningarliði. Viðfangsefnið getur einnig verið að birta orðastæður, dæmigerð sambönd flettiorðsins við önnur orð sem saman mynda merkingarlega heild. Í Orðastað eru flettiorðunum gerð skil á þennan hátt. Í lýsingu sagna eru upplýsingar um setningarleg einkenni, svo sem fallstjórn og ópersónulega notkun, áberandi. Í lýsingu nafnorða fer meira fyrir stökum orðastæðum.

  • Dæmi úr Orðastað. Orðabók um íslenska málnotkun.

  • Dæmi úr Orðastað. Orðabók um íslenska málnotkun.

Tengsl milli orða eru einnig viðfangsefni samheitaorðabóka. Hér eru flettiorðin fyrst og fremst lykill að öðrum orðum sömu merkingar. Í Íslenskri samheitaorðabók eru samheiti hvers flettiorðs talin upp í stafrófsröð, eins og altítt er í samheitaorðabókum.

Dæmi úr Íslenskri samheitaorðabók.

Millivísanir eru áberandi þáttur í flestum samheitaorðabókum, þar sem vísað er til efnismeiri orðsgreina undir öðrum flettiorðum. Andheiti eru einnig víða tilgreind að einhverju marki.

Í Orðastað má einnig víða rekja vensl milli merkingarlega skyldra orða sem geta gegnt sama hlutverki í setningu. Þetta birtist m.a. í breytilegum ákvæðum með sögnum.

Dæmi úr Orðastað. Orðabók um íslenska málnotkun.

Sams konar vensl geta einnig komið fram þegar talin eru upp samsett orð með sameiginlegum orðlið.

Dæmi úr Orðastað. Orðabók um íslenska málnotkun.

Þau vensl sem hér koma fram miðast við merkingu orðanna.En vensl milli formlegra eiginda orðanna geta einnig verið viðfangsefni orðabóka. Meðal orðabóka þeirrar tegundar eru rímorðabækur. Í Rímorðabók Eiríks Rögnvaldssonar (1989) eru tengd saman orð og orðhlutar sem mynda rím, þar sem hljóðafarslega tengdar myndir geta verið harla ólíkar að rithætti: dýi, flygi, fríi, sigi, vígi.

3. Flettiorð

Kjarni hverrar orðabókar er skrá um þau FLETTIORÐ sem bókin hefur að geyma, ásamt þeim efnisatriðum sem tilgreind eru við hvert flettiorð. Flettiorðaskráin veitir aðgang að lýsingu orðanna og vísar veginn að því sem notandinn leitar að. En flettiorðin hafa auk þess sjálfstætt upplýsingagildi að því er varðar ritun orðsins, og í mörgum orðabókum er einnig markað fyrir orðliðaskilum í samsettum flettiorðum. Þá má nýta sér flettiorðið til að sýna hvar heimilt er að skipta orði á milli lína.

3.1 Flettimyndir og afbrigði

Til þess að flettiorðin veiti greiðan aðgang að lýsingu orðanna og einstökum athugunarefnum þarf hvert orð að eiga sér sem skýrasta flettimynd, eins konar hlutlausan samnefnara þeirra ólíku afbrigða og beygingarmynda sem orðið getur birst í. Þessar sameinandi flettimyndir þurfa notendur að sjá fyrir sér hverju sinni til þess að notkun orðabókarinnar verði árangursrík. Í íslensku er gróin hefð fyrir því að birta nafnorð í nefnifalli eintölu, sagnir í nafnhætti (germyndar) og lýsingarorð í nefnifalli eintölu karlkyni (frumstigi). En þegar þessar myndir eiga sér mismunandi afbrigði getur verið erfitt að meta hvaða framsetning kemur sér best. Stundum er um hrein ritháttarafbrigði að ræða, og þá þarf helst að tilgreina hverja mynd á sínum stað í stafrófsröðinni, svo að notandinn grípi ekki í tómt, en birta orðlýsinguna einungis undir aðalflettimynd sem þá er vísað til frá öðrum afbrigðum:

skrítinn – skrýtinn
orusta – orrusta

En breytileikinn getur líka komið fram í orðmyndum sem endurspegla mismunandi framburð:

kjöt/ket
skolp/skólp
atgervi/atgjörvi
tóft/tótt
predika/prédika

Með slík afbrigði má fara eins og hrein ritbrigði, skipa lýsingunni undir annað afbrigðið og tilgreina hitt með vísun til aðalflettiorðsins:

ket → kjöt

En málið getur vandast þegar afbrigðin eru ekki fullkomlega jafngild að merkingu og stílgildi. Þegar þannig stendur á verður annaðhvort að gera þeim skil hvoru fyrir sig eða sameina lýsinguna undir „gildara“ afbrigðinu og rekja þar þau einkenni sem sérstaklega eiga við hitt afbrigðið. Sem dæmi um afbrigði af þessu tagi má nefna sagnirnar éta og eta.

3.2 Staða einstakra orðflokka

Forsendan fyrir því að sameinandi flettimyndir orðanna njóti sín til fulls er sú að notendur geti hverju sinni ályktað hver flettimyndin er. Ef gert er ráð fyrir að ályktunarhæfni notenda geti brostið þarf flettiorðaskipanin að vera sveigjanlegri, svo að tryggt sé að notendur rati að réttri efnisgrein. Þá leysa millivísanir ekki allan vanda. Hér þarf að huga að mismunandi hlutverki (og jafnvel merkingu) þeirra orðmynda sem flettiorðið er látið sameina.

3.2.1 Nafnorð

Þegar nafnorð eiga í hlut kemur oft fram verulegur merkingarmunur, jafnvel skýr merkingarskil, á milli eintölu orðs og fleirtölu. Um þetta má nefna fjölmörg dæmi:

fang/föng
ganga/göngur
hamla/hömlur
handtak/handtök
hríð/hríðir
mark/mörk
móttaka/móttökur
skömm/skammir
takmark/takmörk
veiting/veitingar
vöxtur/vextir

Ef orðabókarnotandi er að leita fróðleiks um hlutverk fleirtölumyndanna kæmi honum líklega best að ganga beint að flettiorði fleirtölunnar, í stað þess að þræða orðlýsingu þar sem eintölu og fleirtölu eru gerð sameiginleg skil. Í Íslenskri orðabók eru eintölumyndirnar hér að ofan í hlutverki flettiorða, og aðeins í tveimur tilvikum (hömlur, vextir) er fleirtalan einnig tilgreind en þá án nokkurrar orðlýsingar, aðeins auðkennd sem fleirtala. Sérmerking fleirtölunnar kemur einungis fram sem merkingarliður í tengslum við þær merkingar sem varða eintöluna sérstaklega.

3.2.2 Sagnorð

Í lýsingu sagna er áþekk staða uppi í sambandi við tengsl germyndar og miðmyndar. Hér er venja að tilgreina germyndina sem flettimynd, jafnvel þótt miðmyndin sé algerlega ráðandi, eins og eftirfarandi flettimyndir í Íslenskri orðabók bera með sér: auðna, blygða, dratta, engja, gremja, hagna, híra, skirra.

3.2.3 Lýsingarorð

Hefðbundin flettimynd lýsingarorða (nefnifall eintölu karlkyns) er ekki alltaf til þess fallin að greiða notendum leið að upplýsingum um fjölbreytilegar orðmyndir og margþætt hlutverk lýsingarorða. Þetta snertir ekki síst notkun hvorugkynsmyndar eintölu (nf./þf.), sem oft hefur sérstaka merkingu, t.d. þegar lýsingarorð er í eins konar nafnorðshlutverki með sögninni vera í setningum eins og:

það er gott að vera kominn heim
það er vont að hafa ekki svefnfrið
það er hægt að finna betri lausn

Sum lýsingarorð eru nær alltaf höfð í hvorugkyni (nf./þf. et.), svo að flettimynd í karlkyni getur orðið býsna framandi:

dár (sbr. dátt)
dagsannur (sbr. dagsatt)
einleikinn (sbr. einleikið)
einsær (sbr. einsætt)
misráðinn (sbr. misráðið)
óhættur (sbr. óhætt)
svarafár (sbr. svarafátt)
3.2.4 Lýsingarhættir

Eitt af því sem veldur íslenskum orðabókarhöfundum hvað mestum heilabrotum er að skera úr um stöðu lýsingarháttar (einkum þátíðar) af sögnum, hvort hann skuli tilgreindur sem sjálfstætt flettiorð (lýsingarorð) eða sem liður í lýsingu viðkomandi sagnar. Í Íslenskri orðabók eru lýsingarhættir oftar en ekki felldir undir lýsingu sagnarinnar. Þetta má t.d. sjá í lýsingu sagnarinnar þreyta, þar sem lýsingarhættirnir þreytandi og þreyttur standa saman í sérstökum tölulið en hvorug myndin er tilgreind sem flettiorð. En annars staðar eru sambærileg tengsl sagnar og lýsingarháttar rofin og lýsingarhátturinn tilgreindur sem sjálfstætt lýsingarorð. Sem dæmi um það má nefna sögnina hræða og lýsingarorðið hræddur. Óskýr staða lýsingarháttar kemur einnig fram í því að stundum er hans alls ekki getið, eins og raunin er um myndirnar hrelldur (sbr. hrella) og hvekktur (sbr. hvekkja) í Íslenskri orðabók.

3.3 Einyrði, fleiryrði og orðhlutaflettur

Algengast er að flettiorð séu EINYRÐI, þ.e. stök heil orð. En í sumum orðabókum má einnig fletta upp á einstökum orðhlutum, t.d. forskeytum eins og al-, frum- og tor-, eða viðskeytum eins og -ari, -ill, -menni og -rænn. Fátíðara er að (föst) orðasambönd séu tilgreind í heilu lagi sem flettimyndir (fleiryrði): í gær, að bragði, taka til. Þessi skipan endurspeglar þá áherslu sem lögð er á orðið sem grunneiningu í lýsingu orðaforðans og vitnar um leið um það hagræði sem felst í að raða flettiorðum í stafrófsröð. En þegar leitað er fróðleiks um orðasambönd fremur en stök orð, kæmi notendum oft best að geta ratað milliliðalaust að orðasambandinu sem um ræðir. Í prentaðri orðabók er erfitt að uppfylla þessa kröfu því þar byggist öll efnisskipan á flettiorðunum, þau eru eini lykillinn að efninu. Í rafrænni orðabók má hins vegar afmarka margs konar orðasambönd sem sjálfstæðar einingar og gera þeim skil óháð lýsingu orðanna sem þau eru mynduð úr.

Til eru sérhæfðar orðabækur þar sem orðhlutum er sérstakur gaumur gefinn. Í Orðastað er m.a fjallað um stöðu orða í samsetningum, sumpart í eiginlegum orðhlutaflettum (forskeytum eins og al- og sí- og seinni liðum eins og -bætir og -lægur), en þó einkum með því greina frá samsettum orðum þar sem flettiorðið er annar liðurinn. Hver samsetningarliður á sér fast sæti sem fyrirsögn í orðsgreininni og þar eru samsetningarnar tíundaðar og flokkaðar. Þessi skipan birtist t.d. í lýsingu samsetningarliða orðsins hjálp. Með þessu móti má t.d. ganga beint að samsetningum sem hafa flettiorðið að síðari lið.

Dæmi úr Orðastað. Orðabók um íslenska málnotkun.

4. Upplýsingar og efnisatriði

Til orðabóka má sækja margvíslegar upplýsingar um orð og orðafar. Fjölbreytni og vægi einstakra efnisatriða er vitaskuld mismunandi, og í sérhæfðum orðabókum eru efnisatriðin jafnan færri (en að sama skapi veigameiri) en í almennum orðabókum. Í orðabókartextanum eru upplýsingar settar fram með tvennum hætti. Annars vegar eru þær tilgreindar sem sérstakt efnisatriði, t.d. þegar kyn nafnorðs er birt með skammstöfun:

bátur k
bók kv
blað hk

Hins vegar geta þær birst á óbeinan hátt, samofnar öðrum upplýsingum. Notkunardæmi fela t.d. gjarna í sér upplýsingar um setningargerð og orðastæður þótt þess sé ekki beinlínis getið.

4.1 Framburður

Í mörgum orðabókum er að finna upplýsingar um framburð flettiorðanna.Venjan er að lýsa framburði með hljóðritun. Þörfin fyrir framburðarlýsingu er mismunandi eftir því hvaða hlutverk orðabókinni er ætlað. Mest er þörfin í tvímála orðabókum, með tilliti til þeirra notenda sem eru ókunnugir orðaforða viðfangsmálsins. Sú íslenska orðabók þar sem mest alúð er lögð við framburðarlýsingu orðanna er Íslensk-dönsk orðabók Sigfúsar Blöndals, þar sem Jón Ófeigsson mótaði sérstakt hljóðritunarkerfi.

Dæmi úr Íslensk-danskri orðabók..

Í yngri tvímála orðabókum um íslensku er minni áhersla lögð á lýsingu framburðar. Þá er gert ráð fyrir að framburðurinn endurspeglist að mestu í rithætti orðanna, og því sé óþarft að útskýra framburð einstakra orða, ef notendur þekkja þær meginreglur sem gilda um framburð í íslensku. Í sumum orðabókum eru þessar reglur raktar í sérstöku yfirliti utan við orðabókartextann, t.d. í Íslensk-sænskri orðabók og Íslensk-norskri orðabók (1992). Fátíðara er að íslenskum framburði séu gerð sömu skil þar sem íslenska er markmálið, en það er þó gert í Sænsk-íslenskri orðabók.

Þótt hljóðritun geti í sjálfu sér veitt nákvæmar upplýsingar er hætt við að hún geri ekki alltaf það gagn sem til er ætlast. Margir notendur eiga erfitt með að tileinka sér margbrotið hljóðritunarkerfi, og ritmyndir í formi hljóðritunar gefa aðeins takmarkaða hugmynd um raunverulegan framburð.

Í rafrænum orðabókum gefst færi á að lýsa framburði með hljóðdæmum (tali). Sú framsetning eykur stórlega á gildi framburðarlýsingar og gerir hana um leið víðtækari en áður hefur tíðkast. Á þann hátt má t.d. gera grein fyrir áherslu, brottfalli hljóða og ýmsum samlögunum. Og dæmin þurfa ekki að einskorðast við framburð flettiorðsins sjálfs, heldur geta þau náð til einkenna sem fram koma í samfelldu máli, í dæmigerðu setningarsamhengi, þar sem ólíkar orðmyndir koma við sögu. Nærtæk dæmi um gildi slíkra upplýsinga eru persónufornöfnin þar sem setningarstaða og áhersla innan setningar móta framburðinn.

Upplýsingar um slík framburðareinkenni eru sérstaklega hagnýtar í tvímála orðabókum, þar sem þær munu vafalaust gegna veigameira hlutverki eftir því sem rafrænar orðabækur ryðja sér meira til rúms. Og framburðarlýsingin þarf ekki að takmarkast við viðfangsmálið, ekkert er því til fyrirstöðu að hún nái einnig til orðaforða markmálsins.

4.2 Orðflokkur og beyging

Það efnisatriði sem er nátengdast flettiorðunum eru upplýsingar um orðflokk og kyn nafnorða og beygingu (þar sem um hana er að ræða). Þessi atriði eru oft eins konar föst auðkenni flettiorðsins og greina það í sumum tilvikum frá öðrum flettiorðum, þegar orð af ólíkum orðflokkum (eða mismunandi kyni nafnorða) eiga sér sömu flettimynd (eru samhljóma).

Löngum hefur verið látið duga að auðkenna nafnorð með því að tilgreina kyn þeirra (í Íslenskri orðabók eru auðkennin ‘K’ fyrir karlkyn, ‘KV’ fyrir kvenkyn og ‘H’ fyrir hvorugkyn). Í sumum nýlegum orðabókum eru nafnorð þó auðkennd með skammstöfuninni ‘NO’ að viðbættri skammstöfun um kyn orðsins. Aðrir orðflokkar eru auðkenndir með sömu skammstöfunum og almennt tíðkast í málfræðibókum (‘LO’ fyrir lýsingarorð, ‘SO’ fyrir sagnorð), ‘AO’ fyrir atviksorð,‘FN’ fyrir fornafn, ‘FS’ fyrir forsetningu, ‘ST’ fyrir samtengingu). Eldri venja, sem m.a. gætir í gömlum íslenskum orðabókum, er að skammstafa með latneskum hætti (með ‘adj’ (adjectivum) fyrir lýsingarorð, ‘v’ (verbum) fyrir sögn o.s.frv.).

Þótt oftast nær sé vandalaust fyrir orðabókarhöfund að greina orðflokk flettiorðanna koma þó upp vandamál þar sem mörk orðflokka eru óskýr eða orðflokkar skarast að einhverju leyti. Þetta á ekki síst við um samband forsetninga og atviksorða annars vegar og greinarmun lýsingarorða og lýsingarhátta af sögnum hins vegar.

Beygingu orða er einkum lýst á tvennan hátt í orðabókum. Venjulegast er að tilgreina ákveðnar endingar sem eiga að sýna beygingarflokkinn, þannig að notandinn geti ályktað um beygingarmynstrið í heild. Þessi aðferð er m.a. viðhöfð í beygingarlýsingu Íslenskrar orðabókar.

Þau atriði sem ekki koma að gagni við að skipa orði í beygingarflokk fá hins vegar minni athygli. Í Íslenskri orðabók er t.d. sjaldan getið um mynd þgf.et. sterkra karlkynsorða, þótt sú mynd valdi málnotendum oft miklum heilabrotum (í orðum eins og hóll, hnífur, sjóður, liður).

Önnur aðferð við beygingarlýsingu er að merkja hvert orð með tákni sem vísar til ákveðins beygingarmynsturs í sérstöku málfræðiyfirliti utan við orðabókartextann. Á þann hátt má fá fram nákvæmari lýsingu og fíngreindari flokkun en með því að birta einungis kennimyndir og kenniföll. Á hinn bóginn er slík táknun ógagnsæ og fyrirhafnarsamt er að aðgæta hverju sinni til hvaða beygingarmynsturs verið er að vísa.

4.3 Merkingarlýsing

Merkingarskýringar skipa mikið rúm í flestum orðabókum og upplýsingar um merkingu eru jafnan fyrirferðarmesta og mikilvægasta efnisatriðið í almennri orðabókarlýsingu. Þetta á bæði við um einmála og tvímála orðabækur þótt tilhögun skýringanna sé með ólíku móti. Munurinn er sá að í einmála orðabókum eru merkingarskýringarnar orðaðar á sama máli og verið er að lýsa en í tvímála orðabókum birtist merking orða og orðasambanda viðfangsmálsins í samsvarandi orðafari (jafnheitum) annars tungumáls, markmálsins.

4.3.1 Skilgreiningar

Í einmála orðabókum er merkingu orða og orðasambanda jafnan gerð skil með einhvers konar skilgreiningu, þar sem leitast er við að umorða merkingu flettiorðsins á sem skýrastan og nákvæmastan hátt. Algengast er að nota svokallaða greinandi skilgreiningu. Hún er tvíþætt, fyrst er tilfært nærhugtak, þ.e. næsta yfirhugtak þess sem skilgreina á, síðan kemur aðgreinir, þ.e. eitthvað sem greinir það frá öðrum undirhugtökum. Þetta má skýra með eftirfarandi skilgreiningu, sem sótt er til skýringar orðsins reiðhjól í Íslenskri orðabók.

farartæki á tveim hjólum, knúið áfram með fótum ...

Nærhugtakið hér er farartæki en aðgreinirinn er fólginn í því sem á eftir fer og greinir reiðhjól frá öðrum tegundum farartækja.

Greinandi skilgreining

Önnur aðferð við skilgreiningu er að tengja það sem skilgreina á við önnur hugtök sem gert er ráð fyrir að lesandinn þekki (tengjandi skilgreining). Við skilgreiningu litarorða er t.d. iðulega vísað til þekktra náttúrufyrirbæra, eins og eftirfarandi skilgreining á orðinu blár í Íslenskri orðabók er til vitnis um:

með lit heiðs himins eða hafdjúps í ýmsum blæbrigðum

Einfaldasta og oft nærtækasta leiðin við að skilgreina merkingu orða er að tilgreina samheiti. Skýringin á hugtakinu reiðhjól í Íslenskri orðabók hefst t.d. á samheiti. Skýringin er þannig í heild sinni:

hjólhestur, farartæki á tveim hjólum, knúið áfram með fótum eða hjálparvél

Samheitaskilgreiningin í upphafi er að vísu ekki dæmigerð því að samheitið er fátíðara og ókunnuglegra en orðið sem verið er að skýra. Eðlilegra væri að skilgreina orðið hjólhestur með samheitinu reiðhjól, eins og raunar er gert í Íslenskri orðabók.

Samheitaskilgreiningar eru eðli málsins samkvæmt ónákvæmar. Oft dugir illa að tilgreina eitt samheiti og er þá stundum gripið til þess ráðs að birta runu samheita sem í heild sinni er ætlað að taka til merkingar orðsins sem verið er að skýra. Í Íslenskri orðabók er orðið glöp t.d. skilgreint með eftirfarandi samheitarunu:

afglöp, mistök, skyssa, elliglöp

Hér er gallinn sá að skýringarorðin merkja ekki alveg það sama, og auk þess fer illa á því að tilgreina samsetningu (elliglöp) sem ber með sér að hafa þrengri merkingu en orðið sem verið er að skýra. Í ljósi þessa er skiljanleg sú afstaða, sem fram kemur í sumum orðabókum, að hafna samheitum við skilgreiningu merkingar (og auðkenna samheiti þar sem þeirra er yfirleitt getið).

Fleiri vensl koma við sögu þegar verið er að gera grein fyrir merkingu orða. Stundum speglast merkingin best í andheiti flettiorðsins. Það kemur t.d. fram í lýsingu orðsins landmaður í Íslenskri orðabók

.

Skilgreiningar byggjast að miklu leyti á hugtakavenslum, þar sem skýringin er formlega sambærileg við orðið sem verið er að skýra og getur tekið sæti þess í setningu. Löngum hefur verið litið svo á að skilgreiningar eigi helst að vera umskiptanlegar með þessum hætti, þannig að alltaf megi setja skýringuna í stað flettiorðsins þegar það er notað í texta. Þótt slík krafa veiti í sjálfu sér gagnlegt aðhald verður henni varla framfylgt til fulls. Vissar tegundir skilgreininga eru reyndar oftast óumskiptanlegar, ekki síst þær sem byggðar eru á sama orðstofni og flettiorðið:

ísfirskur sem er á eða frá Ísafirði
gagnlegur sem gagn er að

Setningarlegt umhverfi orðanna mótar líka og endurspeglar merkingu þeirra, svo að merkingunni verður stundum best lýst með hliðsjón af setningarlegum einkennum og tengslum orðanna við dæmigerð fylgdarorð. Merkingarafbrigði lo. beittur endurspeglast t.d. skýrt í þeim tengslum sem orðið myndar við fylgdarorð eins og hnífur, egg og oddur annars vegar og gagnrýni og háð hins vegar, og merkingartilbrigði sagnarinnar stækka (eins og minnka, hækka og lækka) standast á við notkun hennar sem áhrifssagnar annars vegar og áhrifslausrar sagnar hins vegar.

Í mörgum nýlegum orðabókum er meira tillit tekið til setningarlegs samhengis við merkingarlýsingu en áður tíðkaðist. Þekktastar þeirra eru orðabækur sem kenndar eru við COBUILD en fyrst í þeirri ritröð var COLLINS COBUILD ENGLISH LANGUAGE DICTIONARY sem út kom árið 1987.

4.3.2 Hringskilgreining

Það vill stundum brenna við að skilgreiningar orðabóka fari í hring ef svo má segja. Í Íslenskri orðabók er orðið reiðhjól t.d. skilgreint sem ‘hjólhestur’ og við orðið hjólhestur er höfð skýringin ‘reiðhjól’. Í slíkum skýringarhætti felst í raun og veru engin skilgreining, aðeins ábending um samheiti. Annað afbrigði slíkra skýringa er notkun samstofna orða:

reiði það að vera reiður
reiður haldinn reiði

Sá sem þarfnast eiginlegrar skilgreiningar á hugtökunum er engu nær þótt skýringarnar geti í sjálfu sér gefið vísbendingar um inntak orðanna.

4.3.3 Skilgreiningaorðaforði

Gildar ástæður eru fyrir því að reynt sé að halda í skefjum þeim orðaforða sem notaður er í skilgreiningum orðabóka. Hugtökin sem vísað er til þurfa að vera sem skýrust og orðin kunnugleg og auðskilin. Í sumum orðabókum er lögð mikil áhersla á takmörkun skilgreiningaorðaforðans, sérstaklega í orðabókum sem ætlað er að styðja málanám (sbr. t.d. LONGMANS DICTIONARY OF CONTEMPORARY ENGLISH). En slík krafa er ekki jafn áleitin í almennum orðabókum sem eiga að höfða til þeirra sem hafa mál skilgreininganna að móðurmáli, og í íslenskri orðabókarhefð hefur takmörkun skilgreiningaorðaforðans verið lítill gaumur gefinn.

4.3.4 Jafnheiti í tvímála orðabókum

Þegar gerð er grein fyrir merkingu orðs með greinandi skilgreiningu í einmála orðabók er tekið mið af inntaki orðsins, hugtakinu sem orðið táknar. Þegar merkingin er skýrð með samheiti, miðast skýringin hins vegar fremur við orð en hugtak. Oft er þessu tvennu blandað saman, þannig að merkingarlýsingin er fólgin í greinandi skilgreiningu að viðbættu einu eða fleiri samheitum. Í tvímála orðabókum er merking skýrð með því að tilfæra orð úr markmálinu sem hafa samsvarandi tákngildi og flettiorðið hefur í viðfangsmálinu. Slík samsvörun milli orða og orðafars tveggja (eða fleiri) mála nefnist jafngildi, en jafnheiti er haft um orðin sem jafngildið birtist í.

Til að merkingarskýringar verði fullnægjandi í tvímála orðabókum verður oft að beita umritun, þ.e. lýsa merkingunni fremur en tilgreina jafnheiti. Stundum er hvort tveggja gert, eins og í lýsingu orðsins euphemism í Ensk-íslenskri orðabók.

Dæmi úr Ensk-íslenskri orðabók.

Í ýmsum tvímála orðabókum þar sem íslenska er markmálið verður víða vart við málamyndajafnheiti, orð sem ekki eiga sér rótfestu í lifandi máli en eru valin eða beinlínis mótuð af orðabókarhöfundinum. Þetta á einkum við um íðorðasöfn, þar sem verið er að koma nýjum íslenskum heitum á framfæri. Erlend-íslenskar orðabækur gegna að þessu leyti mikilvægu málræktarhlutverki.

4.3.5 Aðgreining jafnheita

Þegar flettiorð í tvímála orðabók er margbreytilegt að merkingu verður að grípa til margra jafnheita til að gera öllum merkingarafbrigðunum skil. Þá nægir ekki að telja upp jafnheitin, heldur verður að auðkenna hvert afbrigði um sig, svo að notandinn viti við hvaða merkingu flettiorðins einstök jafnheiti eiga. Slíkar upplýsingar eru einkum ætlaðar notendum sem ekki hafa fullt vald á markmálinu.

Dæmi úr íslensk-enskri orðabók.

4.4 Alfræðilegar upplýsingar

Sum orð verða ekki skýrð nema með því að lýsa þeim fyrirbærum sem þau tákna. Slíkar upplýsingar eru einkenni alfræðirita en þeirra er einnig oft þörf í orðabókum, t.d. þegar skýra á samfélagsleg hugtök eða tæknileg fyrirbæri. Í almennum einmála orðabókum bregður alfræðilegum upplýsingum víða fyrir í merkingarlýsingu orða, eins og sjá má í lýsingu orðsins króna í Íslenskri orðabók. Þær eru þó mun meira áberandi í vissum tegundum sérhæfðra orðabóka, t.d. í ýmsum íðorðabókum, þar sem fengist er við að útskýra eðli hluta og fyrirbæra.

Dæmi úr Íslenskri orðabók.

Í tvímála orðabókum fer að jafnaði minna fyrir alfræðilegum upplýsingum enda er merkingarlýsingin þar ekki í formi skilgreininga. En þegar jafnheiti skila merkingunni ekki til fulls eða eru ekki til og verið er að fást við hugtök og fyrirbæri sem eru ókunnugleg í samfélagi markmálsins, getur þurft að grípa til alfræðilegra skýringa, eins og víða má sjá dæmi um í Ensk-íslenskri orðabók.

Dæmi úr Ensk-íslenskri orðabók.

4.5 Myndskýringar

Í mörgum orðabókum er brugðið upp myndum í tengslum við einstök orð og efnisatriði. Myndefni getur gætt orðabókarlýsinguna lífi og vakið áhuga notenda, en auk þess gegnir það oft beinu skýringarhlutverki, annaðhvort til stuðnings öðrum skýringum eða eitt og sér. Myndskýringar eru einkum notaðar þegar verið er að lýsa gerð hluta eða einhvers konar útbúnaði

.

Dæmi úr Íslenskri orðabók.

Myndskýringar henta einnig vel til að skýra samstætt orðafar sem tengist einum og sama hlutnum (eins og allt það orðafar um hluta þorskhaussins sem gerð er grein fyrir í Íslenskri orðabók)

Dæmi úr Íslenskri orðabók.

Önnur tegund myndskýringa birtir aðstæður sem á einhvern hátt einkenna það sem verið er að lýsa. Í Merg málsins gegna myndskýringar t.d. því hlutverki að draga fram sérstök einkenni merkingar eða varpa ljósi á uppruna tiltekinnar merkingar.

Dæmi úr Mergur málsins. Íslensk orðatiltæki.

Enn má nefna myndskýringar sem lýsa einhverju ferli stig af stigi. Dæmi um slíka skýringu er að finna í Íslenskri orðabók þar sem lýst er gangi í hestum.

Dæmi úr Íslenskri orðabók.

4.6 Samspil orð- og myndskýringa

Í prentuðum orðabókum gegna myndskýringar aðeins aukahlutverki við hlið skilgreininga og annarra orðskýringa. Í rafrænum orðabókum gefst hins vegar kostur á að gera hlut myndefnis mun meiri og nýta það á árangursríkari hátt.

Mestur skilningsauki er að myndskýringum þegar orðabókin er hugsuð sem skilningsorðabók og gert er ráð fyrir að flettiorðið sé notandanum ókunnugt. En myndskýringar henta einnig vel til að veita yfirsýn um samstætt orðafar út frá almennu, yfirskipuðu heiti.

4.7 Hljóðskýringar

Þótt myndskýringar þyki nýstárlegt fyrirbæri eins og þær birtast í rafrænum orðabókum eru þær í sjálfu sér ekki nýjung í orðabókargerð. Meira nýmæli er að nota hljóð sem þátt í lýsingu orðanna. Þar með getur orðlýsingin eftir atvikum verið ofin saman úr orð-, mynd- og hljóðskýringum, þar sem einn þáttur styður annan. Nærtækt er að hugsa sér lýsingu á dýrum.

Samtengdar mynd- og hljóðskýringar af þessu tagi eiga víða við, t.d. við lýsingu á hljóðfærum. En þótt merking orðs lúti að hljóði getur verið vandkvæðum bundið að koma henni til skila með hljóðskýringu, nema orðið sé sett í setningarlegt samhengi eða á annan hátt brugðið upp mynd af notkun þess. Til marks um það má nefna samstæðar sagnir eins og braka, marra og ískra, þar sem hljóðskýringin ein yrði harla ófullkomin, eða sagnirnar hrína, kjökra og snökta, þar sem myndskýring gæti skerpt merkingarmuninn.

Notkun hljóðskýringa í orðabókum er að mestu óplægður akur og erfitt er að gera sér grein fyrir í hve miklum mæli þær munu ryðja sér til rúms. En gildi hljóðdæma í orðabókum er jafnvel enn frekar fólgið í því að geta heyrt framburð orða og setninga eða hlýtt á orðræðu og samtöl.

4.8 Setningargerð

Oft nægir ekki að lýsa merkingu orða, heldur verður einnig að gera grein fyrir því hvernig þau standa af sér gagnvart öðrum orðum í setningarlegu samhengi. Oft eru merkingarleg og setningarleg einkenni orða reyndar samofin, þannig að einstök merkingarafbrigði eru bundin tilteknu setningarumhverfi.

Upplýsingar um setningargerð eru mikilvægastar í málbeitingarorðabókum, jafnt einmála sem tvímála, einkum í lýsingu sagna. Þegar um ópersónulegar sagnir er að ræða þarf t.d. að tilgreina fall frumlagsins og við áhrifssagnir þarf að koma fram í hvaða falli andlag stendur. En lýsing á þessum einkennum tekur oftast einnig til merkingareinkenna nafnliðanna sem standa með sögninni, t.d. hvort frumlag ópersónulegrar sagnar þarf að tákna persónu (mig syfjar, mér leiðist o.s.frv.) eða felur í sér vísun til hluta og fyrirbæra (vatnið þrýtur, vindinn herðir, óveðrinu slotar, dagsljóss nýtur).

Upplýsingum um setningarlega eiginleika sagna má koma á framfæri á ýmsan hátt, með táknakerfi þar sem t.d. hvert fall á sér sitt sérstaka tákn, með mynsturdæmum sem aðeins taka til setningarhluta og fornafnamyndir sýna hvert fallið er (skamma e-n, þiggja e-ð, ljúka e-u), með því að tilgreina dæmigerð fylgdarorð (þiggja gjöfina, ljúka verkinu) eða með því að bregða upp heillegum notkunardæmum þar sem setningargerðin birtist í bland við önnur einkenni.

Þótt setningargerðin setji sterkastan svip á lýsingu sagna kemur hún einnig við sögu í lýsingu annarra orðflokka, einkum forsetninga og lýsingarorða.

Í almennum orðabókum mótast heildarsvipur orðlýsingarinnar af merkingarlegum atriðum en setningarlegu einkennin eru minna áberandi. En í vissum sérhæfðum orðabókum, einkum þeim sem fjalla um orðasambönd, getur setningargerðin verið í brennidepli og merkingarskýringar aðeins komið fram í takmörkuðum mæli. Við lýsingu sagna gefst kostur á að láta setningargerðina ráða skipan orðsgreinarinnar, svo að notendur eigi sem auðveldast með að rata að einstökum atriðum.

4.9 Orðasambönd

Með orðasambandi er átt við að tvö eða fleiri orð fari reglulega saman innan setningar og myndi að meira eða minna leyti fasta setningarlega heild. Þótt orðasambönd séu sjaldnast ýkja áberandi í meginskipan orðabóka, þar sem þau eru yfirleitt ekki uppflettieiningar í heild sinni, eru þau oft og tíðum afar gildur þáttur í orðabókartextanum, og það er eitt af vandasamari verkefnum orðabókahöfunda að skipa orðasamböndum á haganlegan hátt.

Greina má á milli ólíkra tegunda orðasambanda út frá þrenns konar forsendum. Þau greinast í fyrsta lagi að eftir því hvort merking orðasambandsins helst í hendur við merkingu orðanna sem það er myndað úr. Hér er meginmunur á orðastæðum annars vegar, þar sem merkingin er samsett úr merkingu orðanna í sambandinu, og orðtökum hins vegar, þar sem merkingin er umbreytt og tengslin við merkingu einstakra orða eru óskýr eða virðast beinlínis rofin. Í öðru lagi eru orðasambönd misjafnlega formföst, allt frá algerlega föstum eða stirðnuðum samböndum til orðasambanda með breytilegum liðum. Loks eru orðasambönd ólík að setningargerð, sum eru takmörkuð við setningarhluta (t.d. sagnlið eða atvikslið) en önnur koma fram sem heil setning (jafnvel samsett).

4.9.1 Orðastæður

Orðastæða er samband tveggja eða fleiri orða sem koma oft eða reglulega fyrir sem samstæða innan setningar og mynda merkingarlega heild í samræmi við merkingu þeirra orða sem orðasambandið er myndað úr. Orðastæður greinast yfirleitt í tvo misvæga hluta, þar sem annar, kjarnaliður, er kjarni orðastæðunnar og ber uppi merkingu hennar, en hinn, stoðliður, er eins konar ákvæði sem ákvarðar eða lýsir kjarnanum nánar. Þessi einkenni koma skýrt fram í sambandi margra sagna við atviksliði.

Í orðastæðum eins og gráta beisklega, hlæja dátt, sofa eins og steinn, vinna baki brotnu er sögnin kjarni orðasambandsins en atviksliðurinn kveður nánar á um það sem í sögninni felst. Kjarnaliðurinn er sýnilega betur til þess fallinn að gegna hlutverki flettiorðs gagnvart orðastæðunni í heild, þar er á ferðinni hugtakið sem notandinn gengur út frá, en það sem hann leitar vitneskju um er fólgið í stoðliðnum.

Nafnorð gegna oft hlutverki kjarnaliðar í orðastæðum, og stoðliðurinn er þá gjarna sögn eða lýsingarorð. Veigamikil nafnorð geta birst í fjölmörgum orðastæðum, eins og eftirfarandi sambönd með orðinu dagur bera með sér:

dagur kviknar
dagur ljómar
degi hallar
árla dags
að áliðnum degi
allan liðlangan daginn

Orðastæðum er stundum skipt í tvær tegundir eftir því hvers eðlis venslin eru milli kjarnaliðar og stoðliðar. Annars vegar eru málfræðilegar orðastæður, þar sem stoðliðurinn gegnir fyrst og fremst málfræðilegu hlutverki. Stoðliðurinn getur t.d. verið forsetning, sem stendur með nafnorði: að ári, í ár, með árunum. Annað dæmi um málfræðilega orðastæðu er samband nafnorðs og forsetningarliðar: áhyggjur af e-u, ótti við e-ð. Í merkingarlegum orðastæðum eru vensl liðanna merkingarleg og þar eiga oftast í hlut nafnorð, lýsingarorð, sagnir og atviksorð:

reisa bú
taka sótt
leiftrandi fjör
ærandi hávaði
hlæja dátt
gráta beisklega

Sumar orðastæður eru fastar, þ.e. ekki verður skipt um orð eða liði í orðasambandinu án þess að merkingin raskist. En stoðliðurinn getur einnig verið breytilegur og merking orðastæðunnar þannig átt sér margs konar búning. Slíkur breytileiki er t.d. áberandi þegar um er að ræða stoðliði með áherslumerkingu:

öskrandi hríð
grenjandi hríð

sofa fast
sofa eins og steinn

Orðastæður hafa fyrst og fremst gildi sem efnisatriði í málbeitingarorðabókum. Áhugi notenda beinist þá sjaldnast að tiltekinni orðastæðu heldur fremur að því að fá yfirsýn um þau tilbrigði sem kunna að koma fram við notkun einstakra orða (kjarnaliða). Í skilningsorðabókum á síður við að tilgreina orðastæður undir kjarnaliðum. Þar getur hins vegar verið þörf á nákvæmum merkingarskýringum á einstökum stoðliðum og í því samhengi getur átt við að birta orðastæður sem eins konar notkunardæmi.

4.9.2 Orðtök

Orðtök einkennast af því að merking orðasambandsins í heild stenst ekki á við það sem beinlínis felst í þeim orðum sem það er myndað úr, heldur er merkingin að meira eða minna leyti yfirfærð eða myndhverf. Í sambandi orðanna felst yfirleitt einhvers konar líking, sem oftar en ekki er auðskilin.

brjóta ísinn ‘eiga frumkvæði að e-u, vera fyrstur til aðgerða’
beina spjótum sínum að e-m ‘beina gagnrýni sinni að e-m’
láta kné fylgja kviði ‘nýta sér sterka stöðu sína til að knýja fram sigur eða málalok’

Stundum getur verið erfitt að greina tengslin við eiginlega merkingu orðanna. Þegar saga orðtaks er rakin kemur oft í ljós að breytingar hafa orðið á merkingu þess og búningi, jafnvel svo að orðtakið hefur verið endurtúlkað og ný líking hefur kviknað. Sem dæmi um þetta má nefna orðtakið leika á als oddi, sem talið er hafa umbreyst úr sambandinu leika alsolla, sem kunnugt er úr fornmáli. Merking síðarnefnda orðtaksins er allt önnur (‘leika á reiðiskjálfi’) en óskýr merking orðsins alsolla hefur valdið því að orðtakið leitar í nýjan búning, sem síðar mótar nýja merkingu þess.

Mörg orðtök eiga sér gamlar rætur og endurspegla þjóðfélagshætti liðins tíma:

hafa bæði tögl(in) og hagldir(nar)
ekki eru öll kurl komin til grafar
láta sverfa til stáls

Þótt orðtök eigi sér yfirleitt fastan búning getur komið fram viss breytileiki í einstökum liðum. Oft er um að ræða breytilegar sagnir sömu eða svipaðrar merkingar, sem ekki hafa áhrif á merkingu orðasambandsins í heild:

aka/fara höllum fæti
bíta/narta í hælana á e-m
brjóta/brenna allar brýr að baki sér
herða/greiða/snerpa róðurinn

En breytileikinn getur einnig vitnað um áhrif frá merkingarskyldum orðtökum:

leggja/tefla á tæpasta vað(ið) (sbr. tefla e-u í tvísýnu)

Og óljós líking getur haft áhrif í sömu átt:

maka/mata krókinn

Hlutur orðtaka er misjafn í orðabókum og er að miklu leyti háður því hvaða hlutverki orðabókin á að gegna. Í skilningsorðabókum er þörf á greinargóðum merkingarskýringum en þar þarf auk þess að geta sem flestra tilbrigða með tilliti til þess að notandinn gengur út frá því sem verður á vegi hans við lestur texta. Í málbeitingarorðabókum er staðan önnur, þar sem gera má ráð fyrir að merking orðtaka sé notendum kunn. Þar hafa orðtök einkum gildi sem efnisatriði í tengslum við orðafar einstakra hugtaka.

Í almennum orðabókum eru naumast tök á að gera hverju og einu orðtaki rækileg skil, greina frá uppruna orðtaksins, málsögulegum breytingum o.s.frv. Þó er rétt að taka fram að orðtök og skýringar á þeim skipa tiltölulega mikið rúm í Íslenskri orðabók og Íslensk-danskri orðabók Sigfúsar Blöndals. En það er til marks um sérstöðu og gildi orðtaka að þeim eru gerð skil í sérstökum orðtakabókum (orðtakasöfnum). Helstu fulltrúar slíkra rita meðal íslenskra orðabóka eru Íslenskt orðtakasafn Halldórs Halldórssonar, Mergur málsins eftir Jón G. Friðjónsson og Íslensk orðtök eftir Sölva Sveinsson.

4.9.3 Málshættir

Málsháttur er meitlað orðasamband sem nemur minnst heilli setningu og felur í sér einhvers konar mat eða íhugun, sem oft er sett fram sem almenn lífsregla eða ábending um sannindi. Þótt oft sé brugðið upp líkingu eru málshættir yfirleitt auðskildir og því er sjaldnast talin ástæða til að tilgreina þá sem sérstakt efnisatriði í almennum orðabókum. Þeim bregður þó oft fyrir meðal dæma og jafnvel orðasambanda, þar sem þeir eru látnir vitna um merkingu eða önnur notkunareinkenni flettiorðsins.

Málsháttum eru gerð ýtarlegust skil í sérstökum málsháttaorðabókum eða málsháttasöfnum. Í eldri málsháttasöfnum fer mest fyrir upptalningu en að sama skapi lítið fyrir efnisflokkun og skýringum. Það gildir einnig um efnismesta málsháttarit frá síðari tímum, Íslenskt málsháttasafn Bjarna Vilhjálmssonar og Óskars Halldórssonar. Í Íslenskum málsháttum eftir Sölva Sveinsson eru málshættir flokkaðir eftir efni og skýrðir eftir því sem tilefni og ástæða þykir til.

4.9.4 Viðkvæði

Með viðkvæði er átt við fastmótað orðasamband eða stakt orð sem tjáir viðbrögð eða afstöðu mælandans í orðaskiptum. Greina má á milli ólíkra hlutverka viðkvæða. Sum lýsa undirtektum við orð viðmælandans, jákvæðum eða neikvæðum:

einmitt
ég segi sama
hætt er nú við
það geturðu bókað
það segirðu satt
það er nú líkast til
það læt ég vera
það eru ekki mín orð
það er nú eitthvað annað
ekki aldeilis

Önnur tengjast fremur aðstæðum, t.d. þau sem menn viðhafa er þeir hittast, heilsast og kveðjast:

sæl(l) vertu
góðan dag
þakka þér fyrir síðast
hittumst heil
góða ferð
gleðilegt ár

Í viðkvæðum felst oft tilfinningaleg afstaða af einhverju tagi, t.d. undrun, vonbrigði, gremja eða reiði:

ja hérna
herra minn trúr
að hugsa sér
stutt gaman og skemmtilegt
svona fór um sjóferð þá
nú versnar í því
það gat nú skeð
það var svo sem auðvitað
djöfullinn danskur
hvert í hoppandi

Viðkvæði hafa fremur óskýra stöðu í orðabókum og koma helst fyrir sem dæmi undir einstökum flettiorðum sem þau tengjast. Í lítil ástæða til að gefa þeim sérstakan gaum, nema þörf sé á merkingarskýringum. Í málbeitingarorðabókum er gildi þeirra bundið lýsingu á orðafari einstakra hugtaka, þar sem til dæmis eru rakin þau viðkvæði sem eiga við hugtak eins og undrun.

4.9.5 Orðasambönd sem fleiryrði

Þegar um er að ræða föst orðasambönd kemur til álita að tilgreina þau sem flettieiningar í heild sinni (fleiryrði), í staðinn fyrir að skipa þeim sem samböndum undir stök flettiorð (einyrði). Þetta gildir t.d. um ýmis smáorðasambönd, forsetningar, atviksorð og samtengingar, sem málnotendur skynja sem órofa heild og eru jafnvel stundum skrifuð sem eitt orð:

alls staðar
enn þá
fyrir fram
til baka
þar með
af hverju
undir eins
í bili

Í prentuðum orðabókum verður ekki gengið mjög langt í því að birta orðasambönd sem fleiryrði, enda fer það eftir forsendum notenda hversu vel þeim kemur að ganga rakleitt að orðasamböndum á þann hátt. Í rafrænum orðabókum gefst hins vegar færi á að vísa notendum beina leið að margs konar föstum orðasamböndum. Það á jafnt við hvort sem hugsað er til skilnings (notandinn flettir upp á ókunnuglegu sambandi sem hann rekst á í texta) eða málbeitingar (notandann fýsir að vita hvernig tiltekið orðasamband er notað eða hvaða samheiti það á sér).

4.10 Dæmi

Hlutverk dæma í orðabókum er að sýna eða staðfesta hvernig tiltekið orð eða orðasamband er notað í mállegu samhengi, oft með áherslu á tiltekið einkenni sem verið er að fjalla um í lýsingu orðsins. En þótt dæmi eigi einkum að sýna tiltekið einkenni (t.d. fallstjórn sagnar) má segja að flest búi yfir margþættari upplýsingum um orðið eða orðasambandið sem í hlut á. Dæmið áhorfendur hvöttu leikmennina skýrir ekki aðeins fallstjórn sagnarinnar heldur tengir það hana einnig við tiltekinn beygingarflokk.

Dæmi greinast m.a. að eftir því hvort þau eiga fremur að lýsa almennu notkunarmynstri (þar sem orðið skipar sér í flokk með öðrum orðum með tilliti til einkenna eins og setningargerðar eða beygingar) eða dæmigerðri notkun (þar sem samhengi texta, ummæla eða orðaskipta styður lýsinguna). Í mynsturdæmum eru skammstafaðar fornafnsmyndir látnar koma í stað nafnliða og sögnin birtist í nafnhætti án undanfarandi nafnliðar (frumlags): lofa e-m e-u, leggja e-ð fyrir e-n. Slík dæmi geta hentað vel til að sýna fallstjórn og hvort nafnliður á við lifandi verur eða dauða hluti og fyrirbæri. En merkingarleg einkenni nafnliða koma ekki fram.

Í tilviksdæmum eru sýndir dæmigerðir nafnliðir og sögnin kemur fram í persónuhætti:

bankastjórinn lofaði mér láni
kennarinn lagði erfiða þraut fyrir nemendurna

Tilviksdæmi eru þannig mun fyllri, oftast nær heil setning eða jafnvel setningasambönd.

Oft eru dæmi sá þáttur í orðabókartextanum sem höfundur setur mest mark sitt á, með því að búa þau til eða laga þau í hendi sér eftir því sem aðstæður krefjast. Í mörgum orðabókum eru slík ritstjórnardæmi ráðandi, sem að miklu leyti eru reist á sambærilegum dæmum sem fram koma í textasöfnum, orðstöðulyklum eða öðrum heimildum. En lýsing orðanna getur einnig krafist stuðnings frá raunsönnum dæmum, sem sótt eru til heimildar og birt í orðabókartextanum í óbreyttri mynd, gjarna með tilvísun til heimildarstaðar. Dæmi af því tagi eru t.d. ráðandi í sögulegum orðabókum, þar sem miklu skiptir að staðfesta aldur orðs, merkingu þess eða önnur notkunareinkenni sem verið er að lýsa. Úr slíkum dæmum má oft lesa margs konar upplýsingar umfram það sem orðlýsingin beinist að. Með því að beita ritstjórnardæmum er hins vegar hægt að beina athyglinni að tilteknu atriði. Dæmigert setningarumhverfi getur leitt í ljós helstu málfræðieinkenni orðsins, en merkingarlýsingin getur einnig að nokkru leyti verið fólgin í dæmum, þar sem m.a. má koma fyrir merkingarlega vensluðum orðum. Í dæminu er þetta mikið sár? – nei, þetta er bara skeina endurspeglast merking orðsins skeina í því samhengi sem brugðið er upp við almenna samheitið sár.

4.11 Staðvensl

Í orðabókarlýsingu er iðulega vikið að venslum flettiorðanna við önnur orð sem gætu tekið sæti þeirra í setningu. Slík vensl, sem nefnd hafa verið staðvensl, eru m.a. áberandi þáttur í skilgreiningum, þar sem nærhugtök og yfirskipuð heiti mynda oft kjarna skýringanna, eða gripið er til samheita og andheita til að leiða merkinguna í ljós. Notkunardæmi geta einnig birt sams konar heiti. Í almennum orðabókum er þó sjaldnast hægt að ganga að slíkum upplýsingum vísum, þótt til séu orðabækur þar sem samheiti (og jafnvel andheiti) eiga sér ákveðinn bás innan orðsgreinarinnar.

Staðvensl eru hins vegar meginviðfangsefni ákveðinna tegunda sérhæfðra orðabóka. Þar eru samheitaorðabækur fremstar í flokki. Staðvensl geta einnig komið fram við lýsingu á orðmyndun og samsetningum orða. Dæmi þess má víða sjá í Orðastað, þar sem raktar eru samsetningar einstakra orðstofna. Þar sem merkingareinkenni ráða flokkun samsetninganna hefur orðabókarlýsingin áþekkt gildi og samheitalýsing.

Dæmi úr Orðastað. Orðabók um íslenska málnotkun.

Algengast er að staðvensl í orðabókum miðist við inntak orðanna, eins og raunin er í samheitaorðabókum. En staðvenslin geta einnig miðast við formlegar eigindir orðanna. Rímorðabækur eru einn helsti fulltrúi orðabóka af því tagi.

4.12 Frávikamörkun

Í almennri orðabókarlýsingu getur þótt ástæða til að taka fram að sumt orðafar víki að einhverju leyti frá því sem talist getur almennt, hlutlaust og reglulegt. Slík atriði eru þá oftast auðkennd með skammstöfun eða einhvers konar merki sem vekur hugmynd um eðli frávikanna. Slík mörkun snertir í fyrsta lagi orðafar sem bundið er tilteknu viðfangsefni, einkum fag- eða fræðasviði, t.d. sjómennsku, íþróttum, jarðfræði o.s.frv.

Þessi merki eru notuð í Íslenskri orðabók.

Í öðru lagi er gefið til kynna að notkun orðs eða orðalags sé að einhverju leyti takmörkuð, t.d. bundin ákveðnum aðstæðum eða málsniði. Mörkun af því tagi getur m.a. varðað staðbundið málfar, skáldamál, sjaldgæft mál eða fornt mál. Í íslenskri orðabókarhefð hefur auk þess tíðkast að auðkenna orðafar sem notendum er ráðlagt að forðast.

5. Efnisskipan orðabóka

Notagildi orðabókar ræðst mjög af því hvernig til tekst við að skipa efninu, þannig að yfirsýn fáist um orðabókina í heild og auðvelt sé að ganga að einstökum atriðum. Efnisskipan orðabókar greinist í sundur eftir því til hvaða efnisþátta er litið.

5.1 Heildarskipan

Heildarskipan tekur til allra efnishluta orðabókarinnar, þar sem flettiorðaskráin er meginhlutinn. Sá efnishluti sem er framan við flettiorðaskrána kallast fortexti en sá hluti sem er aftan við skrána kallast baktexti. Fortexti og baktexti kallast einu nafni viðtexti.

5.2 Meginskipan

Með meginskipan orðabókar er átt við innbyrðis skipan flettiorðanna. Algengast er að flettiorðunum sé raðað í stafrófsröð en skipanin getur einnig verið kerfisbundin, þ.e. markast af innbyrðis samhengi þeirra hugtaka eða fyrirbæra sem fjallað er um. Meðal þekktustu orðabóka af því tagi er ROGET'S THESAURUS OF ENGLISH WORDS AND PHRASES, hugtakaorðabók um ensku sem fyrst kom út árið 1852.

Stafrófsröðuð meginskipan getur komið fram í margvíslegum afbrigðum sem ekki verða öll rakin hér. Stafrófsskipt meginskipan einkennist af því að hver flettubálkur inniheldur aðeins eina orðsgrein.

Dæmi úr Íslensk-þýskri orðabók.

En algengara er að hver flettubálkur sameini runu flettiorða sem þá myndar svokallaða syllu (sylluröðuð meginskipan).

Dæmi úr Íslenskri orðabók.

Hér eru færð saman þau orð sem mynduð eru með sama forlið og mynda órofna stafrófsröð. En hægt er að ganga enn lengra við að sameina samstofna orð, þannig að hverjum orðstofni fylgi allar samsetningar af stofninum, sem þá mynda svokallað hreiður (hreiðurröðuð meginskipan). Stafrófsröðin helst þó samfelld miðað við fremsta orðið í hverjum greinarbálki.

5.3 Innskipan

Með innskipan er átt við innbyrðis skipan efnisatriða í hverri orðsgrein. Innskipan í orðabókum er afar breytileg og ræðst m.a. af því hver orðabókartegundin er og hvaða hlutverki henni er einkum ætlað. Innbyrðis vensl efnisatriða geta verið býsna flókin, sum atriðin eiga við flettiorðið, önnur við tiltekið jafnheiti (sé um tvímála orðabók að ræða), enn önnur við orðasamband o.s.frv.

5.4 Aðgangur og aðgangsskipan

Í orðabókum er beitt ýmsum ráðum til að greiða notendum leið að þeim upplýsingum sem þeir gætu sóst eftir. Í flettiorðaskránni eru yfirleitt höfð leiðsöguorð efst á hverri síðu sem sýna notandanum í sjónhendingu á hvaða stafrófsbili hann er staddur. Efnisatriði innan orðsgreinar eru oft aðgreind með mismunandi leturgerð (t.d. með skáletri á notkunardæmum, feitletri á föstum orðasamböndum o.s.frv.). Upphaf hvers efniskafla (merkingarliðar) markast gjarna af sérstöku deilitákni. Helstu deilitákn eru (arabískar og rómverskar) tölur en einnig eru efnisatriði stundum auðkennd með táknum eins og ör, depli eða stjörnu.

Sumar orðabækur hafa að geyma eina eða fleiri orðaskrár sem vísa til flettiorðaskrárinnar. Í mörgum íslenskum íðorðabókum er flettiorðaskráin með íslenskum flettiorðum en aftan við er ensk-íslensk orðaskrá sem vísar til flettiorðaskrárinnar. Í endurútgáfu Orðabókar Háskólans á orðabók Gunnlaugs Oddssonar, ORÐABÓK SEM INNIHELDUR FLEST FÁGÆT, FRAMANDI OG VANDSKILIN ORÐ ER VERÐA FYRIR Í DÖNSKUM BÓKUM (1991), eru íslensk jafnheiti og skýringarorð í stafrófsraðaðri orðaskrá aftan við flettiorðaskrána með beinni vísun til flettiorða.

Í prentuðum orðabókum eru takmarkaðir möguleikar á því að stikla á milli orða og efnisatriða innan orðabókartextans, og eina leið notandans að efninu liggur gegnum flettiorðin. Rafræna orðabók má hins vegar búa þannig úr garði að stikla megi á milli atriða óháð flettiorðaskránni, t.d. aðgæta notkun tiltekins jafnheitis í öllum textanum, smala saman orðum sem hafa sama beygingareinkenni, glöggva sig á útbreiðslu ákveðinnar setningargerðar o.s.frv.

6. Efnisöflun og efnisval

Efniviðar til orðabókar má afla á ýmsan hátt. Í þeim efnum hafa orðið miklar breytingar eftir að tölvutæknin kom til sögunnar. Með atbeina tölvunnar er hægt að ná utan um stór dæma- og textasöfn, flokka þau og greina. Orðabókarhöfundar eiga mun greiðari aðgang en áður að fjölbreyttu efni og gera má ráð fyrir að það skili sér í betri og vandaðri orðabókum. En gæði orðabókar ráðast ekki sjálfkrafa af umfangi efniviðarins, orðabókarhöfundar verða að velja og hafna og slá hring um það efni sem lagt er til grundvallar orðabókarlýsingunni.

6.1 Orðtaka og seðlasöfn

Hefðbundin aðferð við efnisöflun er fólgin í því að velja dæmi um orð og orðanotkun með lestri á rituðum texta, að orðtaka eins og það er jafnan nefnt. Hvert dæmi er þá ritað á orðtökuseðil, þar sem fram kemur flettiorðið sem dæmið snýst um ásamt nákvæmri vísun til heimildar. Orðtökuseðlunum er síðan raðað í stafrófsröð flettiorðanna og á þann hátt verður til seðlasafn með orðtökudæmum.

Dæmi um orðtökuseðil frá Orðabók Háskólans.

Stór og efnismikil seðlasöfn bera orðabókarstarfi fyrri tíðar áhrifamikið vitni. Í þeim eru fólgnar gríðarlega fjölþættar upplýsingar um margvísleg einkenni orðanna, svo sem beygingarmyndir, merkingartilbrigði og setningargerð. En mörg dæmin geyma einnig menningarsögulegan fróðleik, lýsingu á verkháttum, athugasemdir um þjóðtrú o.s.frv.

Meginstyrkur seðlasafna með orðtökudæmum felst í því hversu fjölbreytt þau eru og hversu vel ýmsum tilbrigðum orða og orðanotkunar er þar til skila haldið. Eðli málsins samkvæmt beinist athygli orðtökumanna mjög að því sem virðist óvenjulegt, að óreglulegum beygingarmyndum, afbrigðum orðtaka og annarra orðasambanda, sérkennilegri orðmyndun o.s.frv. Sú áhersla getur hins vegar leitt til þess að regluleg orðanotkun skili sér ekki sem skyldi. Þetta getur einnig orðið til þess að flettiorðin verði fleiri en ástæða er til að fjalla um í orðabók. Í ritmálssafni Orðabókar Háskólans (sjá einnig http://www.lexis.hi.is) eru t.d. u.þ.b. 700 þúsund orð, en til samanburðar má nefna að í Íslenskri orðabók eru flettiorðin nálega 85 þúsund.

6.2 Heimildarmenn

Orðabókarlýsing getur að nokkru leyti hvílt á vitnisburði og umsögnum einstaklinga um orð og orðafar. Í mállýskuorðabókum gegna umsagnir heimildarmanna um notkun og útbreiðslu orða t.d. miklu hlutverki. Í íslenskum orðabókum, einkum Íslensk-danskri orðabók Sigfúsar Blöndals og Íslenskri orðabók, sér umsagna heimildarmanna víða stað, sérstaklega þar sem um er að ræða staðbundið orðafar. Í Íslenskri orðabók er margt af því efni sótt til talmálssafns Orðabókar Háskólans, sem að mestu leyti hefur orðið til með fyrirspurnum til almennings um orð og orðafar, einkum í útvarpsþættinum Íslenskt mál, sem starfsmenn Orðabókarinnar hafa séð um um áratuga skeið.

6.3 Textasöfn og orðstöðulyklar

Á síðari árum hefur orðið æ algengara að semja orðabækur á grundvelli tölvutækra textasafna. Slík textasöfn eru einnig mikilvæg undirstaða ýmiss konar málrannsókna, t.d. að því er varðar orðmyndun, beygingar- og setningafræði.

Með aðstoð tölvunnar má brjóta upp samfelldan texta þannig að öll dæmi um tiltekna orðmynd eða flettiorð birtist í setningarlegu samhengi. Á þann hátt verður til svokallaður orðstöðulykill, sem getur verið mismunandi mikið unninn, allt frá því að vera bundinn einstökum orðmyndum (ritmyndum) til þess að sameina allar orðmyndir tiltekins orðs undir einni fyrirsögn. Orðstöðulyklar eru afar gagnlegir við gerð orðabóka, einkum og sér í lagi þegar áhersla er lögð á setningarleg einkenni og orðasambönd.

Úr Orðstöðulykli Íslendingasagna.

Listi yfir íslenskar orðabækur fylgir.