Sé litið á talað mál sem hvert annað „efnislegt“ fyrirbrigði, án þess að skeyta um merkingu og hlutverk, blasir við samfelldur hljóðstraumur þar sem tíðni, styrkur og hljóðblær tekur sífelldum breytingum. Allt þetta er hægt að mæla og sundurgreina með tækjum en af niðurstöðum slíkra mælinga eingöngu er ekki að sjá að hljóðstraumurinn sé settur saman úr skýrt afmörkuðum einingum – málhljóðum – sem raðist saman á skipulegan hátt.
Svipað verður reyndar uppi á teningnum ef við hlustum á tungumál sem er okkur algjörlega framandi. Það hljómar oft eins og samfelldur talflaumur þar sem vonlítið er að greina orða- eða hljóðaskil. Þegar við hlustum á okkar eigin móðurmál er þetta öðruvísi, yfirleitt eigum við ekki í neinum vandræðum með að greina skil hljóða, orða og setninga.
Ekki nóg með það; við eigum líka auðvelt með að þekkja aftur „sama“ orð og „sömu“ hljóð þótt mælingar sýni e.t.v. að það sem okkur finnst hljóma næstum eins, er í rauninni gerólíkt ef á það er lagður hljóðfræðilegur eða eðlisfræðilegur mælikvarði. „Sama“ orðið hljómar nefnilega aldrei nákvæmlega eins í nein tvö skipti, jafnvel þótt sami maður beri það fram – og þegar við þetta bætist mismunandi málrómur, raddstyrkur og talhraði einstaklinga, getur orðið býsna mikill munur á því sem við köllum sama orð eða sama hljóð.
Þetta bendir til þess að það séu einungis sumir eðliseiginleikar hljóðanna sem málnotendur styðjast við þegar þeir skynja og skilja talað mál, aðrir eiginleikar skipta litlu sem engu máli. Málnotendur virðast þannig hafa á valdi sínu einhvers konar flokkunarkerfi málhljóða sem kemur reiðu á alla fjölbreytnina og dregur hljóðin í dilka. Þetta flokkunarkerfi er kallað hljóðkerfi tungumálsins og um það fjallar hljóðkerfisfræði.
Tilvist ritmáls sýnir einmitt að það liggur skipulegt kerfi að baki óreiðunni; þegar málnotendur skrifa skipta þeir málflaumnum upp í orð (eins og í kínversku myndmáli, atkvæði (eins og í japanskri atkvæðaskrift) eða hljóð (eins og við þekkjum úr stafrófsskrift).
Það má reyndar segja að upphaf hljóðkerfisfræðinnar falli saman við tilkomu stafrófsskriftar eins og þeirrar sem tíðkast í okkar heimshluta, því að hún byggist á því að nota takmarkaðan fjölda rittákna (bókstafa) til að tákna óendanlega fjölbreytt hljóð. Hver bókstafur er þá í rauninni látinn tákna flokk líkra hljóða en fjölbreytnin felst m.a. í því að hljóð hljóma á mismunandi vegu eftir því hvaða hljóð standa næst þeim. Það er hlutverk hljóðkerfisfræðinnar að útskýra hvernig venjulegir málnotendur koma skipan á þennan hljóðaflaum, sem aldrei er eins, og útskýra hvernig þessi skipan er.
Málhljóð eru viðfangsefni bæði hljóðkerfisfræði og hljóðfræði, en sjónarhorn greinanna eru gerólík. Hljóðfræðin lýsir einingunum sjálfum, málhljóðunum, s.s. starfsemi talfæranna við myndun þeirra og eðlisfræðilegum eiginleikum þeirra. Þannig reynir hún að horfa á málhljóð sem „efnislegt“ fyrirbrigði sem hægt er að mæla á margvíslegan hátt og bera saman við önnur fyrirbæri, án þess að skeyta um merkingu og hlutverk. Hljóðkerfisfræðin fjallar um þau flóknu tengsl sem eru á milli málhljóða; lýsir venslum hljóða og áhrifum málhljóða hvert á annað. Eitt af höfuðviðfangsefnum hennar er að gera grein fyrir því hvernig merkingargreinandi munur kemur fram í tungumálum og hvert sé hlutverk málhljóðanna þar.
Til þess að átta sig betur á mun hljóðfræði og hljóðkerfisfræði er líka hægt að hafa í huga muninn á stafsetningu og skrift. Stafsetning samsvarar þá hljóðkerfisfræðinni, fjallar um tengslin á milli hinna mismunandi tákna og hvernig þeim er háttað, óháð því hvort stafsett er með skrifstöfum, blokkstöfum eða prentstöfum. Skrift samsvarar hins vegar hljóðfræðinni, snýst um stafagerðina, hvernig línurnar liggja, halla stafanna o.s.frv. En munur hljóðfræði og hljóðkerfisfræði á líka annað sameiginlegt með mun stafsetningar og skriftar; hvorugt getur án hins verið og nær ógerlegt er að fjalla um hljóðkerfisfræði nema minnast á hljóðfræði og öfugt.
Hljóðkerfisfræði fæst við kerfisbundin vensl málhljóða sem skipta máli fyrir skilning okkar á tungumálinu. Þau skiptast í tvo meginflokka; raðvensl og staðvensl. Með raðvenslum er átt við tengslin milli hljóða sem standa í röð. Það getur verið mismunandi eftir tungumálum hvaða málhljóð geta staðið saman innan orða. Til dæmis er klasinn ‘ts’ óleyfilegur í framstöðu í íslensku en leyfilegur í þýsku. Slík vensl eru viðfangsefni hljóðskipunarfræði , sem skoðar hvernig hljóðum er skipað í orðum innan tungumáls. Með staðvenslum er aftur á móti átt við tengslin milli hljóða sem geta staðið í sama hljóðfræðilegu umhverfi, á sama stað í orði, eins og ‘p’ í par og ‘b’ í bar.
Mun milli málhljóða í hljóðkerfisfræði er oft lýst með svonefndum hljóðþáttum. Gert er ráð fyrir að hvert málhljóð sé samsafn slíkra þátta. Þessir þættir hafa margvíslegu hlutverki að gegna, t.d. við lýsingu hljóðkerfisreglna, og eins er líklegt að málhljóð sem hafa svipaða þáttamerkingu valdi sömu breytingum, eða verði fyrir samskonar breytingum, við ákveðnar aðstæður. Þannig hefur þáttamerkingin ákveðið spágildi. Hljóð sem hægt er að merkja með þessum hætti mynda oft eðlilega flokka. Sömu þættir geta haft mismunandi stórt aðgreinandi hlutverk í tveimur ólíkum tungumálum, en þeir þættir sem eru óþarfir við að greina að hljóð hverju sinni eru kallaðir umframir.
Hljóðkerfisfræðin lýsir ýmsum hljóðavíxlum eða hljóðferlum í tungumálum og við hvaða aðstæður þau verða. Þessum hljóðferlum er oftast lýst með svokölluðum hljóðkerfisreglum sem verka í ákveðnu hljóðumhverfi. Oft eru hljóðkerfisreglur flokkaðar í virkar reglur og óvirkar.
Hljóðkerfisfræðin fæst einnig við að lýsa stærri einingum en málhljóðinu. Hljóðkerfisfræði stærri eininga miðast við að atkvæðið sé grunneining hljóðkerfisfræðinnar því með þeim hætti sé betra að lýsa þáttum eins og áherslu, hrynjandi og hljómfalli (tónfalli) sem ekki taka mið af einstökum málhljóðum.
Málhljóð hvers tungumáls mynda saman hljóðkerfi, en það er huglægt kerfi sem lýsir því hvernig við flokkum málhljóðin í tungumálinu. Hljóðkerfi tungumála eru mjög mismunandi. Eindirnar í þeim, málhljóðin, geta verið mismunandi milli mála. Sum þeirra málhljóða sem íslenska notar koma ekki fyrir í ensku, t.d. upphafshljóðin í orðunum gera og kjáni (framgómmæltu lokhljóðin [c] og [cʰ]), eða hljóðin sem bókstafurinn ‘g’ stendur fyrir í saga og sagt (uppgómmæltu önghljóðin [ɣ] og [x]). Í ensku eru aftur á móti til önnur hljóð sem íslenska notar ekki, eins og upphafshljóð orðanna zero (‘núll’; tannbergsmælta önghljóðið [z], rödduð samsvörun við ‘s’) og what (‘hvað’; kringt hálfsérhljóð, [w]).
Einnig geta innbyrðis tengsl hljóðanna verið ólík. Við erum t.d. ekki í neinum vafa um að ‘l’ og ‘r’ séu mismunandi hljóð, og lopi merki annað en ropi, eða kæla annað en kæra. Þó heyra Japanir íslenskt ‘l’ og ‘r’ iðulega sem sama hljóðið. Það stafar af því að ‘l’ og ‘r’ mynda ekki merkingargreinandi andstæðu í japönsku hljóðkerfi enda þótt bæði hljóðin komi þar fyrir; þar eru þau í rauninni fulltrúar sömu einingar í hljóðkerfinu.
Til að lýsa venslum milli hljóða eru notaðar grunneiningar sem kallaðar eru hljóðön. Þau eru yfirleitt höfð milli tveggja skástrika; þannig táknar /p/ t.d. ‘hljóðanið p’. Hljóðanið hefur oftast verið skilgreint þannig að það sé minnsta merkingargreinandi eining málsins. Þetta táknar að munur hljóðana greinir sundur orð sem hafa mismunandi merkingu. Í parinu lopi – ropi hafa hljóðin ‘l’ og ‘r’ enga merkingu í sjálfu sér; það eru orðin í heild sem bera merkinguna. Hins vegar dugir sá munur sem er á ‘l’ og ‘r’ til að greina orðin sundur. Þannig sjáum við að ‘l’ og ‘r’ eru fulltrúar tveggja mismunandi hljóðana.
Tvennd eins og lopi – ropi er kölluð lágmarkspar vegna þess að á orðunum er lágmarksmunur – aðeins munur á einu hljóði, en orðin að öðru leyti eins. Lágmarkspör gegna mikilvægu hlutverki þegar verið er að skoða hvort tiltekin málhljóð greina sundur merkingu og eru þá hljóðön í málinu. Þannig sýna lágmarkspörin pól – tól, tól – kól, kól – ból, ból – dól, dól – gól að hljóðin [pʰ tʰ kʰ p t k] eru öll sérstök hljóðön, vegna þess að munur þeirra er merkingargreinandi.
Sum hljóðön hafa tvö eða fleiri málhljóð sem fulltrúa sína í yfirborðsgerð. Fulltrúar sama hljóðans nefnast hljóðbrigði þess. Sagt er að hljóðbrigði eins og sama hljóðans séu í fyllidreifingu ef þau geta ekki komið fyrir í sama hljóðumhverfi. Tökum sem dæmi hljóðin ‘þ’ og ‘ð’ í íslensku. Á þeim munar aðeins röddunarþættinum, ‘þ’ er óraddað en ‘ð’ raddað. Þau eru nógu skyld hljóðfræðilega til þess að geta verið hljóðbrigði sama hljóðans. En til þess að svo megi verða, mega þau ekki koma fyrir í sama umhverfi. Væri hægt að finna dæmi um slíkt yrði að líta á þau sem tvö mismunandi hljóðön.
Þetta gerist hins vegar ekki því ‘þ’ kemur aðeins fyrir á þeim stöðum í orðinu þar sem ‘ð’ getur ekki komið fyrir. Hljóðið ‘þ’ getur aðeins komið fyrir í framstöðu, eins og í orðinu þungur, og svo við sérstök skilyrði í innstöðu, nefnilega í samsettum orðum, eins og t.d. í orðinu svipþungur, sem upphafshljóð síðari hluta samsetningar. Hljóðið ‘ð’ getur hins vegar ekki komið fyrir í framstöðu en hæglega í innstöðu, eins og í veður, og í bakstöðu, eins og í veð. Þar af leiðandi má líta á ‘þ’ og ‘ð’ sem hljóðbrigði sama hljóðans, sem hafa með sér verkaskiptingu; hljóðbrigðin standa því í fyllidreifingu.
Hljóðbrigði tveggja hljóðana eru í frjálsri dreifingu ef skipti á þeim innan orða breyta ekki merkingu. Þannig er því oftast farið með mállýskumun. Orð eins og langur er af flestum landsmönnum borið fram með tvíhljóðinu ‘á’: [lauŋkʏr], en á Vestfjörðum er þetta orð gjarnan borið fram með einhljóðinu ‘a’: [laŋkʏr]. Tvíhljóðið ‘á’ og einhljóðið ‘a’ eru hljóðbrigði tveggja hljóðana og við getum gengið úr skugga um það með lágmarksparinu gáta – gata.
Þó munur milli tveggja málhljóða sýni greinilega að þau séu hljóðbrigði ólíkra hljóðana kemur hann ekki endilega alls staðar fram. Þannig er það t.d. með ‘f’ og ‘v’. Þau mynda greinilega merkingargreinandi andstæðu, eins og lágmarksparið fara – vara sýnir, og þessi munur kemur berlega fram í framstöðu. Á undan órödduðum hljóðum í innstöðu kemur þessi munur hins vegar ekki fram, sbr. t.d. hafa [haːva] – haft [haft] og gefa [cɛːva] – gafst [kafst]. Í haft og gafst kemur ‘f’ fram sem hljóðbrigði hljóðansins /v/, þótt það hljómi eins og hljóðbrigði hljóðansins /f/. Þess vegna er sagt að munur hljóðananna ‘v’ og ‘f’ sé upphafinn á undan órödduðum hljóðum.
Með því að kljúfa málhljóðin niður í smærri eindir, svonefnda hljóðþætti, er unnt að lýsa þeim betur en hefðbundin hljóðangreining gerir. Með þessu er verið að segja að andstæður innan hljóðkerfisins séu ekki milli hljóðana í heild, heldur milli einstakra eðlisþátta þeirra. Því má með nokkrum sanni segja að sú skilgreining að hljóðanið sé minnsta merkingargreinandi eining málsins riði til falls ef við skilgreinum sjálfa hljóðþættina sem slíka, sbr. að það er aðeins fráblástur sem aðgreinir ‘p’/‘b’, ‘t’/‘d’ og ‘k’/‘g’. Þættirnir eru þá byggingareiningar málhljóðsins, líkt og málhljóðin eru byggingareiningar atkvæðisins og atkvæðin orðanna.
Meginhlutverk hljóðþátta er að greina sundur hljóðön, og því eru þeir oft nefndir aðgreinandi þættir. Sumir þættir geta þó verið aðgreinandi við ákveðnar hljóðfræðilegar aðstæður en ekki aðrar. Dæmi um þetta er þátturinn [±raddað], sem greinir milli raddaðra og óraddaðra hljóða. Hann gegnir engu aðgreinandi hlutverki í lokhljóðum í íslensku vegna þess að öll lokhljóð málsins eru órödduð, og er hann því kallaður umframur. Þátturinn er hins vegar aðgreinandi í önghljóðum vegna þess að íslenska hefur bæði rödduð og órödduð önghljóð.
Þáttamerking hefur ákveðið spágildi. Búast má við því að tvö eða fleiri málhljóð, sem hafa einhverja sameiginlega hljóðþætti, muni undir einhverjum hljóðfræðilegum kringumstæðum haga sér eins, en þau hljóð sem ekki hafa þessa þáttamerkingu einhvern veginn öðruvísi. Hópur hljóða, sem hægt er að merkja þannig, er kallaður EÐLILEGUR FLOKKUR. Sem dæmi um eðlilega flokka samhljóða má nefna framgómmælt og uppgómmælt lokhljóð, tannvaramælt önghljóð og hljómendur og innan sérhljóða frammælt, ókringd hljóð. Hópur málhljóða myndar þó ekki eðlilegan flokk nema fleiri þætti þurfi til þess að lýsa einstökum hljóðum innan hans en hópnum sem heild. Við getum t.d. sagt að ‘p’, ‘t’ og ‘k’ myndi eðlilegan flokk hljóða því það þarf fleiri þætti til þess að lýsa ‘p’ sérstaklega en flokknum í heild.
Sú sameiginlega hegðun sem hljóð innan eðlilegs flokks sýna getur verið af ýmsu tagi. Skýrustu merkin um það að hljóð myndi eðlilegan flokk er að sams konar breytingar verði á þessum hópi málhljóða, að þessi hópur valdi sams konar breytingum á öðrum málhljóðum og að eitt málhljóð innan hópsins breytist í annað við ákveðnar aðstæður.
Íslenska hefur 13 hljóðön í sérhljóðakerfi sínu; 8 einhljóð og 5 tvíhljóð. Einhljóðin eru /i, í, e, a, o, u, ú, ö/ og tvíhljóðin /ei, æ, au, á, ó/. Hljóðön í íslenska samhljóðakerfinu eru yfirleitt talin vera 17 talsins: /p, t, k, b, d, g, f, þ, h, s, v, j, F, m, n, l, r/. Sum hljóðönin hafa tvö eða fleiri hljóðbrigði, og því eru málhljóð íslenskunnar mun fleiri. Milli hljóðbrigða sama hljóðans, og einnig milli mismunandi hljóðana, geta komið fram fjölbreytt hljóðavíxl , sem oft má rekja til hljóðfræðilegs umhverfis.
Í íslensku er sami orðstofn (eða sami orðhluti) að jafnaði stafsettur með sömu bókstöfum. Þannig skrifum við ‘p’ bæði í nafnhættinum súp-a [suːpa] og boðhættinum súp-tu [suftʏ], þótt í seinna dæminu sé alltaf borið fram önghljóð, ‘f’. Við skrifum ‘g’ í nefnifallinu dag-ur, þágufallinu deg-i og eignarfallinu dag-s; samt berum við fram uppgómmælt raddað önghljóð í dagur , [taːɣʏr], framgómmælt raddað önghljóð í degi [teijːɪ] og uppgómmælt óraddað önghljóð (eða lokhljóð) í dags [taxs]. Og við skrifum ‘a’ bæði í nefnifallinu mag-i [maijːɪ] og aukaföllunum mag-a [maːɣa], enda þótt við berum fram tvíhljóð í fyrra dæminu, en einhljóð í því seinna.
Í dæmunum hér að framan eru skilin milli stofns og beygingarendingar sýnd með bandstriki. Sé litið á bæði (eða öll) dæmin um hvern stofn, og síðan á þær endingar sem bætast aftan við hann, kemur í ljós að upphafshljóð endingarinnar eru aldrei þau sömu í báðum (öllum) dæmum um hvern stofn. Stundum hefst endingin á samhljóði, en oftast þó á sérhljóði; og sérhljóðin eru mismunandi; ‘a’, ‘i’ eða ‘u’. Það eru þessar mismunandi endingar sem valda því að stofninn er borinn fram á mismunandi hátt. Og þegar að er gáð eru framburðartilbrigðin ekki tilviljanakennd. Skoðum t.d. eftirfarandi dæmi:
Í fyrstu línunni er um að ræða nafnhátt (að taka) og viðtengingarhátt (þótt ég taki) af sögnum. Í næstu línu er kvenkyn (sú ríka) og karlkyn (sá ríki) af veikri beygingu lýsingarorða. Í síðustu línunni eru svo aukaföll (maka) og nefnifall (maki) veikra karlkynsnafnorða. Á eftir stofninum í fyrra orði hvers pars kemur ‘a’, en í seinna orði parsins fer ‘i’ næst á eftir stofninum. Og í öllum tilvikum fáum við uppgómmælt samhljóð á undan ‘a’, en framgómmælt á undan ‘i’. Þetta er varla tilviljun.
Þegar hljóðavíxl koma fyrir í beygingu má oft skýra þau með því að upphafshljóð beygingarendingarinnar hafi áhrif á lokahljóð stofnsins; leitist við að gera það líkara sér. Við getum hugsað okkur þetta sem tilhneigingu til að létta talfærunum starfið; eftir því sem tvö samliggjandi hljóð eiga meira sameiginlegt þarf yfirleitt minna að hreyfa talfærin.
Ef við skoðum dæmin um víxl samhljóðanna í orðum eins og taka í þessu ljósi, þá sjáum við að þegar endingin er uppmælta sérhljóðið ‘a’ fáum við uppgómmælt samhljóð í enda stofns; sé endingin aftur á móti frammælta sérhljóðið ‘i’ verður samhljóðið í enda stofnsins framgómmælt. Staða tungunnar í munnholinu er svipuð við myndun framgómmæltra lokhljóða og önghljóða og frammæltra sérhljóða. Hins vegar er mikill munur á stöðu tungunnar við myndun uppgómmæltra samhljóða og frammæltra sérhljóða.
Við getum því sagt að í orðum af þessu tagi togi ‘i’ myndunarstað undanfarandi samhljóðs til sín; geri það framgómmælt í stað uppgómmælts. Það má líka orða þetta svo að til hægðarauka sé tungunni aldrei lyft upp aftarlega í munnholinu til að mynda uppgómmælt samhljóð, heldur sé henni strax komið þannig fyrir að sem minnst þurfi að hreyfa hana þegar samhljóðinu lýkur og ‘i’ tekur við.
Í pörum eins og hafa – haft, ljúfur – ljúft , dagur – dags o.s.frv. skiptast á rödduð og órödduð önghljóð. Þegar önghljóðin eru rödduð kemur sérhljóð næst á eftir, en óraddað samhljóð fer á eftir órödduðu önghljóðunum. Það þarf ekki mikið hugmyndaflug til að láta sér detta í hug að hér hafi upphafshljóð endingarinnar líka áhrif á lokahljóð stofnsins, og lagi það að sér hvað röddun varðar. Við getum e.t.v. orðað það svo að í orðmyndum eins og haft, ljúft, dags o.s.frv. sé „slökkt á“ rödduninni einu hljóði fyrr en ella vegna þess að næsta hljóð á að vera óraddað.
Vegna þess að íslenska er tiltölulega mikið beygingamál er mjög mikið um hljóðavíxl af þessu tagi í stofnum málsins; sami stofninn getur oft fengið margar mismunandi endingar sem hefjast á ólíkum hljóðum og hafa því mismunandi áhrif á stofninn. Stóran hluta af þessum víxlum má skýra á þann hátt sem hér hefur verið gert; sem sé með því að upphafshljóð endingarinnar leitist við að laga lokahljóð stofnsins að sér.
Því fer fjarri að öll hljóðavíxl, sem fyrir koma í stofnum málsins, megi skýra með áhrifum mismunandi grannhljóða. Tökum dæmi af víxlum uppgómmæltra og framgómmæltra lokhljóða, í orðum eins og taka – taki , ríkur – ríki o.s.frv. Það er ekki bara ‘i’ sem togar undanfarandi lokhljóð til sín; hin frammæltu einhljóðin, ‘í’ [i] og ‘e’ [ɛ], og frammælta tvíhljóðið ‘ei’ [ei], gera það líka. Þetta sjáum við í orðum eins og Kína [cʰiːna], keppa [cʰɛhpa], keyra [cʰeiːra] o.s.frv., sem hafa framgómmælt lokhljóð í framstöðu.
En nú eru fleiri sérhljóð í málinu venjulega talin frammælt; það eru einhljóðin ‘u’ [ʏ] og ‘ö’ [œ], og tvíhljóðið ‘au’ [œi]. Ekkert þessara hljóða gerir samt lokhljóðið á undan sér framgómmælt; orðin kuldi [kʰʏltɪ], köttur [kʰœhtʏr] og kaupa [kʰœiːpa] hafa öll uppgómmælt lokhljóð í framstöðu, ekki framgómmælt. Auk þess má benda á að við fáum framgómmæltu lokhljóðin ekki eingöngu á undan ‘í’, ‘i’, ‘e’ og ‘ei’, heldur líka á undan ‘æ’ [ai], eins og í kæla [cʰaiːla], kæti [cʰaiːtɪ] o.s.frv. Þó er fyrri hluti ‘æ’ ekki frammæltur.
Til að skýra þetta verður að leita á náðir málsögunnar. Hljóðin ‘u’, ‘ö’ og ‘au’ eru öll komin af hljóðum sem í fornu máli voru uppmælt, og drógu því undanfarandi lokhljóð ekkert fram á við. ‘æ’ er aftur á móti komið af frammæltu hljóði, sem hafði þá sömu áhrif á undanfarandi lokhljóð og hin frammæltu hljóðin, þ.e. ‘í’, ‘i’, ‘e’ og ‘ei’. Þótt hljóðgildi þessara hljóða hafi breyst, hafa þau enn svipuð áhrif á grannhljóð sín og þau höfðu í fornu máli.
Þetta dæmi sýnir að enda þótt flest hljóðavíxl megi skýra með einhvers konar samlögun, þ.e. áhrifum eins hljóðs eða fleiri á grannhljóð sitt eða sín, þá er ekki víst að forsendur þessara áhrifa séu augljósar í nútímamáli; oft getur þurft að leita þeirra langt aftur í aldir. Forsendur sumra þessara víxla voru jafnvel þegar brostnar löngu áður en íslenska varð til sem sérstakt tungumál.
Hin fjölbreyttu hljóðavíxl sem fram koma í tungumálum eru oft sett fram með svokölluðum hljóðkerfisreglum. Þær lýsa breytingum sem verða á hljóðum við ákveðnar hljóðfræðilegar aðstæður og taka aðeins mið af hljóðþáttum en ekki af beygingarlegum atriðum, svo sem falli, tíð eða tölu. Helstu tegundir slíkra breytinga eða hljóðavíxla, sem oftast verða fyrir áhrif grannhljóða, eru samlaganir, brottföll og innskot.
Samlaganir eru yfirleitt þannig að ákveðið hljóð lagar sig að öðru hljóði, yfirleitt hljóðinu næst á eftir og breytist í samræmi við það. Það er þá nefnt afturvirk samlögun. Nágrannahljóðið ljær hljóðinu sem breytist einhvern þann þátt sem það hefur. Þetta kemur t.d. fram í boðhættinum komdu af koma, sem yfirleitt er borinn fram með ‘n ’ [kʰɔntʏ]. Hljóðið sem veldur breytingunni þarf þó ekki að vera grannhljóð hljóðsins sem breytist. Í u-hljóðvarpi hefur ‘u’ í endingu áhrif á ‘a’ í stofni í orðum eins og köllum, af kalla, þótt samhljóð séu þar á milli. Eins getur samlögunin verið á þann veg að hljóðið næst á undan hljóðinu sem breytist ljær því einhvern af sínum þáttum. Það er þá nefnt framvirk samlögun.
Brottföll eru yfirleitt fólgin í því að eitt hljóð fellur brott fyrir tilstilli annars, sem getur þá annaðhvort verið undanfarandi eða eftirfarandi hljóð. Dæmi um þetta er brottfall áherslulauss sérhljóðs í grannstöðu við annað sérhljóð. Annars vegar getur sérhljóð í stofni fellt brott sérhljóð úr viðskeyttum greini, sbr. ‘auga+ið’ > auga+ð, og hins vegar getur sérhljóð í beygingarendingu fellt brott sérhljóð í bakstöðu í stofni, sbr. ‘kvæði+um’ > kvæð+um. Hljóðið sem brottfallinu veldur þarf þó ekki að vera næst hljóðinu sem fellur brott. Dæmi um það er brottfall áherslulauss sérhljóðs eins og í ‘hamar+i’ > hamri, þar sem ‘i’ í endingunni veldur brottfalli ‘a’ í stofni þótt ‘r’ komi á milli.
Innskot felast í því að hljóði er skotið inn við ákveðnar aðstæður. Innskotshljóðið getur bæði verið samhljóð, eins og d-innskot milli ‘r’ og ‘n’ eða ‘l’ í orðum eins og hernaður og perla, og sérhljóð, eins og u-innskot í maður og svartur.
Sum hljóðavíxl verða þó ekki rakin til hljóðkerfisreglna, heldur hljóðbeygingarreglna. Þær eru ekki eingöngu háðar hljóðfræðilegu umhverfi, heldur bundnar við ákveðnar beygingarformdeildir eða beygingarþætti; verka t.d. aðeins á undan ákveðnum beygingarendingum, í ákveðnu falli, í ákveðnum hætti o.s.frv. Þegar lýsa skal virkni slíkra reglna verður að taka þessar upplýsingar fram í lýsingu þeirra. Dæmi um hljóðbeygingarreglur eru hin fjölmörgu ferli sem flokkast undir i-hljóðvarp. Einnig má með nokkrum sanni halda því fram að hljóðskipti, eins og í líta – leit – litum, sjóða – sauð – suðum – soðið o.s.frv., séu dæmi um hljóðbeygingarreglur.
Hljóðkerfisreglur sem verka hvar sem hljóðfræðilegt umhverfi þeirra er fyrir hendi, hvort sem það er að finna innan orðs eða það nær yfir orðaskil, eru sagðar mjög virkar. Virkar reglur eru jafnframt yfirleitt hljóðfræðilega eðlilegar. Hljóðkerfisreglur með mjög litla virkni jaðra við að vera hljóðbeygingarreglur, og oft og tíðum er ekki auðvelt að skilja á milli þessara tveggja reglutegunda.
Þegar hljóðavíxl koma fram í beygingu eða skyldum orðum má yfirleitt gera ráð fyrir því að önnur eða ein myndanna sé eins konar grunnmynd. Við kunnum þá eitt stofnbrigði í beygingu viðkomandi orðs, en leiðum önnur út með hljóðkerfisreglum sem verka í tilteknu hljóðfræðilegu umhverfi. Þegar skipt er um beygingarendingu breytist hljóðfræðilegt umhverfi stofnsins, og þá geta komið upp aðstæður fyrir tiltekna hljóðkerfisreglu.
Þessi grunnmynd er kölluð baklæg gerð orðmyndarinnar. Í henni eru saman komin öll ófyrirsegjanleg hljóðeinkenni hennar, þ.e. þau sem ekki er hægt að gera grein fyrir með hljóðkerfisreglum. Á baklæga gerð hefur því engin hljóðkerfisregla verkað. Þetta má skýra með dæmi. Í beygingu nafnorðsins karl koma fyrir tvö stofnbrigði , karl- í ‘karl’, ‘karl-i’, ‘karl-s’, ‘karl-ar’, ‘karl-a’, og körl- í ‘körl-um’. Vensl þessara stofnbrigða er hægt að skýra með hljóðkerfisreglu. Til grundvallar liggur þá aðeins annað stofnbrigðið, nefnilega það sem ekki hefur verið beitt reglum á. Í ‘körl-um’ veldur ‘u’ í endingunni ‘um’ u-hljóðvarpi, þannig að á stofnbrigðið körl- hefur verið beitt hljóðkerfisreglu. Þessa vegna segjum við að baklæg gerð stofnsins sé karl- og beygingarmyndin ‘körl-um’ sé þá leidd af #karl-um#.
Yfirborðsgerð orðmyndar er niðurstaðan af verkun hljóðkerfisreglna á baklæga gerð; hin raunverulega framburðarmynd orðmyndarinnar. Ef við segjum að #karl-um# sé baklæg gerð orðmyndarinnar ‘körl-um’, þá er körl-um yfirborðsgerð hennar, eftir að u-hljóðvarpið hefur verkað.
Afröddun er í rauninni samheiti á nokkrum hljóðferlum í íslensku. Sum eru virk í máli allra landsmanna en önnur eru mállýskubundin. Á undan ‘p’, ‘t’, ‘k’ eru sveifluhljóð ævinlega órödduð, og nefhljóð og hliðarhljóð einnig í máli meginhluta landsmanna. Á eftir þessum órödduðu hljóðum koma alltaf ófráblásin hljóð, í samræmi við þá reglu að lokhljóð séu aldrei fráblásin á eftir órödduðum hljóðum. Allir bera því orð eins og orka , virtur , garpur fram með órödduðu sveifluhljóði og ófráblásnu lokhljóði, og flestir bera einnig fram óraddað ‘l’ á undan ‘t’. Meginhluti landsmanna hefur líka svokallaðan óraddaðan framburð og hefur órödduð nefhljóð og hliðarhljóð, og ófráblásin lokhljóð þar á eftir, í orðum eins og heimta , vanta , fólk ödduð hljóð í slíkum orðum.
Oft koma fram víxl milli rödduðu og órödduðu hljóðanna þegar t.d. hvorugkynsending lýsingarorða eða þátíðarending sagna bætist við stofninn. Þannig fáum við víxl eins og tómur – tómt , vanur – vant , synda – synti , svangur – svangt , gulur – gult , herða – herti , þar sem fyrra orðið í hverju pari hefur raddað hljóð á undan sérhljóði, en seinna orðið hefur óraddað hljóð á undan lokhljóðinu. Þá kemur óraddað sveifluhljóð fram á undan ‘s’, í orðum eins og hvers , gersemi , þversum . Nefhljóð og hliðarhljóð eru hins vegar rödduð á undan ‘s’.
Framgómun breytir uppgómmæltum lokhljóðum og önghljóðum í framgómmælt á undan frammæltum ókringdum sérhljóðum, /i, í, e/, og önghljóðinu /j/. Þannig eru framgómmælt lokhljóð í orðunum kýr , gýs, ríki , gera , og framgómmælt önghljóð í daginn , frægir .
Framgómunin er allvirk á undan ‘i’ og ‘í’ en ekki eins virk á undan ‘e’. Þannig virkar hún innan myndans og í beygingu, eins og í dæmunum hér að framan, og oftast á undan viðskeytum sem hefjast á ‘i’, eins og í þykk-ildi , hygg-indi , flyg-ill , sem og á undan viðskeyttum greini, hefjist hann á ‘i’, eins og bók-in , sög-in . Hins vegar verkar hún yfirleitt ekki úr viðskeytum sem hefjast á ‘e’, eins og leik-endur , veg-endur . Í samsettum orðum og milli orða í setningum virkar reglan ekki.
Ófráblásin lokhljóð, [p] og [k], koma í stað samsvarandi raddaðra önghljóða, [v] og [ɣ], í beygingu margra orða fyrir áhrif eftirfarandi ‘l’ og ‘n’. Þetta kemur einna skýrast fram í orðum sem hafa viðskeytin ‘-al’, ‘-il’ og ‘-ul’, og í lýsingarháttum sem enda á ‘-inn’. Slík orð missa nefnilega sérhljóðið úr viðskeytinu þegar þau fá beygingarendingu sem hefst á sérhljóði, og þá kemur ‘l’/‘n’ næst á eftir önghljóðinu, sem við það breytist í lokhljóð. Dæmi: hefill – hefli , þögull – þöglir , grafinn – grafnir , þveginn – þvegnir . Einnig koma þessi víxl fram í beygingu margra veikra kvenkynsorða sem fá ‘-n-’ í eignarfalli fleirtölu:gáfa – gáfna , saga – sagna .
Reglan er allvirk, en þó er það misjafnt eftir því hvort ‘n’ eða ‘l’ á í hlut. Hún verkar yfirleitt á undan viðskeytum sem hefjast á ‘n’, eins og í stíf-ni , dug-naður , en ekki á undan viðskeytum sem hefjast á ‘l’, eins og dug-legur , hóf-legur, hæg-látur ; þar helst önghljóðið í rótinni. Reglan verkar hvorki milli fyrri og seinni hluta samsettra orða né milli orða í setningu.
Reglan breytir ‘ll’ og ‘nn’ í [tl̥] og [tn̥] á eftir áherslusérhljóði í orðum eins og stóll , steinn , sæll , vænn , pollur , della . Í orðum með ‘ll’ skiptir ekki máli hvert áherslusérhljóðið er, en reglan verkar aðeins í orðum með ‘nn’ ef sérhljóðið er ‘í’, ‘ú’ eða tvíhljóð. Þannig verkar reglan í fínna [fitna], en ekki í finna > [fɪnːa].
Reglan verkar í beygingu en hvorki í viðskeyttum orðum né samsettum, og ekki milli stofns og viðskeytts greinis. Þannig er munur á brúnna [prutna] af lýsingarorðinu brúnn, þar sem reglan verkar, og brúnna [prunːa] (< ‘brú-in-na’, eignarfall fleirtölu), af nafnorðinu brú, þar sem hún verkar ekki. Reglan verkar ekki heldur í tökuorðum, eins og pilla , eða gælunöfnum, eins og Palli og Stella .
Órödduð önghljóð, [f] og [x], koma oft í stað lokhljóða með sama myndunarstað þegar órödduð samhljóð fara á eftir. Þetta gerist t.d. þegar ‘-s’ bætist við í eignarfalli nafnorða (skip – skips ), ‘-t-’ bætist við í hvorugkyni lýsingarorða (rakur – rakt ), eða þegar við stofn sagnar bætist ‘-t’ í þátíð og lýsingarhætti þátíðar (æpa – æpti – æpt ) eða ‘-tu’ í boðhætti (aka – aktu ). Einnig má oft sjá dæmi um þessi víxl í afleiðslu: strákur – stráksi ; djúpur – dýpt , mjúkur – mýkt .
Þessi regla virkar ekki alltaf þar sem búast mætti við, og er ekki alltaf augljóst hvað veldur þótt tíðni orðanna skipti væntanlega máli auk þess sem fremur má búast við önghljóðun í óformlegu tali en formlegu. Þannig eru oft til mismunandi framburðarmyndir í eignarfalli, til dæmis er skips ýmist borið fram með önghljóði , [scɪfs], eða með lokhljóði , [scɪ(ː)ps]. Í sumum tilvikum er framburður með önghljóði sjaldgæfur eða ekki til, eins og í taps af tap, líks af lík o.fl.
Samlögun nefhljóða felst í því að nefhljóð lagar sig að myndunarstað eftirfarandi lokhljóðs, sem getur þá verið framgómmælt eða uppgómmælt. Þá er gert ráð fyrir að tannbergsmælta nefhljóðið sé lagt til grundvallar sem hljóðan vegna þess að það kemur fyrir í fjölbreyttasta umhverfinu. Reglan breytir því ‘n’ í framgómmælt eða uppgómmælt nefhljóð, allt eftir því hvers konar lokhljóð fer á eftir. Þannig er nefhljóðið framgómmælt í ungi [uɲcɪ] og Sveinki [sveiɲ̊cɪ], en uppgómmælt í drangur [trauŋkʏr] og langt [lauŋ̊t]. Varamælta nefhljóðið ‘m’ getur einnig orðið fyrir sömu breytingum af völdum þessarar reglu, eins og í komdu [kʰɔntʏ]. Fyrir kemur í mjög hröðu tali að nefhljóðið sjálft falli brott en nefjunarþátturinn færist yfir á undanfarandi sérhljóð, t.d. í eins [eĩs]. Það ferli er yfirleitt nefnt nefjun.
Segja má að reglan sé með virkustu hljóðkerfisreglum í íslensku því hún verkar yfirleitt þar sem umhverfi hennar er fyrir hendi. Það er ekki einungis innan myndans og í beygingu og viðskeyttum orðum, heldur einnig í samsettum orðum eins og vínber [vimpɛr] og túngarður [tʰuŋkarðʏr], og jafnvel milli orða í setningu.
Algengt er einnig að nefhljóð breytist í önghljóð á undan öðru önghljóði með sama myndunarstað en nefjunin (og röddunin) haldist.
Reglan breytir ‘a’ í ‘ö’ ef ‘u’ fer í næsta atkvæði. Hljóðvarpið kom upp á frumnorrænum tíma
Hljóðvarpið virðist nokkuð virkt í nútímamáli, og verkar bæði milli rótar og beygingarendingar eins og í töl-um, af tal-a, og milli rótar og viðskeytis, eins og í hönn-uður, af hanna. Það verkar þó ekki innan myndans, þannig að við segjum kaktus en ekki *köktus, og ekki heldur frá viðskeyttum greini, við segjum sal-num, ekki *söl-num. Helstu dæmin um að reglan verki ekki þar sem búast mætti við áhrifum hennar varða þó ‘u’ sem er tilkomið vegna u-innskots. Það er helst í nefnifallsmynd sterkra karlkyns nafnorða eins og hest-ur, arm-ur og lýsingarorða eins og svart-ur, sterk-ur, og einnig í 2. og 3. persónu eintölu nútíð veikra sagna af 1. flokki, tel-ur, og flestra sterkra sagna, s.s. bít-ur, brest-ur. Stundum fellur nefhljóð brott í áhersluleysi í hröðu og óskýru tali. Þetta brottfall getur bæði orðið innan myndans, eins og í Íslendingar [istlɛtikar], og milli orða, eins og í hann datt [hataht]. Það kemur einnig fyrir að nefhljóðið falli brott en nefji undanfarandi sérhljóð: umferð [ʏ̃fɛrð], samvinna [sãvɪna], mannjöfnuður [ma)jœpnʏðʏr] og heimspeki [hei)spɛcɪ]. Það gerist yfirleitt í mjög hröðu og óskýru tali. Önghljóð falla oft brott í bakstöðu í samsettum orðum og milli orða í setningum ef þau eru án áherslu og næsti orðhluti eða orð hefst á samhljóði. Þetta gerist t.d. oft í orðum eins og Guðmundur [kvʏmʏntʏr] og miðbær [mɪpair]. Ef önghljóðið er í bakstöðu í orði og hefur litla áherslu fellur það brott ef hljóðið í framstöðu næsta orðs á eftir er samhljóð, eins og í gaf mér [kamjɛr]. Áherslulaust sérhljóð fellur brott úr stofni orða á undan tannbergsmæltum samhljóðum, aðallega ‘l’, ‘n’, ‘r’, en stundum einnig ‘ð’ og ‘s’, ef á eftir þeim fer beygingarending sem hefst á sérhljóði. Þetta kemur fram í orðum eins og ‘trefil-i’ > trefli, ‘himin-ar’ > himnar, ‘hamar-i’ > hamri, ‘höfuð-i’ > höfði. Reglan er sæmilega virk í beygingu, þó hún eigi sínar undantekningar þar; þannig verður ekki brottfall í heimil-an, förul-um, gjöful-um, svikul-um, né heldur í bikar-i, Natan-i, Kjartan-i, Arnar-i, Böðvar-i, Einar-i, og t.d. smergeli. Ef tvö áherslulaus sérhljóð koma saman á myndanskilum, t.d. á mótum stofns og beygingarendingar eða mótum beygingarendingar og viðskeytts greinis, fellur annað þeirra oft brott. Þetta sést t.d. í ‘helli+ar’ > hellar, ‘kvæði+um’ > kvæðum, ‘kalla+um’ > köllum; ‘tíma+inn’ > tímann, ‘kona+in’ > konan, ‘auga+ið’ > augað. Eins og þessi dæmi sýna er það ýmist fyrra eða seinna sérhljóðið sem fellur brott, þannig að reglan virðist geta verið bæði afturvirk og framvirk. Sérhljóð beygingarendingarinnar virðist standa sterkast, en sérhljóð falla brott úr stofni og greini. Ef annað þeirra sérhljóða sem koma saman er ‘í’, ‘ú’ eða tvíhljóð verður ekki alltaf brottfall. Þannig standa tvö sérhljóð saman í ský-in, bæ-ir, frú-in, hey-i. Brottfall verður í skó-m, af ‘skó-um’, en hins vegar ekki í mó-um. Einstöku dæmi eru um að brottfall verði ekki þótt önnur sérhljóð eigi í hlut. Þannig er sagt te-ið af te og hlé-ið af hlé, en hins vegar tré-ð og hné-ð . Reglan er mjög virk og verkar í eðlilegu tali bæði í samsettum orðum eins og Blöndu-ós [plœntous] og Vestmanna-eyjar [vɛsmaneijar], og milli orða, eins og tala um [tʰalʏm] og skilja í [scɪlji]. Löng fráblásin lokhljóð eru ekki til í íslensku. Út frá stafsetningunni mætti e.t.v. búast við þeim, a.m.k. í máli harðmæltra, í orðum með tvírituðum ‘pp’, ‘tt’, ‘kk’, eins og t.d. hoppa , vottur , rykkja , dökkur . En svo er ekki; þess í stað kemur svokallaður aðblástur fram í orðum af þessu tagi. Hann felst í því að ‘h’ er skotið inn milli stutts sérhljóðs og lokhljóðs. Lokhljóðið styttist þá og er alltaf ófráblásið. Venjulegur framburður áðurnefndra orða er því [hɔhpa], [vɔhtʏr], [rɪhca], [tœhkʏr]. Auk orða með tvírituðum ‘p’, ‘t’, ‘k’ í stafsetningu kemur aðblástur fram í orðum með ‘p’, ‘t’, ‘k’ + ‘l’, ‘n’, ‘m’; epli [ɛhplɪ], gutla [kʏhtla], ekla [ɛhkla], opna [ɔhpna], vitni > [vɪhtnɪ], sakna [sahkna], kaupmaður [kʰœihpmaðʏr]. Þar sem ‘pp’, ‘tt’, ‘kk’ eru tvírituð á undan lok- eða önghljóði er þó yfirleitt ekki aðblástur, heldur breytist lokhljóðið í óraddað önghljóð með sama myndunarstað. Orð eins og klippti og rykkti eru aldrei borin fram með aðblæstri, heldur [kʰlɪftɪ] og [rɪxtɪ]. Reglan virðist nokkuð virk í íslensku, hún verkar innan myndans, í beygingu, úr viðskeyttum greini og úr sumum viðskeytum, en þó ekki öllum. Hún verkar hins vegar hvorki þar sem umhverfi hennar nær yfir skilin milli fyrri og seinni hluta samsettra orða né þar sem umhverfi hennar nær yfir skil milli orða í setningum. Reglan skýtur inn lokhljóðinu ‘d’ milli ‘r’ annars vegar og ‘n’ og ‘l’ hins vegar, og virðist verka jafnt í atkvæðum sem bera áherslu og þeim sem bera litla áherslu. Þetta kemur t.d. fram í barn [partn̥], varla [vartla], hernaður [hɛrtnaðʏr], færni [fairtnɪ], eyrna [eirtna], hvern [kʰvɛrtn̥], stelpurnar [stɛl̥pʏrtnar]. Reglan er allvel virk í íslensku. Hún virkar innan myndans og í beygingu, úr sumum viðskeytum og úr viðskeyttum greini yfir í orð, en virkar ekki úr sumum viðskeytum og hvorki í samsettum orðum né yfir orðaskil í setningum. Einnig er til annars konar ‘d’-innskot sem skýtur inn ‘d’ á milli ‘s’ annars vegar og ‘l’ og ‘n’ hins vegar, í orðum eins og snjór [stnjouːr] og slá [stlauː]. Þetta ‘d’ er stundum nefnt sníkjuhljóð. Orð eru byggð upp af atkvæðum, sem aftur eru byggð upp af málhljóðum. Til þess að komast að því hversu mörg atkvæði eitt orð hefur er nóg að telja í því sérhljóðin, sem eru kjarni atkvæðanna. Í orði eins og sá er eitt sérhljóð eða eitt atkvæði, og eru slík orð nefnd einkvæð, í orði eins og prestur eru tvö sérhljóð, eða tvö atkvæði, og því eru slík orð nefnd tvíkvæð, og í orði eins og vegamannaverkfærageymsluskúr eru 10 sérhljóð, eða 10 atkvæði, og það er þá fleirkvætt. Tvíhljóð eru talin á sama hátt og einhljóð. Atkvæðið skiptist í tvo meginhluta; stuðul, sem er samhljóð (eitt eða fleiri, en stundum ekkert) í upphafi, og rím sem er sérhljóð atkvæðisins og samhljóð (eitt eða fleiri, en stundum ekkert) sem því fylgja. Rímið greinist svo aftur í kjarna, sem er sérhljóðið, og kálf sem er eftirfarandi samhljóð. Í atkvæðinu bros er þá stuðullinn ‘br’ og rímið ‘os’, og það skiptist aftur í kjarnann ‘o’ og kálfinn ‘s’. Atkvæði í íslensku verða alltaf að hafa kjarna eða sérhljóð, en geta verið án stuðuls og kálfs ef því er að skipta. Dæmi um stuðulslaust atkvæði er án, sem er þá jafnframt lokað atkvæði því það endar á samhljóði; dæmi um stuðuls- og kálfslaust atkvæði er á, sem er þá jafnframt opið atkvæði því það endar á sérhljóði og dæmi um kálfslaust atkvæði er brú, sem er þá einnig opið atkvæði. Hlutverk atkvæðisins4.2 Brottföll
4.2.1 Brottfall samhljóða
4.2.2 Brottfall áherslulauss sérhljóðs
4.2.3 Brottfall sérhljóðs í enda stofns (orðs)
4.3 Innskot
4.3.1 Aðblástur
4.3.2 d-innskot
5. Atkvæðið
5.1 Bygging atkvæðis
5.2 Hlutverk atkvæðis í hljóðkerfislýsingu
Í íslensku er alltaf aðaláhersla á fyrsta atkvæði en aukaáhersla á þriðja. Þeirri reglu er einungis hægt að lýsa með því að vísa til atkvæðagerðar. Brottfall áherslulauss sérhljóðs verður alltaf í áherslulausum atkvæðum, og þess vegna er hentugast að lýsa því með því að vísa til atkvæðagerðar í orðinu.
Nær ógerlegt er að lýsa veiklun inni í orðum án þess að vísa til atkvæðagerðar. Við getum í því sambandi tekið fyrir veiklun sem kemur fyrir í beygingu orðsins banani. Það er í fleirtölu bananar, og í þágufalli fleirtölu bönunum. ‘u’ í miðatkvæðinu, í áhersluleysinu, er komið frá ‘a’, sem hefur í þessari stöðu fyrst hljóðverpst í ‘ö’, sem hefur svo veiklast í ‘u’, og veldur stundum u-hljóðvarpi á ‘a’-inu í stofni orðsins. Afleiðslan gæti verið svona:
Ef veiklunin verður þá verkar u-hljóðvarpið aftur, ef ekki þá fáum við tvímyndina banönum.
Í íslensku er algengt að atkvæði veiklist í samfelldu tali, fái þau ekki næga áherslu. Dæmi um þetta er t.d. fornafnið ég. Sé setningin: Ég er ekki veikur sögð mjög hratt tökum við eftir því að ‘g’-ið fellur brott úr kálfi atkvæðisins Ég, og sömuleiðis ‘e’-ið úr kjarna sagnarinnar er, en ‘é’-ið úr ég og ‘r’-ið úr er sameinast; ‘érekki’, og mynda þannig lokað atkvæði, ‘ér’. Þessu er erfitt að lýsa nema með því að vísa til atkvæðagerðar.
Lengd sérhljóða í íslensku er venjulega lýst þannig að sérhljóðið sé langt ef á eftir því fer eitt eða ekkert samhljóð, en stutt ef á eftir því fara tvö eða fleiri samhljóð. Síðan tekur við svonefnd undantekningarregla sem segir að í vissum tilvikum geti sérhljóð einnig verið langt á undan tveimur samhljóðum ef þau eru ákveðinnar gerðar. Þessu öllu virðist auðvelt að lýsa með atkvæðagerð á þann hátt að sérhljóð séu löng á undan atkvæðaskilum, en það kallar þó á að öllum atkvæðum í íslensku megi lýsa með því að þau séu opin eða lokuð, og þá þannig að kálfurinn sé aðeins eitt samhljóð. Þannig mætti einfalda lengdarregluna að mun og jafnframt losna við undantekingarregluna.
Við getum tekið dæmi af nepja og ofsi. Ef við föllumst á þá hugmynd að í íslensku gildi sú regla að atkvæði verði alltaf að hafa stuðul, þá væri hægt að greina nepja sem ‘ne.pj'a’, og skýra með því lengd áherslusérhljóðsins, og jafnframt myndi sú lausn ganga upp því ‘pj-’ er leyfilegur stuðull í íslensku. Aftur á móti væri ‘o’ í ofsi stutt vegna þess að ‘fs-’ er ekki leyfilegur stuðull í íslensku og því yrði að greina það sem ‘of.si’.
Eiríkur Rögnvaldsson. 1993. Íslensk hljóðkerfisfræði. Málvísindastofnun Háskóla Íslands, Reykjavík.
Hyman, Larry. 1975. Phonology. Theory and Analysis. Holt, Rinehart and Winston, New York.
Anderson, Stephen R. 1985. Phonology in the Twentieth Century. Theories of Rules and Theories of Representations. The University of Chicago Press, Chicago.
Chomsky, Noam & Morris Halle. 1968. The Sound Pattern of English. Harper & Row, New York.
Eiríkur Rögnvaldsson. 1984. Íslensk málfræði. Hljóðkerfisfræði og beygingarfræði. Reykjavík.
Eiríkur Rögnvaldsson. 1989. Íslensk hljóðfræði. Málvísindastofnun Háskóla Íslands, Reykjavík.
Fischer-Jörgensen, Eli. 1975. Trends in Phonological Theory. A Historical Introduction. Akademisk forlag, Copenhagen.
Höskuldur Þráinsson. 1981. Stuðlar, höfuðstafir, hljóðkerfi. Í Afmæliskveðju til Halldórs Halldórssonar. Íslenska málfræðifélagið, Reykjavík.
Indriði Gíslason & Höskuldur Þráinsson. 1993. Handbók um íslenskan framburð. Rannsóknarstofnun Kennaraháskóla Íslands, Reykjavík.
Katamba, Francis. 1989. An Introduction to Phonology. Longman, London.
Kristján Árnason. 1980a. Íslensk málfræði. Fyrri hluti. Iðunn, Reykjavík.
Kristján Árnason. 1980b. Some processes in Icelandic connected speech. Even Hovdhaugen (ritstj.): Nordic Languages and Modern Linguistics 4:212–222. Universitetsforlaget, Oslo.
Kristján Árnason. 1983. Áhersla og hrynjandi í íslenskum orðum. Íslenskt mál 5:53–81.
Kristján Árnason. 1984. Toward a Model of Modern Icelandic Syllable Types. Íslenskt mál 6:135–155.
Kristján Árnason. 1994–1995. Tilraun til greiningar á íslensku tónfalli. Íslenskt mál 16–17:99–133.
Newmeyer, Frederick J. 1980. Linguistic Theory in America. Academic Press, New York.
Veturliði Óskarsson. 1983. Brottfallsreglan í íslensku. Óprentuð prófritgerð í eigu Málvísindastofnunar Háskóla Íslands, Reykjavík.
Þorsteinn G. Indriðason. 1994. Regluvirkni í orðasafni og utan þess. Um lexíkalska hljóðkerfisfræði íslensku. Málfræðirannsóknir 9. Málvísindastofnun Háskóla Íslands, Reykjavík.