Greinar

Guðrún Þórhallsdóttir
Samanburðarmálfræði

1. Samanburðarmálfræði

SAMANBURÐARMÁLFRÆÐI (e. comparative linguistics, þý. vergleichende Sprachwissenschaft) nefnist sú grein málvísinda sem beitir samanburði tungumála til að draga ályktanir um þróun þeirra og skyldleika. Samanburðarmálfræði og söguleg málvísindi eiga samleið því að samanburðaraðferðin er iðulega notuð við rannsóknir í sögulegum málvísindum, en reyndar er samanburði tungumála einnig beitt í samtímalegum rannsóknum á nútímamálum, t.d. í málgerðafræði.

1.1 Skyldleiki tungumála

Aðferðir samanburðarmálfræði byggjast á hugmyndinni um skyldleika tungumála: Ef tungumál eiga svo eindregin sameiginleg einkenni að það getur ekki verið tilviljun hljóta líkindin að stafa af því að þau séu skyld, þ.e. hafi þróast frá sameiginlegri móðurtungu. Það er litið á skyldleika tungumála líkt og líffræðilegan skyldleika og talað um MÓÐURTUNGUR og DÓTTURMÁL og teiknuð ÆTTARTRÉ málaætta.

Stundum eru skyld tungumál rakin aftur til móðurtungu sem varðveitt er í heimildum (t.d. franska og ítalska raktar til latínu).

Myndin sýnir hvernig latína hefur greinst í mállýskur og síðan sjálfstæð tungumál. Teikn. Jón Óskar.

Í öðrum tilvikum þarf að endurgera móðurtungur sem eru ekki varðveittar og eru þær kallaðar FRUMTUNGUR eða FRUMMÁL; með þeim heitum er þó alls ekki gefið í skyn að þær hafi verið frumstæðar að gerð. Íslenska, danska, enska og þýska eiga t.d. rætur sínar að rekja til móðurtungunnar frumgermönsku.

1.2 Samanburðaraðferðin

Viðfangsefni samanburðarmálfræði er að meta skyldleika tungumála, bera saman skyld tungumál og draga ályktanir um sameiginleg einkenni þeirra. Það þarf að greina á milli einkenna sem eru sameiginlegur arfur frá móðurtungu og yngri nýjunga sem hafa orðið til við málbreytingar.

Með því að beita samanburðaraðferðinni geta málfræðingar rakið sögu málhljóða, beyginga o.fl. þátta skyldra tungumála aftur til sameiginlegs upphafs í móðurtungu þeirra. Það er einnig hægt að rekja sögu heilla orða en víða þarf að fylla í eyður í heimildum og endurgera orðmyndir frá eldri málstigum.

1.3 Endurgerðar orðmyndir

Orðmyndir sem eru ekki varðveittar í rituðum heimildum má oft endurgera ef hægt er að leiða rök að því hvernig þær hafi litið út. Endurgerðar orðmyndir eru merktar með stjörnu til aðgreiningar frá þeim sem eru varðveittar í textum.

Dæmi: Orðið horn kemur fyrir á rúnaáletrun frá frumnorrænum tíma og er þar horna (þolfall eintölu). Af því og öðrum sambærilegum dæmum er dregin sú ályktun að önnur hvorugkynsorð úr sama beygingarflokki hafi haft sömu beygingarendingu, endað á ‘-a’.

ísl. horn < frnorr. horna
ísl. barn < frnorr. *barna
ísl. land < frnorr. *landa

1.4 Orðsifjafræði

Sú grein samanburðarmálfræði sem fæst við að rekja sögu einstakra orða aftur til upphafs þeirra (í indóevrópska frummálinu ef um indóevrópskt mál er að ræða) kallast orðsifjafræði (e. etymology). Þar er fjallað um hljóðbreytingar og merkingarbreytingar sem orðin hafa orðið fyrir og breytingar á beygingu þeirra. Ýmist er kannað samband skyldra orða innan sama tungumáls eða leitað að samsvörunum í öðrum skyldum tungumálum.

Það má fræðast um sögu orðanna í orðabókum sem kallast orðsifjabækur; þar er orðum raðað í stafrófsröð og sagt frá uppruna þeirra og skyldleika við önnur orð.

2. Indóevrópska málaættin

Íslenska er af indóevrópsku málaættinni en til hennar teljast flest tungumál í Evrópu og mörg önnur víðs vegar um heiminn. Öll eiga þau rætur sínar að rekja til sameiginlegrar móðurtungu, indóevrópska frummálsins (öðru nafni frum-indóevrópsku). Lítið er vitað með vissu um heimkynni þeirra manna sem töluðu þetta tungumál og ekki er heldur auðvelt að tímasetja það með nokkurri nákvæmni. Þó er talið líklegt að frum-indóevrópska hafi byrjað að kvíslast í dótturmálagreinar á tímabilinu 3500–2500 f.Kr. og hægt er að skipta ættinni í ellefu dótturmálaættir.

Mynd af indó-evrópska ættartrénu. Sjá inngang Ísl. orðsifjabókar.

3. Hljóðskipti

Meðal sameiginlegra einkenna indóevrópskra tungumála er kerfi hljóðskipta (e. ablaut, þý. Ablaut) en svo nefnast víxl sérhljóða sem skiptast á með kerfisbundnum hætti í skyldum orðmyndum. Þessi sérhljóðavíxl geta komið fram í rótum orða, viðskeytum og beygingarendingum. Uppruni þeirra er ekki þekktur með vissu en þó eru vísbendingar um að hljóðbreytingar á frum-indóevrópskum tíma hafi valdið þeim.

3.1 Hljóðskiptastig

Hljóðskiptin eru flokkuð í hljóðskiptastig eftir því hvaða sérhljóð birtist hverju sinni.

Hljóðskiptastigin.

Hljóðskiptastigin eru nefnd eftir því hvernig menn telja sérhljóðin hafa verið á frum-indóevrópskum tíma. Það er talað um E-STIG í orðmynd sem er talin hafa haft frum-indóevrópska sérhljóðið ‘e’ og um O-STIG ef frum-indóevrópska sérhljóðið var ‘o’, en þessi tvö stig kallast einu nafni GRUNNSTIG. Ef í orðmyndinni var langt hljóð heitir það ÞANSTIG og ef talið er að frum-indóevrópskt sérhljóð hafi fallið brott úr atkvæðinu er talað um HVARFSTIG.

Þegar talað er um það hvernig hljóðskiptin koma fram í dótturmálunum eru sömu heiti notuð þótt sérhljóðin hafi breyst.

Dæmi:

Í rót sagnarinnar binda er e-stig af því að hana má rekja til frie. ‘*bhendh-’. Í þátíðinni batt er hins vegar o-stig af því að þá orðmynd má rekja til frie. ‘*bhondh-’.

3.2 Hljóðskiptaraðir

Í germönskum málum eru hljóðskipti ekki síst áberandi í beygingu sterkra sagna. Þau eru arfur frá sagnbeygingu indóevrópska frummálsins; það er t.d. komið þaðan að e-stig er oftast í nafnhætti og nútíð (sbr. í-ið í bíta og hann bítur), o-stig í þátíð eintölu (sbr. ei-ið í beit) og hvarfstig í þátíð fleirtölu (sbr. i-ið í bitu).

e-stig Nh. bít-a < frie. ‘*bheid-’
o-stig Þt.et. beit < frie. ‘*bhoid-’
Hvarfstig Þtft. bit-u < frie. ‘*bhid-’
Á germönsku stigi eru sérhljóðavíxlin ekki eins í öllum sögnunum, m.a. vegna þess að sérhljóðin komu í öndverðu fyrir í ýmiss konar hljóðumhverfi og urðu því fyrir ólíkum hljóðbreytingum í tímans rás. Af þessum sökum eru hljóðskiptin flokkuð í HLJÓÐSKIPTARAÐIR (og sterkum sögnum skipað í flokka eftir þeim).

Hljóðskiptaraðir í sterkum sögnum í íslensku.

Hljóðskiptin koma einnig fyrir í öðrum orðflokkum en sagnorðum á þann hátt að sjá má víxl sérhljóða milli skyldra orða.

Tafla sem sýnir hvernig hljóðskiptin birtast í nafnorðum í nútímaíslensku.

Enn fremur er hljóðskipti að finna í viðskeytum eins og sést í eftirfarandi dæmum af lýsingarorðum:

gamall – þögull

Heimildaskrá

Grunnrit:

Guðrún Þórhallsdóttir. 1996. Um forsögu íslenzkrar tungu. Erindi um íslenskt mál. Íslenska málfræðifélagið, Reykjavík.

Hreinn Benediktsson. 1964. Upptök íslenzks máls. Þættir um íslenzkt mál eftir nokkra íslenzka málfræðinga. Ritstj. Halldór Halldórsson. Bls. 9–28. Almenna bókafélagið, Reykjavík.

Ítarefni:

Allan, W. S. 1994. Comparative Reconstruction. The Encyclopedia of Language and Linguistics. Ritstj. R. E. Asher og J. M. Y. Simpson. Bls. 636–43. Pergamon Press, Oxford og New York.

Collinge, N. E. 1994. Comparative Linguistics: History. The Encyclopedia of Language and Linguistics. Ritstj. R. E. Asher og J. M. Y. Simpson. Bls. 629–36. Pergamon Press, Oxford og New York.

Hock, Hans Henrich. 1986. Principles of Historical Linguistics. Mouton de Gruyter, Berlin/New York/Amsterdam.

Malkiel, Y. 1994. Etymology. The Encyclopedia of Language and Linguistics. Ritstj. R. E. Asher og J. M. Y. Simpson. Bls. 1168–78. Pergamon Press, Oxford og New York.

Sérfræðileg rit og greinar:

Krahe, Hans og Wolfgang Meid. 1969. Germanische Sprachwissenschaft I. Einleitung und Lautlehre. Walter de Gruyter & Co, Berlin.