SETNINGAFRÆÐI er sú grein málfræðinnar sem fæst við samband milli orða; hvernig orðin raðast saman í stærri heildir, hvernig þau hafa áhrif hvert á annað, og hvernig tengslunum milli þeirra er háttað. Hún er nátengd ýmsum öðrum greinum málfræðinnar, einkum beygingarfræði, merkingarfræði og orðræðugreiningu.
Í kennslu og annarri umræðu er oft gerður munur á svonefndri „hefðbundinni’ setningafræði (í anda Björns Guðfinnssonar) og málmyndunarfræði (ummyndanamálfræði, generatífri málfræði) og þessu tvennu jafnvel stillt upp sem ósættanlegum andstæðum sem velja verði á milli. Svo er þó ekki í raun. Hér er um að ræða tvær mismunandi aðferðir til að nálgast sama viðfangsefnið, en þær beinast að mismunandi þáttum þess. Í hefðbundinni setningafræði er megináhersla lögð á hlutverk setninga og setningarliða, en í málmyndunarfræði er fremur litið á formgerð þeirra. Þess vegna geta aðferðirnar unnið ágætlega saman, þótt vitaskuld komi upp tilvik þar sem þær taka ólíkt á málum.
Í þessu yfirliti er reynt að taka fullt tillit til beggja aðferða til að umfjöllunin komi að sem bestu gagni. Því er sums staðar getið um mismunandi viðhorf til einstakra atriða í greiningu, þótt víðast hvar sé tekin ákveðin afstaða með einni ákveðinni greiningu.
Hugtakið setning er oft skilgreint sem „orðasamband sem inniheldur eina aðalsögn og oftast einnig frumlag’. Dæmi um setningar eru sýnd hér að neðan. Þar er aðalsögn með hástöfum, frumlag feitletrað en setningin sjálf afmörkuð með hornklofum:
Eins og sjá má eru setningar annaðhvort ósamsettar (einfaldar), samsettar (þá er ein setning innan í annarri, hluti hennar) eða tengdar (þá eru tvær eða fleiri setningar tengdar saman).
Allar setningar eru settar saman úr setningarliðum (eða setningarhlutum), sem geta verið einfaldir eða flóknir að gerð; sumir aðeins eitt orð, en aðrir fleiri. Nokkur dæmi eru sýnd hér að neðan. Þeir setningarliðir sem eru afmarkaðir með hornklofum eru skýrðir sérstaklega hér á eftir, en hafa ber í huga að í þessum setningum eru margir fleiri liðir en þeir sem hér eru auðkenndir sérstaklega:
Orð sem mynda saman setningarlið hafa þessi einkenni:
Ef dæmin um setningarliði hér að framan eru skoðuð með þetta í huga kemur m.a. í ljós að:
Ég hef aldrei séð [grænan hest]
→
[Grænan hest] hef ég aldrei séð
[Falleg bók] lá [á borðinu]
→
[Á borðinu] lá [falleg bók]
[Þessi bók] er [mjög dýr]
→
Er [þessi bók] [mjög dýr]?
Ég hef aldrei séð [grænan (þf.) hest (þf.)]
→
Ég hef aldrei klappað [grænum (þgf.) hesti (þgf.)]
Hér má því finna margs konar rök fyrir þeirri liðskiptingu sem sýnd er hér að framan.
Setningarliðir eru af mismunandi gerð og gegna ólíkum hlutverkum. Allir setningarliðir hafa eitt aðalorð (oft nefnt ‘höfuð’) sem einkennir þá, en þeim fylgja oft ýmiss konar ákvæðisorð (ákvæðisliðir, ákvarðarar) og fylliliðir eins og nú skal rakið.
Ákvæðisorð eru þau orð kölluð sem standa með öðrum orðum og kveða nánar á um einkenni þess sem þau eiga við eða segja nánar til um við hvað er átt. Dæmi (ákvæðisorð með hásteflingum):
Í fyrsta dæminu er lýsingarorðið fallegan ákvæðisorð með bíl, stendur með því orði, sambeygist því (er í sama kyni, tölu og falli) og segir nánar til um einkenni hestsins sem átt er við. Í næsta dæmi stendur ábendingarfornafnið þennan með hund, sambeygist því og lætur í ljós að það er þessi tiltekni hundur sem átt er við. Í þriðja dæminu stendur atviksorðið ofsalega með lýsingarorðinu ljóta sem ákvæðisorð, en í heild stendur svo liðurinn ofsalega ljóta með nafnorðinu hárband og segir hvers konar hárband þetta er og lýsingarorðið ljóta sambeygist nafnorðinu hárband. Orðasambandið ofsalega ljóta er þá í heild ÁKVÆÐISLIÐUR með nafnorðinu hárband.
Forsetningar eru aðalorð forsetningarliða og þær taka nafnliði með sér sem fylliliði og stjórna falli á þeim. Áhrifssagnir stjórna líka falli á fylliliðum sínum (andlögum) og einnig er til í dæminu að lýsingarorð geti tekið með sér fylliliði og stýrt falli á þeim. Dæmi (fylliliðir með hástöfum):
Oftast fer ákvæðisorð (ákvæðisliður) á undan aðalorði en fylliliður á eftir. Þetta er sýnt hér. Ákvæðisorð og fylliliðir eru ekki nauðsynlegir hlutar setningarliða – aðeins aðalorðið (‘höfuðið’) er ómissandi.
Formgerð (liðgerð) setninga og setningarliða er stundum lýst í regluformi með svonefndum liðgerðarreglum (stofnhlutareglum). Þær líta t.d. svona út:
Merking skammstafananna er þessi:
Vinstra megin við örina er sá liður sem verið er að lýsa, en hægra megin við hana er sýnt hvernig hann er (eða getur verið) samsettur. Reglan FL → fs NL merkir þá ‘forsetningarliður er samsettur úr forsetningu og nafnlið’. Forsetning og nafnliður eru þá beinir stofnhlutar í forsetningarlið. Valfrjálsir hlutar, þ.e. þeir sem geta verið með en þurfa þess ekki, eru hafðir innan sviga. Reglan S → NL SL (FL/AL) merkir þá ‘setning er samsett úr nafnlið og sagnlið, og þar á eftir getur komið forsetningar- eða atviksliður’. Sá nafnliður, frumlagsnafnliðurinn, er þá beinn stofnhluti í setningunni, en ef forsetningarliður er einnig með er nafnliðurinn innan hans óbeinn stofnhluti í setningunni.
Til að lýsa gerð setninga og setningarliða á sjónrænan hátt eru oft notaðar svonefndar hríslur eða hríslumyndir. Þær fá nafn sitt af því að setningarliðirnir eru þar sýndir sem greinar á tré – að vísu á hvolfi. Hríslan á myndinni er teiknuð í samræmi við liðgerðarreglurnar að ofan.
Stigveldisskipan. Setningin á myndinni er sett upp í stigveldisskipan, eftir þeim liðgerðarreglum sem gilda um setningar og setningarliði.
Með því að teikna setningar á þennan hátt er oft auðveldara að átta sig á formgerð þeirra – hvernig þær skiptast í liði, og hvernig liðirnir tengjast innbyrðis. Í einfaldri setningu eins og þeirri sem hér er sýnd skiptir þetta e.t.v. ekki miklu máli, en í flóknari setningum er slík sjónræn framsetning oft lykilatriði til að átta sig á formgerðinni.
Helstu gerðir setningarliða eru taldar upp hér á eftir:
NAFNLIÐIR: aðalorð þeirra eru NAFNORÐ eða FORNÖFN
Dæmi (aðalorð með hásteflingum):
FORSETNINGARLIÐIR: aðalorð þeirra eru FORSETNINGAR
Dæmi (aðalorð með hástöfum):
SAGNLIÐIR: aðalorð þeirra eru SAGNIR
Dæmi (aðalorð með hástöfum):
LÝSINGARORÐSLIÐIR: aðalorð þeirra eru LÝSINGARORÐ
Dæmi (aðalorð með hástöfum):
ATVIKSLIÐIR: aðalorð þeirra eru ATVIKSORÐ
Dæmi (aðalorð með hástöfum):
Fylliliðirnir hér að framan eru einfaldir að gerð, en fylliliðir geta þó oft verið samsettir eða flóknir. Þannig geta fylliliðir verið heilar setningar og einnig er til í dæminu að orð í fyllilið taki sjálf með sér fylliliði. Dæmi um samsetta eða flókna fylliliði eru sýnd hér á eftir og eru þeir afmarkaðir með hornklofum:
Flóknir fylliliðir með nafnorðum:
Flóknir fylliliðir með forsetningum:
FRÁ
(fs.) [hundi [með húfu]]Flóknir fylliliðir með sögnum:
SEGIR
(so.) [að hann hafi aldrei drukkið lýsi]Flóknir fylliliðir með lýsingarorðum:
Þær sagnir sem taka með sér nafnliði sem fylliliði eru kallaðar áhrifssagnir ef nafnliðirnir eru andlög. Áhrifslausar sagnir taka enga fylliliði eða þá fylliliði sem eru forsetningarliðir eða sagnfyllingar.
Ákvæðisorð aðalorða geta tekið með sér önnur ákvæðisorð þannig að úr verður samsettur ákvæðisliður. Dæmi (þar sem ákvæðisliðir eru afmarkaðir með hornklofum):
Ákvæðisliðir með nafnorðum:
Ákvæðisliðir með lýsingarorðum:
Eins og sést á dæmunum hér á undan felst munur ákvæðisliða og fylliliða einkum í ólíkri setningarlegri stöðu og ólíkum tengslum við aðalorðið:
Þótt merkingarlegt hlutverk flestra liða sem fara á eftir aðalorði og stjórnast af því (þ.e. fylliliða) sé oft ólíkt hlutverki þeirra liða sem fara á undan aðalorði og sambeygjast því (þ.e. ákvæðisliða) er þetta þó ekki alltaf svo. Dæmi (berið saman liðina með hástöfum):
Hér er í báðum tilvikum um nafnliði að ræða þar sem aðalorðið er nafnorð. Í fyrra dæminu stendur eignarfornafnið þínar með nafnorðinu bækur og sambeygist því (er í nf.ft.kvk.). Frá formlegu sjónarmiði virðist þínar því vera ákvæðisliður með aðalorðinu bækur, enda kveður það nánar á um hvaða bækur þetta eru. Það gæti þó alveg eins farið á eftir nafnorðinu bækur og það væri raunar hin sjálfgefna orðaröð, a.m.k. ef nafnorðið væri með greini:
Vegna sambeygingarinnar virðist þó eðlilegt að kalla þetta ákvæðislið eftir sem áður. – Í dæminu bækur kennarans stjórnar aðalorðið bækur eignarfallinu á kennarans, sem fer á eftir því eins og fylliliður ætti að gera. Vegna þessara formlegu tengsla (fallstjórn, staða) virðist eðlilegt að kalla kennarans fyllilið fremur en ákvæðislið. Þó er merkingarlegt hlutverk eignarfallsins nánast hið sama og hlutverk eignarfornafnsins, þ.e. að kveða nánar á um hvaða bækur eru til umræðu, enda eru liðir af þessu tagi oft nefndir eignarfallseinkunnir.
Á svipaðan hátt hafa forsetningarliðir sem standa með nafnorði oft svipað merkingarhlutverk og lýsingarorð:
Setningarleg staða og einkenni eru þó greinilega ólík hér. Lýsingarorðið sambeygist nafnorðinu, forsetningarliðurinn ekki. Lýsingarorðið fer á undan nafnorðinu í sjálfgefinni orðaröð en forsetningarliðurinn getur það alls ekki. Þess vegna eru forsetningarliðir af þessu tagi taldir með fylliliðum hér, þrátt fyrir merkingarleg líkindi.
Í þriðja lagi má bera lýsingarorð saman við tilvísunarsetningar:
Enn er merkingarlega hlutverkið hið sama en setningarleg staða og einkenni ólík. Lýsingarorðið fer á undan nafnorðinu í sjálfgefinni orðaröð og sambeygist því. Tilvísunarsetningin hefur engin beygingarleg tengsl við nafnorðið og getur ekki með nokkru móti farið á undan því. Hún hefur því setningarlega stöðu fylliliðar þótt merkingarlegu einkennin minni á ákvæðislið.
Með „setningarlegum einkennum orðs’ (eða orðflokks) er einkum átt við tvennt:
Dæmi um þetta eru sýnd hér:
NAFNORÐ geta tekið lýsingarorð með sér sem ákvæðisorð:
NAFNORÐ geta tekið hliðstæð fornöfn með sér sem ákvæðisorð:
NAFNORÐ geta tekið önnur nafnorð með sér sem fylliliði:
NAFNORÐ geta tekið forsetningarliði með sér sem fylliliði:
NAFNORÐ geta tekið setningar með sér sem fylliliði:
LÝSINGARORÐ geta staðið sem ákvæðisorð með nafnorðum:
LÝSINGARORÐ geta tekið atviksorð með sér sem ákvæðisorð:
FÁEIN LÝSINGARORÐ geta tekið með sér nafnliði sem fylliliði:
FÁEIN LÝSINGARORÐ geta tekið með sér forsetningarliði sem fylliliði:
SUMAR SAGNIR taka með sér nafnliði sem fylliliði:
SUMAR SAGNIR taka með sér forsetningarliði sem fylliliði:
SUM ATVIKSORÐ (áhersluatviksorð) geta staðið sem ákvæðisorð með öðrum atviksorðum eða lýsingarorðum:
FORSETNINGAR taka með sér nafnliði sem fylliliði:
SUMAR FORSETNINGAR geta tekið með sér setningar sem fylliliði:
Nokkur frekari dæmi um setningarleg einkenni orðflokka í íslensku eru svo rakin hér:
NAFNORÐ taka með sér viðskeyttan greini:
LAUS GREINIR stendur jafnan á undan lýsingarorði:
SUM ATVIKSORÐ (t.d. háttaratviksorð og staðaratviksorð) fara á eftir sagnlið:
PERSÓNUBEYGÐ SÖGN er oftast í öðru sæti (= setningarliður nr. 2) í íslenskum setningum:
HLIÐSTÆÐ FALLORÐ (fallorð sem standa sem ákvæðisorð) sambeygjast aðalorðinu sem þau standa með:
Fallstjórn ákvarðar beygingarmynd orðs, í hvaða formi það birtist, og er því mikilvægt viðfangsefni beygingarfræðinnar. En vegna þess að fallstjórn felst í áhrifum eins orðs á annað er hún líka setningafræðilegt viðfangsefni. Helstu fallvaldar (fallstjórnendur) eru sagnir (áhrifssagnir) og forsetningar, en atviksorð, nafnorð og lýsingarorð geta einnig stjórnað falli.
Hér fer á eftir yfirlit um fallvalda í íslensku og helstu einkenni þeirra.
Langflestar sagnir í íslensku stjórna þolfalli á andlagi sínu, eins og þvo og vanta. Margar sagnir stjórna einnig þágufalli, eins og stríða en sárafáar eignarfalli, eins og sakna. Fjölmargar sagnir stjórna falli á tveimur andlögum, eins og gefa, svipta, lofa, spyrja og óska. Flestar þeirra hafa röðina þágufall – þolfall, eins og gefa, en hin mynstrin eru sjaldgæf. Sumar sagnir stjórna svo aukafalli á frumlagi sínu (eða frumlagsígildi), eins og vanta og leiðast.
Margar forsetningar stjórna þolfalli eins og um eða þágufalli eins og frá, en forsetningar sem stjórna eignarfalli eins og til eru fáar. Algengt er að sama forsetningin stjórni bæði þolfalli og þágufalli, eins og á og með í dæmunum hér að framan. Þá er yfirleitt skýr merkingarmunur á, þannig að þolfallið táknar hreyfingu eða athöfn en þágufallið kyrrstöðu.
ATVIKSORÐ:
Oft er sagt að atviksorð sem stýrir falli „verði að’ forsetningu. Fáein staðaratviksorð sem stjórna þágufalli og tíðaratviksorð sem stjórna eignarfalli, eins og nálægt og snemma í þessum dæmum, eru þó aldrei talin til forsetninga.
NAFNORÐ:
Þegar nafnorð stjórna falli á fylliliðum er nær alltaf um eignarfall að ræða, sem nefnist þá eignarfallseinkunn. Í fáeinum föstum orðasamböndum geta nafnorð þó stjórnað þágufalli, eins og á bak hestinum. Það gerist því aðeins að fallvaldurinn sé sjálfur fallorð forsetningar, og tákni (oftast) líkamshluta.
LÝSINGARORÐ:
Fáein lýsingarorð geta stjórnað falli, og þá alltaf þágufalli. Stundum stendur þágufallsorðið á undan fallvaldinum og stundum á eftir honum, og stundum kemur hvorttveggja til greina eins og dæmin sýna.
Reglur um notkun afturbeygða fornafnsins sig og afturbeygða eignarfornafnsins sinn eru nokkuð fastar, þótt í sumum tilvikum ríki nokkurt valfrelsi og munur geti verið á málnotkun manna. Langoftast stendur afturbeygt fornafn annaðhvort sem andlag sagnar eða fallorð forsetningar og er samvísandi við frumlag setningar, eins og hér er sýnt (samvísun táknuð með hásteflingum):
Í þessum dæmum verður að nota afturbeygt fornafn ef um samvísun á að vera að ræða. Setningin Guðbjörg greiddi henni getur ekki merkt að Guðbjörg hafi greitt sjálfri sér, heldur hlýtur að merkja að hún hafi greitt einhverri annarri. Einnig verður að nota afturbeygt fornafn ef samvísun er milli frumlags móðursetningar og nafnliðar í nafnháttarsetningu:
Þegar andlag er í móðursetningunni getur afturbeygt fornafn í nafnháttarsetningu líka vísað til þess, eins og setningin með biðja sýnir; óljóst er hvort Stína á að greiða Guðbjörgu eða sjálfri sér. Í slíkum tilvikum fer það eftir aðstæðum og samhengi hvernig menn skilja setninguna.
Þegar afturbeygt fornafn vísar til einhvers annars liðar en frumlags, t.d. andlags, er venjulega hægt að nota persónufornafn í staðinn:
Afturbeygt fornafn í aukasetningu getur stundum vísað til frumlags móðursetningarinnar. Yfirleitt gerist þetta þó því aðeins að í aukasetningunni sé sögn í viðtengingarhætti, en ekki ef sögnin er í framsöguhætti. Með framsöguhættinum verður að nota persónufornafn, og það er reyndar alltaf hægt með viðtengingarhættinum líka, eins og hér sést:
Sé notað persónufornafn í aukasetningunni þarf það þó ekki að vísa til frumlags aðalsetningarinnar, heldur getur líka vísað út fyrir setninguna. Þannig þarf hann í setningunum hér að framan ekki að vera Sveinn, heldur getur orðið allt eins vísað til einhvers sem ekki er nefndur í setningunni.
Stundum stendur fornafnið sjálfur með afturbeygða fornafninu og hefur áhrif á túlkun þess. Sambandið sjálfan sig getur þannig aldrei vísað yfir setningaskil, þ.e. úr aukasetningu í móðursetningu. Í eftirfarandi dæmi getur sjálfa sig því aðeins átt við frumlag aukasetningarinnar, Björg, en ekki frumlag aðalsetningar, María:
Vegna þessarar hegðunar er sjálfan sig stundum talið sjálfstætt (tvíyrt) fornafn.
Gagnverkandi fornafnið hvor/hver annan og sambandið hvor/hver sinn / sinn hvor/hver eiga ýmislegt sameiginlegt. Þau eru gerð af orðinu hvor (sem vísar til tveggja) eða hver (sem vísar til fleiri en tveggja) og öðru fornafni, og mætti því kalla þau tvíyrt fornöfn. Liðirnir tveir tengjast merkingarlega, eru samvísandi, en hafa mismunandi setningarstöðu.
Í sambandi hver/hvor og sinn er orðaröðin ýmist þannig að bæði orðin standa milli umsagnar og andlags (Þeir eiga hvor sína bók) eða sinn stendur næst á eftir umsögninni en hvor/hver á eftir andlaginu (Þeir eiga sína bókina hvor). Í fyrrnefndu orðaröðinni er nafnorðið sem sinn stendur með venjulega án greinis, en alltaf með greini í síðarnefndu orðaröðinni. Dæmi:
Dæmasetningar. Tengsl setningarhluta.
Báðir liðirnir í þessum orðasamböndum standa jafnan í sama kyni og sömu tölu og frumlag setningarinnar, en öðru máli gegnir um fallið. hvor/hver vísar þó til frumlagsins og stendur því í sama falli og það (oftast nefnifalli) en fall orðanna annar og sinn stjórnast ýmist af sögn eða forsetningu, þannig að sá liður sambandsins er jafnan í aukafalli.
Þannig stjórnar sögnin klaga í fyrstu setningunni hér að framan þolfalli á annan, forsetningin að í næstu setningu stjórnar þágufalli á annarri, í þriðju setningunni stjórnar sögnin eiga þolfalli á sína bók(ina), og í síðustu setningunni stjórnar forsetningin í þágufalli á sínum strák(num).
Í nútímamáli kemur fram í báðum samböndum tilhneiging til breyttrar beygingar og setningarstöðu. Svo virðist sem þau séu að breytast úr orðasamböndum í eins konar samsett orð, þar sem hvor stendur með annan/sinn og sambeygist því í falli í stað frumlagsins, eins og hér er sýnt:
Þessi málnotkun er mjög útbreidd í talmáli en þykir ekki gott mál og hæfir ekki formlegu málsniði þótt hún sé vissulega orðin málvenja margra.
Sögnin er miðpunktur hverrar setningar, og form og hegðun sagnarinnar hefur margvísleg áhrif á setninguna í heild. Lýsing á beygingarmyndum sagna er vitaskuld á verksviði beygingarfræðinnar, og ýmis áhrif sagnar á setningagerð eru viðfangsefni merkingarfræði. En vegna þess að setningafræðin lýsir formlegum tengslum milli orða og áhrifum eins orðs á annað fellur það í hlut hennar að gera grein fyrir ýmsum sagnasamböndum. Þar má nefna samsetta beygingu eins og horf og að nokkru leyti tíð og mynd, en einnig er háttur að nokkru leyti setningafræðilegt viðfangsefni vegna þess að val háttar ræðst oft af setningafræðilegum atriðum.
Í mörgum setningafræðibókum er talað um umsögn. Þá er venjulega átt við aðalsögn setningar en oft einnig þær hjálparsagnir sem fylgja henni. Umsögnin segir hvað frumlagið og andlagið gera, fá, verða að þola o.s.frv., allt eftir því hver merking aðalsagnarinnar er. Dæmi (umsögn með hástöfum):
Í síðasta dæminu er hjálparsögn og bæði hún og aðalsögnin auðkenndar eins og um eina umsögn væri að ræða. Það er þó ekki alltaf gert, enda myndar aðalsögnin sérstakan sagnlið í slíkum dæmum, ásamt fyllilið sínum ef um það er að ræða (hér er fylliliðurinn andlag en hann gæti líka verið sagnfylling eða forsetningarliður).
Stundum tekur ein og sama hjálparsögnin með sér tvær (eða fleiri) aðalsagnir, eins og hér er sýnt:
Þá er seinni aðalsögnin stundum kölluð ófullkomin umsögn, vegna þess að hún er ekki í persónuhætti. Einnig má líta svo á að hér sé um að ræða tvær hliðskipaðar setningar í hvoru dæmi, sú seinni liðfelld.
Þegar engin hjálparsögn er í setningunni gegnir aðalsögnin ein öllum málfræðilegum og merkingarlegum hlutverkum umsagnarinnar: Hún lagar sig að frumlaginu í persónu og tölu (ef frumlagið er í nefnifalli), setur frumlagi og andlagi merkingarlegar skorður og stjórnar falli á andlaginu ef því er að skipta. Tíðbeyging kemur þá einnig fram á aðalsögninni. Dæmi (aðalsögn með hástöfum):
Hér sést að aðalsögnin lagar sig að frumlaginu í persónu og tölu, stendur ýmist í nútíð (lýk) eða þátíð (drukkum). Sem dæmi um merkingarlegar skorður sem aðalsagnir setja frumlagi sínu og andlagi má nefna að sögnin ljúka getur aðeins tekið með sér frumlag sem táknar eitthvað lifandi og sögnin drekka getur aðeins tekið með sér andlag sem táknar eitthvað fljótandi og drekkanlegt. Þannig verður það tóm merkingarleysa að segja Mjólkin lauk mér eða Við drukkum bókina.
Þegar hjálparsögn er í setningunni er það hún sem lagar sig að frumlaginu í persónu og tölu og á henni kemur tíðbeygingin fram en aðalsögnin kemur fram í fallhætti (nafnhætti eða lýsingarhætti) og felur eftir sem áður í sér aðalmerkingu setningarinnar, setur frumlagi og andlagi merkingarlegar skorður og stjórnar áfram falli á andlaginu ef því er að skipta. Dæmi (hjálparsögn og aðalsögn með hástöfum):
Hér tekur hjálparsögnin munu með sér nafnhátt af aðalsögninni en hjálparsögnin hafa lýsingarhátt. (Sá lýsingarháttur er kallaður lýsingarháttur þátíðar, en það er vegna þess hvernig hann er myndaður og tengist ekkert tíðarmerkingu setningarinnar.) En hjálparsagnir setja frumlagi og andlagi setningarinnar engar merkingarlegar skorður. Þannig getur hvers konar frumlag sem er verið í setningu þar sem hjálparsögnin er hafa og sama á við um setningar með hjálparsögninni munu. Það er aðalsögnin sem setur frumlagi og andlagi merkingarlegar skorður.
Stundum er fleiri en ein hjálparsögn í setningu og þá kemur persónu-, tölu- og tíðbeyging aðeins fram á þeirri fyrstu og hver hjálparsögn um sig ræður formi þeirrar sagnar sem á eftir henni kemur. Dæmi:
Hér lagar hjálparsögnin munu sig að frumlaginu í persónu og tölu og stendur í nútíð. Hún ræður svo forminu (nafnhættinum) á hjálparsögninni hafa, sem síðan ræður forminu (lýsingarhættinum) á aðalsögninni lokið, sem aftur stjórnar fallinu á andlaginu mjólkinni.
Setningar með hjálparsögn sem tekur með sér nafnhátt líkjast býsna mikið setningum þar sem sögn tekur með sér nafnháttarsetningu sem andlag. Helsti munurinn er þessi:
Frumlag aðalsagnar þarf að hafa tiltekið merkingarhlutverk, t.d. þarf frumlag sagnarinnar reyna að vera lifandi vera sem er gerandi, en merkingarhlutverk frumlagsins í setningu með hjálparsögn ákvarðast af aðalsögninni. Á svipaðan hátt má segja að nafnháttarsetningin sem er andlag með reyna verði að tákna eitthvað sem „hægt er að reyna’, þ.e. eitthvað sem menn geta hugsanlega ráðið við, en engin slík takmörk eiga við um þau nafnháttarsambönd sem hjálparsagnir á borð við munu taka með sér. Þannig er fullkomlega eðlilegt að segja Davíð reyndi að vera rólegur, því margir geta haft stjórn á skapi sínu, en merkingarlega óeðlilegt að segja Davíð reyndi að vera tveir metrar á hæð, því enginn ræður hæð sinni. Aftur á móti er ekkert merkingarlega óeðlilegt við setningarnar Davíð mun vera rólegur og Davíð mun vera tveir metrar á hæð (þótt þær kunni hins vegar að vera ósannar).
Ef hjálparsögn stendur með aðalsögn sem tekur með sér frumlag í aukafalli (aukafallsfrumlag, frumlagsígildi) ræður aðalsögnin eftir sem áður falli frumlagsins. Þannig er eðlilegt að segja GUÐMUND (þf.) hefur VANTAÐ peninga og ÞÉR (þgf.) mun ekki LEIÐAST í Drangey af því að aðalsögnin vanta tekur með sér þolfallsfrumlag (Guðmund (þf.) vantar peninga) og aðalsögnin leiðast tekur með sér þágufallsfrumlag (Þér leiðist ekki í Drangey). Hvorugt þessara nafnháttarsambanda virðist ganga með aðalsögninni reyna af merkingarlegum ástæðum og þar er a.m.k. alveg augljóst að ekki er hægt að láta sagnirnar vanta og leiðast ráða falli á frumlagi aðalsagnarinnar reyna í samböndum af því tagi. Þannig eru eftirfarandi setningar alveg ótækar: *Guðmund reyndi að vanta peninga, *Þér reyndi að leiðast ekki í Drangey.
Umsagnir eru oft flokkaðar eftir því hversu marga rökliði þær taka. Sumar sagnir eru einrúmar, taka bara einn röklið, sem gegnir þá hlutverki frumlags (eða frumlagsígildis), eins og hrýtur. Aðrar eru tvírúmar, taka tvo rökliði, frumlag (eða frumlagsígildi) og andlag, eins og slá. Enn aðrar sagnir eru þrírúmar, taka þrjá rökliði, frumlag, andlag og óbeint andlag, eins og gefa.
Frumlag/frlíg. Umsögn Óbeint andlag Andlag
Friðrik HRÝTUR
Þorbjörgu LEIÐIST
Guðrún SLÓ garðinn
Sigurð VANTAR vinnu
Sveinn GAF stráknum peninga
Augljóslega er ekki tilviljanakennt hversu marga rökliði hver sögn hefur. Það er t.d. ekki auðvelt að ímynda sér eitthvert andlag með sögninni hrjóta, því að merking hennar býður ekki upp á neitt slíkt.
Sögnum fylgja með öðrum orðum misjafnlega mörg merkingarhlutverk. Sögninni hrjóta fylgir aðeins eitt merkingarhlutverk, hlutverk þess sem hrýtur; gerandans. Sögninni slá fylgja tvö merkingarhlutverk, hlutverk þess sem slær og þess sem sleginn er, þolandans (sem stundum er einnig nefndur þema). Sögninni gefa fylgja þrjú merkingarhlutverk, þ.e. hlutverk þess sem gefur og þess sem er gefinn, og svo hlutverk þess sem gjöfina fær, marksins (sem stundum er einnig nefndur þiggjandi). Frumlag í þolfalli eða þágufalli (frumlagsígildi) gegnir oftast hlutverki reynanda (sem stundum er einnig nefndur skynjandi).
Hér tengjast því setningafræði og merkingarfræði nánum böndum. Merking sagnar ræður því hversu mörg merkingarhlutverk fylgja henni, en hlutverkin þurfa síðan leikendur – rökliðina. Fjöldi þeirra er eitt af grundvallaratriðunum í gerð setningarinnar og því að sjálfsögðu viðfangsefni setningafræðinnar. Beygingarfræðin blandast hér líka inn í, því að ákveðin tengsl eru milli merkingarhlutverka og falla. Gerandi er t.d. alltaf í nefnifalli, reynandi oft í þágufalli o.s.frv.
Það er misjafnt hversu margar tíðir íslenskar sagnir eru taldar hafa. Ljóst er að þær eru a.m.k. tvær, nútíð og þátíð, en í sumum bókum er gert ráð fyrir þremur og allt að sex tíðum til viðbótar. Það eru núliðin tíð, þáliðin tíð, framtíð, þáframtíð, skildagatíð og þáskildagatíð.
Þetta eru allt orðasambönd, sambönd aðalsagnar í nafnhætti eða lýsingarhætti þátíðar og einnar eða fleiri hjálparsagna í persónuhætti. Dæmi eru sýnd hér:
Frá formlegu sjónarmiði er þessi samsetta beyging því annars eðlis en ósamsettu tíðirnar nútíð og þátíð, sem koma aðeins fram í formi aðalsagnarinnar sjálfrar. Frá sjónarmiði merkingarfræðinnar er líka hæpið að kalla þessi orðasambönd tíðir, því að þau tákna í raun ekki afstöðu í tíma. Tvö þeirra, núliðin tíð og þáliðin tíð, tákna fremur að þeim verknaði, sem aðalsögnin lýsir, sé lokið og eru oft flokkuð sem horf. Hin fjögur tákna oftast einhvers konar afstöðu eða viðhorf og eiga því merkingarlega fremur skylt við hátt en tíð.
Hin svokallaða framtíð með munu táknar oftast fyrirætlun, spá eða einhvers konar mat, t.d. Hún mun koma á morgun, Hann mun vera hraustur. Til að ræða um óorðna atburði sem ekki leikur sérstakur vafi á er fremur notuð einföld nútíð; Ég les bókina á morgun, Hún kemur á morgun. Svipað er að segja um þáframtíð; hún táknar yfirleitt ekki ‘eitthvað sem verður liðið í framtíðinni’, heldur er notuð til að draga úr krafti fullyrðingar, láta í ljós vafa, slá einhverju föstu eða eitthvað slíkt.
Skildagatíð og þáskildagatíð vísa ekki heldur til tíma, heldur tákna að sú athöfn, sem setningin lýsir, er eða var háð einhverju skilyrði (skildaga), og því fylgir oft skilyrðissetning þessum samböndum: Ég mundi lesa bókina ef ég gæti og Ég mundi hafa lesið bókina ef ég hefði getað. Reyndar er rétt að nefna að þessi sambönd þykja oft fara illa í málinu, og betra að nota viðtengingarhátt þátíðar í stað þeirra; Ég læsi bókina ef ég gæti og Ég hefði lesið bókina ef ég hefði getað.
Hér verður því haldið fast við það að raunverulegar tíðir í íslensku séu aðeins tvær, nútíð og þátíð.
Í íslensku kemur horf eingöngu fram sem samsett beyging, samband aðalsagnar og hjálparsagnar (eða hjálparsagna). Undir horf eru flokkuð nokkur sagnasambönd sem tákna á kerfisbundinn hátt stöðu þess verknaðar sem aðalsögnin felur í sér. Það á sér ekki langa hefð í íslenskum málfræðibókum að fjalla sérstaklega um horf, og þess vegna er nokkuð á reiki hvaða sambönd eru talin til þess.
Hér verður gert ráð fyrir þremur horfum í íslensku; það eru lokið horf (stundum greint í lokið horf I og II), ólokið horf (einnig nefnt dvalarhorf) og byrjunarhorf. Lokið horf I er það sem oft er nefnt núliðin og þáliðin tíð. Dæmi:
Horf táknar stöðu þess verknaðar sem felst í aðalsögninni, hvort honum er lokið, hann stendur yfir, eða er ekki hafinn. Annars er merking sagnasambanda af þessu tagi mjög fjölbreytt og fer m.a. eftir tíð hjálparsagnarinnar.
Þótt ólokið horf vísi oft til verknaðar sem stendur (eða stóð) yfir, eins og í dæminu hér að ofan, getur það einnig táknað að verknaðurinn sé rétt óorðinn eða honum sé nýlokið: Hann er (alveg) að fara, Hún var (rétt) að sofna. Á síðustu árum virðist notkun ólokins horfs í stað nútíðar og þátíðar hafa færst í vöxt, ekki síst í íþróttamáli; Þeir eru að spila illa, Við vorum að standa okkur mjög vel.
Talað er um samsett horf þegar tvö eða fleiri framangreindra sambanda eru notuð saman. Slíkt er einkum algengt í talmáli. Merking þessara sambanda er fjölbreytt og mjög háð samhengi. Ekki geta öll horf komið fyrir saman, en fastar reglur gilda um innbyrðis röð sagna í þeim samböndum sem fyrir koma. Þannig kemur sögnin hafa sem myndar lokið horf I alltaf fyrst, síðan vera (eða verða) sem myndar dvalarhorf, þá fara sem myndar byrjunarhorf, og loks vera (verða) búinn sem myndar lokið horf II. Helsta undantekningin er sú að lokið horf II getur farið á undan dvalarhorfi; Hann er búinn að vera að vinna (í allan dag). Dæmi um önnur helstu sambönd má sjá hér á myndinni.
Samsett horf.
Hættir sagna í íslensku koma eingöngu fram í beygingu sagnanna sjálfra, en eru ekki táknaðir með samsettri beygingu. Háttur er því ekki setningafræðilegt fyrirbæri í íslensku eins og horf og að nokkru leyti tíð. Hins vegar tengjast hættir setningafræðinni á margan hátt. Í hverri málsgrein verður þannig að vera a.m.k. ein sögn í persónuhætti – fallhættir duga ekki, eins og hér sést:
Það eru aðeins sagnir í persónuhætti sem geta tekið frumlag (ef frá er talin setningagerðin þolfall með nafnhætti).
Persónuhættirnir þrír tengjast vitaskuld mismunandi merkingu. Þannig táknar framsöguháttur oft staðhæfingu, viðtengingarháttur tengist oft einhverjum efa, fyrirvara eða skilyrði, og boðháttur táknar skipun eða beiðni. En hættirnir lúta líka ólíkum setningafræðilegum skilyrðum. Boðháttarsögn stendur t.d. alltaf fremst í setningu, oft með viðskeyttu 2. persónu fornafni.
Staða viðtengingarháttar er flókin og erfitt að gefa um hana fullnægjandi reglur. Þar spila saman ýmsir setningafræðilegir og merkingarlegir þættir. Í meginatriðum má segja að viðtengingarháttur sé bundinn við aukasetningar. Ef um fallsetningar er að ræða er sögnin í móðursetningunni þá yfirleitt álitssögn eða felur í sér spurningu:
Ef sögn móðursetningarinnar er hins vegar staðreyndasögn er sögnin í aukasetningunni oftast í framsöguhætti:
Einnig er viðtengingarháttur notaður í ýmsum flokkum atvikssetninga, eins og hér eru sýnd dæmi um:
Hann flýtti sér [til að hann KÆMI snemma]
(tilgangssetning)
Hún kom [þótt hún VÆRI of sein]
(viðurkenningarsetning)
Hún kemur ekki [nema ég BIÐJI hana um það]
(skilyrðissetning)
Í aðalsetningum er viðtengingarháttur sjaldgæfur. Viðtengingarháttur þátíðar getur þó komið fyrir í setningum sem tákna ósk eða möguleika, ef skilyrðissetning fylgir með:
Viðtengingarháttur nútíðar kemur hins vegar aðeins fyrir í aðalsetningum sem tákna ósk eða bæn, og er þá stundum nefndur óskháttur:
Með „hlutverki’ setningarliða er hér átt við það hlutverk sem liðirnir gegna innan setningar (en ekki setningarlega stöðu til dæmis). Þetta skýrist betur af dæmum. Þeir setningarliðir sem lýst er í 2. kafla geta haft mismunandi hlutverk í þessum skilningi. Mikilvægustu hlutverkin eru talin hér:
Með frumlagi er átt við þann setningarlið sem
Dæmi (frumlag með hástöfum):
Frumlag er langoftast í nefnifalli, eins og í dæmunum hér á undan. Þó kemur fyrir að sagnir taka með sér frumlag í aukafalli, sem þá er nefnt frumlagsígildi (eða aukafallsfrumlag). Slíkt frumlag hefur öll einkenni venjulegra frumlaga önnur en þau að standa í nefnifalli og að valda samræmi á sögninni (þ.e. ráða persónu og tölu hennar). Dæmi (frumlagsígildi með hásteflingum):
HANA/YKKUR/STRÁKANA hefur alltaf vantað peninga á vorin
Hefur HANA/YKKUR/STRÁKANA alltaf vantað peninga á vorin?
Á vorin hefur HANA/YKKUR/STRÁKANA alltaf vantað peninga
Sagnir sem taka með sér aukafallsfrumlög eru oft nefndar <ópersónulegar og setningar með slíkum sögnum þá <ópersónulegar setningar.
Sagnir sem hafa ekkert merkingarlegt frumlag, svo sem sagnir sem varða veðurfar (veðursagnir), eru stundum einnig kallaðar <ópersónulegar sagnir. Setningar sem innihalda slíkar sagnir eru þá líka nefndar <ópersónulegar. Dæmi:
Í fyrsta dæminu virðist fornafnið það vera í frumlagssæti en það er þó merkingarlaust. Þegar forsetningarliðurinn í gær er fluttur fremst, hverfur það. Sama gerist ef setningunni er breytt í beina spurningu. Þessi tegund af það, þ.e. merkingarlaust það sem virðist standa í frumlagssæti á undan sögn (í 3.p.) í beinni orðaröð en hverfur í beinum spurningum og eins ef einhver annar liður er færður fremst, er kallað gervifrumlag. Orðið það í fjórða dæminu (með sögninni skafa) hefur sömu einkenni, eins og sjá má af síðasta dæminu.
Fornafnið það virðist líka standa í frumlagssæti í nokkrum öðrum tilvikum í íslensku og hafa svipuð einkenni og hér var lýst (þ.e. að koma aðeins fyrir í beinni orðaröð). Dæmi:
Í fyrsta dæminu virðist ekkert raunverulegt frumlag vera í setningunni og því væri eðlilegt að kalla hana <ópersónulega. Þar sem umsögnin líkist því sem venja er í þolmynd (hjálparsögnin vera og síðan lýsingarháttur þátíðar) eru setningar af þessu tagi oft nefndar <ópersónuleg þolmynd.
Í tveim síðari dæmunum virðist merkingarlegt frumlag koma síðar í setningunni (mýs í fyrra dæminu og aukasetningin (fallsetningin) að tunglið sé úr osti í því síðara). Í slíkum tilvikum er það líka nefnt aukafrumlag.
Með andlagi er átt við setningarlið sem stendur með áhrifssögn sem fylliliður hennar og fer á eftir henni í beinni orðaröð (sjálfgefinni orðaröð). Ef andlag er fallorð er það næstum alltaf í aukafalli. Dæmi (andlög með hástöfum):
Í þriðja dæminu eru tvö andlög með sögninni gefa. Það fyrra er í þágufalli og táknar þann sem fær gjöfina. Þágufallsandlagið er stundum kallað <óbeint andlag í slíkum dæmum. Í fjórða dæminu tekur sögnin spyrja með sér andlag í eignarfalli, en í því fimmta andlag sem er aukasetning (fallsetning) og sýnir ekkert fall.
Í síðasta dæminu tekur sögnin leiðast með sér fallorð í nefnifalli sem hefur þó stöðu og hlutverk andlags. Í sumum málfræðibókum eru slík orð talin til andlaga. Í íslensku kemur andlag í nefnifalli aðeins fyrir með sögnum sem taka með sér frumlag í þágufalli.
Með sagnfyllingu er í fyrsta lagi átt við fallorð í nefnifalli með áhrifslausum sögnum eins og vera, verða, heita, þykja. Þetta geta ýmist verið nafnliðir eða lýsingarorðsliðir. Dæmi (sagnfyllingar með hástöfum):
Í öðru lagi er stundum talað um sagnfyllingu með andlagi. Þá er átt við fallorð (nafnlið, lýsingarorðslið) sem standa á eftir andlagi ákveðinna sagna eins og t.d. kjósa, velja, skipa og laga sig að því í falli. Dæmi (sagnfyllingar með andlagi með hástöfum):
Ef þessum setningum er breytt í þolmynd þannig að þolfallsandlagið breytist í nefnifallsfrumlag lagar sagnfyllingin sig að frumlaginu og verður í nefnifalli:
Einkunn er venjulega skilgreind sem ákvæðisorð (eða ákvæðisliður) sem stendur með nafnorði – yfirleitt á undan því (setningarlegt einkenni) – sambeygist því (setningarlegt einkenni) og kveður nánar á um eiginleika þess sem nafnorðið á við (merkingarlegt hlutverk). Dæmi (einkunn með hástöfum):
Stundum er einkunnin samsett úr nokkrum ákvæðisorðum sem öll sambeygjast nafnorðinu eins og síðara dæmið sýnir hér.
Orðið eignarfallseinkunn er stundum haft um nafnorð eða nafnlið í eignarfalli sem stendur með nafnorði:
Af þessum dæmum má sjá að svonefnd eignarfallseinkunn hefur setningarleg einkenni fylliliðar (fer á eftir aðalorðinu og fall hennar stýrist af því). En þar sem merkingarleg einkenni minna á venjulega hliðstæða einkunn („segir nánar til um við hvað er átt’) eru nafnliðir af þessu tagi gjarna nefndir eignarfallseinkunn.
Viðurlag stendur með nafnorði (eins og einkunn) eða fornafni en fer á eftir aðalorðinu en ekki undan, eins og ákvæðisliðir gera yfirleitt. Það er oft laustengdara aðalorðinu en einkunn en talið til ákvæðisliða eins og hún (en ekki fylliliða) af því að það hefur önnur einkenni þeirra.
Viðurlag sambeygist nafnorðinu/fornafninu sem það stendur með, líkt og einkunn gerir (setningarlegt einkenni) og kveður nánar á um eiginleika þess sem nafnorðið/fornafnið vísar til eða bætir einhverjum upplýsingum við það, líkt og einkunn gerir (merkingarlegt einkenni). Dæmi (viðurlag með hásteflingum):
Þetta er Vigdís (nf.) FORSETI (nf.)
(viðurlagið forseti stendur í sama falli og aðalorðið Vigdís)
Þeir hittu Vigdísi (þf.) FORSETA (þf.)
(viðurlagið forseta stendur í sama falli og aðalorðið Vigdís)
Þegar viðurlag er einhvers konar aukaatriði, innskot eða viðbót í setningu er það stundum kallað laust, eins og í eftirfarandi dæmum:
Í síðasta dæminu er um að ræða ávarpslið, sem er oft viðurlag með annarrar persónu fornafni.
Hlutverk atviksliða eru mismunandi eftir því hvers konar atviksorð eru aðalorð þeirra. Dæmi (atviksliðir með hástöfum):
Fyrsta dæmið sýnir atviksorð sem fer næst á eftir persónubeygðu sögninni (hjálparsögninni hafa í þessu tilviki). Slík atviksorð eru stundum nefnd setningaratviksorð því þau eiga við setninguna alla (það hefur ALLTAF verið þannig að hún hefur tekið lýsi). Annað dæmið sýnir staðaratviksorð (segir til um staðinn ÞAR SEM eitthvað á sér stað eða gerist) og það þriðja háttaratviksorð (illa segir til um Á HVERN HÁTT kóngurinn söng). Háttaratviksorð taka oft með sér áhersluatviksorð (ákaflega HERÐIR Á merkingu atviksorðsins illa) líkt og lýsingarorð geta gert (sbr. ÁKAFLEGA (ao.) feitur (lo.)).
Forsetningarliðir gegna oft svipuðu hlutverki og atviksliðir. Þetta sést ef eftirfarandi dæmi eru borin saman við dæmin um atviksliði hér á undan:
Í fyrsta dæminu hefur forsetningarliðurinn frá barnæsku svipað hlutverk og atviksorðið (atviksliðurinn) alltaf í samsvarandi dæmi hér á undan (það hefur verið þannig FRÁ BARNÆSKU (hennar) að hún hefur tekið lýsi). Í næsta dæmi kveður forsetningarliðurinn á eldhúsborðinu á um staðinn, líkt og þarna gerði í dæminu á undan. Í þriðja dæminu segir forsetningarliðurinn af snilld til um það á hvern hátt kóngurinn söng, líkt og illa gerði áður (þótt merkingin sé gagnstæð). Loks má finna forsetningarliði sem gegna sama hlutverki og áhersluatviksorð, sbr. forsetningarliðinn með afbrigðum í síðasta dæminu.
Í kafla 2.1 eru eftirfarandi dæmi tekin um setningar (aðalsögn hverrar setningar með hástöfum):
Setningarnar eru jafnmargar og aðalsagnirnar. Hornklofarnir sýna upphaf þeirra og endi. Þeir sýna m.a. að í dæmi númer tvö er setningin að hann hafi aldrei drukkið lýsi „innan í’ setningunni sem hefst á Hann segir. Sögnin segja er áhrifssögn (segja EINHVERN HLUT, þolfall) og tekur með sér andlag. Hér er andlagið setningin að hann hafi aldrei drukkið lýsi. Sú setning er því hluti af setningunni sem hefur sögnina segja sem aðalsögn. Setning sem er hluti af (eða „innan í’) annarri setningu er kölluð aukasetning.
Í þriðja dæminu eru tvær setningar, tengdar með samtengingunni (aðaltengingunni) en. Hvorug þeirra er hluti af hinni. Setning sem er ekki hluti af annarri setningu er kölluð aðalsetning. Í þriðja dæminu eru því tvær tengdar aðalsetningar. Í dæmi númer tvö er setningin sem hefst á Hann segir … líka aðalsetning. Hún er ekki hluti af annarri setningu en hún hefur aukasetninguna að hann hafi aldrei drukkið lýsi sem hluta af sér og henni lýkur því á eftir aukasetningunni. Í því dæmi er þannig ein aðalsetning, en hún er samsett.
Sérhvert dæmanna í 6.1 er sérstök málsgrein. Málsgreinar eru jafnan afmarkaðar með punkti (stundum þó spurningarmerki eða upphrópunarmerki) í rituðu máli. Í málsgrein er annaðhvort ein aðalsetning (eins og í fyrsta og öðru dæmi) eða tvær eða fleiri tengdar aðalsetningar (eins og í þriðja dæmi). Vert er að taka eftir að í dæmi númer tvö er aðeins ein aðalsetning en hún er samsett. Aðalsetningar geta orðið flóknari en dæmi númer tvö eins og hér er sýnt (aðalsögn hverrar setningar með hástöfum):
Hér er aðeins ein aðalsetning – það er setningin sem hefur aðalsögnina sagði. Andlag sagnarinnar sagði (og þar með hluti af aðalsetningunni) er aukasetningin að þú hefðir spurt hvort mjólkin væri súr. Sú aukasetning er sjálf samsett því að andlag aðalsagnarinnar í henni, sagnarinnar spurt, er aukasetningin hvort mjólkin væri súr.
Eins og sjá má með því að skoða hornklofana sem afmarka setningarnar í þessari samsettu málsgrein minnir þetta svolítið á þrjár misstórar skálar þar sem stærsta skálin geymir tvær þær minni og sú minnsta er ofan í (innan í) þeirri næstminnstu. „Ysta’ setningin hér er aðalsetning, því hún er ekki hluti í neinni annarri setningu. Hinar eru aukasetningar. „Innsta’ setningin er setningarliður (setningarhluti) í annarri aukasetningu.
Setning sem er liður í (hluti af) annarri setningu er stundum kölluð dóttursetning hennar. Dóttursetningar eru því samkvæmt skilgreiningu alltaf aukasetningar. Setningarnar sem þær eru liðir í má þá kalla móðursetningar þeirra. Hér hefur komið fram að móðursetningar eru stundum sjálfar dóttursetningar annarra setninga.
Aukasetningar standa venjulega annaðhvort fremst í aðalsetningum og eru þá kallaðar undansettar eða aftast og kallast þá eftirsettar:
Fallsetningar og tilvísunarsetningar eru venjulega eftirsettar, en ýmsar tegundir atvikssetninga eru ýmist undansettar eða eftirsettar. Einnig kemur fyrir að aðalsetning sé fleyguð af aukasetningu. Einkum á þetta við um tilvísunarsetningar, vegna þess að þær standa sem fylliliðir ákveðinna orða inni í setningum:
Stundum geta aðrar tegundir aukasetninga fleygað aðalsetningu og eru þá kallaðar innskotssetningar:
Þegar setningar eru samsettar og tengdar með aðaltengingum er það kallaðað hliðskipun. Setningarnar standa þá hlið við hlið, eru hliðskipaðar, þannig að hvorug er liður í hinni. Seinni setningin er þá oft liðfelld, eins og þriðja dæmið hér sýnir:
Aukasetningar eru aftur á móti alltaf undirskipaðar aðalsetningum sínum. Eftirfarandi setningar eru því dæmi um undirskipun:
Það sem fer á eftir Ég veit í þriðja dæminu hér á undan er skýringarsetning, tengd með aukatengingunni að, og því undirskipuð setning. Hún er aftur á móti sjálf samsett úr tveimur setningum, Sveinn er þreyttur og fór hann seint að sofa. Þær eru tengdar með aðaltengingunni enda, og eru því hliðskipaðar innbyrðis.
Aukasetningum má skipta í þrjá aðalflokka:
Sumar fallsetningar eru andlög, sumar eru frumlög eða standa sem fylliliðir með forsetningum. Dæmi um þetta allt eru sýnd hér (fallsetningar afmarkaðar með hornklofum):
Hann spurði [hvort hún yrði heima]
(fallsetningin er andlag, sbr. Hann spurði EINHVERS)
[Að hann skuli vera svona sætur] er skemmtilegt
(fallsetningin er frumlag, sbr. ÞETTA er skemmtilegt)
Fallsetningar sem hefjast á skýringartengingunni að eru kallaðar skýringarsetningar (eða að-setningar) en fallsetningar sem hefjast á spurnarorðum (spurnartengingunni hvort, spurnaratviksorðum (hvar, hvenær, hvernig) eða spurnarfornöfnum (hver, hvor, hvaða) eru kallaðar spurnarsetningar.
Stundum gegna nafnháttarsambönd sama hlutverki og nafnliðir í setningu. Slík nafnháttarsambönd má kalla nafnháttarsetningar. Þær hafa yfirleitt ekki sýnilegt frumlag og í þeim er engin sögn í persónuhætti. Nokkur dæmi eru sýnd hér (nafnháttarsetning afmörkuð með hornklofa):
Jón hótaði Guðmundi [að reka Harald]
(nafnháttarsetningin er andlag, sbr. hóta einhverjum EINHVERJU)
Davíð reyndi [að synda út í Viðey]
(nafnháttarsetningin er andlag, sbr. að reyna EINHVERN HLUT)
[Að hafa synt út í Viðey] er mikið afrek
(nafnháttarsetningin er frumlag, sbr. ÞETTA er mikið afrek)
Dæmi þar sem sögn tekur með sér nafnháttarsamband sem andlag (sbr. reyna) líkjast býsna mikið setningum með hjálparsögn sem tekur með sér nafnhátt, eins og Davíð mun synda út í Viðey. Á þeim er þó mikilvægur munur sem lýst er annars staðar.
Atvikssetningum er oft skipt í nokkra flokka eftir merkingarlegu hlutverki þeirra. Nokkur dæmi eru gefin hér á eftir (atvikssetningar afmarkaðar með hornklofum):
Ég fer [ef hann verður góður]
(skilyrðissetning, tengd með skilyrðistengingunni ef, nefnir skilyrði)
Hann lætur [eins og hann sé vitlaus]
(samanburðarsetning, tengd með samanburðartengingunni eins og, sbr. Hann lætur eins og fífl, Hann lætur ILLA)
Hann málaði húsið [til þess að hún yrði ánægð]
(tilgangssetning, tengd með tilgangstengingunni til þess að)
Hann málaði húsið [af því að hún var óánægð]
(orsakarsetning, tengd með orsakartengingunni af því að)
Hann málaði húsið [svo að hún varð ánægð]
(afleiðingarsetning, tengd með afleiðingartengingunni svo að)
Tilvísunarsetningar eru tengdar með tilvísunartengingunum sem og er. Þær standa oftast með nafnorðum sem fylliliðir. Dæmi eru sýnd hér á eftir (tilvísunarsetningar afmarkaðar með hornklofum):
Eitt helsta einkenni tilvísunarsetninga er að í þeim er jafnan „eyða’ sem svarar til nafnorðs þess sem setningarnar standa með:
Í fyrsta dæminu „vantar’ frumlag sagnarinnar skamma, í öðru dæminu „vantar’ andlag sagnarinnar lesa, og í þriðja dæminu „vantar’ forsetninguna við fallorð sitt. Greinilegt er að „eyðan’ svarar merkingarlega til nafnorðsins sem tilvísunarsetningin stendur með.
Smáorðin sem og er eru stundum kölluð tilvísunarfornöfn í íslenskum málfræðibókum. Þau hafa þó engin einkenni fallorða (breyta t.d. ekki um form) en hafa hins vegar ýmis setningafræðileg einkenni tenginga. Þess vegna er eðlilegra að telja þau sérstakan flokk aukatenginga.
Með hugtakinu orðaröð er auðvitað átt við röð orða en í málfræðilegri umræðu táknar þetta ýmist þær reglur sem gilda um röð einstakra orða innan setningarliða eða þær reglur sem gilda um röð setningarliða innan setninga. Nokkrar íslenskar reglur af þessu tagi eru nefndar hér á eftir:
Röð orða og setningarliða er ekki alltaf eins. Venjulega er einhver tiltekin röð sjálfgefin eða hlutlaus en síðan má breyta henni ef sérstök ástæða þykir til. Slíka röð má kalla breytta orðaröð.
Sjálfgefin röð frumlags, sagnar og andlags í íslensku er sú sem hér var gefin (frumlag – sögn – andlag, F–S–A). Sú orðaröð er bæði langalgengust og kemur auk þess fram við fjölbreyttastar aðstæður. Hún er oft nefnd bein orðaröð í málfræðibókum. Dæmi:
Ef lögð er sérstök áhersla á aðra liði en frumlag, eða verið er að spyrja spurningar sem svara má með jái eða neii, kemur fram breytt eða <óbein orðaröð:
Á sama hátt er röðin ákvæðisorð – aðalorð sjálfgefin (eða hlutlaus) innan liða:
Þeirri röð er þó stundum breytt og ákvæðisorð haft á undan, einkum í formlegu málsniði:
Undantekning frá þessu er þó röð aðalorðs og eignarfornafns í íslenskum nafnliðum:
Seinni röðin er einkum notuð ef ástæða þykir til að leggja sérstaka áherslu á eignarfornafnið. Eins og hér kemur fram er oft hafður greinir á nafnorðinu ef það fer á undan eignarfornafninu (bókIN mín) en það er alveg ótækt ef nafnorðið fer á eftir (*mín bókin). Í formlegu málsniði væri aftur á móti hægt að segja (eða skrifa): bók mín (þ.e. hafa bók án greinis). Ef um skyldleikaorð er að ræða, eða orð sem tákna eitthvað óhlutstætt, er greinir þó ekki hafður á nafnorðinu þótt það fari á undan eignarfornafninu:
Í síðara dæminu væri hugsanlegt að hafa greini á nafnorðinu ef búið væri að ræða um tillöguna áður: Tillaga(n) mín hefur aldrei verið borin undir atkvæði. Það gengur augljóslega ekki í fyrra dæminu.
Sum tilvik um breytta orðaröð eru einkum bundin við sérstakt málsnið eða sérstakan stíl. Svonefnd frásagnarorðaröð (persónubeygð sögn í fyrsta sæti, eins og Héldu þeir nú af stað) er þannig nánast eingöngu notuð í ritmáli. Svipað er að segja um röðina aðalorð – ákvæðisorð í nafnliðum í flestum tilvikum (ritgerð þessi). Sumt er jafnvel bundið við fornlegt mál (sbr. spjót digurt), en í forníslensku voru sum lýsingarorð gjarna höfð á eftir nafnorðum (sbr. skjöld góðan, sjóð digran).
Það nefnist bein ræða þegar tekið er orðrétt upp það sem einhver segir. Bein ræða er afmörkuð með gæsalöppum (tilvitnunarmerkjum) í rituðu máli:
Beinni ræðu er oft snúið í <óbeina ræðu í frásögn. Hún er þá gerð að aukasetningu, fyllilið sagna eins og segja, spyrja o.þ.h. Dæmi (óbein ræða með hástöfum):
Járngrímur sagði þá við mig: „Ég mun aldrei lána þér þennan járnstaf.’
→
Járngrímur sagði þá við mig AÐ HANN MUNDI ALDREI LÁNA MÉR ÞENNAN JÁRNSTAF
Hér má sjá að skipt er um persónufornöfn þegar beinni ræðu er breytt í óbeina (þú → hann í fyrsta dæminu, ég → hann, þér → mér í því næsta og ég → hann í því seinasta). Ástæðan er auðvitað sú að bein ræða er höfð beint eftir þeim sem segir orðin sem í henni eru og þá miðast fyrsta, önnur og þriðja persóna við hann. Óbein ræða miðast við þann sem segir frá og fyrsta, önnur og þriðja persóna miðast þá við hann (frásagnarmanninn – það er hann sem „talar’ í óbeinu ræðunni).
Í öllum dæmunum sést að við breytingu úr beinni í óbeina ræðu kemur viðtengingarháttur í stað framsöguháttar á sögnina. Ef sögn aðalsetningarinnar er í þátíð verður sögn óbeinu ræðunnar það einnig, eins og fyrri dæmin tvö sýna. Í síðustu setningunni kemur hins vegar fram að ef sögn beinu ræðunnar er í þátíð tekur hún á sig lokið horf í óbeinu ræðunni (var → hefði verið).
Í nútímasetningafræði, sem á rætur í málmyndunarfræði Chomskys, er myndun setninga lýst sem ákveðnu ferli. Þar er gert ráð fyrir því að setningar eigi sér ákveðið grunnform (djúpgerð, baklæga gerð). Í þessu grunnformi standa liðir í grundvallarorðaröð (sjálfgefinni/ómarkaðri/hlutlausri orðaröð), og liðir sem eiga saman standa þar saman.
En setningar af þessu tagi geta líka komið fram á annan hátt, með afleiddri (breyttri) orðaröð, þar sem ýmsum færslum eða öðrum ummyndunum hefur verið beitt á einstaka liði. Þannig er oft hægt að flytja andlög, forsetningarliði og atviksliði fremst í setninguna, þannig að yfirborðsgerð (afleidd gerð) hennar verður frábrugðin grunnforminu:
Slíkur flutningur liða fremst í setningu er kallaður kjarnafærsla. Ástæðan fyrir því að andlag, atviksliður eða forsetningarliður er færður fremst í setningu er nefnilega oft sú að þessi liður er einhvers konar merkingarlegur kjarni setningarinnar, og honum er gefin sérstök áhersla með því að setja hann fremst í setningu.
Það er samt ekki hægt að taka andlag eða annan lið aftan úr setningu og færa hann fremst og láta þar við sitja. Ef ekkert frekar er aðhafst koma út úr því ótækar setningar eins og hér sést:
Þessar setningar eru auðvitað engin íslenska. Til að þær verði tækar þarf að víxla röð sagnar og frumlags eins og gert var hér að framan. Það er nefnilega nokkuð föst regla í íslensku að persónubeygð sögn má ekki vera aftar en í öðru sæti í setningum. Þess vegna verður hér umröðun frumlags og sagnar; frumlagið (Jóhann) verður að víkja ef annar liður er settur fremst.
Spurnarfærsla er á margan hátt svipuð kjarnafærslu, því að hún flytur einnig andlög, forsetningarliði og atviksliði fremst í setningu. Spurnarfærsla flytur þó eingöngu spurnarliði, þ.e. liði sem hafa að geyma eitthvert spurnarorð, eins og í eftirfarandi dæmum:
Í aðalsetningum með spurnarfærslu verður frumlagið að koma á eftir persónubeygðu sögninni, rétt eins og í setningum með kjarnafærslu. Í óbeinum spurningum, gegnir öðru máli; þar getur bæði liðurinn með spurnarorðinu og frumlagið staðið á undan sögninni eins og ekkert sé:
Hér virðist reglan um sögn í öðru sæti vera brotin. Þó er vert að athuga að spurnarsetningarnar eru hér ekki tengdar móðursetningu sinni með neinni aukatengingu, þótt til sé sérstök spurnartenging eins og í þessari setningu:
Spurnarliðirnir hvaða sögu, hvenær og um hvaða leyti virðast því taka að sér hlutverk spurnartengingar. Þeir standa því eiginlega utan spurnarsetningarinnar sjálfrar, og teljast því ekki með liðum sem standa á undan persónubeygðu sögninni. Hún er því í öðru sæti í öllum setningunum; aðeins frumlagið Jóhann stendur á undan henni.
Spurnarfærsla er einnig frábrugðin kjarnafærslu að því leyti að hún er oftast skyldubundin, en kjarnafærsla valfrjáls. Setning með kjarnafærslu hefði m.ö.o. yfirleitt verið góð og gild þótt kjarnafærslunni væri ekki beitt í henni, en færði liðurinn látinn vera kyrr á upphafsstað sínum. Liðir með spurnarorðum verða hins vegar venjulega að standa fremst í setningum, annars verða þær ótækar:
Stundum eru einstök orð, einkum fallhættir sagna og lýsingarorð, flutt fremst í setningu:
Þetta er kölluð stílfærsla og kemur eingöngu fyrir í setningum sem eru frumlagslausar í einhverjum skilningi, bæði aðalsetningum og aukasetningum. Hún er því algeng í tilvísunarsetningum, þar sem alltaf „vantar’ einhvern lið, og eins í <ópersónulegri þolmynd. Stílfærslan er valfrjáls eins og kjarnafærsla, en virðist ekki hafa það hlutverk að leggja áherslu á það sem fært er.
Þótt persónubeygð sögn sé oftast í öðru sæti í setningum eru til nokkrar setningagerðir með breyttri orðaröð þar sem sögnin stendur fremst. Þar má fyrst nefna beinar spurningar án spurnarorðs, þ.e. þær spurningar sem svara má með já eða nei. Þær hafa spurnarorðaröð:
Í boðhætti er sögnin ævinlega færð fram fyrir frumlagið og stendur því fremst í setningu:
Sögnin er einnig oft höfð fremst í svokallaðri frásagnarorðaröð (frásagnarumröðun). Sú orðaröð er nær eingöngu bundin við ritmál og er eins og nafnið bendir til einkum notuð í frásögnum af ýmsu tagi. Hún er annars vegar einkenni á stíl íslenskra fornsagna og frásagna sem eru skrifaðar í svipuðum stíl:
Hins vegar er þessi orðaröð algeng í nútíma blaðamáli:
Frásagnarorðaröð kemur yfirleitt ekki fyrir í upphafi frásagnar – ekki fyrr en í annarri málsgrein eða síðar, og er bundin við aðalsetningar. Hún er sjaldnast skyldubundin, heldur er venjulega hægt að nota sjálfgefna orðaröð í stað hennar.
Í grunnformi setninga (djúpgerðinni, baklægu gerðinni) stendur frumlagið fremst. Þó er algengt í breyttri orðaröð að frumlaginu sé „frestað’, þannig að það standi aftar í setningunni en það gerir í sjálfgefinni orðaröð. Þetta gerist t.d. oft ef frumlagið er fallsetning. Það fer yfirleitt ekki vel að láta slík frumlög standa fremst:
Þessar setningar eru mjög ankannalegar, og venjulega er frumlagið ekki látið standa fremst í þeim, heldur fært aftast í setninguna:
Slík færsla fallsetninga úr frumlagssæti eru kölluð fráfærsla. Hún dugir samt ekki ein og sér til að gera setningarnar eðlilegar. Eftir hana stendur persónubeygða sögnin nefnilega fremst, en það á hún aðeins að gera við vissar aðstæður, þ.e. í spurningum og frásagnarorðaröð. Ef þessar setningar eiga að vera spurningar eða koma fyrir í samfelldri frásögn þarf ekkert að gera, en eigi þetta að vera staðhæfingar þarf eitthvað að koma á undan sögninni. Það má t.d. gera með stílfærslu:
Algengast er þó að beita það-innskoti til að fylla upp í eyðuna eftir frumlagið, þ.e. setja orðið það í frumlagssætið:
Þótt það geti verið persónufornafn í hvorugkyni er hæpið að greina orðið sem fornafn í dæmum af þessu tagi, enda hefur það enga merkingu eða tilvísun, eins og sjá má af því að setningarnar merkja það sama hvort sem það er með eða ekki. Þetta það er nefnt gervifrumlag, en slíkir merkingarlausir liðir sem notaðir eru til eins konar uppfyllingar eru stundum kallaðir einu nafni leppar.
Þegar frumlag er óákveðið fer oft betur á því að láta það standa á eftir sögninni, og er þá talað um frestun óákveðins frumlags. Þá er það-innskoti venjulega beitt um leið til að sögnin standi ekki fremst.
Stelpa er í dyrunum
Það er stelpa í dyrunum
Frumlagsfrestun af þessu tagi, þar sem það kemur í frumlagssætið í staðinn, er algengust í svokölluðum tilvistarsetningum og gengur ekki þegar frumlagið er ákveðið:
Nafnliðir sem eru samsettir eða þungir, fara oft illa inni í setningu, og eru þá stundum færðir aftast í setninguna með frestun þungs nafnliðar. Þetta gildir einkum um andlög:
Þegar andlagi er frestað er ekki beitt það-innskoti, enda hefur sú frestun engin áhrif á stöðu sagnarinnar.
Færslurnar sem taldar eru í 7.4–7.9 hafa engin áhrif á málfræðileg vensl setningarliða, þ.e. hvaða málfræðilegu hlutverki færði liðurinn gegnir innan setningarinnar. Andlag heldur áfram að vera andlag þótt það sé fært fremst með kjarnafærslu, og frumlag er áfram frumlag þótt það sé fært aftur fyrir sögn með frestun óákveðins frumlags.
Færslur sem breyta málfræðilegum venslum eru þó til, og nefnast einu nafni nafnliðarfærslur. Sameiginlegt þeim er að þær færa nafnlið úr upphafsstað sínum (þeim stað þar sem hann er grunnmyndaður) og inn í tóman lið, þ.e. lið sem er „tómur’ í grunnformi setningarinnar. Færði liðurinn tekur þá að sér að gegna því málfræðilega hlutverki sem bundið er við lendingarstað hans.
Þekktasta nafnliðarfærslan er þolmynd. Í grunnformi þolmyndarsetninga er frumlagsliðurinn tómur en nafnliður í andlagssætinu:
Í yfirborðsgerð er það hins vegar nær undantekningarlaus krafa að setning hafi frumlag. Andlagsnafnliðurinn er því færður úr sæti sínu inn í tóman frumlagsliðinn og tekur að sér frumlagshlutverkið:
Nafnliðarfærslan breytir þannig málfræðilegum venslum setningarliðanna en hefur hins vegar engin áhrif á merkingarhlutverk þeirra. Þótt hið upphaflega andlag verði að frumlagi breytist það ekki þar með í geranda sem er hið dæmigerða merkingarhlutverk frumlags. Þess í stað heldur það áfram að vera þolandi, mark eða gegna hvaða öðru merkingarhlutverki sem það gegndi í andlagssætinu.
Sumar setningar eru kallaðar LIÐFELLDAR, því að liðir sem gera má ráð fyrir í grunnformi þeirra eru felldir brott í yfirborðsgerð. Þetta er algengast í hliðskipuðum setningum sem hafa einhverja liði sameiginlega. Þá er sameiginlegum orðum eða liðum iðulega sleppt í seinni setningunni, eins og hér er sýnt með svigum:
Það er kallað tengieyðing þegar sameiginlegum liðum (frumlagi og stundum einnig umsögn) er sleppt framan af seinni setningu(m) á þennan hátt. Stundum er sameiginlegu andlagi einnig sleppt úr seinni setningu(m) með tengieyðingu:
Einnig kemur fyrir að orð eða liðir – einkum sagnir – séu felld brott innan úr seinni setningu(m), og er það stundum kallað götun:
Þórunn hefur alltaf kosið kratana en Guðmundur (hefur) oftast (kosið) framsókn
Um íslenska setningafræði hefur geysimikið verið skrifað á undanförnum árum. Hér verða aðeins nefnd fáein grundvallarrit:
Björn Guðfinnsson. 1943. Íslenzk setningafræði. Ísafoldarprentsmiðja hf., Reykjavík.
Halldór Ármann Sigurðsson. 1992. Verbal Syntax and Case in Icelandic. In a Comparative GB Framework. Málvísindastofnun Háskóla Íslands, Reykjavík.
Höskuldur Þráinsson. 1979. On Complementation in Icelandic. Garland, New York.
Höskuldur Þráinsson. 1999. Íslensk setningafræði. 6. útgáfa. Málvísindastofnun Háskóla Íslands, Reykjavík.
Jakob Jóh. Smári. 1920. Íslenzk setningafræði. Bókaverzlun Ársæls Árnasonar, Reykjavík.