Greinar

Guðmundur Erlingsson
Slangur, slettur og tökuorð

1. Slangur

SLANGUR er orðfæri sem er nær eingöngu bundið óformlegu talmáli og er ekki viðurkennt sem ‘gott’ mál. Það er kraftmikið, hefur tilfinningalega skírskotun og er venjulega laust við viðkvæmni. Slangur er félagslegt fyrirbæri ekki síður en málfræðilegt og á oft rætur í máli ýmissa hópa í samfélaginu. Það er oft tengt ákveðnum tíðaranda og tísku og er því jafnan skammlíft. Hluti þess tekur sér þó bólfestu í almennum orðaforða og öðlast jafnvel viðurkenningu með tíð og tíma:

strætó, blokk, sjoppa, jeppi

Sum slangurorð lifa lengi í slangurorðaforðanum og virðast ekki ná annarri stöðu í málinu, ef til vill sökum þess að merking þeirra tengir þau athæfi eins og drykkjuskap og skemmtunum:

brennsi, partí, djúsa

Í slangri er málið jafnan sett fram af léttúð og oft fylgja ýkjur og gamansemi. Alvarleg og viðkvæm málefni sem sjaldan rata inn í formlega orðræðu fá kæruleysislega meðferð. Hlutir sem tengjast áfengi, kynlífi og peningum, svo eitthvað sé nefnt, fá jafnvel hálfgerð gælunöfn:

Eigum við að fá okkur einn öllara?
Panodilparið (=foreldrar daginn eftir skemmtun) er ekki beint í stuði í dag
Ég fékk mér í eina feita (=hasspípu)
Hann hlýtur að hafa fengið sér á broddinn í gær (=sofið hjá)
Geturðu lánað mér nokkra þúsara? (=þúsund krónu seðla)

Slangur brýtur af sér viðjar hefðbundins máls hvað varðar orðmyndun og orðatengsl og sýnir oft nýjar og óvæntar hliðar á tungumálinu. Það getur því átt þátt í endurnýjun tungumálsins á hverjum tíma.

1.1 Félagslegar uppsprettur slangurs

Slangur er ekki síst félagslegt fyrirbæri en stór hluti þess á rætur í máli ýmissa þjóðfélagshópa. Slíkir hópar koma sér gjarnan upp sérstöku orðfæri eða sérmáli sem fáir skilja til fullnustu aðrir en þeir sem hópnum tilheyra. Með líflegum samskiptum hópanna við ríkjandi menningu getur hluti af orðaforða þeirra náð almennari útbreiðslu, þar sem fólk þarf oft að tileinka sér fjölbreytilegan orðaforða til að samskipti við hvern hóp geti gengið snurðulaust. Þannig getur sérhæft tungutak náð inn í slangurorðaforðann. Slangur á sér einnig rætur í nýjungum og straumum í tækni, hugmyndum og menningu enda er það oft bundið ákveðnum tíðaranda eða tísku. Þróun slangurorðaforðans og endurnýjun hans er því hröð. Slangur blómstrar fyrst og fremst í margbreytilegu og fjölþættu samfélagi þar sem fjöldi undirhópa og menningarkima lifir góðu lífi, samskipti þeirra við ráðandi menningu eru lífleg og samfélagið er móttækilegt fyrir nýjungum í tækni, tísku og hugmyndum.

1.2 Útbreiðsla slangurs

Slangur er nær eingöngu bundið óformlegu talmáli og ný orð og orðfæri breiðist út í samskiptum manna á milli. En aðrir þættir en mannleg samskipti geta haft veruleg áhrif á útbreiðslu og uppbyggingu slangurorðaforðans. Fjölmiðlar eiga einna stærstan þátt í þróun slangurs og óformlegs talmáls. Á hverjum degi verður fólk fyrir áreiti frá alls kyns fjölmiðlum: útvarpi, sjónvarpi, dagblöðum og tímaritum. Hlutum eða atburðum sem efst eru á baugi hverju sinni geta fylgt ný orð og hugtök og þessi orð ná fljótlega inn í orðaforðann með endurtekinni umræðu. Sérhæft orðalag sem tíðkast innan eins þjóðfélagshóps getur þannig náð skjótri útbreiðslu og orðið hluti af slangri eða óformlegu talmáli.

1.3 Notkun slangurs

Unglingar nota slangur tvímælalaust meira en aðrir enda er oft talað um slangur sem unglingamál öðru fremur. Það er óaðskiljanlegur hluti af tungutaki unglinga og þeir eru duglegir við að þróa það og móta eftir sínum þörfum. Unglingar eru mitt á milli þess að vera börn og fullorðnir og eru í sífelldri leit að samastað í tilverunni, ef svo má að orði komast. Þessu fylgir gjarnan uppreisn gegn gildum í samfélagi fullorðinna og það kemur hvað greinilegast fram í tungumálinu. Slangur er gjarnan litið hornauga og það nýta unglingarnir sér óspart.

Fullorðnir nota slangur einnig í samskiptum, en á mun varfærnari hátt en unglingar. Þar skiptir mestu hverjir viðmælendurnir eru. Fólk notar frjálslegt orðfæri í samskiptum við kunningja eða sína nánustu, en við formlegri aðstæður breytist tungutakið í samræmi við þær. Slangurorðaforði hinna eldri er að miklu leyti annar en unglinganna. Slangur sem tengist tísku og hugðarefnum unglinga í dag er hinum eldri að mestu lokuð bók en þeir nota fremur orð sem tengjast þeirra eigin hugðarefnum, oft orð sem þeim eru töm frá unglingsárunum.

1.4 Hlutverk slangurs í samskiptum

Slangur hefur margvíslegt notagildi. Málnotandinn getur notað slangur til að falla betur inn í ákveðinn hóp samfélagsins sem honum þykir eftirsóknarverður eða vill eiga samskipti við. Með því sýnir hann einnig öðrum hverjum hann tilheyrir. Slangur felur einnig í sér félagslega spennu og uppreisn gegn ríkjandi gildum samfélagsins. Þetta er sérstaklega áberandi í máli unglinga, sem eru oft í hálfgerðri uppreisn gegn samfélagi fullorðinna og nota slangur óspart í þeim tilgangi. Í slangri birtist einnig félagsleg spenna á milli ákveðinna hópa, svo sem unglinga og fullorðinna, karla og kvenna, samkynhneigðra og gagnkynhneigðra. Ríki slík spenna í samskiptum hópa kemur hún jafnan fram í orðfæri, ekki síst slangri.

gagnkynhneigðir og samkynhneigðir: bakvörður, lessa
konur og karlar: legremba, karlpungur

Margar slangurorðabækur endurspegla orðfæri ungra, gagnkynhneigðra karla enda voru höfundarnir venjulega karlmenn sem þekktu þann hluta samfélagsins best. En slangur einskorðast þó engan veginn við þá eina, því hver þjóðfélagshópur notar slangur með sínum hætti og aðlagar það sínum þörfum. Konur nota slangur til dæmis á annan hátt en karlar og samkynhneigðir á annan hátt en gagnkynhneigðir.

1.5 Orðmyndun og orðaforði

Orðaforði slangurs er að miklu leyti myndaður með svipuðum aðferðum og tíðkast almennt í málinu þó orðmyndun sé ef til vill frjórri í slangrinu þar sem formlegri málgerðir eru í eðli sínu íhaldssamari. Algengt er að merkingarsviðum sé hnikað til þannig að orð sem fyrir eru í málinu séu túlkuð upp á nýtt eða fái jafnvel nýja merkingu. Til dæmis:

að pæla (í einhverju)
að spá(í einhvern/einhverja/eitthvað)
gras ‘maríjúana’ (fíkniefni)
kerra ‘bifreið’ (oft í jákvæðu samhengi: rosakerra o.s.frv.)

Athyglisvert er að lýsingarorð og atviksorð sem eru fremur neikvæðrar merkingar fá oft jákvæða merkingu þegar verið er að lýsa kostum hluta og mælandanum finnst þurfa að undirstrika lýsinguna enn frekar. Oftast fylgir þessu aukin áherslu og hækkun í rödd:

Mér finnst þetta alveg sjúklegt lag
Myndin var sjúklega góð
Það var alveg ógeðslega gaman
Það var geðveikt stuð í gær

Af sama meiði er það þegar hvorugkynsmyndir lýsingarorða eru notaðar sem atviksorð:

Þetta er ýkt gott
Ég var nett spældur
Það var alveg geðveikt gaman

Oft haldast merkingarbreytingar orða í hendur við hversu vel þau henta í kröftugu myndmáli:

Ég fíla þetta í tætlur
Ég fíla þetta í ræmur
að hafa eitthvað á tæru
að fá sér í ranann ‘taka tóbak/fíkniefni í nefið’

Myndlíkingar og myndhverfingar eru býsna algengar í slangri þar sem orðtök sem fyrir eru í málinu eru jafnvel túlkuð upp á nýtt:

að vera á felgunni ‘að vera ofurölvi’
að fá einn á lúðurinn ‘fá kjaftshögg’
að láta gamminn gjósa ‘fá sáðlát’
að skvetta úr klofinu ‘kasta vatni, fá sáðlát’

Athuga ber þó að útúrsnúningur á þekktum málsháttum eða orðtökum telst venjulega ekki til slangurs (þá er átt við málshætti og orðtök eins og: ‘þekkja eitthvað eins og handarkrikann á sér’, ‘bera í bakkafullann mælinn’ o.s.frv.). Oft eru orð stytt, hvort sem um er að ræða orð af erlendum uppruna eða innlend orð. Þessum orðmyndum svipar að miklu leyti til gælunafna, sbr. StefánStebbi, HrafnhildurHabbý, eða orða sem finnast mest í barnamáli, sbr. nefnebbi, klofklobbi. Þessar styttingar geta verið margskonar. Stundum er aðeins fyrsta atkvæðinu haldið, samhljóðið lengt og sérhljóði bætt aftan við:

fábjáni – fábbi
sífilis – siffi
lögregla – lögga

Einnig getur samhljóðið verið óbreytt:

fáviti – fávi
fábjáni – fábi
alkóhólisti – alki

Stundum er klippt framan af orðum og aðeins síðasta atkvæðinu breytt:

Chevrolet – letti
nitroglycerin – glussi

Líkingin við gælunafnamyndanir er athyglisverð ef skoðuð er aðlögun nokkurra erlendra vöruheita í slangri og óformlegu talmáli:

Macintosh – makki
GMC – gemsi
GSM – gemsi
PC (Personal Computer) – pési

Enda þótt orðmyndun sé virk í slangri er hún frábrugðin þeirri sem tíðkast í formlegra máli og í lærðri orðmyndun. Í slangri virðist hlutfall ósamsettra nýmyndana mjög hátt eða um 50%, sem er mun hærra hlutfall en í lærðri orðmyndun. Hins vegar er hlutfall samsettra orða mun lægra í slangri en í lærðri orðmyndun, en hlutfall afleiddra orða ögn hærra (Sigurður Jónsson, ÍSLENSKT MÁL, 6.tbl.). Allmörg viðskeyti eru virk í slangurorðmyndun sem eru lítt eða ekki virk í lærðri orðmyndun:

-ari: töffari, flippari, djókari
-elsi: svekkelsi, hjásofelsi, klikkelsi
-heit: töffheit, flottheit
-ir: tryllir, kuntuþeysir
-ill: fíkill, bleðill
-ing: pæling, spæling, fílingur
-ismi: egóismi, sadismi, masókismi
-isti: hassisti, dópisti, kókisti
-ó: strætó, halló, sadó, masó, Réttó, Patró, Sigló
-rí: dílerí, skytterí, gotterí
-ska: ljóska, aronska
-ull: sköndull, göndull
-un: klikkun

Skammstafanir má finna í slangri og oft eru þær notaðar til að fela vafasöm eða dónaleg orð:

BFG – (Brundfyllisgremja)
F. jú – (fokk jú ‘farðu til fjandans’)
Haltu K.J. – (haltu kjafti)
algjör T.U. – (algjör tussa)

1.6 Slettur í slangri

Stór hluti slangurorðaforðans er af erlendum uppruna. Langflest þessara orða teljast til slettna og eru tiltölulega skammlíf í málinu. Slettur eru alla jafna sprottnar úr líkum jarðvegi og slangrið. Sletturnar sem finna má í slangri eru sérstakar að því leyti að stór hluti þeirra er fenginn að láni úr erlendu slangri. Tökuslangrið, ef svo má að orði komast, gengur þá beint inn í slangurorðaforðann án þess að staldra við annars staðar í málinu. Sletturnar koma að mestu úr ensku, sérstaklega í gegnum kvikmyndir og sjónvarp þar sem áhorfendur heyra slangrið notað í sínu rétta umhverfi og geta líkt eftir því. Sletturnar fylgja einnig tónlist og menningu sem henni tilheyrir. Slangur er óspart notað í erlendum popptextum en popptónlistarmenn eru einnig ósparir á að viðra skoðanir sínar og viðhorf í viðtölum í fjölmiðlum og móta þannig þá orðræðu sem tengist popptónlistinni. Slettur ná einnig inn í slangurorðaforðann eftir ‘hefðbundum’ leiðum, þ.e. í gegnum ýmis sérmál og fagmál.

2. Slettur

Slettur eru orð af erlendum uppruna sem notuð eru í íslensku en njóta ekki viðurkenningar í málinu líkt og tökuorð. Margar slettur ná ekki að aðlagast hljóð- og/eða beygingakerfi íslenskunnar að fullu og bera jafnan með sér uppruna sinn og taka jafnvel ekki beygingu svo vel sé:

Þetta er sko tú möts (e. too much)
Smart frakki!
Þessi steik er djúsí (e. juicy)
Ókei, bæ!

Aðrar slettur aðlagast íslenskunni auðveldlega, sérstaklega ef þær líkjast einhverjum íslenskum orðum eða falla vel að ákveðnum beygingarflokki:

Ég held að hann sé að feika þetta (sbr. að reika)
Viltu rétta mér mækinn (‘hljóðnemann’; sbr. lækur, þf. með greini lækinn)

Slettur tengjast venjulega tískustraumum og nýjungum ýmiss konar og eru því flestar skammlífar. Sumar þeirra endast þó lengur en aðrar og fá stundum viðurkenningu sem tökuorð. Slettur eru að þó nokkru leyti sprottnar úr sama jarðvegi og slangur og eru nær eingöngu bundnar við orðaforða.

2.1 Uppruni slettna

Ef skoðuð eru mismunandi tímabil Íslandssögunnar má sjá að erlend orð fylgja erlendum menningarstraumum og breytingum sem þeim fylgja. Með kristninni á 10. og 11. öld fylgdi fjöldi orða úr latínu og fleiri málum sem tengdust kirkju og kristni. Sem dæmi má nefna:

klaustur < lat. claustrum
prestur < lat. presbyter < gr. presbýteros
abbadís < lat. abbatissa

Þessi orð eru fullgild í íslensku, en gera má ráð fyrir að í upphafi hafi þau verið til í ýmsum myndum sem nokkurs konar slettur áður en þau aðlöguðust fyllilega íslenskunni. Frá því um 1600 og fram á miðja tuttugustu öld komu flestar slettur og tökuorð úr eða í gegnum dönsku. Á 16., 17. og 18. öld var það háttur mennta- og embættismanna að sletta dönskum og latneskum orðum í ræðu og riti. Danskar slettur voru algengar fram á miðja þessa öld þó flestar þeirra séu nú horfnar úr málinu:

komfílotta ‘umslag’
fortó ‘gangstétt’
parruk ‘hárkolla’
kokkhús ‘eldhús’
altan ‘svalir’

Á okkar dögum koma slettur svo að segja eingöngu úr ensku eða í gegnum hana. Enska er alþjóðlegt tungumál í dag og oftast fylgja ensk orð og hugtök nýjungum í tækni og menningu þó upprunalandið sé e.t.v. ekki enskumælandi. Kvikmyndir og sjónvarpsþættir sem sýndir eru hér á landi eru einnig mestmegnis á ensku og svipaða sögu má segja um dægurlög.

2.2 Hlutverk og notagildi slettna

Slettur hafa í flestum tilvikum umtalsvert notagildi og fólk slettir sjaldnast til þess eins að sletta. Oft eru þetta orð yfir fyrirbæri sem fólk þekkir vel og stundum eru ekki til samsvarandi íslensk orð. Þetta á til dæmis við um orð sem tengjast nýjungum í tækni og tísku en þegar breytingar eru örar reynist málhöfunum oft erfitt að halda í við þær og finna ný íslensk orð jafnharðan. Ef erlend orð sem nýjungunum fylgja verða mönnum fljótt töm eiga íslensk nýyrði erfitt uppdráttar. Einnig eru til slettur sem hafa ekki mikið notagildi en eru fremur hafðar til skrauts í málinu. Þær eru notaðar til að lífga upp á málið og skapa óvænt samhengi, eða til að kalla fram viðbrögð. Þetta er líklega mest áberandi í máli unglinga. Oft er um að ræða frasa og upphrópanir sem fólk grípur úr kvikmyndum eða sjónvarpsþáttum.

Dísus kræst, maður (e. Jesus Christ)
Sjitt, þetta fór alveg með mig (e. shit)
Bless bless, gadagó (e. got to go)

2.3 Útbreiðsla slettna

Áhrif erlendra menningarstrauma eru rík í íslensku samfélagi og því má finna slettur á flestum sviðum þess. Þær finnast iðulega í fagmáli, en í flestum starfsgreinum þurfa menn að tileinka sér nýja tækni og orðaforða henni tengdan. Þær koma mikið fyrir í máli langskólagenginna enda er það fólk vant að lesa fræðibækur á erlendum málum, auk þess sem margir hafa hlotið menntun sína erlendis. Notkun slettna í máli menntamanna virðist í og með vera félagslegs eðlis, því að með því að nota slettur sýnir mælandinn að hann er vel menntaður og víðlesinn. Unglingar nota slettur einnig mikið og fara oftast mun frjálslegar með þær en þeir sem eldri eru. Unglingar eru enda opnir fyrir nýjungum og óhræddir við að nota ný og nýstárleg orð til að brjóta upp orðræðuna og kalla fram viðbrögð hjá viðmælandanum. Orðfæri sem tengist popptónlist og kvikmyndum birtist fremur í máli þeirra en hinna fullorðnu enda er markaðssetningunni fyrst og fremst beint að unglingum. Stundum nota þeir orð og heilar setningar eða setningahluta sem eiga uppruna sinn í kvikmyndum og dægurlögum.

Að auki má nefna að slettur eru gjarnan notaðar sem stílbragð í skáldskap. Halldór Laxness notaði slettur talsvert í sínum skrifum, og í bókum sem fjalla um unglinga og ungt fólk eru slettur talsvert notaðar þar sem þær eru stór hluti af málfari þeirra og því nauðsynlegar til að skapa trúverðugan stíl.

2.4 Aðlögun slettna að íslensku

Flestar slettur aðlagast íslensku hljóðkerfi að einhverju marki, eins og þegar hljóð sem ekki finnast í íslensku hljóðkerfi eru íslenskuð, til dæmis verður e. juice að ísl. djús. Hins vegar er ekki eins víst að slettan lagi sig að beygingarkerfi íslenskunnar. Í raun er ekki auðvelt að benda á ákveðnar reglur í þessu samhengi, en þessar eru helstar: Sagnorð fá alltaf íslenska nafnháttarmynd og fulla beygingu:

e. dis (stytting á e. disrespect) > ísl. dissa
e. flip > ísl. flippa
e. download > ísl. dánlóda

Lýsingarorð breytast lítið og stigbreytast jafnvel ekki:

Fötin eru frekar plein (e. plain ‘venjulegur’)
Söngvarinn er rosalega væld á sviði (e. wild ‘villtur’)
Þetta er soldið trendí (e. trendy ‘tollir í tísku’)
Stelpan er bara soldið kjút (e. cute ‘sætur’)
Ég er bara alveg lost (e. lost ‘týndur, áttavilltur’)

Lýsingarorð og lýsingarhættir falla misjafnlega að íslenskunni. Lýsingarhættir fá fallbeygingu og stigbreytingu eins og í íslensku:

stressaður
dópaður
flippaður
fríkaður

Nafnorð fá oftast íslenska beygingu. Þar sem aðeins er eitt málfræðilegt kyn í ensku er athyglisvert að skoða hvaða kyni slettum og tökuorðum er úthlutað í íslensku. Algengt virðist vera að orðin lendi í hvorugkyni sem er tiltölulega hlutlaust enda má segja að orðin beri það kyn með sér. Sérstaklega virðist þetta eiga við um einkvæð orð:

breik ‘hlé’
tripp ‘eiturlyfjavíma’
sánd ‘hljóð, hljómur’
beib ‘falleg kona’

Í sumum tilfellum ræður hljóðfræðilegt form orðanna, t.d. ef endingar eiga vel við eitt ákveðið kyn. Einnig getur merking haft sitt að segja, til dæmis ef hlutur sem orðið er notað um tengist einu kyni fremur öðrum:

Karlkynsorð: pródúser, bömmer, lúser, terror
Kvenkynsorð: grúpía, paranoja, strípa (strípur)

Ennfremur eru allnokkur orð sem flakka á milli kynja, en þar geta merkingartengsl haft áhrif í einstaka tilfellum:

lúpp, hk. – lúppa, kv. ‘stuttur hljóðbútur sem festur er á band og síendurtekinn’
beib, hk/kv. ‘falleg og vel vaxin ung kona’ (oftast notað í hk. en stundum heyrist orðið notað sem kvenkynsorð, sbr. „hún er algjör beib“, sjálfsagt vegna merkingartengsla)
djók, hk. – djókur, kk. ‘brandari, spaug’

2.5 Slettur og íslensk tunga

Slettur eru jafnan litnar hornauga og margir eru þeirrar skoðunar að þær fari illa í málinu. Enn aðrir telja slettur auðga málið og skapa meiri fjölbreytni í orðaforðanum. Sú stefna hefur verið ríkjandi á Íslandi að mynda nýyrði í stað erlendra orða. Í mörgum tilvikum hefur þetta tekist og erlendu orðin hafa horfið úr málinu en þau íslensku lifa. Þó hafa margar slettur náð að festa rætur og eru nú viðurkenndar sem tökuorð í málinu.

3. Tökuorð

Tökuorð eru orð af erlendum uppruna sem hlotið hafa viðurkenningu í málinu sem góð og gild. Þau eru venjulega aðlöguð íslensku hljóð- og beygingarkerfi að meira eða minna leyti. Mörg tökuorð hafa lifað í nokkurn tíma í málinu sem slettur áður en þau ná almennri viðurkenningu.

3.1 Kostir tökuorða

Tökuorð hafa oftast sérhæfða notkun og merkingu. Þau eru venjulega notuð yfir hluti eða hugtök sem eiga sér erlendan uppruna og hafa jafnan fylgt þessum fyrirbærum til landsins. Ef ekki næst samstaða málhafa um notkun á innlendu orði, nær erlenda orðið jafnan yfirhöndinni og hlýtur smátt og smátt viðurkenningu sem tökuorð í íslensku. Tökuorð geta haft ýmsa kosti framyfir íslenskar nýmyndanir. Tökuorðin hafa venjulega unnið sér ákveðinn sess í talmálinu áður en þau ná viðurkenningu og eru mönnum því oft töm í munni. Sum þeirra eru einnig þjálli en samsvarandi íslensk nýyrði, sérstaklega ef um er að ræða ósamsett tökuorð andspænis samsettum nýyrðum. Auk þess eru mörg tökuorð alþjóðleg og eru því oft notuð til að auðvelda mönnum alþjóðleg samskipti.

3.2 Aðlögun að íslensku

Velflest tökuorð laga sig að íslensku málkerfi. Sú aðlögun fer fram með tvennum hætti, annars vegar aðlögun að hljóðkerfi málsins en hinsvegar að beygingarkerfi þess. Hljóðkerfi íslenskunnar er auðvitað í mörgu frábrugðið hljóðkerfi annarra mála. Í íslensku eru hljóð sem finnast ekki í þeim málum sem fengið er að láni úr og öfugt. Til dæmis verða rödduð lokhljóð í ensku órödduð í íslensku þar sem slík hljóð eru ekki til í málinu. Að auki eru ýmis blístur- og sleppihljóð sem eru ekki í íslensku.

e. shop > sjoppa
e. jeep > jeppi

Nafnorðin fá einnig kyn (ef það á við) og viðeigandi beygingarendingar. Annars gildir margt hið sama um aðlögun tökuorða og aðlögun slettna að íslensku.

3.3 Framandleg tökuorð

Nokkur fjöldi tökuorða í íslensku ber uppruna sínum glöggt vitni þar sem þau hafa ekki aðlagast hljóð- eða beygingarkerfi málsins. Flest tökuorð eða slettur eru felld að einhverju ákveðnu munstri sem fyrir er í málinu: þau fá beygingarendingar og kyn við hæfi og hljóð sem ekki eiga heima í íslensku hljóðkerfi aðlagast því. Sum tökuorð falla hins vegar ekki að neinu þekktu munstri og eru því alltaf framandleg. Það eru jafnan ákveðnar hljóðasamsetningar eða hljóð í ákveðinni stöðu innan orðs sem gera þetta að verkum. Oft felst þetta í endingum orðanna. Samkvæmt íslensku hljóðkerfi geta aðeins ‘a’, ‘i’ og ‘u’ staðið í áhersluleysi í ósamsettum orðum í íslensku. Þetta þýðir að ósamsett tveggja eða þriggja atkvæða orð hafa jafnan eitt þessara þriggja hljóða í síðasta atkvæðinu. Það skýrir hvers vegna tökuorð sem hafa aðra sérhljóða en þessa þrjá í þessari stöðu hljóma framandi:

glimmer, píanó, kakó, sellerí

Við þetta bætist að í orðum sem eru lengri en eitt atkvæði sjást ákveðnir samhljóðar aðeins í enda tökuorða. Þetta eru m.a. ‘p’, ‘t’ og ‘k’:

sinnep, biskup, klíník, element

3.4 Tökuorð eða nýyrði?

Á Íslandi hefur lengi verið ríkjandi sú stefna að láta íslensk nýyrði leysa af hólmi orð af erlendum uppruna. Oftast beinist þessi stefna fyrst og fremst að orðum sem nýleg eru í málinu eða hafa ekki aðlagast íslenskunni. Nýyrðastarfið fer mest fram á vegum ÍSLENSKRAR MÁLNEFNDAR og á vegum hennar eru starfandi íðorðanefndir sem vinna að nýyrðasmíð í ýmsum starfsgreinum. Oft ber nýyrðasmíðin árangur þannig að íslensk orð taka við af þeim erlendu:

áttaviti (eldra: kompás)
strokleður (eldra: viskaleður)
ál (eldra: alúmíníum)

Önnur nýyrði hafa ekki haft erindi sem erfiði og erlendu orðin ná fótfestu:

árveig (=bitter)
mil (=kakó)
milska (=súkkulaði)
yman (=píanó)
slagharpa (=píanó)
tengsli (=kúpling)

Menn greinir á um hversu langt skuli ganga í þessum efnum. Sumir vilja að nýyrði leysi nánast öll tökuorð af hólmi en aðrir telja tökuorð aðeins auðga málið og gefa mönnum færi á að orða hugsun sína á fleiri en einn veg. Einnig hefur verið bent á að útrýming tökuorða sem eru gömul í málinu geti torveldað skilning manna á eldri málstigum íslenskunnar.

Heimildaskrá

Allen, I. L. 1994. Slang: Sociology. R.E. Asher, ritstj.: The Encyclopedia of Language and Linguistics. Volume 7, bls. 3960–3964. Pergamon Press.

Atoon, Patrick og Niels Janssen. 1992–2000. The Totally Unofficial Rap Dictionary. Slóð: http://www.rapdict.org/

Flexner, Stuart Berg. 1967. Formáli að Dictionary of American Slang. George G. Harrap & Co. Ltd.

Halldór K. Laxness. 1968. Kristnihald undir jökli. Helgafell, Reykjavík.

Hallgrímur Helgason. 1997. 101 Reykjavík. 2. útgáfa (kilja). Mál og Menning, Reykjavík.

Helgi Hálfdanarson. 1985. Skynsamleg orð og skætingur. Greinar um íslenzkt mál.. Ljóðhús, Reykjavík.

Kjartan Ottóson. 1990. Íslensk málhreinsun. Rit íslenskrar málnefndar 6. Íslensk málnefnd, Reykjavík.

Mörður Árnason, Svavar Sigmundsson og Örnólfur Thorsson. 1982. Orðabók um slangur slettur og bannorð og annað utangarðsmál. Svart á hvítu, Reykjavík.

Partridge, Eric. 1970. Slang to-day and yesterday. Routledge and Kegan Paul. London 1993–1996.

Slang. Microsoft Encarta 97 Encyclopedia. (Geisladiskur) Microsoft Corporation.

Slang. Compton's Interactive Encyclopedia. (Geisladiskur). Softkey, London.

Sigurður Jónsson. 1984. Af hassistum og kontóristum. Íslenskt mál og almenn málfræði bls. 155–165. Íslenska málfræðifélagið, Reykjavík.

Sigþrúður Gunnarsdóttir. 1997. Fullgild tökuorð eða slettur? Viðtal við Ástu Svavarsdóttur og Guðrúnu Kvaran. Sæmundur á selnum. 3. tbl. 2. árg. bls. 16–19. Háskóli Íslands, Reykjavík.

Þórunn Blöndal. 1993. Málgagn. Kennslubók í málnotkun. Mál og menning, Reykjavík.