Greinar

Ásta Svavarsdóttir og Eiríkur Rögnvaldsson
Orðflokkar

1. Skipting orða í orðflokka

Orð tungumálsins hafa mismunandi eiginleika og haga sér á mismunandi hátt, t.d. í sambandi við önnur orð. Þeim er skipt í orðflokka eftir sameiginlegum einkennum þeirra og eiginleikum. Það sem einkum skiptir máli er:

  • Hvort þau beygjast og þá hvernig
  • Hvar þau geta staðið í setningum og með hvaða orðum
  • Hvers konar merkingu þau hafa

Oft er hægt að styðjast við öll þessi einkenni og yfirleitt hníga þau öll í sömu átt þannig að ekki leikur vafi á því hvaða flokki tiltekið orð tilheyrir. Stundum er þeim þó ekki öllum til að dreifa. Ýmis smáorð eru t.d. óbeygjanleg og snauð að merkingu en þau skiptast eigi að síður í nokkra orðflokka eftir setningarlegum einkennum. Einnig eru ýmis markatilvik þar sem vafi getur leikið á um greininguna.

Í íslensku er yfirleitt gert ráð fyrir eftirtöldum orðflokkum:

nafnorð (no.)
lýsingarorð(lo.)
fornöfn (fn.)
töluorð (to.)
sagnir (eða sagnorð) (so.)
forsetningar (fs.)
atviksorð (ao.)
samtengingar (st.)
upphrópanir (uh.)

Auk þess standa tvö stök orð utan þessara flokka. Þau eru stundum talin sérstakur orðflokkur hvort um sig jafnvel þótt svolítið hæpið sé að kalla eitt einasta orð flokk.

greinir (gr.)
nafnháttarmerki (nh.)

Oft er þessum ellefu flokkum skipt í þrjár meginfylkingar eftir beygingarlegum einkennum orðanna:

Þar sem orðin innan hvers þessara meginflokka hafa í aðalatriðum sömu beygingarlegu einkenni þurfa merkingarleg og setningarleg einkenni að koma til við aðgreiningu undirflokkanna. Merkingin gefur yfirleitt ákveðnar vísbendingar en vegna þess hversu huglæg hún er getur verið erfitt að treysta á hana eina og setningarlegu einkennin gefa yfirleitt traustari rök við orðflokkagreininguna. Skipting sumra orðflokka, t.d. samtenginga, atviksorða og fornafna, í ýmiss konar undirflokka byggir þó fyrst og fremst á merkingarlegum einkennum.

Málnotendur finna yfirleitt hvaða flokki orð tilheyrir ef þeir heyra það notað í samhengi, jafnvel þótt þeir hafi aldrei heyrt það fyrr og skilji ekki merkinguna, a.m.k. ekki til fulls. Sá sem þekkir ekki orðið grjúpán (sem merkir ‘bjúga’) finnur strax að það er nafnorð ef hann heyrir setninguna „Stóra GRJÚPÁNIÐ er skemmt“. Hann ræður það af mynd orðsins (beygingarleg einkenni) og stöðu þess og umhverfi í setningunni (setningarleg einkenni) að þetta sé nafnorð í hvorugkyni þótt hann viti ekki annað um merkingu þess en að það vísi til einhvers sem getur skemmst.

Orðflokkarnir eru mjög misstórir, allt frá einstöku orði (ef hægt er að kalla þau flokk), s.s. greininum, og upp í óendanlegan fjölda orða, t.d. nafnorð. Annað atriði tengist líka stærð flokkanna. Sjaldgæft er að ný orð bætist í litlu flokkana og orðafjöldinn í þeim er nokkurn veginn endanlegur, t.d. er tiltölulega auðvelt að telja upp öll fornöfn, forsetningar eða samtengingar í íslensku. Þetta eru því stundum kallaðir lokaðir orðflokkar. Stóru flokkarnir – einkum nafnorð, sagnir og lýsingarorð – eru aftur á móti opnir fyrir nýjungum og í þá bætast stöðugt ný orð, bæði nýyrði og tökuorð. Þeir hafa því verið nefndir opnir orðflokkar.

2. Einkenni einstakra orðflokka

2.1 Nafnorð

NAFNORÐ eru heiti eða nöfn á einhverju (merkingarleg einkenni). Þau vísa til lifandi vera (maður, hestur), hluta (penni, steinn), verknaða (lestur, dans) og ýmiss konar annarra áþreifanlegra og óáþreifanlegra fyrirbæra (vatn, silki; draumur, ást). Nafnorð sem eru eiginnöfn eða sérheiti einstaklings, skepnu, staðar, fyrirtækis o.s.frv. kallast sérnöfn en nafnorð sem vísa almennt til tegundar eða fyrirbæris eru kölluð samnöfn.

Nafnorð hafa þau setningarlegu einkenni helst að þau eru aðalorðið (og oft eina orðið) í svonefndum nafnliðum, setningarhlutum sem mynda frumlög og andlög sagna og eru fylliorð forsetninga:

JÓHANNES (frumlag) málaði (so.) MYNDINA (andlag)
MYNDIN (frumlag) er fremst í (fs.) BÓKINNI

Auk þess geta þau tekið með sér ýmis ákvæðisorð, svo sem lýsingarorð, töluorð og fornöfn, sem mynda setningarlið með nafnorðinu og sambeygjast því:

Jóhannes málaði [þessa (fn.) fallegu (lo.) MYND]
[Fallegasta (lo.) MYNDIN] er fremst í [hinni (fn.) rauðu (lo.) BÓKINNI]

Loks má telja hér eitt aðaleinkenni nafnorða, að þau geta tekið með sér greini, bæði viðskeyttan greini og lausan:

málari ~ málarinn ~ hinn mikli málari
mynd ~ myndin ~ hin fagra mynd
bók ~ bókin ~ hin þekkta bók

Þetta er eitt óbrigðulasta einkenni nafnorða. Sérnöfn bæta þó sjaldnast við sig greini og einungis í mjög afmörkuðum tilvikum.

Beygingarleg einkenni nafnorða eru fall- og tölubeyging en þær eiga þau sameiginleg með öðrum fallorðum. Auk þess hafa nafnorð kyn, en það er eðlislægur þáttur þeirra fremur en eiginleg beyging. Sérhvert nafnorð er því karlkyns (strákur, skóli), kvenkyns (stelpa, taska) eða hvorugkyns (barn, ljós) og það breytist ekki eftir umhverfi eða aðstæðum.

2.2 Lýsingarorð

LÝSINGARORÐ greina frá einkennum eða eiginleikum einhvers (merkingarleg einkenni), t.d. útliti þess, hegðun eða áhrifum:

Ég keypti mér SÍÐA, SVARTA kápu
Stelpan er ÓÞEKK
Þetta er SKEMMTILEG saga

Setningarleg einkenni lýsingarorða eru einkum þrenns konar: Í fyrsta lagi standa þau sem ákvæðisorð með nafnorðum og mynda setningarlið með þeim. Í öðru lagi sambeygjast þau nafnorðinu sem þau standa með. Og í þriðja lagi geta þau sjálf tekið með sér atviksorð sem ákvæðisorð (hornklofarnir afmarka setningarliði):

Strákurinn á [STÓRAN, SVARTAN kött (no.)] (kk.þf.et.)
Strákurinn heldur á [STÓRUM, SVÖRTUM ketti (no.)] (kk.þgf.et.)
Kötturinn er [mjög (ao.) STÓR]

Lýsingarorð hafa í stórum dráttum sömu beygingarlegu einkenni og önnur fallorð. Þau beygjast í tölu, kyni og falli. Þar að auki hafa þau svokallaða sterka og veika beygingu, þ.e.a.s. mismunandi myndir eftir setningarumhverfi og merkingu:

Þarna er STÓR strákur (sterk beyging; no. án greinis)
Þarna er STÓRI strákurinn (veik beyging; no. með greini)

Loks stigbreytast langflest lýsingarorð:

Hvíta taskan er ÞUNG (frumstig), rauða taskan er ÞYNGRI (miðstig) en sú svarta er ÞYNGST (efsta stig)

2.3 Fornöfn

FORNÖFN eru lokaður orðflokkur. Nafn sitt dregur hann af því að oft geta fornöfn staðið FYRIR NAFNORÐ eða réttara sagt nafnliði. Það á reyndar alls ekki við um öll fornöfn því mörg þeirra hafa fremur stöðu ákvæðisorðs innan nafnliða, líkt og lýsingarorð eða töluorð. Fornöfn eru því ýmist sérstæð eða hliðstæð (hornklofarnir afmarka nafnliðina):

Ú] mátt ekki gera [ÞETTA] (sérstæð)
[HVAÐA rithöfundur (no.)] skrifaði [ÞESSA bók (no.)]? (hliðstæð)

Algengt er að sérstæð fornöfn taki með sér ákvæðisorð eða ákvæðisliði, t.d. nafnorð eða fornafn í eignarfalli, forsetningarlið eða tilvísunarsetningu:

[SUMIR krakkanna (no.)/þeirra (fn.)] eru búnir með verkefnið
[HVERJIR af krökkunum] eru búnir núna?
EIR sem eru búnir] mega fara heim

Staða fornafna í setningum er auðvitað eitt helsta setningarlega einkennið á þeim en mörg þeirra gegna líka ákveðnu hlutverki eða haga sér á tiltekinn hátt innan setninga.

Fornöfn hafa mörg hver ekki eiginlega merkingu í sama skilningi og t.d. nafnorð því þau hafa ekki fasta tilvísun heldur fremur það sem kallað er bendivísun. Orðið þú vísar t.d. ekki til einstaklings úr ákveðnum hópi eða með tiltekna eiginleika eins og t.d. ‘smiður’ eða ‘frekjuhundur’ heldur vísar það til þess sem talað er við hverju sinni. Tilvísunin er því á vissan hátt fljótandi. Svipuðu máli gegnir um orð eins og þessi og hinn svo nefnd séu dæmi um fornöfn sem oftast eru hliðstæð. Annars gegna fornöfn ýmiss konar merkingarlegum hlutverkum innan setninga eða stærri textaheilda og þeim er venjulega skipt í nokkra flokka eftir merkingarlegum og setningarlegum einkennum sínum.

Beygingarleg einkenni allra fornafna eru í meginatriðum hin sömu. Þau eru fallorð og beygjast samkvæmt því í kyni, tölu og falli. Hitt er annað mál að formlega er beyging margra þeirra talsvert óregluleg.

PERSÓNUFORNÖFN (pfn.) (ég, þú, hann/hún/það) vísa til einhvers sem annaðhvort hefur verið nefnt áður eða sem viðstaddir geta vitað hver eða hvað er vegna samhengis, aðstæðna eða sameiginlegrar reynslu og kunnáttu. Þau eru næstum alltaf sérstæð:

ÉG er kominn (ég = sá sem talar)
Þ megið fara (þið = þeir sem talað er við)
Bókin er mjög góð enda er HÚN uppseld (hún = bókin)
HANN er að svæfa krakkana (hann = einhver sem viðstaddir þekkja eða eru búnir að minnast á áður)

EIGNARFORNÖFN (efn.) (minn, þinn, vor) eru yfirleitt alltaf hliðstæð. Þau standa oftast á eftir orðinu sem þau fylgja en geta líka í vissum tilvikum staðið á undan því. Merkingarlega vísa þau til þess sem á eða hefur umráð yfir því sem meðfylgjandi nafnorð táknar. Vísunin er þó ekki föst heldur hafa þau bendivísun eins og mörg önnur fornöfn:

[Penninn (no.) MINN] er týndur (minn = þess sem talar)
Passaðu [ÞINN penna (no.)] vel (þinn = þess sem talað er við)

Orðið sinn hefur líka oft verið talið til eignarfornafna en það gegnir jafnframt sérstöku hlutverki sem afturbeygt fornafn.

AFTURBEYGÐ FORNÖFN (afn.) í íslensku eru nátengd persónu- og eignarfornöfnum og í raun mætti eins vel tala um afturbeygða persónufornafnið sig og afturbeygða eignarfornafnið sinn. Merkingarlegt hlutverk þessara orða og hegðun þeirra í setningum skipar þeim þó í sérstakan flokk. Þau er það sem kalla mætti „afturvísandi“, þ.e.a.s. þau hafa sömu tilvísun og nafnorð eða fornafn sem kemur fyrir framar í setningu og vísar því á vissan hátt aftur í það. Þetta hefur líka verið kallað samvísun:

María málaði SIG (sig = Maríu sjálfa)
María missti varalitinn SINN (sinn = Maríu sjálfrar)

ÁBENDINGARFORNÖFN (áfn.) (, þessi, hinn) draga nafn sitt af því að þau eru m.a. notuð til að afmarka eða benda á eitthvað. Þau eru ýmist hliðstæð ákvæðisorð með nafnorði og standa þá á undan því líkt og lýsingarorð (en á undan lýsingarorði ef það er einnig í nafnliðnum) eða þau eru sérstæð. Þótt fornafnið sé oftast notað sérstætt sem aðalorð (eða höfuð) nafnliðar stendur það sjaldnast eitt sér því yfirleitt tekur það með sér e.k. fyllilið, oft tilvísunarsetningu:

ESSI tölva (no.)] er ónýt en [HIN (tölvan)] er í lagi
[SÁ sem kemur fyrstur] má eiga [ÞESSI gómsætu (lo.) vínber (no.)]

Nokkur fornöfn (sjálfur, samur, slíkur, þvílíkur) hafa stundum verið kölluð ÓÁKVEÐIN ÁBENDINGARFORNÖFN. Merkingarlegt hlutverk þeirra er svipað og ábendingarfornafna en þau eiga líka sitthvað sameiginlegt með óákveðnum fornöfnum sem eru sérstakur flokkur.

SPURNARFORNÖFN (sfn.) (hver, hvor, hvaða) eru notuð í spurningum og svara til þess liðar spurningarinnar sem spurt er um. Setningarlegt hlutverk þeirra er því hið sama og hans en eigi að síður stendur spurnarfornafnið ævinlega fremst í setningunni eða sem tengiorð á setningamörkum, milli aðal- og aukasetningar. Spurnarfornöfnin eru ýmist sérstæð eða hliðstæð, en hvaða er þó eingöngu hliðstætt:

[HVER] kláraði súpuna? (Svar: PALLI (kláraði hana))
[HVORA ykkar] get ég beðið um að hjálpa mér? (Svar: (Þú getur beðið) MIG)
[HVAÐA fýla] er þetta? (Svar: (Þetta er) TÁFÝLA)
Kennarinn spurði [HVER hefði sett teiknibólu í stólinn]

ÓÁKVEÐIN FORNÖFN (ófn.) (einhver, enginn, hvorugur, báðir o.fl.) eru stærsti fornafnaflokkurinn. Þau eru ýmist sérstæð eða hliðstæð og í síðara tilvikinu standa þau yfirleitt fremst í nafnlið, á undan öllum öðrum fornöfnum, tölu- og lýsingarorðum. Merkingarlega eru þessi fornöfn nokkuð sundurleit. Sum þeirra hafa óákveðna merkingu, t.d. einhver, önnur tákna mismikinn hluta af heild, t.d. allirsumirenginn, báðirannarhvorugur, og tiltekin sambönd hafa gagnverkandi merkingu, t.d hvor/hver annan:

Hefur [EINHVER] hringt?
[SUMIR krakkar (no.)] koma alltaf of seint
Ég hef hitt [HVORUGAN þeirra] áður

2.4 Töluorð

Merkingarlegt hlutverk TÖLUORÐA er skýrt því þau tákna nákvæman fjölda einhvers (frumtölur eða hrein töluorð) eða stöðu þess í röð (raðtölur):

Viltu kaupa TVO lítra af mjólk og ÞRJÚ epli
Einar var FJÓRÐI í mark

Oftast eru töluorð hliðstæð ákvæðisorð með nafnorði en geta þó líka verið (sérstæð. Hliðstæð töluorð standa yfirleitt á undan nafnorðinu sem þau eiga við og ef fornöfn og lýsingarorð eru í sama nafnlið stendur töluorðið á milli þeirra, á eftir fornöfnum en undan lýsingarorðum:

[Allir (ófn.) þessir (áfn.) ÞRÍR duglegu (lo.) strákar (no.)] eru synir hans

Beygingarleg einkenni töluorða eru að mestu leyti þau sömu og fallorða almennt, þ.e.a.s. þau beygjast í kyni og falli en af merkingarlegum ástæðum hafa þau almennt ekki tölubeygingu. Af frumtölum beygjast reyndar bara fjórar þær fyrstu en raðtölur beygjast aftur á móti allar.

2.5 Greinir

Í íslensku er einungis ákveðinn GREINIR. Merkingarlegt hlutverk hans er að sýna að nafnorð eða nafnliður vísi til ákveðins einstaklings eða eintaks af því tagi sem um ræðir, t.d. einhvers sem áður hefur verið minnst á. Greinirinn er ýmist viðskeyttur eða laus og hann sambeygist nafnorðinu sem hann stendur með. Viðskeytti greinirinn er einhvers konar viðhengi við nafnorð og hluti af mynd þess (maðurinn) en lausi greinirinn, hinn, kemur einungis fyrir þegar lýsingarorð stendur með nafnorðinu og þá fer hann á undan því (HIN fræga kvikmyndastjarna).

Greinirinn hefur venjulega fallorðsbeygingu (kyn, tala, fall) og sá lausi og viðskeytti beygjast eins (beygingarleg einkenni). h-ið og jafnvel i-ið líka fellur hins vegar brott úr viðskeytta greininum eftir ákveðnum reglum.

2.6 Sagnir

Segja má að flestar SAGNIR tákni atburð, verknað eða ástand (merkingarleg einkenni) þótt það sé talsverð einföldun. Merkingarlega eru þær gjarnan kjarni setningar og hafa veruleg áhrif á það hvaða orð geta staðið með þeim og margar þeirra stjórna því líka í hvaða mynd orðin eru (setningarleg einkenni); þetta eru svonefndar áhrifssagnir sem stjórna falli á andlögum sínum:

Pétur SYNGUR lagið
Pétur LAUK laginu

Auk þess hafa sagnir fast sæti miðað við aðra setningarliði, því persónubeygða sögnin stendur oftast í öðru sæti í staðhæfingum (fullyrðingum) en fremst í beinum spurningum (sem svara má með „já“ eða „nei“).

Tíð er oft talin helsta beygingarlega einkenni sagna en auk þess beygjast þær í persónu, tölu, hætti og mynd. Í mörgum tilvikum eru beygingarleg og setningarleg einkenni mjög samtvinnuð í sögnum, enda stundum talað um samsetta beygingu. Þar er einkum átt við ýmiss konar sagnasambönd sem gegna fastmótuðu hlutverki í málinu:

Hann HEFUR BORÐAÐ allan grautinn (núliðin tíð)
Halla HAFÐI LOKIÐ verkinu þegar ég kom (þáliðin tíð)
Börnin ERU AÐ BORÐA ólokið horf)

2.7 Forsetningar

FORSETNINGAR eru óbeygjanleg smáorð og merkingarleg einkenni þeirra eru heldur ekki mjög skýr því þær hafa tæplega merkingu í sjálfum sér heldur fyrst og fremst í samhengi við önnur orð. Það eru því einkum setningarlegu einkennin sem skipta máli við flokkun þeirra.

Megineinkenni forsetninga er að þær standa með fallorðum og stýra falli þeirra. Hver forsetning stjórnar yfirleitt tilteknu falli – þolfalli, þágufalli eða eignarfalli. Sumar geta þó stýrt tveimur föllum og þá er það yfirleitt merkingin sem ræður því hvort þeirra er:

Hann talar mikið UM vinnuna (þf.)
Hann segir oft FRÁ vinnunni (þgf.)
Hann gerði þetta VEGNA vinnunnar (ef.)
Hann fer snemma Í vinnuna (þf.)
Hann er lengi Í vinnunni (þgf.)

2.8 Atviksorð

ATVIKSORÐ eru yfirleitt talin til óbeygjanlegra orða (smáorða) jafnvel þótt sum þeirra stigbreytist líkt og lýsingarorð. Þau beygjast þó ekki að öðru leyti og mörg atviksorð eru algjörlega óbeygjanleg.

Atviksorðum er oft skipt í nokkra flokka eftir merkingarlegum einkennum og segja nöfn flokkanna nokkuð um merkingarlegt hlutverk þeirra:

háttaratviksorð (vel, illa)
staðaratviksorð (þar, úti)
tíðaratviksorð (þá, snemma)
áhersluatviksorð (mjög, frekar)
spurnaratviksorð (hvernig, hvenær)

Auk þess er neitunin ekki talin til atviksorða þótt hún falli ekki í þessa flokka og eins er um fleiri orð. Flokkarnir skarast líka nokkuð.

Setningarleg einkenni atviksorða eru nokkuð mismunandi eftir því hvaða flokki þau tilheyra en þau gegna m.a. því hlutverki að vera ákvæðisorð með lýsingarorðum (MJÖG góður), sögnum (tala HÁTT) og öðrum atviksorðum (MJÖG SNEMMA).

2.9 Samtengingar

SAMTENGINGAR eru óbeygjanleg smáorð og merking þeirra er ekki mjög skýr, a.m.k. ekki nema í samhengi.

Meginhlutverk samtenginga er setningarlegt. Þær tengja saman setningar eða setningarliði og er skipt í aðaltengingar (og, en) og aukatengingar (, þó, sem). Aðaltengingar geta bæði tengt sams konar setningar (aðal- eða aukasetningar) hverja við aðra og tengt saman samsvarandi setningarhluta, t.d. tvo nafnliði eða tvo sagnliði. Aukatengingar tengja aftur á móti aukasetningar við móðursetningar sínar:

Jón borðaði svið EN Sveinjón borðaði kjötsúpu (aðaltenging; tvær setningar)
Gamli maðurinn OG litla barnið leiddust (aðaltenging; tveir nafnliðir)
Kennarinn sagði enginn mætti skrópa (aukatenging)
Jónas fór ÞEGAR hann var búinn að borða (aukatenging)

Aukatengingar eru oft flokkaðar eftir því hvernig setningar þær tengja.

2.10 Upphrópanir

UPPHRÓPANIR eru oft taldar sérstakur orðflokkur. Þær eru yfirleitt skilgreindar út frá setningarlegum einkennum sínum og hlutverki, enda eru þetta óbeygjanleg smáorð án augljósrar merkingar, t.d. ha, ó, jæja. Upphrópanir eiga sér ekki fastan sess í venjulegum setningum heldur standa þær oftast einar og eru taldar setningarígildi, þ.e.a.s. jafngilda heilum setningum.

Upphrópanir koma fyrst og fremst fyrir í talmáli og í ritmáli sem líkir eftir því, t.d. samtalsköflum í sögum og leikritum. Merkingarlegt hlutverk þeirra er einkum að tjá hughrif eða tilfinningar. Það á þó yfirleitt ekki við um tilsvör eins og , og nei sem oftast eru greind sem upphrópanir.

2.11 Nafnháttarmerki

NAFNHÁTTARMERKIÐ er bara eitt, orðið . Það er óbeygjanlegt og merkingarsnautt og það er því einungis setningarstaðan sem sker úr um það hvort er nafnháttarmerki eða eitthvað annað, t.d. samtenging. Eins og nafnið bendir til stendur nafnháttarmerkið með nafnhætti sagna í ákveðnum tilvikum:

Þetta er sögnin fara
Hún lofaði fara strax

3. Markatilvik

Mörkin milli orðflokkanna eru ekki alveg jafn skýr og ætla mætti. Þau einkenni sem hér og annars staðar eru talin einkenna hvern einstakan orðflokk taka til dæmigerðra orða í hverjum þeirra og vissulega er tiltölulega auðvelt greina flest orð með hliðsjón af þeim. Oftast benda t.d. beygingarleg, setningarleg og merkingarleg einkenni öll í sömu átt.

Orðið hestur beygist t.d. í tölu og falli, getur bætt við sig greini, getur tekið með sér lýsingarorð sem lýsir því nánar, getur staðið sem frumlag eða andlag í (setningarleg einkenni), og er heiti á ákveðinni skepnu (merkingarleg einkenni). Það er því augljóslega nafnorð samkvæmt öllum viðmiðum. Orðið lesa tíðbeygist (beygingarleg einkenni), stjórnar falli andlags (setningarleg einkenni) og merkir athöfn (merkingarleg einkenni); það er greinilega sögn.

Í sumum tilvikum falla formleg einkenni tveggja orðflokka aftur á móti saman að einhverju leyti. Þannig er t.d. um svokallaða lýsingarhætti sagna, bæði lýsingarhátt nútíðar og þátíðar, og ákveðin lýsingarorð sem eru mynduð með sömu viðskeytum og þeir, -andi (lh.nt./lo.) og -(a)ður, -dur, -tur eða -inn (lh.þt./lo.). Lýsingarhættir eru meðal fallhátta sagnanna og í ákveðnu umhverfi beygist lýsingarháttur þátíðar í kyni, tölu og jafnvel í falli alveg eins og lýsingarorð. Þá getur verið erfitt að greina á milli lýsingarorðs og lýsingarháttar af samstofna sögn því ekki er hægt að styðjast við beygingarleg einkenni (sem eru þau sömu), heldur einungis stöðu orðsins í setningunni.

Svipaða sögu er að segja af mörgum lýsingarorðum og atviksorðum. Atviksorð hafa mörg sama form og hvorugkyn samstofna lýsingarorðs, t.d. getur orðmyndin hátt verið hvort heldur sem er. Í slíkum tilvikum sker setningarstaðan úr um það hvernig greina skuli og einnig má taka mið af því hvað gerist ef skipt er um orð:

Húsið er of HÁTT (lo.) ~ Húsin eru of (lo.) ~ Húsið er nógu GOTT (lo.)
Þú syngur of HÁTT (ao.) ~ Þið syngið of HÁTT (ao.) ~ Þú syngur nógu VEL (ao.)

Eins og sjá má breytist mynd lýsingarorðsins þegar skipt er úr eintölu í fleirtölu á frumlaginu enda ákvarðar það nafnorðið sem þar er og sambeygist því. Atviksorðið breytist hins vegar ekki neitt enda er það óbeygjanlegt og ákvarðar auk þess sögnina en ekki frumlagið. Einnig má sjá muninn með því að skipta um orðið sjálft og setja í stað hátt lýsingarorð og atviksorð sem eru merkingarlega hliðstæð en ekki samstofna eins og góður og vel.

Stundum gerist það að viðmiðin falla ekki öll saman, heldur benda í ólíkar áttir. Orð eins og reiði hefur t.d. ekki mismunandi fallmyndir, eins og venja er um nafnorð, og því má segja að það skorti beygingarleg einkenni nafnorða. Setningarstaða þess og merking er hins vegar eins og búast má við af nafnorði, og því sjálfsagt að greina reiði sem nafnorð, enda er það alltaf gert. Svipað er að segja um nokkur lýsingarorð sem enda á sérhljóði, eins og andvaka, samferða og hugsi. Þau beygjast ekki í kyni, tölu eða falli, og stigbreytast ekki heldur þannig að þau hafa ekki beygingarleg einkenni lýsingarorða. Setningarstaða þeirra og merking bendir hins vegar eindregið til þess að þau séu lýsingarorð, og þannig eru þau alltaf greind.

Orðið gær er stundum greint sem atviksorð. Það beygist ekki í föllum eða tölum, bætir ekki við sig greini, tíðbeygist ekki, stjórnar ekki falli, og er hvorki samtenging né upphrópun. Þetta er vissulega dæmigerð lýsing á atviksorðum; þau eru oft notuð sem eins konar „ruslakista“, og skilgreind út frá því sem þau eru ekki, frekar en út frá þeim eiginleikum sem þau hafa. Á hinn bóginn hefur gær ekki dæmigerða setningarstöðu atviksorða. Það kemur eingöngu fyrir í sambandinu í gær, og í stað þess er hægt að setja orð eins og morgun, kvöld o.fl. sem eru ótvírætt nafnorð. Þótt gær komi ekki fyrir í öðrum samböndum eru það ekki rök gegn því að telja það nafnorð. Sama gildir um boðstólum í á boðstólum og takteinum í á takteinum, en þau orð eru ævinlega greind sem nafnorð (í þágufalli fleirtölu), þótt þau komi ekki fyrir í öðrum myndum.

Orðið sem í setningum eins og Þetta er sá sem ég hitti er stundum talið til fornafna, og gert ráð fyrir að það myndi sérstakan undirflokk, TILVÍSUNARFORNÖFN (ásamt er, sem eingöngu er notað í formlegu máli). Ástæðan fyrir þessari flokkun er sú að orðið er talið standa í stað nafnorðs og vísa til þess, eins og fornöfn gera oft. Þetta má til sanns vegar færa, en hins vegar hefur það hvorki beygingarleg né setningarleg einkenni fornafna. Það beygist ekki í kyni, tölu eða falli, heldur er óumbreytanlegt að formi. Það kemur eingöngu fyrir í aukasetningum, stendur alltaf fremst í þeim, og gegnir því hlutverki að tengja þær við móðursetningu sína. Allt er þetta andstætt venjulegu eðli fornafna, en hins vegar einmitt það sem við má búast af aukatengingum. Því verður hér litið svo á að rétt sé að greina sem (og er) sem aukatengingu, og gera ráð fyrir sérstökum flokki TILVÍSUNARTENGINGA.