H er lýsing á málhljóðum og myndun þeirra. Hún skiptist einkum í þrennt; HLJÓÐMYNDUNARFRÆÐI, sem fæst við að lýsa hreyfingum talfæranna við hljóðmyndun; HLJÓÐEÐLISFRÆÐI, sem lýsir eðlisfræðilegum þáttum málhljóðanna (sveiflustærð, sveiflutíðni o.s.frv.) og athugar hvernig hreyfingar talfæranna hafa áhrif á þessi atriði; og HLJÓÐSKYNJUNARFRÆÐI sem gerir grein fyrir því hvernig við skynjum hljóðbylgjurnar og túlkum þær sem mál.
Kunnátta í hljóðfræði er gagnleg á ýmsum sviðum. Það er t.d. mun auðveldara að ná valdi á réttum framburði erlendra mála ef maður áttar sig á því hvernig talfærunum er beitt við myndun málhljóða. Þekking á hljóðritun og alþjóðlega hljóðritunarkerfinu gerir manni líka kleift að nýta sér hljóðritun í kennslubókum og orðabókum um erlend mál, og auðveldar þannig málnámið enn til muna. Hljóðfræðikunnátta er líka mjög nytsöm við hvers kyns þjálfun í munnlegri tjáningu; framsögn, ræðumennsku o.þ.h.
Þótt talað mál sé grundvöllur mannlegs máls hafa menn lengi kunnað aðferðir til að breyta því í ritmál. Algengasta aðferðin, og sú sem við notum, er að láta bókstafi standa fyrir ákveðin hljóð. Rituðu máli má því skipta í einingar á svipaðan hátt og töluðu máli, nema í ritmálinu heita einingarnar bókstafir en ekki hljóð.
Til að þessi samsvörun milli talaðs máls og ritaðs væri fullkomin þyrfti hver bókstafur að svara til eins, og aðeins eins, hljóðs. Það er þó auðvelt að ganga úr skugga um að svo er ekki. Einna skýrast kemur þetta í ljós í samanburði mismunandi tungumála. Allir sem hafa lært eitthvað í ensku vita t.d. að þar sem skrifað er ‘a’ er oft ekki borið fram sama hljóð og þar sem skrifað er ‘a’ í íslensku, heldur iðulega eitthvað sem líkist ‘ei’, eins og í gate . Sömuleiðis er ‘i’ í ensku oft borið fram eins og þar væri skrifað ‘æ’, eins og í hide ; og svo mætti lengi telja. Þetta sýnir að samband bókstafa og hljóða er ólíkt eftir málum, og nauðsynlegt er að læra sérstaklega hvernig því er háttað í hverju tungumáli.
En reyndar er hér leitað langt yfir skammt. Hliðstæð dæmi eru mýmörg í íslensku, þótt við tökum sjaldnast eftir þeim vegna þess að þau eru okkur svo töm. Samt vita allir að þótt skrifað sé ‘a’ í orðum eins og langur og ganga bera flestir það fram eins og skrifað væri ‘á’; og þótt skrifað sé ‘h’ í orðum eins og hvernig og hvenær ber meginhluti landsmanna það fram eins og skrifað væri ‘k’.
Til að bæta úr þessu hefur verið búið til sérstakt táknkerfi, HLJÓÐLETUR. Það byggist á sömu frumforsendum og venjuleg stafsetning, þ.e. að til hvers hljóðs svari eitt ákveðið tákn. Hljóðletrið, eða HLJÓÐRITUNIN, fylgir þessari reglu hins vegar út í æsar, en það gerir stafsetningin ekki, eins og hér hefur verið sýnt. Þetta veldur því að þeir sem kunna táknkerfið eiga að geta borið hljóðritaðan texta u.þ.b. rétt fram, þótt þeir kunni lítið sem ekkert í málinu sem textinn er á. Hljóðritaður texti er venjulega hafður innan hornklofa, [ ], til aðgreiningar frá venjulegri stafsetningu. Til eru ýmis afbrigði af hljóðletri, en í íslenskri hljóðritun er yfirleitt notað það langútbreiddasta (oft þó lítillega breytt); ALÞJÓÐLEGA HLJÓÐRITUNARSTAFRÓFIÐ. Hér má sjá hvernig samhljóð
og sérhljóð eru táknuð í þessu kerfi, sem oftast er skammstafað IPA (International Phonetic Alphabet).
Ýmis líffæri og líkamshlutar taka þátt í hljóðmyndun, og teljast þannig til TALFÆRA í víðasta skilningi, þótt flest gegni einnig öðrum hlutverkum. Þetta eru maga- og brjóstholsvöðvar, þind, lungu, barki, barkakýli, raddbönd, kok, gómfilla, nefhol, efri og neðri kjálki, gómur, tannberg, tennur, tunga og varir (sjá mynd).
Talfæri
Þegar við öndum frá okkur þrýsta brjósthols- og magavöðvar lungunum saman, þannig að loftið pressast úr þeim. Það berst upp barkann, gegnum barkakýlið, og síðan út úr líkamanum, annaðhvort um munn eða nef. Krafturinn í útönduninni er mismikill, og það ræður styrk málhljóðanna sem mynduð eru.
Við venjulega útöndun kemst loftið nokkurn veginn hindrunarlaust út. Ef við ætlum hins vegar að nýta loftstrauminn til að mynda málhljóð, þurfum við að þrengja að honum með einhverju móti einhvers staðar á leiðinni; stundum bæði í barkakýli og einhvers staðar í munnholi.
Fyrsta hindrunin á vegi loftstraums frá lungum getur orðið í barkakýlinu. Þar þarf loftstraumurinn að fara upp milli tveggja himna, sem nefnast raddbönd. Þessar himnur liggja upp með hliðarveggjum barkakýlisins, og eru vaxnar við veggina að neðan. Að framan eru raddböndin fest á svokallað skjaldbrjósk, sem við finnum fyrir þegar við þreifum á barkakýlinu. Að aftan eru raddböndin hins vegar fest sitt á hvora þríhyrningslaga brjóskflöguna, sem nefnast könnubrjósk. Þau getum við hreyft til, og raddböndin þar með.
Við venjulega útöndun eru raddböndin glennt sundur að aftan, þannig að loftið á greiða leið um raddglufuna milli þeirra. Hún er í laginu eins og þríhyrningur, þar sem eitt hornið veit fram. Fremri hluti hennar, milli raddbandanna sjálfra, nefnist bandaglufa, en þríhyrningslaga glufan milli könnubrjóskanna heitir hyrnuglufa.
Við myndun margra málhljóða er raddglufan öll opin, þannig að loftið streymir upp án þess að verða fyrir verulegri hindrun í barkakýlinu. Slík hljóð eru órödduð, því að raddböndin sveiflast ekki við myndun þeirra. Mjög oft eru samt könnubrjóskin hreyfð til þannig að raddböndin leggjast saman, og loftrásin lokast þar með að miklu eða öllu leyti. Ef hyrnuglufan er opin, en bandaglufan lokuð, myndast hvísl. Ekki er þó ætlunin að fást við það hér, heldur beina athyglinni að því sem gerist við algera lokun loftrásarinnar.
Þótt raddglufunni sé lokað meðan á útöndun stendur heldur loftið áfram að berast að neðan, frá lungunum og upp barkann. Vegna þess að raddböndin loka því leiðina eykst loftþrýstingurinn neðan þeirra ört, og þar kemur að hin teygjanlegu raddbönd gefa eftir, og hleypa loftgusu upp á milli sín. Þá lækkar loftþrýstingurinn neðan raddbandanna snögglega aftur, og þegar þrýstingurinn ofan þeirra og neðan hefur jafnast, nær teygni raddbandanna aftur yfirhöndinni og lokar loftrásinni á ný. Þá fer þrýstingur að byggjast upp á ný neðan raddbandanna, uns hann nægir til að rjúfa lokunina; og svona endurtekur þetta sig aftur og aftur. Þessi titringur, sem myndast við endurtekna lokun og opnun raddglufunnar, nefnist röddun.
Ferlið frá því að raddböndin lokast, loftþrýstingur eykst, lokun rofnar, loftþrýstingur neðan raddbanda fellur og þar til þau lokast á ný er nefnt ein sveifla. Sveiflutíðni er yfirleitt tilgreind í riðum (Hertz, Hz), en eitt rið táknar eina sveiflu á sekúndu (s/sek). Hjá karlmönnum tekur ein sveifla u.þ.b. 8,3 millisekúndur (þúsundustu hluta úr sekúndu) að meðaltali; meðaltíðni karlmannsradda er því u.þ.b. 120 rið. Meðaltíðni kvenradda er hins vegar nálægt helmingi hærri, eða um 225 rið, og meðaltíðni barnaradda u.þ.b. 265 rið. Þetta er nefnt grunntíðni eða grunntónn raddarinnar. Athugið þó vel að þetta eru meðaltöl, og frávikin geta verið mikil. Bæði er mikill munur á einstaklingum; sumir hafa djúpa bassarödd, þ.e. lága grunntíðni, en aðrir háa og hvella rödd, þ.e. háa grunntíðni.
Það eru einkum þrjú atriði sem eru breytileg og valda því að grunntíðni er mismunandi. Þetta eru lengd raddbanda, massi þeirra (þ.e. hversu efnismikil þau eru), og hversu strengd þau eru. Tvö fyrri atriðin eru óbreytanleg hjá hverjum einstaklingi, eftir að fullum þroska er náð. Þar sem barkakýli karlmanna er talsvert stærra en kvenna, eru raddbönd karla bæði lengri og efnismeiri. Þetta leiðir til þess að sveiflur raddbanda eru að jafnaði mun hægari hjá körlum en konum. Það er eðlisfræðilegt lögmál; strengir í hljóðfærum, s.s. gítar, píanói o.s.frv., sveiflast líka því hægar sem þeir eru lengri og gildari. Flestir vita að löngu og gildu strengirnir gefa frá sér dimmri tón en þeir stuttu og grönnu; og sama lögmál veldur því að karlaraddir eru venjulega dýpri en raddir kvenna.
Þriðja atriðinu, strengleika raddbandanna, er hins vegar hægt að breyta, innan ákveðinna marka þó. Vegna hreyfanleika könnubrjóskanna, sem aftari endi raddbandanna er festur á, er hægt að strengja eða slaka nokkuð á þeim; og eftir því sem þau eru strengdari sveiflast þau hraðar, rétt eins og strengir í hljóðfærum. Þetta nýta málnotendur sér t.d. til að ná fram réttri ítónun í röddina; breyta tónhæðinni eftir því hvort verið er að fullyrða eitthvað, spyrja einhvers o.s.frv. Einnig er þessi hæfileiki bráðnauðsynlegur í leik, söng o.þ.h.
Sveiflur raddbandanna eru þó margbrotnari en þessi lýsing bendir til. Hvor helmingur þeirra um sig sveiflast líka á tvöfaldri grunntíðni raddarinnar; þriðjungur á þrefaldri grunntíðni; hver fjórðungur á ferfaldri grunntíðni; o.s.frv. Þessar sveiflur nefnast yfirtónar raddarinnar. Þær ná ekki bara til raddbandanna sjálfra, ýmist í heild eða einstakra hluta þeirra. Titringurinn kemur líka af stað sveiflum í loftinu í koki, munnholi og nefholi, en ekki bara í loftinu, heldur líka í því sem umlykur það; holdi, beinum og tönnum. Þetta er svipað því sem gildir um hátalara; ef hátalari er tekinn úr kassanum sem umlykur hann breytist hljóðið talsvert, því að kassinn verkar sem hljómbotn, eins og munnhol (og nefhol, ef því er að skipta). Samspil þessara sveiflna mótar það hljóð sem við heyrum, röddina.
Þegar við hlustum á talað mál greinum við það niður í mismunandi hljóð. Við erum ekki í neinum vafa um að ‘a’ hljómar öðruvísi en ‘ö’, ‘l’ hljómar öðruvísi en ‘n’, ‘v’ hljómar öðruvísi en ‘ð’, o.s.frv. Sveiflur raddbandanna eru í grundvallaratriðum sams konar í öllum rödduðum hljóðum, en hljóðið sem við heyrum verður til við flókið og margbreytilegt samspil sveiflna á mörgum tíðnisviðum; bæði grunntóns og yfirtóna. Þetta er forsenda þess að við getum gert mun á hljóðum. Það er sem sé hægt að breyta því vægi sem sveiflur á tilteknum tíðnisviðum hafa í þessu samspili. Við myndun ‘a’ eru sum tíðnisvið mögnuð upp, en önnur deyfð; við myndun ‘ö’ gerist það sama, nema þar eru það önnur tíðnisvið sem eru mögnuð og deyfð, og þess vegna verður heildarniðurstaðan ólík.
Þau tíðnisvið sem hafa mestan styrk (eru mögnuð mest) í hverju málhljóði eru kölluð FORMENDUR þess. Í flestum sérhljóðum eru a.m.k. þrír formendur greinilegir; þ.e. þrjú mismunandi tíðnisvið magnast upp. Formendurnir eru venjulega táknaðir með F og tölu fyrir aftan; F1 er þannig lægsta tíðnisviðið sem magnast upp, F2 það næstlægsta, o.s.frv. Mismunandi hljóð hafa mismunandi formendur, og það eru þeir sem eru ábyrgir fyrir þeim mun sem við skynjum á hljóðunum. Lægstu formendurnir hafa alltaf mestan styrk, og stundum er talið að tveir fyrstu formendurnir dugi til að greina milli allra sérhljóða. Það þýðir þó ekki að hinir skipti engu máli. Líkur eru á að hærri formendur gefi röddinni ákveðinn blæ, málróm.
Það kannast sjálfsagt margir við að hafa blásið yfir stútinn á tómri gosflösku; þá myndast tiltölulega djúpur tónn. Ef flaskan er hálf af vatni hækkar tónninn talsvert; og ef hún er fyllt upp í axlir hækkar hann enn. Það er vegna þess að blásturinn kemur af stað sveiflum í loftsúlunni í flöskunni, og þær sveiflur mynda hljóð. En sveiflutíðnin hækkar eftir því sem loftsúlan er styttri, og því hækkar tónninn þegar vatni er bætt í flöskuna.
Í raun og veru verkar munnholið svipað. Í því er loftsúla, að vísu ekki eins regluleg í lögun og sú í flöskunni. Með því að breyta stærð og lögun þessarar loftsúlu stjórnum við því hvaða tíðnisvið raddarinnar eru mögnuð mest og hver eru deyfð; og þannig myndum við mismunandi hljóð. Þetta getum við gert með ýmsu móti.
Neðri kjálkinn er auðvitað hreyfanlegur, og mismunandi kjálkaopnun hefur áhrif á stærð munnholsins. Tungan er mjög hreyfanleg, og staða hennar skiptir máli við myndun flestra málhljóða. Með því að láta tunguna nálgast eða snerta einhvern hluta góms, tannbergs eða tanna, skiptum við munnholinu að meira eða minna leyti í tvö hljómhol, sem hvort um sig hefur sína ákveðnu hljóðmögnunareiginleika.
Þá hefur staða vara áhrif í hljóðmynduninni. Bæði er hægt að loka fyrir loftstrauminn eða þrengja að honum með vörunum; og einnig er hægt að setja nokkurs konar stút á þær, en við það breytast formendur þeirra hljóða sem mynduð eru.
Gómfillan hleypir lofti óhindrað upp í nefhol við venjulega útöndun. Við hljóðmyndun lokar hún hins vegar oftast fyrir nefholið; en einnig er hægt að láta hana síga, þannig að loft sleppi upp í nefholið, sem þar með verður einnig að hljómholi og hefur áhrif á hljóðmyndunina.
Þegar loftstraumurinn hefur farið um talfærin og út úr líkamanum, um munn eða nef, er orðið til það hljóð sem við heyrum. Sveiflurnar sem mynda hljóðið eru með ýmsu móti; misstórar, misþéttar og samsettar á margvíslegan hátt. Reglulegar sveiflur kallast bilkvæmar og þær skynjum við sem tón. Aftur á móti er hávaði af hvaða tagi sem er óbilkvæmur vegna þess að sveiflurnar eru óreglulegar.
MÁLHLJÓÐUM er vanalega skipt í tvo meginflokka; SÉRHLJÓÐ og SAMHLJÓÐ. Sérhljóðin eru atkvæðisbær, þ.e. fær um að mynda kjarna atkvæðis, en samhljóðin venjulega ekki. Í samhljóðum mætir loftstraumurinn frá lungunum verulegri fyrirstöðu á leið sinni út úr líkamanum; annaðhvort er lokað algerlega fyrir hann um tíma eða loftrásin er þrengd verulega. Þó er ekki alltaf skarpur greinarmunur á sérhljóðum og samhljóðum að þessu leyti; í sumum sérhljóðum, einkum ‘í’ [i], er þrengt talsvert að loftstraumnum, þannig að munur ‘í’ [i], sem er sérhljóð, og ‘j’ [j], sem er samhljóð (nánar tiltekið önghljóð), er stundum ekki mikill.
Samhljóð eru aðallega flokkuð á tvennan hátt; annars vegar eftir MYNDUNARSTAÐ, og hins vegar MYNDUNARHÆTTI. Flokkun eftir myndunarstað er miðuð við það hvar í munnholi lokun verður, eða hvar mest er þrengt að loftstraumnum. Þannig er sagt að ‘p’ [pʰ], ‘b’ [p] og ‘m’ [m] séu mynduð við varir, þar eð varir leggjast saman við myndun þeirra og loka þannig fyrir loftstrauminn; ‘s’ [s] er sagt myndað við tannberg, því að þar myndar tungan þrengingu (öng); o.s.frv. Myndunarstaðir íslenskra samhljóða eru yfirleitt taldir fimm; varir, tennur/tannberg, framgómur, uppgómur/gómfilla og raddbönd (sjá mynd). Þarna getur þó stundum verið nokkur munur milli manna.
Í raun og veru er þó ónákvæmt að tala hér um myndunarstað, vegna þess að t.d. tannbergsmælt hljóð myndast ekki eingöngu við tannberg. Það sem máli skiptir er ekki síður þau áhrif sem nálgun tungu og tannbergs hefur á hljóðmögnunareiginleika munnholsins. Flestir kannast við það að ef fingri er stutt einhvers staðar á gítarstreng breytist hljóðið sem strengurinn gefur frá sér; og það breytist á mismunandi hátt eftir því hvar stutt er á hann. Enginn myndi samt segja að hljóðið myndaðist þar sem fingri er stutt á strenginn. En í raun er þetta ekki ósvipað því sem gerist við nálgun tveggja talfæra í munnholinu.
Eftir myndunarhætti skiptast samhljóðin svo í fimm flokka, sem nefnast lokhljóð, önghljóð, nefhljóð, hliðarhljóð og sveifluhljóð. Margt er þó sameiginlegt með þrem þeim síðarnefndu (sem stundum eru kölluð einu nafni hljómendur), og sömuleiðis er sitthvað svipað með lokhljóðum og önghljóðum (sem stundum eru kölluð hindrunarhljóð).
LOKHLJÓÐ einkennast af því að lokað er algerlega fyrir loftstrauminn frá lungunum örstutta stund. Þessi lokun getur verið á mismunandi stöðum í munnholi. Meðan á henni stendur eru engar sveiflur í loftinu í munnholinu, og því verður ekkert hljóð til; það myndast ekki fyrr en lokunin rofnar. Þetta á þó eingöngu við um órödduð lokhljóð, eins og öll íslensk lokhljóð eru venjulega; við myndun þeirra er raddglufan galopin, og munnholið, að baki lokuninni, fyllist því fljótt þegar loftstraumur berst frá lungunum.
Í mörgum erlendum málum eru einnig til rödduð lokhljóð. Þá þarf loftstraumurinn að þrengja sér milli raddbandanna, og því fyllist munnholið mun hægar. Meðan það er að fyllast af lofti geta raddböndin titrað, og þá myndast lágt hljóð. Erfiðara er að mynda t.d. uppgómmælt rödduð lokhljóð en varamælt; í þeim uppgómmæltu er hljómholið að baki lokun miklu minna, og því mun fljótara að fyllast.
Í íslensku eru fjögur pör lokhljóða með mismunandi myndunarstöðum. Hljóðin í hverju pari eru aðgreind þannig að annað er fráblásið, en hitt ófráblásið; bæði eru órödduð. Fráblásturinn er táknaður með [ʰ].
Upphafshljóð orðanna pund [pʰʏnt] og bóndi [pountɪ], ‘p’ [pʰ] (fráblásið) og ‘b’ [p] (ófráblásið), eru tvívaramælt lokhljóð; við myndun þeirra koma varirnar saman og loka alveg fyrir loftstrauminn. Staða tungunnar skiptir ekki máli við myndun varamæltu hljóðanna.
‘t’ [tʰ] (fráblásið) og ‘d’ [t] (ófráblásið) eru tannbergsmælt lokhljóð, og koma t.d. fyrir í upphafi orðanna taða [tʰaːða] og daður [taːðʏr]. Við myndun þeirra þrýstist tungubroddurinn upp að tannberginu og lokar þar fyrir loftstrauminn. Brúnir tungunnar leggjast jafnframt út að jöxlum í efri gómi og koma í veg fyrir að loft sleppi þar út.
Í upphafi orðanna kjör [cʰœːr] og gæfa [caiːva] koma fyrir framgómmælt lokhljóð, ‘kj’ [cʰ] (fráblásið) og ‘gj’ [c] (ófráblásið). Við myndun þeirra leggst tungan upp að gómnum, allt frá tannbergi og aftur undir gómfillu. Þegar lokunin rofnar færist tungan fyrst frá gómnum að aftan og síðan að framan. Þetta veldur því að við skynjum þessi hljóð oft sem tvö, þ.e. [kʰ] + [j] og [k>] + [j], en þau eru ein heild hvað myndun varðar.
‘k’ [kʰ] (fráblásið) og ‘g’ [k] (ófráblásið), eins og í koli [kʰɔːlɪ] og gola [kɔːla], eru uppgómmælt eða gómfillumælt lokhljóð. Við myndun þeirra lyftist aftari hluti tungunnar, tungubakið, og lokar fyrir loftstrauminn kringum mörk góms og gómfillu. Snertiflötur tungu og góms er mun minni en í framgómmæltu hljóðunum.
ÖNGHLJÓÐ einkennast af því að þrengt er tímabundið að loftstraumnum frá lungunum, annaðhvort með því að lyfta mismunandi hlutum tungunnar og láta hana nálgast gómfillu, góm, tannberg eða tennur; eða þá með vörum og tönnum. Orðið öng merkir einmitt þrengsli, sbr. öngstræti. Þegar þrengt er þannig að loftstraumnum myndast e.k. „þrýstihljóð“ eða „núningshljóð“ með óreglulegri tíðni. Eftir því sem loftrásin er þrengri, verður tíðni hljóðsins hærri. Við þetta skiptist munnholið líka næstum því í tvö hljómhol, sem hvort um sig magnar upp mismunandi tíðnisvið. Í íslensku eru alls 10 önghljóð, fjögur rödduð og sex órödduð.
Upphafshljóð orðanna fara [faːra] og vera [v&603;ːra] eru önghljóð, ‘f’ [f] og ‘v’ [v]; hið fyrrnefnda óraddað, en hitt raddað. Þessi hljóð eru kölluð tannvaramælt; við myndun þeirra leggst neðri vör að framtönnum í efri gómi, og loftið þrýstist þar á milli. Staða tungunnar skiptir ekki máli við myndun þessara hljóða.
Fyrsta og þriðja hljóðið í orðinu þaðan [θaːðan] eru önghljóð með u.þ.b. sama myndunarstað, ‘þ’ [θ] og ‘ð’ [ð]; hið fyrrnefnda óraddað, en hitt raddað. Þau eru tannmælt eða tannbergsmælt; við myndun þeirra leggst fremri hluti tungunnar upp að tannbergi, og tungubroddurinn nálgast framtennur í efri gómi. Misjafnt er milli manna hve framarlega mesta öngin verður.
Upphafshljóðið í orðinu saga [saːɣa], ‘s’ [s], er tannbergsmælt önghljóð, óraddað. Það er yfirleitt myndað nokkru aftar en [θ], og auk þess er loftrásin mun þrengri í [s], þannig að [s] hefur miklu hærri tíðni en [θ]. Það virðist vera talsvert misjafnt hvernig íslenskt [s] er myndað. Sumir mynda það með því að lyfta tungubroddinum upp að tannbergi, þannig að öng verði þar á milli; en hjá mörgum liggur tungubroddurinn aftan við framtennur í neðri gómi við myndun [s], og miðhluti tungunnar myndar öng við tannbergið.
Upphafshljóðin í orðunum hjól [çouːl] og jól [jouːl], ‘hj’ [ç] og ‘j’ [j], mynda svo þriðja par óraddaðra og raddaðra önghljóða; þau eru framgómmælt. Athugið vel að ‘hj-’ í stafsetningu stendur aðeins fyrir eitt hljóð; ‘hjól’ byrjar ekki á [h] + [j], heldur á órödduðu hljóði, [ç], sem að öðru leyti samsvarar raddaða hljóðinu [j]. Við myndun þessara hljóða leggst tungan upp að gómnum á mjög stóru svæði; allt frá tannbergi og aftur að mörkum góms og gómfillu.
Enn eitt önghljóðaparið er að finna í næstsíðustu hljóðum orðanna lagt [laxt] og laga [laːɣa]; ‘g’ [x] (óraddað) og ‘g’ [ɣ] (raddað) eru uppgómmælt eða gómfillumælt önghljóð. Þau eru mynduð þannig að aftari hluti tungunnar lyftist upp að mörkum góms og gómfillu, og myndar þar öng.
Tíunda önghljóðið í íslensku, óraddað, má finna í upphafi orðsins hafa [haːva]; það er ‘h’ [h], sem kallað er raddbandaönghljóð. Við myndun þess er hvergi þrengt að loftstraumnum ofan raddbanda; það sem við heyrum er þrýstihljóðið sem myndast þegar loftstraumurinn fer upp um raddglufuna.
Þegar gómfillan er látin síga, opnast loftrás upp í nefholið. Þar með myndast líka sveiflur í loftinu þar, og nefholið verður að hljómholi. Þessu fylgir jafnframt að lokað er fyrir loftstrauminn einhvers staðar í munnholinu; en hluti þess, þ.e. fram að lokun, verkar einnig sem hljómhol. Þau hljóð sem þannig myndast nefnast NEFHLJÓÐ, og eru átta í íslensku. Þau mynda fjögur pör með mismunandi myndunarstöðum, þar sem í hverju pari er raddað og óraddað hljóð.
Innbyrðis munur nefhljóðanna stafar af því að lokunin verður á mismunandi stöðum í munninum; við varir í ‘m’ [m], tannberg í ‘n’ [n], o.s.frv. Því er það misjafnt hve stór hluti munnholsins bætist við hljómholið sem alltaf er fyrir hendi í nefholinu. Vegna stærðar nefholsins er hlutfallslegur munur nefhljóðanna innbyrðis lítill; það munar ekki svo miklu hvort allt munnholið eða aðeins hluti þess bætist við. Þess vegna er miklu minni heyranlegur munur á varamæltu og tannbergsmæltu nefhljóði, ‘m’ [m] og ‘n’ [n], en á samsvarandi lokhljóðum, ‘p’/‘b’ [pʰ]/[p] og ‘t’/‘d’ [tʰ]/[t], þótt hinn myndunarlegi munur sé hliðstæður.
‘m’ [m] og ‘m’ [m̥], eins og í melur [mɛːlʏr] og heimta [heim̥ta], eru tvívaramælt hljóð, mynduð með lokun vara eins og ‘p’ [pʰ] og ‘b’ [p]. Venjulega er þó minni kraftur í lokuninni í nefhljóðunum, og kjálkaopna meiri.
‘n’ [n] og ‘(h)n’ [n̥], eins og í njóta [njouːta] og hnjóta [n̥jouːta], eru tannbergsmælt hljóð. Tungan snertir þó tannbergið nokkru aftar og á minna svæði en í samsvarandi munnlokhljóðum, ‘t’ [tʰ] og ‘d’ [t].
‘n’(+‘gi’) [ɲ] og ‘n’(+‘ki’) [ɲ̊], eins og í engi [eiɲcɪ] og banki [pauɲ̊cɪ], eru (fram)gómmælt hljóð. Við myndun þeirra snertir tungan góminn aftar og á minna svæði en í framgómmæltu lokhljóðunum, ‘kj’ [cʰ] og ‘gj’ [c].
‘n’(+‘g’) [ŋ] og ‘n’(+‘g’) [ŋ̊], eins og í þang [θauŋk] og seinka [seiŋ̊ka], eru uppgómmælt hljóð. Snertiflötur tungu og gómfillu við myndun þeirra er minni og aftar en í munnlokhljóðunum ‘k’ [kʰ] og ‘g’ [k].
Í hröðu tali hverfa nefhljóð í innstöðu oft sem sjálfstæð hljóð, einkum á undan önghljóðum. Yfirleitt eimir þó eftir af nefhljóðinu, og það kemur fram sem nefjun á undanfarandi sérhljóði. Þá lokar gómfillan ekki algerlega fyrir nefholið meðan á myndun sérhljóðsins stendur, svo að nefholið verkar að nokkru leyti sem hljómhol líka. Þetta hefur áhrif á formendur sérhljóðsins. Nefjuð sérhljóð eru hljóðrituð með bugðu, [ ̃], t.d. eins [eĩs].
HLIÐARHLJÓÐ myndast þannig að tungan lyftist upp að tannbergi eða gómi og lokar fyrir loftstrauminn um miðjan munn. Aftur á móti leggjast brúnir tungunnar ekki alveg upp að jöxlum báðum megin, eins og í lokhljóðunum, heldur er þar opin loftrás; oftast aðeins öðrum megin, en stundum báðum megin.
Í íslensku eru tvö hliðarhljóð, ‘l’ [l] (raddað) og ‘(h)l’ [l̥] (óraddað), sem koma t.d. fyrir í upphafi orðanna ljótur [ljouːtʏr] og hljóta [l̥jouːta]. Þau eru yfirleitt tannbergsmælt, en myndunarstaður þeirra getur þó verið nokkuð breytilegur eftir grannhljóðum. Algengast er að loftrásin sé hægra megin, en þó er hún vinstra megin hjá sumum. Einnig kemur tvíhliðmælt hljóð fyrir, þ.e. loftrás báðum megin; einkum virðist það vera í óraddaða hljóðinu.
Í SVEIFLUHLJÓÐUM „sveiflast“ einhver hluti tungunnar og ýmist snertir annan hluta talfæranna (tannberg, úf) og lokar þannig fyrir loftstrauminn örstutta stund, eða færist aðeins frá og hleypir loftgusu út.
Sveifluhljóð í venjulegu íslensku tali eru tvö, ‘r’ [r] (raddað) og ‘(h)r’ [r̥] (óraddað), eins og í rota [rɔːta] og hrota [r̥ɔːta]. Þau eru tannbergsmælt eins og hliðarhljóðin. Stutt sveifluhljóð í íslensku eru mun styttri en önnur hljóð málsins, oft aðeins ein sveifla (og því vafasamt hvort eðlilegt er að kalla þau sveifluhljóð; sláttarhljóð væri e.t.v. nær lagi); en þau löngu eru venjulega þrjár til fjórar sveiflur.
Í íslensku eru átta EINHLJÓÐ; ‘a’ [a], ‘e’ [ɛ], ‘i’ [ɪ], ‘í’ [i], ‘o’ [ɔ], ‘u’ [ʏ], ‘ú’ [u], ‘ö’ [œ]. Við myndun þeirra nálgast mismunandi hlutar tungunnar góm, gómfillu eða kokvegg á mismunandi stöðum; misjafnlega mikið, en þó án þess að nokkurn tíma sé verulega þrengt að loftstraumnum. Einnig eru í málinu fimm TVÍHLJÓÐ; ‘au’ [o_i], ‘á’ [au], ‘ei’ [ei], ‘ó’ [ou], ‘æ’ [ai]. Þau eru frábrugðin einhljóðunum að því leyti að tungan færist úr stað meðan á myndun hljóðanna stendur. Oft er tvíhljóðum lýst sem sambandi tveggja einhljóða, sem standi saman í atkvæði; hljóðritunin bendir líka til þess. Þetta er þó ekki alveg nákvæmt, vegna þess að oftast nær verður einhver samlögun á milli hlutanna.
Við lýsingu íslenskra sérhljóða er notuð þrenns konar flokkun. Í fyrsta lagi er hljóðunum skipt í frammælt og uppmælt, eftir því hvar í munnholinu tungan nálgast önnur talfæri mest. Í öðru lagi eru þau flokkuð eftir nálægð eða opnustigi, þ.e. því hversu mikil nálgun tungu og annarra talfæra verður. Að lokum er þeim skipt í kringd hljóð og ókringd, eftir því hvort vörunum er skotið aðeins fram og settur á þær eins konar stútur eða ekki. Öll íslensk sérhljóð geta svo verið bæði löng og stutt.
Frammæltu einhljóðin eru ‘í’, ‘i’, ‘e’, ‘u’, ‘ö’ [i ɪ ɛ ʏ œ]; tvö þau síðastnefndu eru kringd, en hin ókringd.
í [i] er frammæltast og nálægast (lokaðast) sérhljóðanna. Nálgunin verður mest á mörkum framgóms og hágóms. Í i [ɪ] er þrengingin nokkru aftar, við hágóm. Að auki er ‘i’ [ɪ] oft fjarlægara (opnara) en ‘í’ [i], þótt það geti verið álíka nálægt. Þrengingin í e [ɛ] er enn aftar, og talsvert minni. Hljóðið er því opnara en ‘i’ [ɪ], og venjulega talið miðlægt.
u [ʏ] er svo myndað enn aftar en ‘e’ [ɛ], og hefur svipað opnustig; er miðlægt. ö [œ] myndast á mörkum hágóms og gómfillu, talsvert aftar en ‘u’ [ʏ], og er nokkru fjarlægara (ýmist talið miðlægt eða fjarlægt). Varir eru kringdar við myndun beggja þessara hljóða.
Uppmæltu einhljóðin eru ‘ú’, ‘o’, ‘a’ [u ɔ a]; tvö þau fyrrnefndu kringd, en [a] ókringt.
ú [u] er nálægast uppmæltu hljóðanna, lítið fjarlægara en ‘í’ [i]; þrengingin er mest um miðja gómfillu. o [ɔ] er talsvert uppmæltara en ‘ú’ [u], og fjarlægara; hefur opnustig á svipuðu bili og ‘e’ [ɛ ] og ‘u’ [ʏ] og því talið miðlægt.
Í myndun a [a] er þrengingin mest milli tungurótar og kokveggjar. [a] er fjarlægast og uppmæltast íslenskra sérhljóða.
Tvíhljóðunum er oft skipt í tvennt; ‘ú’-tvíhljóð, þar sem [u] er seinni hlutinn, og ‘í’-tvíhljóð, sem hafa [i] sem seinni hluta. Hin fyrrnefndu eru aðeins tvö, á [au] og ó [ou]; hin síðarnefndu eru æ [ai], ei [ei] og au [œi].
Sum hljóðfræðileg atriði tilheyra einstökum, tilteknum málhljóðum, og hægt er að gera grein fyrir þeim án tillits til hljóðumhverfis. Ef við þurfum t.d. að lýsa ‘í’ [i] getum við fullyrt að það er frammælt, nálægt, ókringt einhljóð, óháð því hvar í orði það stendur. Ýmsa aðra eiginleika þess er hins vegar ekki hægt að skilgreina út frá því einu sér, heldur verður að líta til stærri einda.
Meðal þeirra eiginleika sem þar er um að ræða eru LENGD og ÁHERSLA; hvorttveggja er afstætt. Við getum ekki sagt um tiltekið hljóð í einangrun að það beri áherslu; til að geta sagt það verðum við að hafa samanburð við önnur hljóð. Þegar við erum komin með heil orð eða setningar getum við aftur á móti sagt að tiltekið atkvæði eða orð beri áherslu miðað við önnur atkvæði eða orð í hljóðfræðilegu umhverfi sínu.
Sama máli gegnir um lengd hljóða. Talhraði getur nefnilega verið mjög mismunandi; og hljóð sem telst (hlutfallslega) „langt“ í mjög hröðu tali getur vel verið styttra en hljóð sem telst (hlutfallslega) „stutt“ í hægu tali. Ef við segjum t.d. una [ʏːna] hægt getur „stutta“ ‘n’-ið vel orðið lengra en „langa“ ‘n’-ið í unna [ʏnːa] í hröðum framburði; frá hljóðkerfislegu sjónarmiði er samt enginn vafi á því að í ‘unna’ er (hlutfallslega) langt /n:/, en í ‘una’ (hlutfallslega) stutt /n/.
Ýmis önnur hljóðfræðileg atriði verða ekki heldur skoðuð nema út frá mállegu samhengi, s.s. ÍTÓNUN, BROTTFÖLL úr samhljóðaklösum, SAMLAGANIR o.fl.
ÁHERSLA getur falist í samspili þriggja þátta; styrks, tónhæðar og lengdar. Stundum stuðlar allt í senn að aukinni áherslu; aukinn styrkur, hækkaður grunntónn og meiri lengd.
Hægt er að tala um þrjár megintegundir áherslu; „innbyggða“ áherslu, orðáherslu og setningaráherslu. „Innbyggð“ áhersla er mismunandi eftir því hvers konar orðhluti (myndan) á í hlut. Það virðist ljóst að sumum þeirra er „eiginlegt“ að hafa áherslu, en öðrum að vera áherslulausir. Meginreglan er sú að rætur hafi áherslu, beygingarendingar séu áherslulausar; en viðskeytum er ýmist eðlilegt að bera áherslu eða vera áherslulaus, og fer það m.a. eftir lengd þeirra og merkingu.
Um forskeyti gegnir dálítið sérstöku máli. Það mætti búast við að þau höguðu sér eins og viðskeyti; en hér spilar mismunandi staða í orði inn í. Það vill svo til að forskeytin standa fremst í orði, og fyrsta atkvæði orðs er (nær) undantekningarlaust áhersluatkvæði í íslensku; því fá forskeytin yfirleitt aðaláherslu. Þarna erum við komin út á svið orðáherslu, þar sem meginreglan er sú að fyrsta atkvæði hvers orðs beri sterkustu áhersluna.
Setningaráherslan kemur svo til sögu þegar orðið stendur ekki lengur eitt, heldur er orðið að hluta stærri heildar. „Áhersluatkvæði“ í tilteknu orði getur eftir sem áður haft minni áherslu en „áherslulaust“ atkvæði í öðru orði, ef sérstök áhersla er lögð á síðarnefnda orðið í heild. Tilhneiging er til að „mikilvægustu“ orðin fái mestu áhersluna; en einnig er sterk tilhneiging til víxlhrynjandi, þannig að áhersluatkvæði og áherslulaus skiptist á. Þarna á milli geta svo orðið alls kyns árekstrar; samspil víxlhrynjandi, setningaráherslu, orðáherslu og „innbyggðrar“ áherslu getur verið mjög fjölbreytt og flókið.
Meginreglan er sú að aðaláhersla (sem í hljóðritun er táknuð með [ˈ] á undan viðkomandi atkvæði) er á fyrsta atkvæði orðs í íslensku. Tilhneiging málsins til víxlhrynjandi veldur því svo að aukaáhersla (sem táknuð er með [ˌ ]) leitast við að koma á þriðja (fimmta, sjöunda o.s.frv.) atkvæði. Orðið kennari yrði því með áherslutáknum hljóðritað [ˈcʰɛnːaˌrɪ].
Í samsettum orðum þar sem fyrri liður er einkvæður verður víxlhrynjandin oft sterkari en hin „innbyggða“ rótaráhersla seinni hlutans; háskóli er venjulega borið fram [ˈhauːskouˌlɪ] (eða með einhljóðun í síðari lið, [ˈhauːskɔlɪ]), en hvorki með aukaáherslu á rót seinni liðarins, [ˈhauːˌskoulɪ], né með aðra aðaláherslu á rót seinni liðar , [ˈhauːˈskouːlɪ]. Í samsettum orðum með fleirkvæðan fyrri lið, og í margsamsettum orðum, er hins vegar oft sterk áhersla á rótaratkvæði seinni (síðasta) liðar, t.d. alþingismaður [ˈalθiɲcɪsˈmaːðʏr], hæstaréttardómari [ˈhaistaˌrjɛhtarˈtouːmaˌrɪ].
Í sumum forskeyttum orðum getur forskeytið misst áhersluna í samfelldu tali, þannig að fyrsta atkvæði orðsins beri ekki lengur aðaláherslu. Hann er óvitlaus, greyið er eðlilegast að bera fram [ˈhanɛr ouˈvɪhtlœis kreijːɪð].
Þótt rödd hvers einstaklings hafi ákveðna meðaltíðni erum við sífellt að breyta grunntíðni raddar okkar eftir því hvað við erum að segja, og hvernig við viljum segja það. Vegna þess að aukin áhersla felst m.a. í hækkaðri grunntíðni má búast við – og er eðlilegt – að þau orð sem eru mikilvægust í setningum séu borin fram með hærri grunntíðni en önnur. Oft kemur fram tilhneiging til að láta tónhæðina sveiflast upp og niður með tiltölulega jöfnu millibili, án tillits til þess sem verið er að segja. Það er þá tilviljanakennt hvort eitthvert samræmi verður milli hljómfalls og merkingar. Slík framsögn verður oft mjög óeðlileg.
Stafsetning er aðferð til að tákna talað mál í riti, og bókstafirnir eru fulltrúar fyrir hljóðin (þótt sú samsvörun sé auðvitað ekki fullkomin). En þegar skrifað er skiptir fleira máli en bara það hvaða bókstafir eru notaðir. Einnig þarf að gæta að greinarmerkjum; kommur, punktar, þankastrik, spurningarmerki og upphrópunarmerki þarf að setja eftir ákveðnum reglum; og stundum eru líka höfð greinaskil í textanum.
Það er hins vegar ekki hægt að segja að greinarmerki eða greinaskil svari til ákveðinna hljóða, á sama hátt og t.d. bókstafurinn ‘s’ svarar yfirleitt til hljóðsins [s], bókstafurinn ‘í’ svarar yfirleitt til hljóðsins [i], o.s.frv. Eða hvernig á að bera fram – , . og ? (þ.e. þankastrik, kommu, punkt og spurningarmerki)?
Í fljótu bragði gæti manni virst einboðið að svara þessari spurningu svo að þessi fyrirbæri séu alls ekki borin fram. Þegar betur er að gáð kemur þó í ljós að það er ekki rétt; þau svara bara ekki til ákveðinna málhljóða, eins og bókstafirnir, heldur til mismunandi ítónunar eða hljómfalls raddarinnar. Með talsverðri einföldun getum við sagt að hvert greinarmerki svari til ákveðinnar breytingar á grunntíðni raddarinnar.
Mælandi gefur það til kynna með breytingum á tónhæð (sem svarar til punkts eða kommu) hvort máli hans er lokið eða hvort vænta má framhalds. Í lok málsgreinar stefnir tónninn yfirleitt niður á við, ef hann hefur lokið máli sínu eða einhver meginskil verða í því sem hann er að segja. Ef hann gerir aftur á móti örstutt hlé (annaðhvort til að anda eða til að sýna einhver skil í efninu) og ætlar að halda áfram, lækkar tónninn ekki. Því má segja að lækkandi tónn í lok setningar svari til punkts, en jafn eða hækkandi tónn svari til kommu.
Þegar spurningar eru bornar fram er það oftast gert með sérstökum spurnarorðum (hver, hvað, hvernig o.s.frv.) eða með breyttri orðaröð. Þessu fylgir líka yfirleitt sérstakur spurnartónn, sem felst í hækkaðri grunntíðni á fyrsta atkvæði síðasta orðsins í spurningunni.
Oft er spurnartónninn einn látinn um það að sýna að um spurningu sé að ræða, og hvorki notuð sérstök spurnarorð né orðaröð breytt. Þetta er t.d. algengt í „eins orðs spurningum“; þegar eitt orð með spurnartón er látið koma í stað heillar setningar. Ef við spyrjum eftir einhverjum, og fáum svarið ‘Hann er farinn’, getum við sagt Farinn? með spurnartón, í merkingunni ‘Er hann (virkilega) farinn?’. Og ef við erum að hringja og erum ekki alveg viss hver svarar getum við sagt Sigurjóna? í merkingunni ‘Er þetta Sigurjóna?’.
Íslensk málhljóð eru ýmist stutt eða löng. Lengd er aðgreinandi í málinu, þannig að tvö orð sem hafa að geyma sömu hljóð er hægt að greina sundur í framburði með því að gefa hljóðunum mismunandi lengd. Athugum t.d. orðin vina og vinna . Í því fyrrnefnda er langt ‘i’ [ɪː], en stutt ‘n’ [n], en í því síðarnefnda stutt ‘i’ [ɪ] og langt ‘n’ [nː]. Vina er því hljóðritað [vɪːna], en vinna er hljóðritað [vɪnːa]; lengdin er táknuð með [ː].
Þótt hér sé talað um „löng“ hljóð og „stutt“ er því alls ekki svo varið að hægt sé að miða við einhvern ákveðinn fjölda millisekúndna (ms) og segja að öll hljóð sem eru styttri en það mark séu „stutt“, en lengri hljóð séu „löng“. Hér er um að ræða afstæða lengd; hlutfallið milli hljóða í sama atkvæði. Raunveruleg lengd getur hins vegar verið mjög mismunandi eftir talhraða o.fl.
Athugið líka að þótt verið sé að bera saman hljóð í sama talhraða eru löngu hljóðin ekki helmingi lengri en þau stuttu. Hlutfallið virðist yfirleitt vera á bilinu 3:5 – 4:5. Á „venjulegum“ talhraða eru „stutt“ málhljóð í íslensku venjulega á bilinu 100–150 millisekúndur, en „löng“ á bilinu 150–300 millisekúndur. Eitt hljóð sker sig þó verulega úr; það er ‘r’ [r]. Langt [rː] hefur oft svipaða lengd og önnur löng hljóð, en stutt [r] er miklu styttra en önnur stutt hljóð; það virðist fara allt niður í 30–40 millisekúndur.
Sú meginregla gildir um (afstæða) lengd sérhljóða í íslensku, að sérhljóðin eru stutt á undan löngu samhljóði eða samhljóðaklasa – annars löng. Lengd sérhljóða er sem sé stöðubundin, þ.e. fer eftir umhverfi þeirra. Þannig eru stutt sérhljóð í nudd, grunn, riss, skegg, töff, ball [nʏtː krʏnː rɪsː scɛkː tʰœfː palː] (langt samhljóð á eftir), og í vist, þrusk, stóll, hopp, gafl, sókn [vɪst θrʏsk stoutl̥ hɔhp kapl̥ souhkn̥] (samhljóðaklasi á eftir). Hins vegar eru sérhljóðin löng í tó, grá, ný, þrjú, þvo, ske [tʰouː krauː niː θrjuː θvɔː scɛː] (ekkert hljóð á eftir); í búa, gróa > [puːa krouːa] (sérhljóð á eftir); og í mál, snuð, hús, fet, gæs, haus [mauːl stnʏːð huːs fɛːt caiːs hœiːs] (eitt stutt samhljóð á eftir).
Ákveðin samhljóðasambönd eru þó undantekning frá þeirri meginreglu að sérhljóð séu stutt á undan samhljóðaklasa. Þetta eru sambönd þar sem ‘p’, ‘t’, ‘k’, ‘s’ fer á undan ‘v’, ‘j’, ‘r’. Reyndar koma ekki öll hugsanleg sambönd fyrir, en sem dæmi má nefna lepja, kleprar, setja, glitra, vökva, bekri, dysja, lausra [lɛːpja kʰlɛːprar sɛːtja klɪːtra vœːkva pɛ:ːkrɪ tɪːsja lœiːsra] – öll með löngu stofnsérhljóði.
Þessar reglur gilda þó eingöngu um áhersluatkvæði; þ.e. fyrsta atkvæði í ósamsettum orðum, og stundum fyrsta atkvæði síðari hluta samsettra orða. Í áherslulausum atkvæðum eru öll hljóð venjulega stutt. Þannig er ‘i’ [ɪ] í hani [haːnɪ] ekki langt, þótt það sé í bakstöðu, né ‘u’ [ʏ] í maður [maːðʏr], þótt þar fari aðeins eitt samhljóð á eftir.
Samhljóð áherslulausra atkvæða eru ekki heldur löng, jafnvel ekki þau sem eru tvírituð í stafsetningu. Þess vegna vefst það fyrir mörgum hvenær rita skuli eitt ‘n’ og hvenær tvö. Það er t.d. enginn framburðarmunur á nf. himinn og þf. himin; þau eru bæði borin fram [hɪːmɪn], þótt það fyrra hafi ‘nn’, en hitt bara ‘n’ í stafsetningu.
Stundum er sagt að skýr framburður felist í því að „bera fram alla stafina“. Þetta er villandi orðalag af tveimur ástæðum. Í fyrsta lagi berum við ekki fram stafi, heldur hljóð; bókstafirnir eru hins vegar fulltrúar hljóðanna í riti, og þessu tvennu má ekki rugla saman, enda má finna margs konar ósamræmi milli stafsetningar og framburðar í íslensku (og öðrum málum).
Í öðru lagi er það líka rangt að hver einasti bókstafur í orðinu rituðu skuli alltaf eiga sér fulltrúa í framburðarmynd þess. Mjög algengt er að einhver hljóð, t.d. lokahljóð stofns, sem koma fram í sumum beygingarmyndum orðs, komi ekki fram í öðrum myndum þess eða skyldum orðum, án þess að nokkur ástæða sé til að tala um óskýrmæli. Þótt ‘g’ [k] sé í karlkyni lýsingarorðsins margur [markʏr], og ‘f’ [v] í nafnhætti sagnarinnar þurfa [θʏrva], ber víst enginn hvorugkyn lýsingarorðsins fram *[markt] eða *[mar̥kt], né þátíð sagnarinnar fram *[θʏrvtɪ] eða *[θʏr̥ftɪ]. Allir segja margt [mar̥t] og þurfti [θʏr̥tɪ], þótt ‘g’ og ‘f’ séu auðvitað skrifuð í þessum myndum.
Dæmi á við þessi eru mýmörg í málinu, einkum í samhljóðaklösum sem myndast þegar ending sem hefst á samhljóði bætist við stofn sem endar á tveimur (eða fleiri) samhljóðum, eins og í ‘marg+t’, ‘þurf+ti’. Þá er algengast að miðhljóð klasans (eitt eða fleiri) falli brott, en upphafs- og endahljóð hans standi eftir. Ekki er þetta þó algilt, og útilokað að gefa nákvæmar reglur um slík brottföll.
Það er líka misjafnt eftir einstaklingum, talhraða, málsniði o.s.frv. hversu víðtæk brottföllin eru. Sum eru algild, eins og í margt og þurfti ; en sá sem segir heimsks barns [heims pasː] í daglegu tali gæti átt það til að segja [heimsks partn̥s] við formlegar aðstæður. Í slíkum tilvikum er mjög erfitt að segja hvenær réttlætanlegt er að tala um „óskýran“ framburð; og eins hvenær hægt er að tala um ofvöndun, þ.e. að framburðurinn sé lagaður um of að stafsetningunni.
Það er líka fullkomlega eðlilegt að fella brott áherslulaus sérhljóð í bakstöðu ef næsta orð hefst á sérhljóði. Ég sagði ekki neitt berum við fram [ˈjɛːɣ ˈsaɣðɛhcɪ ˈneiht], en ekki [ˈjɛːɣ ˈsaɣðɪ ˈɛhcɪ ˈneiht], og Þeir fóru út berum við fram [ˈθeir̥fouˈruːt], ekki [ˈθeiːr ˈfouːrʏ ˈuːt].
‘h’ fellur einnig brott í framstöðu áherslulausra orða í eðlilegu, samfelldu tali; Fór hann burt? berum við fram [ˈfouːran ˈpʏr̥t], ekki [ˈfouːr ˌhanː ˈpʏr̥t], og Ég sýndi henni hann berum við fram [ˈjɛːɣ ˈsintɛnˌan], ekki [ˈjɛːɣ ˈsintɪ ˈhɛnːɪ ˈhanː]. Þegar ‘h’ fellur framan af fornöfnunum í seinna dæminu eru komin saman sérhljóð í upphafi orðanna og sérhljóð í enda næsta orðs á undan; þau síðarnefndu falla þá brott í samræmi við áðurnefnda reglu. [h] er hins vegar borið fram í slíkum tilvikum ef orðin bera áherslu.
Í samfelldu tali verða oft ýmiss konar samlaganir milli tveggja samliggjandi orða; oftast þannig að fyrsta hljóðið í seinna orðinu leitast við að laga seinasta hljóðið í því fyrra að sér, t.d. hvað varðar röddun. Þar sem er t.d. oftast borið fram [θar̥sɛm], með órödduðu [r̥] fyrir áhrif frá óraddaða [s]-hljóðinu. Hið sama má sjá í samsettum orðum; ef fyrri liður endar á rödduðu hljóði og sá seinni hefst á órödduðu er algengt að óraddaða hljóðið hafi áhrif á hitt. Við segjum oftast fjársjóður [ˈfjaur̥sjouˌðʏr], ekki [ˈfjauːrˌsjouːðʏr], hafskip [ˈhafscɪp], ekki [ˈhaːvscɪp].
Nefhljóð samlagast mjög oft eftirfarandi lokhljóði að myndunarstað. Við segjum oft samkoma [ˈsaŋkʰɔˌma], innbær [ˈɪmpair] í stað [ˈsamkʰɔˌma] og [ˈɪnpair]. Slík samlögun verður líka milli orða, þannig að sagt er '(Maðurinn) sem kom, sem keyrði, sem dó [sɛŋkʰɔːm], [sɛɲcʰeirðɪ], [sɛntouː] í stað [sɛm] alls staðar.
Þessu skylt er það að í upphafi ýmissa fornafna og atviksorða er borið fram [ð] í stað [θ], þegar þessi orð standa í áherslulausri stöðu í setningum. Þannig segjum við Ég sýndi þér það [ˈjɛːɣˈsintɪˌðjɛrða(ð)] en ekki [ˈjɛːɣ ˈsintɪ ˈθjɛː ˈθaːð]. Þurfi hins vegar að leggja áherslu á orðin er borið fram [θ]; Ég sýndi þér ÞETTA [ˈjɛːɣ ˈsintɪˌðjɛr ˈθɛhta].
Ekkert af því sem hér hefur verið nefnt er ástæða til að kalla óskýrmæli; þvert á móti er flest af því langeðlilegasti framburðurinn.
Árni Böðvarsson. 1975. Hljóðfræði. Ísafoldarprentsmiðja hf., Reykjavík.
Eiríkur Rögnvaldsson. 1989. Íslensk hljóðfræði. Kennslukver handa nemendum á háskólastigi. Málvísindastofnun Háskóla Íslands, Reykjavík
Eiríkur Rögnvaldsson. 1990. Íslensk hljóðfræði handa framhaldsskólum. Mál og menning, Reykjavík.
Fry, D.B. 1979. The Physics of Speech. Cambridge University Press, Cambridge.
Indriði Gíslason og Höskuldur Þráinsson. 1993. Handbók um íslenskan framburð. Rannsóknarstofnun Kennaraháskóla Íslands, Reykjavík.
Ladefoged, Peter. 1982. A Course in Phonetics. 2. útg. Academic Press, New York.
Magnús Pétursson. 1976. Drög að almennri og íslenskri hljóðfræði. Iðunn, Reykjavík.
Sigurður Konráðsson. 1996. Hljóðfræði. Mál og menning, Reykjavík.