Greinar

Sigríður Magnúsdóttir
Mál- og talmein

1. Skipting heilans og skipulag

Heilinn liggur vel varinn innan í sterkri höfuðkúpunni. Hann skiptist í tvö heilahvel, það hægra og það vinstra, og eru þau spegilmynd hvort af öðru. Heilahvelin bera ábyrgð á æðri starfsemi, svo sem tali og máli, minni og greind. Hvoru heilahveli er skipt í fjögur svæði, en þau nefnast ENNISBLAÐ, HVIRFILBLAÐ, GAGNAUGABLAÐ og HNAKKABLAÐ.

Á þessari mynd má sjá hvernig heilahvelunum er skipt niður i fjögur svæði, en þau heita ennisblað, hvirfilblað, gagnaugablað og hnakkablað. Þessi skipting á við um bæði hægra og vinstra heilahvel eða heilahelminga.

Ennisblaðið er ofarlega og framan til og þaðan er viljastýrðum hreyfingum stjórnað, eins og t.d. þegar við ákveðum að lyfta fingri og benda, sparka í bolta eða standa upp. Þar er líka talsvæðið. Hvirfilblaðið er nálægt hvirfilbeini aftan við ennisblaðið. Þar fer m.a. fram margs kyns skynúrvinnsla frá öllum líkamanum. Dæmi um það er snerting einhvers staðar eins og t.d. klapp á öxlina. Gagnaugablaðið er aftan við gagnaugað, neðan við ennisblaðið, og þar eru t.d. heyrnarsvæðin, en hnakkablaðið, sem er aftasti og neðsti hlutinn sér m.a. um sjónræna úrvinnslu. Þangað berast upplýsingar um allt sem við sjáum.

Hvor heilahelmingur stjórnar hreyfingum á gagnstæðri líkamshlið, þannig að vinstra heilahvelið stjórnar hægri hlið líkamans (hægri hendi, hægra fæti o.s.frv.) en hægra heilahvelið vinstri hlið líkamans. Sömuleiðis vinnur hvor heilahelmingur úr margs kyns skynjun frá gagnstæðri hlið. Það sem við þekkjum best er það sem við skynjum með augum, eyrum, nefi og bragðlaukum, en auk þess eru líka sérhæfðir skynnemar í húðinni sem greina snertingu, sársauka, þrýsting, hita og kulda. Þessir skynnemar senda mikilvægar upplýsingar upp til heilans þannig að það sem gerist á vinstri hlið líkamans berst upp til hægra heilahvels til úrvinnslu, en það sem gerist hægra megin á líkamanum berst upp til vinstra heilahvels.

Hér er dæmi um tengslin á milli handa og heilans, en það sama gildir um alla hlið líkamans. Við sjáum hvar heilinn er í höfðinu og svo sjáum við líka hvort heilahvel (það hægra ofan við hægri hendi og það vinstra ofan við vinstri hendi) fært til hliðar til að skilja betur hvernig þetta gengur fyrir sig. Skoðum fyrst hreyfisvæðin sem stjórna viljastýrðum hreyfingum, en þau eru aftan til í ennisblaði heilans báðum megin. Við sjáum hvernig örin liggur frá hreyfisvæðinu niður til gagnstæðrar handar og hvernig hin örin stefnir frá höndunum upp til skynjunarsvæðanna í gagnstæðum heilahelmingi, nánar til tekið í hvirfilblaði heilans. Þarna sjáum við sem sagt hvernig hvorri hönd fyrir sig er þjónað af svæðum í gagnstæðu heilahveli.

En þó heilahvelin séu svipuð í útliti og stjórni hreyfingum og skynjun hvort í sínum líkamshelmingi, búa þau líka yfir mikilli sérhæfingu hvort um sig. Við þurfum ekki annað en að skoða á okkur hendurnar til að sjá að nánast alltaf er önnur höndin öflugri en hin. Við erum sem sagt flinkari með annarri hendinni en hinni, flestir með þeirri hægri en sumir með þeirri vinstri. Mjög fáir eru jafnvígir á báðar. Þessi hæfileikamunur á höndunum er aðeins eitt af mörgum dæmum um ólíka starfsemi heilahvelanna.

1.1 Sérhæfing vinstra heilahvels

Margs konar rannsóknir frá síðari hluta 20. aldar hafa sýnt fram á hversu ólík heilahvelin eru varðandi ýmsa starfsemi og skipulagningu. Fyrstu og áhrifamestu upplýsingarnar um ólíka starfsemi heilahvelanna birtust mönnum við skoðun á hegðun fólks eftir ýmiss konar heilaskaða. Eitt af því fyrsta sem menn áttuðu sig á eru tengslin á milli skaða í vinstra heilahveli og svokallaðs málstols. Málsvæðin eru oftast í vinstra heilahveli. Stjórnun á máltjáningu fer fram á svæði á mótum ennisblaðs og hvirfilblaðs framan til í vinstra heilahveli, en á svæði aftan til í vinstra heilahveli á gagnaugablaði fer fram úrvinnsla á því sem við heyrum.

Þessi mynd sýnir tvö aðalmálsvæðin í heilanum. Við horfum á vinstri hlið heilans þar sem þessi svæði eru. Svæðið sem kennt er við Paul Broca og stjórnar máltjáningu er framar en hitt sem kennt er við Carl Wernicke, en það ræður málskilningi. Það eru ekki sambærileg svæði hægra megin í heilanum.

Þessi mikilvægu svæði eru tengd saman með taugabrautum sem liggja þarna á milli.

Hér sjást taugabrautirnar (á ensku heita þær „arcuate fasciculus“), sem tengja málsvæðin í vinstra heilahveli saman. Hugsum okkur að við hlustum á vin okkar tala. Það sem við heyrum berst inn á málskilningssvæðið í gagnaugablaði, sem kennt er við Wernicke, en þar vinnum við úr þeim upplýsingum sem berast. Til að bregðast við því sem vinur okkar var að segja og svara honum sendum við boð um þessar taugabrautir fram á svæði Broca, sem sér um máltjáninguna, um það sem við ætlum að segja, og svo tölum við.

Þegar fólk fær heilaáfall vinstra megin í heila getur það átt á hættu að fá málstol, þ.e. að missa hæfileikann til þess að tjá sig með orðum eða táknum, skilja mælt mál, eða táknmál ef menn hafa notað það til þess að tjá sig, eða lesa og skrifa. Málstol getur verið mismikið, það fer eftir stærð og umfangi skaðans í heilanum.

1.2 Sérhæfing hægra heilahvels

Áframhaldandi athuganir á fólki með heilaskaða leiddu svo til frekari uppgötvana á sérhæfingu heilahvelanna. Ólíkt fólkinu sem á erfitt með að nota málið vegna skaða í vinstra heilahveli, eiga þeir sem fengu skaða í hægra heilahvelið oft í vandræðum með margs konar skynúrvinnslu og athygli. Sem dæmi má t.d. nefna það að rata um á nýjum stað eða jafnvel heima hjá sér. Sumir eiga erfitt með að þekkja kunnugleg andlit og stundum kemur líka fram svokallað gaumstol.

Neglect hefur verið nefnt gaumstol á íslensku vegna þess að þeir sem þjást af þessu gefa því ekki gaum sem er vinstra megin við þá, eða jafnvel neita því að þar sé eitthvað, þó þeir sjái í sjálfu sér ágætlega. Þetta fyrirbæri kemur líka glögglega í ljós þegar fólk sem þjáist af gaumstoli er beðið um að teikna. Það sést vel á meðfylgjandi mynd. Fyrirmyndin sem sjúklingnum var gefin er öðru megin, en það sem hann teiknaði, þegar hann var beðinn um að teikna hlutina nákvæmlega eins, er hinum megin. Vel sést hvernig hann sleppir því sem er vinstra megin við miðju á hverri mynd. Gaumstol er oftast fylgikvilli skaða í hægra heilahveli og hefur áhrif á skynjun á því sem er vinstra megin við þann sem af því þjáist. Einstöku sinnum er þetta á hinn veginn (vegna skaða í vinstra heilahveli með áhrif á það sem er hægra megin) en þá alltaf vægara og virðist ganga frekar yfir.

Það felst í því að menn hætta að gefa gaum að því sem er annars vegar á sjónsviðinu, oftast vinstra megin. Þá er eins og viðkomandi virði vinstri helming sjónsviðs að vettugi, vinstri helming líkamans sömuleiðis, sleppi því jafnvel að borða það sem er á vinstri helmingi disksins, að raka vinstri helming andlitsins og neiti að gefa vinstri hluta líkamans gaum, svo nokkur dæmi séu nefnd. Það hefur líka komið í ljós að skaði í hægra heilahveli getur orsakað missi á tónlistarhæfileikum án þess að talið skaðist nokkuð, enda ljóst að málstöðvarnar eru oftast í vinstra heilahveli í rétthentu fólki.

2. Talgallar

Gerður er greinarmunur á talgöllum annars vegar og málgöllum hins vegar. Með talgöllum er fremur átt við erfiðleika við að gera sig skiljanlegan og notfæra sér málkunnáttuna og beita henni. Í eðlilegri beitingu málkunnáttunnar felst m.a. að framburður á orðunum sé skýr, talið sé laust við óeðlilegt hik og stam og að röddin sé þokkaleg.

2.1 Framburðargallar og leiðrétting þeirra

Framburðargallar geta verið margs konar. Margir kannast t.d. við einhvern sem skrollar en þá myndar fólk ‘r’-hljóðið aftur í koki og notar úfinn við myndun hljóðsins í stað tungubroddsins eins og heyra má í hljóðdæminu . Annar þekktur framburðargalli er smámæli en þá er ‘s’-hljóðið borið fram eins og þ. En lítum aðeins nánar á það, hvað börn gera, þegar þau eiga erfitt með að bera fram einhver hljóð, þ.e. þegar þau finna ekki nákvæmlega réttan stað í munninum og viðeigandi stillingu á talfærunum. Stundum er eitt hljóð notað í staðinn fyrir annað eins og t.d. ‘þ’ í staðinn fyrir ‘s’ eða samhljóðaklasar eru einfaldaðir eins og þegar borið er fram ‘k’ í staðinn fyrir ‘sk’ í orði eins og skóli. Stundum gerist það að barnið virðist nota rétt málhljóð, en samt hljómar það ekki alveg rétt. Oft er vitleysan reglubundin, ef svo má segja, og hægt er að greina ákveðin munstur í hljóðunum sem eru til vandræða. Til dæmis má oft greina sömu hljóðþætti í röngu hljóðunum og þeim sem mynda á, þ.e. að einu hljóði er skipt út fyrir annað sem er að einhverju leyti líkt. En einnig getur verið um það að ræða að einhvern slíkan þátt vanti í nokkrum hljóðum. Lítum á nokkur dæmi til útskýringar:

þ/s (úr þessu er lesið svona: „þ er borið fram í staðinn fyrir s“ – eins og sagt væri þúpa í stað súpa)
þ/f

Í báðum þessum dæmum er skipt á hljóðum á þann hátt að í stað eins óraddaðs önghljóðs er sett annað óraddað önghljóð. Hér er því um að ræða rangan myndunarstað en ekki rangan myndunarhátt.

b/p
d/t
g/k

Hér vantar fráblástur á lokhljóðin. Þetta gætu talkennarar og talmeinafræðingar nýtt sér með því að vinna fyrst með fráblástur almennt, og taka síðan hvert par sérstaklega fyrir ef verið væri að leiðrétta svona framburð.

p/f
t/þ
t/s

Í þessum dæmum kemur í ljós að það eru alls staðar notuð lokhljóð í staðinn fyrir önghljóðin sem hafa sama eða svipaðan myndunarstað. Í þessu tilfelli væri skynsamlegt fyrir talkennara og talmeinafræðinga að byrja að útskýra og æfa það sérstaklega hvernig sum hljóð myndast við öng (þ.e. þrengsli) í munni en önnur við lokun. Í talkennslu gildir sem sé almennt að rétt er að byrja að vinna með þann þátt sem vantar eða er rangur og snúa sér síðan að hljóðunum sem viðkomandi barn á í erfiðleikum með.

Við undirbúning talkennslu er nauðsynlegt að talmeinafræðingur leggi fyrir framburðarpróf (Sigríður Magnúsdóttir og Höskuldur Þráinsson, 1981) og greini nákvæmlega hvaða hljóð það eru í tali barnsins (oftast er um börn að ræða) sem ekki eru rétt og hvar þau koma fyrir í orðunum. Eru þau í framstöðu orðanna eingöngu, þ.e. fremst í orðinu, eða eru þau kannski þar og líka í innstöðu og bakstöðu? Einnig þarf að athuga hvort barnið getur e.t.v. sagt hljóðið eitt með sérhljóði án þess að geta myndað það í samhljóðasamböndum, en það er yfirleitt erfiðara. Þegar þessar upplýsingar liggja fyrir, þarf að hefja meðferð til að kenna barninu réttan framburð. Fyrst þarf að finna réttan stað í munninum fyrir hljóðin sem barnið hefur ekki náð tökum á og hefur sjálfsagt hver talkennari og talmeinafræðingur sinn hátt á því. Næst er hljóðið æft á mismunandi stöðum í einföldum orðum og í samhljóðasamböndum, seinna í setningum og svo að síðustu í daglegu tali (í venjulegum samræðum). Þegar þetta er allt komið, útskrifast barnið úr meðferðinni.

2.2 Mállegt verkstol

Hér er um mjög alvarlega framburðargalla að ræða, þar sem talfærin láta ekki að stjórn við að mynda málhljóð og orð. Þessi taltruflun orsakast af einhvers konar heilaskaða. Þetta gerist ekki vegna þess að í talfærum sé slappleiki eða stirðleiki, því talfærin eru í raun alveg nógu sterk til að gera það sem ætlast er til af þeim. Þessu fyrirbæri er kannski best lýst þannig að viðkomandi viti ekki hver staða eða stilling talfæranna er hverju sinni, og hann þurfi að leita að hljóðunum sem hann ætlar að bera fram. Leiðréttingar á svona framburðargöllum eru mjög erfiðar viðfangs, vegna þess að í raun er ekkert munstur í vitleysunum sem málnotandinn gerir, ólíkt því sem gerist hjá barni með hefðbundnari framburðargalla sem getur t.d. ekki myndað ‘s’ eða ‘r’. Það er mjög tilviljunarkennt hvaða hljóð er rangt borið fram hverju sinni hjá þessum hópi og þess vegna er svo erfitt að einbeita sér að því að kenna hljóðin sem eru til vandræða án þess að þurfa að hafa áhyggjur af því að á næsta augnabliki sé allt annað hljóð vitlaust borið fram, en það gerist einmitt hjá þeim sem þjást af mállegu verkstoli af þessu tagi.

2.3 Þvogl

Þessi framburðargalli orsakast af einhvers konar heilaskaða og er oft fylgifiskur einhverra annarra vandamála, eins og t.d. heilalömunar hjá börnum, Parkinsonsveiki hjá fullorðnum o.fl. Einkennin eru þau að vöðvar talfæra og öndunarfæra eru slappir og stirðir svo talið verður óskýrt og oft erfitt fyrir viðmælendur að skilja hvað sagt er eins og í þessu hljóðdæmi . Slappleiki í öndunarfærunum veldur því að raddstyrkur er oft lítill. Þetta er hins vegar frábrugðið því þegar vöðvar talfæranna láta ekki að stjórn eins og þegar um mállegt verkstol er að ræða.

2.4 Stam

Flestir kannast sjálfsagt við stam og hafa einhvern tímann heyrt í manneskju sem stamar . Tal stamara hefur mikil áhrif á þann sem hlustar og getur stamið jafnvel komið í veg fyrir að stamarar komi hugmyndum sínum almennilega á framfæri. Stam er afskaplega mismunandi og engir tveir stamarar tjá sig eins. Stundum er eins og allt standi fast og hvorki einstök hljóð né orð komist út, eða þá að dvalið er mjög lengi á einu og sama hljóðinu sem verður þá allt of langt. Slíkt getur komið fyrir hvar sem er í orði. Endurtekningar á einstökum hljóðum, atkvæðum, orðum eða jafnvel setningahlutum geta líka komið fram og stundum eru dæmi um að byrjað sé á orði en síðan hætt við. Lítum á nokkur dæmi:

...þá hr-hr-hrapaði þyrlan. A-a-a-afi var með tjakka þarna. Einu sinni voru krakkar sem m-m-meiddu sig

En-en ég á eitt (endurskinsmerki) á-á-á skíðaúlpunni minni fyrir-fyrir bílana að sjá mann vel. En veistu Villi-Villi-Villi-Villi-Villi-Villi fellir mig stu... oft. Hvernig-hvernig er byssuleikurinn?


Ég fer-ég-ég fer í sumar til útlanda. Hún er ekki-hún er ekki einu sinni fimm ára. Að ná í-að ná í fisk.

Innskot eins og sko, bara eða hérna heyrast stundum og þá gjarnan á óvenjulegum stöðum í setningunum. Í flestum tilfellum fylgir stami spenna í öndunarfærum og talfærum, sérkennilegar höfuðhreyfingar og sumt fólk sem stamar drepur mikið tittlinga. Það er ekki óalgengt að stamari reyni að fara í kringum orðin sem hann þarf að segja með flóknum málalengingum svo hlustandinn verði síður var við vandamálið. Stami fylgja því miður oft sálrænir erfiðleikar, fólk skammast sín, er hrætt og órólegt og gerir það illt verra, sem er mjög slæmt, því þetta er tjáskiptavandamál sem menn ráða ekki við.

2.4.1 Hvenær byrjar stam?

Það er mjög misjafnt hvenær fólk byrjar að stama. Algengast er sennilega að stamsins gæti fyrst þegar börn eru á aldrinum 3–6 ára. Þetta aldursskeið er flestum börnum erfitt í máltökunni, vegna þess að þau eru rétt að byrja að ná valdi á málinu og framburðinum. Það brennur oft við að þau hafi frá svo mörgu að segja að frásögnin fari í einhvern graut hjá þeim. Það er nefnilega ótrúlega erfitt fyrir þessi litlu kríli að koma frá sér heilum setningum þar sem hugsa þarf fyrir svo mörgu samtímis. Það þarf að velja orðin sem á að nota, koma þeim síðan í rétta röð í setningunni og setja á þau réttar beygingarendingar. Þetta þarf líka allt að gerast á svipstundu því athygli hlustandans varir kannski bara örstutta stund.

2.4.2 Viðbrögð umhverfisins við stami

Það skiptir ótrúlega miklu máli að foreldrar og leikskólakennarar bregðist vel við þegar börn sem eru hikandi í tali eru að reyna að tjá sig til að auðvelda þeim að komast í gegnum þetta erfiða tímabil máltökunnar. Mikilvæg forsenda þess að vel takist til er að fullorðnir einbeiti sér að því að hlusta á HVAÐ það er sem börnin eru að segja en ekki bara HVERNIG þau segja það. Athugasemdir eins og „Hvað er þetta eiginlega með þig, ætlarðu aldrei að koma þessu út úr þér“ eða „Svei mér þá, þú stamar bara á þessu“ eru afar slæmar fyrir börn á þessu viðkvæma stigi og geta beinlínis stuðlað að því að þau byrji að stama. Þau geta smám saman farið að trúa því að þau geti ekki talað án þess að stama eða hiksta á orðunum og þar með getur óheillaþróunin farið af stað.

Það er ljóst að börn hika og þurfa tíma til þess að hnoða setningunum saman til að segja þær og fullorðnir verða að gefa þeim tíma til þess. Um 75% þeirra barna sem hökta í tali á þessum árum komast farsællega í gegnum þetta tímabil, en því miður eru alltaf einhverjir einstaklingar sem gera það ekki þrátt fyrir mikla hjálp frá þeim sem eru í kringum þá. Í íslenskri rannsókn á 30 fjögurra og fimm ára gömlum íslenskum börnum kom mjög greinilega í ljós hvað þau þurftu misjafnlega mikinn tíma til þess að koma orðunum út úr sér (Sigríður Magnúsdóttir, 1977). Það er ekki ósennilegt að með þessu hökti eða hiki séu þau beinlínis að vinna tíma til þess að raða saman í setninguna því sem þau ætla að koma á framfæri. Það sama kom einnig í ljós hjá bandarískum og japönskum börnum sem íslensku börnin voru borin saman við.

2.4.3 Meðferð á stami

Það er því miður engin töfralausn til á stami en þrátt fyrir það er ýmislegt til ráða. Það skiptir máli fyrir ung börn að þau fái góða málfyrirmynd, að það sé æft með þeim hægt og rólegt tal og reynt sé að koma í veg fyrir aðstæður sem skapa spennu hjá börnunum. Svo er afskaplega mikilvægt fyrir þá sem farnir eru að stama að þeir fái haldgóðar upplýsingar um gerð og starfsemi talfæranna og hvað þau eru í rauninni sveigjanleg. Sömuleiðis er þeim nauðsyn að skoða vel hjá talmeinafræðingi hvað það er sem kemur í veg fyrir að þau geti talað reiprennandi og læra að ‘stama auðveldlega’ ef svo má að orði komast.

2.5 Raddgallar

Eðlileg rödd hefur þægilegan hljóm sem gott er að hlusta á og er hvorki hás né hvíslandi. Sömuleiðis er nauðsynlegt að gerður sé greinarmunur á nefhljóðum annars vegar og munnhljóðum hins vegar. Þægilegt er að talað sé í réttri tónhæð, en ekki t.d. þannig að kvenmaður tali með bassarödd, og að tónstyrkur sé góður, þ.e. ekki sé talað allt of hátt eða allt of lágt.

Óeðlilega raddnotkun eða raddgalla má rekja til líffæralegra orsaka í barkakýlinu, kokinu, munninum, nefinu eða eyrunum. Ýmislegt getur komið í veg fyrir það að barkakýlið starfi eðlilega og raddböndin nái að koma saman í miðlínu til þess að mynda rödd. Þetta getur t.d. verið lömun á öðru eða báðum raddböndum, fyrirferðaraukning á raddbandi eða þá að barkakýlið sjálft hefur skaddast í slysi eða verið numið brott. Stundum er talandi óeðlilegur vegna þess að ekki kemur fram eðlilegur munur á nefhljóðum og munnhljóðum. Þetta getur t.d. stafað af því að viðkomandi er holgóma og getur þess vegna ekki stjórnað loftstraumi út um nef og munn. Þegar þannig er ástatt, streymir loftið stöðugt út um nefið og allt talið verður NEFMÆLT.

Það er talað um að fólk sem fætt er með skarð í vör eða góm sé holgóma. Skarð í vör getur ýmist verið öðrum megin eða báðum megin. En stundum er gómurinn klofinn og vörin heil. Á mynd A sést klofinn mjúki gómurinn, á mynd B eru bæði mjúki og harði gómurinn klofnir en vörin heil. Mynd C sýnir klofinn góm og vör klofna öðrum megin en á mynd D er vörin klofin báðum megin.

Sama gerist ef gómfillan er of stutt og nær ekki að mynda lokun við kokvegginn. Sé hins vegar einhver hindrun í nefi eða nefkoki getur það valdið því að ekkert loft komist út um nefið og þá vantar alveg nefkveðnu hljóðin í talið. Það getur sem sagt gerst að annað hvort séu öll hljóðin nefkveðin (hjá þeim sem eru holgóma) eða ekkert þeirra sé það og er hvorugt gott. Við heyrnarskerðingu eða heyrnarleysi er ekki óalgengt að áhrifa gæti á tónhæð og tónstyrk. Það er augljóst að við tölum eftir aðstæðum og dæmum um það sjálf hverju sinni hversu hátt við þurfum að tala til þess að mál okkar komist til skila. Þetta gerum við auðvitað með því að beita heyrninni. Sé heyrnin hins vegar ekki í lagi er eðlilegt að erfiðleikar skapist á þessu sviði.

2.5.1 Raddbandalömun

Einkenni sem koma fram á röddinni eftir raddbandalömun geta verið margvísleg, allt frá smávægilegum einkennum til algjörs raddleysis. Lömunin getur ýmist verið á öðru raddbandinu eða báðum og orsakast venjulega af því að raddbandataugin sem liggur frá heilanum til raddbandanna og flytur boð um hreyfingar raddbandanna hefur skaddast einhvers staðar. Lömunin hefur áhrif á hreyfingar raddbandanna, annars eða beggja, til þess að opna raddglufuna, við inn- og útöndun eða til þess að loka henni við raddmyndun. Alvarlegast er það, þegar bæði raddböndin eru lömuð og lokuð í miðlínu og hreyfast ekki til hliðanna til að opna fyrir loftstrauminn til og frá lungunum við öndun.

Á fyrri myndinni sjáum við hvernig bæði raddböndin koma saman í miðlínu. Þau hreyfast ekki úr þessari stöðu þegar þau eiga að gera það, t.d. við öndun. Á seinni myndinni eru svo bæði raddböndin í opinni stöðu og hreyfast ekki úr þeirri stöðu þegar þau eiga að gera það, t.d. við myndun raddar. Heimild: Clinical Voice Pathology; Tehory and Management. Joseph C, Stemple. 1984. Charles E. Merill Publishing Co. A Bell and Howell Company Columbus, Ohio.

Röddin er slæm og miðast þjálfun við að gera hana eins góða og hægt er miðað við þessar erfiðu aðstæður. Það sama getur svo komið fyrir annað af raddböndunum en þá er ekki eins mikil alvara á ferðum í sambandi við öndunina. Raddgæði hjá þessum hópi geta verið nokkuð eðlileg, en fólk kvartar gjarnan um raddþreytu og það er oft andstutt. Það er líka alvara á ferðum, þegar bæði raddböndin eru lömuð í opinni stöðu og hreyfast ekki til að lokast. Þar sem raddböndin verða að koma saman í miðlínu til að mynda rödd, er ljóst að við þessar aðstæður myndast alls engin rödd. Viðkomandi er algjörlega raddlaus og vandamál sem tengjast öndun eru algeng. Raddþjálfun kemur hér að litlu gagni. Það sama getur líka komið fyrir annað raddbandið, þ.e. að það sé lamað í opinni stöðu.

Raddbandalömun (annað raddbandið)

Þetta er trúlega algengasta tegund raddbandalömunar, þ.e. að annað bandið sé hreyfingarlaust í opinni stöðu en hitt komi að miðlínu. Röddin er þá hás og loftkennd, vegna þess að loft sleppur stöðugt út um raddglufuna. Raddþjálfun kemur oft að gagni, en stundum er líka sprautað fyllingarefni í lamaða raddbandið til þess að gera það svolítið fyllra og þar með minnka opið á raddglufunni og auðvelda raddböndunum að ná saman til raddmyndunar. Stundum kemur þó fyrir að heilbrigða raddbandið kemur yfir miðlínu við þessar aðstæður og nær að mynda lokun við lamaða raddbandið með þokkalegum árangri.

2.5.2 Hnútar, blöðrur eða sár á raddböndum

Allt geta þetta verið afleiðingar af misbeitingu raddarinnar á einhvern hátt. Þetta getur t.d. gerst þegar börn eru að apa eftir bílum eða flugvélum, eða þegar þau æpa og garga til þess að yfirgnæfa mikinn hávaða í öðrum krökkum þegar þau eru að leika sér í hóp. Sama á við um börn sem tala endalaust og virðast aldrei geta þagað, sérstaklega ef þau tala svo líka í hærri tón en þeim er eðlilegt. Hér er um gríðarlegt álag á raddböndin að ræða, sem endar oft með því að hnútar, blöðrur eða sár myndast á þeim.

  • Á þessum myndum sjást hnútar sem myndast hafa á báðum raddböndunum. Á myndinni til vinstri eru raddböndin opin, líklegast vegna þess að viðkomandi er að anda annað hvort að sér eða frá. Á hinni myndinni eru raddböndin að reyna að koma saman til raddmyndunar, en það tekst illa vegna hnútanna. Raddböndin þurfa að koma alveg saman til þess að góð rödd myndist, en þessir hnútar koma í veg fyrir að það gerist í þessu tilfelli og þess vegna verður röddin hás og loftkennd. Heimild: Clinical Symposia, The Larynx, published by CIBA Pharmaceutical Company, Division of CIBA-GEIGY Corporation, Summit, New Jersey. Editor er J. Harold Walton, M.D.

  • Á þessari mynd sjást blöðrur sem myndast hafa á báðum raddböndunum. Raddmyndun tekst illa vegna blaðranna. Raddböndin þurfa að koma alveg saman til þess að góð rödd myndist, en blöðrurnar koma í veg fyrir að það gerist í þessu tilfelli og þess vegna verður röddin hás og loftkennd. Heimild: Clinical Symposia, The Larynx, published by CIBA Pharmaceutical Company, Division of CIBA-GEIGY Corporation, Summit, New Jersey. Editor er J. Harold Walton, M.D.

  • Á þessari mynd sjást sár sem myndast hafa á báðum raddböndunum. Raddböndin þurfa að koma alveg saman til þess að góð rödd myndist, en það reynist erfitt vegna sáranna og því verður röddin í lágum tóni og sömuleiðis heyrist eins konar raddbandaurg. Heimild: Clinical Symposia, The Larynx, published by CIBA Pharmaceutical Company, Division of CIBA-GEIGY Corporation, Summit, New Jersey. Editor er J. Harold Walton, M.D.

Sama getur komið fyrir kennara, lögfræðinga, sölumenn og söngvara sem nota röddina mikið. Beiti þeir röddinni ekki rétt, er hætta á sömu afleiðingum. Í flestum tilfellum verður að fjarlægja hnúta og blöðrur með skurðaðgerð, en síðan er nauðsynlegt að fólk komi í talþjálfun til að koma í veg fyrir að sagan endurtaki sig. Þegar hnútar hafa myndast á raddböndunum (oftast báðum) verður röddin hás og rám , en þegar blaðra er á raddböndunum (oftast öðrum megin) missir viðkomandi röddina alveg af og til, því þá skreppur blaðran fyrir raddglufuna. Annars eru einkennin aðallega þau að röddin er hás og loftkennd. Sár á raddböndum eru oftast báðum megin. Þau myndast í slímhúðinni aftarlega á raddböndunum og þá hljómar röddin í lágum tóni með eins konar raddbandaurgi eða slímsnarki.

3. Málgallar

Gerður er greinarmunur á TALGÖLLUM annars vegar og MÁLGÖLLUM hins vegar. Með málgöllum er fyrst og fremst átt við erfiðleika er snerta málið sjálft og málkunnáttuna. Þetta tengist því erlendum fræðiorðum eins og language problems og competence. Málhömlun eða málþroskaröskun barna gefur til kynna að um einhverja seinkun í málþroska barnanna sé að ræða. Tal- og málörðugleikar eiga sér margar skýringar, eins og t.d. vanrækslu, skerta heyrn, þroskahömlun, einhverfu, vansköpun á talfærum eða skerta starfsemi vöðvanna í talfærunum. En það getur oft verið um afmarkaða röskun í tali eða máli að ræða, án þess að þessar skýringar eigi við. Í fæstum tilfellum eru orsakirnar þekktar samkvæmt nákvæmum skilgreiningum læknisfræðinnar. Það er líklegt, að á bak við málhömlun sé atburðarás sem byrjar á fósturstigi og tekur bæði til þroska og starfsemi heilans. Fái börn eða fullorðnir hins vegar málstol hafa þau náð að læra málið eðlilega en síðan misst það vegna alvarlegra veikinda í heila, ólíkt því þegar um meðfædda málhömlun er að ræða.

3.1 Málhömlun barna

Börn læra móðurmálið með því að hlusta á og tala við foreldra sína, systkini og aðra sem eru í kringum þau. Málþroskinn er hluti af almennum þroska barnanna. Til að meta málþroska barns þarf að skoða alla aðalþætti tungumálsins, þ.e. hljóðkerfisfræði, setningafræði, beygingafræði og merkingarfræði, bæði við hlustun og í tali. Þessar tvær hliðar málsins, HLUSTUN eða málskilningur og TAL eða máltjáning vísa til þess hvernig við skiljum málið og notum það. Notuð eru svokölluð málþroskapróf sem sérstaklega hafa verið samin og stöðluð til þess að greina málhæfni barna.

HLJÓÐKERFISFRÆÐIN fjallar um hljóðkerfi tungumála, en hvert tungumál hefur ákveðin málhljóð sem ekki eru að öllu leyti þau sömu og málhljóð einhvers annars tungumáls. Hljóðkerfisfræðin fæst einnig við þætti eins og hrynjandi, tón og áherslu í orðum og setningum. Til þess að kanna hlustunargetu barna er hæfileiki þeirra til að heyra mun á aðgreinandi hljóðum metinn. Börnin þurfa að skera úr um það hvort ákveðin orðapör eru eins eða ólík. Orð eins og bíll og fíll verða t.d. aðeins aðgreind með málhljóðunum fremst í orðunum. Framburður barnanna er síðan kannaður til að hægt sé að meta talgetu þeirra.

SETNINGAFRÆÐIN fjallar um gerð setninga og setningaliða, röð orða í setningum og sambandið á milli þeirra. Í málþroskaprófum sem hér eru notuð eru beygingarfræðilegir þættir kannaðir í tengslum við þá setningafræðilegu. Börnin eru beðin um að hlusta á setningar af ýmsum gerðum og túlka merkingu þeirra þegar hlustunargeta þeirra er skoðuð. Talgeta á þessu sviði er aftur á móti könnuð með því að láta yngri börnin endurtaka margs konar setningar þar sem reynir á þekkingu þeirra á réttri orðaröð og beygingarendingum Þau þurfa líka að botna setningar þar sem reynir á hvort þau þekkja og skilja og nota algengar íslenskar orðmyndir. Eldri börnin fá orðarunur sem þau eiga að búa til heilar setningar úr og þau eru líka beðin um að búa til málsgreinar úr tveimur eða fleiri einföldum setningum sem eru lesnar upp fyrir þau.

MERKINGARFRÆÐIN fjallar um merkingu orða, setningarliða og setninga. Orðaskilningur og orðaforði barna til tjáskipta er sá þáttur málsins sem mjög gjarnan er metinn á málþroskaprófum. Kannað er hvernig börnunum gengur að tengja orð og myndir og skilja algeng orð og hugtök.

Ef frammistaða barns á málþroskaprófi er utan ákveðins ramma, telst málþroski barnsins skertur og vísa þarf því til meðferðar talkennara eða talmeinafræðings, sem tekur afstöðu til frekari aðgerða. Stundum dugir að veita foreldrum ráðgjöf um málörvun, en í öðrum tilfellum er talþjálfun óhjákvæmileg.

3.2 Málstol

Málstol er tal- og máltruflun, afleiðing af einhvers konar heilaskaða eftir blóðtappa í heila eða blæðingu inn á heilann. Einnig er hugsanlegt að æxli í heilanum þrýsti á málstöðvarnar með svipuðum afleiðingum. Málstöðvarnar eru oftast í vinstri heilahelmingi.

Þessi mynd sýnir tvö aðalmálsvæðin í heilanum. Við horfum á vinstri hlið heilans þar sem þessi svæði eru. Svæðið sem kennt er við Paul Broca og stjórnar máltjáningu er framar en hitt sem kennt er við Carl Wernicke, en það ræður málskilningi. Það eru ekki sambærileg svæði hægra megin í heilanum.

Einstaklingur sem þjáist af málstoli getur átt erfitt með að skilja það sem hann heyrir eða þá að hann á erfitt með að tjá sig munnlega. Alvarlegasta gerð málstols felur í sér að viðkomandi getur hvorki tjáð sig né unnið úr því sem hann heyrir. Heilaskaði sem veldur slíkum máltruflunum getur líka haft áhrif á lestrar-, skriftar- og reikningsgetu sjúklingsins. Algengast er samt að saman fari erfiðleikar annars vegar við að tjá sig munnlega og skriflega og vandræði við að skilja talað mál og lesinn texta hins vegar.

3.2.1 Málstol – röskun í máltjáningu

Algengasta tegund málstols er tjáningarstol vegna heilaskaða á hinu svokallaða (sjá mynd hér að ofan) Broca svæði, sem stjórnar máltjáningu. Fólk sem þjáist af þessari tegund málstols á erfitt með að tjá sig, þ.e. að koma hugsunum sínum í orð. Málstolið er misalvarlegt. Sumir eiga erfitt með að tjá sig um einföldustu þarfir og geta nánast ekkert sagt, aðrir tjá sig með því að nota lykilorðin í setningunum, nafnorð og sagnir, án flestra smáorða eins og fornafna, samtenginga, hjálparsagna og forsetninga og oft með einföldum eða röngum beygingum, en hjá þeim sem best eru settir vantar kannski bara herslumuninn. Einstaka sjúklingur með Broca málstol fær svokallað málfræðistol. Talið hjá þessum sjúklingum er langt frá því að vera reiprennandi, það er stirt og klaufalegt og þeir eiga oftast í verulegum erfiðleikum með að koma orðunum út úr sér. Oft kemur fram svokallað munnlegt eða mállegt verkstol í tali þessara sjúklinga, sem gerir þeim enn erfiðara fyrir. Lítum á máldæmi:

Það er lítil stúlka sem heitir Rauðherta. Hún er kölluð fyrir án mamma hennar sau- saumað eða húfu ...húfu á hana og heitir Rauða he- hetta. Er það ekki?

Málskilningur er yfirleitt tiltölulega góður hjá þessum hópi málstolssjúklinga, þeir skilja allir vel allt daglegt mál og þeir sem betur eru settir eiga ekki í neinum vandræðum með nokkuð flókinn texta, lesinn eða talaðan. Þeir geta þó átt erfitt með að skilja málfræðilega flóknar setningar. Þessir sjúklingar eiga oftast í sömu vandræðunum með að lesa upphátt og þeir eiga með að tala, en þeir geta skilið það sem þeir lesa eins vel og það sem þeir hlusta á af töluðu máli. Endurtekningar á orðum og þó sérstaklega setningum geta reynst þessum sjúklingum erfiðar. Það er oftast vegna þess að taugabrautirnar á milli aðalmálsvæðanna tveggja hafa eitthvað skaddast.

Hér sjást taugabrautirnar (á ensku heita þær „arcuate fasciculus“), sem tengja málsvæðin í vinstra heilahveli saman. Hugsum okkur að við hlustum á vin okkar tala. Það sem við heyrum berst inn á málskilningssvæðið í gagnaugablaði, sem kennt er við Wernicke, en þar vinnum við úr þeim upplýsingum sem berast. Til að bregðast við því sem vinur okkar var að segja og svara honum sendum við boð um þessar taugabrautir fram á svæði Broca, sem sér um máltjáninguna, um það sem við ætlum að segja, og svo tölum við.

3.2.2 Málstol – röskun á málskilningi

Þessi tegund málstols verður vegna skaða á svokölluðu Wernicke svæði (sjá mynd hér að ofan) en það stjórnar málskilningi eða úrvinnslu og skilningi á mæltu máli og rituðu. Erfiðleikarnir geta verið mismiklir, allt frá því að skilja ekki einfaldar spurningar og fyrirmæli og yfir í það að sjúklingarnir ráða ekki við að skilja langar, flóknar setningar. Í slíkum tilfellum er málskilningur næstum rofinn. Skoðum dæmi þar sem talmeinafræðingur er að spjalla við sjúkling, með slæmt málskilningsstol, um það hvort hann hafi gleymt að raka sig:

– Þú hefur gleymt að raka þig í morgun.
– Mér hefur gengið prýðilega.
– Gleymdirðu að raka þig í morgun?
– Já, já. Það má segja það. Ég hef haft nóg að gera, núna í gærkveldi.
– Hvernig stendur á því að þú rakaðir þig ekki í morgun?
– Hvað hef ég gert í nótt?
– Nei, hvernig stendur á því að þú rakaðir þig ekki í morgun?
– Farið heim? Ég hef ekkert gert heima. Ekkert gert.

Þegar hér var komið sögu voru frekari spurningar um raksturinn þennan morgun látnar niður falla.

Tal þessara sjúklinga er reiprennandi, með eðlilegum blæbrigðum og hljómfalli raddar, en oft er það sem sjúklingurinn segir illskiljanlegt vegna þess að bæði hljóða- og orðabrengl koma fram. Svo rammt getur kveðið að þessu að beinlínis komi bara einhver bullorð inn á milli í setningunum. Þessi bullorð laga sig samt að íslensku hljóðkerfi og beygingarkerfi þannig að í fljótu bragði heyrir maður kannski ekki strax að eitthvað er athugavert við talið. Vegna þess hve málskilningur þessara sjúklinga er skertur, átta þeir sig ekki sjálfir á því hvað er að gerast þegar viðmælandinn botnar hvorki upp né niður í því sem þeir sögðu. Þetta veldur sjúklingunum því oft miklu hugarangri. Ólíkt tali þeirra sem eru með málstol eftir skaða á svæði Broca, sem er stirt og oft án ýmissa smáorða og tengiorða, inniheldur talið hjá þessum sjúklingum gnægð þessara smáorða, en því miður eru þau oft ekki notuð rétt. Aftur á móti vantar mikið af upplýsandi, merkingarberandi orðum, sem er stundum það eina sem Broca sjúklingarnir hafa í sínu tali. Talið verður því innantómt og litlar upplýsingar komast á framfæri til viðmælanda þrátt fyrir orðgnótt. Endurtekningar orða og setninga eru þessum sjúklingum mjög erfiðar og einkennast oft af hljóða- og orðabrengli. Skilningur á lesnum texta er eins skertur og skilningur á töluðu máli.

Heimildaskrá:

Albert, Martin, L., Harold Goodglass, Nancy A. Helm, Alan B. Rubens and Michael P. Alexander. 1981. Clinical aspects of dysphasia Springer-Verlag, Wien

Aronson, Arnold, E. 1980. Clinical voice disorders: An interdisiplinary approach Thieme-Stratton, Inc., New York, New York.

Crystal, David. 1987. The Cambridge encyclopœdia of language Cambridge University Press, Cambridge.

Goodglass, Harold. 1993. Understanding aphasia Academic Press, Inc., San Diego.

Indriði Gíslason, Baldur Jónsson, Guðmundur B. Kristmundsson og Höskuldur Þráinsson. 1988. Mál og samfélag. Iðunn, Reykjavík.

Larsson, Lennart og Karin Svanholm. 1981. Um stam skólabarna Íslensk þýðing eftir Guðfinnu Guðmundsdóttur, Helgu Ingibergsdóttur, Hildi Þórisdóttur og Pétur Pétursson. Námsgagnastofnun 1987, Reykjavík.

Sigríður Magnúsdóttir. 1977. Disfluent speech behavior of Icelandic preschool children. Óprentuð MS ritgerð. Boston University, Boston.

Sigríður Magnúsdóttir. 1980. Tal og málgallar. Skíma 3,2:8–14.

Sigríður Magnúsdóttir og Evald Sæmundsen. 1996. Flokkun málhömlunar hjá börnum eftir klíniskum einkennum. Talfræðingurinn: Tímarit félags talkennara og talmeinafræðinga, 13,1, bls. 11–18.

Sigríður Magnúsdóttir og Höskuldur Þráinsson. 1981. Framburðarpróf. Heyrnar- og talmeinastöð Íslands, Reykjavík.

Stemple, Joseph C. 1984. Clinical voice pathology. Theory and management Charles E. Merrill Publishing Company, Columbus, Ohio

Springer, Sally P. & Deutsch, Georg. 1989. Left brain, right brain. W. H. Freeman and Company, New York.

Tveir bæklingar um stam sem Málbjörg hefur gefið út.