Greinar

Heimir Pálsson
Móðurmálskennsla

1. Inngangur

Öldum saman var barnafræðsla á Íslandi umfram allt viðfangsefni heimilanna. Um hana voru lengi hvorki til lög né reglugerðir heldur fylgdi hún hefðum sem snemma höfðu skapast. Af því sem síðar væri talið falla undir móðurmálskennslu eða íslenskukennslu í skólum var þá fyrst og fremst fengist við lestrar- og skriftarkennslu, dálítið í þeim anda sem sjá má í gamalli hvatningarvísu:

Að lesa og skrifa list er góð,
læri það sem flestir;
þeir verða haldnir heims hjá þjóð
höfðingjarnir mestir.

Hugmyndir um almenna menntun voru óljósar á fyrri öldum Íslandssögunnar og lítið er vitað með vissu um menntunarstig þjóðarinnar á þeim tíma. Þó er til dæmis hægt að smíða tilgátur um lestrarkunnáttu Þorgerðar Egilsdóttur í Eglu, þegar hún býðst til þess að rista heilt kvæði með rúnum á kefli fyrir föður sinn. Varla hefði höfundur eða sögumaður komist þannig að orði ef hann hefði ekki einhvern tíma séð eða heyrt um konu sem kunni að skrifa.

Rúnaletur er elsta letur germanskra þjóða og var notað til að rista á steina og á tré. Stafróf rúnaletursins nefndist fuþark eftir fyrstu sex stöfum letursins. Í rúnaletrinu voru 24 stafir sem skiptust í þrjár ættir. og voru átta stafir í hverri ætt. Elstu rúnaristur eru frá því skömmu eftir Krists burð en flestar áletranir eru frá því á 3. og fram á 7. öld. Í síðari tíma norrænu rúnaletri (9. og 10. öld) fækkaði rúnunum í 16. Hér sést stafróf rúnaleturs. Engar rúnaáletranir íslenskar eru til eldri en frá því um 1200 og er talið að Íslendingar hafi af einhverjum ástæðum rist minna á steina en grannþjóðirnar gerðu. Sjálfsagt hafa hins vegar rúnir verið notaðar talsvert til að skrá á fjalir eða trékefli, en ekkert slíkt hefur varðveist.

Þegar kennsla í málfræði og íslenskum bókmenntum hefst í skólum er greinin einatt kölluð ÍSLENSKA. Það heiti er reyndar talið koma fyrst fyrir á prenti í formála Gísla biskups Jónssonar að sálmabók árið 1558, en fram að þeim tíma hafði tunga landsmanna einatt verið kölluð annað hvort NORRÆN TUNGA ellegar DÖNSK TUNGA. Í lagatexta mun orðið MÓÐURMÁL fyrst koma fyrir í fræðslulöggjöfinni frá 1907 (sjá Loft Guttormsson 1993:9) en í bréfi sem kennarar Flensborgarskóla sendu stiftsyfirvöldum um undirbúningsmenntun barnakennara árið 1895 kemur fram að í þriggja ára kennaranámi telji þeir námsgreinina MÓÐURMÁL mjög mikilvæga (sjá Guðna Jónsson 1932:76–7). Ekkert kemur þar fram um inntak greinarinnar, en gera má ráð fyrir að þar hefði orðið áhersla á ljóðalærdóm, fornbókmenntir og málfræði þá sem til stafsetningarkennslu heyrði.

2. Litið yfir söguna

Saga móðurmálskennslu á Íslandi hefur ekki verið skráð. Þar eru því margar glufur ófylltar enn og bíða frekari rannsókna, en hér verður tæpt á nokkrum meginatriðum.

2.1 Miðaldir

Skólahald hófst snemma á Íslandi, bæði á veraldlegum höfðingjasetrum og biskupsstólum. Þar var einkanlega ungum piltum, skólasveinum, kennt að sígildu lagi og námu þeir þar hin klassísku fræði, þríveginn og fjórveginn. Það fól meðal annars í sér ‘grammaticam’ eða málfræði þess tíma, en að sönnu aðeins latneska málfræði og síðar gríska að því er vitað verður. Samt sem áður hefur löngum vakið undrun að höfundur Fyrstu málfræðiritgerðarinnar um miðja 12. öld skyldi velja íslensk orð um þau fræðihugtök sem hann þurfti á að halda. Má þar nefna atkvæði, samhljóðanda og raddarstaf (sérhljóð). Hvort hann hefur sjálfur þýtt hugtökin verður naumast vitað úr þessu, en honum er ljóslega í mun að geta fjallað um málfræðina á eigin tungumáli og hefur þar hallast að hugmyndum sem ekki eru fjarlægar málstefnu 20. aldar.

Bæði í málfræðinámi og mælsku- og rökfræðikennslu má að sjálfsögðu gera ráð fyrir að dæmi hafi verið skýrð með samanburði við íslensku og með þýðingum á íslensku þannig að í raun hafi farið fram ‘íslenskukennsla’ um leið og klassísku málin voru kennd.

Áður en til skólagöngu kæmi í klausturskólum eða á öðrum virðingarsetrum fór fram barnafræðsla sem lítið er vitað um:

Barnafræðsla hófst yfirleitt við sjö ára aldur; þá lærðu menn að lesa á stafrófskver, en síðan var þeim kennt á saltarann eða lögbækur, en að draga til stafs námu menn af skinnbókunum sjálfum og æfðu sig þá gjarnan á auðum síðum eða spássíum eins og víða má enn sjá dæmi um í handritum. Ekki hefur þó enn komið í leitirnar spássíukrot sem sýni að notuð hafi verið stafrófskver lík þeim sem þekktust annars staðar í álfunni. Oftast mun prestlærður maður hafa sagt börnunum til, látið þau líkja eftir staf og herma rödd hans.
(Sverrir Tómasson 1992:269).
Ekki var um að ræða almenna skólaskyldu né heldur skyldu til að kenna öllum að lesa og skrifa. En eftir því sem ráðið verður af fornbréfum hefur lestrarkunnátta íslenskra bænda verið umtalsverð á miðöldum. Það má meðal annars sjá á því hve margir bændur hafa getað skrifað nafn sitt undir bænaskrár til konungs og verður þar talsverður munur á íslenskum og norskum bréfum frá sama tíma. Varla má þó draga af því stórvægilegar ályktanir um kennslu eða skólagöngu.

2.2 Nýöld

Siðbreytingarfrömuðir á sextándu öld lögðu mikla áherslu á almenna lestrarkennslu og ætluðu prestum að fylgja eftir kröfum um hana. Lestrarkunnáttan var þá einkum talin nauðsynleg til þess að menn gætu kynnt sér trúarboðskapinn en ekki var gert ráð fyrir kennslu í neinu öðru, sem síðar var tengt við móðurmál, og í raun var langt þangað til slík námsgrein tæki að mótast.

Með upplýsingarstefnunni á átjándu öld bjarmar af nýjum degi í menntamálum á Íslandi sem annars staðar í danska konungdæminu. Með Húsagatilskipuninni árið 1746 eru sett fyrirmæli um að húsbændur skuli sjá til þess að öll börn læri lestur og kristindóm fyrir fermingu. Með tilskrifi til Hannesar biskups Finnssonar árið 1790 kveður Kristján konungur VII skýrt á um lestrarkennslu barna. Tilskrifið er svar við beiðni biskups, sem greinilega hefur viljað fá hin veraldlegu yfirvöld í lið með sér til þess að efla barnafræðsluna. Meðal mjög athyglisverðra þátta í bréfi konungs er lýsingin á prófum sem á eða má leggja fyrir börn og teljist þau læs ef þau geti lesið hvaða texta sem er á prenti á landsins tungu. Þó má ekki leggja fyrir börnin texta sem gæti orðið erfiður fullorðnu fólki! Merkast mundi samt þykja með tilliti til umræðna á síðari öldum að lestrarkennslan skuli hefjast áður en barnið er fullra fimm ára.

Í tilskrifi Kristjáns sjöunda er ekki gerður neinn munur svein- og stúlkubarna. Þó hefur einatt verið talið að lestrar- og skriftarkennslan hafi einkum miðast við pilta. Það hafi þótt duga drengjum af alþýðustétt að þeir kynnu að skrifa nafn sitt skammlaust en stúlkur hafi sjaldan þurft þess með.

2.2.1 Heimakennsla og kennslugögn

Það er í beinu samhengi við rétttrúnaðinn svokallaða sem tilskipanir 18. aldar eru settar. Sáluhjálp manna var undir því komin að þeir gætu lesið ritninguna og tileinkað sér hið sanna guðs orð. Þessum tilskipunum var beint til heimilanna undir eftirliti presta. Langoftast hefur það komið í hlut móðurinnar að annast um þá fræðslu sem þar var fyrirskipuð. Hlutverk hennar var að koma lestrarkunnáttunni áfram en hins vegar sýna margar heimildir að ekki var til þess ætlast að konur væru að sóa tíma í bóklestur og skriftir. „Hún var næm og bókhneigð, sem henni var þó lítt talið til kosta. Stúlkubörn voru til annars ætluð en að sitja við „bókaramenntir“ og fyrir lestrarfíkn sína hlaut hún oft átölur og stundum refsingu“ segir Eyjólfur á Hvoli í Mýrdal (1987:21) um ömmu sína, sem fædd var 1793.

Að Birtingaholti í Árnessýslu var stórbýli á 19. öld. Magnús Helgason, skólastjóri Kennaraskólans (f. 1857), sagði svo frá lestrarnámi sínu og systkina sinna (alls voru þau fjórtán) skömmu eftir miðja nítjándu öldina, og má vafalaust líta svo á að þetta sé nokkuð dæmigerð frásögn, enda minnir lýsing móðurinnar á verk Ingunnar í Jóns sögu helga:

Faðir minn kenndi okkur hinum eldri að stafa og kveða að, setti okkur á kné sér og benti með bandprjóni á stafina í stafrófskverinu, sem hann hélt á. Þegar við höfðum lært að kveða að, tók móðir okkar við. Hún sat þá við rokkinn og spann, en við sátum á rúminu hjá henni eða á kistu við fætur hennar og héldum á bókinni. Meðan við vorum lítt sjálfbjarga, valdi hún okkur bækur, sem hún kunni, svo að hún gæti leiðrétt okkur og hjálpað án þess að þurfa að tefja sig á að líta á bókina. Hún var fluggáfuð; kunni utanbókar ógrynni sálma og kvæða, messusöngsbókina að miklu leyti og Passíusálmana og kvæðasafn er hét Snót, og miklu fleira. Þegar við vorum orðin sæmilega læs, fengum við sögur að lesa og annað sem til féll. Var hvorttveggja, að okkur var það mesta yndi að lesa fyrir hana, enda var hún fegin að nota okkur til þess, svo að hún mætti keppast við vinnu sína; en allt vildi hún fá að heyra, sem kom prentað á heimilið.
(Magnús Helgason 1934:2).
Til lestrarkennslunnar var ýmist að notuð væru sérstök stafrófskver eða gengið beint að prentuðum bókum og stöfunin kennd þannig. Fyrsta stafróf ásamt atkvæðum var prentað með hinum minni fræðum Lúthers í Skálholti árið 1686 og aftur 1690. Fyrsta eiginlega stafrófskverið, Eitt lítið stafrófskver fyrir börn og ungmenni, kom út árið 1695. Hið næsta kom út á Hólum 1745, endurprentað 1753. Þriðja stafrófskverið var prentað í Kaupmannahöfn 1773 og loks það fjórða á Hólum 1776 (sjá Gunnar Sveinsson 1982:viii). Öll virðast þessi fyrstu stafrófskver hafa verið stafrófsbundin, kynnt stafina í ‘réttri’ röð, án tillits til samstafa nema að litlu leyti. En árið 1782 kom út bókin LIJTID WNGT STØFUNAR BARN eftir séra Gunnar Pálsson prest í Hjarðarholti. Að sögn Hróðmars Sigurðssonar var það
í raun og veru fyrsta íslenzka stafrófskverið, sem ber nafn með rentu, ... og höfuðtilgangur kversins er fyrst og fremst sá að auðvelda börnunum sjálft lestrarnámið. Flokkun stafanna eftir því, hvar og hvernig hljóð þeirra myndast, er alger nýjung í stafrófskveri. Lögð er áherzla á að æfa kerfisbundið helztu stafasambönd í málinu. Er kverið samið af alúð og vandvirkni, og með því er lagður sá grundvöllur, sem flest stafrófskver síðan hafa verið byggð á að meira eða minna leyti. Ef við berum kver þetta saman við eldri kverin, þá er byltingin svo gagngerð, að manni finnst furðulegt, að það skuli koma út sama ár og síðasta Hólakverið. Svo gerólík eru þau.
(Hróðmar Sigurðsson 1957:49).
Síðar bættist við fjöldi stafrófskvera og eftir að skipulegt skólahald hófst varð meira samræmi í lestrarkennslunni þótt námsgreinin móðurmál eða íslenska væri alllengi að taka á sig mót.
2.2.2 Fyrstu barnaskólarnir

Í kjölfar upplýsingarstefnunnar og fræðsluboðskapar 18. aldar mátti sjá fyrstu vísana að skipulegri skólakennslu barna á Íslandi. Fyrsti barnaskólinn var stofnaður í Vestmannaeyjum árið 1745 en meira en öld síðar, þjóðhátíðarárið 1874, voru aðeins sex barnaskólar starfandi í landinu „og allir við sjávarsíðuna og reknir á ábyrgð foreldra og sveitarfélaga“ (Björn Þorsteinsson 1991:314). Með lögum sem sett voru 9. janúar 1880 var komið á hertri fræðsluskyldu og námskrá tók að mótast. Námsgreinar urðu fimm: lestur, kristin fræði (biblíusögur og kverið), skrift, reikningur og réttritun. Út frá þessari síðast nefndu námsgrein þróast svo smám saman sú grein sem kölluð var „íslenska“ á stundatöflum og í námskrám. Greinilegt er að mikil áhersla liggur á kennslu um formdeildir málsins, annars vegar til undirbúnings frekara náms, einkum í erlendum málum, hins vegar til að leggja grunn að traustri stafsetningarkunnáttu.

3. Íslenska verður námsgrein

Árið 1846 var fyrst sett reglugerð fyrir íslenskan skóla. Þetta var Reykjavíkur lærði skóli, sem einmitt það ár hafði flust frá Bessastöðum. Með þessari reglugerð var námsgreinin „íslenska“ fyrst skilgreind og samkvæmt þeirri skilgreiningu starfaði þann vetur Halldór Kr. Friðriksson, menntaður málfræðingur frá Hafnarháskóla, að kennslu skólasveina og var hann fyrstur manna ráðinn til að starfa sem íslenskukennari eða móðurmálskennari.

Um Halldór Kr. Friðriksson gildir hið fornkveðna að „miklu veldur sá er upphafinu veldur“. Hann kenndi lengi og mótaði kennsluna í Lærða skólanum með þeim hætti að í raun hefur hún orðið fyrirmynd móðurmálskennslunnar alla tuttugustu öldina. „Halldór var íslenzkukennari upp undir 50 ár og hafði því veruleg áhrif á stafsetningu og málfar íslenzkra menntamanna á síðara helmingi 19. aldar ...“ (Guðrún Kvaran 1990:89). Í lýsingu kennslunnar í skólaskýrslu sést að megináherslan hefur legið á formlegri málfræði – einkanlega í því skyni að kenna skólapiltum almenna málfræði á íslensku, ekki aðallega ÍSLENSKA MÁLFRÆÐI. Þessi málfræðikennsla átti greinilega að koma að einhverju leyti í stað latnesku málfræðinnar, sem fram að þessu hafði verið lykill skólapilta að fræðigreinininni.

Um kennsluaðferðir Halldórs vitum við að sjálfsögðu færra. Dómar skólasveina eru ekki alltaf einhlítir og það var langt frá skólagöngunni liðið þegar Matthías Jochumsson skrifaði í Söguköflum sínum: „Halldór var hinn mesti atorku- og eljumaður, nokkuð harðvígur og óþýður, en þó nýtur kennari – það sem hann náði; málið kunni hann vel og betur en hann kenndi það og ritaði.“ (1959:144). Matthías sat í Lærða skólanum um 1860 en tímasetur minningar sínar árið 1914 og hefur þá vísast fennt í mörg spor.

Samkvæmt reglugerðinni sem Halldór Kr. Friðriksson, þessi fyrsti íslenskukennari í skólakerfinu, starfaði eftir léku engin tvímæli á um námsgreinina:

Hana [íslenskuna] skal kenna í öllum bekkjum, en sá er tilgángur þeirrar kènnslu, í fyrsta lagi að kynna lærisveinum með þessari túngu hinar almennu hugmyndir málfræðinnar, í öðru lagi að kenna þeim að rita móðurmál sitt samkvæmt réttum reglum, óblandað og með góðum smekk, í þriðja lagi að kynna þeim bókmenntasögu Íslands.
(Lovsamling for Island ... 1855:450).
Þetta er alveg ótvírætt: Skólasveinar þurfa að kunna málfræði til þess að geta lært klassísku málin. Það hlýtur að vera auðveldara að kenna málfræðina út frá móðurmálinu en erlendum málum og svo geta þeir fært þekkinguna yfir á hin málin.

3.1 Málfræði og bókmenntir

Strax á fyrstu árum íslenskukennslunnar í Lærða skólanum felst móðurmálskennslan í ‘málfræði’ og ‘bókmenntum’. Málfræðinni er ætlað það hlutverk að veita undirstöðu í málanámi almennt en sér á parti í stafsetningu. Bókmenntirnar eru hins vegar ætlaðar til þess að treysta sambandið við fyrri alda menningu og gera skólasveinana að „betri Íslendingum“. Þegar til alþýðufræðslunnar kemur er lögð mikil áhersla á ljóðalærdóm og greinilega í þjóðernispólitískum tilgangi. Þarna sigla Íslendingar sama sjó og flestar grannþjóðirnar. Þjóðernisvakningin, sem varð í upphafi nítjándu aldar og oft er meðal annars kennd við Napóleonsstyrjaldirnar, kallaði á skýrar og afdráttarlausar skilgreiningar á því hvað væri ÞJÓÐ og oft varð besta haldreipið einmitt þjóðtungan og bókmenntirnar.

Danskir þjóðernissinnar urðu reyndar til þess að vísa veginn til hinnar glæstu fortíðar Íslendinga. Þannig lýsti N.S.F. Grundtvig (1783–1872), faðir dönsku lýðháskólanna, því yfir árið 1838 að norræn andagift hefði á miðöldum skapað á Íslandi „risavaxnasta háskóla í heimi“ („det mest kollosalske Universitet i hele Verden“ Lundgren-Nielsen 1992:28). Ýmsar umsagnir Rasks um ágæti íslenskrar forntungu vísuðu í svipaða átt og greinilegt er að forsvarsmenn móðurmálskennslunnar hafa tekið þeim fagnandi.

Þjóðernishyggjan mótaði að sjálfsögðu sterkast bókmenntavalið í skólunum. Málfræðikennslan hafði hins vegar sprottið upp úr kennslu erlendra mála og virðast greinarnar tvær, málfræði og bókmenntir lengi hafa haft tilhneigingu til að fara sínar leiðir. Með skiptingunni í málfræði og bókmenntir má líka segja að móðurmálskennslan hafi sífellt teygt sig í áttina að kennslu í tveim vísindagreinum, málvísindum og bókmenntafræðum.

Í þessu speglast skipting háskólagreinarinnar sem yfirleitt gekk undir nafninu „íslensk fræði“ allt frá stofnun Háskóla Íslands árið 1911. Þar var annars vegar kennd málfræði, hins vegar bókmenntir og saga. Sérmenntun kennara í hverri þessara vísindagreina varð síðan til þess að þeir einbeittu sér hver að sinni fræðigrein þegar þeir tóku til við kennslu á unglinga- eða framhaldsskólastigi. Lengi var þó ekki gerður greinarmunur á kandídatsprófunum eftir því hvort háskólastúdentar höfðu valið sér málfræði eða bókmenntir að kjörsviði heldur voru þeir taldir hafa „lokið kennaraprófi í íslenzkri málfræði og bókmenntasögu“ eins og stóð á prófskírteinum þeirra.

3.2 Fyrstu kennslubækurnar

Sama ár og Bogi Melsteð gaf út Sýnisbók sína kom út Stutt ágrip af íslenskri mállýsingu handa alþýðuskólum. Höfundurinn, Halldór (Eggertsson) Briem (1852 – 1929), hafði verið prestur, en gerðist árið 1882 kennari við Möðruvallaskóla og er bókin greinilega ávöxtur starfs hans þar. Um markmið sitt með bókinni segir Halldór m.a. í stórmerkum „Formála“ fyrstu útgáfunnar (í síðari útgáfum þessarar lífseigu kennslubókar þurfti engan formála):

Einhver hinn helsti vegur til menningar fyrir hverja þjóð, er bera vill nafn með rentu, er, að hún leggi sem mesta rækt við það, sem er hennar eigið. Með tilliti til almennrar borgaralegrar mentunar stendur því hverri þjóð næst að afla sjer þekkingar á því, sem að einhverju leyti snertir hana sjálfa og land það, er hún byggir. Það, sem þarundir heyrir, kynni að mega skipa undir þau fimm atriði, er nú skal greina: þjóðtungan, saga þjóðarinnar, lýsing landsins, náttúrufræði þess og stjórnarfar.

Eitt af þessum fimm atriðum, og ekki hvað minnst áríðandi, er tungan, móðurmálið, því það er búningur hugsananna, hin ytri sýning eða mynd þess, hvernig þjóðin hefur hugsað eða starfað andlega að fornu og nýju, og hvernig hinar og þessar andlegar lífshreyfingar, er upp hafa sprottið hjá henni, hafa komið fram í ræðum og ritum frá því að fyrst var farið að rita á máli hennar. Málið er þannig að vissu leyti lykill að hugsunarhætti þjóðarinnar og þaraf leiðandi vegur til þess að læra að þekkja hennar andlega líf. Auk þessa er það auðskilið, að til þess að geta komið sæmilega fyrir sig orði í ræðu og riti, það er að segja, til þess að geta talað og skrifað sitt eigið mál lýtalaust, þarf að hafa nokkurn veginn almenna þekkingu á eðli málsins, beygingum þess og orðaskipun, og ætti því slík þekking að vera eitt með því fyrsta, er hver maður, sem áhuga hefur á því að menntast, ætti að afla sjer; sjer í lagi er það eitthvað óeðlilegt, að læra svo og svo mikið í útlendum tungum, en sleppa sínu eigin máli, þeirri tungunni, sem liggur næst.
(Halldór Briem 1891:III–IV).
Halldór víkur síðan að hinum mikla skorti sem verið hafi á kennsluefni, þar sem ekki hafi verið um annað að velja en Málmyndalýsingu Halldórs Kr. Friðrikssonar, Forníslenska málmyndalýsingu Wimmers og Ritreglur Valdimars Ásmundssonar. Heldur hann svo áfram:
Með kveri því, er hjer kemur fyrir sjónir manna, hef jeg gjört dálitla tilraun til að bæta úr þessum skorti. Það var áform mitt, að hafa það svo stutt sem orðið gæti, en sleppa þó ekki neinu verulegu, er snerti almenna þekkingu á málinu, yfir höfuð að taka ekki meira með, en það er nokkurn veginn mætti ætlast til, að hver meðallagi menntaður alþýðumaður, og það ekki síður konur en karlar, ættu að hafa þekking á ...
(Halldór Briem 1891:IV–V).
Í formála Halldórs kemur síðan fram að hann hafi stuðst við málmyndalýsingu („Outlines of Grammar“) Guðbrands Vigfússonar í orðabók Cleasbys og Vigfússonar.

Mikilvægt spor í námsefnisgerðinni var stigið árið 1935 þegar út kom kennslubók með hinum yfirlætislausa titli Í SLENZKA. I. Útgefandi var „Kennslubækur Útvarpsins“ og höfundurinn Björn Guðfinnsson. Ríkisútvarp hafði starfað í fimm ár og forsvarsmenn þess áttu sér mikla drauma um að þessi nýi miðill yrði eins konar alþýðuháskóli þjóðarinnar. Var því lengi stunduð þar kennsla í íslensku og erlendum tungumálum (síðar í samvinnu við bréfaskóla). Þessi bók kom síðar út í mörgum útgáfum og var notuð það sem eftir lifði aldarinnar í mörgum skólum. Titillinn breyttist í ÍSLENZK MÁLFRÆÐI HANDA SKÓLUM OG ÚTVARPI og eftir lát höfundar (í endurskoðun Eiríks Hreins Finnbogasonar) í ÍSLENZK MÁLFRÆÐI HANDA FRAMHALDSSKÓLUM (1958) og enn síðar ÍSLENSK MÁLFRÆÐI HANDA GRUNNSKÓLUM OG FRAMHALDSSKÓLUM (1992). Björn fylgdi þessari bók eftir með ÍSLENZKRI SETNINGAFRÆÐI HANDA SKÓLUM OG ÚTVARPI árið 1938 og var hún síðar gefin oft út með svipuðum nafnbreytingum og málfræðin.

Í formála að fyrstu útgáfu málfræðinnar (1935) komst Björn Guðfinnsson svo að orði:

Bók þessi á að veita mönnum þá fræðslu í íslenzkri málfræði, sem þeir þarfnast til þess að geta talað og ritað íslenskt nútímamál sæmilega rétt. Málfræði er undirstaða alls málanáms, og hvorki íslenzka né önnur mál verða lærð til neinnar hlítar án hennar. Frumatriði málfræðinnar verða menn að læra mjög rækilega – miklu rækilegar en venjulega er gert.

Íslenzka er ólík öðrum málum. Við Íslendingar verðum því að eyða miklum tíma og mikilli orku í nám erlendra mála. Nú liggur í augum uppi að sæmileg þekking á frumatriðum íslenzkrar málfræði er nauðsynleg við slíkt nám. Sú aðferð, sem mjög tíðkast, að byrja á að kenna mönnum málfræði erlends máls, áður en þeir hafa lært íslenzka málfræði, er með öllu óverjandi, enda mun hún reynast flestum örðug. Sannleikurinn er sá, að örðugleikar nemenda við nám erlendra mála stafa að verulegu leyti af ónógri þekkingu á íslenzkri málfræði.

Hér er allt á hreinu: Málfræðin á að gera menn talandi og skrifandi auk þess sem hún er undirstaða náms í erlendum málum. Virðast kennarar og aðrir sérfræðingar hafa fallist á þessi rök án umtalsverðrar gagnrýni og þau mótuðu kennslu í móðurmáli í íslenskum skólum allan síðari hluta aldarinnar.

3.3 Móðurmálskennsla í alþýðuskólum

Þegar leið að lokum 19. aldar fjölgaði skólum sem sinntu almennri menntun þótt enn væri nokkuð í land. Þess sér fljótt stað í námsefni sem út er gefið að nýir hópar eru komnir til sögu. Þessir skólar studdust yfirleitt við sama námsefni og Lærði skólinn, stundum þó í nokkuð einfaldaðri mynd. Þannig var áðurnefnd málfræði Halldórs Briem ætluð gagnfræðaskólum þar sem Málmyndalýsing Halldórs Kr. Friðrikssonar var talin of erfið.

Veturinn 1883–84 var Gagnfræðaskólinn í Flensborg tveggja vetra skóli og þá segir í elstu prentuðu skólaskýrslunni (1. bekkur var barnaskólinn, 2. og 3. bekkur á gagnfræðastiginu):

Í íslensku var lesið í 3. bekk: Skýringar málfræðislegra hugmynda eftir H.Kr. Friðriksson lesnar upp; lesnir 70 kapitular í Njálu (vísurnar ekki lesnar); æfingar í íslenzkum stíl og ritgjörðum. – Í 2. bekk: Skýringar málfræðislegra hugmynda eftir H.Kr. Friðriksson lesnar upp; æfingar í að skrifa stafrétt eftir fyrirlestri og snúa dönsku máli á íslenzku.
(Guðni Jónsson 1932:54).
Athyglisverð er sú áhersla sem greinilega hefur verið á fornar bókmenntir og formlega málfræði, en líka er merkilegt að þýðingar eru hér hluti íslenskukennslunnar.

Fram yfir miðja tuttugustu öld skiptist íslenska skólakerfið fram að háskóla í þrjú aðgreind stig: barnaskóla, gagnfræðaskóla og menntaskóla eða sérskóla (en undir því heiti duldust meðal annars iðnfræðsluskólar landsins). Önnur heiti skólastiganna koma einnig fyrir. Þannig er stundum talað um „unglingaskóla“ í stað gagnfræðaskólanna og sumir gagnfræðaskólanna voru sprottnir úr „héraðs-“ eða „alþýðuskólum“ sem stofnaðir voru á þriðja áratug aldarinnar utan þéttbýlissvæðanna. Nokkrar heimildir um stefnu í móðurmálskennslunni má finna í skýrslum þessara skóla, en í heild hefur sú saga ekki verið skráð.

Af reglugerð fyrir Alþýðuskóla Þingeyinga, eins og hún birtist með greinargerð í Ársriti nemendasambands Laugaskóla árið 1926, má ráða að brautryðjendum alþýðuskólanna hafi verið ofarlega í huga hið þjóðræknislega hlutverk móðurmálskennslunnar og bókmenntalestur hefur þá hugsanlega fengið öllu meira rúm en málfræði. Er og athyglisvert hversu mikil áhersla er lögð á að íslensk tunga sé einstæð og saga hennar engri annarri málsögu lík.

3.4 Námskrár og próf

Fyrsta námskrá fyrir barnafræðslu var sett árið 1929 og var síðan endurskoðuð alloft á 20. öld, síðast árið 1999. Á þessum 70 árum urðu ýmsar breytingar á viðhorfum og þar með breyttust áherslur frá námskrá til námskrár. Þótt inntak greinarinnar, þ.e. lestur, ritun, málfræði og bókmenntir, héldist með líkum hætti má sjá viðfangsefni móðurmálskennslunnar víkka. Til dæmis breytist skilgreining læsis umtalsvert og í síðustu námskrá aldarinnar er gert ráð fyrir að í því sé líka fólgið læsi á myndir og margt fleira í umhverfinu.

Miklu meiri áhrif en námskrárnar virðast samræmd próf hafa haft. Er þar fyrst að nefna landspróf miðskóla, sem svo var kallað og þreytt árlega frá 1946 til 1974. Landspróf gaf þeim sem það stóðust rétt til að setjast í menntaskóla eða kennaraskóla og prófið þreytti að jafnaði um fjórðungur nemendahópsins. Í landsprófinu var lögð mjög mikil áhersla á orðflokkagreiningu og setningarfræði en jafnframt lestur sígildra bókmenntaverka og var nemendum ætlað að geta staðið skil á samræmdum skýringum við verkin. Landsprófið varð greinilega til þess að festa ákveðið námsefni mjög í sessi. Þær kennslubækur sem lagðar voru til grundvallar voru verk Björns Guðfinnssonar um málfræði og setningafræði og voru þær að kalla mátti einráðar á markaðnum. Til bókmenntalestrar var Lestrarbók sú sem kennd er við Sigurð Nordal langsamlega mest notuð.

Samhliða landsprófsdeildunum voru við flesta alþýðu- eða gagnfræðaskóla svokallaðar gagnfræðadeildir. Í íslensku studdust þær að því er best verður séð við sama námsefni og landsprófsdeildirnar og áherslurnar urðu mjög svipaðar þótt kallað væri að gagnfræðaprófin væru auðveldari en landsprófin.

Eftir að landspróf miðskóla var lagt af árið 1974 kom í staðinn samræmt grunnskólapróf. Allir þreyttu þá sama próf og orkaði það að sjálfsögðu til enn frekari samræmingar í námsefni og kennslu. Þótt nýjar kennslubækur kæmu nú til sögunnar og sumstaðar gætti nýstárlegri viðhorfa voru bækur Björns Guðfinnssonar mjög víða notaðar eða þá bækur sem fylgdu mjög svipuðum anda. Varð í raun mjög lítil breyting á námi og kennslu í móðurmáli í barna- og unglingaskólum frá 1974 og fram á tíunda áratuginn.

3.5 Heildstæð móðurmálskennsla

Kennslugreinin íslenska eða móðurmál bar alla tuttugustu öld einkenni uppruna síns: hún fékkst við málfræði og bókmenntir og ‘afurðir’ þessara vísindagreina urðu meðal annars ritgerðir.

Einn þeirra sem rannsökuðu kennslu á síðustu áratugum 20. aldar skrifaði svo um námsgreinina „íslensku“:

Ýmis svið hennar voru oft kennd eins og þau væru sáralítið, ef nokkuð, skyld. LJÓÐ voru t.d. oftast kennd sem sérstök afmörkuð námsgrein aðskilin frá BÓKMENNTUM. STAFSETNING var einnig oftast kennd sem sérstök námsgrein. Fjórða „undirgrein“ íslenskunnar var ýmist nefnd MÁLRÆKT, MÓÐURMÁL eða MÁLFRÆÐI. Ritun var einnig stundum kennd eins og sérstök námsgrein væri, þó oftar væri hún tengd MÁLRÆKTINNI.
(Ingvar Sigurgeirsson 1993:15).
Áður en þetta var ritað hafði staða mála kallað á viðbrögð. Í Aðalnámskrá grunnskóla árið 1989 var rætt um kennsluaðferðir og meðal annars sagt:
Vekja þarf athygli barna á því að tungumálið er mikilvægasta samskiptatæki manna. Sérstaka áherslu skal leggja á heildstæð viðfangsefni sem gefa tilefni til margbreytilegrar tjáningar þar sem málið er ekki bútað niður í einingar, s.s. skrift, lestur, málfræði og stafsetningu.

Hugtakið HEILDSTÆÐUR eða HEILDSTÆTT MÓÐURMÁL var smám saman leitt til virðingarsætis og greinilega með því beint og óbeint vísað til kennslufræðilegra hugmynda um það hvernig nálgast mætti viðfangsefnið með heildrænum hætti, líta á það sem TEXTA sem birst gæti með ýmsu móti en hefði alltaf á sér yfirbragð heildar þar sem varast yrði að slíta einstaka þætti úr samhengi.

Í síðustu námskrá tuttugustu aldarinnar (1999) var markmiðið orðað svona:

Í aðalnámskrá grunnskóla er íslenskunámi skipt í nokkra þætti, þ.e. lestur, talað mál og framsögn, hlustun og áhorf, ritun, bókmenntir og málfræði. Þessir þættir eiga að styðja hver annan, tengjast og skarast og fléttast þannig saman í eina heild. Í þessu felst til dæmis það að hugtakakerfi bókmenntafræði og málfræði verði ekki meginviðfangsefni í sjálfu sér heldur verði hugtökin kynnt, kennd og notuð í tengslum við umfjöllun um talað mál og ritað, til stuðnings og skilningsauka. Einnig er lögð áhersla á að nemendur þjálfist í íslensku í öllum námsgreinum í grunnskóla. Áherslurnar geta verið mismunandi eftir námsgreinum en einkum skal leggja áherslu á þjálfun í töluðu máli, lestri og lesskilningi og ritun, þ.m.t. réttritun. Íslenskukennsla á að vera heildstæð í grunnskóla þar sem lögð er áhersla á innbyrðis tengsl þátta og viðfangsefna, innbyrðis jafnvægi þeirra og eðlilega stígandi í náminu.
(Aðalnámskrá grunnskóla. Íslenska. Bls. 9).
Námsefni fyrir grunnskóla hefur tekið svipaðri þróun á síðasta áratug aldarinnar en kennsluhættir og prófagerð breytast hægar.

Heimildir

Aðalnámskrá grunnskóla. 1989. Menntamálaráðuneytið. Reykjavík.

Aðalnámskrá grunnskóla. Íslenska. 1999. Menntamálaráðuneytið. Reykjavík.

Bjarni Vilhjálmsson. 1952. Landspróf miðskóla 1946–1951. Bjarni Vilhjálmsson bjó til prentunar. Gefið út af fræðslumálastjórninni. Reykjavík.

Bjarni Vilhjálmsson. 1963. Verkefni við landspróf miðskóla 1957–1962. Bjarni Vilhjálmsson sá um útgáfuna. Bókaútgáfa Menningarsjóðs. Reykjavík.

Björn Þorsteinsson og Bergsteinn Jónsson. 1991. Íslandssaga til okkar daga. Reykjavík. Sögufélag.

Eyjólfur Guðmundsson. 1987. Ritsafn Eyjólfs Guðmundssonar bónda Suður-Hvoli, Mýrdal. Reykjavík. Bókaútgáfan Dyngja.

Eysteinn Þorvaldsson. 1988. Ljóðalærdómur. Athugun á skólaljóðum handa skyldunámsskólum 1901–1979. Rit Kennaraháskóla Íslands. A-flokkur: Rannsóknarritgerðir og skýrslur 4. Reykjavík.

Guðmundur Finnbogason. 1905. Skýrsla um fræðslu barna og unglinga veturinn 1903–1904. Reykjavík.

Guðni Jónsson. 1932. Minningarrit Flensborgarskólans 1882–1932. Nemendasamband Flensborgarskólans. Reykjavík.

Guðrún Kvaran. 1990. Íslenzk skólamálfræði á 19. öld. Yrkja. Afmælisrit til Vigdísar Finnbogadóttur 15. apríl 1990. Bls. 86–93. Reykjavík.

Gunnar M. Magnúss. 1939. Saga alþýðufræðslunnar á Íslandi. Hátíðarit S.Í.B. Reykjavík. Samband íslenzkra barnakennara.

Gunnar Sveinsson. 1982. Formáli. Lijtid wngt Støfunar Barn. 1782. Bls. vii–xxxvi. Reykjavík. Iðunn.

Halldór Briem. 1891. Stutt ágrip af íslenskri mállýsingu handa alþýðuskólum. Reykjavík.

Halldór Laxness. 1967. Heimsljós. 3. útgáfa. Reykjavík. Helgafell. (1. útgáfa 1937).

Hróðmar Sigurðsson. 1957. Íslenzk stafrófskver. Skírnir 131. Reykjavík.

Ingvar Sigurgeirsson. 1993. Hvernig er íslenska kennd á miðstigi grunnskóla? Skíma. 16/1/14–25.

Kristleifur Þorsteinsson. 1935. Þættir K.Þ á Stóra-Kroppi. Héraðssaga Borgfirðinga. I. bls. 111–478.

Loftur Guttormsson. 1993. Frá kristindómslestri til móðurmáls. Hugmyndafræðileg hvörf í lestrarefni skólabarna um síðustu aldamót. Uppeldi og menntun. 2:9–23.

Lovsamling for Island ... 1855. 5. Bd. Samlet og udg. af Oddgeir Stephensen og Jón Sigurðsson Kbh.

Lovsamling for Island ... 1866. 13. Bd. Samlet og udg. af Oddgeir Stephensen og Jón Sigurðsson Kbh.

Lundgreen-Nielsen, Flemming. 1992. Grundvig og danskhed. Dansk identitetshistorie. 3. Folkets Danmark 1848–1940. Bls. 9–187. Ritstj. Ole Feldbæk.. C.A. Reitzels Forlag. Kaupmannahöfn.

Magnús Helgason. 1934. Skólaræður og önnur erindi. Samband íslenzkra barnakennara. Reykjavík.

Matthías Jochumsson. 1959. Sögukaflar af sjálfum mér. (2. útg.) Reykjavík. Ísafoldarprentsmiðja.

Saga Reykjavíkurskóla I. Nám og nemendur. 1975. Aðalhöfundar: Kristinn Ármannsson, Einar Magnússon, Guðni Guðmundsson, Heimir Þorleifsson (ritstj.). Reykjavík. Sögusjóður Menntaskólans í Reykjavík.

Sverrir Tómasson. 1992. Menntun miðaldamanna. Íslensk bókmenntasaga. I. Guðrún Nordal, Sverrir Tómasson og Vésteinn Ólason (ritstj.). Bls. 267–281. Reykjavík. Mál og menning.

Þorkell Bjarnason. 1892. Fyrir 40 árum. Tímarit hins íslenzka bókmenntafjelags 13:170–258.