Greinar

Sigríður Sigurjónsdóttir
Máltaka barna

1. Máltökurannsóknir

1.1 Máltaka

Hugtakið MÁLTAKA er notað um það ferli þegar börn tileinka sér móðurmál sitt í æsku. Þegar talað er um máltöku barns er átt við það að barnið sé að læra sitt fyrsta mál. Síðar á lífsleiðinni leggja margir stund á formlegt tungumálanám og þá er talað um málnám annars máls. Eins og flestir sem lagt hafa stund á formlegt tungumálanám gera sér grein fyrir, þá er mikill munur á því að læra erlent mál í skóla eða á fullorðinsárum og að tileinka sér móðurmál sitt í æsku. Lítil börn ná valdi á móðurmáli sínu svo til sjálfkrafa og að því er virðist án nokkurrar áreynslu. Það krefst hins vegar mikillar vinnu að læra erlent mál og eftir því sem fólk eldist verður málnám erfiðara.

Börn sem alast upp við tvö eða fleiri mál eru sögð vera tvítyngd eða fleirtyngd. Eðlilegt er að líta svo á að börn sem búa yfir virku tvítyngi eða fleirtyngi (þ.e. skilja, tala, lesa og skrifa á tveimur eða fleiri tungumálum) eigi sér tvö eða fleiri móðurmál. Rannsóknir sem byggjast á nýrri tækni, svokallaðri segulómun, hafa leitt í ljós að í heila tvítyngdra einstaklinga sem hafa tileinkað sér tvö móðurmál í æsku eru bæði móðurmálin á sama stað innan BROCA-SVÆÐISINS í vinstra heilahveli.

Á þessari mynd sjást aðalmálsvæði heilans: Broca-svæðið sem kennt er við Frakkann Paul Broca (1824-1880) og Wernicke-svæðið sem nefnt er eftir Þjóðverjanum Carl Wernicke (1848-1905). Horft er á vinstri hlið heilans þar sem þessi svæði eru.

Í heila fólks sem á sér aðeins eitt móðurmál eiga móðurmálið og annað málið hins vegar hvort sín heimkynni innan Broca-svæðisins. Hjá manni sem hefur íslensku að móðurmáli og lærði dönsku í skóla eru þessi tvö tungumál því geymd hvort á sínum stað innan Broca-svæðis heilans (Kim o.fl. 1997).

1.2 Rannsóknaraðferðir

Menn rannsaka mál og málþroska barna með a.m.k. tvenns konar markmið í huga. Annað markmiðið er að afla fræðilegra upplýsinga um máltöku barna. Fræðimenn sem fást við máltökurannsóknir reyna að svara spurningum eins og: Hvernig stendur á því að ung börn geta tileinkað sér jafn flókið táknkerfi og móðurmál þeirra er á tiltölulega stuttum tíma? Hvernig ná börn valdi á móðurmáli sínu og hvaða stig ganga þau í gegnum meðan á máltökunni stendur? Hvað getur máltaka barna sagt okkur um eðli mannlegs máls og málkunnáttu manna? Hitt markmiðið hefur hagnýtari tilgang. Talmeinafræðingar og talkennarar leggja þá svokölluð málþroskapróf fyrir börn sem talin eru hafa skertan málþroska. Þessi málþroskapróf eru að nokkru leyti byggð á upplýsingum sem máltökufræðingar hafa aflað með fræðilegum athugunum á máltöku og því hefur fræðilega markmiðið einnig hagnýtan tilgang.

Sú stefna í málfræði sem notið hefur mikillar hylli víða um lönd síðustu áratugi 20. aldarinnar er MÁLMYNDUNARFRÆÐIN. Aðalmarkmið málfræðinga sem fást við málmyndunarfræði er að lýsa málhæfni fólks, þ.e. þeirri málfræðikunnáttu sem fullorðnir einstaklingar búa yfir. Sú áhersla sem málmyndunarfræðingar leggja á málhæfni hefur valdið því að athygli málfræðinga hefur í auknum mæli beinst að máltöku barna. Málfræðingar og aðrir sem vinna að fræðilegum rannsóknum á máltöku barna beita aðallega tvenns konar rannsóknaraðferðum þegar þeir leitast við að lýsa því hvernig ung börn ná valdi á móðurmáli sínu, svokölluðum langsniðsathugunum og þversniðsathugunum.

1.2.1 Langsniðsathuganir

Langsniðsathuganir eru miklu tímafrekari en þversniðsathuganir og felast í því að fylgst er reglulega með máltöku barns í langan tíma. Við langsniðsathugun á barnamáli er tal barnsins tekið upp á segulband (eða myndband) í tiltekinn tíma með jöfnu millibili. Reynt er að hafa aðstæður sem eðlilegastar þar sem mikilvægt er að upptökurnar gefi raunhæft yfirlit yfir máltöku barnsins. Í byrjun 9. áratugarins var gerð langsniðsathugun á þremur íslenskum börnum, Ara, Birnu og Dóru (dulnefni), og hófst athugunin þegar börnin voru nýorðin tveggja ára. Fylgst var mislengi með börnunum, t.d. eru til upptökur með Ara þegar hann er tæplega sex ára en aðeins var fylgst með Birnu um 14 mánaða skeið. Hér er gefið dæmi úr athuguninni á Birnu. Upptakan fór fram heima hjá Birnu þegar hún var tveggja ára, fimm mánaða og tveggja daga gömul (2;5:2). Auk Birnu voru móðir hennar (M) og rannsóknarmaður (R1) viðstödd upptökuna.

Birna: (bendir á mynd af sel) hann er svo reið við mig/
R1: hver?
Birna: (bendir á sömu mynd) þessi/
R1: nú/
M: veistu að þetta er selur/
er selurinn svona reiður við þig/?
Birna: já/
M: já/
Birna: (bendir á aðra mynd af sel) þett' ekki reið við mig/
1.2.2 Þversniðsathuganir

Þversniðsathuganir á barnamáli felast í því að sérsamin próf eru lögð fyrir stóran hóp barna á ákveðnu aldursskeiði. Þessi próf eru samin til þess að kanna tiltekin atriði í máli þeirra. Sem dæmi um íslenskar þversniðsathuganir má nefna athugun á framburði íslenskra barna við 4 og 6 ára aldur og athugun á fleirtölumyndun íslenskra barna við 4 og 6 ára aldur. Þessar athuganir fóru fram í upphafi 9. áratugarins.

2. Líffræðilegar forsendur máltöku

2.1 Eiga dýr sér mál?

Það er oft haft á orði að það sé fyrst og fremst málið sem greini manninn frá dýrunum, það sé sem sagt tungumálið sem geri manninn að manni. Athuganir sem gerðar hafa verið á tjáskiptakerfum dýra hafa leitt í ljós að hæfileiki þeirra til tjáskipta er af allt annarri gerð en tungumálahæfileiki manna. Margar dýrategundir nota táknkerfi til þess að koma boðum sín á milli. Sem dæmi má nefna býfluguna sem dansar til þess að tjá sambýlisflugum sínum að hún hafi fundið hunang.

Dans býflugunnar. Contemporary Linguistics 1993.

Með dansinum kemur býflugan því á framfæri hversu langt í burtu hunangið er, í hvaða átt það er og um hversu mikið magn er að ræða. Þetta eru einu upplýsingarnar sem býflugan getur tjáð með dansi sínum. Tjáskiptakerfi býflugna og annarra dýra eru nefnilega ólík mannlegu máli að því leyti að þau eru bundin ákveðnum aðstæðum svo sem fæðuöflun, mökun, ótta, o.s.frv. Mannlegt mál virðist einstakt í dýraríkinu að því leyti að við getum notað takmarkaðan orðafjölda til þess að mynda og skilja óendanlega margar setningar. Tungumál manna býður því upp á óendanlega möguleika sem gera okkur kleift að tjá okkur um hvað sem er. Táknkerfi dýra býr hins vegar hvorki yfir þeim sveigjanleika né frumleika sem einkennir mannlegt mál og þess vegna geta dýrin ekki rætt um tilfinningar sínar eða fegurð sólarlagsins eins og menn geta gert.

Auk tungumálsins nota menn ýmsar líkamshreyfingar til þess að tjá sig, t.d. yppta menn öxlum til að tjá vafa, hrista höfuðið til að neita einhverju, blikka samferðamann sem þeim líst vel á o.s.frv.

Ýmisleg líkamstjáning getur komið í stað orða! Teikn. Jón Óskar.

Þessar líkamshreyfingar manna eru táknkerfi sem lúta sömu lögmálum og táknkerfi margra dýrategunda. Menn geta því sent hver öðrum skilaboð á svipaðan hátt og margar dýrategundir, en auk þess býr maðurinn yfir þeim einstæða hæfileika að geta tileinkað sér flókið kerfi móðurmáls síns sem býður upp á óendanlega tjáningarmöguleika.

2.2 Máltökuskeið

Forsenda eðlilegrar máltöku er að barn heyri tungumál talað í umhverfi sínu þegar það er á ákveðnum aldri. Talað er um markaldur í máltöku og er þá átt við tímabilið frá fæðingu og fram að kynþroska. Rannsóknir sýna að barn verður að læra móðurmál sitt á þessum markaldri annars er ekki hægt að segja að það hafi neitt mál að móðurmáli. Þegar barn er á máltökuskeiði lærir það móðurmál sitt svo til sjálfkrafa en þegar fólk kemst ekki í kynni við tungumál fyrr en eftir að kynþroskaaldri er náð, þá á það erfitt með að ná valdi á málfræði þess, og sumum reynist það óvinnandi vegur. Líkja má erfiðleikum þessa fólks við erfiðleika innflytjenda og útlendinga sem eru að reyna að ná valdi á öðru tungumáli en sínu eigin eftir að fullorðinsaldri er náð. Erfiðleikar fólks sem byrjar ekki að læra tungumál fyrr en eftir að máltökuskeiði lýkur eru þó ólíkt meiri, þar sem það hefur aldrei lært neitt mál og á sér ekkert mál að móðurmáli.

Rannsóknir á heyrnarlausum börnum sem ekki lærðu táknmál fyrr en eftir að þau urðu kynþroska sýna að þau ná ekki sömu tökum á táknmáli og börn sem læra það á barnsaldri. Svokölluð úlfabörn, þ.e. börn sem alist hafa upp án samneytis við aðra menn, styðja einnig tilgátuna um sérstakt máltökuskeið. Eitt þeirra barna er Genie sem fannst í Los Angeles árið 1970. Það einkennir mál Geniear og þeirra heyrnarlausu barna sem lærðu táknmál eftir að þau urðu kynþroska að þau eiga í miklum erfiðleikum með málfræði. Þetta fólk getur lært orð og merkingu þeirra en það nær aldrei fullum tökum á beygingar- og setningafræði móðurmáls síns. Mál þess er því mjög afbrigðilegt og það brýtur málfræðireglur sem börn sem ganga í gegnum eðlilega máltöku á máltökuskeiði virða alltaf. Rannsóknir á heila þessa fólks benda til að það geti ekki nýtt vinstra heilahvelið til máls en málsvæðin eru yfirleitt í vinstra heilahveli. Í staðinn virkjar þetta fólk hægra heilahvelið til að sjá um tungumálið, en það ræður ekki við málfræðina þar sem málsvæðin eru í vinstra heilahveli (sbr. Curtiss 1985:108–110).

Á þessari mynd sést skipting heilans í hægra og vinstra heilahvel. Horft er ofan á heilann.

2.3 Mál og greind

Anton er þroskaheftur sex ára snáði. Hann getur hvorki dregið hring né sett einn kubb ofan á annan. Ólíklegt er að Anton muni nokkurn tíma geta séð um sig sjálfur, t.d. mun hann líklega aldrei læra að binda skóreimarnar sínar. Þó að Anton sé með mjög lága greindarvísitölu hefur máltaka hans verið nokkuð eðlileg. Hann byrjaði að mynda orð þegar hann var eins árs og þriggja ára var hann farinn að mynda langar setningar. Tal Antons virðist í fyrstu alveg eðlilegt. Að vísu beygir hann fleiri orð vitlaust en jafnaldrar hans, en í meginatriðum eru setningar hans rétt uppbyggðar. Nánari athugun á máli Antons sýnir hins vegar að merking málsins vill skolast til hjá honum. Þegar Anton var t.d. spurður hversu mörg systkini hann ætti svaraði hann með því að segja:

„Ég á tvær systur, Davíð og Viktoríu og Önnu Margréti“

Setningar Antons eru því nokkuð rétt myndaðar málfræðilega en þær merkja ekki alltaf það sem þær ættu að merkja (sjá Curtiss 1982). Rannsóknir á börnum með skerta greindarvísitölu sýna að þau geta haft nær fullt vald á málfræði móðurmáls síns þó að merking málsins sé þeim ekki alltaf ljós. Þar sem mjög þroskaheftir einstaklingar geta haft nær fullt vald á málfræði móðurmáls síns virðist málkunnáttan vera að einhverju leyti sjálfstæð og ýmislegt bendir til að hægt sé að greina hana frá öðrum þáttum mannlegrar greindar. Greind og ómeðvituð kunnátta manna á málfræði móðurmáls síns eru, með öðrum orðum, að einhverju leyti óháðar hvor annarri. Rannsóknir á máltöku þroskaheftra einstaklinga benda því til að við lærum ekki málfræði móðurmáls okkar á sama hátt og við

3. Hvernig læra börn móðurmálið?

3.1 Hermt eftir fullorðnum

„Því læra börnin málið að það er fyrir þeim haft,“ segir máltækið. Vitanlega felst töluverður sannleikur í því, þar sem börn læra ekki móðurmál sitt ef þau eru ekki innan um annað fólk á máltökuskeiði. Af samskiptum við annað fólk læra börn orðaforða málsins og sumar reglur þess. Það þarf þó ekki að fylgjast lengi með máltöku ungra barna til að sannfærast um að máltækið hér að ofan segir ekki alla söguna um það hvernig börn læra móðurmál sitt. Íslensk börn mynda t.d. setningar eins og þessar:


1. Kisa ekki finna
4. Ég er með tvo fótar
3. Mamma saumdi peysuna mína

Frekar ótrúlegt er að börn hafi fyrstu setninguna eftir fullorðnum eða að þau api fleirtölumyndina fótar og þátíðarmyndina saumdi eftir fullorðnum. Rannsóknir hafa einnig sýnt að börn eiga mjög erfitt með að endurtaka setningar sem falla ekki að málkerfi þeirra. Barn sem er á því skeiði að mynda fleirtöluna fótar af fótur á t.d. mjög erfitt með að endurtaka setningu þar sem rétt fleirtölumynd (fætur) kemur fyrir. Þetta bendir til að þegar barn lærir móðurmál sitt sé eitthvað meira um að vera en að það sé eingöngu að herma eftir fullorðnum.

Þessi kenning skýrir ekki heldur hvernig börn sem af einhverjum ástæðum hafa misst röddina tímabundið vegna raddbandalömunar eða annars læra móðurmál sitt. Börn sem svo er ástatt fyrir læra málið þó að þau geti ekki talað. Þegar þau yfirvinna fötlun sína kemur málkunnátta þeirra í ljós (sbr. Fromkin og Rodman 1998:329).

3.2 Leiðréttingar

Barn: „Enginn finnst ég ekkert vera skemmtilegur“
Móðir: „Nei, segðu ‘engum finnst ég vera skemmtilegur’“
Barn: „Enginn finnst ég ekkert vera skemmtilegur“ (endurtekið 8 sinnum)
Móðir: „Nei, hlustaðu nú vel; segðu ‘engum finnst ég vera skemmtilegur’“
Barn: „Ó, enginn finnst ég vera skemmtilegur“
(þýtt úr ensku, sjá McNeill 1966:69)
Þetta samtal móður og barns segir okkur heilmikið um leiðréttingar og hlutverk þeirra í máltökunni. Ekki virðist árangursríkt að leiðrétta mál ungra barna þar sem börn hlusta lítið á slíkar leiðréttingar. Börn fylgja sínum eigin málfræðireglum og virðast verða að átta sig á því sjálf að reglur þeirra eru rangar. Reyndar leiðrétta fáir foreldrar börn sín líkt og móðirin í þessu dæmi. Rannsóknir hafa sýnt að foreldrar leiðrétta aðallega börn sín þegar þau fara rangt með staðhæfingar. Ef barn segir t.d. að Stundin okkar sé í sjónvarpinu á laugardögum, í stað þess að segja að hún sé á sunnudögum, þá er líklegt að barnið sé leiðrétt. Rangur framburður orða er einnig oft leiðréttur og ákveðin beygingaratriði eins og þágufallssýki í íslensku. Önnur atriði eins og uppbygging setninga og beygingar orða eru hins vegar yfirleitt ekki leiðrétt (Brown 1973:330). Foreldrum finnast slíkar villur skemmtilegar og taka þær ekki alvarlega þar sem það skilst vel hvað barnið er að segja. Það er því ólíklegt að leiðréttingar fullorðinna hafi mikil áhrif á máltökuna.

3.3 Einföldun

Fólk talar oft á annan hátt við ung börn en við annað fólk. Fólk notar hærri TÓNHÆÐ en venjulega, talar hægar og ber hvert orð skýrt fram. Talað er án hiks og setningar eru yfirleitt frekar stuttar og málfræðilega réttar. Þá endurtekur fólk gjarnan það sem barnið segir eða endurorðar það. Þessi sérstaki talmálsstíll sem er flestum ómeðvitaður virðist vera sniðinn að þörfum barns sem er að byrja að uppgötva heiminn og læra móðurmál sitt. En gegnir þessi málstíll einhverju hlutverki í máltökunni? Fræðimenn hafa ekki verið á eitt sáttir um það, en mannfræðingar hafa komist að því að meðal sumra þjóða tíðkast ekki að tala við börn á þennan hátt. Sums staðar er það meira að segja talin tímasóun að tala við börn fyrr en þau eru orðin nógu gömul til að geta svarað. Á þessum stöðum læra börn þó móðurmál sitt rétt eins og á Vesturlöndum þar sem þessi talmálsstíll tíðkast einkum (sbr. Goodluck 1991:161). Það virðist því ekki vera nauðsynleg forsenda máltökunnar að fólk noti þennan talmálsstíl þegar það talar við börn. Rannsóknir hafa hins vegar sýnt að foreldrar geta auðveldað börnum sínum máltökuna með því að tala mikið við þau. Börn á Vesturlöndum sem mikið er talað við hafa yfirleitt meiri orðaforða en börn sem lítið er talað við og þau ná einnig fyrr valdi á ýmsum setningagerðum móðurmáls síns. Það má því segja að grundvallaratriði móðurmálsins lærist hvort sem talað er lítið eða mikið við börn en hversu góðir málnotendur þau verða fer eftir því hvers konar máluppeldi þau hljóta (Newport o.fl. 1977).

3.4 Börn læra málið og reglur þess sjálf

Mönnum er eðlislægt að tileinka sér mál í æsku. Börn læra móðurmál sitt á undraskömmum tíma og eru flest orðin altalandi um 4–5 ára aldur. Þá hafa börn náð valdi á málkerfinu í meginatriðum þótt þau eigi að vísu enn eftir að tileinka sér einstakar reglur málsins og öðlast meiri orðaforða. Þetta er ótrúlegt afrek þegar haft er í huga hversu flókið kerfi mannlegt mál er. Til samanburðar má nefna að það tekur stálpaða unglinga og fullorðið fólk mörg ár að ná valdi á erlendu máli og fæstir ná sömu hæfni og börnin þó að þeir stundi strangt skólanám. Börn læra hins vegar móðurmálið án beinnar kennslu fullorðinna og leiðréttingar virðast hafa lítið að segja.

Rannsóknir hafa sýnt að börn læra móðurmál sitt að mestu leyti sjálf. Þau virðast hafa meðfædda hæfileika til máltöku sem móta þær hugmyndir sem þau gera sér um móðurmál sitt. Þetta sést m.a. á því að öll heilbrigð börn feta svipaða slóð í máltökunni óháð því hvaða mál þau eru að læra. Þannig er ekki aðeins máltaka íslenskra barna svipuð í grófum dráttum heldur máltaka barna víða um heim. Mál barna er líka reglubundið og hverju stigi málþroskans fylgja ákveðnar reglur. Með hverju stigi sem börn ganga í gegnum verður málkerfi þeirra líkara málkerfi fullorðinna. Sem dæmi um regluleika og stigbundna þróun barnamáls má nefna framburðarfrávik í máli barna, alhæfingu algengra beygingarreglna (sjá Hvernig læra börn beygingu orða?) og hið svokallaða nafnháttarstig í máltöku. Þó að börn virðist að mestu tileinka sér móðurmálið og reglur þess sjálf, þá má ekki gleyma því að samskipti við annað fólk á máltökuskeiði eru nauðsynleg forsenda þess að börn nái valdi á máli.

4. Eðlileg máltaka

4.1 Meðfædd málhvöt manna

Manninum virðist áskapað að læra mál. Öll heilbrigð börn sem eiga eðlileg samskipti við annað fólk á máltökuskeiði læra að tala. Þegar þess er gætt hversu flókin kerfi tungumál eru þá sætir furðu hversu fljótt og vel börn ná valdi á þeim. Flestir sál- og málfræðingar sem rannsakað hafa máltöku barna eru sammála um að maðurinn hafi meðfædda hæfileika til máltöku. Menn greinir hins vegar á um hversu fyrirferðarmiklir þessir hæfileikar eru í máltökunni. Sem dæmi um meðfædda hæfileika manna til máltöku má nefna að nýfædd börn bregðast öðruvísi við málhljóðum en hljóðum í umhverfinu og þau skynja mun ákveðinna hljóða, t.d. raddaðs ‘b’ og óraddaðs ‘p’, rétt eftir fæðingu. Rannsóknir á heyrnarlausum börnum sýna einnig að málhvöt manna er mjög sterk. Þar sem heyrnarlaus börn koma saman þróa þau sitt eigið táknmál ef þeim er ekki kennt táknmál heyrnarlausra. Þessi táknmál lúta þeim algildu lögmálum sem gilda um talað mál, þ.e. þau málfræðiatriði sem eru sameiginleg öllum tungumálum heimsins koma einnig fyrir í þessum málum. Það að menn hafa meðfædda hæfileika til máls auðveldar mönnum að skýra þá undraverðu staðreynd að smábörn ná valdi á flóknum málfræðireglum móðurmáls síns á sama tíma og þau eru til dæmis ófær um að hnýta skóreimarnar sínar.

4.2 Hjal ungabarna

Fyrstu hljóðin sem börn mynda eru yfirleitt ekki talin til máls þar sem þau eru aðstæðubundin. Til dæmis grætur nýburinn þegar hann er svangur en þessi viðbrögð hans teljast ekki til máls. Þegar ungabörn byrja að hjala mynda þau fyrst stök sérhljóð og samhljóð. Um 6 mánaða aldurinn fara þau að mynda atkvæði, yfirleitt af gerðinni samhljóð-sérhljóð, og endurtaka oft heilu runurnar af sama atkvæðinu, t.d. bababa. Þegar börn eru u.þ.b. 10 mánaða breytist hjalið á þann hátt að þau fara að mynda fleiri gerðir atkvæða, t.d. sérhljóð–samhljóð og samhljóð–sérhljóð–samhljóð, og atkvæðarunurnar breytast einnig að því leyti að það er ekki alltaf sama sérhljóðið og samhljóðið sem notað er í hverri runu, t.d. am, mam, babi. Rannsóknir á hjali ungabarna hafa sýnt að á hjalstiginu mynda ungabörn margvísleg málhljóð, m.a. ýmis hljóð sem ekki koma fyrir í móðurmáli þeirra. Íslensk börn nota t.d. rödduð lokhljóð í hjali þó að þessi hljóð séu ekki til í íslensku. Eftir því sem líður á hjalstigið laga börn sig smám saman að hljóðkerfi móðurmáls síns, t.d. líkist hljómfall þeirra sífellt meira hnigi og risi fullorðinsradda í tali.

4.2.1 Munur á hjali heyrandi og heyrnarlausra barna

Nýlegar rannsóknir á hjali heyrandi og heyrnarlausra ungabarna benda til þess að strax á hjalstiginu hafi það málumhverfi sem barnið elst upp við áhrif á það. Petitto og Marantette (1991) komust að því að hjal heyrnarlausra barna er allt öðruvísi en hjal heyrandi barna. Hjal heyrandi barna er kerfisbundið og barnið gengur í gegnum nokkur stig á hjalskeiðinu. Hjal heyrnarlausra barna er hins vegar tilviljanakennt og heyrnarlaus börn endurtaka yfirleitt ekki sömu atkvæðin aftur og aftur eins og heyrandi börn gera. Á sama hátt eru handahreyfingar heyrandi barna á hjalstiginu allt öðruvísi en handahreyfingar heyrnarlausra barna. Handahreyfingar heyrandi barna eru tilviljanakenndar en heyrnarlaus börn sem alast upp við táknmál nota hendurnar til að mynda tákn sem þau endurtaka síðan í sífellu.

Myndin sýnir nokkur tákn úr táknmáli heyrnarlausra á Íslandi.

4.2.2 Flokkamiðuð talskynjun ungabarna

Rannsóknir hafa sýnt að talskynjun nýfæddra ungabarna er flokkamiðuð. Sem dæmi má nefna að Peter Eimas og samstarfsmenn hans komust að því árið 1971 að mánaðargömul ungabörn skynja mun á ‘b’ og ‘p’ í ensku en gera ekki greinarmun á mismunandi framburðarafbrigðum ‘b’, þótt sambærilegur munur hafi verið á þeim. Talskynjun hvítvoðunga er því flokkamiðuð á sama hátt og talskynjun fullorðinna.

Frekari rannsóknir á talskynjun ungabarna hafa leitt í ljós að menn hafa meðfædda hæfileika til þess að skynja mun ákveðinna hljóða. Ef ekki er gerður greinarmunur á þessum hljóðum í móðurmáli barnsins þá hættir barnið að skynja mun á hljóðunum. Sem dæmi má nefna að nýfædd ungabörn greina á milli hljóðanna ‘l’ og ‘r’ í tali. Hér er því um meðfædda aðgreiningu hljóða að ræða. Fullorðnir Íslendingar greina enn á milli þessara hljóða, eins og sést á því að orðin lopi og ropi hafa mismunandi merkingu í íslensku. Fullorðnir Japanir skynja hins vegar engan mun á þessum hljóðum. Í þeirra huga eru hljóðin ‘l’ og ‘r’ afbrigði sama hljóðansins og orðin lopi og ropi mismunandi framburðarmyndir sama orðsins. Börn virðast laga flokkamiðaða talskynjun sína að móðurmálinu á aldrinum 6 til 12 mánaða, þ.e. á þeim aldri hætta t.d. japönsk börn að greina á milli ‘l’ og ‘r’ (sbr. Eimas 1985). Móðurmál barna mótar því málkennd þeirra mjög snemma.

4.3 Málhljóð – fyrstu orðin

Um eins árs aldurinn hafa flest börn gert sér grein fyrir því að málhljóð gegna merkingarhlutverki í máli og taka að endurtaka hljóðastrengi sem bera ákveðna merkingu. Hljóðkerfi barnanna er að verða til og þau fara að mynda orð. Fyrstu orðin eru yfirleitt einföld að gerð, aðeins eitt eða tvö atkvæði og mynduð úr fáum hljóðum, yfirleitt órödduðu lokhljóðunum ‘p’ og ‘t’, nefhljóðunum ‘m’ og ‘n’ og sérhljóðinu ‘a’ (Goodluck 1991:19).

Árið 1998 hófst langsniðsathugun á Evu (dulnefni) sem fylgst hefur verið með frá upphafi máltöku. Fyrstu orð Evu þegar hún var 9 mánaða voru m.a. mynduð úr þessum hljóðum og eru nokkuð dæmigerð fyrir fyrstu orð íslenskra barna. Athugið að aldur barna er ekki góður mælikvarði á málþroska þeirra. Mörg börn eru vel rúmlega eins árs þegar þau mynda fyrstu orðin.

Fyrstu orð barna gegna oft hlutverki heillar setningar en það er einmitt eitt af einkennum hins svokallaða eins orðs stigs í máltöku. Þegar Eva sagði t.d. mokk, þ.e. ‘mjólk’, var hún yfirleitt að koma þeim skilaboðum á framfæri að hún vildi fá mjólk að drekka. Orðin á eins orðs stiginu gegna yfirleitt þeim þremur meginhlutverkum að tjá gerðir eða ósk um ákveðna athöfn, sbr. orðið mokk í máli Evu, að tjá tilfinningar barnsins og að nefna nöfn hluta, manna eða dýra í umhverfinu.

Til að byrja með talar barnið aðeins um hluti þegar þeir eru sjáanlegir, en með auknum þroska breytist þetta og barnið tekur að nefna hluti þótt þeir séu ekki í augsýn.

4.3.1 Framburðarfrávik í máli barna

Ýmis frávik í framburði koma fram í máli ungra barna. Algengast er að börn felli brott hljóð eða skipti einu hljóði út fyrir annað en ýmsar samlaganir koma einnig fyrir, þar sem eitt hljóð tekur á sig mynd annars hljóðs. Sem dæmi um slík framburðarfrávik í máli Evu þegar hún var 18 mánaða gömul má nefna að hún bar ‘bra bra’ fram sem ba ba (brottfall hljóðsins ‘r’), ‘rusl’ var borið fram lutt (hljóðinu ‘r’ hefur verið skipt út fyrir hljóðið ‘l’ og í stað samhljóðaklasans ‘sl’ er borið fram ‘tt’ svo fram kemur aðblástur) og ‘róla’ var borið fram lóla (sem e.t.v. má túlka sem samlögun: ‘r’ tekur á sig mynd eftirfarandi ‘l’). Staða hljóða í orðum virðist hafa töluvert að segja um það hvort börn beita brottfalli, skiptum eða samlögun. Það er t.d. algengt að íslensk börn felli brott ‘s’ þegar það stendur á undan lokhljóði, ‘stelpa’ verður deppa og ‘skór’ verður gór , en þegar ‘s’ kemur stakt fyrir í upphafi eða enda orðs er því oftast skipt út fyrir ‘þ’ í íslensku, Sigga verður Þigga og djús verður dúþ (sbr. Indriði Gíslason o.fl. 1986). Þó að ýmissa framburðarfrávika gæti í máli barna þá virðast börn vita hver rétt framburðarmynd orða er. Þetta kemur m.a. fram í því að börn bregðast oft ókvæða við ef fullorðnir herma eftir röngum framburði þeirra. Ef barn ber t.d. nafnið Sigga fram sem Þigga og fullorðinn bregst við með því að segja: Nú, heiti ég Þigga?!, þá er líklegt að barnið mótmæli eigin framburðarmynd og segi: Nei, þú heitir Þigga! Ef sá fullorðni notar hins vegar rétta framburðarmynd mótmælir barnið ekki. Börn virðast því greina á milli réttra og rangra framburðarmynda orða hjá öðrum þótt þau ráði ekki við að mynda þær sjálf.

4.3.2 Framburður íslenskra barna við 4 og 6 ára aldur

Í upphafi 9. áratugarins stóðu þeir Indriði Gíslason, Jón Gunnarsson og Ásgeir S. Björnsson að viðamikilli þversniðsathugun á framburði og fleirtölumyndun íslenskra barna. Hér verður fjallað um framburðarþátt athugunarinnar. Framburður 200 íslenskra barna var rannsakaður við 4 ára aldur og aftur þegar þau voru 6 ára. Athugunin fór þannig fram að börnin skoðuðu valdar myndir í möppu og sögðu rannsóknarmanni hvað þau sáu á myndunum.

Hér sést dæmi úr framburðarprófi Indriða Gíslasonar o.fl. Rannsóknarmaður benti á ákveðna hluti á myndunum og börnin sögðu honum af hverju myndirnar væru. Á þessari mynd var reynt að fá börnin til að segja orðin: 'peli' og 'snuð' (sbr. Indriða Gíslason o.fl. 1986:35).

Á þennan hátt tókst að ná fram framburði þeirra á sérhljóðum; stökum samhljóðum; samhljóðaklösum í framstöðu, innstöðu og bakstöðu. Niðurstöður athugunarinnar eru í grófum dráttum þær að við 4 ára aldur hafa flest börn góð tök á íslenskum framburði. Að meðaltali höfðu 83,4% barnanna réttan framburð við fjögurra ára aldur og 95,5% þeirra við sex ára aldur. Börn virðast fyrst ná valdi á samhljóðum sem ekki standa í samhljóðaklasa, síðan samhljóðaklösum í framstöðu og að lokum samhljóðaklösum í inn- og bakstöðu. Hljóðin ‘s’ og ‘r’ vefjast mest fyrir íslenskum börnum og er það sama niðurstaða og fengist hefur í erlendum framburðarrannsóknum. Helstu frávik í framburði á ‘s’ og ‘r’ eru að þessi hljóð falla brott eða þeim er skipt út með öðrum hljóðum. Algengasta skiptihljóðið fyrir ‘s’ er ‘þ’ en ‘r’ er skipt út fyrir ‘ð’, ‘þ’ eða ‘l’. Íslensk börn beita líka töluvert samlögun á samhljóðaklasa þar sem ‘m’, ‘n’, ‘r’, ‘l’, ‘s’ eða ‘ð’ eru fyrra hljóð en ‘p’, ‘t’ eða ‘k’ seinna hljóð. Fyrra hljóðið í klasanum er samlagað því seinna og út kemur aðblástur. Orðið bolti er þá borið fram botti, lampi verður lappi o.s.frv. (sbr. Indriða Gíslason o.fl. 1986). Í langsniðsrannsókninni á Evu kemur fram að hún notar aðblástur mjög mikið frá upphafi og þegar hún er 18 mánaða eru allir samhljóðaklasar í inn- og bakstöðu sem lokhljóðin ‘p’, ‘t’ eða ‘k’ koma fyrir í bornir fram með aðblæstri, t.d. brjóstbott, vatnvatt, flaskafakka.

Hér er dæmi úr fleirtöluprófinu sem notað var í þversniðsrannsókn Indriða Gíslasonar, Jóns Gunnarssonar og Ásgeirs S. Björnssonar á árunum 1980-1983 (sjá Indriða Gíslason o.fl. 1986). Prófið var samið af Höskuldi Þráinssyni, prófessor við Háskóla Íslands, og nemendum hans í námskeiði um sálfræðileg málvísindi árið 1979. Takið eftir að í bullorðunum var kyn orðsins gefið með töluorði.

Íslensk börn ofnota því gjarnan aðblástur en venjulega kemur hann aðeins fyrir í hljóðasamböndum sem eru rituð pp, tt og kk og þar sem l, m, n fylgir á eftir p, t eða k.

4.4 Hvernig læra börn beygingu orða?

Regluleiki barnamáls kemur einna skýrast fram í því hvernig börn læra beygingu orða. Strax á öðru ári birtast fleirtölu- og þátíðarmyndir í máli barna. Þessar fyrstu beygingarmyndir eru yfirleitt rétt myndaðar, t.d. er þátíðarmyndin datt eitt af fyrstu orðum margra íslenskra barna. Á þessu stigi virðast börn ekki hafa gert sér grein fyrir muninum á nútíð og þátíð, og þegar þau segja datt er eins líklegt að þau séu að lýsa atburði sem er að gerast eins og atburði sem hefur þegar gerst. Þegar börn eru komin á þriðja ár hafa þau yfirleitt áttað sig á muni nútíðar og þátíðar, eintölu og fleirtölu, o.s.frv. og taka að alhæfa algengustu beygingarreglur málsins. Fyrstu þátíðarmyndir íslenskra barna enda yfirleitt á -aði enda fær langstærsti og reglulegasti flokkur íslenskra sagna þessa þátíðarendingu. Þegar barn er á þessu stigi skeytir það -aði á allar sagnir í máli sínu og segir t.d. dettaði, hlaupaði og byggjaði. Í máli barnsins gildir þá aðeins ein regla um þátíðarbeygingu, en í máli fullorðinna eru sagnir ýmist veikar eða sterkar og hvor flokkur greinist í nokkra misalgenga undirflokka. Á næsta stigi hafa börn náð valdi á þátíðarendingunum -di og -ti auk -aði, en þetta eru beygingarendingar veikra sagna í íslensku. Þessar þátíðarendingar eru þó ekki alltaf rétt notaðar og flest börn ganga í gegnum stig þar sem þau alhæfa annað hvort endinguna -di eða -ti þótt hinar endingarnar komi einnig fyrir. Endingunum -aði, -di og -ti er bæði skeytt við veikar og sterkar sagnir en börn fylgja yfirleitt ákveðnum reglum þar sem hljóðafar stofns hefur áhrif á hvaða þátíðarendingu hann fær, t.d. hlaupti, brjótti, skjótti en saumdi, skríddi og syngdi. Að lokum læra börn sterka beygingu sagna og aðra óreglu í beygingakerfinu. Börn virðast því læra beygingu orða í móðurmáli sínu með því að tileinka sér sífellt fleiri og þrengri reglur. Þetta ferli tekur langan tíma og rannsóknir sýna að 8 ára íslensk börn eru mörg hver enn að tileinka sér óregluleg atriði í beygingu (sbr. Sigríði Sigurjónsdóttur 1986 og Hrafnhildi Ragnarsdóttur 1998).

4.4.1 Athugun á fleirtölumyndun íslenskra barna við 4 og 6 ára aldur

Á árunum 1980–1983 stóðu þeir Indriði Gíslason, Jón Gunnarsson og Ásgeir S. Björnsson fyrir viðamikilli þversniðsathugun á fleirtölumyndun og framburði íslenskra barna. Safnað var gögnum frá 200 íslenskum börnum við 4 og 6 ára aldur.

Hér er dæmi úr fleirtöluprófinu sem notað var í þversniðsrannsókn Indriða Gíslasonar, Jóns Gunnarssonar og Ásgeirs S. Björnssonar á árunum 1980-1983 (sjá Indriða Gíslason o.fl. 1986). Prófið var samið af Höskuldi Þráinssyni, prófessor við Háskóla Íslands, og nemendum hans í námskeiði um sálfræðileg málvísindi árið 1979. Takið eftir að í bullorðunum var kyn orðsins gefið með töluorði.

Fleirtöluprófið skiptist í tvo hluta. Annars vegar voru prófuð þekkt nafnorð, svokölluð raunorð, og hins vegar tilbúin orð, svokölluð bullorð. Raunorðunum var ætlað að sýna hvernig og hvenær íslensk börn ná tökum á myndun fleirtölu af íslenskum nafnorðum og bullorðin voru höfð með til þess að skýrari mynd fengist af því hvernig og hvenær börnin ná valdi á þeim reglum sem gilda um fleirtölumyndun í einstökum beygingarflokkum. Þar sem bullorð eru ekki raunveruleg orð geta börn ekki kunnað fleirtölumynd þeirra utan að, heldur verða þau að beita þeim reglum sem þau kunna. Niðurstöður athugunarinnar eru þær að við 4 ára aldur hafa flest íslensk börn einhverja tilfinningu fyrir beygingarflokkun nafnorða í íslensku. Á þessum aldri alhæfa þau gjarnan fleirtöluendinguna -ar sem er langalgengasta fleirtöluviðskeytið í íslensku. Í máli fullorðinna Íslendinga taka stærstu beygingarflokkar sterkbeygðra karlkyns- og kvenkynsorða fleirtöluendinguna -ar, t.d. hundur – hundar og skeið – skeiðar, og þetta er eina fleirtöluendingin sem veikbeygð karlkynsorð taka, t.d. fáni – fánar. Fjögurra ára íslenskum börnum gengur því mjög vel að mynda fleirtölu af orðum sem tilheyra þessum beygingarflokkum en auk þess alhæfa þau þessa fleirtöluendingu á orð af öðrum beygingarflokkum, t.d. hvalur – hvalar, geit – geitar. Þeim gengur einnig tiltölulega vel að mynda fleirtölu af veikum kvenkynsorðum sem öll fá endinguna -ur í fleirtölu, t.d. kona – konur, og af þeim sterku hvorugkynsorðum sem líta eins út í eintölu og fleirtölu, t.d. kerti – kerti. Við 6 ára aldur hefur íslenskum börnum farið mjög fram í fleirtölumyndun og þau eru farin að geta beitt flóknari aðferðum, eins og stofnbreytingum við fleirtölumyndun, t.d. glas – glös, bók – bækur, gaffall – gafflar. Síðast læra börn fleirtölumyndun orða sem tilheyra sjaldgæfum beygingarflokkum eða beygjast óreglulega, t.d. eyra – eyru, fótur – fætur, sög – sagir (sjá Indriða Gíslason o.fl. 1986 og Sigríði Sigurjónsdóttur 1986).

4.5 Setningaþróun barna

Börn mynda fyrstu orðin yfirleitt um eins árs aldurinn. Þegar börn hafa lært um 100 orð taka þau að setja tvö orð saman og eru þá komin á hið svokallaða tveggja orða stig í máltöku. Þessum fyrstu setningum barna er oft líkt við símskeytamál því í þeim koma yfirleitt aðeins fyrir nafnorð, sagnorð og lýsingarorð en flestum smáorðum og beygingum sem gegna málfræðilegu hlutverki er sleppt. Sem dæmi um setningar Evu á tveggja orða stiginu má nefna:

mamma labba
Eva bað
hár apa
pabbi skola
pabbi sturtu
finna Evu

Þessar setningar geta haft mismunandi merkingu eftir aðstæðum, t.d. gat setningin Eva bað merkt að ‘Eva væri í baði’ eða að ‘Eva vildi fara í bað’. Næsta stig í setningaþróun barna felst í því að þau taka að mynda lengri setningar og þriggja, fjögurra og fimm orða setningar fara að koma fyrir í máli þeirra. Enn eru það aðallega nafnorð, sagnorð og lýsingarorð sem börnin mynda en flestar beygingar og kerfisorð (t.d. forsetningar, samtengingar, atviksorð og fornöfn) vantar í mál þeirra. Íslensk börn virðast þó mjög snemma beygja veik nafnorð, t.d. komu beygingarmyndirnar pabbi – pabba, mamma – mammu – mömmu, Eva – Evu, api – apa strax fyrir á tveggja orða stiginu í máli Evu. Eftir þetta er þróunin hröð. Kerfisorð, eins og fornöfn og forsetningar, taka að birtast og sagnir koma fyrir í persónuhætti þó börn myndi lengi vel aðalsetningar með sögn í nafnhætti (sjá nafnháttarstigið í máltöku). Smám saman líkjast setningar barna meira setningum fullorðinna og þau tileinka sér þær reglur sem gilda um breytta orðaröð í móðurmáli þeirra.

4.5.1 Nafnháttarstigið í máltöku

Í íslensku máli gildir sú regla að fyrsta sögn setningar í sjálfgefinni orðaröð er ávallt persónubeygð. Í fyrstu setningum barna eru hins vegar allar sagnir yfirleitt í nafnhætti. Smám saman taka persónubeygðar sagnir að birtast og um nokkurra mánaða skeið mynda börn bæði setningar með sögn í nafnhætti og setningar með persónubeygðri sögn. Hér eru gefin nokkur dæmi um nafnháttarsetningar úr langsniðsathuguninni á Birnu og Ara og samsvarandi setningar í máli fullorðinna:

Barn:
Dúkkan lúlla (Birna)
Ég fara til Dódíar (Birna)
Ég gera þetta (Ari)

Fullorðnir:
Dúkkan lúllar
Ég fer til Dódíar
Ég geri þetta

Þetta stig í máltöku barna hefur verið kallað nafnháttarstig og rannsóknir hafa sýnt að börn af ýmsum þjóðernum ganga í gegnum þetta stig í máltöku. Eftir því sem líður á nafnháttarstigið hækkar hlutfall setninga með persónubeygðri sögn jafnt og þétt og hlutfall setninga með sögn í nafnhætti lækkar. Rannsókn Sigríðar Sigurjónsdóttur (1997, 1999) sýnir t.d. að þegar Birna var tveggja ára (24 mánaða) var hlutfall nafnháttarsetninga í máli hennar 47% en þetta hlutfall lækkaði stöðugt og var komið niður í u.þ.b. 9% sex mánuðum síðar. Á aldrinum 2 1/2–3 ára hafa flest börn því áttað sig á að í hverri setningu er ávallt persónubeygð sögn (sjá Sigríði Sigurjónsdóttur 1997 og 1999).

4.5.2 Staða sagna í setningum ungra íslenskra barna

Þegar börn eru á hinu svokallaða nafnháttarstigi í máltöku koma bæði fyrir eðlilegar setningar með persónubeygðri sögn í máli þeirra, t.d. Dúkka lúllar og afbrigðilegar setningar með sögn í nafnhætti, t.d. Dúkka lúlla. Rannsóknir sýna að það gilda ákveðnar reglur um stöðu sagna í nafnhætti og persónubeygðra sagna í máli ungra barna, alveg eins og í máli fullorðinna. Í máli fullorðinna Íslendinga stendur sögn í nafnhætti alltaf á EFTIR neituninni ekki og setningaratviksorðunum oft, alltaf, o.fl., t.d. Jón mun EKKI FARA burt. Persónubeygðar sagnir koma hins vegar á UNDAN neituninni ekki og öðrum setningaratviksorðum, t.d. Jón FER EKKI burt. Börn virðast kunna þessa reglu frá upphafi, því strax á nafnháttarstiginu virða þau þetta lögmál og setja sagnir í nafnhætti alltaf á EFTIR neituninni ekki en persónubeygðar sagnir á UNDAN ekki (sjá Sigríði Sigurjónsdóttur 1997 og 1999). Hér eru gefin nokkur dæmi um þennan regluleika í máli Birnu og Evu:

Sögn í nafnhætti
Kisa EKKI FINNA (Birna)
Hún EKKI BÍTA fuglana (Birna)
Barney EKKI BAKA (Eva)
Eva EKKI MOKA (Eva)

Persónubeygð sögn
Kisa MÁ EKKI finna (Birna)
Ég GET EKKI (Birna)
Skotta KEMUR EKKI (Eva)
Afi VILL EKKI vatn (Eva)
4.5.3 Þróun spurnarsetninga í máli barna

Máltaka barna er regluleg og stigbundin og öll heilbrigð börn feta svipaða slóð í máltöku, hvert sem móðurmál þeirra er. Þróun spurnarsetninga í máli íslenskra barna svipar mjög til þróunar spurnarsetninga í máli erlendra jafnaldra þeirra. Fyrstu spurningar íslenskra barna koma fyrir meðan þau eru enn á nafnháttarstiginu í máltöku en athygli vekur að börn mynda aldrei spurningar með sögn í nafnhætti heldur hafa spurnarsetningar þeirra frá upphafi persónubeygða sögn (sbr. Sigríði Sigurjónsdóttur 1997). Fyrstu spurningar barna hafa yfirleitt sjálfgefna orðaröð og eru bornar fram með rísandi hljómfalli, t.d. voru fyrstu spurningar Evu af þessari gerð, þ.e. hún spurði: Afi er?, Þetta er? þegar hún var að leita að afa sínum og spyrja hvað tuskudýr sem hún fékk að gjöf héti. Á svipuðum tíma komu fyrir nokkrar spurningar með spurnarorðinu hvar og þessar spurningar höfðu einnig sjálfgefna orðaröð, þ.e. Eva sagði: Hvar BANGSI ER? en ekki: Hvar ER BANGSI? Börn eru þó yfirleitt ekki lengi á þessu stigi og íslensk börn læra mjög fljótt að spurningar hafa aðra orðaröð en fullyrðingar í íslensku. Þau taka þá að nota spurnarorðaröð og beita henni yfirleitt alls staðar þar sem hún á við í málinu. Smám saman verða spurningar barna flóknari að gerð og fleiri gerðir spurnarorða bætast við orðaforða þeirra. Íslenskar og erlendar rannsóknir benda til að börn læri spurnarorðin hvar, hvað og hver á undan öðrum spurnarorðum og nokkru síðar tileinki börn sér spurnarorðin hvernig, af hverju og hvenær og þá í þessari röð. Á þessum þróunarferli hættir börnum helst til að ofnota spurnarorðaröðina og beita henni á spurnaraukasetningar sem hefjast á spurnarorði. Þegar Ari var rúmlega 2 1/2 árs sagði hann til dæmis: Ég ætla gá hvort ER NOKKUR BÍLL hér í stað þess að segja: Ég ætla að gá hvort NOKKUR BÍLL ER hér (sbr. Sigríði Sigurjónsdóttur 1991). Rannsóknir á þróun spurninga í máli barna sýna því að börn tileinka sér mjög fljótt þær reglur sem gilda um orðaröð í máli þeirra og villur í orðaröð eru tiltölulega sjaldgæfar.

5. Afbrigðileg máltaka

5.1 Hvenær er rétt að leita aðstoðar talmeinafræðings?

Máltaka langflestra barna er eðlileg. Eðlilegri máltöku má lýsa þannig að börn ganga í gegnum ákveðin stig í máltökunni og á hverju stigi fylgja þau ákveðnum reglum þegar þau bera fram orð, beygja þau og raða þeim í setningar. Reglur barna á ákveðnu stigi málþroskans geta verið aðrar en reglur fullorðinna, t.d. koma ýmis framburðarfrávik fram í máli heilbrigðra barna. Það einkennir slík frávik að þau eru reglubundin, þegar einu hljóði er t.d. skipt út fyrir annað í eðlilegri máltöku þá er um lík hljóð að ræða sem eiga marga aðgreinandi þætti sameiginlega. Þegar máltaka er eðlileg hverfa slík frávik smám saman og málkerfi barnsins líkist sífellt meira málkerfi fullorðinna. Það einkennir hins vegar afbrigðilega máltöku að hún er ávallt að einhverju leyti óregluleg. Framburðarfrávik í máli barna eru þá tilviljanakennd og oft varanleg. Erfitt er að finna nokkra reglu í máli barna sem þjást af taugasjúkdómum eða öðrum kvillum sem hafa áhrif á málþroska. Það má t.d. nefna að taugasjúkdómurinn apraxia lýsir sér m.a. í því að börn skipta hljóðum út fyrir önnur alls óskyld. Íslenskur drengur sem þjáist af þessum sjúkdómi skipti t.d. hljóðinu ‘b’ út fyrir ‘n’ en þessi hljóð eru frekar ólík og eiga tiltölulega fáa aðgreinandi þætti sameiginlega (sjá Karen Rut Gísladóttur 1998).

Það er þó rétt að hafa í huga að sum heilbrigð börn eru lengur en önnur að tileinka sér móðurmál sitt. Í athugun á framburði íslenskra barna við 4 og 6 ára aldur kom t.d. í ljós að nokkur börn sem mjög erfitt var að skilja við 4 ára aldur höfðu náð næstum fullkomnu valdi á íslenskum framburði við 6 ára aldur. Þessi börn voru langt á eftir jafnöldrum sínum þegar þau voru 4 ára en höfðu að mestu náð þeim við 6 ára aldur. Það þarf því ekki að vera ástæða til að örvænta þótt 4 ára barn hafi einhver frávik frá eðlilegum framburði (sbr. Indriða Gíslason o.fl. 1986:52). Ef slík frávik eru veruleg gæti hins vegar verið rétt að fara með barnið til talkennara eða talmeinafræðings sem rannsakar framburð barnsins og ákvarðar hvort um talgalla er að ræða eða hvort framburðarfrávikin eru eðlileg í þeim skilningi að barnið er bara lengur en gengur og gerist að ná valdi á hljóðkerfi móðurmáls síns. Um sex ára aldur hafa flest börn náð allgóðum tökum á framburði móðurmálsins, en ef svo er ekki er full ástæða til að leita til talkennara eða talmeinafræðings sem þá kemur barninu til hjálpar.

Heimildir og stuðningsrit:

Brown, Roger O. 1973. A First Language. Harvard University Press, Cambridge.

Chomsky, Noam. 1957. Syntactic Structures. Mouton, The Hague.

Curtiss, Susan. 1977. Genie: A Linguistic Study of a Modern-Day „Wild Child“. Academic Press, New York.

Curtiss, Susan. 1982. Developmental dissociations of language and cognition. Í L. Obler og L. Menn (ritstj.), Exceptional Language and Linguistic Theory. Guilford, New York.

Curtiss, Susan. 1985. The Development of Human Cerebral Lateralization. Í D. Frank Benson og Eran Zaidel (ritstj.), The Dual Brain. Guilford, New York.

Eimas, Peter D., E. R. Siqueland, P. Jusczyk og J. Vigorito. 1971. Speech Perception in infants. Science 171:303–306.

Eimas, Peter D. 1985. The Perception of Speech in Early Infancy. Scientific American 252:46–52.

Fromkin, Victoria og Rodman, Robert. 1998. An Introduction to Language (6. útg.). Harcourt Brace College Publishers, Fort Worth.

Goodluck, Helen. 1991. Language Acquisition. Blackwell, Oxford.

Hrafnhildur Ragnarsdóttir. 1998. Að læra þátíð sagna. Í Greinar af sama meiði helgaðar Indriða Gíslasyni sjötugum, bls. 255–275. Rannsóknarstofnun Kennaraháskóla Íslands, Reykjavík.

Hubel, D. H. og T. N. Wiesel. 1970. The Period of Susceptibility to the Physiological Effects of Unilateral Eye Closure in Kittens. Journal of Physiology 206:419–434.

The Human Language Series: Program 2. 1994. by Gene Searchinger. Equinox Films/Ways of Knowing, Inc., New York.

Indriði Gíslason, Sigurður Konráðsson og Benedikt Jóhannesson. 1986. Framburður og myndun fleirtölu hjá 200 íslenskum börnum við fjögra og sex ára aldur. Rit Kennaraháskóla Íslands, Reykjavík.

Jakobson, Roman. 1941. Kindersprache, Aphasie und allgemeine Lautgesetze. Uppsala Universitets årsskrift:1–83.

Jörgen Pind. 1997. Sálfræði ritmáls og talmáls. Háskólaútgáfan, Reykjavík.

Karen Rut Gísladóttir. 1998. Athugun á framburði Þorra: Afbrigðileg máltaka. Óprentuð B.A.-ritgerð, Háskóla Íslands, Reykjavík.

Kim, Karl H.S., Norman R. Relkin, Kyoung-Min Lee og Joy Hirsch. 1997. Distinct cortical areas associated with native and second languages. Nature 388:171–174.

Lenneberg, Eric. 1967. Biological Foundations of Language. Wiley, New York.

Margrét Pálsdóttir. 1979. Máltaka barns. Óprentuð lokaritgerð, Kennaraháskóla Íslands, Reykjavík.

McNeill, David. 1966. Developmental Psycholinguistics. Í F. Smith og G. A. Miller (ritstj.), The Genesis of Language. MIT Press, Cambridge.

Newport, Elissa, Henry Gleitman og Lila Gleitman. 1977. Mother, Please I'd rather do it myself. Í C. Snow og C. Ferguson (ritstj.), Talking to Children, bls. 109–151. Cambridge University Press, Cambridge.

Newport, Elissa. 1991. Contrasting Conceptions of the Critical Period for Language. Í Susan Carey og Rochel Gelman (ritstj.), The Epigenesis of Mind, bls. 111–130. Lawrence Erlbaum Associates, New Jersey.

O'Grady William, Michael Dobrovolsky og Mark Aronoff (ritstj.). 1997. Contemporary Linguistics (3. útg.). St. Martin's Press, New York.

Petitto, Laura og Paula Marantette. 1991. Babbling in the Manual Mode: Evidence for the Ontogeny of Language. Science 251:1493–1496.

Pinker, Steven. 1994. The Language Instinct. HarperPerennial, New York.

„Secret of a Wild Child“. 1994. [Myndband] A NOVA Production by WGBH/Boston.

Sigríður Sigurjónsdóttir. 1986. Beyging í máli íslenskra barna. Óprentuð prófritgerð, Háskóla Íslands, Reykjavík.

Sigríður Sigurjónsdóttir. 1991. Spurnarsetningar í máli tveggja íslenskra barna. Málfræðirannsóknir 3, Málvísindastofnun Háskóla Íslands, Reykjavík.

Sigríður Sigurjónsdóttir. 1997. Máltaka og málfræði. Í Anna Agnarsdóttir, Pétur Pétursson og Torfi H. Tulinius (ritstj.), Milli himins og jarðar, bls. 357–367. Háskólaútgáfan, Reykjavík.

Sigríður Sigurjónsdóttir. 1999. Root Infinitives and Null Subjects in Early Icelandic. Í Annabel Greenhill, Heather Littlefield og Cheryl Tano (ritstj.), Proceedings of the 23rd Annual Boston University Conference on Language Development, bls. 630–641. Cascadilla Press, Somerville.

Sigurður Konráðsson. 1983. Máltaka barna: Hljóðfræði og hljóðkerfisfræði. Óprentuð cand.mag.-ritgerð, Háskóla Íslands, Reykjavík.

Þórunn Blöndal. 1994. Mályrkja I. Námsgagnastofnun, Reykjavík.