Greinar

Ari Páll Kristinsson
Íslensk málstefna

1. Líf og dauði tungumála

Eftir því sem næst verður komist eru um sex þúsund tungumál töluð í heiminum undir lok 20. aldar og eru mörg þeirra talin í útrýmingarhættu. Um 45% mannkyns eiga eitthvert af fimm útbreiddustu málunum að móðurmáli (mandarínkínverska, enska, hindí, spænska og rússneska) og 95% jarðarbúa eiga 100 stærstu málin að móðurmáli. Aftur á móti eru það aðeins 5% mannkynsins sem tala langflest tungumál heims enda eru mörg þeirra töluð af afar fáum einstaklingum og eiga sér því ótrygga framtíð.

Mismargir málnotendur! Um 45% mannkyns eiga eitthvert af fimm útbreiddustu málunum að móðurmáli, en þau eru mandarínkínverska, enska, hindí, spænska og rússneska, og 95% jarðarbúa tilheyra 100 stærstu málfélögunum. Aftur á móti eru það aðeins 5% mannkynsins sem tala langflest tungumál heims, enda eru mörg þeirra töluð af afar fáum einstaklingum og eiga sér því ótrygga framtíð.

Á 16. öld er talið að um þúsund ólík tungumál hafi verið töluð í Norður- og Suður-Ameríku en síðan hafa a.m.k. 300 þeirra dáið út. Af hinum 700 eru aðeins 17 mál töluð af fleiri en 100.000 manns og mörg dæmi eru um að eftirlifandi málnotendur séu aðeins fáeinir tugir eða hundruð manna. Ef að líkum lætur eiga slík mál litla lífsvon. Svipaða sögu er að segja af tungumálum í Ástralíu. Þar voru töluð að minnsta kosti 200 mál áður en Evrópumenn komu þangað en nú eru 50 þeirra alveg gleymd og 100 í viðbót nánast útdauð. Mörg tungumál tiltölulega fámennra málsamfélaga í Evrópu eiga erfitt uppdráttar vegna nábýlis við mál sem fleiri tala. Sem dæmi má nefna skoska gelísku sem rúmlega 80 þúsund manns tala og samísku sem töluð er af 30–35 þúsund manns í Noregi, Svíþjóð, Finnlandi og Rússlandi.

Algengast er að líf tungumáls fjari út af því að málsamfélagið tekur smám saman upp aðra tungu. Oft er það vegna óbeins þrýstings frá stærri málfélögum en einnig eru mörg dæmi um að stjórnvöld hafi beinlínis unnið að því að útrýma máli eða málum í landi sínu. Þegar mál deyr verður hópurinn eða þjóðin, sem talar það, yfirleitt fyrst tvítyngd um skeið uns þar kemur að annað málið nær undirtökunum og verður loks einrátt. Þetta ferli er t.d. langt komið á Írlandi. Um aldamótin 1700 töluðu nær allir Írar írsku en á ofanverðri 20. öld er enska orðin ríkjandi í landinu og flestir Írar hafa alls ekki alist upp við að tala írsku. Þetta er afleiðing af yfirráðum Breta í landinu en um langt skeið var landsmönnum bannað að tala írsku opinberlega hvað þá að börnum væri kennt á því máli. Síðar hefur verið reynt að taka í taumana og stuðla að því að Írar lærðu og notuðu írsku en óvíst er að það muni bera tilætlaðan árangur.

2. Hvað er málstefna?

Í hverju málsamfélagi í heiminum ríkir einhvers konar MÁLSTEFNA, skráð eða óskráð. Þegar málnotendur á tilteknu landsvæði koma sér saman um að nota eitt tungumál en ekki annað er það í sjálfu sér liður í málstefnu. Oftast er hugtakið málstefna þó notað um þá hefð eða fyrirmæli sem gilda um málnotkun í skólum og öðrum opinberum stofnunum. Í ýmsum ríkjum hefur reynst mjög erfitt að skapa samstöðu um málstefnu og hún getur tengst sviptingum í stjórnmálum og togstreitu fólks af ólíku þjóðerni eða með ólíkan menningarlegan bakgrunn. Sums staðar eru talaðar fjölmargar og ólíkar mállýskur og ýmis dæmi eru um ríki þar sem talaðir eru tugir og jafnvel hundruð ólíkra tungumála. Yfirleitt njóta þá einungis sum þeirra viðurkenningar sem opinber tungumál í ríkinu. Í Finnlandi eru til dæmis bæði finnska og sænska opinber tungumál. Sænskan er arfur frá þeim tíma þegar Finnar lutu stjórn Svía og um aldir var hún eina opinbera tungumálið í landinu. Árið 1863 var finnska, sem er móðurmál langflestra Finna, þó einnig viðurkennd sem opinbert mál en samíska, sem líka er töluð í landinu, hefur ekki öðlast sömu stöðu og hin málin enda eru Samar minnihlutahópur sem engin áhrif hefur haft á stjórnkerfi landsins.

Opinber málstefna miðar yfirleitt að því að styðja og styrkja það mál sem talað er í ríkinu og stuðla þannig að viðgangi þess. Í ríkjum, þar sem fleiri en eitt mál er talað, getur hún leitt til þess að eitt eða fá mál njóti stuðnings á kostnað annarra og stundum er beinlínis unnið gegn þeim þannig að þau lúta smám saman í lægra haldi fyrir máli meirihlutans.

3. Íslensk málstefna

3.1 Meginþættir íslenskrar málstefnu

Á Íslandi er samband þjóðar, ríkis og tungu einkar einfalt. Langflestir íslenskir ríkisborgarar eiga íslensku að móðurmáli og mállýskumunur er hverfandi. Þjóðin getur því verið nokkurn veginn samtaka og Íslendingar virðast yfirleitt vera áhugasamir um að vernda og styrkja íslenskt mál. Mótun málstefnu er því að mörgu leyti einfaldara viðfangsefni á Íslandi en víða annars staðar.

Íslensk málstefna byggist á tveimur höfuðþáttum, varðveislu tungunnar og eflingu hennar. Með varðveislu íslenskunnar er átt við alla viðleitni í þá átt að sporna við veigamiklum breytingum á málkerfinu og orðaforða málsins, eftir því sem hægt er, m.a. með því að forðast mikil erlend áhrif. Megintilgangur varðveislunnar er að viðhalda tengslum við ritað mál fyrri alda á Íslandi svo að Íslendingar geti haldið áfram að lesa það sem skrifað hefur verið á íslensku allt frá því á 12. öld sér til fróðleiks og skemmtunar. Þessi þáttur málstefnunnar er stundum kenndur við málvernd og málhreinsun.

Hið sögulega samhengi í rituðum texta stafar einkum af því að orðaforði, beygingar og setningagerð hefur breyst tiltölulega lítið frá fornu máli.

Framburðurinn, hljómur orðanna, hefur hins vegar breyst töluvert frá upphafi byggðar á Íslandi en það skiptir minna máli fyrir samfelluna í málinu sem hingað til hefur einkum varðveist á bókum. Það hefur þó breyst með tilkomu hljóðritunartækni á 20. öld.

Með eflingu íslenskunnar er átt við allt sem miðar að því að íslenskt mál þjóni málnotendum sem best á hverjum tíma. Þessi þáttur málstefnunnar er oft nefndur málrækt. Hún felst m.a. í því að styrkja hvers kyns menningarstarfsemi á íslensku, að treysta kunnáttu Íslendinga í meðferð íslensks máls og að styrkja trú þeirra á gildi móðurmálsins. Til málræktar telst líka nýyrðasmíð sem verið hefur eitt helsta einkenni og styrkasta stoð íslenskrar málstefnu. Mikil áhersla hefur verið lögð á að mynda ný orð um ýmiss konar nýjungar, nýyrði sem brjóta ekki í bága við hefðir málsins í framburði, beygingum og orðmyndun, frekar en að taka orð af erlendum stofni inn í málið. Þegar það er gert þykir líka mikilvægt að laga tökuorðin að íslenskum framburði, stafsetningu og beygingum, svo sem við á um orðin ‘banani’, ‘bíll’ og ‘skáti’.

Árið 1985 skipaði menntamálaráðuneytið nefnd til að gera tillögur um málvöndun og framburðarkennslu í grunnskólum og skilaði hún álitsgerð þar sem höfuðdráttum íslenskrar málstefnu er lýst (Guðmundur B. Kristmundsson o.fl. 1986). Þar er auk þess fjallað um ýmsa þætti er snerta málvöndun og málrækt og reynt að skýra mismunandi hliðar málsins. Þarna er t.d. lögð áhersla á það að í allri umræðu um málvöndun sé nauðsynlegt að taka mið af því að mál og málnotkun er að nokkru leyti breytileg og mat á því hvað sé gott og vont, vandað og óvandað verði að taka mið af aðstæðum og stíl og því hvort talað er eða ritað. Þarna kvað við nokkuð nýjan tón og í þessari álitsgerð var í fyrsta sinn notað hugtakið málsnið í sambandi við mótun íslenskrar málstefnu.

3.2 Rætur íslenskrar málstefnu

Íslensk málstefna á sér gamlar rætur. Elstu beinu heimildirnar um málræktaráhuga í nútímaskilningi eru frá því um siðaskipti þegar mikill vöxtur hljóp í þýðingastarfsemi í landinu. Þýðingarnar báru oft mikil merki erlenda frumtextans og sumum þótti málfarið til lítillar fyrirmyndar, þar á meðal Guðbrandi Þorlákssyni (1541–1627), biskupi á Hólum. Hann gerðist umsvifamikill bókaútgefandi og stóð fyrir útgáfu ýmissa kirkjulegra rita, m.a. í þeim tilgangi að bæta málfarið á þeim, og er útgáfa hans á biblíunni, Guðbrandsbiblía (1584), þekktasta verk hans. Arngrímur Jónsson lærði (1568–1648) er oft talinn fyrsti málhreinsunarmaðurinn. Í landkynningarriti, sem hann skrifaði á latínu (Crymogæa 1609) og var stefnt gegn neikvæðum skrifum um Ísland erlendis, má sjá skoðanir sem síðar áttu eftir að verða áberandi í umræðum um íslenskt mál, þar á meðal hugmyndir um hreinleika tungunnar. Hann beinir því til samtímamanna sinna að apa ekki eftir útlendingum, heldur leita sér „fyrirmynda í auðlegð og snilld móðurmáls síns“ (sjá Kjartan G. Ottósson 1990:20).

Á 18. öld var laga- og stjórnsýslumál gríðarlega dönskuskotið og sumir íslenskir embættismenn skrifuðu íslenskum kunningjum sínum á dönsku. Þá var Eggert Ólafsson (1726–68) einn ötulasti talsmaður málhreinsunar og sótti sér fyrirmyndir í fornmálið. Grunnurinn að þeirri nýyrðastefnu, sem síðan hefur verið svo áberandi þáttur íslenskrar málstefnu, var líka lagður á 18. öld, í ritum Hins íslenska lærdómslistafélags sem var stofnað í Kaupmannahöfn 1779. Þar var fjallað um hagnýt efni sem tengjast atvinnuvegum landsins og birt ýmislegt af vísindatagi. Um þau efni hafði lítið verið fjallað á íslensku áður og því skorti orð um ýmis fyrirbæri og hugtök sem þar komu fram. Lærdómslistafélagið brást við með skipulegri nýyrðasmíð og um hana er talað sérstaklega í stofnskrá þess. Þar er í fyrsta skipti fjallað opinberlega um nýyrðasmíð og afrakstur skipulegs starfs af því tagi kemur fyrst fyrir almenningssjónir í ritum félagsins (sbr. Kjartan G. Ottósson 1990:41–47).

Daninn Rasmus Kristian Rask (1787–1842) hafði mikil áhrif á viðhorf manna til íslenskrar tungu. Hann var fyrstur til að skrifa nothæfa mállýsingu um íslensku og þar gerir hann ekki greinarmun á fornmáli og því máli sem talað var á hans tíma. Rask var mikið í mun að tengsl við fortíðina héldust og gekkst því fyrir stofnun Hins íslenzka bókmenntafélags sem skyldi hafa það hlutverk að „viðhalda hinni íslensku tungu og bókaskrift og þar með menntun og heiðri þjóðarinnar“. Fræg eru ummæli Rasks árið 1813 þar sem hann spáir dauða íslenskunnar á næstu tveimur öldum. Spádómurinn hefur sem kunnugt er ekki gengið eftir en reyndist holl áminning enda hefur ýmislegt verið gert til að grípa í taumana.

Fjölnismenn voru atkvæðamiklir í málhreinsun um miðbik 19. aldar. Hún var boðuð í stofnskrá Fjölnis en einnig ástunduð í verki því þess var gætt að allt, sem í ritinu birtist, væri á vönduðu máli. Einstakir Fjölnismenn höfðu líka áhrif á málsmekk Íslendinga, ekki síst Jónas Hallgrímsson, bæði með kveðskap sínum og með skrifum og þýðingum á sviði náttúruvísinda. Til þeirra skrifa má rekja fjölmörg nýyrði sem enn eru notuð, svo sem ‘aðdráttarafl’, ‘hitabelti’, ‘sporbaugur’ og ‘ljósvaki’. Konráð Gíslason hafði líka margháttuð áhrif á þróun málsins og viðhorf manna til þess, m.a. samdi hann danska orðabók með íslenskum skýringum sem gefin var út 1851 og er hún elsta bók sinnar tegundar.

Ekki hefur fólk alltaf verið sammála um íslenska málstefnu. Frá 18. öld eru til skýr dæmi um gagnstæðar skoðanir. Í lögfræðihandbók, sem Sveinn Sölvason samdi, tók hann oft erlend orð fram yfir íslensk. Hann gerði grein fyrir þeirri ákvörðun í formála fyrir bókinni og þar lýsir hann jafnframt andstöðu við málfyrningu sem ýmsir samtímamenn hans ástunduðu samfara málhreinsun. Bjarni Jónsson, skólameistari í Skálholti, gekk enn lengra. Árið 1771 sendi hann frá sér tillögur um aðgerðir til viðreisnar landinu þar sem hann lagði meðal annars til að Íslendingar tækju upp dönsku. Rökin voru annars vegar þau að hann taldi virðingu gagnvart Íslendingum erlendis hafa rénað þegar mál þeirra varð öðrum óskiljanlegt en meðan sama tunga hefði verið töluð um öll Norðurlönd hafi þeir verið mikils metnir; hins vegar taldi hann málið standa viðskiptum þeirra við útlendinga fyrir þrifum. Hann áleit því ekki einungis gagnslaust heldur beinlínis skaðlegt að halda í íslenskuna (Kjartan G. Ottósson 1990:32–35).

Á 19. öld og framan af þeirri 20. var málhreinsun, málvernd og málrækt samofin sjálfstæðisbaráttu Íslendinga og liður í því að efla þjóðernisvitund þeirra. Mikil áhersla var lögð á að varðveita hreinleika tungunnar, hreinsa hana af óæskilegum erlendum áhrifum sem skotið höfðu rótum og sporna við nýjum. Fyrirmynda var leitað í fornu máli og í máli sveitafólks, t.d. eins og það birtist í sumum þjóðsögum og þjóðkvæðum, og talsverðrar tilhneigingar gætti til að fyrna málið, m.a. með því að endurvekja gömul orð og gamlar orðmyndir.

3.3 Framkvæmd málstefnu á Íslandi

Hin opinbera málstefna birtist einkum í aðgerðum stjórnvalda og fyrirmælum sem varða íslenskt mál og meðferð þess á opinberum vettvangi, einkum í skólum og öðrum opinberum stofnunum. Þar má nefna lög og reglugerðir sem varða tungumálið, námskrár fyrir öll skólastig og ýmiss konar skráðar og óskráðar reglur innan opinberra stofnana og fyrirtækja. Þannig hefur Ríkisútvarpið t.d. mótað eigin stefnu um málfar í útvarpi og sjónvarpi með nánari útfærslu á hinni almennu málstefnu og það hefur einnig ráðið til sín málfarsráðunaut til að veita starfsfólki ráðgjöf og leiðbeiningar. Enn fremur hafa stjórnvöld komið á laggirnar opinberri málræktar- og málverndarstofnun, Íslenskri málnefnd. Hún hefur það hlutverk að vera stjórnvöldum til ráðuneytis um íslenskt mál og veita umsagnir um málfarsleg efni, að vinna að nýyrðasmíð og söfnun nýyrða, m.a. með skipulögðu íðorðastarfi, og að veita almenningi og opinberum stofnunum ráðgjöf og fræðslu um íslenskt mál. Loks kemur málstefna stjórnvalda víða fram í opinberum skýrslum og ýmsum aðgerðum stjórnvalda er ætlað að stuðla að því að íslenskt mál fái dafnað á ákveðnum sviðum mannlífsins.

Málstefnan er mótuð af stjórnvöldum en njóti hún ekki fylgis í málsamfélaginu er lítil von til þess að hún beri góðan árangur. Markmiðum hennar verður því aðeins náð að almenningur, kennarar og fjölmiðlar taki höndum saman og fylgi henni eftir. Þorri Íslendinga virðist sammála um helstu þætti íslenskrar málstefnu og jafnvel þótt menn kunni að greina á um leiðir að markinu má heita samstaða um grundvallaratriðin. Nefna má að mörg íslensk fyrirtæki leggja á sig kostnað og fyrirhöfn til að vanda málfar og smíða ný orð úr innlendum efniviði. Það bendir til þess að markaðsfræðingar þeirra álíti að almenningur á Íslandi telji málrækt af hinu góða og því sé málvöndun hluti af því að skapa fyrirtækjum góða ímynd meðal íslenskra neytenda.

Bein afskipti stjórnvalda af því sem snertir tungumálið birtast ekki síst í reglum um stafsetningu. Grunnurinn að þeim stafsetningarreglum, sem eru við lýði, var lagður í upphafi 20. aldar þótt reglunum hafi síðast verið breytt 1974. Opinberar reglur um réttritun hafa alltaf skapað talsverðar umræður og jafnvel deilur þegar þær hafa verið settar en eigi að síður er þeim almennt fylgt, a.m.k. í meginatriðum. Um miðbik 20. aldar komu fram tillögur um samræmdan framburð sem notaður yrði í skólum, útvarpi, leikhúsum og annars staðar á opinberum vettvangi. Tillögurnar byggðust á því að velja tiltekin framburðarafbrigði sem tíðkast á afmörkuðum landsvæðum og kenna þeim sem ekki höfðu alist upp við þann framburð að nota hann. Þau framburðarafbrigði, sem mælt var með í samræmingartillögunum, voru harðmæli, hv-framburður og réttmæli sérhljóða. Þessar tillögur voru nokkuð umdeildar og hlutu ekki brautargengi en höfðu eigi að síður talsverð áhrif í skólum landsins á sínum tíma og margir lýstu sig fylgjandi því að ýta undir þann framburð sem mælt var með án þess þó að vilja samræma framburðinn algerlega og koma þannig á opinberum ríkisframburði.

Eitt þeirra atriða, sem mælt var með í samræmingartillögunum, voru menn þó almennt sammála um, réttmæli sérhljóða. Á fyrri hluta 20. aldar fór að bera á sérstökum framburði ákveðinna sérhljóða á nokkrum landsvæðum, hinu svonefnda flámæli. Það gat m.a. leitt til þess að sérhljóðin ‘i’ og ‘e’, ‘u’ og ‘ö’ féllu saman þannig að orð eins og ‘vitur’ og ‘vetur’, ‘flugur’ og ‘flögur’ voru borin eins fram eða því sem næst. Þessi framburður var almennt talinn slæmur og gerð var gangskör að því að útrýma honum með því að kenna flámæltum skólabörnum réttmæli í sérstökum tímum. Einnig má gera ráð fyrir að óbeinn þrýstingur hafi skapast af því að almennt var litið mjög niður á þá sem voru flámæltir. Þetta varð til þess að flámæli var útrýmt á fáeinum áratugum. Það er eitt af fáum dæmum um að málbreytingu hafi verið snúið við með markvissum aðgerðum en hafa verður í huga að þess eru dæmi að málbreyting gangi til baka án sýnilegrar ástæðu.

Heimildir

Guðmundur B. Kristmundsson, Baldur Jónsson, Höskuldur Þráinsson, Indriði Gíslason. 1986. Álitsgerð um málvöndun og framburðarkennslu í grunnskólum. Rit Kennaraháskóla Íslands. B-flokkur: Fræðirit og greinar 1. Önnur prentun 1988. Reykjavík.

Indriði Gíslason, Baldur Jónsson, Guðmundur B. Kristmundsson, Höskuldur Þráinsson. 1988. Mál og samfélag. Um málnotkun og málstefnu. Iðunn, Reykjavík.

Kjartan G. Ottósson. 1990. Íslensk málhreinsun. Sögulegt yfirlit. Rit Íslenskrar málnefndar 6. Íslensk málnefnd, Reykjavík.

The New Encyclopædia Britannica, 22:566–814. 1989. 15. útg. Encyclopædia Britannica, Inc., Chicago.

Trudgill, Peter. 1991. Language maintenance and language shift: preservation versus extinction. International Journal of Applied Linguistics 1,1:61–69.

Vikør, Lars S. 1993. The Nordic Languages. Their Status and Interrelations. Ritröð Norrænnar málstöðvar 14. Novus forlag, Ósló.