Greinar

Guðvarður Már Gunnlaugsson
Handrit og skrift

1. Handrit

Menn hafa lengi haft þörf fyrir að tjá hugsun sína í rituðu máli og senda skilaboð á því formi. Einu sinni hjuggu menn til dæmis í stein, ristu í tré, og skrifuðu á leirtöflur, en með tímanum þróuðust verkfærin og aðferðirnar. Farið var að skrifa á papýrus, vaxspjöld og skinn. Auðvelt var að þurrka út það sem skrifað var á vaxspjöld svo að þau voru mikið notuð á miðöldum til minnis, við útreikninga o.fl. Nokkur spjöld eru varðveitt en ekki ýkja mörg. Spjöldin voru gjarnan bundin saman í blokkir og voru þá stundum kölluð codex, en codex merkir í raun og veru ‘klofið tré’. Það orð var síðar haft um bækur þar sem búið var að festa saman tvö eða fleiri kver.

Vaxspjöld frá Viðey. 1987 fundust vaxspjöld við fornleifauppgröft í Viðey á Kollafirði. Spjöldin voru máð og erfitt að lesa þau og sumt varð ekki lesið, t.d. íslenskur texti frá 16. öld. Á öðrum spjöldum voru Maríuvers á hollensku og einnig eitthvað ógreinilegt á latínu, hvorttveggja frá 15. öld. Á þessu spjaldi er Maríuvers á hollensku. Úr Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1990, Reykjavík 1991, bls. 113; ljósmynd: Guðmundur Ingólfsson.

Elstu skinn til bókagerðar sem varðveist hafa eru frá 2. eða 3. öld f.Kr. Skinn er kallað pergament á mörgum erlendum málum eftir borginni Pergamon í Litlu-Asíu, en þjóðsagan segir að þar hafi menn fyrst náð að verka skinn svo að hægt væri að skrifa á það. Skinn er betra en papýrus: Það er hægt að skrifa báðum megin á skinnið, það má brjóta það saman (ekki bara rúlla því upp) og það endist mun lengur. Ekki má heldur gleyma því að húsdýr voru til alls staðar en papýrusinn óx bara í Nílardal. Talið er að skinnbækur hafi endanlega sigrað í samkeppninni við papýrusrollurnar á 4. öld. Papýrus í rúllum var mikið notaður en entist illa; sjaldan lengur en eina öld. Hann var samt notaður allt fram um 1000 í Páfagarði, og nokkrar papýrusrollur eru varðveittar.

Íslensk handrit voru yfirleitt skrifuð á kálfskinn, kallað bókfell, en annars staðar í Evrópu var líka skrifað á sauðskinn og jafnvel asnaskinn og geitaskinn, sérstaklega í Suður-Evrópu. Húðir af ungviði voru frekar notaðar en af fullorðnum dýrum. Ljóslitir kálfar voru frekar notaðir en svartir. Í Flateyjarbók hafa farið 111 kálfar, þar af nokkrir dökkir.

1.1 Verkun skinns

Við verkun skinns sem skrifa skyldi á þurfti að huga að mörgu. Fyrst þurfti auðvitað að slátra kálfi, flá hann og síðan verka húðina. Húðin var lögð í kalkbað til að fita og hár losnuðu af og svo var hún skafin. Við það varð hún hvítari, en hún var ekki sútuð. Síðan var húðin strengd á grind og þerruð þannig í vindi.

Verkun skinns. Skinn var strengt á grind og þerrað áður en það var elt og skafið enn frekar. Ljósmynd: Jóhanna Ólafsdóttir, Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi.

Svo var skinnið elt með brák úr hrútshorni sem hékk í bandi. Skinnið var dregið fram og aftur í gegnum hana í vöndli og varð þá hvítt og mjúkt. Síðan var skinnið skafið til að slétta það enn betur og vikursteinn gjarnan notaður til að fægja það og mýkja. Norður-evrópsk skinn eru grófari en suður-evrópsk, kannski vegna þess að kálfskinn eru grófari en sauðskinn eða vegna þess að verkunaraðferðirnar hafa ekki verið eins góðar.

1.2 Gerð bóka

Við gerð bókar þurfti að ákveða hversu stór hún átti að vera. Í stærstu bókum var skorið eitt tvinn úr hverju skinni. Fjögur tvinn voru lögð saman í kver (sem er kallað örk í prentuðum bókum). Oftast voru blöðin lögð þannig saman inn í kver að holdrosi var á móti holdrosa og hárhamur á móti hárham.

Dálkar voru svo markaðir; í vönduðum bókum eru þeir allir eins út í gegnum handritið. Stórar bækur eru tvídálka, en minni bækur oftast eindálka. Línur voru markaðar með því að stinga göt á jaðrana (a.m.k. á Íslandi). Notaður var stíll úr beini, reglustika lögð á skinnið og eitt kver gatað í einu. Síðan var dregin lína á milli gatanna á hverri blaðsíðu. Sérstakar reglur voru um spássíur við kjöl, að ofan og neðan. Svipaðar reglur eru enn gildi við bókagerð. Þegar kverið var tilbúið hóf skrifarinn skriftir. Stundum var galli í skinninu eða gat á því og var þá skrifað umhverfis gallann eða gatið.

  • GKS 1005 fol, Flateyjarbók, frá um 1387 er í einna stærsta broti íslenskra skinnbóka. Stórar bækur eru oftast tvídálka. Ljósmynd: Jóhanna Ólafsdóttir, Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi.

  • GKS 2365 4to, Konungsbók Eddukvæða, frá um 1270 lætur ekki mikið yfir sér. Sjaldgæft er að minni bækur séu tvídálka. Ljósmynd: Jóhanna Ólafsdóttir, Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi.

  • Línustrikun. Í GKS 1147 fol, Konungsbók Grágásar, frá um 1250 hefur verið strikað með stíl fyrir línum og dálkum en hins vegar hafa ekki verið stungin göt fyrst til að marka fyrir línunum. Ljósmynd: Jóhanna Ólafs

  • Nýtinn skrifari. Margir skrifarar voru nýtnir og notuðu götótt blöð og skrifuðu þá umhverfis götin. Skrifari AM 604 4to, Staðarhólsbók rímna, frá um 1550 notaði jafnvel skinnafganga sem ekki voru í fullri blaðstærð. Ljósmynd: Jóhanna Ó

1.3 Blek

Blek var oftast gert úr jurtum, en reyndar var það búið til á margvíslegan hátt. Ekki er mikið vitað um það hvernig blek var búið til hérlendis, en sennilega hefur það yfirleitt verið úr sortulyngi. Annars staðar í Evrópu var blekið búið til úr öðrum jurtum svo að íslenskt blek er sérstakt. Venjulega var blekið svart og þess vegna notum við gamla engilsaxneska orðið blæc (sbr. blakkur) sem merkir í raun ‘sverta’. Blekið var oftast geymt í kýrhornum sem stungið var í gat á skrifpúltinu eða í smákrukkum. Blekið gat verið svo ríkt af ýmsum efnum að stálpennar skemmdust og því var farið að gera blek úr öðrum efnasamböndum á 19. öld.

1.4 Pennar

Fjaðrapenni var notaður við skriftir en latneska orðið penna þýðir ‘fjöður’ og ‘vængur’. Forn-Egyptar notuðu skriffæri úr reyrstöngli en snemma á miðöldum leysti fjaðrapenninn hann af hólmi. E.t.v. var þetta um svipað leyti og notkun skinns varð almenn í stað papýrussins, en það þótti betra að nota fjaðrapenna á skinnið. Penninn var þannig gerður að fanirnar voru skornar af, efri hlutinn af fjöðrinni tekinn af og stafurinn hertur í fínum sandi sem hafði verið hitaður. Síðan var stafurinn tálgaður til með pennahníf.

Pennagerð. Fjaðrapennar voru skornir og sniðnir eftir kúnstarinnar reglum, enda er það vandasamt verk að búa til gott skriffæri úr fjöður. Úr A Brief History of Parchment and Illumination, Gavaudun 1998, bls. 9.

Pennahnífarnir voru brýndir á sérstakan hátt og mjög verðmætir enda þurfti oft að ydda penna við skriftir. Fjaðrapenninn var notaður fram eftir öldum en stálpenninn kom til sögunnar í byrjun 19. aldar og sjálfblekungurinn á síðari hluta 19. aldar. Blýanta var farið að nota á síðmiðöldum.

1.5 Lýsing

Skrifarar skrifuðu fyrst textann og skildu eftir bil fyrir fyrirsagnir og upphafsstafi. Seinna var svo skrifað með rauðu bleki í auðu bilin, þ.e. bækurnar voru lýstar, en orðið lýsing vísar til þess að latneska orðið illuminare, sem var notað um þetta verk, merkir ‘að lýsa’. En það voru ekki bara fyrirsagnir sem voru lýstar, heldur einnig upphafsstafir og í vönduðum bókum eru oft alls kyns myndir á spássíum.

Fagurlega lýst handrit. Íslensk lögbókarhandrit á 14. öld eru sum hver fagurlega lýst, svo sem AM 350 fol, Skarðsbók Jónsbókar, frá um 1363. Ljósmynd: Jóhanna Ólafsdóttir, Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi.

Skreytingar og upphafsstafir voru oft í mörgum litum. Það var ekki alltaf sami maður sem lýsti og skrifaði en þá þurftu lýsandi og skrifari að hafa samráð. Stundum varð lítið úr samráði og þá þurfti lýsandi stundum að skafa burt stafi til að koma sínum stöfum fyrir eða mála inn yfir skrifflötinn.

Ágengur lýsandi. Sumum lýsendum tókst ekki að halda sig innan þess ramma sem þeim var ætlaður. Þessi lýsandi AM 350 fol, Skarðsbókar Jónsbókar, frá um 1363 hefur óvart dregið strik út á textaflötinn. Ljósmynd: Jóhanna Ólafsdóttir, Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi.

Flestar bækur voru lýstar en stundum gleymdist það.

Eyður í lýsingu. GKS 1005 fol, Flateyjarbók, frá um 1387 er fagurlega lýst handrit en ekki tókst þó að ljúka við að lýsa alla bókina þótt skrifarinn hafi skilið eftir eyður fyrir kaflafyrirsagnir og upphafsstafi. Ljósmynd: Jóhanna Ólafsdóttir, Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi.

Trúarleg rit og lögbækur voru oft ríkulega myndskreyttar en önnur veraldleg rit minna; undantekningar eru ekki margar, en nefna má þó Flateyjarbók.

Lýsing handrita var sérstök listgrein á miðöldum úti í Evrópu.

Lýsing sem listgrein. Erlendis var lýsing handrita sérstök listgrein eins og þessi mynd af síðu úr ensku handriti frá upphafi 15. aldar ber með sér. Úr The Illuminated Books of the Middle Ages, London 1989.

Á Íslandi varð hún býsna útbreidd og íslensk lýsing stóð norrænni ekki að baki. Er á leið fylgdi hún ekki erlendum tískusveiflum heldur héldu Íslendingar á síðmiðöldum fast í forna hefð. Erlendis var algengt að leggja gull og silfur í lýsingar eða jafnvel skrifa með því. Lítið hefur verið um það hér og það hefur enst illa, en leifar gulls í lýsingum sjást þó í einstaka bók.

1.6 Band

Þegar búið var að skrifa og lýsa bók var hún bundin inn. Venjulega voru bækur bundnar inn í tréspjöld.

Tréspjöld. AM 132 fol, Möðruvallabók, frá um 1330-1370 er bundin inn í tréspjöld. Ljósmynd: Jóhanna Ólafsdóttir, Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi.

Kverin voru saumuð á leðurreimar, þrjár til fimm á kili hverrar bókar, hver reim um það bil 1 sm á breidd. Reimarnar voru svo dregnar gegnum göt á spjöldunum og festar með fleygum. Stundum voru spjöldin klædd með skinni, líka yfir kjölinn og ef mikið lá við voru settar látúnsdoppur á horn og spennsli til að loka með bókinni. Ekkert slíkt band er varðveitt heilt hérlendis. Sumar bækur voru ekki bundnar inn í tréspjöld heldur saumaðar í umslög eða kápur úr skinni. Gráskinna og íslenska hómilíubókin í Stokkhólmi eru í umslögum úr selskinni.

Selskinnsumslag. GKS 2870 4to, Gráskinna, frá um 1300 er bundin inn í umslag úr selskinni. Ljósmynd: Jóhanna Ólafsdóttir, Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi.

1.7 Uppskafningur

Þegar bækur voru ekki lengur notaðar eða lesnar voru þær stundum skafnar upp, þ.e. upphaflega skriftin var skafin eða þvegin af skinninu. Þetta er kallað uppskafningar (palimpsest á latínu). Oftast var svo skinnið notað aftur og nýtt efni skrifað á það. Mikið var um slíka iðju á 7. og 8. öld í Evrópu. Grettisfærsla í AM 556 a 4to var skafin upp vegna þess að hún hefur að öllum líkindum þótt of dónaleg en það var ekki skrifað ofan í hana.

Uppskafningur. Grettisfærsla hefur verið skafin burt úr handritinu AM 556 a 4to frá um 1475-1500, sennilega vegna þess að hún hefur þótt of dónaleg. Ljósmynd: Jóhanna Ólafsdóttir, Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi.

Einnig kom það fyrir að menn sem vildu falsa bréf skófu upp gömul bréf til að halda ellilegu útliti skinnsins og innsiglum. Uppskafningar hafa verið notaðir býsna mikið á Íslandi; sennilega eru um 30 handrit eða handritshlutar enn varðveittir. Flestir þeirra eru frá 16. og 17. öld, þ.e. þá var skafið og skrifað upp á nýtt þótt handritin sjálf séu oftast frá miðöldum. Eftir siðaskipti voru mörg trúarleg rit tekin og skafin upp eða notuð í annað, t.d. í band á nýjum bókum. Jónsbók sem kom út á Hólum 1578 var bæði prentuð á pappír og skinn; a.m.k. eru varðveitt tvö eintök prentuð á uppskafninga.

1.8 Pappír

Pappír var fundinn upp í Kína árið 105 og barst til Arabalanda á 8. öld. Á 12. öld er farið að framleiða pappír á Spáni og síðan breiddist tæknin út en lengi vel þótti pappírinn lélegri en skinnið. Margar bækur síðmiðalda annars staðar í Evrópu eru þó skrifaðar á pappír. Á Íslandi var pappír fyrst notaður á 15. öld. Talað er um hann í bréfi frá 1423 en elsta varðveitta bréfið er frá 1437. Elsta varðveitta pappírsbókin er bréfabók Gissurar Einarssonar Skálholtsbiskups (1540–48).

Elsta pappírsbókin. Elsta varðveitta pappírsbók íslensk er AM 232 8vo, Bréfabók Gissurar Einarssonar biskups, frá um 1540-1548.

Skinn var þó notað fram á síðari hluta 17. aldar. Pappírsbækur voru kallaðar codex chartaceus á latínu.

1.9 Íslensk handrit

Íslensk handrit og brot úr handritum frá miðöldum, þ.e. frá 12. öld og fram um 1540, eru um 1000, en handrit frá síðari öldum skipta þúsundum. Flest eru þau varðveitt í Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni í Reykjavík, en einnig eru mörg handrit í Árnasafni í Reykjavík (Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi) og Kaupmannahöfn (Det Arnamagnæanske Institut) og Konungsbókhlöðu í Kaupmannahöfn (Det kongelige bibliotek). Íslensk handrit er að finna víðar í bókasöfnum í Vestur- og Norður-Evrópu og Norður-Ameríku, t.d. Konungsbókhlöðunni í Stokkhólmi (Kungliga biblioteket) og Breska bókasafninu í Lundúnum (British Library), en þau er einnig að finna í Edinborg, Uppsölum, Osló, Oxford og Boston. Miðaldahandritin eru flest í Árnasafni.

Á 16. og 17. öld varð fornmenntastefnan (húmanisminn) til þess að áhugi manna beindist að sögu og uppruna þjóða og ríkja. Danskir og sænskir fræðimenn komust þá að því að íslensk handrit varðveittu upplýsingar um sögu skandinavískra þjóða sem þeim var annars ókunnugt um. Í framhaldi af því hófst söfnun íslenskra handrita um og upp úr miðri 17. öld og kepptust Danir og Svíar við að ná í íslensk handrit. Stórtækastur allra var samt Árni Magnússon prófessor í Kaupmannahöfn (1663–1730); safnaði hann yfir 2000 íslenskum handritum og um 1350 fornbréfum (skjölum), að auki átti hann tæplega 6000 afrit af fornbréfum sem hann lét gera fyrir sig. Hann safnaði einnig norskum miðaldahandritum og fornbréfum og reyndar handritum frá öðrum Evrópulöndum. Bruninn í Kaupmannahöfn 1728 hjó skörð í safn Árna, en verra var þó að Háskólabókasafnið brann allt og þar á meðal nokkur íslensk handrit. Árni ánafnaði Háskólanum í Kaupmannahöfn eigur sínar, þar á meðal handritin, í erfðaskrá sinni.

Á 20. öld fóru Íslendingar að krefjast þess að fá Árnasafn flutt til Íslands og lauk því þrefi með samkomulagi um að hluti safnsins skyldi varðveittur við Háskóla Íslands; einnig var ákveðið að u.þ.b. 140 handrit úr Konungsbókhlöðu yrðu flutt til Reykjavíkur. Fyrstu handritin (Konungsbók Eddukvæða og Flateyjarbók) voru flutt til Íslands með herskipi 1971 og þau síðustu 1997.

Íslensk miðaldahandrit varðveita texta af ýmsu tagi. Frægastir eru eflaust Íslendinga sögur og konungasögur, en lögbækur og annað lagaefni og helgisagnaefni (jarteinir og dýrlingasögur) er þó nánast eins fyrirferðarmikið og sögur (Íslendinga sögur, fornaldarsögur, riddarasögur o.s.frv.). Einnig er í handritunum alfræðiefni, annálar, skáldskaparfræði, jarðatöl og rímur o.s.frv.

2. Letur og skrift

2.1 Upphaf latínuleturs

Sú leturgerð sem notuð er til að skrifa íslensku og fjölda annarra tungumála nefnist latínuletur. Forsögu þess má rekja allt til Fönikíumanna, sem bjuggu við botn Miðjarðarhafsins, frá því um 1200 f.Kr. en þeir notuðu samhljóðaskrift. Af þeim lærðu Grikkir að skrifa, hófu að tákna sérhljóðana líka og löguðu stafina til á ýmsa vegu. Rómverjar lærðu svo leturlistina af Grikkjum en breyttu útliti stafa, e.t.v. svo að þeir hentuðu betur til að höggva í stein, og breyttu hljóðgildi sumra. Letur Rómverja, latínuletur, var notað í rómverska heimsveldinu og breiddist út með því og síðar með kristninni og enn síðar með útþenslu Vestur-Evrópumanna.

Skrift Rómverja var hástafaskrift (majuscule), þ.e. allir stafir voru jafnháir. Þar sem hver dráttur var höggvinn eða settur (dreginn) sérstaklega var hún seinskrifuð. Skrift af þessari gerð kallast settaskrift eða bókskrift. Skriftin þróaðist með ýmsu móti. Elst er bautasteinsskriftin (monumentalis), elstu dæmi frá u.þ.b. 500–400 f.Kr. á grjóti.

Bautasteinsskrift. Við Appiaveg við Róm á Ítalíu eru margir bautasteinar og grafir frá stórveldistíma Rómverja. Á þessa steinplötu, sem hefur verið komið fyrir á minnismerkinu, hefur verið höggvin áletrun með svo nefndri bautasteinsskrift (monumentalis). Úr The Story of Writing,London 1981, bls. 39.

Einnig eru dæmi um hana á bókum en þá er hún kölluð höfuðstafaskrift (capitalis). Einnig var til sveitaskrift (capitalis rustica) sem sennilega hefur ekki þótt eins fín en hún var mikið notuð á fyrstu öldunum eftir Kristsburð.

Önnur gerð er ferningsskriftin (capitalis quadrata) sem einnig er kölluð capitalis elegans sem var eftirlíking bautasteinsskriftarinnar. En vegna þess hve menn voru lengi að skrifa með þessari aðferð þróaðist léttiskrift (cursive) eða bréfaskrift (diplom hand) sem notuð var við bréfagerð og til að skrifa til minnis, t.d. á vaxtöflur. Bókstafirnir í léttiskriftinni eru minni en í settaskriftinni og hver stafur skrifaður í einum drætti og stafir jafnvel tengdir saman; léttiskrift Rómverja var í fyrstu hástafaskrift, stundum kölluð eldri léttiskriftin.

Eldri rómversk léttiskrift. Léttiskrift (cursiva) þróaðist vegna þess að settaskrift var seinskrifuð. Hér er dæmi um eldri rómverska léttiskrift á papýrus frá 166 (BLPapyrus 229). Úr A Guide to Western Historical Scripts from Antiquity to 1600, London 1990, bls. 21.

2.2 Skriftartegundir á ármiðöldum

Á 2. öld eftir Kristsburð kom fram lágstafaskrift (minuscule), en hún var notuð á bækur jafnt og bréf. Lágstafaskrift hefur verið skrift Vesturlanda í ýmsum stílbrigðum frá 8. öld, en samhliða henni þróuðust í lok fornaldar og á ármiðöldum þumlungsskriftin (uncial script), lágstafaléttiskriftin og hálfþumlungsskriftin (half uncial script) og skriftargerðir ýmissa þjóða.

Þumlungsskrift (uncialis) var kölluð svo vegna þess að stafirnir voru stórir og skinnið ekki sparað enda eingöngu notuð á fínar bækur. Hér er dæmi um þumlungsskrift frá um 700-725 á ensku handriti [BL Cotton Vespasian A.I.] (á milli lína hefur verið bætt við glósum á engilsaxnesku með eyskrift frá um 850-900). Úr A Medieval Calligraphy, New York 1989, bls. 35.

Hrun rómverska heimsveldisins á fimmtu öld hafði gífurleg áhrif á þróun menningar í Evrópu. Germanskar innrásarþjóðir í Rómaveldi og fleiri þjóðir á meginlandi Evrópu notuðu sum afbrigði rómverskrar skriftar (sveitaskrift, þumlungsskrift og hálfþumlungsskrift) á ármiðöldum, en þróuðu þó hver um sig stílbrigði af lágstafaléttiskriftinni, kölluð þjóðskrift. Sem dæmi má nefna vesturgotneska skrift á Spáni, beneventanska á Ítalíu og merovingíska skrift á Frakklandi. Orsök þessara stílbrigða er sú að bækur voru ekki sama markaðsvara og áður og skjöl dreifðust ekki lengur um allt Rómarveldi enda var það liðið undir lok.

Meróvingísk skrift. Á Evrópulöndum sem höfðu lotið Rómarveldi þróuðust ýmsar skriftargerðir á ármiðöldum, svo nefnd þjóðskrift. Á Frakklandi þróuðust nokkrar gerðir þjóðskriftar og er meróvingísk skrift ein þeirra, kennd við Meróvingakonunga. Hér er dæmi um meróvingíska léttiskrift frá 717 á frönsku skjali [ANF K4, 3]. Úr A Guide to Western Historical Scripts from Antiquity to 1600, London 1990, bls. 37.

Írar og Engilsaxar fluttu inn hálfþumlungsskrift og þróuðu eyskrift (insular script). Á Englandi var hún notuð fram um 1000 þegar um latínu var að ræða en fram á 12. öld þegar skrifað var á móðurmálinu.

Eyskrift. Á Bretlandseyjum þróuðust ýmsar gerðir skriftar út frá hálfþumlungsskrift (half-uncial) sem nefndar eru einu nafni eyskrift (insular script). Hér er dæmi um settaskrift á engilsaxneskri bænabók frá um 800-825 [BLRoyal 2. A. XX]. Úr A Guide to Western Historical Scripts from Antiquity to 1600, London 1990, bls. 55.

Á Írlandi var eyskrift notuð fram á 20. öld þegar gelíska var skrifuð eða prentuð. Engilsaxar þurftu að bæta við táknum: t.d. ‘d’ með þverstriki, þ.e. ‘ð’ (hálfþumlungs-‘d’ var bjúgt: ‘ꝟ’), og rúnunum þorn (‘þ’) og wyn (‘ƿ’) til að geta táknað öll hljóð móðurmáls síns.

Prentletur eftir eyskrift. Írar notuðu eyskrift langt fram eftir öldum og bjuggu til prentletur með hana sem fyrirmynd. Írska prentletrið var notað fram á 20. öld þegar prentað var á írsku. Hér er dæmi úr útgáfu á þjóðsögum frá Munster-héraði á Írlandi: An seancaide muimneac. Meascra de Béaloideas Ilcinéal ó "An Lócrann" 1907-1913, bls. 252, sem gefin var út í Dyflinni 1932.

2.3 Skriftartegundir á hámiðöldum og síðmiðöldum

Út úr hálfþumlungsskriftinni og frakkneskum skriftargerðum þróaðist svo um 800 karlungaskrift, sem kennd er við Karl mikla (Karlamagnús) þótt hann hafi sjálfur ekkert komið nálægt þróun hennar. Hún breiddist smám saman út um Evrópu á næstu öldum, bæði til suðurs og norðurs. Hún barst til Íslands í gegnum Noreg með viðaukum Engilsaxa, en ekki til Írlands fyrr en með Englendingum seinna. Karlungaskriftin var notuð jafnt á bækur og bréf.

Reykjaholtsmáldagi. Karlungaskrift þróaðist á tímum Karls mikla keisara og er kennd við hann. Hún barst út um ríki hans og til annarra kaþólskra landa smám saman. Til Íslands barst hún með kristninni á 11. öld og eru elstu íslensku handritin skrifuð með henni. Hér er dæmi um íslenska karlungaskrift á Þjskjs fornskjölum VI, Reykjaholtsmáldaga, frá um 1150-1204. Ljósmynd: Jóhanna Ólaf

Gotnesk skrift var kölluð svo af ítölskum húmanistum til að láta í ljós hvað hún væri barbarísk en hún hafði ekkert með Gota að gera, enda er hún einungis stílbrigði af karlungaskriftinni. Gotnesk skrift byrjaði að þróast á N-Frakklandi á 11. öld en breiddist út á 12. og 13. öld. Oddar, horn og beinar línur komu í stað bogadreginna lína. Bókstafirnir eru háir, hæðin meiri en breiddin, og skrifaðir þétt saman. Allir bókstafir standa á línunni nema ‘g’, ‘j’, ‘p’, ‘q’ og ‘y’. Á eftir ‘o’ (og seinna á eftir öðrum bjúgum stöfum, s.s. ‘ꝺ’) er skrifað ‘krók-r’, þ.e. ‘ꝛ’, og ‘ı’ (þ.e. ‘i’) er greint frá ‘m’ og ‘n’ með broddi: ‘í’. Efri hluti ‘a’ lokast (‘a’ verður tvíhólfa). Stórir bókstafir eru notaðir mikið, bæði smækkaðir hástafir (hásteflingar) og stækkaðir lágstafir (lágstöfungar).

  • Gotnesk settaskrift. Gotnesk skrift einkennist af oddum og hvössum hornum í samanburði við karlungaskrift. Hér er dæmi um íslenska gotneska settaskrift í AM 227 fol, Stjórn, frá um 1350. Ljósmynd: Jóhanna Ólafsdóttir, Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi.

  • Tvíhólfa a. Á þessari mynd úr AM 343 fol, Svalbarðsbók, frá um 1330-1340) sést greinilega að 'a' er tvíhólfa, en ekki einshólfs eins og í skrift nútímans (og skáletri) og ekki heldur eins og í beinu prentletri (a). Ljósmynd: Jóhanna Ólafsdóttir, Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi.

Aðalorsökin fyrir þessari breytingu á skriftinni er tískan og krafa um fallega skrift í samræmi við aðra list á þessu tímabili, s.s. gotneska byggingarlist, en karlungaskriftin ber mjög keim af rómanskri byggingarlist. Gotneska settaskriftin þróaðist á 15. öld yfir í skrautskriftina missaleskrift.

  • Rómanskur byggingarstíll. Skrift og byggingarlist báru keim af hvort öðru. Rómanskur byggingarstíll og karlungaskrift eru áþekk með ávalar línur, en gotnesk skrift og gotneskur byggingarstíll eru með odda, hvöss horn og beinar línur. Myndin er af elstu steinkirkju Norðurlanda í Dalbæ á Skáni í Svíþjóð sem er byggð um 1050. Úr Välkommen til Lund, Stokkhólmi 1977, bls. 30.

  • Gotnesk settaskrift. Gotnesk skrift einkennist af oddum og hvössum hornum í samanburði við karlungaskrift. Hér er dæmi um íslenska gotneska settaskrift í AM 227 fol, Stjórn, frá um 1350. Ljósmynd: Jóhanna Ólafsdóttir, Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi.

  • Gotnesk missaleskrift. Gotnesk settaskrift þróaðist á ýmsa vegu, í fínum bókum getur hún verið stór og hver stafur settur af listfengi. Hér er dæmi um gotneska missaleskrift á ensku handriti frá síðari hluta 14. aldar. Úr Scribes and Illuminators, London 1992, bls. 6.

Á 13. öld þróaðist einnig gotnesk léttiskrift til daglegra nota og er fullmótuð á 14. öld. Hún var mikið notuð á pappír sem þá var kominn til sögunnar. Þetta var sú skrift sem var almennust og algengust á 14. og 15. öld og býr að baki þeirri skrift sem seinna var kölluð þýsk gotnesk skrift. Einkennandi fyrir hana var að henni hallaði til vinstri en fyrir vikið var ‘m’, ‘n’ og ‘u’ skrifað í einum rykk; ‘ſ’ (hátt ‘s’) og ‘f’ voru teygð niður fyrir línu en það tíðkaðist ekki í settaskriftinni. Smám saman fjarlægðust settaskriftin og léttiskriftin hvor aðra.

Gotnesk léttiskrift. Gotnesk léttiskrift var notuð á bréf og stundum á bækur sem áttu ekki að vera mjög vandaðar. Fá dæmi eru um gotneska léttiskrift í íslenskum bréfum eða handritum. Myndin er úr AM 420 b 4to, Lögmannsannál, frá um 1362-80. Skrifarinn, Einar Hafliðason, bregður fyrir sig bæði settaskrift og léttiskrift við annálaskrif sín. Ljósmynd: Jóhanna Ólafsdóttir, Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi.

Alls kyns afbrigði eru til af þessari skrift; eitt þeirra er brotaskriftin (fractur) sem notuð var við hirð keisarans í lok 15. aldar og á 16. öld. Gotnesk léttiskrift var líka notuð á bækur en þá þróaðist gotnesk hálfléttiskrift til þeirra hluta á 15. öld og fyrri hluta 16. aldar.

Gotnesk hálfléttiskrift. Gotnesk settaskrift var seinskrifuð, því þróaðist millistig milli settaskriftarinnar og léttiskriftarinnar sem er nefnt hálfléttiskrift og var hún notuð á bækur og þróaðist á ýmsa vegu. Hér er dæmi um hálfléttiskrift á flæmsku handriti frá um 1450-1475. Úr Scribes and Illuminators, London 1992, bls. 36.

‘f’ og ‘ſ’ náðu niður fyrir línu og ‘a’ var einshólfs (þ.e. líkt og í skrift nútímans) eins og í léttiskriftinni en aðrir stafir voru eins og í settaskriftinni. Gotneska hálfléttiskriftin þróaðist mismunandi eftir löndum en hún var þó alltaf millistig milli settaskriftar og léttiskriftar. Prentlistin drap niður þróun settaskriftar um 1500, en hversdagsskrift hélt áfram að þróast.

2.4 Skriftartegundir á nýöld

Gotnesk skrift náði aldrei að fullkomnast á Ítalíu; þar komu fram önnur afbrigði í staðinn. Á 15. öld komust ítalskir fræðimenn í kynni við gömul handrit og þannig kynntust þeir karlungaskrift sem þeir héldu að væri forn rómversk skrift og fóru að nota hana og kölluðu antíkva eða forna skrift. En hástafirnir voru teknir frá rómverskum grafskriftum, þ.e. höfuðstafabautasteinsskrift. Prentarar fóru að nota þessa skrift í prentverk þegar prentaðar voru gamlar bækur.

  • Reykjaholtsmáldagi. Karlungaskrift þróaðist á tímum Karls mikla keisara og er kennd við hann. Hún barst út um ríki hans og til annarra kaþólskra landa smám saman. Til Íslands barst hún með kristninni á 11. öld og eru elstu íslensku handritin skrifuð með henni. Hér er dæmi um íslenska karlungaskrift á Þjskjs fornskjölum VI, Reykjaholtsmáldaga, frá um 1150-1204. Ljósmynd: Jóhanna Ólafsdóttir, Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi.

  • Húmanísk antíkva. Húmanistar líktu eftir karlungaskrift þegar þeir höfnuðu gotnesku skriftinni og þróuðu nýja skrift á 15. öld. Hér er dæmi um húmaníska bókskrift eða settaskrift á ítölsku handriti frá 15. öld. Úr The Story of Writing, London 1981, bls. 99.

  • Bautasteinsskrift. Við Appiaveg við Róm á Ítalíu eru margir bautasteinar og grafir frá stórveldistíma Rómverja. Á þessa steinplötu, sem hefur verið komið fyrir á minnismerkinu, hefur verið höggvin áletrun með svo nefndri bautasteinsskrift (monumentalis). Úr The Story of Writing,London 1981, bls. 39.

Þessi antíkva skrift þróaðist fljótlega yfir í það sem kallað er húmanísk léttiskrift sem reyndar sótti sitthvað til gotneskrar hálfléttiskriftar, t.d. einshólfs-a og ‘f’ niður fyrir línu. Bókstafirnir tengdust vel saman og henni hallaði til hægri. Hún var einnig notuð á bækur og breiddist út meðal skrifara og prentara í kaþólsku löndunum og á Englandi og Hollandi á 17. og 18. öld.

Á Þýskalandi og Norðurlöndum var húmanísk léttiskrift mun minna notuð (í raun og veru einungis ef skrifað var eða prentað efni á latínu eða rómönskum málum) en annars var notuð nýgotnesk skrift (dönsk/þýsk) sem þróaðist á 16. og 17. öld og náði hátindi um 1700, kölluð fljótaskrift. Hún var notuð fram um 1800 í Svíþjóð og Finnlandi, fram á 19. öld í Danmörku og Noregi og fram á 20. öld á Þýskalandi.

2.5 Upphaf íslenskrar skriftar

Kristniboðar komu með latneskt letur (karlungaskrift) til Norðurlanda. Það er ólíklegt að rúnir hafi verið notaðar að einhverju marki til að skrifa á bókfell með penna. Þær henta vel til að rista í tré eða höggva í stein. Á Íslandi var karlungaskrift strax ráðandi með engilsaxneskum áhrifum; bókstafurinn ‘þ’ var t.d. fljótt notaður og kallaður þorn upp á engilsaxnesku en ekki þurs upp á norrænu. Þetta mjá sjá í elstu handritum.

Íslensk karlungaskrift. Íslendingar tóku upp karlungaskrift þegar ritmenning barst til landsins með kristninni á 11. öld. Myndin er úr AM 237 a fol frá um 1150 sem er elsta handritsbrot íslenskt sem hefur varðveist. Ljósmynd: Jóhanna Ólafsdóttir, Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi.

Norðmenn og Íslendingar tóku upp fleiri stafi frá Engilsöxum úr eyskrift þeirra.

þ og ð. Íslendingar og Norðmenn tóku eftir Engilsöxum bókstafi sem þeir þurftu á að halda, s.s. 'þ' og 'ð'. Einnig tóku þeir upp engilsaxneskt 'f' og 'v'. Á myndinni, sem er úr AM 334 fol, Staðarhólsbók Grágásar, frá um 1270, sjást hinir engilsaxnesku stafir vel. Ljósmynd: Jóhanna Ólafsdóttir, Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi.

Þar ber fyrst að nefna rúnina ‘ƿ’, sem kom inn í íslensku um eða upp úr 1200 og var notuð fram um 1300. Hálfþumlungs-‘ꝼ’ (= ‘f’) var notað langt fram á 18. öld á Íslandi, það þróaðist smám saman í ‘š’. ‘ð’ (hálfþumlungs-‘d’, þ.e. ‘ꝺ’, með striki) kom inn í íslensku á fyrri hluta 13. aldar en hvarf aftur á 14. öld. Einnig tóku Norðmenn og Íslendingar ‘ø’ eftir Engilsöxum.

Límingarstafi fengu Íslendingar og Norðmenn úr ýmsum áttum, svo sem ‘æ’ og ‘œ’, en bjuggu aðra til sjálfir, svo sem ‘ꜹ’ og ‘ꜷ’, í stað þess að nota lausaklofa, þ.e. ‘au’. Límingarstafir gátu líka verið þannig að tveimur nærliggjandi stöfum var skellt saman til að spara bókfell, t.d. ‘a’ og ‘r’, ‘g’ og ‘ð’ o.s.frv.

Hástafir úr höfuðstafaskrift og þumlungsskrift (‘D’, ‘E’, ‘H’, ‘M’, ‘T’ og ‘U’) og lágstöfungar (‘a’, ‘e’, ‘n’ og ‘q’) voru notaðir á Íslandi sem hástafir, og hásteflingar voru notaðir fyrir tvöfaldan samhljóða. Hásteflingurinn ‘ʀ’ var einnig algengur í framstöðu er á leið.

2.6 Þróun íslenskrar skriftar

Um 1300 kemur gotnesk settaskrift til sögunnar fyrir miðja 14. öld er hún orðin áberandi.

Íslensk gotnesk settaskrift. SÁM 1 fol, Skarðsbók postulasagna, frá um 1350-1375 er skrifuð með fallegri gotneskri settaskrift. Ljósmynd: Jóhanna Ólafsdóttir, Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi..

Á 14. öld var líka notuð gotnesk léttiskrift á bréfum. Á 15. öld og fyrri hluta 16. aldar eru bæði bréf og bækur með hálfléttiskrift.

Hálfléttiskrift. Á 15. og 16. öld var notuð á Íslandi hálfléttiskrift sem ekki er mjög vönduð í samanburði við 14. aldar skrift. AM 557 4to frá um 1420-1450. Ljósmynd: Jóhanna Ólafsdóttir, Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi.

Upp úr miðri 16. öld fóru Íslendingar að skrifa nýgotneska léttiskrift. Þeir héldu þó einnig áfram að skrifa hálfléttiskrift fram á 18. öld, en það fór eftir því hvað var skrifað og hver hélt á penna. Fljótaskrift ruddi sér svo til rúms á síðari hluta 17. aldar og hélt velli fram á síðari hluta 19. aldar. Atvinnuskrifarar á 17. og 18. öld gátu þó brugðið fyrir sig brotaskrift og sumir líktu eftir prentletri.

Á seinni hluta 19. aldar tók snarhönd við, en það er sú skrift sem Íslendingar á 20. öld lærðu. Hún byggist á þeirri ítölsku, þ.e. húmanískri léttiskrift, en í henni er ‘f’ enn skrifað niður fyrir línu.

Skriftarhornið breyttist þannig að hver rithönd varð persónulegri og frjálsari.

Undirskriftir: Rithönd manna hefur orðið sífellt frjálslegri og persónulegri, sérstaklega á þetta við um undirskriftir manna. Hér er undirskrift forseta Íslands, Ólafs Ragnars Grímssonar.

Á síðustu áratugum 20. aldar var tekin upp ný gerð af húmanískri léttiskrift, sem kölluð var fyrst í stað ítölsk skrift.

Forskrift. Á síðustu árum 20. aldar lærðu íslensk skólabörn skrift sem kölluð var ítölsk skrift til aðgreiningar frá þeirri skrift sem foreldrar þeirra lærðu, en hún er kölluð snarhönd. Myndin er úr forskriftarbók grunnskóla frá Námsgagnastofnun (Skrift 6, bls. 20).

Eitt einkenni íslenskrar skriftar er mikil notkun banda og annarra styttinga. Band getur verið strik yfir bókstaf eða í gegnum legg á staf, fast merki ofan orðs eða ofan og aftan við aftasta staf í orði, punktur eða smækkaður bókstafur sem er skrifaður ofan orðs. Hlutverk banda er að gera „rit minna og skjótara og bókfell drjúgara“ að sögn Fyrsta málfræðingsins. Notkun banda og annarra styttinga var komin frá Engilsöxum, en íslensk skrift var þó mun meira bundin en norsk, engilsaxnesk eða írsk skrift. Bönd voru notuð allt fram á 19. öld, þó minna í fljótaskrift. Bundnasta bók íslensk er AM 645 4to, en hún er jafnframt ríkust af límingarstöfum.