Greinar

Gísli Sigurðsson
Íslenska í Vesturheimi

Inngangur

Vesturíslenska er heiti á mállýsku íslenskra vesturfara og afkomenda þeirra í Norður-Ameríku. Málið hefur lifað á vörum fólks í Vesturheimi án þess að menn hafi notið formlegrar menntunar á íslensku eða bóklegrar þjálfunar svo nokkru nemi. Tengslin við Ísland rofnuðu að mestu eftir að vesturferðir lögðust af í byrjun 20. aldar og málnotkun meðal Vesturíslendinga þróaðist því án tengsla við það mál sem talað var á Íslandi. Þess verður greinilega vart í orðaforða sem endurnýjaðist ekki samhliða nýrri tækni vestra. Ensk tökuorð urðu því nær einráð á því sviði eins og rannsóknir á vesturíslensku hafa leitt í ljós. Gamalla máleinkenna frá Íslandi gætir og í hljóðkerfi og beygingum einstakra orða. Til dæmis er flámæli mjög algengt í vesturíslensku, einnig þágufallssýki og ýmsar algengar beygingarmyndir frá 19. öld, til dæmis læknirar fyrir læknar og óbeygðar eintölumyndir frændsemisorðanna bróðir, systir, faðir og móðir. Almennt gætir og einföldunar í beygingarkerfi vesturíslensku, viðtengingarháttur er á undanhaldi, afturbeygt fornafn er lítið sem ekkert notað og sagnir taka oft algengustu veikri beygingu.

1. Vesturfarar

Um 15–20 þúsund Íslendingar fluttust vestur um haf á árunum1855–1914. Fyrstu hóparnir voru mormónar sem fóru til Utah í Bandaríkjunum og nokkrir Þingeyingar sem fóru til Brasilíu. Vesturförum snarfjölgaði eftir 1870 þegar skipafélögin hófu markaðssókn á Íslandi og stórir hópar fóru um 1895 og síðan aftur í nokkur ár eftir aldamótin. Flestir fóru frá Norður- og Austurlandi og settust að bæði í Bandaríkjunum og Kanada. Menn reyndu víða fyrir sér í fyrstu, í Wisconsin, Minnesota, Ontario og Nova Scotia; og um skeið taldi Jón Ólafsson ritstjóri (1850–1916) að Íslendingar ættu að nema land í Alaska.

  • Flestar urðu vesturferðirnar um 1885-1890. - Íslenskur Söguatlas.

  • Vesturferðir voru langtíðastar af Norðaustur- og Austurlandi. - Íslenskur Söguatlas.

  • Íslendingabyggðirnar dreifðust víða bæði í Bandaríkjunum og Kanada. Kort úr Íslenskum Söguatlasi.

Haustið 1875 kom fyrsti hópurinn til Nýja-Íslands við strönd Winnipegvatns, norðan við Manitoba-fylki sem þá var. Þar og í Winnipegborg og Norður-Dakóta settust síðan flestir vesturfarar að og Winnipeg varð fljótlega menningarmiðstöð þeirra með blómlegri útgáfustarfsemi. Um 1890 fóru að myndast Íslendingabyggðir enn vestar, í Saskatchewan og Alberta þar sem skáldið og bóndinn Stephan G. Stephansson nam land í þriðja sinn árið 1889.

1.1 Útgáfustarfsemi meðal Vesturíslendinga

Styrkur íslenskunnar í Vesturheimi sést vel á þeirri blómlegu útgáfustarfsemi sem þar var á íslensku. Strax um haustið 1877 hófst útgáfa blaðsins FRAMFARA í Lundar í Nýja-Íslandi undir ritstjórn Halldórs Briem (1852–1929), síðar bókavarðar, fjórblöðungs sem kom út þrisvar í mánuði og flutti almennar fréttir. Blaðið lifði þó aðeins í tvö ár og vorið 1883 hófst útgáfa LEIFS í Winnipeg. Hann kom út fram á sumar 1886 en þá um haustið hóf vikublaðið HEIMSKRINGLA göngu sína. Kirkjublaðið SAMEININGIN var stofnað 1886, LÖGBERG 1888 og á næstu árum og áratugum bættust sífellt fleiri blöð og tímarit við. Í Winnipeg myndaðist þá kjarni íslenskra menntamanna og um skeið var algengt að skáld og rithöfundar færu af Íslandi og dveldu þar um tíma, til dæmis Torfhildur Hólm, Jón Ólafsson ritstjóri, Gestur Pálsson og Einar H. Kvaran.

Fjölmargir Vesturíslendingar fengust við að yrkja og semja sögur á íslensku og ber þar hæst verk Stephans G. Stephanssonar og Jóhanns Magnúss Bjarnasonar (1866–1945). Einnig má nefna Káin, Jakobínu Johnson og Guttorm J. Guttormsson, þann eina þeirra sem er fæddur vestra. Laura Goodman Salverson reið á vaðið með að birta verk eftir sig á ensku og sló í gegn með skáldsögunni VIKING HEART árið 1923. Eftir það má kalla að tekið hafi að halla undan fæti fyrir íslenskunni sem bókmenntamáli vestan hafs.

Af helstu tímaritum Vesturíslendinga má nefna ALMANAK ÓLAFS S. THORGEIRSSONAR, TÍMARIT ÞJÓÐRÆKNISFÉLAGSINS og THE ICELANDIC CANADIAN. LÖGBERG og HEIMSKRINGLA voru sameinuð í eitt blað, LÖGBERG-HEIMSKRINGLU, árið 1959 og á áttunda og níunda áratugnum varð enska sífellt meira áberandi í því blaði uns það var nær allt skrifað á ensku upp úr 1990.

2. Málnotkun meðal Vesturíslendinga

Íslenska var daglegt mál fjölda fólks í byggðum Vesturíslendinga langt fram eftir 20. öld og sér þess víða stað í örnefnum af íslenskum uppruna og meðferð íslenskra mannanafna. Vel fram yfir seinni heimsstyrjöld fóru messur fram á íslensku og málið var almennt samskiptamál á götum í þorpum og bæjum í Nýja-Íslandi og við fiskveiðar á Winnipegvatni. Þess voru dæmi að indíánar og Úkraínumenn (Gallar eins og Íslendingar nefndu þá) lærðu íslensku. Nýjar kynslóðir sem uxu úr grasi fengu þó ekki næga þjálfun í málinu og Eggert Jóhannsson kvartaði meðal annars undan aðstöðuleysi Íslendinga til formlegrar þjálfunar í máli sínu í grein sem hann skrifaði í HEIMSKRINGLU 26. desember 1901.

Í manntali í Kanada árið 1931 kemur fram að 82% þeirra sem telja sig vera af íslenskum uppruna segjast hafa íslensku sem móðurmál eða fyrsta mál.Tíu árum síðar er sambærileg tala komin niður í 73%. Eftir það sést að málinu hefur hrakað hraðar í þéttbýli í Manitoba en í dreifbýli því að 1941 segjast 8.122 dreifbýlisbúar þar kunna íslensku, en 5.832 þéttbýlisbúar. Fimm árum síðar eru þessar tölur komnar niður í 5.460 í dreifbýli og 2.830 í þéttbýli. Þrátt fyrir þetta sér íslenskra tökuorða ekki víða stað í ensku fólks á þeim svæðum þar sem íslenskan var sterkust. Helst má vænta þess að orð um íslenska sérrétti og frændsemisorð lifi á vörum enskumælandi manna í Manitoba, til dæmis kleiner ‘kleinur’, sker ‘skyr’ og amma.

Fjölmargir Vesturíslendingar sem komnir voru á efri ár á 7., 8. og 9. áratug 20. aldar höfðu þá sögu að segja að þeir hefðu lært íslensku í foreldrahúsum en hún hefði síðan verið barin úr þeim í skóla þar sem börnum var bannað að tala íslensku við félaga sína svo þau mættu þjálfast í ensku. Málið lokaðist því smám saman inni á heimilum og orðaforðinn takmarkaðist við fjölskyldulíf og persónulegar frásagnir. Opinber umræða fór fram á ensku. Enda þótt margir hafi lært að lesa á íslensku skrifuðu menn lítið á því máli og fengu ekki mikla skipulega þjálfun við málnotkun og málbeitingu eins og Hjörtur Leó rakti meðal annars í grein sem hann ritaði í BREIÐABLIK árið 1906.

Smám saman minnkaði málvitund meðal Vesturíslendinga og hugmyndir um gott mál og vont, formlegt og óformlegt, og viðeigandi mál voru orðnar mjög óljósar undir lok 20. aldar. Nokkurrar tilhneigingar til málhreinsunar hefur þó gætt í máli sumra, stundum með stuðningi frá Íslandi eins og þegar menn taka upp orðið sími í staðinn fyrir fón – en tala þá yfirleitt um símið. Um miðjan 9. áratug 20. aldar var horfið frá þeirri reglu að tala eingöngu íslensku á þingum Þjóðræknisfélags Íslendinga í Vesturheimi enda voru þær samkomur þá orðnar æði fámennar. Við það stórjókst aðsókn að þingunum sem sýndi að menn höfðu ennþá mikinn áhuga á þjóðerni sínu og uppruna jafnvel þótt þeir hefðu ekki lengur vald á tungumálinu.

3. Formleg menntun í íslensku vestan hafs

Á fyrstu áratugum landnáms Íslendinga í Vesturheimi voru ýmsar tilraunir gerðar til að koma á fót formlegri íslenskukennslu, oftast nær í tengslum við safnaðarstarf og annað félagslíf. Umfangsmesta íslenskukennsla vestan hafs á fyrri hluta aldarinnar var í skóla kenndum við séra Jón Bjarnason (1845–1914). Til hans var stofnað fyrir fé sem farið var að safna fyrir aldamótin 1900. Undanfari skólans var íslenskukennsla við Wesley College í Winnipeg. Hún byrjaði árið 1901 í umsjón séra Friðriks J. Bergmanns (1858–1918) í samvinnu við Hið evangelíska lúterska kirkjufélag Íslendinga í Vesturheimi og var haldið uppi til ársins 1927. Íslenskukennsla hófst við Jóns Bjarnasonar skólann í Winnipeg árið 1913 og varð um skeið nokkuð öflug. Við skólann var meðal annars gefið út ársritið AURORA, og á árunum milli 1930 og 1940 voru nemendur oft á annað hundrað. Skólinn lagðist af árið 1940 en bókasafn hans gekk þá til Manitoba-háskóla og lagði grunn að veglegri íslenskudeild við háskólabókasafnið þar. Árið 1945 hófst fjársöfnun meðal Vesturíslendinga til þess að hægt yrði að stofna kennaraembætti í íslenskum fræðum við Manitoba-háskóla. Sú söfnun gekk svo vel að tilkynnt var um stofnun embættisins árið 1951 og var Finnbogi Guðmundsson (f. 1924) ráðinn prófessor frá haustinu 1952. Haraldur Bessason (f. 1931) tók við af honum árið 1956 og gegndi embættinu í liðlega þrjá áratugi. Eftir það hefur kennslan við háskólann að mestu verið í höndum erlendra fræðimanna.

4. Ensk tökuorð í vesturíslensku

Eitt helsta einkenni vesturíslensku er mikil og frjálsleg notkun tökuorða úr ensku eins og fjölmargar gamansögur eru til vitnis um. Flest tökuorðanna hafa fengið íslenskar endingar og lagað sig að íslensku beygingarkerfi en þó ber við að orðum sé slett, og þá oftast með enskum framburði. Enskur framburður kemur líka fyrir á íslenskum mannanöfnum og örnefnum af íslenskum uppruna sem eru þá iðulega óbeygð. Íslendingar vestra fóru snemma að blanda mál sitt alls kyns orðum úr ensku um fyrirbæri sem voru sum hver vel þekkt að heiman. Um mikinn fjölda hinna ensku tökuorða má þó segja að þau lýsi því ágætlega hvað veruleikinn sem blasti við Íslendingum í Ameríku var gjörólíkur því sem þeir þekktu að heiman eins og sjá má af SÝNISHORNI AF VESTUR-ÍSLENZKU eftir Guðmund Jónasson frá Húsey. Híbýli, búskaparhættir, neysluvenjur, atvinnuhættir og borgarlíf eins og menn kynntust vestra höfðu ekki verið til umræðu fyrr hjá því fólki sem fluttist úr afskekktum sveitum og byggðum á Íslandi. Vegna þess að íslenskan varð aldrei opinbert mál við stjórnsýslu eða almenna menntun vestan hafs var ógjörningur að halda þar uppi nokkurri málpólitík enda þótt ekki hafi skort skrif um málvernd í íslensku blöðin.

4.1 Gamansögur um vesturíslensku

Algengt er að misskilningur, háðsádeilur og gamansögur kvikni af notkun tökuorða í vesturíslensku. Í fyrstu töldu margir tökuorðin vera sérstaklega áberandi í máli Winnipegbúa. Guttormur J. Guttormsson orti til dæmis þekkt kvæði sem hann birti í BÓNDADÓTTUR árið 1920 og nefndi WINNIPEG ICELANDER, og Káinn sagði um Íslendingadaginn árið 1922 að ljóð dagsins hefði verið flutt á Winnipeg-íslensku en ræðurnar á Vesturheims-íslensku. Oft er snúið út úr þeim mun sem er á ensku og íslensku til að ná fram tvíræðum áhrifum. Má þar nefna sögu af tveimur Vesturíslendingum sem hittust á götu og annar sagði hinum í óspurðum fréttum: „Ég rann inn í konuna þína í gær“ (sbr. ensku ran into ‘hitti’). Einnig er haft eftir Vesturíslendingi sem hringdi í skyldfólk sitt á Íslandi að hann hafi kynnt sig með þessum orðum: „Mér vantar að mæta þér og lifa með þér fyrir nokkra daga“ (sbr. ensku want ‘langa til’; meet ‘hitta’; live with ‘búa hjá’; for a few days ‘í nokkra daga’).

4.2 Íslensk mannanöfn í Vesturheimi

Íslendingar lentu í miklum vandræðum með nöfn sín og nafnavenjur í Vesturheimi eins og Einar Hjörleifsson Kvaran og Guttormur J. Guttormsson rituðu um í skrifum sínum um málvernd. Menn tóku upp ættarnöfn, konur fengu nöfn eiginmanna sinna og íslensk nöfn voru aðlöguð að enskum hætti eins og saga Axels Vopnfjörðs um Jóna Jónssyni er til marks um. Frá Íslandi þekktist sá siður að ættarnöfn miðuðust annaðhvort við heiti föður eða væru búin til eftir örnefni sem menn höfðu tengsl við. Sömu aðferðir voru viðhafðar vestra. Björnsson, Jónsson og Guðmundsson urðu Bjorns(s)on, Johnson og Gudmundsson og ættarnöfnin Snæfeld, Hurdal, Axford, Bardal, Eyford, Wopnford (sbr. íslensku örnefnin Snæfell, Hörgárdalur, Axarfjörður, Bárðardalur, Eyjafjörður og Vopnafjörður) og miklu fleiri af sama toga voru tekin upp. Skírnarnöfn hafa oft breyst miklu meira, til dæmis hefur Björn orðið Barney og Hinrik orðið Henry. Í kirkjubókum fyrstu lútersku kirkjunnar í Winnipeg, fjölsóttustu kirkju Vesturíslendinga, sést að 1920–21 voru 57% barna skírð alíslenskum nöfnum, 27% fengu blönduð nöfn og 16% voru skírð nöfnum úr ensku eða öðrum málum en íslensku. 1950–51 voru engin alíslensk nöfn færð til bókar, 38% voru blönduð og 62% voru ensk eða úr öðrum málum en íslensku.

4.3 Örnefni af íslenskum uppruna í Vesturheimi

Íslenskir vesturfarar fluttu margir með sér örnefni að heiman og gáfu nýbýlum sínum í Ameríku falleg íslensk heiti sem voru yfirleitt felld að aðstæðum í nýju landi. Í Nova Scotia kölluðu Íslendingar landnám sitt Markland og gáfu örnefnin Djúpavatn, Hléskógar og Klapparlækur. Á Mikley (Hecla Island) í Winnipegvatni og í sveitunum vestur af vatninu hafa verið skráð 170 íslensk bæjarheiti en aðeins 25 íslensk örnefni í Manitoba hafa verið tekin á opinbera skrá hjá kanadísku örnefnastofnuninni. Þau eru m.a.: Arbakka, Arborg, Baldur, Bifrost, Bjarnason Island, Geyser, Gimli, Grund, Gunnar Rock, Hecla, Hecla Island, Hnausa, Hnausa Reef, Husavick, Icelandic River, Lundar, Reykjavík, Siglunes, Sigurdsson Island, Solmundsson Lake, Thorsteinson Lake, Vestfold, Vidir, Vogar (sjá kort).

Íslensk örnefni í Vesturheimi. Landnemar fluttu mörg örnefni með sér.

4.4 Skrif um íslenska málvernd í Vesturheimi

Fyrstu áratugina eftir landnám Íslendinga í Vesturheimi var mikil umræða um málvernd í íslensku blöðunum vestan hafs (sbr. Stefán Einarsson 1937) og varð sú umræða meðal annars til þess að komið var á formlegri menntun í íslensku máli. Einar Hjörleifsson Kvaran ritaði til dæmis ádrepu til landa sinna vegna málfars þeirra í LÖGBERG 1888 og nefndi hana „Bögumæli“, og Jóhann Magnús Bjarnason skrifaði Bessabréf í HEIMSKRINGLU 1893–94, þar sem honum ofbauð hvað áhrif enskunnar voru orðin mikil.

Umvöndunarorð Einars og Jóhanns höfðu þó lítil áhrif og Vesturíslendingar héldu áfram að blanda íslenskuna með enskum orðum. Guttormur J. Guttormsson orti kvæðið WINNIPEG ICELANDER sem háðsádeilu á málfar þeirra og árið 1952 birti hann grein í TÍMARITI ÞJÓÐRÆKNISFÉLAGS ÍSLENDINGA þar sem hann harmaði örlög íslenskunnar vestra enda þótt nokkurrar bjartsýni gætti í skrifum hans um að ástandið færi nú batnandi, sérstaklega í sambandi við eyðingu landshornamáls af Íslandi.

5. Rannsóknir á vesturíslensku

Fyrsta skipulega rannsóknin á vesturíslensku var unnin af Vilhjálmi Stefánssyni sem birti lista um ensk tökuorð úr máli Íslendinga í Norður-Dakóta árið 1903. Af þeim orðum voru 35% hvorugkyns, 30% karlkyns, 12% kvenkyns og 23% hvörfluðu á milli kynja — sem bendir til að þau hafi ekki ennþá fest sig í sessi í máli manna. Í sambærilegri rannsókn Haralds Bessasonar frá 1967 eru aðeins 4% tökuorðaforðans í vesturíslensku á flökti milli kynja sem sýnir að orðin höfðu þá áunnið sér vissa hefð í málinu. Gísli Sigurðsson safnaði og tökuorðum um atvinnuhætti meðal Vesturíslendinga í Nýja-Íslandi sumarið 1982 og hefur tekið saman skrá um þau, Birna Arnbjörnsdóttir (1987) hefur skrifað um flámæli meðal Vesturíslendinga og félagslegt umhverfi þess og af öðrum rannsóknum má nefna samantekt með máldæmum eftir Jóhannes Birkiland (1927), og greinar eftir Stefán Einarsson (1928; 1937), Peter H. Salus (1971) og Stephen Clausing (1984) um landshornamál af Íslandi í Vesturheimi. Einnig eru kaflar um málfar Vesturíslendinga hjá Tryggva J. Oleson (1951:420–423; 1953:175–191).

5.1 Rannsóknir Haralds Bessasonar

Haraldur Bessason hefur skrifað mikið og flutt fjölda fyrirlestra um vesturíslensku. Í rannsókn sem hann birti árið 1967 byggir hann mjög á hugmyndum og aðferðum Einars Haugens (1953; 1956) við flokkun og greiningu tökuorðaforða í vesturíslensku. Haraldur safnaði tökuorðum meðal Íslendinga í Manitoba á árunum 1963 og 1964, flokkaði þau meðal annars og greindi eftir kyni og beygingu.

Flokkun á tökuorðum úr ensku í vesturíslensku
HREIN TÖKUORÐ eru bein eftirlíking af enska orðinu með íslenskum framburði og beygingarendingum. Í þeim flokki eru address ‘heimilisfang’, akkordíon ‘harmóníka’ og beisment ‘kjallari’.

BLÖNDUÐ TÖKUORÐ hafa ýmist enska orðstofna og íslensk viðskeyti: farmari ‘bóndi’, tóstari ‘brauðrist’, steibla ‘fjós’; eða þau eru samsett úr íslenskum og enskum orðstofnum: dröggbúð ‘lyfjabúð’, sprústré ‘grenitré’, jólakarð ‘jólakort’.

Allmörg tökuorð eru til marks um MERKINGARVÍKKUN íslenskra orða að enskri fyrirmynd:

NÝMYNDANIR eru orð sem líta út eins og íslensk orð en byggjast á enskum fyrirmyndum: blakkborð ‘tafla’, fylla inn ‘útfylla’, ísrjómi ‘rjómaís’, korðviðarspýta (sbr. cordwood stick, ‘smíðaviður’ á ensku), ljóshús ‘viti’, yfirskór ‘skóhlífar’.

MERKINGARVÍKKUN verður með þeim hætti að tökuorðið hljómar eins og orð sem fyrir eru í íslensku: Galli ‘Úkraínumaður’, kar ‘bíll’, skar ‘ör’. Orð af þessu tagi má greina í þrennt:

  1. Tökuorð sem líkjast íslenskum orðum; bæði hljóðfræðilega og merkingarlega: kalla ‘hringja’, lifa ‘eiga heima’, vanta ‘langa til’, vera stuttur ‘vanta’, þunnur ‘mjór’.
  2. Íslensk orð sem notuð eru að enskum hætti eða tekin fram yfir önnur íslensk orð vegna enskrar fyrirmyndar: hafa ‘eiga’, tengdabróðir, tengdasystir.
  3. Tökuorð sem eru þýðing á samsvarandi orðum í ensku sem hafa þó allt aðra merkingu á íslensku: bryggja ‘brú’ (þýð. á bridge), nón ‘hádegi’ (þýð. á noon, sbr. „í eftirnónið“), stó ‘eldavél’ (þýð. á stove), gólf ‘hæð’ (þýð. á floor, sbr. „hann lifir á fyrsta gólfi“).

Þess eru dæmi að nýyrði, byggð á þýðingum, og tökuorð hafi verið tekin upp á tvo vegu í vesturíslensku og íslensku á Íslandi, sbr. hreyfimynd/kvikmynd (þýð. á moving pictures) og kommjúnisti/kommúnisti.

Greining á kyni og beygingu tökuorðaforða vesturíslensku

Hrein tökuorð í vesturíslensku fara í stærstu og algengustu beygingarflokka nafnorða. Þar ráða endingar mestu.

  1. Karlkynsorð með sterka beygingu og nf. ft. sem í íslensku enda á -ar. Hér eru orð sem enda á -er og -or (spíker, önderteiker, eleveitor) og orð sem taka þessari beygingu vegna rímlíkinda við þau orð sem fyrir eru í málinu: sjans (sbr. dans).
  2. Karlkynsorð með veika beygingu, sbr. blönduð tökuorð á borð við farmari.
  3. Kvenkynsorð með sterka beygingu og nf. ft. sem enda á -ar og -ir (-ur): míting, keik, porsjón; og veik kvenkynsorð sem beygjast eins og tunna: nörsa, steibla.
  4. Hvorugkynsorð með sterka beygingu: beisment, hómvörk, hævei, kót, , trein, trobull.

Nokkur orð hvarfla á milli kynja: klínikk og svít eru ýmist kvk. eða hk., og tær (‘dekk’) er ýmist kk. eða hk. Þá kemur fyrir að kvk.-fornafn sé notað til að vísa á hk.-orð: „Þetta er gott kar, og hún er búin að duga lengi“ (það er í samræmi við enska málvenju að nota kvk.-fornafn um bíla).

Lýsingarorð eru fá og óbeygjanleg („þær eru smart“, „þeir eru fjarska næs“) og sagnir taka allar veikri beygingu: meika, meikaði.

5.2 Flámæli í vesturíslensku

Flámæli er algengt í vesturíslensku og kemur það bæði fram á löngum og stuttum i-, u- og e-hljóðum. Einnig á löngu ö-hljóði (sem er þó sjaldgæft) en flámæli á stuttu ö-hljóði virðist óþekkt. Þá er ekki óalgengt að ‘ö’ verði ‘e’, afkringist, við beygingu orða, til dæmis exum fyrir öxum í þgf. ft. Ýmis orð hafa og fest sig í sessi með flámæltum framburði hjá fólki sem er að öðru leyti ekki flámælt, til dæmis sker, skep og spel, í stað skyr, skip og spil.

Flámæli var komið upp í íslensku máli vesturfaranna fyrir og um aldamótin 1900. Þeir fluttu það því með sér frá flámælissvæðum á Íslandi. En þótt hægt sé að tengja það þannig við almenna þróun til einföldunar í íslenska sérhljóðakerfinu hefur það eigi að síður tekið á sig sérstaka mynd í vesturíslensku, hugsanlega vegna þess að menn hafa ekki stuðning af enskunni til aðgreiningar á þeim hljóðum sem falla saman í flámæltum framburði. Þá var ekki um neina opinbera baráttu gegn flámæli að ræða, líkt og á Íslandi, jafnvel ekki þar sem íslenska var kennd í skólum. Vitund og þekking málnotenda á flámæli hefur því verið hverfandi.

5.3 Landshornamál af Íslandi í Vesturheimi

Nokkuð er um að staðbundin máleinkenni af Íslandi hafi haldist í vesturíslensku, en oft blandast saman með nýjum hætti og/eða horfið. Harðmæli er algengara en linmæli og flámæli er nokkuð algengt. Bæði þessi staðbundnu einkenni frá Íslandi eru þó á flökti í munni fólks þannig að þeir sem eru að öllu jöfnu linmæltir bregða stundum fyrir sig harðmæli og öfugt. Sama á við um flámæli sem er yfirleitt ekki algilt í framburði manna. Stundum eru harðmæli/linmæli og flámæli bundin við einstök orð.

Heimildir

1. Grunnrit

Birna Arnbjörnsdóttir. 1987. Flámæli í vesturíslensku. Íslenskt mál 9:23–40.

Haraldur Bessason. 1958. Um íslenzk mannanöfn í Vesturheimi. Tímarit Þjóðræknisfélags Íslendinga í Vesturheimi 39:57–65

Haraldur Bessason. 1984a. Að rósta kjötið og klína upp húsið. Lesbók Morgunblaðsins 16. júní:4–5.

Haraldur Bessason. 1984b Hún fór út með bojfrendinu sínu. Lesbók Morgunblaðsins 23. júní:11–12.

Jóhannes Birkiland. 1927. Sýnishorn af vestur-íslensku. Reykjavík.

Stefán Einarsson. 1937. Nokkur sýnishorn af vestur-íslenzku og rannsóknum um hana. Lögberg 22. desember 1937 (sérprent).

Tryggvi J. Oleson. Saga Íslendinga í Vesturheimi 4. Reykjavík 1951. Tryggvi J. Oleson. Saga Íslendinga í Vesturheimi 5. Reykjavík 1953.

2. Ítarefni

Haraldur Bessason. 1967. A few specimens of North American-Icelandic. Scandinavian Studies 39/2:115–146.

Hreinn Benediktsson. 1987. Icelandic outside Iceland. Iceland 1986. Reykjavík, bls. 63–64.

Peter H. Salus. 1971. Icelandic in Canada. A Survey of immigration and language loyalty. Linguistic diversity in Canadian society. Ritstj. R. Darnell. Edmonton linguistic research, bls. 231–243.

Roy H. Ruth. 1964. Educational Echoes: A History of Education of the Icelandic-Canadians in Manitoba. Winnipeg.

Stefán Einarsson. 1928. On some points of Icelandic dialect pronounciation. Acta Philogica Scandinavia 3:264–279.

Stephen Clausing. 1984. Dialect Preservation in American Icelandic: A Methodological Study. Word 35:76–87.

Vilhjálmur Stefánsson. 1903. English loan-nouns used in the Icelandic colony of North Dakota. Dialect Notes 2:354–362.

3. Sérfræðileg rit og greinar

Birna Arnbjörnsdóttir. 1990. North-American Icelandic: The Linguistic and social context of vowel mergers. Ópr. doktorsritgerð frá Texas.

Einar Haugen. 1953. The Norwegian Language in America. University of Pennsylvania Press.

Einar Haugen. 1956. Bilingualism in the Americas. American Dialect Society.

Gísli Sigurðsson. Viðtöl við Vestur-Íslendinga ásamt flokkaðri skrá um tökuorð. Ópr. vélrit frá 1984 (afrit afhent til varðveislu við íslenskudeild Manitobaháskóla, á Orðabók Háskólans, Málvísindastofnun, Þjóðháttadeild Þjóðminjasafns og Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi).