Greinar

Tvítyngi
Steingrímur Þórðarson

1. Þjóðir og tungumál

Ekki eru til áreiðanlegar tölur um fjölda tungumála í heiminum en stundum er talið að þau séu ekki færri en 5000. Ekki er heldur alltaf ljóst hvað átt er við með hugtakinu þjóð, þó oft nefni menn sameiginlegan uppruna tiltekins hóps fólks, trú þess og sögu. Algengt er líka að skilgreina þjóðir út frá tungumáli meginhluta þegnanna. Margar þjóðir tala þó fleiri en eitt tungumál og stundum gerólík, skrifa mál sín með ólíkum leturkerfum, aðhyllast ólíka trú og eiga sér ólíka sögu.

Þegar einstaklingar þurfa hvort heldur sem er sjálfviljugir eða nauðugir að tileinka sér annað tungumál en móðurmál sitt og hafa náð tiltekinni færni í nýja málinu er talað um að þeir séu tvítyngdir. Orðið er hugsað á sama hátt og enska orðið bilingual. Það er notað um þann sem elst upp við tvö tungumál eða hefur jafnt vald á tveimur tungumálum. Í ensku er orðið komið úr latínu bilinguis (bi ‘tví/tvennt’ + lingua ‘tunga’).

1.1 Ein- og fjöltyngdar þjóðir

Fáar þjóðir í veröldinni eru jafn skýrt afmarkaðar og sú íslenska. Flestir sem búa á Íslandi eru Íslendingar og tala íslensku. Hér er eitt málfélag. Flestir eru svipaðrar trúar og hafa svipaða afstöðu til þjóðarinnar og sjálfstæðis hennar og stöðu Íslands meðal þjóðanna. Fátt af þessu á við um mikinn meirihluta þjóða heimsins. Nærtækt dæmi um hið andstæða er í Belgíu þar sem menn velja sér búsetu eftir því hvort þeir tala flæmsku eða vallónsku og milli þeirra hópa er rígur sem skapar margvíslega örðugleika.

Oftast er þó talað um Belga sem eina þjóð. Aftur á móti er ekki hægt að segja það sama um íbúa margra landa í Afríku. Þar eru landamæri oft óljós og tilviljanakennd og víða háttar svo til að innan marka sama ríkis búa margar þjóðir með ólíka menningu. Fjölmörg málfélög eru þar í miklu nábýli og tungumál skipa ólíkan virðingarsess í hugum fólks og valdhafa. Til að bæta gráu ofan á svart eru tungumál heimamanna stundum sett skör lægra en sum evrópsk tungumál eins og t.d. enska og franska. Víða eru svo væringar milli fólks af ólíku þjóðerni og mismunandi tungur virka stundum sem þröskuldur þegar leitað er leiða til að koma á sáttum.

Margar þjóðir geyma aldalanga sögu af tví- eða fjöltyngi þegna sinna og af mörgum mismunandi mállýskum. Aðrar þjóðir hafa vegna landfræðilegrar legu lifað án beins samneytis við önnur tungumál eins og t.d. sú íslenska og mállýskumunur er hér tiltölulega lítill. Sú breyting hefur þó orðið á Íslandi á síðustu áratugum að til landsins er nokkur straumur útlendinga sem hyggjast dvelja hér um lengri eða skemmri tíma. Þeir bera með sér fjölbreytilega menningu, siði og framandi tungumál. Um aldamótin 2000 má gera ráð fyrir að yfir 70 tungumál verði móðurmál barna í íslenskum grunnskólum.

2. Skilgreining á tvítyngi

Til þess að skilgreina hugtakið tvítyngi þarf að líta til margra þátta. Er hægt að kalla fólk tvítyngt ef það talar eitt tungumál reiprennandi en aðeins hrafl í öðru? Er maður tvítyngdur ef hann nýtir annað tungumálið mjög sjaldan? Er hægt að líta svo á að fjölmargir Íslendingar séu tvítyngdir af því að þeir geta fullvel bjargað sér á ensku eða einhverju Norðurlandamáli? Er sá maður tvítyngdur sem les sér að fullu gagni tiltekið tungumál annað en móðurmál sitt en talar það ekki? Hvað með þann sem talar tiltekið mál en skrifar það ekki?

Svörin við þessum spurningum eru ekki einhlít og skilgreiningar eru ekki algildar. Oft er þó reynt að nálgast svör með því að greina á milli málnotkunar einstaklinga annars vegar og heilla samfélaga hins vegar. Þegar fræðimenn reyna að skýra hugtakið tvítyngi taka þeir tillit til fjölmargra ólíkra þátta, t.d. hvort afstaða einstaklinga til tiltekins tungumáls hafi mikið að segja um viðhald þess. Margir Íslendingar eru t.d. þeirrar skoðunar að fyrst og fremst þurfi að viðhalda íslenskri tungu til að viðhalda sjálfsforræðinu. Þó eru augljós margvísleg erlend áhrif í íslensku samfélagi og í íslenskri tungu.

Nútíma skilgreiningar á hugtakinu tvítyngi taka flestar til munar á NOTKUN og FÆRNI í tilteknu tungumáli. Þegar talað er um notkun tungumáls er oft átt við merkjanlega og mælanlega þætti eins og skrift. Þegar aftur á móti er talað um færni er fremur átt við þætti sem erfiðara er að njörva niður eins og hæfni til að nota viðeigandi orðaforða við tilteknar aðstæður eða blæbrigðaríka málnotkun. Margir gera þó lítið úr mun á notkun og færni í tungumáli en greina á milli meðvitaðs tungumálanáms og ómeðvitaðs. Þeir einskorða þá tvítyngishugtakið við fólk sem hefur alist upp við tvö tungumál á máltökuskeiði og náð valdi á þeim báðum án þess að stunda formlegt nám í öðru hvoru málinu.

Vandinn við skilgreiningu á tvítyngi liggur að nokkru leyti í því að oft eru teknir til samanburðar þeir sem aðeins tala eitt tungumál. Til að lýsa hluta þess vanda sem felst í ólíkum viðmiðum má spyrja hvort eðlilegt sé að bera saman árangur 100 metra spretthlaupara og árangur tugþrautarmanns í sömu grein án þess að hafa sérhæfingu í huga. Á sama hátt er hægt að spyrja hvort færni í tungumáli sem lært er af bók geti verið sambærileg við færni þess sem alist hefur upp við málið?

2.1 Ólíkar ástæður tvítyngis

Í sumum tilvikum flytjast menn af fúsum og frjálsum vilja milli málsvæða en stundum eru menn þvingaðir til að yfirgefa ættland sitt og leggja af móðurtungu sína. Þegar menn flytjast sjálfviljugir milli málsvæða og tileinka sér nýtt tungumál er það af ýmsum ástæðum.

Stundum kýs fólk að búa í tilteknu landi eða landsvæði af trúarástæðum. Nærtækt dæmi er af gyðingum í Ísrael. Einnig eru alþekkt dæmi af fólki sem er þvingað frá heimalandi sínu vegna trúarofsókna eins og raunin mun hafa verið í stríði Serba og Króata gegn múslimum í Bosníu. Í báðum tilvikum hlaut fjöldi manna að tileinka sér nýtt tungumál.

Fjölmargir hafa flust frá ættlandi sínu til annars lands í leit að betra lífsviðurværi. Þannig var með flesta landnemana sem fluttust til Bandaríkjanna á nítjándu öld og framan af þeirri tuttugustu. Ein afleiðing þeirra fólksflutninga er hin gríðarlega fjölbreytta flóra tungumála sem töluð er í Bandaríkjunum.

Þá má nefna þann hóp manna sem af ólíkum ástæðum kýs að samsamast annarri menningu en hann ólst upp við í heimalandinu. Sú mun vera raunin með marga Pakistana á Bretlandi.

Ótaldir eru þeir sem leggja á sig að læra nýtt tungumál til að öðlast tiltekna menntun eða bæta við sig námi eins og algengt er með marga Íslendinga.

Pólitískar aðstæður neyða fjölda manna til að flytjast milli landa. Það er hryggileg staðreynd að meira en 40 milljónir manna eru flóttamenn vegna stríðsátaka eða pólitískra óhæfuverka. Flóttamenn neyðast oft til að taka upp tungumál þess lands sem tekur við þeim, en aðrir verða að tileinka sér tungumál herraþjóðar sem hefur unnið í stríði.

Að lokum má nefna náttúruhamfarir hvers konar, svo sem flóð, eldgos og hungursneyð, sem leiða af sér fólksflutninga og ný sambýli ólíkra tungumála.

Hver svo sem ástæða hinna fullorðnu til að læra nýtt tungumál kann að vera eru börn sjaldnast spurð hvaða tungumál þau kjósi sem móðurmál. Þau fylgja oftast foreldrum sínum eða forráðamönnum og læra það tungumál eða þau tungumál sem fyrir þeim eru höfð. Ástæður þess að börn verða tvítyngd geta því verið af ýmsum toga. Sum alast upp við það að tvö tungumál eru töluð á heimilinu, mamma talar eitt mál og pabbi annað. Önnur alast upp við eitt tungumál heima en annað í leikskóla eða barnaskóla. Þá eru ótalin þau börn sem eiga tvítyngda foreldra sem blanda tungumálum þegar þau tala við börnin. Rannsóknir hafa þó sýnt að flest börn tvítyngdra foreldra fara að greina milli ólíkra tungumála við tveggja ára aldur.

Til einföldunar er hægt að segja að tvítyngi sé í megindráttum af tvennum toga: Annars vegar er hugtakið notað um þá sem ákveða sjálfir að tileinka sér nýtt tungumál. Hins vegar um þá sem ekki hafa um það val hvort þeir búa í nánu samneyti við fólk sem talar annað tungumál en þeirra eigið. Átt er við þá sem búa í landi eða á landsvæði sem umlukið er svæðum sem tilheyra öðru ríki eða eru frábrugðin að tungu og menningu. Einnig er átt við farandverkamenn og flóttamenn sem af einhverjum orsökum hafa neyðst til að hverfa frá ættlandi sínu. Í sumum tilvikum er ekki hætta á að menn glati menningu sinni en það getur valdið ómældum erfiðleikum ef börn glata móðurmáli sínu.

Stórir hópar manna eiga móðurmál sem ekki nýtur virðingar til jafns við þá tungu sem töluð er af meirihluta íbúa þar sem þeir búa. Þróunin er þá gjarna sú að móðurtungan lætur smátt og smátt undan fyrir áhrifum meirihlutamálsins. Oft tapa þá börn móðurmáli sínu en öðlast nýtt tungumál, í stað hins ákjósanlega að viðhalda móðurmáli sínu og öðlast jafnframt vald á nýju tungumáli og njóta þar með kosta tvítyngis.

Því er haldið fram að það taki ekki lengri tíma en sem nemur fjórum kynslóðum manna að tapa tungumáli sem ekki er við haldið.

Þessar staðreyndir eru forvitnilegar í ljósi þeirrar skoðunar margra fræðimanna að börn þurfi að ná ákveðinni færni bæði í móðurmáli sínu og því tungumáli sem snýr að þeim í skóla til að geta hagnýtt sér þann styrk sem felst í því að ráða yfir tveimur eða fleiri tungumálum og er talinn hafa jákvæð áhrif á vitsmunaþroska.

2.2 Lífseigar hugmyndir um tvítyngi

Fyrrum áttu rannsóknir, einkum bandarískar, að hafa sýnt fram á lægri greindarvísitölu tvítyngdra en eintyngdra. Vísitöluprófin sem þar voru lögð fyrir virðast þó ekki hafa verið óvefengjanleg heldur einmitt samin með tiltekna hópa í huga. Nýjar rannsóknir hafa aftur á móti leitt í ljós að tvítyngdir eru færari en hinir eintyngdu í að leysa af hendi ýmiss konar verkefni sem tengjast færni í málbeitingu, en annars er munur á greind eintyngdra og tvítyngdra ekki merkjanlegur.

Stundum var því haldið fram að tvítyngd börn ættu í erfiðleikum með sjálfsmynd sína og að þau vissu ekki hvaða hópi þau tilheyrðu ef foreldrar töluðu mismunandi tungumál á heimilinu og gerðu kröfu til þess að börn yrðu tvítyngd. Í nýlegri rannsókn fullyrti fjöldi fullorðinna tvítyngdra einstaklinga að það hefði aldrei vafist fyrir þeim hvaða hópi þeir tilheyrðu né hefði það að alast upp í tvítyngdu umhverfi haft veruleg áhrif á sjálfsmynd þeirra.

Því hefur verið haldið fram að þegar tvítyngdir orði hugrenningar sínar séu þær oft ruglingslegar og að þeir þýði í sífellu úr einu tungumáli á annað. Sannleikurinn er aftur á móti sá að tvítyngdir eiga ekki í vandræðum með að hugsa á tilteknu tungumáli og þýða samstundis á annað mál sé þess þörf.

2.3 Ávinningur af tvítyngi

Kostum þess að tala fleiri en eitt tungumál hefur stundum verið lýst með sögu af stelpu sem átti ein sólgleraugu með gulum glerjum. Þegar hún setti upp sólgleraugun sín sá hún veröldina einungis í gulum lit. Kunningi hennar átti aftur á móti tvenn sólgleraugu, önnur gul en hin blá. Meginmunurinn á aðstöðu krakkanna er sá að strákurinn sem á tvenn sólgleraugu hefur val um hvernig hann horfir á veröldina í kringum sig. Hann getur borið saman mismunandi litatóna eftir því hvor sólgleraugun hann hefur á nefinu. Hann getur líka deilt skynjun sinni með öðrum sem eiga gul og blá sólgleraugu og borið saman við sína eigin. Sá maður sem getur nýtt sér fleiri en eitt tungumál nýtur svipaðra forréttinda og strákurinn sem getur brugðið á sig mismunandi litum sólgleraugum og skynjað veröldina á annan hátt en sá sem einungis á ein sólgleraugu. Sá sem ræður yfir fleiri en einu tungumáli varðveitir lykil að annars konar menningu en sinni eigin og eykur því möguleika sína til mannlegra samskipta jafnframt því að geta öðlast víðsýni sem þeir sem aðeins tala eitt tungumál geta bara látið sig dreyma um. Íslendingur, sem aðeins talar íslensku, hefur margfalt minni möguleika á að nýta sér þá kosti sem bjóðast með tölvuvæðingu um víða veröld en sá sem ræður jafnframt yfir öðrum tungumálum. Það er auðvitað engin tilviljun að þau fyrirtæki sem náð hafa langbestum árangri í viðskiptum við Japana hafa í þjónustu sinni menn sem tala japönsku reiprennandi og eru vel að sér í japönskum hefðum og menningu.

Með rannsóknum hefur reynst unnt að sýna fram á ýmislegt sem gefur til kynna beinan ávinning þeirra sem ráða yfir tveimur eða fleiri tungumálum fram yfir þá sem aðeins tala eitt mál. Þar má nefna dýpri skilning á eðli tungumála, aukna hæfileika til sundurgreiningar, næmari lesskilning og aukna færni í stærðfræði.

Mismunandi tök á máli. Það er hægt að komast leiðar sinnar á einu hjóli (1) jafnvel þó annað hjólið sé stórt en hitt lítið (2). Samt kemst maður lengra þegar samræmi er í hjólastærð og passlegt loft í dekkjunum (3) að því tilskildu að þeir sem framleiða hjólin viti hvað þeir eru að gera (4).

Því hefur verið haldið fram að tæplega sé nokkur maður algerlega jafnfær á tvö tungumál. Flestir tvítyngdir nota tungumálin við ólíkar aðstæður og í mismunandi tilgangi, til dæmis annað tungumálið í vinnunni og hitt heima. Þegar öllu er á botninn hvolft er líklegast að sú skilgreining á tvítyngi sem flestir geta fallist á miðist annars vegar við færni og hins vegar við notkun. Með öðrum orðum: Greinarmunur er gerður á ákveðnu færnistigi á ímynduðum leiknikvarða annars vegar og hins vegar er spurt hversu vel tungumál gagnist einstaklingum til tiltekinna samskipta. Skilgreining á því hver sé tvítyngdur verður þannig sífellt matsatriði.

3. Opinber afskipti yfirvalda af tvítyngi þegnanna

Opinber stefna stjórnvalda um tungumál þegna sinna er afar mismunandi. Hún birtist með ýmsu móti, allt frá viðamiklum stuðningi við minnihlutamál til þess að vera fjandsamleg tungumáli tiltekins hluta þegnanna. Víðast sýnist þó ríkja eins konar mild afskiptaleysisstefna. Í nokkrum löndum er fólk hvatt og jafnvel nauðbeygt til að tileinka sér fleiri en eitt tungumál, einkum þar sem tungumál sérstaks samfélags nýtur ekki sömu virðingar og mál meginþorra íbúanna eða önnur útbreidd tungumál (t.d. enska eða spænska).

Sumar þjóðir skilgreina sig tví- eða fjöltyngdar. Á Indlandi eru töluð fleiri en 150 tungumál. Þar eru hindí og enska opinber mál en önnur indversk mál s.s. bengalí, marathí og úrdú og dravídamál eins og telúgú og tamíl eru einnig töluð. Í Sviss eru fjögur opinber mál: franska, ítalska, þýska og retórómanska og í Kanada eru enska og franska opinber mál. Því fer þó fjarri að flestir tvítyngdir búi einungis í löndum þar sem svo háttar til. Flestir hinna tvítyngdu lifa og starfa í samfélögum þar sem aðeins er eitt opinbert mál.

Sums staðar hafa valdhafar haft bein afskipti af tungumáli þegnanna og lögleitt tiltekna mállýsku sem opinbert mál og gert hana þar með rétthærri en aðrar mállýskur. Þekkt er dæmi frá Noregi þar sem gömul stéttaskipting varð þess valdandi að yfirstéttin kaus að tala málið á annan hátt en þorri landsmanna. Þar liggja rætur þess sem er nefnt bókmál. Á fyrri hluta 20. aldar var svo innleitt ritmál sem byggt var á vestur-norskum mállýskum og er kallað nýnorska. Bókmál og nýnorska eru jafnrétthá mál samkvæmt lögum í Noregi en tilraunir til að sameina þau hafa valdið áköfum deilum.

3.1 Móðurmálskennsla tvítyngdra

Einn er sá mælikvarði sem gefur meira til kynna um raunverulega afstöðu stjórnvalda til tvítyngis þegnanna en mörg orð og það er hvernig komið er til móts við þarfir tvítyngdra barna í skólum. Í meginatriðum hafa verið uppi viðhorf af tvennum toga. Annars vegar er lögð áhersla á að það stuðli að æskilegri fjölbreytni í hverju þjóðfélagi að leggja rækt við móðurmál allra. Minnihlutahópar eru hvattir til að viðhalda móðurmáli sínu og upprunaeinkennum því það er talið auka öryggiskennd barna og fullorðinna jafnframt því sem það stuðli að auknum vitsmunaþroska. Til að svo megi verða þarf kennsla að vera sniðin að þörfum tvítyngdra á öllum skólastigum. Hin síðari ár hefur þess konar kennslu vaxið fiskur um hrygg.

Aftur á móti þekkist einnig það viðhorf að umburðarlynd tvítyngistefna geti leitt til óæskilegrar skiptingar í þjóðfélagshópa. Þá er óttast að afleiðingarnar geti orðið þær að móðurmál verði eins og myllusteinn um háls barna sem nái ekki færni í máli meirihlutans og spjari sig því ekki í skóla og eigi öðrugt með að búa í haginn fyrir sjálf sig. Því er einnig stundum beitt sem rökum gegn móðurmálskennslu tvítyngdra barna að ófullnægjandi kennaramenntun, ónóg kennslugögn og lítt sveigjanlegt skipulag í skólum leiði til þess að tvítyngdir nemendur spjari sig ekki í eigin móðurmáli. Slíkar hugmyndir eru mjög á undanhaldi við lok tuttugustu aldar.

Þótt Íslendingar teljist ekki enn meðal þeirra þjóða sem helst leggja sig fram við að hlúa að tvítyngdum nemendum virðast þeir þó hafa gert sér grein fyrir gildi þess að viðhalda móðurtungu þeirra sem ekki eiga íslensku að móðurmáli og efla kennslu í henni. Til marks um það eru reglugerðarákvæði um íslenskukennslu nemenda með annað móðurmál en íslensku frá árinu 1996 þar sem segir: „Í skólum þar sem því verður við komið og með samþykki viðkomandi sveitastjórnar, skulu nemendur með annað móðurmál en íslensku fá kennslu í og á eigin móðurmáli í samráði við forráðamenn. Með kennslunni skal stefnt að virku tvítyngi þessara nemenda. Nemendur skulu hvattir til að halda móðurmáli sínu við og rækta það.“ (Stjtíð. B, nr. 391/1996, 5. gr.). Einnig er að finna metnaðarfulla kafla um sérstöðu barna með önnur móðurmál en íslensku í Aðalnámskrá grunnskóla 1999.

3.2 Kennsla og tvítyngdir nemendur

Oft eiga tvítyngdir nemendur erfitt með að fóta sig í byrjun skólagöngu þar sem þeir þurfa að læra á öðru tungumáli en móðurmáli sínu. Tvítyngdir nemendur eru alla jafna ekki frábrugðnir öðrum nemendum. Sumir eru afburðagreindir, aðrir eru mjög tregir en flestir einhvers staðar þar á milli. Líkt og aðrir nemendur þurfa þeir viðfangsefni við hæfi en umfram allt skilning á sérstöðu sinni. Kanadískur fræðimaður á sviði tvítyngis, Jim Cummins, hefur reynt að lýsa hluta þess vanda sem blasir við tvítyngdum nemendum í skólum og bendir jafnframt á íhugunarefni fyrir kennara þegar kemur að áætlun um hvernig skuli tekið tillit til sérstöðu tvítyngdra. Hann setur fram á myndrænan hátt hugmynd að árangursríkri áætlun sem miðar að því að tvítyngdir nemendur hafi sem mest gagn af viðfangsefnum í skólanum.

Cummins rammi. Hugmyndin er sú að nemendur færist úr einum fjórðungi í annan í skólagöngu sinni í samræmi við færni. Færslan úr fyrsta fjórðungi í þann þriðja ætti að ganga tiltölulega hratt ef nemandinn stendur vel að vígi í móðurmáli sínu. Tvítyngdum nemendum, sem eru góðir í fyrsta fjórðungi, er oft hrint í þann fjórða þegar kemur í framhaldsskóla án nægilegs stuðnings. Reynslan hefur sýnt að í þriðja fjórðungi þarf að þróa hið nýja tungumál áður en nemandinn er fær um að takast á við kröfurnar sem gerðar eru í fjórða fjórðungi. Fredricsen, N. og Cline, T. (1990). Curriculum Related Assessment with Bilingual Children: A Set of Working Papers. London. University of London.

Rannsóknir hafa sýnt að ein árangursríkasta aðferðin við að kenna nýtt tungumál er að kenna tiltekna námsgrein, t.d. líffræði, á því tungumáli sem ætlast er til að nemandinn tileinki sér. Samkvæmt því ætti ekki að leggja ofuráherslu á fræðslu um það tungumál sem nemandinn á að tileinka sér heldur auka þann þátt sem snýr að orðaforða tiltekinnar fræðigreinar.

3.3 Ólík færnistig í nýju tungumáli

Meðal þeirra þjóða sem lengst eru komnar í rannsóknum á tvítyngi er jafnan greint milli tveggja færnistiga þeirra einstaklinga sem eru að tileinka sér nýtt tungumál. Annars vegar er skilgreint svokallað ‘samræðustig’ þar sem einstaklingurinn hefur einungis vald á takmörkuðum og fremur hlutbundnum orðaforða. Hins vegar er svonefnt ‘fræðilegt’ stig þar sem krafist er næms skilnings á texta þar sem fræðileg efni eru til umfjöllunar.

Í viðamiklum bandarískum og kanadískum rannsóknum á tvítyngdum nemendum kom í ljós að þeir ná jafnan talsverðri færni á samræðustigi á 1–2 árum. Hins vegar tekur miklu lengri tíma, að minnsta kosti 5–7 ár, að öðlast þá færni sem krafist er til að geta lært og tileinkað sér efni sem fjallað er um á fræðilegan hátt. Einna merkasta niðurstaðan úr þessum rannsóknum var merkjanleg aukning vitsmunaþroska þeirra nemenda sem lögð var rækt við að kenna móðurmálið jafnhliða nýja tungumálinu. Rannsóknirnar leiddu einnig í ljós að ekki var merkjanlegur verulegur jákvæður árangur af tvítyngi fyrr en nemendur voru orðnir mjög færir bæði í móðurmáli og því tungumáli sem þeir voru að tileinka sér. Meginályktun af þessum rannsóknum var því sú að yfirvöld menntamála ættu að beita sér fyrir því að tvítyngdum nemendum væri gert kleift að leggja rækt við eigið móðurmál meðan þeir væru að tileinka sér annað tungumál. Rökin voru helst þau að með því móti mættu hinir tvítyngdu njóta raunverulegs ávinnings af tvítyngi sínu í stað þess að glíma við erfiðleikana sem eru því samfara ef móðurmálskunnáttan byggist ekki á traustum grunni og kunnátta í nýja málinu er brotakennd.

4. Að læra nýtt tungumál

Hér er stafrétt uppskrift á stuttum stíl 17 ára unglings sem á mandarín kínversku að móðurmáli en hefur verið í íslenskum skólum í 4 ár.

Styrkur nemandans í íslenskri stafsetningu er auðsær. Einnig sést að orðaröð er jafnan rétt og varla á nokkur Íslendingur í vandræðum með að átta sig á frásögninni. Mörg frávikin eða „villurnar“ eru algengar hjá þeim sem er að læra erlent beygingamál. Nemandinn á í erfiðleikum með að ákvarða flóknar sagnmyndir og sumar beygingar fallorða eru rangar. Aðalatriðið er þó að hann er á mjög góðri leið með að ná tökum á nýju tungumáli.

Yeti: snjómaður í Everestfjöllinu

Hvað er Yeti? Sumur fólkið hefur séð þeim í Nepalese fjöllinu. Yeti bý rétt hjá topp á Everestfjöllin, í snjói. Han er u.þ.b. 2 1/2 metra hár, og ganga með tveimur fótleggur. Andliti hans er svolítið eins og okkur, en hann með mjög sítt brún hárið á alstaða. Yeti er háfur maður hálfur dýr.
Sumir fólk var að leita Yeti, en fann engin. En þeir kem með nokkuð myndir, og sumir fann fótspor (footprints) af Yeti.
Eru Yeti á Everestfjöllinu eða ekki? Tom Slick fór til Everestfjöll líka, og tók hann nokkrar mjög skrýtin myndir. Myndin sýnd stór fótspor (footprints) á snjó.
„Það eru ekki venjuleg fótspor úr fólk,“ Tom Slick sagði „þetta er úr Yeti!“
Hann líka kem með hárið af Yeti líka. Hefi Tom Slick sá Yeti? „Nei! Ég var ekki. Er þarna er til Yeti á Everestfjöllinu. Ég veit það!“

Heimildir sem stuðst er við

Aðalnámskrá grunnskóla. Íslenska. 1999. Reykjavík. Menntamálaráðuneytið.

Ásgeir Blöndal Magnússon. 1989. Íslensk orðsifjabók. Orðabók Háskólans, Reykjavík.

Baker, C. 1996. Foundations of Bilingualism. Multilingual Matters Ltd, Clevedon.

Baldur Ragnarsson. 1992. Mál og málsaga. Mál og menning, Reykjavík.

Bilingualism, Community Languages and Scottish Education. [Consultative Document]. 1998. Centre for Education for Racial Equality in Scotland.

Crystal, D. 1987. The Cambridge Encyclopedia of Language. Cambridge University Press, Cambridge.

Cummins, J. 1989. Empowering Minority Students. California Association for Bilingual Education, Sacramento.

Cummins, J. 1991. Conversational and Academic Language Proficiency in Bilingual Context. Í J. H. Hulstijn og J. F. Matter (ritstj.). Reading in Two Languages. AILA Review. Free University Press, Amsterdam.

Equality Assurance in Schools. Quality, Identity, Society. A handbook for action planning and school effectiveness 1997. Stoke-on-Trent. Trentham Books with the Runnymede Trust.

Fredricsen, N. og Cline, T. 1990. Curriculum Related Assessment with Bilingual Children: A Set of Working Papers. University College London, London.

Gravelle, M. 1996. Supporting Bilingual Learners in Schools. Trentham Books Ltd, Stoke-on-Trent.

Gregory, E. 1996. Making Sense of a New World: Learning to read in a second language. Paul Chapman Publishing Ltd, London.

Haugen, E. 1972. Dialect, Language, Nation. Í J. B. Pride og J. Holmes (ritstj.). Sociolinguistics. Penguin, Harmondsworth.

James, C. 1998. Errors in Language Learning and Use. Exploring Error Analysis. Longman, London.

Jón Ormur Halldórsson 1994. Átakasvæði í heiminum. Mál og menning, Reykjavík.

Katzner, K. 1995. The Languages of the World. Routledge, London.

Kunøe, M. 1980. Mál barna mótast af umhverfi. Í Indriði Gíslason og Jón Gunnarsson (ritstj.). Mál og máltaka. Þýðing: Guðrún Sóley Guðjónsdóttir. (Bls. 162–166). Iðunn, Reykjavík.

Landon, J. o. fl. 1994. Languages for life. Bilingual Pupils 5–14. Scottish CCC, Dundee.

Richards, J. (ritstj.) 1984. Error Analysis. Perspectives on Second Language Acquisition. Longman, London.

Stjtíð. B, nr. 391/1996, 5. gr.