Erlendir málfræðingar

Leonard Bloomfield

1887–1949

Bandarískur málfræðingur. Bloomfield nam við Harvard-háskóla, Wisconsin-háskóla í Madison og Chicago-háskóla þar sem hann lauk doktorsprófi; enn fremur stundaði hann framhaldsnám í háskólunum í Leipzig og Göttingen. Prófessor í germanskri samanburðarmálfræði við Chicago-háskóla (1927–40) og síðan í málvísindum við Yale-háskóla (1940–49). Bloomfield var í upphafi samanburðarmálfræðingur með aðaláherslu á germönsk mál en fékk fljótlega áhuga á tungumálum annarrar ættar og sneri sér nær alfarið að almennum málvísindum. Hann rannsakaði ýtarlega ýmis malaísk-pólínesísk mál (sérstaklega tagalog, mál talað á Filippseyjum) og var einn af brautryðjendum í rannsóknum á málum indíána Norður-Ameríku. Hann var hallur undir atferlisstefnu, enda átti sú hugmyndafræði vel við rannsóknir hans. Málin sem hann rannsakaði áttu mörg hver ekki ritmál og þurfti því að byggja mállýsingu á málhöfum, þ.e. að skoða málið í sínu eðlilega umhverfi í orðræðu eða atferli málhafanna. Frægasta rit hans, Language (1933), er einn af hornsteinum málvísinda á tuttugustu öld og hafði mikil áhrif á fræðilega hugsun og iðkun málvísinda, sérstaklega í Bandaríkjunum. Áhrifa Bloomfields gætti ekki síst í því að hann leit á málvísindi sem vísindagrein líkt og raunvísindi og náttúruvísindi og leit á hina ýmsu hluta tungumálsins sem vísindaleg gögn sem hægt væri að rannsaka sjálfstætt án tengsla við t.d. mannshugann og starfsemi hans eða annað í umhverfi málsins. Þessi skoðun hans hafði m.a. mikil áhrif á formgerðarstefnuna (strúktúralismann) í Bandaríkjunum.

Franz Boas

1858–1942

Þýskur mannfræðingur og málfræðingur. Boas lauk doktorsprófi í eðlisfræði frá Kílarháskóla 1881 en þegar hann dvaldist veturlangt á Baffinseyju við rannsóknir kviknaði áhugi hans á mannfræði. Eftir það fluttist hann til Bandaríkjanna þar sem hann kenndi við Clark-háskóla og síðar Columbia og var meðal annars einn af ritstjórum tímaritsins Science. Í rannsóknum sínum einbeitti Boas sér að indíánum á norðvesturströnd Bandaríkjanna og undir hans stjórn varð Columbia að miðstöð mannfræðirannsókna þar í landi. Hann var ritstjóri mikillar handbókar um tungumál indíana (Handbook of American Indian Languages, 1911) þar sem hann lagði á það áherslu að tungumálin væru rannsökuð á eigin forsendum en ekki út frá málfræði indóevrópskra mála. Boas safnaði gríðarmiklum gögnum um tungumál indíána sem eru grunnurinn að þekkingu okkar á tungumálum í þessum heimshluta.

Franz Bopp

1791–1867

Þýskur málfræðingur, einn af brautryðjendum samanburðarmálfræðinnar. Bopp fékk þegar á unglingsaldri mikinn áhuga á Austurlandafræðum sem einkum verður rakinn til hinnar frægu bókar Friedrichs von Schleicher um mál og vísdóm Indverja (Ueber die Sprache und Weisheit der Indier, 1808), og 1812–17 dvaldist hann í París þar sem hann nam sanskrít, hið forna mál Indverja, persnesku og arabísku. Þaðan fór hann til Lundúna þar sem hann einbeitti sér að sanskrít og 1820 fluttist hann aftur til Þýskalands þar sem háskólinn í Göttingen veitti honum heiðursdoktorsnafnbót. Árið eftir var honum veitt prófessorsstaða í Austurlandamálum og almennum málvísindum við Berlínarháskóla sem hann gegndi til dauðadags. Þegar hann var tuttugu og fimm ára gamall Parísarstúdent gaf hann út verk sitt um sagnbeygingu sanskrítar í samanburði við grísku, latínu, persnesku og germönsk mál (Über das Conjugationssystem der Sanskritsprache in Vergleichung mit jenem der griechischen, lateinischen, persischen und germanischen Sprache, 1816) sem gjarna er talið marka upphaf samanburðarmálfræðinnar. Á þessum tíma höfðu menn þegar áttað sig á því að sanskrít væri skyld latínu og grísku og ýmsum öðrum Evrópumálum en Bopp var fyrstur til að bera saman á kerfisbundinn hátt beygingarkerfi þessara tungumála. Í stað þess að fylgja indverskri málfræðihefð lýsti hann beygingarkerfi sanskrítar að evrópskum hætti sem gerði honum ekki aðeins kleift að koma auga á samsvaranir sanskrítar, latínu og grísku heldur veitti hann einnig öðrum fræðimönnum aðgang að þessari forntungu Indverja. Bopp rannsakaði enn fremur keltnesku, albönsku og fornprússnesku og áherslu í indóevrópskum málum en höfuðrit hans er fyrsta allsherjarmálfræði indóevrópskra mála (Vergleichende Grammatik des Sanskrit, Send, [Armenischen], Griechischen, Lateinischen, Lithauischen, [Altslawischen], Gothischen und Deutschen) sem kom út í sex bindum á árunum 1833–52.

Karl Brugmann

1849–1919

Þýskur málfræðingur; nam við háskólana í Jena og Leipzig (hjá Curtius); prófessor við háskólann í Freiburg um hríð, en lengst af við háskólann í Leipzig. Brugmann er óumdeildur leiðtogi ungmálfræðinganna en hann ritaði innganginn að verki þeirra Hermanns Osthoffs um beygingarkerfi indóevrópskra mála (Morphologische Untersuchungen auf dem Gebiete der indogermanischen Sprachen, 1878–1910), sem varð eins konar óformleg stefnuyfirlýsing ungmálfræðinganna. Brugmann var gríðarlega afkastamikill fræðimaður og áhrifamikill kennari, enda sóttu til hans í Leipzig nemendur hvaðanæva. Rit hans, bækur og tímaritsgreinar, skipta hundruðum en umfangsmesta og þekktasta verk hans er án vafa hljóðsögu- og beygingarfræðihlutinn (1.–2. bindi) í hinni miklu indóevrópsku málfræði (Grundriss der vergleichenden Grammatik der indogermanischen Sprachen) sem hann samdi í félagi við Berthold Delbrück og kom fyrst út á árunum 1886–93. Þetta var þriðja atlagan að allsherjarmálfræði indóevrópskra mála, næst á eftir verkum Franz Bopps og Augusts Schleichers, og var langt fram á tuttugustu öld undirstöðurit í þeim fræðum.

Avram Noam Chomsky

f. 1928

Bandarískur málfræðingur, upphafsmaður málmyndunarfræði sem verið hefur ríkjandi stefna í málvísindum á seinni hluta tuttugustu aldar. Nam við Pennsylvaníuháskóla í Fíladelfíu og lauk doktorsprófi þaðan 1955; fræðimaður við Harvard-háskóla 1951–55, prófessor við Massachusetts Institute of Technology (MIT) síðan 1955. Þegar í fyrstu bók sinni, Syntactic Structures (1957), sem markaði upphaf málmyndunarfræðinnar (e. &einfgaes1;generative grammar&einfgaes2;), viðraði Chomsky hugmyndir sem ollu straumhvörfum í málvísindum. Kjarninn í þeim er sá að nauðsynlegt sé að greina á milli djúpgerðar setninga og yfirborðsgerðar og er viðfangsefni málmyndunarfræðinnar að þróa greiningaraðferð sem lýsir og skýrir þróun setningabyggingar frá djúpgerð til yfirborðsgerðar. Líkt og Saussure greinir Chomsky á milli meðfæddrar málhæfni (e. ‘competence&’) og málbeitingar (e. ‘performance&’). Málhæfnin eða þekking einstaklingsins á reglum málsamfélagins liggur að baki og er forsenda málbeitingarinnar þ.e. hinnar eiginlegu notkunar málsins. Chomsky álítur að hlutverk málvísinda sé að rannsaka málhæfnina, ekki aðeins að lýsa henni eins og hún birtist í einstökum tungumálum heldur greina þá grunnþætti hennar eða algildi (e. ‘linguistic universals&’) sem liggja til grundvallar öllum tungumálum heimsins – enda sé hæfileikinn til mannlegs máls meðfæddur hluti mannshugans. Snar þáttur í kenningakerfi Chomskys, sem hefur tekið allnokkrum breytingum í áranna rás, er aðferðin við að lýsa virkni málhæfninnar, þ.e. þeim reglum sem breyta setningalegri, hljóðkerfislegri og merkingarlegri djúpgerð í yfirborðsgerð; því hefur þessi gerð málfræði gjarna verið kölluð ummyndanamálfræði (eða reglumálfræði; e. ‘transformational grammar&’). Meðal rita Chomskys má nefna: Syntactic Structures (1957), Aspects of the Theory of Syntax (1965), Language and Mind (1968, ísl. Mál og mannshugur 1973), The Sound Pattern of English (ásamt Morris Halle, 1968) og Lectures on Government and Binding (1981).

Georg Curtius

1820–85

Þýskur málfræðingur og textafræðingur; nam við háskólana í Bonn (hjá Schlegel meðal annarra) og Berlín (hjá Bopp meðal annarra); kenndi við háskólann í Berlín, gegndi síðan stöðu prófessors við Pragarháskóla, þá Kílarháskóla og loks háskólann í Leipzig. Curtius lagði öðru fremur stund á gríska og latneska málfræði og textafræði og var eitt þekktasta verk hans á sviði grískrar samanburðarmálfræði (Grundzüge der griechischen Etymologie, 1858–62). Curtius var einkar áhrifamikill kennari og er hans ekki síst minnst fyrir þátt hans í þjálfun nýrrar kynslóðar málfræðinga í Leipzig er nefndir voru ungmálfræðingar; þekktastur stúdenta hans úr þeim hópi er vafalaust Karl Brugmann. Curtius var þó jafnan gagnrýninn á hugmyndafræði ungmálfræðinganna og leiddi fræðilegur ágreiningur til vinslita hans við hinn unga Karl Brugmann.

Berthold Delbrück

1842–1922

Berthold Delbrück (1842–1922): Þýskur málfræðingur; nam við háskólana í Halle og Berlín (hjá Karls Brugmanns (Grundriss der vergleichenden Grammatik der indogermanischen Sprachen, 1886–93). Delbrück var atkvæðamikill í hópi ungmálfræðinganna og kennslubók hans í samanburðarmálfræði (Einleitung in das Sprachstudium: Ein Beitrag zur Methodik der vergleichenden Sprachforschung, 1880, endurútgefin 1893) bæði skýrði og treysti í sessi helstu aðferðir þeirra og skoðanir.

Aelius Donatus

4. öld e.Kr.

Rómverskur málfræðingur og rökfræðikennari. Merkasta framlag hans til fræðanna voru tvö verk, Ars minor og Ars maior. Ars minor var skrifað fyrir unga nemendur og veitti þeim grunnþekkingu á hinum átta hlutum orðræðunnar en Ars maior, í þremur bindum, fjallar um grundvallaratriði málfræðinnar, hina átta hluta orðræðunnar og fallegt mál og vont. Rit Donatusar geta ekki talist frumleg í þeim skilningi að þar hafi birst nýjungar í málfræði en fá rit hafa haft jafnmikil áhrif. Ars minor var notað í kennslu allar miðaldir og Ars maior var eitthvert mest notaða latneska málfræðiritið fram eftir öldum.

Joseph H. Greenberg

f. 1915

Bandarískur mannfræðingur og málfræðingur; þekktastur fyrir rannsóknir sínar á skyldleika Afríkumála og algildum tungumála. Nam við Columbia- og Northwestern-háskóla; kenndi við Minnesota-háskóla og Columbia en lengst af við Stanford-háskóla. Greenberg ávann sér fyrst frægð á sjötta áratugnum fyrir rannsóknir sínar á Afríkumálum og flokkun þeirra eftir skyldleika. Afríkumálin, sem eru rúmlega eitt þúsund talsins, höfðu verið greind í tugi lítilla fjölskyldna án nokkurra skýrra tengsla en Greenberg tókst að greina fjórar meginfjölskyldur, afró-asísk mál (áður kölluð hamísk-semísk mál), níger-kordófanmál, Nílar-Saharamál og khoisanmál. Þessi flokkun Greenbergs mætti nokkurri andstöðu í upphafi en er nú viðurkenndur grunnur allra rannsókna á Afríkumálum. Í kjölfar þessa sneri Greenberg sér að málum Nýju-Gíneu og nágrennis og komst að þeirri niðurstöðu að hundruð mála á þeim slóðum tilheyrðu aðeins tveimur fjölskyldum, ástrónesískum málum og Indó-Kyrrahafsmálum. Rannsóknir Greenbergs á Ameríkumálum leiddu í ljós að mál frumbyggja Suður- og Norður-Ameríku væru öll af sama meiði og mætti greina þar þrjár meginfjölskyldur, eskimóa-aleut, na-denemál og amerindmál. Kenningar Greenbergs um þrjár fjölskyldur Ameríkumála urðu þegar í stað afar umdeildar er hann kynnti þær 1956 en erfðafræðirannsóknir hafa rennt undir þær stoðum þótt margir telji að ekki séu enn öll kurl til grafar komin. Samhliða þessum rannsóknum setti Greenberg fram kenningar um ýmis ALGILDI TUNGUMÁLA, einkum hvað varðar orðaröð. Til að mynda hefur hann bent á að af sex mögulegum setningagerðum með tilliti til stöðu frumlags (S), andlags (O) og umsagnar (V) eru tvær gerðir ríkjandi í málum heimsins, SOV og SVO, en VSO er ekki eins algeng, og hinar þrjár gerðirnar (VOS, OSV, OVS) eru sjaldgæfar eða fyrirfinnast ekki.

Herbert Paul Grice

1913–1988

Heimspekingur. Grice var fastur kennari við Oxford háskóla frá því á fjórða áratug 20. aldarinnar og fram til 1967. Árið 1967 fékk hann stöðu við Kaliforníuháskóla í Berkeley. Hann fór á eftirlaun 1979 en hélt áfram að kenna til 1986. Kenningar H.P.Grice eru fyrirferðarmiklar í nútíma málnotkunarfræði og orðræðugreiningu. Einna hæst ber þar skilgreiningar hans á merkingu, vísbendum sem liggja utan við tungumálið sjálft og samvinnulögmáli sem hann taldi að menn stefndu alltaf að í samtölum. Mikilvægustu hugmyndir hans komu fram í William James fyrirlestrum hans í Harvard háskóla árið 1967. Fyrirlestrarnir voru gefnir út endurskoðaðir árið 1989 í ritgerðasafni Grice Studies in the Way of Words.

Jacob Ludwig Carl Grimm

1785–1863

Þýskur málfræðingur, einn af frumkvöðlum samanburðarmálfræðinnar; las lög við háskólann í Marburg; bókavörður í Kassel, prófessor við háskólana í Göttingen og Berlín. Á bókavarðarárum sínum fékkst Grimm mikið við textafræðirannsóknir og glímdi einkum við fornháþýska og miðháþýska texta. Þessar rannsóknir leiddu til uppgötvana hans um i-hljóðvarp og urðu grunnurinn að hinni miklu þýsku málfræði hans, Deutsche Grammatik, en fyrsta bindi hennar birtist 1819 (og 2.–4. bindi 1826–37). Grimm var undir miklum áhrifum af verkum danska málfræðingsins Rasmusar Christians Rasks og í kjölfar rannsókna Rasks á uppruna íslenskrar tungu, er birtust opinberlega 1818 endurskrifaði Grimm algjörlega fyrsta bindi málfræðibókar sinnar. Í hinni nýju gerð, sem út kom 1822 og fjallar nær einvörðungu um hljóðþróun germanskra mála, byggir hann mikið á efniviði frá Rask og lýsir á kerfisbundinn hátt þróun lokhljóðakerfisins, fyrst frá indóevrópska frummálinu til frumgermönsku og síðan áfram til fornháþýsku. Grimm leit á þetta sem samfellda þróun í tveimur þrepum er nefnd hafa verið GERMANSKA HLJÓÐFÆRSLAN (e. ‘Grimm's Law, the First/Germanic Consonant Shift&’, þ. ‘die germanische Lautverschiebung&’) og FORNHÁÞÝSKA HLJÓÐFÆRSLAN (e. ‘the Second/Old High German Consonant Shift&’, þ. ‘die althochdeutsche Lautverschiebung&’). Auk þessa ritaði Grimm sögu þýskrar tungu í tveimur bindum, Geschichte der deutschen Sprache (1848), og ásamt bróður sínum, Wilhelm Grimm (1786–1859), hóf hann að efna til geysimikillar orðabókar er geyma skyldi öll þýsk orð að fornu og nýju, Deutsches Wörterbuch; aðeins fyrsta bindið kom út á meðan þeir bræður voru báðir á lífi (1854) en verkinu var haldið áfram og 16. og síðasta bindið kom út 1960, um hundrað árum eftir dauða þeirra. Auk málfræðistarfa vann Grimm með bróður sínum að söfnun þjóðsagna og ævintýra. Þjóðsagnasafn þeirra, Kinder- und Hausmärchen (1812–22, ísl. Grimms ævintýri (úrval) 1922–37) var brautryðjendaverk sem kom af stað skriðu þjóðfræðasöfnunar víða um heim og lagði grunninn að fræðilegum rannsóknum á því sviði.

Louis Trolle Hjelmslev

1899–1965

Danskur málfræðingur, einn af forvígismönnum formgerðarstefnunnar (strúktúralismans); nam við Kaupmannahafnarháskóla, Pragarháskóla og í París; gegndi prófessorsembætti við háskólann í Árósum en lengst af í Kaupmannahöfn. Hjelmslev hlaut hefðbundna menntun í sögulegum málvísindum en ævistarf hans var á sviði formgerðarstefnunnar. Hjelmslev var undir sterkum áhrifum Saussure og þróaði (í samvinnu við Hans Jørgen Uldall) aðferðafræði sem á ensku hefur gengið undir heitinu ‘glossematics&’ þar sem megináhersla er lögð á þá kennisetningu Saussures að mikilvægi eininga tungumálsins felist ekki í innihaldi þeirra eða eiginleikum heldur því að þær eru ólíkar og má greina hverja frá annarri. Hjelmslevs skrifaði meðal annars um eðlisþætti málfræðinnar (Principes de grammaire générale, 1928; Omkring Sprogteoriens Grundliggelse 1943; og eftir lát hans kom út Résumé of a Theory of Language, 1977), um orðhlutafræði (Essai d'une théorie des morphèmes, 1936) og setningafræði (Le verbe et la phrase nominale, 1948).

Wilhelm von Humboldt

1767–1835

Prússneskur stjórnmálamaður og fræðimaður, bróðir vísindamannsins og landkönnuðarins Alexanders von Humboldt. Meðfram öðrum störfum lagði Humboldt stund á grísku, ferðaðist til Baskahéraðanna og nam basknesku, las sanskrít undir leiðsögn Franz Bopps en þekktasta verk hans er þriggja binda verk um kawi, mál talað á Jövu, er gefið var út eftir hans dag (Über die Kawi Sprache auf der Insel Java, 1836–39). Í efnismiklum inngangskafla þessa verks fjallar hann um fjölbreytileika mannlegs máls, tengsl málsins og mannshugans og lýsir ákveðnum algildum sem sameiginleg séu öllum tungumálum. Þessar hugmyndir Humboldts um eðli tungumála og algildi höfðu ekki einvörðungu mikil áhrif á þróun málvísinda á nítjándu öld heldur hafa málvísindamenn tuttugustu aldar á borð við Noam Chomsky einnig leitað í smiðju hans.

Roman Jakobson

1896–1982

Rússneskur málfræðingur en bjó lengst af í Bandaríkjunum. Sérfræðingur í slafneskum fræðum og einn af forvígismönnum Pragarskólans. Jakobson varð prófessor í rússnesku við háskólann í Moskvu 1920 en 1933 hóf hann samskipti við Masarykova-háskólann í Brno í Tékkóslóvakíu og gerðist þar prófessor í rússneskri fílólógíu ári seinna. Fljótlega flúði hann þó til vesturs vegna stjórnmálaástandsins í Austur-Evrópu og dvaldist um tíma í Ósló, Kaupmannahöfn og Stokkhólmi. 1941 fluttist hann til Bandaríkjanna og kenndi við Columbia-háskólann 1943–49 og varð síðan prófessor í slafneskum málum og bókmenntum og almennum málvísindum við Harvard-háskóla 1949–67. Áhugi Jakobsons beindist í upphafi að hljóðfræði og hljóðkerfisfræði og þróaði hann ásamt félögum sínum í Pragarskólanum, þeim Trubetskoj og Karcevskij, nýjar leiðir í rannsóknum á þessu sviði undir merkjum formgerðarstefnu. Þeir lögðu áherslu á aðgreinanlegar einingar málsins, hvernig þessar einingar mynda andstæður og hvernig andstæðurnar mynda heildstætt kerfi eða formgerð málsins. Þeir töldu að þessum rannsóknaraðferðum mætti beita á málið jafnt í samtímalegu samhengi sem sögulegu. Hugmyndir Jakobsons koma m.a. fram í ritum hans þar sem hann fjallar um hljóðkerfi rússnesku í samanburði við önnur slafnesk mál (Remarques sur l'évolution phonologique du russe comparée à celles des autres langues slaves, 1929) eða skyldleika evrasískra tungumála (Kharakteristichke yevrasi-yskogo yazikovogo soyuza, 1931). Það væri þó mikil einföldun að kenna Jakobson eingöngu við Pragarskólann og formgerðarstefnu því hann stundaði rannsóknir á ýmsum sviðum. Hann skrifaði talsvert um máltöku barna og málstol en þó mest um hljóðfræði og hljóðkerfisfræði; helstu verk hans á því sviði eru Preliminaries to Speech Analysis (1952), sem hann ritaði ásamt C. Gunnar M. Fant og Morris Halle og er eitt af grundvallarritum í málvísindum tuttugustu aldar, og Fundamentals of Language (1956) sem hann skrifaði ásamt Halle. Auk þess liggur talsvert eftir hann af efni um bókmenntir, ekki síst slafneskar bókmenntir og hefðir.

Otto Jespersen

1860–1943

Danskur málfræðingur; nam í Kaupmannahöfn, Oxford, París og Berlín; að námi loknu var honum veitt prófessorsstaða í ensku við Kaupmannahafnarháskóla sem hann gegndi til æviloka. Jespersen er án efa þekktastur fyrir enska málfræði í sjö bindum (Modern English Grammar on Historical Principles, 1909–49), en hann vann ekki síður mikilvægt starf á sviði hljóðfræði: meðal annars hannaði hann táknkerfi til nota við danskar mállýskurannsóknir, var einn af stofnendum alþjóðasamtaka hljóðfræðinga, International Phonetic Association (IPA), 1886 og átti þátt í mótun táknkerfis þeirra samtaka. Meðal þekktustu verka hans á sviði hljóðfræði eru Lehrbuch der Phonetik (1904) og Phonetische Grundfragen (1904). Í tengslum við áhuga sinn á tungumálakennslu og bættum samskiptum þjóða með aukinni tungumálakunnáttu tók hann þátt í að skapa alþjóðleg hjálparmál á borð við esperantoafbrigðið ido en enn fremur þróaði hann sjálfur málið novial.

Sir William Jones

1746–94

Enskur málfræðingur sem lagði grunninn að rannsóknum á skyldleika indóevrópskra mála. Jones virtist eiga auðvelt með að tileinka sér mál og kunni skil á alls 28 málum. Hann stundaði nám í Oxford og sýndi sérstakan áhuga á arabísku og persnesku; hann þýddi allnokkuð úr þeim málum og gaf út persneska málfræði (Grammar of the Persian Language, 1771) sem var prentuð margoft og enn fremur þýdd á frönsku. Af fjárhagslegum ástæðum sneri hann sér að lögfræðistörfum að námi loknu og 1783 hóf hann störf sem dómari í Kalkútta á Indlandi. Fljótlega eftir komuna til Indlands fór Jones að kynna sér sanskrít, forntungu Indverja, og stofnaði árið 1784 félagsskap áhugamanna um indversk og asísk fræði. Árið 1786 hélt hann fyrirlestur hjá félaginu þar sem hann hélt því fram að málkerfi sanskrítar væri svo líkt málkerfi grísku og latínu, bæði hvað varðar rætur sagna og beygingar, að óhugsandi væri að um tilviljun gæti verið að ræða. Þarna hafði Jones fyrstur manna hreyft þeirri hugmynd að sanskrít væri skyld grísku og latínu og nánari skýringu á eðli þess skyldleika setti hann fram í ritgerð sem hann skrifaði þetta sama ár um persnesku en þar telur hann að umrædd mál séu svona lík vegna þess að þau séu öll runnin af sömu rót, sömu tungu sem hugsanlega sé ekki lengur til. Með þessum hugmyndum, annars vegar um skyldleika sanskrítar, grísku og latínu og hins vegar um að mörg tungumál geti þróast frá sameiginlegri frumtungu og myndað málafjölskyldu, lagði Jones grunninn að þeirri grein málvísinda sem nefnd hefur verið indóevrópsk samanburðarmálfræði. Jones var mikill áhugamaður um fornindverska menningu og var frumkvöðull í þýðingum á indverskum fornritum en hann skrifaði einnig mikið um menningu Indverja að fornu og nýju.

William Labov

f. 1927

Bandarískur málfræðingur. Labov hafði starfað um hríð í efnaiðnaði þegar hann hóf nám í málvísindum við Columbia-háskólann; hann lauk doktorsprófi 1964 og kenndi þar fyrst um sinn en frá 1970 hefur hann verið prófessor við Pennsylvaníuháskóla. Labov er brautryðjandi í mállýskurannsóknum í bandarískri ensku, ekki síst rannsóknum á mállýskum ólíkra stétta og þjóðernisminnihluta í stórum borgarsamfélögum, og hefur haft forystu um ýmsar nýjungar í aðferðafræði á því sviði: hann leggur ríka áherslu á að ná þverskurði af samfélaginu með því að velja í rannsóknum sínum málhafa af báðum kynjum, úr öllum stéttum, aldurshópum og þjóðernishópum og hafa rannsóknir hans leitt í ljós sterk tengsl málbrigða og þessara félagslegu þátta. Meðal rita Labovs má nefna The Social Stratification of English in New York City (1966), Sociolinguistic Patterns (1972) og Language in the Inner City (1972).

August Leskien

1840–1916

Þýskur málfræðingur; nam hjá Curtius við háskólana í Kíl og Leipzig og einnig við háskólana í Jena (hjá Schleicher) og Göttingen; kenndi í Göttingen og Jena en gegndi lengst af prófessorsembætti við háskólann í Leipzig. Leskien var afar afkastamikill fræðimaður og óumdeildur leiðtogi á sviði baltó-slafneskra málvísinda. Hann var einnig einn af mikilvægustu hugmyndasmiðum ungmálfræðinganna og er útkoma bókar hans um beygingarkerfi baltó-slafneskra og germanskra mála (Declination im Slavisch-Litauischen und Germanischen) árið 1876 gjarna talin marka upphaf hreyfingar ungmálfræðinganna. Þar birtust í fyrsta sinn opinberlega ýmsar skoðanir og aðferðir sem Leskien og félagar hans og stúdentar úr hópi ungmálfræðinga höfðu verið að móta undanfarin misseri.

(Paul Jules) Antoine Meillet

1866–1936

Franskur málfræðingur. Meillet var nemandi Saussures í París 1885–98 en virðist að mestu ósnortinn af þeim hugmyndum Saussures sem fram koma í fyrirlestrum hans um almenn málvísindi (Cours de linguistique générale, 1916). Miklu fremur hefur Meillet orðið fyrir áhrifum af ungmálfræðingnum Saussure og þeim verkum hans sem eru mjög mótuð af árunum í Leipzig með ungmálfræðingunum (til dæmis Mémoire sur le système primitif des voyelles dans les langues indo-européennes, 1879). Meillet var fyrst og fremst samanburðarmálfræðingur og tók undir þá skoðun ungmálfræðinganna að hljóðbreytingar væru án undantekninga en ólíkt þeim lagði hann ríka áherslu á hinn félagslega þátt málsins og hlutverk hans í málbreytingum. Meðal verka Meillets má nefna hina þekktu kennslubók hans í indóevrópskri samanburðarmálfræði, Introduction à l'étude comparative des langues indo-européennes, sem fyrst kom út 1903.

Hermann Osthoff

1847–1909

Þýskur málfræðingur; nam við háskólana í Bonn, Tübingen, Berlín og Leipzig; kenndi við háskólann í Leipzig en gegndi lengst af embætti prófessors við háskólann í Heidelberg þar sem hann var einnig háskólarektor um tíma. Í Leipzig var Osthoff í innsta hring ungmálfræðinganna og vann náið með Karli Brugmann að rannsóknum á beygingarfræði indóevrópskra mála (og birtust rannsóknir þeirra í sex bindum undir heitinu Morphologische Untersuchungen auf dem Gebiete der indogermanischen Sprachen, 1878–1910). Osthoff lagði í rannsóknum sínum megináherslu á germönsk mál, grísku, latínu og fornindversku, varð þekktur þegar árið 1876 fyrir rækilega grein um uppruna germanskra n-stofna og rannsóknir hans á perfekt (Zur Geschichte des Perfects im Indogermanischen mit besonderer Rücksicht auf Griechisch und Lateinisch, 1884) voru mikilvægt framlag til stefnu ungmálfræðinganna.

Panini

líklega 5. öld f.Kr.

Indverskur málfræðingur. Indversk málfræðihefð á rætur sínar að rekja til trúarbragðaiðkunar: til þess að geta skilið og farið rétt með sálmana á hinum fornu Veda-bókum, elstu trúarritum Indverja, þurftu prestarnir að vera vel að sér í málfræði; í því skyni lærðu þeir utanbókar langa og rækilega málfræðitexta þar sem fjallað var um hljóð- og bragfræði, beygingar- og orðmyndunarfræði og orðsifjafræði. Þekktastur hinna fornu indversku málfræðinga er Panini en honum er eignað gríðarmikið verk kallað Astadhyayi eða &tvofgaes1;Bækurnar átta&tvofgaes2; og er það svo knappt í stíl að við það hefur verið saminn fjöldi skýringarrita.

Hermann Paul

1846–1921

Þýskur málfræðingur, einkum germönskufræðingur; nam við háskólana í Berlín og Leipzig (hjá Curtius og Leskien meðal annarra); prófessor við háskólann í Freiburg og síðar í München. Paul var, ásamt Brugmann og Leskien, einn helsti hugmyndafræðingur ungmálfræðinganna og er rit hans um grunnþætti málsögunnar (Prinzipien der Sprachgeschichte 1880) gjarna nefnt &tvofgaes1;biblía ungmálfræðinganna&tvofgaes2;. Árið 1874 stofnaði Paul ásamt Wilhelm Braune tímaritið Beiträge zur Geschichte der deutschen Sprache und Literatur; það kemur enn út og er gjarna nefnt Paul und Braunes Beiträge (PBB). Af öðrum verkum Pauls má nefna þýska málfræði í fimm bindum (Deutsche Grammatik, 1916–20) og þýska orðabók (Deutsches Wörterbuch) sem fyrst kom út 1897 og margoft eftir það.

Pragar-skólinn

Hópur málvísindamanna, Roman Jakobson, Nikolaj Trubetskoj og Bohumil Trnka, svo einhverjir séu nefndir, í málvísindasamtökum Pragar, Cercle linguistique de Prague, sem á árunum í kringum 1930 vann merkt brautryðjendastarf, einkum á sviði hljóðkerfisfræði, og lagði grundvöllinn að formgerðarstefnunni (strúktúralismanum). Þeir skilgreindu HLJÓÐKERFISFRÆÐI sem þá grein er fengist einvörðungu við hið kerfislega hlutverk málhljóða og greindu hana þannig skýrt frá rannsóknum á eðli og myndun málhljóðanna eða sjálfri HLJÓÐFRÆÐINNI. Þeir skilgreindu HLJÓÐANIÐ sem hina smæstu einingu er kerfislegu hlutverki hefur að gegna en það væri myndað úr fjölda smærri þátta er tungumál nota til að greina í sundur orð ólíkrar merkingar; þarna var lagður grunnurinn að skilgreiningu hinna AÐGREINANDI ÞÁTTA sem síðar urðu mikilvægir í hljóðkerfisfræði. Pragarmálfræðingar greindu enn fremur á milli sjálfstæðra hljóðana og afbrigða þeirra sem skilyrt eru af hljóðumhverfi og fela ekki í sér sérstaka merkingu. Til að greina hvort um væri að ræða raunverulegt hljóðan þróuðu þeir svokallað UMSKIPTAPRÓF en í því fólst að ef merkingarbreyting átti sér stað þegar skipt var um eitt hljóð í hljóðastreng var á ferðinni aðgreining sjálfstæðra hljóðana (til dæmis ísl. fit : fet : fat : föt). Frá Pragarskólanum eru komin hugtökin MARKAÐ og ÓMARKAÐ sem upphaflega voru notuð í hljóðkerfisfræði en hafa síðar orðið áberandi á ýmsum sviðum málvísinda.

Priscianus Caesariensis

u.þ.b. 500 e.Kr.

Fæddur í Máritaníu (nú Alsír) en kenndi í Konstantínópel. Einn þekktasti málfræðingurinn sem skrifaði um latínu. Meðal rita hans má nefna De nomine, pronomine et verbo (‘Um nafnorð, fornöfn og sagnir&’) sem ætlað var sem kennslubók í skólum. Merkasta framlag hans var þó ritið Institutiones grammaticae (‘Undirstöður málfræðinnar&’) sem er kerfisbundin rannsókn á latneskri málfræði. Ritið kom út í 18 bindum og er varðveitt í fjölda handrita. Priscianus byggði rit sitt á verkum gríska málfræðingsins Apolloniusar Dyscolusar og vitnaði í fjölmarga latneska höfunda. Ritið var mjög mikið notað á 7., 8. og 9. öld og með því var lagður grundvöllur að latínukennslu í skólum miðalda. Á 13. og 14. öld vaknaði mikill áhugi á rökfræði tungumálsins og voru þær vangaveltur ekki síst byggðar á bók Priscianusar.

Rasmus Kristian Rask

1787–1832

Danskur málfræðingur, einn af frumkvöðlum samanburðarmálfræðinnar. Rask fékk snemma brennandi áhuga á íslensku og lærði málið af eigin rammleik á menntaskólaárum sínum. Hann nam við Kaupmannahafnarháskóla en lauk aldrei prófi. Hann skrifaði kennslubók í forníslensku (Vejledning til det Islandske eller Gamle Nordiske Sprog, 1811) og dvaldist á Íslandi í tvö ár, 1813–15. Þar lauk hann m.a. höfuðriti sínu sem fjallar um uppruna norrænnar tungu (Undersøgelse om det gamle Nordiske eller Islandske Sprogs Oprindelse, 1818). Þar sýnir Rask fram á skyldleika forníslensku við germönsk og slafnesk mál, latínu og grísku, og nefnir einnig að indversk og írönsk mál, sem þá voru enn lítt kunn í Evrópu, kunni að vera af sama meiði. Athuganir hans lögðu m.a. grunninn að lögmáli Jakobs Grimms um germönsku hljóðfærsluna. Rask ferðaðist síðar víða um lönd, einkum í Vestur-Asíu, rannsakaði m.a. indversk og írönsk mál og hafði heim með sér forn indversk og persnesk handrit sem urðu viðfangsefni frekari rannsókna. Hann hafði mikil samskipti við Íslendinga í Kaupmannahöfn og lét sér alla tíð annt um íslenskt mál og menningu. Rask var aðalhvatamaður að stofnun Hins íslenska bókmenntafélags árið 1816 og fyrsti forseti þess, vann að útgáfum ýmissa íslenskra fornrita og átti stóran þátt í að móta íslenska nútímastafsetningu. Hann var þeirrar skoðunar að íslensk stafsetning ætti að hæfa bæði fornu máli og nýju og setti fram ritreglur 1830 í Lestrarkveri handa heldri manna börnum. Rask vildi til að mynda nota broddstafina ‘á&’, ‘í&’, ‘ó&’, ‘ú&’ og ‘ý&’, ennfremur ‘è&’ með bakfallsbroddi (fyrir ‘je&’ eða síðar ‘é&’) og þá vildi hann nota táknið ‘ö&’. Helsta nýmælið var þó að hann vildi endurvekja stafinn ‘ð&’ sem ekki hafði verið notaður að neinu marki öldum saman.

Edward Sapir

1884–1939

Bandarískur málfræðingur, frumkvöðull í mannfræðilegum málvísindum og rannsóknum á málum indíána. Hann nam við Columbia-háskóla og lagði aðallega stund á indóevrópska og germanska samanburðarmálfræði. Áhugasvið hans náði þó víðar enda leit hann á málvísindi sem þverfaglega fræðigrein fremur en sjálfstæða vísindagrein og lagðist jafnvel gegn því að stofnsett yrði sérstök málvísindadeild við Yale-háskóla þegar hann starfaði þar. Sjálfur lagði hann mikið af mörkum í mannfræði og menningarlegum rannsóknum. Hann byrjaði snemma á ferlinum að rannsaka mál indíána Norður-Ameríku og semja lýsingar á þeim og hóf störf hjá Kanadíska þjóðminjasafninu í Ottawa árið 1910 þar sem hann veitti nýrri mannfræðideild forystu. Hann var ráðinn til háskólans í Chicago árið 1925 og síðar við Yale-háskóla árið 1931. Sapir lagði áherslu á tengsl málsins og hins sálfræðilega veruleika sem liggur að baki. Hann færði rök fyrir því að veruleikinn væri ekki óháður tungumálinu og að málið væri annað og meira en einungis tjáskiptatæki. Tungumálið mótaði veruleikann og hefði áhrif á það hvernig menn upplifðu hluti. Þessari hugmynd Sapirs var haldið nokkuð á lofti um daga hans og ýmsir eftirmenn hans tóku hana upp og útfærðu nánar. Hugmyndir Sapirs stóðu þó höllum fæti meðal málvísindamanna, sérstaklega eftir að áhrifa vísinda- og raunhyggju Bloomfields fór að gæta, en höfðu hins vegar mikil áhrif innan mannfræðinnar.

Ferdinand de Saussure

1857–1913

Svissneskur málfræðingur; einn áhrifamesti málfræðingur á tuttugustu öld og upphafsmaður formgerðarstefnu í málfræði. Eftir eins árs nám í efnafræði, eðlisfræði og stærðfræði við háskólann í Genf settist Saussure á skólabekk í Leipzig haustið 1876 og sótti fyrirlestra hjá Curtius, Leskien og Osthoff meðal annarra, einmitt í þann mund er sjónarmið ungmálfræðinganna voru gerð heyrinkunnug. Að námi loknu kenndi Saussure í París og síðar í Genf. Saussure stundaði fyrst og fremst rannsóknir á sviði samanburðarmálfræði og aðeins 21 árs að aldri gaf hann út 300 blaðsíðna rit um indóevrópska sérhljóðakerfið (Mémoire sur le système primitif des voyelles dans les langues indo-européennes, 1879) sem þá þegar vakti mikla athygli en átti eftir að auka veg hans enn frekar eftir hans dag. Í þessu riti færði hann rök fyrir því að í indóevrópska hljóðkerfinu hefðu verið tvö hljóð (er hann nefndi ‘coefficients sonantiques&’) sem hvergi sæi stað í varðveittum indóevrópskum málum nema með óbeinum hætti. Með þessu móti tókst honum að leysa ýmis snúin vandamál í sögu indóevrópska hljóðkerfisins sem enginn hafði fundið viðunandi lausn á. Sönnunin á tilvist þessara hljóða kom ekki fyrr en löngu síðar eða árið 1927 þegar pólski málfræðingurinn Jerzy KuryÉowicz sýndi fram á að annað hljóðanna sem Saussure hafði gert ráð fyrir væri raunverulega varðveitt í hettitísku, fornu indóevrópsku máli sem þá hafði nýlega verið ráðið. Frekari rannsóknir leiddu í ljós að þessi hljóð, sem að flestra mati voru þrjú talsins, hafi verið laryngalar eða svonefnd barkaopshljóð. Auk rannsókna sinna á indóevrópska sérhljóðakerfinu var Saussure einnig kunnur fyrir rannsóknir á áherslumynstri í litáísku sem hann birti í langri tímaritsgrein árið 1896. En þekktastur er Saussure þó fyrir fyrirlestra sína í almennum málvísindum sem birtust á bók að honum látnum (Cours de linguistique générale, 1916). Í þessum fyrirlestrum, sem Saussure flutti við háskólann í Genf 1907–11, gerir hann grein fyrir hugmyndum sínum um mál og málfræði og er þetta rit oft talið marka upphaf nútímamálvísinda. Fram til þessa höfðu málvísindi fyrst og fremst snúist um sögulega málfræði og rannsóknir á fornum textum: þar var hið ritaða mál í öndvegi. Saussure vildi gera skýran greinarmun á sögulegum málvísindum og samtímalegum og í hugmyndafræði hans sat hið mælta mál í fyrirrúmi. Þar greindi hann MÁL (fr. ‘langage&’) í annars vegar MÁLBEITINGU (fr. ‘parole&’), þ.e. hina eiginlegu notkun einstaklingsins á hljóðum og orðum, og hins vegar MÁLKERFI (fr. ‘langue&’), þ.e. það kerfi tákna sem samfélagið hefur komið sér saman um og gerir fólki kleift að gera sig skiljanlegt. Það var skoðun Saussures að hið síðarnefnda væri verksvið málvísinda, að málvísindamenn ættu að einbeita sér að rannsóknum á málkerfinu sem er óháð vilja einstaklingsins. Hugmyndir Saussures í þessu riti ollu straumhvörfum málvísindum um heim allan en bókin hefur verið þýdd á vel á annan tug tungumála.

August Schleicher

1821–1868

Þýskur málfræðingur; einn af frumkvöðlum samanburðarmálfræðinnar. Schleicher las guðfræði, heimspeki og Austurlandamál við háskólana í Leipzig og Tübingen og málvísindi við háskólann í Bonn. Hann var prófessor við Pragarháskóla 1850–57 en þá var honum boðin staða við háskólann í Jena sem hann gegndi þar til hann lést um aldur fram. Schleicher rannsakaði mikið baltó-slafnesk mál, skrifaði meðal annars litáíska og pólabíska málfræði og sögulega beygingarfræði kirkjuslafnesku. Enn fremur ritaði hann mikið um beygingar- og orðhlutafræði (og notaði fyrstur heitið ‘Morphologie&’ um þau fræði), um þróunarkenninguna í náttúruvísindum og gildi hennar fyrir málvísindi og setti fram hugmyndir sínar um ættartré tungumála þegar 1853, sex árum áður en Darwin birti Uppruna tegundanna. Schleicher þróaði aðferðir við endurgerð eldri málstiga og skrifaði lítið ævintýri á endurgerðri indóevrópsku sem vakti mikla athygli. Þekktasta verk Schleichers er þó óefað hin mikla málfræði indóevrópskra mála (Compendium der vergleichenden Grammatik der indogermanischen Sprachen) sem fyrst kom út 1861–62 (og þrisvar sinnum eftir það) og var áratugum saman grundvallarrit samanburðarmálfræðinnar. Það voru því ekki síst verk hans sem urðu tilefni gagnrýni næstu kynslóðar málfræðinga, ungmálfræðinganna, en engu að síður er það óumdeilt að Schleicher lagði grunninn að aðferðafræði samanburðarmálfræðinnar með hugmyndum sínum um endurgerð orðmynda og þróun tungumála og málafjölskyldna.

August Wilhelm von Schlegel

1767–1845

Þýskur málfræðingur, bókmenntafræðingur og þýðandi. Hann nam við háskólann í Göttingen, kenndi í Amsterdam, Jena og Berlín og var veitt staða prófessors við háskólann í Bonn þar sem hann kenndi öðru fremur indversk fræði. Auk þess að vera gjarna talinn faðir indverskra fræða í Þýskalandi er Schlegel þekktur fyrir að hafa fyrstur notað heitið samanburðarmálfræði (þ. ‘vergleichende Grammatik&’).

Eduard Sievers

1850–1932

Þýskur málfræðingur, einkum germönskufræðingur; nam við háskólana í Leipzig og Berlín; prófessor í Jena, Tübingen, Halle og Leipzig. Sievers vann mikið að útgáfu forngermanskra texta, bæði fornsaxneskra og fornháþýskra og skrifaði fornenska málfræði (Angelsächsische Grammatik, 1882) í anda ungmálfræðinganna. Umfangsmiklar rannsóknir hans á germanskri bragfræði birtust í Altgermanische Metrik (1893). Framlag hans til hljóðfræðirannsókna var ekki síst mikilvægt og var rit hans um grunnþætti hljóðfræðinnar (Grundzüge der Lautphysiologie zur Einführung in das Studium der Lautlehre der indogermanischen Sprachen, 1876) lengi ein helsta handbók á því sviði.

Nikolaj Sergejevic Trubetskoj

1890–1938

Rússneskur málfræðingur, einn stofnenda Pragarskólans. Útskrifaðist úr Moskvuháskóla 1913 og hóf þá framhaldsnám í háskólanum í Leipzig. Kenndi við Moskvuháskóla og háskólana í Rostov og Sofiu. Var veitt staða prófessors við Vínarháskóla 1922 og dvaldist þar til dauðadags. Trubetskoj hafði mikil áhrif á hljóðfræðirannsóknir á tuttugustu öld og er höfuðrit hans um frumþætti hljóðkerfisfræðinnar (Grundzüge der Phonologie, 1938), eitt af grundvallarritum þeirra fræða. Trubetskoj vann undir merkjum formgerðarstefnunnar (strúktúralisma) og átti mikinn þátt í að þróa hana. Hann skilgreindi hljóðanið sem smæstu sjálfstæðu eininguna í formgerð tungumálsins og greindi hljóðönin síðan niður í aðgreinandi þætti en sú aðferð er enn viðhöfð í rannsóknum á hljóðkerfisfræði.

Ungmálfræðingar

(þ. ‘Junggrammatiker’, e. ‘Neogrammarians’): Hópur ungra málvísindamanna sem kom fram á sjónarsviðið í Þýskalandi 1876. Helsta framlag þeirra til málvísinda er kenningin um að hljóðbreytingar verki án undantekninga. Eldri málfræðingar höfðu að mati ungmálfræðinganna gerst sekir um helst til óöguð vinnubrögð þegar þeir sögðu að ákveðnar hljóðbreytingar ættu sér stað &tvofgaes1;oft&tvofgaes2;, &tvofgaes1;mjög oft&tvofgaes2; eða &tvofgaes1;nánast alltaf&tvofgaes2;: krafa ungmálfræðinganna var að allar málbreytingar yrði að skýra í hinum smæstu atriðum og þar væri aðeins um tvenns konar breytingar að ræða, málbreytingar án undantekninga og áhrifsbreytingar; viðurkenning á tilvist undantekninga væri jafnframt viðurkenning á því að vísindalegum aðferðum væri ekki hægt að beita á málbreytingar. Þessi skoðun þeirra var umdeild þegar hún kom fyrst fram en á þeim tíma hafði ekki tekist að útskýra óreglu og undantekningar á þekktustu lögmálum þess tíma, m.a. germönsku hljóðfærslunni (sjá Jacob Grimm). Þegar danski málfræðingurinn Karl Verner útskýrði þessar undantekningar á germönsku hljóðfærslunni árið 1877 með svonefndu VERNERSLÖGMÁLI varð það til að styrkja kenningu ungmálfræðinganna og í kjölfarið fylgdu uppgötvanir sem útskýrðu óreglu og undantekningar á öðrum lögmálum. Um aldamótin má segja að kenning ungmálfræðinganna hafi verið orðin almennt viðurkennd. Þekktastir í hópi ungmálfræðinga voru Karl Brugmann, Berthold Delbrück, August Leskien, Hermann Osthoff, Hermann Paul og Eduard Sievers.

Marcus Terentius Varro

116–27 f.Kr.

Einn merkasti fræðimaður Rómverja. Hann var mikill lærdómsmaður og þjóðernissinni og vildi að verk sín væru Rómaveldi til vegsauka. Hann stundaði mest fræðimennsku en tók þó sinn þátt í stjórnmálum Rómar, var meðal annars sendur í útlegð í tíð Markúsar Antoníusar og bækur hans brenndar en náðaður í valdatíð Ágústusar. Varro skildi eftir sig 74 verk í 600 bókum um hin ólíkustu málefni. Má þar nefna lögfræði, stjörnufræði, landafræði, menntun og málfræði auk þess sem hann samdi fjölda háðsádeilna, kvæði, ræður og bréf. Eina verkið sem varðveist hefur í heild sinni eru skrif hans um búskap (Res Rustica) í alls þremur bindum. Verk hans um latneska tungu (De lingua Latina), sem ekki hefur varðveist nema að litlum hluta, er merkasta framlag hans til málfræðinnar.

Karl Verner

1846–96

Danskur málfræðingur; þekktastur fyrir svonefnt Vernerslögmál sem skýrði undantekningar á germönsku hljóðfærslunni (sjá Jacob Grimm). Verner nam við Kaupmannahafnarháskóla og í Rússlandi og hlaut heiðursdoktorsnafnbót við Heidelbergháskóla; var um tíma háskólabókavörður í Halle í Þýskalandi en síðar prófessor í slafneskri fílólógíu við Kaupmannahafnarháskóla. Verner las upphaflega latínu og grísku og samanburðarmálfræði en í Rússlandi fékkst hann öðru fremur við baltó-slafnesk mál og fékk mikinn áhuga á áherslumynstri þeirra. Sá áhugi varð til þess að Verner tók að huga að áherslumynstri annarra indóevrópskra mála og við samanburð germönsku og sanskrít veitti hann athygli skýru sambandi á milli þess hvar áherslan var á orðum í sanskrít og hvernig indóevrópsku lokhljóðin þróuðust í germönskum málum: hér var kominn lykillinn að ýmsum undantekningum frá germönsku hljóðfærslunni er engum hafði auðnast að útskýra með fullnægjandi hætti fram að því. Verner birti niðurstöður athugana sinna í tímaritsgrein er hann nefndi ‘Undantekning frá germönsku hljóðfærslunni&’ (Eine Ausnahme der ersten Lautverschiebung) og birtist 1877 (en var skrifuð 1875). Hin snjalla lausn Verners á þessu torsótta vandamáli vakti þegar í stað athygli og aðdáun meðal samanburðarmálfræðinga og í kjölfarið fylgdi bylgja rannsókna á áhrifum indóevrópsku áherslunnar á ýmsa þætti hljóðþróunar í germönskum málum en þar náði enginn viðlíka árangri og Verner. Uppgötvun Verners styrkti mjög hugmyndir ungmálfræðinganna um að hljóðbreytingar væru án undantekninga, en þeir voru mjög að sækja í sig veðrið á þessum tíma. Verners er jafnan minnst fyrir þetta merka framlag til samanburðarmálfræðinnar en sáralítið annað liggur eftir hann á prenti þó að hann hafi stundað rannsóknir og kennslu í málvísindum allt sitt líf. Hann fékk síðar mikinn áhuga á hljóðfræði og þróaði aðferð til að skrásetja hljóðróf málhljóða með hjálp hljóðrita Edisons þar sem hljóðritað var á tinhólka og má því heita einn af frumkvöðlum í rannsóknum í hljóðfræði. Sú uppgötvun Verners náði þó ekki útbreiðslu og gleymdist eftir dauða hans.

Benjamin Lee Whorf

1897–1941

Bandarískur efnaverkfræðingur og málfræðingur í frístundum. Whorf nam efnaverkfræði við Massachusetts Institute of Technology (MIT) og starfaði sem eldvarnareftirlitsmaður og náði góðum árangri í því starfi. Áhugi Whorfs á málfræði spratt í upphafi af trúarlegum áhuga og hann byrjaði að kynna sér hebresku. Fljótlega fór hann að lesa meira um málvísindi og önnur tungumál, m.a. mál asteka- og majaindíána í Mið-Ameríku. Whorf kynntist Edward Sapir árið 1929 og skráði sig í nám hjá honum nokkru síðar. Sapir hvatti Whorf til að kynna sér önnur mál af hinni svokölluðu útó-astekaætt og eitt þeirra mála, mál hópíindíána, varð helsta viðfangsefni Whorfs upp frá því. Athygli hans beindist sérstaklega að sagnkerfinu í hópímálinu en túlkun á tíma og rúmi er þar með allt öðrum hætti en þekkist í vestrænum málum. Í anda Sapirs færði Whorf rök fyrir því að tungumálið stjórnaði því að miklu leyti hvernig málhafar hugsa og skynja umhverfi sitt og því væri óhjákvæmilegt að líta öðruvísi á en svo að hópíindíánar hugsuðu á annan hátt en t.d. enskumælandi fólk. Whorf benti á að hugmyndir og hugtök væru sett fram á mismunandi hátt frá einu máli til annars, enska hefði t.d. eitt orð yfir snjó en mál inúíta hefðu u.þ.b. fjörutíu sem lýsa mismunandi afbrigðum fyrirbærisins. Þannig væru tungumál í eðli sínu afstæð. Þessar hugmyndir Whorfs hafa jafnan verið kallaðar einu nafni Sapir-Whorf tilgátan enda má segja að Whorf hafi útfært nánar hugmyndir Sapirs og sett þær fram sem heildstæða kenningu. Þessi kenning í sinni tærustu mynd er lítt viðurkennd meðal málvísindamanna þó að flestir viðurkenni að hugmyndir hans séu góðra gjalda verðar og eigi vel við í sumum tilvikum.

Íslenskir málfræðingar

Alexander Jóhannesson

1888–1965

Íslenskur málfræðingur og prófessor við Háskóla Íslands. Alexander lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1907, meistaraprófi í þýsku við Kaupmannahafnarháskóla 1913 og doktorsprófi frá háskólanum í Halle í Þýskalandi 1915 með ritgerð um Schiller (Die Wunder in Schillers Jungfrau von Orleans). Alexander kenndi þýsku við Háskóla Íslands og síðar íslenska málfræði og germanska samanburðarmálfræði; hann varð og háskólarektor þrívegis (1932–35, 1939–42, 1948–54). Alexander var atkvæðamikill í stjórnun háskólans og var meðal annars formaður byggingarnefndar háskólans, Nýja stúdentagarðsins, Þjóðminjasafns, Háskólabíós og íþróttahúss háskólans, átti sæti í stjórnum happdrættis og kvikmyndahúss háskólans og var formaður Orðabókarnefndar. Alexander var mikill áhugamaður um flugmál, einn af stofnendum Flugfélags Íslands og fyrsti framkvæmdastjóri þess (1928–31). Alexander skrifaði meðal annars norræna og forníslenska málfræði (Frumnorræn málfræði, 1920; Íslenzk tunga í fornöld 1923–24), ritaði um orðmyndunarfræði (Die Suffixe im Isländischen, 1927; Die Komposita im Isländischen, 1928) og um uppruna mannlegs máls (Origin of Language, 1949; Gestural Origin of Language, 1952; How Did Homo Sapiens Express the Idea of Flat? 1958) og gaf út íslenska orðsifjabók (Isländisches etymologisches Wörterbuch, 1956).

Arngrímur Jónsson lærði

1568–1648

Íslenskur prestur og lærdómsmaður. Arngrímur nam við Hólaskóla og Hafnarháskóla og var skólameistari á Hólum 1589–95. Hann var tilnefndur sem biskupsefni á prestastefnu 1627 en skoraðist undan því. Á þeim tíma birtust í erlendum ritum skrif um Ísland sem voru uppfull af ýkjusögum og sumir vildu kalla lastskrif. Arngrímur ritaði því varnarrit á latínu, fyrst Crymogæa árið 1610 (íslensk þýðing kom út 1985) og síðar Gronlandia er út kom árið 1688. Í ritum Arngríms birtust í fyrsta sinn heildstæðar hugmyndir um nauðsyn þess að varðveita hreinleika tungunnar og í Crymogæa setur hann fram þá skoðun að íslenska samtímans sé að mestu það mál sem talað var um öll Norðurlönd að fornu. Í skrifum Arngríms gætti talsvert áhrifa fornmenntastefnu eða húmanisma sem lærðir menn í Danaveldi hneigðust til eftir siðaskiptin. Arngrímur lagði drjúgan skerf til rannsókna á íslenskum fornritum og sneri allmörgum þeirra á latínu, auk þess sem hann orti sálma bæði á latínu og íslensku.

Árni Böðvarsson

1924–92

Íslenskur málfræðingur, fyrsti málfarsráðunautur Ríkisútvarpsins. Árni lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1945, cand.mag.-prófi í íslenskum fræðum frá Háskóla Íslands 1950 með málfræði sem aðalgrein, enn fremur var hann við nám í norskri málsögu og norskum mállýskum við háskólana í Ósló og Björgvin. Fékkst við kennslu í ýmsum skólum í Reykjavík, var sendikennari við háskólana í Ósló og Björgvin 1955–57, safnaði til viðbótarbindis við Íslenzk-danska orðabók Sigfúsar Blöndals (1963), var aðalritstjóri Íslenzkrar orðabókar handa skólum og almenningi (Orðabók Menningarsjóðs, 1963; 2. útgáfa 1983), málfarsráðunautur Ríkisútvarpsins 1984–92. Meðal annarra verka Árna eru ýmsar kennslubækur, t.d. Hljóðfræði: Kennslubók handa byrjendum (1953) og Merkingarfræði (1972) og ýmis rit sem snerta málfarsráðgjöf, t.d. Málfar í fjölmiðlum: Hugleiðingar og leiðbeiningar um beygingar, orðaval, stíl og fleira (1989) og Íslenskt málfar (1992); enn fremur var hann ritstjóri Tungutaks, innanhússblaðs Ríkisútvarpsins (1984–92).

Árni Magnússon

1663–1730

Íslenskur lærdómsmaður og handritasafnari, bjó lengst af í Kaupmannahöfn. Árni varð stúdent frá Skálholtsskóla 1683, fór þá utan til náms við Kaupmannahafnarháskóla og lauk guðfræðiprófi. Árni komst snemma í þjónustu Tómasar Bartholins, konunglegs fornfræðings Dana, og hóf þá hin merku fornfræðastörf sín og handritasöfnun. Hann gat sér snemma gott orð sem fræðimaður, var ráðinn til starfa við leyndarskjalasafn konungs 1697 og 1701 varð hann prófessor í fornfræðum við Kaupmannahafnarháskóla. Árið 1702 skipaði konungur Árna og Pál Vídalín, síðar lögmann, til að rannsaka hagi Íslendinga og gera tillögur til úrbóta. Í þessu fólst meðal annars gerð jarðabókar yfir byggðir Íslands og allsherjarmanntals. Á ferðum sínum um Ísland við jarðabókarstörf safnaði Árni öllum handritum og skjölum sem hann komst yfir og flutti til Kaupmannahafnar. Hluti af safni hans glataðist þegar Kaupmannahöfn brann 1728 en eftir dag Árna erfði Kaupmannahafnarháskóli safnið og gerði um það sérstaka stofnun, Árnastofnun, sem enn er starfrækt. Með handritasöfnun sinni og fræðastörfum lagði Árni grunninn að rannsóknum á íslensku máli, bókmenntum og sögu.

Ásgeir Blöndal Magnússon

1909–87

Íslenskur málfræðingur og orðabókarhöfundur. Ásgeir lauk stúdentsprófi (utanskóla) frá Menntaskólanum á Akureyri 1942 og cand.mag.-prófi í íslenskum fræðum frá Háskóla Íslands 1946, heiðursdoktor við Háskóla Íslands 1986. Ásgeir var starfsmaður Orðabókar Háskólans frá 1947 og forstöðumaður hennar 1977–79, enn fremur var hann um langt skeið stundakennari í íslensku og germanskri samanburðarmálfræði við Háskóla Íslands. Ásgeir var ekki síst kunnur fyrir þætti um íslenskt mál er hann flutti í Ríkisútvarpinu um áratugaskeið en meginverk hans er Íslensk orðsifjabók er út kom 1989.

Björn Guðfinnsson

1905–50

Íslenskur málfræðingur og prófessor við Háskóla Íslands. Björn lauk stúdentsprófi (utanskóla) frá Menntaskólanum í Reykjavík 1930, magisterprófi í íslenskum fræðum frá Háskóla Íslands 1935, var við nám í Danmörku, Noregi, Svíþjóð og Þýskalandi 1936–37 og lauk doktorsprófi frá Háskóla Íslands 1944. Björn var íslenskukennari útvarpsins 1935–36 og 1937–41, lektor við heimspekideild Háskóla Íslands 1941–47, dósent 1947–48 og prófessor í íslensku nútíðarmáli og hagnýtri íslenskukennslu frá 1948 til dauðadags. Björn vann gríðarmikið starf á sviði íslenskra mállýskurannsókna, rannsakaði framburðareinkenni 10.000 Íslendinga um land allt og birtust niðurstöður þeirrar rannsóknar í doktorsriti hans, Mállýzkur I (1946; síðara bindið kom út eftir hans dag, 1964). Meðal annarra rita Björns eru Íslenzka I (1935), Íslenzk málfræði (1937) og Íslenzk setningafræði (1938) sem voru um áratugaskeið helstu kennslubækur í málfræði í íslenskum skólum; ennfremur Málbótastarf Baldvins Einarssonar (1941), Um hag íslenzkrar tungu (1941) og Breytingar á framburði og stafsetningu (1947).

Björn Halldórsson í Sauðlauksdal

1724–94

Íslenskur prestur, skáld og fræðimaður. Björn varð stúdent úr Skálholtsskóla 1745, skrifari hjá Ólafi Árnasyni, sýslumanni í Haga, 1746, vígðist aðstoðarprestur síra Þorvarðs Magnússonar í Sauðlauksdal 1749, fékk Sauðlauksdal 1752. Björn var mikill búmaður og varð snemma kunnur fyrir garðrækt og aðra jarðyrkju og liggja eftir hann nokkur rit á sviði búnaðarmála, svo sem Atli (1780) og Arnbjörg (1843) og fleira í handritum. Þá fékkst hann við sagnfræði og ritaði meðal annars annál, guðfræði og lögspeki. Björn er ekki síst þekktur fyrir orðabók sína sem hann virðist hafa lokið við 1785 en í henni eru um 30 þúsund orð og allar orðskýringar á latínu. Björn fór með hreinritað handrit orðabókarinnar til Kaupmannahafnar og tók Árnanefnd hana til útgáfu. Ekki varð þó af útgáfu fyrr en 1814 en þá hafði danski málfræðingurinn Rasmus Christian Rask tekið að sér umsjón með útgáfunni og þýtt allar orðskýringar á dönsku með liðsinni fimm íslenskra stúdenta í Kaupmannahöfn. Orðabókin var prentuð í tveimur bindum undir titlinum Lexicon Islandico-Latino-Danicum og var árið 1992 endurútgefin með leiðréttingum og viðbótum hjá Orðabók Háskólans undir titilinum Orðabók: Íslensk – latnesk – dönsk.

Björn Karel Þórólfsson

1892–1972

Íslenskur málfræðingur og bókmenntafræðingur, þekktastur fyrir rannsóknir sínar á íslenskri málsögu og íslenskum rímum. Björn lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1915, meistaraprófi í norrænum fræðum frá Kaupmannahafnarháskóla 1922 og doktorsprófi frá Háskóla Íslands 1934. Björn var styrkþegi Árnanefndar í Kaupmannahöfn 1926–37 og starfsmaður við Þjóðskjalasafn Íslands 1938–62; um skeið stundakennari og prófdómari við Háskóla Íslands. Meðal rita Björns eru Um íslenskar orðmyndir á 14. og 15. öld og breytingar þeirra úr fornmálinu. Með viðauka um nýjungar í orðmyndum á 16. öld og síðar (1925, endurprentuð 1987), Rímur fyrir 1600 (doktorsrit, 1934); enn fremur ýmsar útgáfur á fornritum og rímum.

Björn Magnússon Ólsen

1850–1919

Íslenskur málfræðingur, prófessor og rektor. Nam málfræði og sögu við Kaupmannahafnarháskóla, cand.mag.-próf þaðan 1877 og doktorspróf 1883. Björn var kennari við Latínuskólann í Reykjavík frá 1879, rektor 1895–1904, prófessor í íslenskri málfræði og bókmenntasögu við Háskóla Íslands 1911–18 og fyrsti rektor háskólans, 1911–12. Meðal rita Björns eru doktorsritgerð hans um rúnir í fornbókmenntunum (Runerne i den oldislandske literatur, 1883) og rit hans um samband hinna tveggja gerða Íslendingabókar (Om forholdet mellem de to bearbejdelser af Ares Islændingebog, 1886), auk mikils fjölda ritgerða í ýmsum tímaritum. Þá fékkst Björn nokkuð við orðtöku og notaði Sigfús Blöndal safn hans við samning íslensk-danskrar orðabókar sinnar.

Eggert Ólafsson

1726–68

Varalögmaður sunnan og austan frá 1767, einn helsti upplýsingarfrömuður Íslands. Eggert varð stúdent frá Skálholtsskóla 1746 og fór utan til Kaupmannahafnar samsumars en þar lagði hann einkum stund á náttúruvísindi. Hann var styrkþegi Árnasjóðs, fór í rannsóknarferð um Ísland með Bjarna Pálssyni 1752–57 og skrifaði ferðabók er prentuð var í tveimur bindum 1772, Reise igiennem Island (íslensk þýðing: Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar 1943). Þar er meðal annars að finna merkilegar athugasemdir um málfar í ýmsum landshlutum. Eggert var afkastamikill fræðimaður og liggur margt eftir hann, meðal annars íslenskar stafsetningarreglur sem hann samdi 1762. Þar gætir sterkra áhrifa af stafsetningu fornra handrita sem Eggert hafði kynnst í Kaupmannahöfn. Réttritabók Eggerts komst ekki á prent en dreifðist víða í handritum og hafði veruleg áhrif á íslenska stafsetningu næstu áratugi.

Finnur Jónsson

1858–1934

Textafræðingur og prófessor við Kaupmannahafnarháskóla. Finnur lauk stúdentsprófi frá Reykjavíkurskóla 1872, prófi í málfræði við Kaupmannahafnarháskóla 1883 og doktorsprófi frá sama skóla 1884; dósent í norrænu við Kaupmannahafnarháskóla 1887, prófessor 1898–1928. Finnur var geysilega afkastamikill rithöfundur og útgefandi, skrifaði meðal annars norræna og íslenska bókmennta- og menningarsögu (Den oldnorske og oldislandske litteraturs historie, 1892–1902; Bókmenntasaga Íslendinga, 1904–05; Norsk-islandske kultur- og sprogforhold i 9. og 10. aarhundrede, 1921), gaf út mikinn fjölda fornrita, þar á meðal heildarútgáfu norskra og íslenskra dróttkvæða og rímnasafn (Den norsk-islandske Skjaldedigtning, 1912–14; Rímnasafn, 1905–22), skrifaði málfræði ( Málfræði íslenskrar túngu, 1908) og um skáldamálið (Det norsk-islandske skjaldesprog omtr. 800–1300, 1901) og gaf út endurskoðaða útgáfu skáldamálsorðabókar Sveinbjarnar Egilssonar (Lexicon poëticum, 1913–16) .

Finnur Magnússon

1781–1847

Leyndarskjalavörður konungs í Kaupmannahöfn frá 1828, fulltrúi Íslands á stéttaþingum 1835–36, 1838, 1840 og 1842. Finnur var lengst af ævi sinni einhver virtasti rúna- og goðsagnafræðingur á Norðurlöndum en beið mikinn álitshnekki með riti um rúnaristur á Skáni (Runamo og runerne, 1841), þegar í ljós kom að rúnaristurnar voru í rauninni náttúrulegar sprungur í klöpp. Þó má segja að Finnur hafi ekki einn átt sökina þar sem hann byggði rit sitt á rannsóknum Johans G. Forchhammers, jarðfræðiprófessors við Kaupmannahafnarháskóla, sem hafði skoðað Runamo-klöppina og fullyrt að risturnar væru mannanna verk. Finnur ritaði fjölda bóka og ritgerða um norræn fræði og bar norræn fornkvæði og goðsögur saman við persnesk og indversk fræði í sama anda og Rask hafði gert í málfræði; meðal merkustu rita hans er Eddalæren (1824–26).

Fyrsti málfræðingurinn

12. öld

Óþekktur höfundur rits er nefnt hefur verið Fyrsta málfræðiritgerðin. Á AM 242 fol. eða Codex Wormianus frá því um miðja 14. öld eru, auk Snorra-Eddu meðal annars, fjórar málfræðiritgerðir, allar án fyrirsagnar, en sú hefð hefur skapast að nefna þær eftir röð þeirra í Wormsbók. Fyrsta ritgerðin er sýnu elst og merkilegust um efni: Höfundur greinir frá því í inngangi að fólk um heim allan sé tekið að skrifa á bækur lög, annála og annan fróðleik, hver þjóð á sinni tungu og hafi sumar þjóðir fundið til þess sérstakt stafróf en aðrar þjóðir fái lánuð útlend stafróf og þá skapist hugsanlega vandamál þar sem stafrófið hæfir ekki fyllilega tungumálinu. En þó rita enskir menn enskuna með latínustafrófi; þeir hafa fundið til nýja stafi þar sem þeirra er þörf en kastað þeim latínustöfum sem ekki eru nothæfir í þeirra máli. Úr því að okkar tunga er af sömu rótum runnin og enskan, segir hann, &tvofgaes1;hefir ek ok ritat oss Íslendingum stafróf&tvofgaes2; – fyrir höfundinum vakir að samræma stafsetningu og laga latínustafrófið að þörfum íslenskunnar. Talið er að Fyrsta málfræðiritgerðin hafi verið skrifuð einhvern tíma á bilinu 1125–75; hugmyndir þessa merka málfræðings um stafsetningu náðu ekki fótfestu, en ritgerðin er einstök heimild um hljóðkerfi íslenskunnar á 12. öld. Rækilegust útgáfa ritgerðarinnar er eftir Hrein Benediktsson, The First Grammatical Treatise (1972).

Guðbrandur Vigfússon

1827–89

Málfræðingur, starfaði í Kaupmannahöfn og síðar í Oxford. Stúdent úr Reykjavíkurskóla 1849, las málfræði, einkum norræn fræði, við Kaupmannahafnarháskóla, lauk M.A.-prófi frá Oxford-háskóla 1871, hlaut heiðursdoktorsnafnbót frá Uppsalaháskóla 1877. Guðbrandur var styrkþegi Árnasafns 1856–66, dvaldist í Noregi og Þýskalandi, bjó í Lundúnum og síðar Oxford frá 1866 til æviloka, prófessor þar frá 1884. Gaf út ýmis fornrit, svo sem Biskupa sögur I (1858), Sturlunga sögu (1878), Flateyjarbók (1859–68, ásamt C.R. Unger), Icelandic Sagas (1887, íslenskar fornsögur sem snerta Bretlandseyjar sérstaklega), og fékkst við þýðingar og skýringar á íslenskum fornkvæðum og sögum (Corpus poeticum boreale, 1883, ásamt F. York Powell; Origines Islandiae, 1904). Guðbrandur tók við samningu orðabókar yfir forníslensku með enskum skýringum sem R. Cleasby átti frumkvæði að, fullgerði hana og bjó til prentunar: An Icelandic-English Dictionary (1869–74). Auk þessa ritaði Guðbrandur fjölda tímaritsgreina um málfræði, sögu og bókmenntir.

Guðmundur Andrésson

1614?–54

Skrifaði ádeiluritgerð gegn stóradómi og var dæmdur fyrir; sat í Bláturni í Kaupmannahöfn. Guðmundur var leystur úr fangelsi fyrir tilverknað Ole Worm og stundaði síðan fræðistörf í Kaupmannahöfn. Hann samdi meðal annars íslensk-latneska orðabók, Lexicon Islandicum (1683). Hún komst ekki á prent fyrr en nokkru eftir dauða hans og var þá ekki tiltækur neinn Íslendingur til að lesa prófarkir. Bókin bar þess mjög merki því í henni var aragrúi prentvillna sem stöfuðu af mislestri. Orðabók Guðmundar var vandlega yfirfarin og endurútgefin af Orðabók Háskólans 1999.

Halldór Kr. Friðriksson

1819–1902

Stúdent úr Bessastaðaskóla 1842, stundaði síðan nám í Kaupmannahafnarháskóla og tók 1. og 2. lærdómspróf í skólanum 1842–43. Lagði einnig stund á guðfræði en tók þó engin próf. Halldór var í nánum tengslum við Fjölnismenn og var ábyrgðarmaður tveggja síðustu árganga Fjölnis. Varð aðjúnkt í Reykjavíkurskóla 1848 og yfirkennari 1874-95. Forseti Búnaðarfélags Íslands 1868-85 og formaður landsbókasafnsnefndar 1874-96 og var varaforseti Þjóðvinafélagsins framan af. Eftir Halldór liggur mikið safn rita og kennslubóka. Hann skrifaði margar kennslubækur í íslensku auk kennslubóka í dönsku og þýsku, m.a. Islands Læsebog (1846), Stafrófskver (1854), Danska málfræði (1857), Íslenskar réttritunarreglur (1861) og Skýringu hinna almennu málfræðilegu hugmynda (1864), svo einhverjar séu nefndar, og annaðist útgáfu ýmissa fornrita.

Halldór Halldórsson

1911–2000

Íslenskur málfræðingur og prófessor við Háskóla Íslands. Halldór lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri 1932, magistersprófi í íslenskum fræðum frá Háskóla Íslands 1938 og doktorsprófi frá sama skóla 1954. Hann var íslenskukennari við Menntaskólann á Akureyri 1934–36 og 1938–51, dósent við heimspekideild Háskóla Íslands 1951–57 og prófessor í íslensku nútíðarmáli frá 1957 til 1979. Annað meginviðfangsefni Halldórs voru rannsóknir á íslenskum orðaforða; uppruna orðanna, sögu þeirra og merkingu. Doktorsrit hans var Íslenzk orðtök (1954), og einnig samdi hann Íslenzkt orðtakasafn (1968–69). Önnur helstu rit hans á þessu sviði eru Um hluthvörf (1939), Örlög orðanna (1958), Old Icelandic heiti in Modern Icelandic (1975), Þættir úr sögulegri merkingarfræði (1971) og Ævisögur orða (1986). Hitt meginviðfangsefni Halldórs var íslensk málrækt, ekki síst nýyrðasmíð. Hann gaf út Nýyrði II–IV (1954–56) og smíðaði sjálfur fjölmörg nýyrði. Hann var fyrsti formaður Íslenskrar málnefndar og skrifaði margar greinar um íslenska málrækt; nokkrar þær helstu birtust í bókinni Íslenzk málrækt (1971). Auk þess samdi Halldór kennslubækur sem sumar hverjar hafa verið mikið notaðar í framhaldsskólum, einkum Íslenzk málfræði handa æðri skólum (1950). Enn fremur gaf hann út Stafsetningarorðabók með skýringum (fyrst útg. 1947) og ritstýrði (ásamt Jakobi Benediktssyni) Viðbæti við Íslensk-danska orðabók Sigfúsar Blöndals (1963).

Hallgrímur Scheving

1781–1861

Gekk í Hólaskóla og síðar Kaupmannahafnarháskóla, stundaði nám í málfræðideild skólans og lauk prófi 1807. Þótti ágætur námsmaður og fékk tvívegis verðlaunagullpening fyrir úrlausnir verkefna sem háskólinn hafði lagt fyrir. Settur kennari við Bessastaðaskóla 1810. Varð doktor í heimspeki við Hafnarháskóla 1817 með ritgerð sinni Observationes criticæ in quædam Bruti Ciceronis loca. Varð yfirkennari í Lærða skólanum 1846 og settur rektor 1850 en fékk lausn frá störfum síðar sama ár. Hallgrímur kenndi aðallega latínu og þótti góður kennari. Hann orti talsvert og eru mörg kvæða hans varðveitt í handritum. Merkasta framlag hans til íslenskra fræða er án efa viðamikið en óútgefið orðasafn hans en hann safnaði orðum úr íslensku alþýðumáli um árabil og er safnið merkileg heimild um íslenska tungu 19. aldar.

Jakob Benediktsson

1907–99

Forstöðumaður Orðabókar Háskólans. Jakob lauk stúdentsprófi (utanskóla) frá Menntaskólanum í Reykjavík 1926, cand.mag.-prófi í latínu og grísku frá Kaupmannahafnarháskóla 1932 og doktorsprófi frá sama skóla 1957. Jakob starfaði í Kaupmannahöfn að útgáfu grískra áletrana 1933–42, var styrkþegi Árnanefndar 1939–46, starfaði við fornmálsorðabók Árnanefndar 1939–46, var bókavörður við háskólabókasafnið í Kaupmannahöfn 1943–46 og forstöðumaður Orðabókar Háskólans 1948–77. Jakob var afar afkastamikill fræðimaður; hann fékkst mikið við rannsóknir á verkum Arngríms Jónssonar lærða og skrifum um Ísland og Íslendinga fyrr á öldum (Arngrímur Jónsson and His Works, doktorsrit, 1957; Arngrimi Jonae Opera Latine conscripta I–IV, 1950–57; Two Treatises on Iceland from the XVIIIth Century, 1943) og útgáfu á ýmsum fornritum, svo sem á Skarðsbók (1943), Sturlunga sögu, AM 122a fol. (1958), Skarðsárbók: Landnámabók Björns Jónssonar á Skarðsá (1958) og Landnámabók (1974), auk mikils fjölda greina í blöðum og tímaritum en úrval þeirra var gefið út undir heitinu Lærdómslistir (1987). Þekktastur er hann þó fyrir orðabókarstörf sín, ekki síst hina vandasömu uppskrift úr orðabókarhandriti Jóns Ólafssonar úr Grunnavík en hún er varðveitt sem sérstakt safn á Orðabók Háskólans.

Jakob Jóh. Smári

1889–1972

Íslenskt skáld og málfræðingur, Jóhannesar L.L. Jóhannssonar. Jakob var þekkt skáld á sínum tíma og voru ljóð hans í anda nýrómantíkur. Þekktasta ljóðabók hans er líkast til Kaldavermsl (1920) en þar birtir hann einna fyrstur íslenskra skálda prósaljóð. Hann skrifaði einnig talsvert um íslenska málfræði og markverðast af því er bókin Íslenzk setningafræði (1920), fyrsta íslenska málfræðiritið sem helgað er setningafræði eingöngu.

Johan Fritzner

1812–93

Norskur málfræðingur, fæddur nálægt Björgvin í Noregi. Hann lauk guðfræðiprófi og starfaði fyrst sem kennari en tók síðan við prestsembætti í Finnmörku og gegndi starfi prests til 1877 er hann ákvað að helga sig alfarið fræðimennsku. Hann sýndi samískri menningu og tungu mikinn áhuga og skrifaði greinar og bækur um það efni. Þekktastur er Fritzner þó fyrir orðabókarstörf. Hann gaf út 1. útgáfu af Ordbog over det Gamle Norske Sprog (1862) sem var fyrsta heildstæða orðabókin yfir norræna tungu og þótti mikið stórvirki. Hafist var handa við 2. útgáfu 1883 og kom fyrsta bindið út 1896 að Fritzner látnum. Sú útgáfa var næstum því þrisvar sinnum stærri en sú fyrsta og hafði að geyma meiri upplýsingar um sögu og uppruna orða, auk þess sem mun fleiri sögur og handrit voru lögð til grundvallar. Orðabók Fritzners er heildstæðasta og viðamesta orðabók yfir norræna tungu sem völ er á og verður ekki velt úr þeim sessi fyrr en orðasafn Árnastofnunar í Kaupmannahöfn, Ordbog over det norrøne prosasprog, verður komið út einhvern tíma á fyrri hluta 21. aldar.

Jóhannes Lárus Lynge Jóhannsson

1859–1929

Prestur og málfræðingur. Jóhannes lauk stúdentsprófi úr Reykjavíkurskóla 1881 og prófi úr prestaskóla 1888; vígðist sama ár aðstoðarprestur síra Jakobs Guðmundssonar að Sauðafelli, fékk Suðurdalaþing 1890 og bjó að Kvennabrekku; fékk lausn 1918 og var eftir það í Reykjavík við fræðistörf. Jóhannes fékkst við rannsóknir á bragfræði, málsögu og stafsetningu og orðasöfnun. Meðal rita hans eru Söguleg lýsing íslenzkrar réttritunar (1922) og Nokkrar sögulegar athuganir um helztu hljóðbreytingar o.fl. í íslenzku, einkum í miðaldarmálinu (1300–1600) (1925).

Jón Helgason

1899–1986

Prófessor í Kaupmannahöfn og skáld. Jón lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1916, magisterprófi í norrænum fræðum frá Kaupmannahafnarháskóla 1923 og doktorsprófi frá Háskóla Íslands 1926. Jón var forstöðumaður safns Árna Magnússonar í Kaupmannahöfn 1927–56 og síðan forstöðumaður Det arnamagnæanske Institut til 1972, prófessor í íslenskri tungu og bókmenntum við Kaupmannahafnarháskóla 1929–69. Jón var afar afkastamikill fræðimaður; meðal rita hans má nefna Jón Ólafsson frá Grunnavík (doktorsrit, 1926) og Málið á Nýja testamenti Odds Gottskálkssonar (1929); enn fremur var hann mikilvirkur útgefandi fornrita og skrifaði fjölda ritgerða um mál og bókmenntir í blöð og tímarit.

Jón Magnússon

1662–1738

Prestur, sýslumaður og málfræðingur; bróðir Árna Magnússonar handritasafnara. Að loknu námi í Skálholtsskóla vígðist hann til Hjarðarholts 1689 en missti brauðið 1698 vegna hórdómsbrots, varð þá sýslumaður fyrst í Strandasýslu og síðar Dalasýslu en missti embættið 1708 vegna annars hórdómsbrots, var við kennslu eftir það; varð enn sekur um hórdómsbrot og dæmdur frá lífi 1730 en konungur náðaði hann árið eftir. Þótt Jón væri talinn lítill búmaður, kvenhollur og drykkfelldur var hann vel að sér og liggja eftir hann í handriti ýmsar merkar ritgerðir, svo sem ættartölubók, lækningabók og nokkrar lagaritgerðir. Hann er ekki hvað síst þekktur fyrir íslenska málfræði er hann ritaði á latínu, Grammatica Islandica, og varðveitt er í handriti; hún var gefin út 1933 (Finnur Jónsson, Den islandske grammatiks historie til o. 1800) og aftur í íslenskri þýðingu 1997.

Jón Ólafsson úr Grunnavík

1705–79

Fornritafræðingur. Jón varð stúdent frá Hólaskóla 1722, fór utan 1726 og lauk guðfræðiprófi frá Kaupmannahafnarháskóla 1731; skrifari hjá Árna Magnússyni frá 1726 og styrkþegi Árnanefndar eftir dauða Árna. Jón samdi ógrynni ritgerða um íslenskar fornbókmenntir, málfræði, sögu, náttúrufræði og fleira en lítið sem ekkert af því hefur komist á prent. Helsta stórvirki hans er íslensk-latnesk orðabók sem hefur að geyma óhemjumikinn fróðleik um íslenskt mál 18. aldar; handrit Jóns er í meira lagi óaðgengilegt en Jakob Benediktsson skrifaði orðabókina alla upp á seðla sem varðveittir eru á Orðabók Háskólans. Jón samdi kennslukver í íslensku fyrir útlendinga, hið fyrsta sinnar tegundar, skrifaði m.a. um réttritun og rúnir og tók saman margvísleg drög til íslenskrar málfræði en margt af því er ófullgert og ekkert hefur komist á prent. Í ritum sínum varar Jón mjög við dönskum áhrifum á íslensku og vill gera mál fornritanna að fyrirmynd um mál og stíl. Meðal rita Jóns má nefna Hagþenki (1996) og þýðingu hans á Nikulási Klím eftir Holberg (1948).

Konráð Gíslason

1808–91

Málfræðingur, bjó og starfaði í Kaupmannahöfn. Konráð lauk stúdentsprófi frá Bessastaðaskóla 1831 og fór þá til Kaupmannahafnar til náms; var styrkþegi Árnasafns, aukadósent í norrænum fræðum við Kaupmannahafnarháskóla 1848 og prófessor 1862. Átti drjúgan þátt í samningu íslensk-ensku orðabókarinnar sem kennd er við R. Cleasby og Guðbrand Vigfússon og samdi Danska orðabók með ísl. þýðingum (1851). Skrifaði fjölda ritgerða og greina um íslenskar fornbókmenntir og málsögu, samdi forníslenska málfræði, Um frumparta íslenskrar túngu í fornöld (1846), og gaf út fornrit, m.a. Njálu (1875–89); ennfremur Efterladte Skrifter í tveimur bindum 1895–97. Konráð var einn Fjölnismanna og lét mjög til sín taka á þeim vettvangi, ekki síst um stafsetningarmál. Hann vildi í fyrstu gera róttækar breytingar á íslenskri stafsetningu þannig að ritháttur réðist af nútímaframburði fremur en uppruna. Þessar hugmyndir hans mættu mikilli andstöðu og síðar sneri hann við blaðinu og átti þátt í að móta stafsetningarreglur sem tóku mið af uppruna orða.

Bruno Kress

1907–97

Þýskur málfræðingur. Kress las þýska og norræna málfræði við Berlínarháskóla, dvaldist um skeið á Íslandi og 1935 lauk hann doktorsprófi í Berlín með ritgerð um íslenska hljóðfræði (Die Laute des modernen Isländischen). Að námi loknu fluttist Kress til Íslands og kvæntist þar íslenskri konu; í stríðsbyrjun var hann tekinn fastur ásamt öðrum Þjóðverjum hér á landi og fluttur í fangabúðir á Bretlandseyjum. Kress sneri ekki aftur til Íslands en settist að í Þýskalandi eftir stríð og var lengst af prófessor í norrænum fræðum við háskólann í Greifswald. Auk doktorsritgerðarinnar ritaði Kress handbók um íslenska hljóðfræði og beygingarfræði (Die Laut- und Formenlehre des Isländischen, 1963) og enn rækilegri íslenska málfræði (Isländische Grammatik, 1982) þar sem meðal annars er fjallað einkar rækilega um setningafræði íslensku. Kress ritaði ennfremur fjölda greina í tímarit og þýddi á þýsku fjölda íslenskra bókmenntaverka, meðal annars verk eftir Halldór Laxness. Kress var sæmdur riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu árið 1978 og heiðursdoktorsnafnbót við heimspekideild Háskóla Íslands 1986.

Ludvig Larsson

1860–1933

Sænskur málfræðingur. Larsson hlaut menntun sína við háskólann í Lundi og lauk þaðan doktorsprófi 1886; hann var barnakennari í Lundi 1884–93 en lengst af lektor í sænsku og þýsku við menntaskólann í Växjö, 1893–1925. Larsson gaf út texta margra af elstu íslensku handritunum með rækilegum lýsingum á máli og stafsetningu (þar á meðal Äldsta Delen af Cod. 1812 4to Gml. kgl. Samling, 1883; Isländska handskriften n° 645 4° i den Arnamagnæanska samlingen, 1885) en þekktastur er hann án efa fyrir orðabók sína um elstu íslensku (Ordförrådet i de älsta islänska handskrifterna, leksikaliskt ock gramatiskt ordnat, 1891) sem er fullkomið safn orða og orðmynda úr nokkrum elstu varðveittu handritunum. Larsson var annálaður nákvæmnismaður, prentaði texta stafrétt og bandrétt og má furðu gegna hve fáar villur hafa fundist í fornmálsorðabók hans sem er mikil vöxtum, vel á fimmta hundrað blaðsíður í fjögurra blaða broti.

Adolf Noreen

1845–1925

Sænskur málfræðingur. Noreen skrifaði gríðarmikið um sænska og norræna málsögu og meðal annars fornnorræna málfræði í tveimur bindum; hið fyrra helgaði hann forníslensku og fornnorsku (Altnordische Grammatik 1. Altisländische und altnorwegische Grammatik, 1884 og oft síðan) en hið síðara fjallar einkum um fornsænsku (Altnordische Grammatik 2. Altschwedische Grammatik mit Einschluss des Altgutnischen, 1904). Fyrra bindið í þessu verki Noreens er enn einhver rækilegasta handbók um forníslensku sem völ er á.

Marius Nygaard

1838–1912

Norskur málfræðingur, þekktastur fyrir rækilegt rit um setningafræði norrænu (Norrøn Syntax, 1905).

Runólfur Jónsson

d. 1654

Lærði í Hólaskóla og síðar Kaupmannahafnarháskóla. Gerðist rektor Hólaskóla 1644 en fór síðar til Danmerkur og varð magister í Kaupmannahafnarháskóla. Varð rektor í Kristiansstad 1651–52 og hélt því embætti til æviloka. Runólfur þótti gáfumaður og var vel að sér um marga hluti, sinnti m.a. eðlisfræði talsvert og orti kvæði sem sum eru varðveitt í handritum. Hann sinnti einnig íslenskri málfræði og skrifaði fyrstu íslensku málfræðina sem gefin var út á prenti, Grammatica Rudimenta Islandica (1651). Bókin er á latínu og þykir fremur ruglingslega fram sett en hún var eina íslenska málfræðin sem útlendingar gátu nýtt sér allt þar til Rasmus Christian Rask skrifaði málfræði sína í upphafi 19. aldar.

Sigfús Blöndal

1874–1950

Bókavörður og orðabókarhöfundur. Sigfús lauk stúdentsprófi 1892 og cand.mag.-prófi í latínu, grísku og ensku frá Kaupmannahafnarháskóla 1898; var starfsmaður Konunglega bókasafnsins í Kaupmannahöfn frá 1901, bókavörður 1914–39; lektor í íslensku nútímamáli við Kaupmannahafnarháskóla frá 1931. Meðal rita Sigfúsar eru útgáfur á Ævisögu Jóns Ólafssonar Indíafara (1908–09), Píslarsögu Jóns Magnússonar (1914), endurskoðaðri þýðingu Sveinbjarnar Egilssonar á Odysseifs-kviðu Hómers (1912) og þýðing á Bakkynjunum eftir Evripídes (1923). Þekktastur er Sigfús þó fyrir Íslensk-danska orðabók sem út kom 1920–24. Viðbætir við hana kom út 1963 og árið 1980 var hún ljósprentuð í heild; hún er enn ein stærsta og rækilegasta orðabók um íslensku sem gefin hefur verið út.

Stefán Einarsson

1897–1972

Prófessor í Bandaríkjunum. Stefán lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1917 og meistaraprófi í íslenskum fræðum frá Háskóla Íslands 1924, var við nám í Helsinki og Cambridge 1924–25, lauk doktorsprófi frá Óslóarháskóla 1927; var prófessor við Johns Hopkins-háskóla í Bandaríkjunum 1928–62. Meðal rita Stefáns eru skrif hans um íslenska hljóðfræði (Beiträge zur Phonetik der isländischen Sprache, 1927; A Specimen of Southern Icelandic Speech, 1931), enn fremur Um kerfisbundnar hljóðbreytingar í íslenzku (1949), en þekktastur er hann ekki hvað síst fyrir kennslubók sína í íslensku handa enskumælandi nemendum (Icelandic: Grammar, Texts, Glossary, 1945). Auk þessa skrifaði Stefán íslenska bókmenntasögu (A History of Icelandic Literature, 1957; Íslenzk bókmenntasaga 874–1960, 1961).

Sveinbjörn Egilsson

1791–1852

Kennari við Bessastaðaskóla 1819–46, rektor Lærða skólans í Reykjavík 1846–52. Samdi orðabók yfir forníslenskt skáldamál með latneskum skýringum, Lexicon poëticum (1860), sem enn er grundvallarrit; þýddi kviður Hómers, nokkur af ritum Platóns og ýmis rit Biblíunnar. Sveinbjörn hafði mikil áhrif á þróun íslensks máls á 19. öld, bæði sem kennari og með þýðingum sínum. Hann kenndi flestum þeim Íslendingum sem síðar urðu helstu skáld og menntamenn þjóðarinnar á 19. öld og hefur vafalítið mótað viðhorf margra þeirra til tungunnar, t.a.m. má rekja margt í málstefnu Fjölnismanna til hans.

Sveinn Bergsveinsson

1907–88

Prófessor í Berlín. Sveinn lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri 1932 og cand.mag.-prófi í íslenskum fræðum frá Háskóla Íslands 1936, nam við háskólana í Berlín og Kaupmannahöfn og lauk doktorsprófi frá Kaupmannahafnarháskóla 1941; gistiprófessor í norrænum málum og bókmenntum við Humboldt-háskólann í Austur-Berlín 1953–63, fastur prófessor þar 1963–77. Sveinn ritaði um íslenska hljóðfræði (Grundfragen der isländischen Satzphonetik, doktorsrit, 1941), tók saman rit um nýyrði í íslensku (Nýyrði I, 1953) og samdi íslensk-þýska orðabók (Isländisch-Deutsches Wörterbuch, 1967), auk fjölda ritgerða í blöðum og tímaritum.