Greinar

Þórunn Blöndal
Málnotkunarfræði

1. Inngangur

1.1 Málnotkunarfræði

MÁLNOTKUNARFRÆÐI fæst við að rannsaka textasamhengi og málaðstæður; þar með talinn hinn félagslega og sálfræðilega veruleika sem myndar bakgrunn orðræðunnar, hvort sem um er að ræða talað mál eða ritað. Málnotkunarfræði snýst að miklu leyti um að komast að því hvað málnotandinn ætlaði sér með því að hefja máls (eða skrifa), burtséð frá því hvað orð hans merkja séu þau skilin bókstaflegum skilningi eða á hefðbundinn hátt. Málnotkunarfræði fæst líka við að athuga hvernig hið ósagða verður sjálfkrafa hluti af orðræðunni. Þessar athuganir vekja spurningar um hvernig málnotendur velja það sem þeir segja og eins hitt sem þeir kjósa að láta ósagt. Það val er alltaf háð fjarlægð af einhverju tagi; líkamlegri fjarlægð á milli þeirra sem talast við, félagslegri fjarlægð eða hugmyndalegri fjarlægð. Fjarlægðin – eða nándin – milli fólks hefur bein áhrif á hvað þarf að segja og hvað ekki.

1.2 Málnotkunarfræði og tengdar greinar

Málnotkunarfræði á upphaf sitt í heimspeki og er nátengd henni. Viðfangsefni greinarinnar falla mitt á milli setningafræði og merkingarfræði; hún fæst við merkingu setninga. Það er stundum sagt um ólík sjónarhorn merkingarfræði og málnotkunarfræði að í þeirri fyrrnefndu spyrji menn „hvað merkir x?“ en í hinni síðarnefndu sé spurt „hvað meinarðu með x?“. Málnotkunarfræðin á það sameiginlegt með orðræðugreiningu að fást einkum við að greina málbeitingu, þ.e. málið eins og það birtist í tali eða á rituðu formi. Þessar tvær greinar nútímamálvísinda eiga margt fleira sameiginlegt og fléttast saman á ýmsa vegu. Þess vegna er algengt að drepið sé á málnotkunarfræði í bókum um orðræðugreiningu og öfugt. Þess ber að geta að allar þessar greinar geta stutt hver aðra og stundum verður ekki hjá því komist að skoða viðfangsefnin frá ólíkum sjónarhornum.

1.3 Viðfangsefni málnotkunarfræði

Meðal helstu viðfangsefna málnotkunarfræði eru BENDIVÍSANIR, VÍSANIR, VÍSBENDI, FORSENDUR, TALFÓLGNIR ÞÆTTIR og HÁTTVÍSI.

2. Bendivísanir

2.1 Bendivísun

Tengslin milli tungumálsins sjálfs og umhverfis koma einna best fram í því sem í erlendum málum er kallað deixis og hefur verið nefnt BENDIVÍSUN á íslensku. Orðið deixis er grískt að uppruna og merkir að ‘benda á’ og í bendivísunum er alltaf fólgin bending af einu eða öðru tagi. Túlkun bendivísana er alltaf bundin samhenginu, ábendingarfornafnið þetta hefur til dæmis ekki eina fasta merkingu heldur verður aðeins í það ráðið af samhengi og kringumstæðum. Mikilvægi umhverfisins fyrir túlkun bendivísana verður fyrst ljóst ef nauðsynlegar upplýsingar eru ekki fyrir hendi. Líklega rynnu á okkur tvær grímur ef við sæjum þessa auglýsingu á strætisvagni:

Ég verð með sýningu hér eftir viku.
Tryggðu þér miða núna og láttu sjá þig þar!

Hér vantar nefnilega ýmislegt sem skiptir máli. Við vitum hvorki hver þessi ég er sem sendir skilaboðin né hvers kyns sýningar hann eða hún býður til, við vitum ekki hvar hér er í veröldinni og heldur ekki hvenær eftir viku er vegna þess að engin dagsetning fylgir. Síðast en ekki síst vantar upplýsingar um hvenær núna er og hvar sýningin er, þar hefur enga merkingu án þess að það vísi til tiltekins staðar. Af sömu ástæðum yrðum við í vandræðum með að ákveða hvort við ættum að bíða ef við kæmum að búð og sæjum miða í glugganum sem á stæði: „Kem eftir tvo klukkutíma“ án þess að tekið væri fram frá hvaða tímapunkti er mælt.

Það er hefð fyrir því að undir hugtakinu bendivísun felist undirhugtökin PERSÓNUVÍSUN, TÍMAVÍSUN og STAÐARVÍSUN. Hér er bætt við ORÐRÆÐUVÍSUN og #k2_6_Félagsleg_vísun">FÉLAGSLEGRI VÍSUN.

2.2 Persónuvísun

PERSÓNUVÍSUN er notuð til þess að vísa til persóna og hluta. Persónufornöfn 1. persónu, ég og við, eru notuð þegar mælandinn vísar til sjálfs sín eingöngu eða sjálfs sín og annarra; 2. persónu fornöfnin þú og þið eru notuð þegar mælandi vísar til eins eða fleiri viðmælenda sinna. Fornafn 3. persónu er að því leyti ólíkt hinum tveimur að það vísar ekki til þátttakanda í samtalinu heldur til þess sem talað er um, lifandi persóna eða dauðra hluta.

2.3 Tímavísun

Höfuðorð TÍMAVÍSUNAR í íslensku eru og núna. Tímavísunin felst þó fyrst og fremst í tíðum sagna og sagnasamböndum. Það mætti segja að merking tímavísunar eins og sé ‘tíminn þegar segðin sem inniheldur er sögð’. Að auki geta orð eins og og núna vísað til nálægðar við liðinn atburð eða ókominn og þá oft í tengslum við önnur tímaorð:

Hvenær fékkstu bílinn? Ég fékk hann núna rétt áðan.
Hvenær færðu bílinn? Ég fæ hann núna á morgun.

Tímavísanir eru oft notaðar með öðrum tímaorðum og sagt „núna á þriðjudaginn, síðasta sunnudag og í næstu viku“.

Kveðjuorð eins og góðan dag, sem aðeins á við að degi til, og gott kvöld, sem er viðeigandi að kvöldlagi, fela í sér ákveðna vísun til tíma. Orðasamböndin góðan dag og gott kvöld eru kveðjur sem menn nota þegar þeir hittast. Það er athyglisvert að þótt góða nótt sé yfirleitt ekki notað nema að kvöldlagi er það ekki kveðja í sama skilningi og hin tvö því það er aldrei notað nema þegar leiðir skilja líkt og góða helgi sem er aðeins sagt í kveðjuskyni þegar helgi er framundan.

2.4 Staðarvísun

Höfuðorð STAÐARVÍSUNAR í íslensku eru hér, hérna, þessi og þarna. Öll þessi orð fela í sér kyrrstöðu. Aðrar staðarvísanir fela í sér hreyfingu eða stefnu, t.d. hingað og héðan sem fela í sér hreyfingu til og frá mælanda og þangað og þaðan sem fela í sér hreyfingu til og frá tilteknum stað fjarri mælanda.

Staðarvísanirnar hérna (hér), þarna og þessi fá merkingu sína af því umhverfi sem þau eru notuð í eins og sjá má á þessum dæmum:

  1. Á póstkortinu sérðu mynd af hótelinu sem við búum á hérna.
  2. Myndin er hérna hjá mér en ramminn liggur þarna á borðinu.

Í a-setningunni er greinilega miðað við ritunarstað póstkortsins og hérna vísar til hans. Dæmið í b-lið sýnir hvernig staðarvísanirnar hérna og þarna mynda andstæður miðað við staðsetningu þess sem talar.

2.5 Orðræðuvísun

ORÐRÆÐUVÍSUN eða textavísun felst í því að nota bendivísanir á texta eða textabút sem myndar bakgrunn vísunarinnar. Hér er um að ræða þær bendivísanir sem finnast í tungumálinu eins og sjá má í dæmum A og B þar sem vísunin er bundin undangenginni orðræðu eða því sem á eftir kemur:

A
Á stríðsárunum flæddi fólkið til höfuðstaðarins, því allir gátu fengið vinnu hjá hernámsliðinu. Meðal annars við að setja upp bragga. Heilu hverfin lögðust yfir melana. Tilsýndar eins og tjaldbúðirnar á Alþingishátíðinni. En stærstu hverfin voru miklu meira en einhver bráðabirgðatjöld. Þetta voru voldugar herbúðir með skotfæra og birgðageymslum, loftvarnarbyrgjum og neðanjarðargöngum. Þarna voru líka fangelsi, mötuneyti, bíó, klúbbar og verslanir.
(Einar Kárason: ÞAR SEM DJÖFLAEYJAN RÍS. Leturbreyting ÞB)

B
Sænskan er á undanhaldi á mörgum sviðum og því er eðlilegt að sett verði lög til að slá því föstu að sænska sé hið ríkjandi tungumál í Svíþjóð sem alls staðar er í gildi. Þetta er niðurstaða tveggja sænskra málverndarmanna . . . í grein sem þau birtu í Svenska Dagbladet í vikunni.
(MORGUNBLAÐIÐ 21. júlí 1999. Leturbreyting ÞB)
Tímavísanir eins og núna eru líka notaðar til þess að setja lesendur inn í tíma skáldverks eins og sjá má í dæmi C:
C
Frá því hún mundi eftir sér var hún ákveðin í að vera eðli sínu trú og fórna heimili og börnum kröftum sínum. Börnin voru orðin nokkuð mörg og hún var því önnum kafin frá morgni til kvölds við heimilisstörf og barnauppeldi. Núna var hún að undirbúa kvöldverð og beið þess að suðan kæmi upp á kartöflunum.
(Svava Jakobsdóttir: Saga handa börnum. Leturbreyting ÞB)
Til orðræðuvísana má líka telja orð eins og þess vegna, þvert á móti, samt sem áður, að auki, auk þess, þegar allt kemur til alls og fleiri slík orð og orðasambönd sem beinlínis vísa til þess sem fyrir er í textanum og stuðla að samloðun í textanum.

2.6 Félagsleg vísun

FÉLAGSLEG VÍSUN felur í sér afstöðu milli sendanda og viðtakanda eða sendanda og þess sem hann talar um. Í mörgum tungumálum er slíkur munur fólginn í ávarpsorðum, vali fornafna og titlum. Í málum eins frönsku, spænsku og þýsku er gerður skýr greinarmunur á því hvernig menn ávarpa fólk. Í frönsku segja menn tu við kunningja sína en vous við aðra, í spænsku er samsvarandi greinarmunur gerður með og Usted og í þýsku du og Sie. Reglur um notkun geta orðið flóknar í nútímasamfélagi og val ávarpsorðs er bundið félagslegri stöðu, aldri og virðingu. Í íslensku var þérunin af þessum toga en þá var sagt við ókunnuga:

Eruð þér að leita að einhverju?
Má bjóða yður meira kaffi?

Þérunin er nú nær horfin úr daglegu máli en enn sér hennar stað við opinberar athafnir og í bréfum frá opinberum stofnunum:

Landlæknisembættið hefur móttekið erindi YÐAR um úrsögn úr gagnagrunni á heilbrigðissviði og mun gera ráðstafanir til þess að engar upplýsingar um YÐUR verði færðar í væntanlegan gagnagrunn.

Enda þótt Íslendingar flíki lítið lærdóms- eða stöðutitlum þá er forseti lýðveldisins kallaður herra eða frú og biskupinn herra biskup.

3. Vísanir

3.1 Vísanir

Orð er ekki aðeins hljóðastrengur heldur merkingarbær hljóðastrengur. En merkingin tengist ekki aðeins orðunum sjálfum heldur líka þeim sem nota þau. Sendandi velur orð til að vísa til persóna, hluta og hugtaka með það í huga að viðtakandi geti áttað sig á því sem um er rætt. Slíkar VÍSANIR eru oft sérnöfn og stundum er hnýtt við þau viðbótarupplýsingum til glöggvunar, t.d. Siggi, Ingólfur Arnarson, Jón á Hóli og Gummi rafvirki. ÁKVEÐNIR NAFNLIÐIR eru líka oft notaðir til að vísa í fólk og hluti, t.d. landnámsmaðurinn eða rafvirkinn. Óákveðnir nafnliðir koma þarna líka við sögu og auðvitað fornöfn, t.d. hann, hún, og það. Valið er sendandans og það veltur á því hvað hann telur að viðtakandinn þekki eða viti fyrirfram. Við tilteknar kringumstæður og í ákveðnu samhengi getur verið fullnægjandi að nota fornöfn og segja „manstu eftir honum?“ en við aðrar kringumstæður þarf nákvæmari vísun eins og „manstu eftir litla skrýtna karlinum í rauðu skónum?“ Til þess að vísun heppnist vel verðum við líka að gera okkur grein fyrir því hlutverki sem ÁLYKTANIR hafa í allri málnotkun. Vegna þess að það eru engin bein tengsl milli orðs og þess sem það vísar til er það hlutverk viðtakanda að draga ályktanir út frá því sem sagt er. Það er t.d. ekki óalgengt að fólk þurfi að tala um eitthvað sem það veit ekki nafnið á. Við getum t.d. sagt: „þetta slepjulega í krukkunni sem er í skápnum yfir vaskinum“. Stundum býr fólk til nafn á persónu og þá reynir á viðtakanda að ráða í það. Innan fjölskyldu getur t.d. „fröken litla frekja“ reynst fullnægjandi til að vísa til ungs fjölskyldumeðlims og á vinnustað getur „pípuhreinsarinn“ reynst velheppnuð vísun til grannholda manns.

3.2 Vísandi eða lýsandi?

Nafnliður getur hvort sem er vísað til raunverulegs hlutar, fyrirbæris eða mannveru eða einhvers sem ekki er til í raunveruleikanum. Óákveðnir nafnliðir eru þannig stundum notaðir til þess að vísa til einhvers sem er raunverulegt eins og dæmið sýnir:

a. Það er strákur að spyrja eftir þér.

Óákveðnir nafnliðir eru líka notaðir til þess að tala um eitthvað sem við gerum ráð fyrir að sé til. Dæmið hér á eftir sýnir slíka notkun:

b. Ef hún giftist þá giftist hún einhverjum gömlum milljónamæringi

Þá má nota óákveðna nafnliði til þess að vísa til einhvers sem er sennilega alls ekki til:

c. Mér veitti ekki af ræstitækni með fjórar hendur.

Í dæmunum hér að ofan er það aðeins a-setningin sem hefur eiginlega vísun í sér fólgna, þar er vísað til raunverulegrar persónu. Í hinum tveimur dæmunum er frekar um lýsandi liði að ræða en eiginlega vísun, þessir liðir eiga eiginlega við sérhvern þann sem lýsingin hæfir.

Svipaða aðgreiningu má finna þegar notaðir eru ákveðnir nafnliðir. Við getum sagt:

Hún er að bíða eftir að draumaprinsinn birtist á hvítum hesti.

Hér er vitanlega ekki átt við neinn sérstakan mann heldur sérhvern þann sem lýsingin á við. Eins er hægt að segja í umfjöllun um morð:

Morðinginn hefur enn ekki fundist.

Hér er ekki um vísun að ræða heldur lýsandi notkun en þekking okkar á veröldinni leyfir okkur að gera ráð fyrir morðingja þegar morð hefur verið framið.

3.3 Nöfn og vísanir

Vísun og ráðning vísunar er samvinnuverkefni. Samvinnan er ekki aðeins á milli eins sendanda og eins viðtakanda heldur er hún bundin samfélaginu öllu, venjum þess og menningu. Nöfn manna má til dæmis nota til að vísa til hluta og heiti tiltekinna hluta má nota á fólk. Þannig væri ekkert óeðlilegt að heyra þessi orðaskipti á lesstofu í skóla:

A. Má ég fá Ásgeir Blöndal lánaðan?
B. Já, taktu hana þarna á borðinu.

Hér væri augljóslega um bók að ræða enda bendir fornafnið hana í svari B til þess að hann leggi þann skilning í beiðnina.

Á sama hátt má hugsa sér að nota hlutanöfn yfir fólk. Þessi orðaskipti gætu átt sér stað á veitingastað:

A. Hvar situr plokkfiskurinn?
B. Hún er inni í garðhúsi – alveg innst – í rauðri peysu.

Hér er augljóslega átt við manneskju og B svarar spurningunni með það í huga. Hafa má í huga að aðstæður og viðmælendur ráða miklu um málsnið og vísunin er alltaf valin með tilliti til þess.

3.4 Textaumhverfi

Oftast er það svo að í vísun verður ekki ráðið nema með hliðsjón af því samhengi sem hún verður til í, þ.e. því sem við getum kallað TEXTAUMHVERFI. Textaumhverfið takmarkar þær túlkanir sem vísun gæti boðið upp á og beinir viðtakendum á réttar brautir. Þessi fyrirsögn birtist í dagblaði:

Svaf á jöklinum í hlaupinu.

Textinn sem fjallar um hlaup í Jökulsá á Sólheimasandi leiðir lesanda á réttar brautir og kemur í veg fyrir að hann leggi aðra merkingu í orðið hlaup en til er ætlast. Textaumhverfið er auðvitað hluti af því heildarumhverfi sem textinn birtist í. Umhverfið setur það sem sagt er í ákveðið samhengi sem hefur áhrif á val vísana og túlkun þeirra. Þess vegna væru þessar setningar mögulegar í tilteknu samhengi:

Hvert var farið með fótbrotið?
Saltfiskurinn fór án þess að borga.

Vísun felst því ekki einvörðungu í beinum tengslum milli orða og fyrirbæra í raunheiminum. Hún er ekki síður félagslegs eðlis þar sem sendandi gerir ráð fyrir að viðtakandi túlki það sem sagt er eins og til var ætlast og í samræmi við málsnið.

3.5 Samvísun, endurvísun og framvísun

Það er algengt bæði í samræðum og við samningu og lestur texta að sendandi þurfi að halda þræðinum um lengri tíma og vísa aftur og aftur til sama fyrirbæris. Eftir að kynning hefur farið fram, þ.e. þegar persóna hefur verið nefnd í fyrsta sinn í textanum, stendur til boða safn af vísandi orðum til að halda henni inni í orðræðunni. Í þessum blaðatexta má sjá fjölbreytt safn vísiorða:

Vinsælasta kjaftasagan í Hollywood um þessar mundir er um leikarana Jim Carrey og Renee Zellweger og hvort þau eigi í ástarsambandi. Turtildúfurnar hafa verið vinir um tíma og voru talsmenn þeirra duglegir að minna á að þau væru „bara vinir“. . . Þessa dagana eru þau bæði við tökur á myndinni ME, MYSELF AND IRENE þar sem Carrey leikur mann með klofinn persónuleika. verður ástfanginn af Irene sem Zellweger leikur.

Hér eru persónurnar kynntar til sögunnar með fullu nafni, en síðar notaðir ýmsir aðrir möguleikar. Kynningin er stundum kölluð UNDANFARI og það sem á eftir kemur samvísanir. Vísanirnar eru ekki alltaf eins fjölbreyttar og í dæminu hér að framan heldur virðist það bundið textategundum. Þetta brot er úr slúðurdálki dagblaðs og svona fjölskrúðuga vísanaflóru má líka oft sjá á íþróttasíðum dagblaðanna.

Ýmist er vísað í það sem á undan er komið í texta eða í það sem kemur á eftir. Ef vísað er í eitthvað sem þegar hefur verið nefnt eins og algengast er kallast það ENDURVÍSUN:

Ég sá molduga skó í forstofunni þegar ég kom inn. Þeir höfðu ekki verið þar þegar ég fór.

Þegar vísað er í hina áttina, ef svo má segja, eins og hér á eftir þar sem fornafnið er notað á undan nafnliðnum verður túlkun ómöguleg fyrr en málsgreinin er að fullu sögð:

Ég sá þá um leið og ég steig inn fyrir dyrnar, molduga skóna í forstofunni.

Slík vísun kallast FRAMVÍSUN og er sennilega sjaldgæfari en endurvísun, a.m.k. í ritmáli.

4. Samvinnulögmálið

4.1 Kenningar H.P.Grice

Kenningar heimspekingsins H.P.Grice eru fyrirferðarmiklar í nútíma málnotkunarfræði. Einna hæst ber þar skilgreiningar hans á MERKINGU, VÍSBENDI og SAMVINNULÖGMÁLI.

4.2 Merking

Grice leit svo á að hægt væri að skilgreina orðið merking á tvennan hátt; annars vegar talar hann um EÐLISLÆGA MERKINGU – merkingu-e – og hins vegar um TILBÚNA MERKINGU sem kalla má merkingu-t.

Það er eðlislæg merking ef við drögum þá ályktun að manneskja með glóðarauga og marbletti í andlitinu hafi verið lamin. Tilbúin merking er aftur á móti bundin samkomulagi, eins og t.d. að rautt ljós merki að við eigum að stöðva farartæki. Mikilvægasta einkenni merkingar-t er að fólki er ætluð kunnátta til að ráða í hana. Merking í máli er af þessum toga.

Grice gerir líka greinarmun á setningarmerkingu og sendandamerkingu. Hvað merkir til dæmis þessi segð?

Það var ofsalega rólegt á Akureyri eins og alltaf um verslunarmannahelgina og auðvitað engir fullir nema aðkomumenn.

Líklega merkir hún eitthvað annað en það sem orðin raunverulega segja. Segðin felur sennilega í sér „eða hitt þó heldur“ þótt það sé aldrei sagt; í því tilviki gengi sendandamerkingin þvert á setningarmerkinguna.

4.3 Vísbendi

Hugtakið VÍSBENDI er mikilvægt í málnotkunarfræði. Vísbendi eru sérstök gerð af ályktunum sem virðast liggja utan við tungumálið sjálft en hafa eigi að síður afdrifarík áhrif á það. Þau eiga rætur sínar í venjum sem gilda í samskiptum manna, svonefndu SAMVINNULÖGMÁLI sem allir málnotendur virðast hafa að leiðarljósi í venjulegum samtölum.

Vísbendin gera málnotendum kleift að segja eitt en meina annað en það sem raunverulega er sagt. Þetta má sýna með dæmi:

Geturðu sagt mér hvað klukkan er?

Það er búið að loka myndbandaleigunni.

Ef við notum þau vísbendi sem við fáum og gerum ráð fyrir að málnotendur lúti SAMVINNULÖGMÁLINU má túlka þessar setningar svona:

Er mögulegt að þú segir mér hvað klukkan er nákvæmlega núna á þann hátt sem tíminn er venjulega sýndur á úrum og klukkum og ef svo er viltu þá gjöra svo vel að gera það?

Nei, ég veit ekki nákvæmlega hvað klukkan er en ég get veitt þér upplýsingar sem hjálpa þér að draga ályktanir um tímann; það er búið að loka myndbandaleigunni og hún er opin til 11:30.

Dæmið sýnir beiðni um upplýsingar og tilraun til að veita eins mikið af umbeðnum upplýsingum og mögulegt er; sá sem gefur upplýsingarnar hagar sér samkvæmt einni venjunni í samvinnulögmálinu.

4.4 Samvinnulögmál Grice

Grice er þekktastur fyrir SAMVINNULÖGMÁL sitt. Innan samvinnulögmálsins eru nokkrar MEGINREGLUR og UNDIRREGLUR sem Grice telur að séu að verki í samtölum milli manna. Lögmálið og undirskipaðar reglur þess hljóða svo:

Sjáðu til þess að framlag þitt til samtalsins sé eins og krafist er, við þær kringumstæður sem samtalið fer fram og í samræmi við tilgang eða stefnu samtalsins.

  1. MEGINREGLA UM GÆÐI:
    Sjáðu til þess að framlag þitt sé sannleikanum samkvæmt.
    Undirregla a: Segðu ekkert sem þú heldur að sé ósatt.
    Undirregla b: Segðu ekkert sem þig skortir upplýsingar um.
  2. MEGINREGLA UM MAGN:
    Undirregla a: Gefðu eins nákvæmar upplýsingar og beðið er um í því samhengi sem samtalið á sér stað.
    Undirregla b: Gefðu ekki nákvæmari upplýsingar en nauðsynlegt er.
  3. MEGINREGLA UM MIKILVÆGI:
    Sjáðu til þess að framlag þitt skipti máli/komi málinu við.
  4. MEGINREGLA UM HÁTTVÍSI:
    Undirregla a: Reyndu að komast hjá því að vera torræður.
    Undirregla b: Reyndu að komast hjá tvíræðni.
    Undirregla c: Vertu stuttorður.
    Undirregla d: Hagaðu orðum þínum skipulega.

Í stuttu máli lýsa meginreglurnar því hvernig aðilar að samtali hegða sér til þess að samtalið heppnist vel: Þeir eru heiðarlegir, segja það sem máli skiptir á skýran hátt og án málalenginga en þó þannig að upplýsingarnar sem þeir gefa nægi í því samhengi sem þær eru sagðar. Það skal ítrekað að samvinnulögmálið er byggt á athugunum Grice á því hvernig samtöl ganga alla jafna fyrir sig; það er sem sé lýsing en ekki boðun á því hvernig skuli haga sér í samtölum. Þessar samtalsreglur eru því ómeðvitaðar reglur, hluti af almennri kurteisi sem ríkir milli manna en ekki reglur sem mönnum er skylt að fara eftir. Fólk fer auðvitað alls ekki alltaf eftir þessum reglum; það getur valið að brjóta eina af meginreglum samvinnulögmálsins, t.d. þegar það misskilur vísvitandi tvíræð orð eða leikur sér með málið á annan hátt.

4.5 Notkun samvinnulögmálsins

Grice áleit ekki að menn fylgdu samvinnulögmálinu og meginreglunum í blindni. Aftur á móti gerði hann ráð fyrir því að málnotendur stefndu alltaf að þeim eða gengju út frá þeim. Þegar samtal þróast á annan hátt en gert hefur verið ráð fyrir gera hlutaðeigendur eigi að síður ráð fyrir að samvinnulögmálið sé virt. Þetta má skýra með dæmi:

  1. Veistu um Palla?
  2. Nei, en ég sá pípuna á borðinu úti í garði.

Þessi fræga mynd Magrittes (1898-1967) leggur áherslu á að myndin sé ekki það sem myndin er af!

Á yfirborðinu – þ.e. sé svar B skilið bókstaflega – virðist sem B brjóti meginreglur um magn og mikilvægi; hann sé að snúa út úr eða reyna að skipta um umræðuefni. En A myndi samt sem áður ekki túlka svar B sem brot á samvinnulögmálinu. Þvert á móti myndi hann spyrja sjálfan sig hvernig svar B tengdist spurningu hans. Niðurstaða A yrði líklega sú að B væri að benda honum á að eitthvert samband væri milli pípunnar og Palla; pípan í garðinum gæti að mati B merkt að Palli væri þar líka.

4.6 Meginreglur og vísbendi

Til þess að komast að því hvort tiltekið vísbendi er fyrir hendi í samtali þarf hlustandinn að vera fær um að vinna úr öllum þeim upplýsingum sem hann hefur. Þær upplýsingar sem hann vinnur úr eru þessar:

  • Venjubundin merking orða og þekking á þeim vísunum sem koma fyrir.
  • Samvinnulögmálið og meginreglurnar.
  • Mállegt samhengi og aðstæður allar.
  • Sameiginlegur ÞEKKINGARGRUNNUR.
  • Vitneskja um að það sem er talið upp hér að framan sé kunnugt þeim sem talast við og að þeir geri ráð fyrir því að svo sé.

4.7 Vísbendi verður til

Gera má ráð fyrir að vísbendi verði einkum til á þrjá vegu:

  1. Meginreglum er fylgt í einu og öllu.
  2. Meginregla er ekki virt vegna áreksturs við aðra meginreglu.
  3. Meginregla er vísvitandi brotin í ákveðnum tilgangi.

Þessi segð virðist fylgja meginreglum í einu og öllu:

Ég fór út á stöð og lét bensín á bílinn.

Hér gerum við ráð fyrir að sendandinn verði við sannleikskröfum, magnkröfum, mikilvægiskröfum og kröfum um háttvísi.

Í næsta dæmi má aftur á móti sjá dæmi um að meginregla sé vanvirt vegna áreksturs við aðra meginreglu. A er að fara til Ísafjarðar og spyr B:

  1. Veistu hvar í kaupstaðnum hún Sigrún á heima – mig langar svo að heimsækja hana?
  2. Já, hún býr í nýju hverfi, í götu sem byrjar á H.

Það er engin ástæða til að ætla að B sé vísvitandi að segja minna en hann veit. Hann virðist einfaldlega gefa svona litlar upplýsingar vegna þess að hann veit ekki betur; ef hann segði meira væri hann ekki að segja satt. B brýtur því meginreglu um magn vísvitandi til þess að virða meginreglu um gæði. Hann veit sem er að A hefur ekki fullt gagn af þeim upplýsingum sem hann getur gefið en væri síst betur settur ef hann nefndi eitthvert götunafn út í bláinn.

Þriðja leiðin að vísbendi er að brjóta vísvitandi einhverjar meginreglur eða haga sér eins og þær hafi verið brotnar. Athugum eftirfarandi orðaskipti:

  1. Ég svaf ekki hjá konunni minni fyrr en eftir að við vorum gift. En þú?
  2. Ég veit það ekki, hvað heitir konan þín?

Hér gerir A ráð fyrir að B skilji spurninguna eins og eðlilegast væri en B velur hinn kostinn; hann lætur sem A hafi gefið of litlar upplýsingar og með því brotið meginreglu um magn og jafnvel meginreglu um háttvísi með því að orða ekki spurningu sína nógu skýrt.

Þá má nefna að algengt er að ein af meginreglum samvinnulögmálsins sé brotin – oftast reglan um að segja sannleikann – vegna þess að hún rekst á við almennar kurteisisvenjur eða KURTEISISLÖGMÁL sem virðast gilda í samskiptum fólks.

5. Forsendur

5.1 Forsenda

Í samræðum og öðrum mállegum samskiptum gerir sendandi ráð fyrir því að viðtakandi búi yfir ákveðinni þekkingu sem auðveldi honum að túlka það sem sagt er. FORSENDA er eitthvað sem sendandi gengur út frá áður en hann hefur mál sitt. Hún er því tengd sendanda en ekki setningum. Í dæmasetningunni sem hér fylgir má auðveldlega greina þær forsendur sem gengið er út frá:

Jón er hættur að sparka í hundinn sinn.

Áður en þessi setning er sögð þarf sendandi að gefa sér þær forsendur að til sé maður að nafni Jón og að hann eigi hund sem hann hafi verið vanur að sparka í. Hann getur líka gengið út frá sértækari forsendum eins og þeim að Jón eigi aðeins einn hund og að maðurinn sé frekar fúllyndur. Allar þessar forsendur eru sendandans og þær geta vitanlega verið rangar.

5.2 Tengsl milli yrðinga

Forsenda er oft meðhöndluð eins og tenging milli tveggja YRÐINGA. Ef við segjum að a-setningin innihaldi yrðinguna p og b-setningin yrðinguna q og notum táknið >> sem merkir ‘gengur út frá forsendunni’ þá lítur þetta svona út:

Kötturinn hennar Dóru er fallegur (=p)
Dóra á kött (=q)
p>>q

Það er athyglisvert að niðurstaðan er sú sama ef neitun er bætt í setningu a:

Kötturinn hennar Dóru er ekki fallegur (=EKKI p)
Dóra á kött (=q)
EKKI p>>q

5.3 Ólíkar forsendur

Öll málnotkun býður upp á mikinn fjölda mögulegra forsendna sem aðeins verða raunverulegar ef þær eru settar í tiltekið samhengi. Hér eru nokkrar nefndar.

Þessi tafla sýnir nokkrar tegundir forsendna í málnotkun.

Á allar þessar gerðir má líta sem mögulegar forsendur sem einungis verða raunverulegar þegar sendandi ákveður að þannig skuli það vera.

6. Talfólgnir þættir

6.1 Talfólgnir þættir

Á flest sem sagt er má líta sem tví- eða jafnvel þríþætta aðgerð. Annars vegar er það TALATHÖFNIN, það að tala, og hins vegar er það sem sendandi ætlar sér með því að tala, sem má kalla TALFÓLGNA ATHÖFN. Í þriðja lagi getur segð líka haft þau áhrif á viðtakanda að hann aðhafist eitthvað, t.d. rétti saltið eða loki glugganum; segðin er þá orðin TALVALDANDI. Kenningin sjálf kallast TALATHAFNARKENNING og er einkum kennd við tvo menn, þá John Austin og John Searle.

Talathöfnin felst í því að sendandi gefur frá sér hljóð og lagar þau að mynstrum málsamfélagsins hvað varðar orðaforða, setningaskipan, beygingar, hljóðskipan og hljómfall. Þessi framleiðsla er hins vegar alls ekki megintilgangurinn heldur miklu fremur það sem í athöfninni felst, þ.e. hinir talfólgnu þættir og það eru ekki síst þeir sem eru athyglisverðir út frá sjónarhóli málnotkunarfræðinnar.

Til að ákvarða hver hin talfólgna athöfn er verður viðtakandi að greina hver tilgangurinn er með því sem sagt er. Er sendandi að biðja bónar? Er hann að bera upp spurningu? Er hann að gefa upplýsingar, fullvissa viðtakanda um eitthvað, gefa loforð eða hóta einhverju? Mikilvægt er að greina þessa talfólgnu þætti frá hinni eiginlegu merkingu orðanna.

6.2 Viðeigandi skilyrði

Talfólgnir þættir eru oft mjög bundnir umhverfi og því að viðeigandi skilyrði séu til þess að merkingin verði ljós. Í sumum tilvikum liggur þetta í augum uppi:

Ég skíri þig í nafni föður, sonar og heilags anda.
Hamrafell skal skipið heita og megi gæfan fylgja því og áhöfn þess.

Slíkar segðir, sem kallast YFIRLÝSINGAR, bera auðvitað aðeins merkingu að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, m. a. þeim að þau séu sögð við ákveðin tilefni og jafnvel á tilteknum stað og komi úr munni ákveðinna persóna.

6.3 Talfólgnar athafnir

Venjulega eru taldar fimm gerðir af talfólgnum athöfnum; YFIRLÝSINGAR, STAÐHÆFINGAR, TILFINNINGATJÁNING, TILMÆLI og SKULDBINDINGAR.

YFIRLÝSINGAR eru oft með stöðluðu orðalagi og eru yfirleitt ekki merkingarbærar nema þær séu gefnar af einstaklingum í tilteknum stöðum eins og t.d. í þessari klausu úr lagamáli:

Kærðu verður gert að sæta einangrunarvist í gæsluvarðhaldi meðan rannsóknarhagsmunir krefjast þess.

Með STAÐHÆFINGUM kemur mælandinn til skila því sem hann telur vera rétt:

Jörðin er flöt.
Það er ekki vitað hverjir skrifuðu Íslendingasögurnar.
Það rigndi svo svakalega á sunnudaginn.
TILFINNINGATJÁNING lætur í ljós tilfinningar mælanda:

Fyrirgefðu!
Til hamingju!
Nammi-namm

TILMÆLI notar mælandinn til þess að fá viðtakanda til að gera eitthvað:

Gefðu mér nú kaffisopa.
Geturðu lánað mér penna?
Ekki í tölvuna!

Segð felur í sér SKULDBINDINGU þegar mælandinn hyggst sjálfur hafast að:

Ég kem strax aftur.
Þetta gengur bara betur næst.
Ég ætla að hætta að reykja árið 2055.

6.4 Beinar og óbeinar talathafnir

Í íslensku er m.a. að finna eftirfarandi gerðir setninga:

Hann getur aldrei hætt að reykja. (framsöguháttur – fullyrðing)
Ertu hættur að reykja? (framsöguháttur – spurning)
Þú ættir ekki að reykja. (viðtengingarháttur)
Hættu að reykja! (boðháttur)

Stundum er bein samsvörun milli setningagerðar og virkni eins og í þessum dæmum þar sem boðháttur er notaður til þess að gefa skipanir:

    1. Hættu að grenja!
    2. Láttu þessi blöð vera!

Þessar skipanir má auðvitað orða á annan hátt, t.d. sem spurningar eins og hér er gert:

    1. Ætlarðu að grenja úr þér augun?
    2. Var ég ekki búin að segja þér að láta þessi blöð vera?

Þá má líka nota fullyrðingarsetningar í sama tilgangi eins og hér er gert:

    1. Þú ert alltaf grenjandi.
    2. Þú ert alltaf að rugla blöðunum mínum.

Þegar bein samsvörun er milli forms og virkni eins og í 1 þar sem boðháttur er notaður til að skipa fyrir er talað um BEINA TALFÓLGNA ÞÆTTI en ÓBEINA þegar slík samsvörun er ekki fyrir hendi eins og í 2 og 3.

Skipanir eða tilmæli má sem sé láta í ljós á marga vegu eins og hér er ítrekað:

  1. Farðu frá! (boðháttur)
  2. Þarftu að standa fyrir framan sjónvarpið? (spurning)
  3. Þú stendur alveg fyrir skjánum. (fullyrðing)
  4. Fallegur á þér rassinn! (fullyrðing)

Þessar setningar gætu allar merkt það sama en aðeins í a-setningunni er það orðað beint og skipunin látin í ljós með boðhætti. Í öllum hinum eru óbein tengsl milli forms og virkni.

7. Háttvísi

7.1 Mál í samfélagi

Í skrifum um tungumál eru oft tekin stök dæmi sem bera engin merki þess félagslega veruleika sem öll málnotkun er sprottin úr. Í raunveruleikanum er það svo að öll málleg samskipti mótast af þeim tengslum sem eru á milli sendanda og viðtakanda. Til þess að skilja til fullnustu hvað raunverulega er sagt verður því að líta á þau merki sem gefa til kynna félagslega fjarlægð eða nánd. Sum slík merki eru áberandi, eins og t.d. það hvernig fólk ávarpar þá sem eru augljóslega hærra settir, eins og forsetann eða biskupinn. Um annað er samið, til dæmis það hvort viðmælendur nefna hver annan fullu nafni eða hvort þeir nota gælunöfn.

7.2 Kurteisislögmál

Í samskiptum manna virðast gilda ákveðnar reglur kurteisi – kurteisislögmál – sem stundum verða til þess að reglur samvinnulögmálsins eru brotnar. Kurteisislögmál sett fram af Robin Lakoff (1977) eru einföld og skýr. Þau eru á þessa leið:

  1. Tranaðu þér ekki fram!
  2. Gefðu viðmælanda þínum eitthvert val!
  3. Láttu viðmælanda þínum líða

Fólk spyr t.d. „gætirðu nokkuð rétt mér bókina á borðinu?“ og reynir að gera sem minnst ónæði með beiðninni (regla 1). Til þess að gefa fólki val er sagt: „Má ég nokkuð ónáða þig sem snöggvast?“ (regla 2) og við látum fólki líða vel með því að hrósa því: „Þú ert svo góður í stafsetningu, hvort á ég að skrifa ennfremur í einu eða tveimur orðum?“ (regla 3).

7.3 Að „halda andlitinu“

Flestir gera sér einhverja grein fyrir því í hverju almenn kurteisi felst. Í samtölum miðar hún að því að viðmælendur haldi andlitinu ef svo má segja og andlitið í þessu samhengi er vitanlega sjálfsmynd þeirra og sjálfsvirðing. Allt sem ógnar sjálfsmyndinni er því óæskilegt og yfirleitt er hægt að fara aðrar leiðir:

  1. Ég ætla niður og skipa þessu pakki að skrúfa fyrir þennan hávaða strax.
  2. Viltu ekki frekar fara og spyrja þau hvort samkvæminu fari ekki að ljúka, það sé orðið framorðið og fólk þurfi að geta sofið?

Í dæminu ætlar A að fara leið sem greinilega er ógnun við sjálfsvirðingu nágrannanna og býður upp á sams konar svör af þeirra hálfu. B stingur hins vegar upp á leið sem auðveldar báðum aðilum að halda andlitinu.

7.4 Háttvísi

Ein leiðin til að skynja hvernig kurteisi og mál tvinnast saman er að setja á svið atvik og mismunandi hegðun því tengda. Hugsum okkur að A komi inn í fyrirlestrarsal, setjist, taki upp glósubók en uppgötvi þá að penninn hefur gleymst. B situr við hliðina á A og hún hefur aldrei séð hann áður. Samt dettur A strax í hug að B geti leyst úr vandræðum hennar. En hvernig á hún að bera sig að? Hún getur valið þögnina eins og í þessu dæmi og B getur þá metið hvort hann bregst við eða ekki:

  1. (Rótar í töskunni sinni, leitar í vösum.)
  2. (Veitir henni enga athygli.)
EÐA
  1. (Réttir A penna.) Vantar þig penna?
Hún getur líka ákveðið að segja eitthvað:
  1. Ég hef gleymt pennanum.
EÐA
  1. Ég skil ekki hvað hefur orðið af pennanum mínum.

Þessum orðum er ekki beint til neins, þau eru ekki krafa um aðgerð heldur eins konar yfirlýsing. Þessi aðferð gefur B enn kost á því að velja; hann getur látið sem hann hafi ekki heyrt orð A, þeim var ekki beint til hans sérstaklega. Ef hann bregst við er það aftur staðfesting á því að orð A fólu í sér önnur skilaboð en þau sem orðin bera.

Á hinn bóginn má líka vinda sér beint að efninu umbúðalaust:

  1. Lánaðu mér pennann þinn.

Það mætti láta einhver kurteisisorð fylgja, t.d. „viltu gjöra svo vel“. Svona beinskeyttar skipanir myndu yfirleitt þykja óviðeigandi og jafnvel óhugsandi nema A væri yfir B sett, eins og t.d. fangavörður yfir fanga.

A getur farið fleiri leiðir í pennavandræðum sínum. Hún getur orðað beiðni sína með jákvæðum hætti og sagt:

A. Viltu vera svo góður að lána mér penna?

Það er þó miklu algengara að nálgast viðmælandann með neikvæðum orðum eins og hér sjást dæmi um:

Gætirðu nokkuð lánað mér penna?
Fyrirgefðu, en gætirðu lánað mér penna?
Mætti ég trufla, ekki hefurðu auka penna?
Ekki býrðu svo vel að vera með auka penna?
Má ég spyrja – ert þú með nokkurn auka penna?

Með þessum neikvæðu spurningum gefur sendandi í skyn að hann búist ekki við því að viðtakandi verði við bón hans þótt hann í raun eigi frekar von á jákvæðum viðbrögðum; þetta er því eins konar leikur sem miðar að því að báðir aðilar geti haldið andlitinu hvernig svo sem viðbrögðin verða.

7.5 Formálar

Til þess að minnka líkurnar á því að missa andlitið eru notaðir ýmsir formálar áður en að eiginlegu erindi kemur:

  1. Ertu upptekinn? (=formáli)
  2. Nei, ekki svo. (=grænt ljós)
  1. Geturðu lesið þetta yfir fyrir mig? (=beiðni)
  2. Ekkert mál. (=samþykki)

Formálinn gefur B möguleika á því að gefa grænt ljós eða rautt, allt eftir því hvernig stendur á:

  1. Ertu upptekinn? (=formáli)
  2. Alveg á kafi. (=rautt ljós)

Hér kemur B í veg fyrir að A beri upp eiginlegt erindi áður en komið er því.

Formálar geta tekið á sig aðrar myndir:

  1. Ertu að gera eitthvað á föstudaginn? (=formáli)
  2. Nei, það held ég ekki. (=grænt ljós)
  1. Ég var að hugsa um að bjóða þér í mat. (=boð)
  2. Takk, það væri frábært. (=þegið)

Ef boð er afþakkað þá má gera það án þess að sá sem býður missi andlitið:

  1. Ertu að gera eitthvað sérstakt í kvöld? (=formáli)
  2. Bara það sama og venjulega, vinna og aftur vinna (=rautt ljós)

Formálar af þessu tagi eru jafnvel algengir í máli barna þegar þau athuga hvort einhver veiti orðum þeirra athygli:

Barn: Veistu hvað mamma? (=formáli)
Mamma: (Þögn)
Barn: Mamma, veistu hvað kom fyrir? (=formáli)
Mamma: Seinna, ég er í símanum. (=rautt ljós)

Það sem þetta barn á hins vegar eftir að læra er það að túlka þögnina sem rautt ljós en í þessu dæmi er eðlilegt að leggja þá merkingu í hana.

Heimildir

Austin, J. 1975. How to do Things with Words. Clarendon Press, Oxford.

Grice, Paul. 1989. Studies in the Way of Words. Harvard University Press, Cambridge.

Jón Hilmar Jónsson. 1982. Um vísiorð í íslensku. Íslenskt mál 4:221–262.

Leech, Geoffrey. 1983. Principles of Pragmatics. Longman, Essex.

Levinson, Stephen C. 1983. Pragmatics. Cambridge University Press, Cambridge.

Robin Lakoff. 1973. The logic of politeness: minding your p's and q's. Papers from the 9th Regional Meeting, Chicago Linguistic Society. Bls. 292–305.

Searle, John. 1979. Speech Acts. An Essay in the Philosophy of Language. Cambridge University Press, Cambridge.

Yule, George. 1996. Pragmatics. Oxford University Press, Oxford.