Greinar

Gunnlaugur Ingólfsson
Staðbundinn orðaforði

1. Staðbundinn orðaforði og mismunandi orðafar

Mismunandi orðafar eftir landshlutum vakti snemma athygli fræðimanna (sjá t.d. Árni Magnússon 1930:237 o.áfr.; Jón Aðalsteinn Jónsson 1964:68–69). Um er að ræða mismunandi orð um sama fyrirbæri annars vegar og hins vegar mismunandi merkingu sama orðs eftir því hvar á landinu er. Sum orð hafa því takmarkaða landfræðilega útbreiðslu, önnur orð kunna að þekkjast víða eða um allt land en í mismunandi merkingu eftir landshlutum eða héruðum.

1.1 Mállýskur í íslensku

Oft hefur því verið haldið fram bæði í ræðu og riti að á Íslandi séu engar mállýskur. Þó er flestum ljóst að nokkur munur er á málfari eftir landshlutum og er algengast í munni manna að tala um sunnlensku annars vegar og norðlensku hins vegar. Þegar spurt er hver munurinn sé á þessum tveimur „lenskum“ er venjulega svarað að norðlenskan sé hörð í framburði en sunnlenska sé lin og eftir þessu er talað um linmæli og harðmæli. Stundum er talað um vestfirsku og eru það einstök atriði í framburði sem heyrast í máli manna þaðan en ekki hjá öðrum. Þessi almennu og frekar óljósu atriði benda til þess að fólki sé ljóst að einhver munur sé á máli manna eftir landshlutum þótt ekki sé almennt talað um mállýskur. Þessi munur kemur skýrast fram í tali fólks, framburði. Bent er á að þrátt fyrir nokkurn mun í framburði (og e.t.v. orðafari) sé hann engan veginn slíkur að fólk úr ólíkum landshlutum skilji ekki hvert annað og ekki sé hætta á misskilningi í neinum efnum.

1.2 Málfarsmunur í orðaforða

Þessi almennu og lítt skilgreindu atriði benda a.m.k. til þess að nokkur málfarsmunur sé eftir landshlutum. Hann sker í eyru þegar um framburð er að ræða en leynir frekar á sér, ef svo mætti að orði komast, þegar að orðaforða, orðanotkun og merkingu kemur. Það á sér ýmsar ástæður, m.a. þær að sú orðanotkun og merking, sem frábrugðin er frá einu svæði til annars, lýtur að ýmsu í daglegum störfum fólksins, atvinnuháttum o.s.frv. Vestfirskur þorpsbúi er ekki gjörkunnugur störfum og háttum fólks í innsveitum norðaustan og austan lands. Þegar fólk úr þessum stöðum hittist af hendingu er líklegt að eitthvað það beri á góma sem sameiginlegt er frekar en sérstakt svo að mismunandi orðanotkun kemur ekki þegar í stað fram. En kynnist fólk nánar og fari að forvitnast um hagi og háttu hvert hjá öðru má búast við að mismunandi orðafar komi fram í máli þess.

2. Uppruni málfarsmunar

Heldur lítið er vitað um uppruna eða upphaf þess munar í málfari sem þekktur er á Íslandi nema í fáeinum greinum svo sem nýjungar í framburði. Annað kann að vera gamall arfur allt frá því að norska var mál landnemanna á Íslandi. Í sumum efnum má sjá að orð, sem staðbundin eru á síðari tímum, hafa verið kunnari og almennari áður fyrr, þ.e.a.s. hið mállýskubundna orð er fornar leifar sem smám saman eru að hverfa úr málinu, heldur velli í einum landsfjórðungi, sýslu eða jafnvel héraði. Stundum falla orð úr notkun og í gleymsku á stórum svæðum um meginhluta landsins en varðveitast í máli fólks á útjöðrum og verða þannig dæmi um orð sem þekkjast einungis t.d. á Vestfjörðum og Suðausturlandi. En stundum eiga slík dæmi annan uppruna. Embættismenn, t.d. sýslumenn og prestar, sem oft drógust með fjölmennt skyldulið, gátu borið með sér orðafar úr fjarlægum stöðum og fest í máli í nýju umhverfi.

3. Mismunandi orð um sama fyrirbæri

Dæmi um mismunandi orð um sama fyrirbæri er t.d. sameiginlegt heiti á hátíðisdögum þeim sem kallast skírdagur og föstudagurinn langi. Sameiginleg nafngift á þessum tveimur dögum er algeng um allt land en þeir nefnast hins vegar ýmist bænadagar, skírdagshelgar, lághelgar, lægri helgar og lægri dagar (eða jafnvel læridagar). Sum þessara orða eru þekkt víða, jafnvel um land allt, önnur á takmörkuðum svæðum.

3.1 Bænadagar og skírdagshelgar

Fyrir nokkrum áratugum var spurst fyrir um heiti á þessum dögum í útvarpsþættinum ÍSLENSKT MÁL sem starfsmenn Orðabókar Háskólans hafa haft með höndum (Jón Aðalsteinn Jónsson 1964:83–85). Við umræður, eftirgrennslan og frekari spurningar kom í ljós að þessir tveir stórhátíðisdagar þjóðkirkjunnar voru kallaðir bænadagar einu nafni mjög víða um land, nánar til tekið frá Djúpavogi á sunnanverðum Austfjörðum og suður um allt Suðurland, um Vesturland, vestur í Breiðafjarðardali og vestur á Firði. Á þessu síðasttalda svæði þekkti fólk þó og notaði einnig önnur nöfn um þessa daga. Á Norðurlandi, allt norður í Eyjafjörð þekktist bænadaga-orðið einnig.

Í Þingeyjarsýslum var orðið skírdagshelgar algengt heiti á þessum helgidögum og aðalheiti þeirra í máli eldra fólks. Þetta orð þekktist einnig víða um Eyjafjörð, t.d. út í Ólafsfjörð. Fyrir austan Þingeyjarþing voru dæmi um orðið skírdagshelgar úr Norður-Múlasýslu, nánar til tekið af Langanesströnd, úr Vopnafirði og Jökulsárhlíð.

Á óvart kom að dæmi um orðið skírdagshelgar bárust af Vestfjarðakjálkanum, úr Djúpi, Önundarfirði og Arnarfirði, svo og af Ströndum, úr Steingrímsfirði og Bitrufirði. E.t.v. er orðið skírdagshelgar dæmi um orð sem hefur verið þekkt víðar áður fyrr, t.d. um vestanvert Norðurland (Jón Aðalsteinn Jónsson 1964:84–85).

Lægri helgar eða lághelgar þekktist sem nafngift á Austfjörðum en bænadagar þekktust einnig sunnan til eins og áður var drepið á.

Dæmi um nafngiftina lægri dagar komu fyrir um norðanverða Breiðafjarðardali og norðanverðan Breiðafjörð annars vegar og um Hrútafjörð og norður í Steingrímsfjörð hins vegar. Úr byggðum fyrir norðan Steingrímsfjörð bárust fáein dæmi um orðið læridagar sem kann að hafa æxlast sem framburðarmynd af orðasambandinu lægri dagar.

Ekki verður annað sagt en hér hafi verið um fjölbreytilegt orðafar að ræða því að ekki er algengt að þvílíkir hátíðisdagar beri mörg nöfn.

Þá er hins að gæta að ekki eru skörp landfræðileg skil milli þessara nafngifta. T.d. þekktist bænadaga-orðið í Eyjafirði ásamt skírdagshelgum og lægri dagar þekktust á því svæði sem bænadagar voru vel þekkt orð. Og Austfirðingar, einkum Héraðsmenn, þekktu bæði bænadaga og skírdagshelgar.

Þessi athugun, sem nú var rakin, var gerð fyrir rúmum aldarfjórðungi og er því ekki ólíklegt að eitthvað hafi hér breyst síðan, m.a. vegna fólksflutninga og ýmiss konar félagslegrar röskunar. Til frekari fróðleiks var gerð dálítil símakönnun vorið 1998 og talað við nokkra valda heimildarmenn hringinn í kringum landið og þeir spurðir hvort þeir þekktu eða væri tamt eitthvert eitt sameiginlegt heiti á þessum tveimur hátíðisdögum, skírdegi og föstudeginum langa. Í stuttu máli má segja að svo virðist sem orðið bænadagar sæki á, flestir nefndu það fyrst en gátu þó nefnt ýmis önnur en það virtist eins og þau hefðu þá verið notuð frekar áður fyrr.

3.2 Gorserkur, gorvelta, gorlag

Gorserkur, flus (fluss)/flos, hreistur, brum, gras; um innra borð vambar í sláturdýri, sauðkind. Fæðuleifar, mislangt komnar í meltingu, loða við magavegginn þegar skepnunni hefur verið lógað. Við sláturgerð þarf að að hreinsa vambirnar, ekki síst innra borðið, sem blóðmör og lifrarpylsa eru soðin í og eru notuð um yfirborð þetta ýmis orð og eru hér í upphafi greind nokkur dæmi þess. Þessi heiti dreifast nokkuð um landið, sum víða, önnur virðast einungis þekkt á mjög takmörkuðum svæðum og sum einungis á „blettum“ eins og skiljanlegt er um orð eins og t.d. gras í slíkri merkingu.

Myndin sýnir hvar á landinu hvaða orð er haft um innra borð vambar úr sláturdýri.

Orðið gorserkur hefur tíðkast víða um landið og hefur til skamms tíma verið þekkt meðal fólks á Suðurlandi (vestanverðu), á Vestfjörðum og á vestanverðu Norðurlandi (Húnaþingi). Sums staðar er þetta innra borð vambarinnar nefnt gorvelta og eru dæmi um þá orðanotkun úr byggðunum kringum Breiðafjörð. Víða um landið er þetta innra borð nefnt flus eða flos og fyrir bregður framburðarmyndinni fluss. Á Austfjörðum hefur þetta vambarborð verið nefnt hreistur og ýmsir Sunnlendingar kalla þetta gorlag. Enn önnur orð um þennan hluta vambarinnar eru afar sjaldgæf, t.d. gras og brum en eftirtektarvert er að þau fáu dæmi sem til eru um hið fyrra, þ.e. gras, eru dreifð furðu víða: þessari orðanotkun bregður fyrir í Suður-Þingeyjarsýslu, Fljótum í Skagafirði og á Hornströndum og Ísafjarðardjúpi. En eins og áður sagði eru heimildir um þetta mjög fáar og orðanotkunin hefur sjálfsagt verið sjaldgæf lengst af.

3.3 Orð lögð í belg

Eins og sjá má af þessu yfirliti er hér um all-sundurleitt orðafar að ræða og ekki verður séð að orðin skipi sér greinilega eftir héruðum og landslutum, þó gæti yfirlit á korti gefið nokkru betri yfirsýn en á hinn bóginn leiðir slíkt yfirlit greinilega í ljós veikleika athugunarinnar. Hún er nefnilega þannig gerð að spurningum um þetta er útvarpað, rætt er um og talað kringum orðafarið, og hlustendur beðnir að „leggja orð í belg.“ Geta því svör við slíkum fyrirspurnum verið nokkurri tilviljun undirorpin en reynslan er þó sú að fróðleikur um orð og merkingar og dreifingu þeirra eftir landshlutum kemur fram í stórum dráttum. Hins vegar kemur þessi dreifing eða útbreiðsla ekki fram í einstökum atriðum, þannig að mörk orða og merkinga, „landamæri“ þeirra, komi glögglega fram. Einnig geta viðbrögð heimildarmanna, hlustenda, af ýmsum ástæðum verið misjöfn, t.d. meiri og betri viðbrögð úr einum landshluta en öðrum í þetta skiptið. Enn fremur getur spyrjandinn, útvarpslesarinn, verið ókunnur efninu og því ekki lagið að fara með það á vekjandi hátt eða tekist á annan hátt misvel upp.

4. Ólíkar beygingarmyndir

Sum orð, sem annars eru alþekkt um allt land og einu orðin um hversdagslega hluti, geta þó gengið í mismunandi mynd, t.d. málfræðikyni, frá einu svæði til annars. Vel þekkt dæmi um slíkt eru t.d. orðin sykur, hveiti og skurn, svo og orðið skúr í merkingunni ‘rigning, stutt demba regns’. Orðið sykur er lang-oftast haft í karlkyni, sykurinn og farið er að fyrnast yfir aðra kynmynd þess en til skamms tíma hafa margir kannast við hvorugkynsmynd þess, sykrið, ekki síst um strau- eða strásykrið og dæmi eru þess að orðið hafi verið haft í kvenkyni: „Réttu mér sykrina“.

Svipað er að segja um orðið hveiti. fram á síðustu áratugi mundi roskið fólk og gamalt vel eftir því að orðið var notað í kvenkyni og talað var um hveitina. Nú er líklegt að kynmyndir eins og sykrið og hveitin séu sjaldheyrðar orðnar, sykurinn og hveitið allsráðandi orðin. E.t.v. hafa mismunandi kynmyndir skipað sér að einhverju leyti eftir landsvæðum, héruðum og fjórðungum og mátti greina slíkt í svörum og viðbrögðum roskinna heimildarmanna um 1970 þegar rætt var allmikið um þessi orð og kynmyndir þeirra í þættinum ÍSLENSKT MÁL í Ríkisútvarpinu. En þó að mestu sé nú fennt yfir þennan málfræðimun þessara tilteknu orða lifa svipuð fyrirbæri enn góðu lífi og má nefna lítið dæmi þess.

Algengar handsagir, sem víða eru til á heimilum, eru gjarnan tvenns konar að gerð. Annars vegar er sög sem fallin er til þess að saga tré, borð eða fjöl þvert, þ.e. þvert á legu æðanna í viðnum. Hins vegar eru sagir sem hafðar eru til að saga langsum eftir viðnum. Munurinn á þessum sögum liggur í gerð og skipan tannanna. Heimilissagir af þessu tagi hafa verið kallaðar húsvans eða fúsvans og fleiri myndir þess orðs eru þekktar. Hins vegar er gerður sá greinarmunur, hvort um er að ræða sög sem sagað er með þvert eða langs, að hin fyrrnefnda er ýmist kölluð þverskera eða þverskeri en hin síðarnefnda langskera eða langskeri. Í athugun, sem gerð var á útbreiðslu þessara orðmynda á miðjum tíunda áratugnum, kom í ljós að þær skipa sér á nokkuð sérstakan hátt eftir landshlutum.

Myndin sýnir dreifingu orðanna 'langskeri' og 'langskera', 'þverskeri' og 'þverskera'.

Kvenkynsmyndirnar langskera og þverskera eru algengar um Vestur- og Suðvesturland annars vegar og á Norðaustur-, Austurlandi og Austfjörðum hins vegar. Karlkynsmyndirnar þverskeri, langskeri þekkjast annars á Mið-Norðurlandi og vestanverðu Norðurlandi, svo og á Vestfjörðum. Enn fremur eru þær þekktar á Suðurlandi en ýmsir Sunnlendingar þekkja og nota báðar myndirnar jöfnum höndum: þverskeri/þverskera o.s.frv.

5. Einangruð orð

Þess eru dæmi að orð er þekkt einungis á takmörkuðu svæði en alls ekki ella. So. glarka ‘slæpast úti (á kvöldin), flækjast milli húsa; láta fé ganga umhirðulaust’ er eitt slíkt orð. Það virðist eingöngu þekkt á Austurlandi– en þó ekki um allan fjórðung – ofan frá Héraði utanverðu og suður um sunnanverða Austfirði og suður í Lón.

Sögnin 'glarka' er aðeins þekkt á stöku stað á Austurlandi og hvergi annars staðar.

<Þetta orð er sérstakt að því er varðar stofn þess, glark-. Hann verður ekki settur í skyldleikasamband við aðra orðstofna málsins, a.m.k. ekki á venjubundinn hátt. Ekkert annað orð hefur glark- í stofni. (Gunnlaugur Ingólfsson 1992:221–222).

6. Orð í ritmáli og talmáli

Dæmi eru þess að orð, eða öllu heldur merking, sem hefur verið víða kunn fyrr á tíð virðist vera að gleymast, týnast niður, virðist hverfa úr rituðu máli en reynist svo, þegar nánar er að gáð, lifa góðu lífi í mæltu máli fólks. Eitt lítið dæmi af þessu tagi mætti nefna hér. Orðið dauðyfli hefur í orðabók Blöndals tvenns konar merkingu, annars vegar ‘hræ’ og er sú þýðing orðsins talin úrelt og merkt með krossi, hin merkingin er ‘letiblóð, rola’ og er alkunnug í ræðu og riti. Það er í sjálfu sér rétt að hræ-merkingin er gamalt mál. Hún kemur þegar fyrir í fornum textum en henni bregður einnig fyrir í síðari tíma ritum frá 17. og 18. öld. Í orðasafni úr fórum Árna Magnússonar er þess getið að merkingin ‘hræ’ sé algengt mál á Fljótsdalshéraði og að hinu sama víkur Jón Ólafsson úr Grunnavík í orðabók sinni og hefur eftir Árna. Af ummælum þeirra mætti ráða að þá sé letiblóðs- og rolu-merkingin fram komin í orðinu þó að þeir geti þess ekki sérstaklega. En í heimildum frá 19. öld og síðan má glögglega sjá að hún er orðin alþekkt en hræ-merkingin eins og á undanhaldi. En er hræ-merkingin dauð og dottin upp fyrir? Fyrir hálfum öðrum áratug gafst tilefni til þess á Orðabók Háskólans að grennslast fyrir um hvort þessi merking orðsins þekktist enn og var nokkuð rætt um þetta í útvarpsþættinum ÍSLENSKT MÁL. Undirtektir hlustenda við spurningum um merkingar orðsins voru góðar. Orðið dauðyfli reyndist vel þekkt í merkingunni ‘hræ’ á Austurlandi, bæði á Héraði og Fjörðum, einnig könnuðust Vopnfirðingar vel við þessa merkingu og hún þekktist suður í Skaftafellsþingi en síðan virtist hún miður þekkt þó að heimildir bærust um hana úr Rangárvallasýslu, undan Eyjafjöllum og út í Landeyjar. En úr því þekktu heimildarmenn ekki hræ-merkinguna í orðinu nema einn gamall og góður heimildarmaður úr Ölfusi. Á Suðvestur- og Vesturlandi þekktu heimildarmenn ekki hræ-merkinguna og hún var nánast óþekkt á Vestfjarðakjálkanum. Góðir og gegnir húnvetnskir heimildarmenn þekktu hana ekki og ekki heldur Skagfirðingar nema einn úr þeirra hópi komst svo að orði að dauðyfli merkti naumast eða alls ekki hræ heldur daufingja, þ.e. daufgerðan mann eða skepnu. Þegar austur í Þingeyjarsýslur kemur, tekur hræ-merkingunni að bregða fyrir aftur en ýmsir S.-Þingeyingar geta einungis letiblóðs- og rolu-merkingarinnar eða taka fram að þeir þekki ekki hræ-merkinguna. Heildarmyndin er því sú að hræ-merkingin hefur lifað góðu lífi í mæltu máli fram til þessa á Austurlandi, segja mætti í Austurlandskjördæmi, og hennar gætir einnig, annars vegar suður á landi og hins vegar norður í Þingeyjarsýslum. Þess þarf vart að geta að öllum heimildarmönnum hringinn í kringum landið var letiblóðs- og rolu-merkingin vel kunn.

7. Mállýskusvæði

Ef talað er um mállýskur í orðaforða vaknar sú spurning hver séu mállýskusvæðin og hvar séu mörkin á milli þeirra. Þessu hefur ekki verið svarað á sambærilegan hátt við það sem gert hefur verið á framburðarsviðinu. Óvíst er að einkenni í orðafari, orðaforða og merkingu orða fari eftir sömu mörkum og framburðarmállýskur.

7.1 Íslensk mállýskulandafræði

Jón Aðalsteinn Jónsson (1953) hefur gert athugun á skaftfellskum mállýskuatriðum með stuðningi og samanburði við Orðabók Blöndals. Honum taldist svo til að í Blöndalsorðabók allri væru um 5.500 mállýskumerkt atriði og þar af töldust 800 vera skaftfellsk. Eftir athugun á vettvangi í Vestur-Skaftafellssýslu reyndust allir heimildarmenn Jóns kannast við um 100 þessara atriða. Þetta taldi hann skaftfellskan kjarna og kannaði nánar útbreiðslu þessara orða í nokkrum sveitum nágrannasýslunnar, Rangárvallasýslu: undir Eyjafjöllum, í Landeyjum, Þykkvabæ, Hvolhreppi og Landssveit. Þessa rannsókn birti Jón í Afmæliskveðju til próf. dr. phil. Alexanders Jóhannessonar (1953) og verður að láta nægja að vísa til hennar um einstök atriði. En í stórum dráttum má segja að eftir því sem fjær dró Vestur-Skaftafellssýslu þekktu heimildarmenn færri og færri þeirra atriða sem spurt var um. Þannig þekktu Austur-Eyfellingar allt að 60% þessara atriða en t.d. Þykkbæingar einungis tæplega 28%. Jón gerði einnig athugun austur á bóginn, austur í Austur-Skaftafellssýslu. Þótt hún væri smærri í sniðum, sýndi hún sömu þróun: Heimildarmaður í Öræfum, vestustu sveit austursýslunnar, þekkti yfir 70% atriðanna en heimildarmaður í Lóni, austustu sveit sýslunnar, um 60% . Niðurstaða Jóns er sú að mállýskur séu hér til í orðaforða manna ekki síður en í framburði.

Í riti sínu Studien zur Westnordischen Sprachgeographie rannsakaði Oskar Bandle orð um búfénað í norsku, færeysku og íslensku. Rannsóknin náði til allra hefðbundinna tegunda búfjár: sauðfjár, nautgripa, hrossa og svína. Orðafarið, sem rannsakað var, laut að þessum húsdýrum bæði almennt og sérstaklega, að tímgun og afkvæmum, að líkamshlutum, innyflum og úrgangi o.fl. Í niðurstöðum sínum víkur Bandle í sérstökum kafla (Bandle 1967:534–37) að íslenskum mállýskum og mállýskusvæðum. Hann telur réttara að tala um svæðisbundin orð og orðanotkun fremur en „mállýskuorð“ í venjulegum skandinavískum og meginlandsskilningi því að hér á landi er ekki um ríkismál eða sérstakt ritmál að ræða annars vegar og mállýskur hins vegar. Af þessu leiðir að ekki verða gerð kort um útbreiðslu orða í íslensku sem sýni eindregið afmarkaðar mállýskur og mörk þeirra. Samt telur Bandle (1967:534–36) að í stórum dráttum megi tala um, á grundvelli þess efnis sem hann hefur safnað, mállýskur í orðaforða og kalla þær t.d. norðlensku/sunnlensku, vestfirsku/austfirsku og stundum norðlensku/sunnlensku/norðvestlensku (Bandle 1967:534). Á hinn bóginn talar hann um meginsvæði eða þungamiðju mállýsknanna. Meginsvæði norðlenskunnar er svæðið frá Skagafirði, um Eyjafjörð og austur í Suður-Þingeyjarsýslu. Austfirska málsvæðið er auk hinna eiginlegu Austfjarða frá norðvesturmörkum Norður-Múlasýslu og nær suður í Suðursveit í Austur-Skaftafellssýslu. Þaðan er svo um að ræða Suðaustur- og Suðurland allt að Faxaflóa. Vesturland er svo vestanvert landið og er eins konar blendingssvæði milli Norður- og Suðurlands en Vestfirðirnir sjálfir skera sig úr. Niðurstaða hans er að útbreiðsla „mállýskuorða“ fari í ýmsum greinum eftir svæðum og mörkum „framburðarmállýskna“ (Bandle 1967:536–37).

Heimildaskrá

Oskar Bandle. 1967. Studien zur westnordischen Sprachgeographie. Haustierterminologie im Norwegischen, Isländischen und Färöischen. A. Textband. (Bibliotheca arnamagnæana. Vol. XXVIII.) Munksgaard. Kopenhagen 1967.

Karl-Hampus Dahlstedt. 1958. Íslenzk mállýzkulandafræði. Nokkrar athuganir. Skírnir 1958, bls. 29–63.

Gunnlaugur Ingólfsson. 1992. glarka. Íslenskt mál og almenn málfræði. 14. árgangur 1992, bls. 221–223.

Hreinn Benediktsson 1961–62. Icelandic Dialectology: Methods and Results. Lingua Islandica – Íslenzk tunga 3. árg., bls. 72–113.

Jón Aðalsteinn Jónsson. 1953. Lítil athugun á skaftfellskum mállýzkuatriðum. Afmæliskveðja til próf. dr. phil. Alexanders Jóhannessonar háskólarektors 15. júlí 1953 frá samstarfsmönnum og nemendum. Reykjavík 1953, bls. 139.

Jón Aðalsteinn Jónsson 1964. Íslenzkar mállýzkur. Þættir um íslenzkt mál eftir nokkra íslenzka málfræðinga. Ritstjórn annaðist Halldór Halldórsson. Reykjavík: Almenna bókafélagið 1964, bls. 65–87.