Greinar

Veturliði Óskarsson
Íslensk málsaga

1. Landnám Íslands

1.1 Landnám

Venja er að miða upphaf landnáms á Íslandi við árið 874. Um það leyti kom Ingólfur Arnarson til Íslands frá Noregi, ásamt fóstbróður sínum, Hjörleifi Hróðmarssyni og skylduliði. Ingólfur tók land við höfða beint suður af Öræfajökli og er hann nefndur Ingólfshöfði eftir honum. Hjörleifur kom að landi allmiklu vestar, við Hjörleifshöfða. Ingólfur settist síðan að í Reykjavík.

Í kjölfar þeirra kom hver landnámsmaðurinn á fætur öðrum. Fáeinir norrænir menn höfðu þó barið landið augum nokkru fyrr, að því er sögur herma. Fyrstur er talinn hafa verið færeyski víkingurinn Naddoddur eða Naddoður, sem hraktist norður undir Ísland á leið sinni til Færeyja. Hann nefndi landið Snæland. Um hann er svo til ekkert vitað. Svíinn Garðar Svavarsson er sagður hafa siglt kringum landið og gaf hann því síðan nafnið Garðarshólmi. Hann dvaldist hér ásamt skipshöfn sinni einn vetur í Húsavík við Skjálfandaflóa en þegar hann hélt brott varð eftir maður sem Náttfari hét, ásamt þræli og ambátt. Lítið er um þau vitað, en samkvæmt þessu eru þau fyrsta norræna fólkið sem settist að í landinu. Segir í Landnámabók að þau hafi verið í báti sem slitnaði frá skipi Garðars. Við Náttfara eru kenndar Náttfaravíkur við vestanverðan Skjálfandaflóa, en þar segir sagan að hann hafi búið. Norðmaðurinn Flóki Vilgerðarson fór að leita að landi því sem Garðar hafði fundið. Hann er kallaður Hrafna-Flóki vegna þess að hann sleppti lausum hröfnum og lét þá vísa sér leiðina til lands. Flóki tók með sér ættingja sína og búfénað og settist að þar sem nú heitir Vatnsfjörður í Barðastrandarsýslu. Hann hafði ekki hugsun á því að afla vetrarforða og því féll búfénaðurinn úr hor. Sagan segir að hann hafi gengið upp á fjall til að svipast um og séð fjörð fullan af hafís. Á hann þá að hafa gefið landinu nafnið Ísland. Flóki dvaldist í Borgarfirði næsta vetur en sneri þá heim til Noregs.

1.2 Heimildir

Helstu heimildir okkar um landnámið eru Íslendingabók (sjá texta Íslendingabókar) Ara Þorgilssonar hins fróða (1068–1148) og Landnámabók. Í Íslendingabók segir að landnámi hafi lokið um 60 árum eftir komu fyrstu landnámsmannanna, eða um líkt leyti og Alþingi var stofnað árið 930. Er þetta tímabil nefnt landnámsöld. Stærsti hluti landnámsmannanna er talinn hafa komið milli 890 og 910. Í Landnámabók eru tilgreindir um 430 landnámsmenn en þar á meðal eru líka þeir sem fengu land að gjöf frá þeim sem fyrstir komu, eða öfluðu sér þess á annan hátt. Óvíst er hversu mikið má treysta á sannleiksgildi Landnámabókar þar sem hún er skrifuð um tveimur öldum eftir landnám.

Langflestir hafa landnámsmennirnir verið af venjulegum bændaættum. Sumir voru ungir menn og einir síns liðs en aðrir voru eldri og höfðu með sér ættingja, vinnuhjú og þræla. Ekki er vitað hversu margir landsmenn voru í lok landnámstímans en giskað hefur verið á allt frá 10.000 og upp í 60.000 manns. Sennilegust er talan 10.000–20.000 manns (ÍSLENSKUR SÖGUATLAS I:56, SAGA ÍSLANDS I:160) og víst má telja að Landnámabók og Íslendingabók nefni aðeins lítið brot af þeim sem hér settust að.

1.3 Landnámsmenn

Langflestir nafngreindra landnámsmanna komu úr Noregi(um 85%), einkum úr miðhluta Vestur-Noregs, þ.e. úr Sogni, Fjörðum og Hörðalandi (46%), allnokkrir úr víkingabyggðunum á Bretlandseyjum (um 12%) og fáeinir frá Svíþjóð og Danmörku eða annars staðar að (um 3%).

Þetta einfalda kort sýnir þær leiðir sem algengast var að landnámsmenn færu til Íslands. (Landnám Íslands. Námsgagnastofnun 1982).

Þeir sem komu frá Bretlandseyjum voru flestir norrænir að uppruna en höfðu með sér talsvert af þrælum af öðru þjóðerni, einkum keltneska menn frá Suðureyjum og Írlandi.

Landnámsmennirnir komu að ósnortnu landi en voru þó hugsanlega ekki fyrstir allra til að dvelja hér langdvölum. Í Íslendingabók Ara fróða segir að írskir einsetumunkar, ‘papar’, hafi haft aðsetur hér frá lokum 8. aldar, og lifað einlífi fjarri öðru fólki. Að sögn Ara forðuðu þeir sér, ef til vill aftur til Írlands, þegar þeir urðu manna varir. Örnefni sem minna á papa eru fá en benda til að frásögn Ara geti verið rétt. Engar öruggar menjar hafa þó fundist um búsetu þeirra og til eru þeir sem efast um að þeir hafi verið á Íslandi. (Sjá Jakob Benediktsson 1974:156 og Helga Guðmundsson 1997:85–100).

1.4 Ástæður fyrir landnámi

Ein helsta ástæðan fyrir búferlaflutningum norrænna manna til Íslands var sú að landrými var á þrotum á heimaslóðum þeirra. Í Noregi var góðæri um þær mundir og mannfjölgun en auk þess allmikill innanlandsófriður og vildu margir komast burt frá ofríki Haralds hárfagra sem var um þær mundir að leggja Noreg undir sig. Á 8. öld höfðu hafist víkingaferðir norrænna manna og jókst við það siglingakunnátta þeirra til muna. Um þetta leyti voru þeir því vel undir það búnir að sigla yfir úthafið þegar fréttist af mannlausu og ónumdu landi í norðvestri þar sem hver og einn gat helgað sér jörð nánast eins og hann vildi. Landið var búsældarlegra en nú og loftslag fremur hlýtt og átti það vafalaust sinn þátt í að gera landið ákjósanlegt til búsetu.

Hér er á einfaldri teikningu reynt að sýna hver var munurinn á langskipum (herskipum) og knörrum (flutningaskipum) landnámsmanna. Úr Landnám Íslands. Vinnubók. Námsgagnastofnun 1989.

2. Íslensk tunga á landnámsöld

2.1 Norræn mál

Mál norrænna manna á meginlandinu hefur vafalaust verið mjög líkt í lok 9. aldar, hvar sem menn bjuggu. Mállýskumunur hefur þó sjálfsagt verið einhver. Helsti munurinn var á milli norræns máls eins og það var annars vegar talað í Noregi og hins vegar í Danmörku og Svíþjóð. Með tímanum varð sá munur svo mikill að gamla norræna málið greindist í tvennt, í vesturnorrænu (og síðar norsku, íslensku og færeysku) og austurnorrænu (sænsku og dönsku).

Germönsk mál.

Það gerðist á víkingaöld á tímanum frá um 800 til 1050, en þar sem samtímaheimildir eru sáralitlar (mest rúnaristur) er ekki hægt að vita með vissu hvernig málum var háttað. Til þess eru rúnaáletranir of fáar og rúnaletrið of takmarkað, auk þess sem ýmsir þættir framburðarmunar koma oft ekki í ljós í rituðum texta.

2.2 Málin í nýja landinu

Þar sem um helmingur landnámsmanna (46%) kom frá Vestur-Noregi hafa vesturnorskar mállýskur verið mest áberandi í upphafi. Í reynd hafa þó verið töluð tvö eða þrjú eiginleg tungumál í landinu í fyrstu, norræn tunga með dálitlum mállýskumun eftir því hvaðan menn komu og svo keltnesku málin írska og gelíska, sem töluð var á Skotlandi. Þessi tvö síðastnefndu mál (eða mállýskur) töluðu þrælar og vinnufólk sem norrænu víkingarnir höfðu með sér til Íslands frá Bretlandseyjum, auk fáeinna frjálsra manna og kvenna. Sáralítil merki eru þó um keltnesk áhrif í íslensku sem sýnir að tungumálið hefur frá upphafi ráðist af norrænni yfirstétt (Stefán Karlsson 1989:5). Þó eru hér á landi nokkur mannanöfn og örnefni af keltneskum toga. Þess ber að geta að norrænir landnámsmenn sem búið höfðu á Bretlandseyjum höfðu sumir kvænst þarlendum konum og þannig gátu keltnesk nöfn komist inn í ætt þeirra.

2.3 Máljöfnun

Telja má víst að með landnámsmönnunum hafi flest eða öll afbrigði norsks máls á 9. og 10. öld flust til Íslands (Hreinn Benediktsson 1964:26), og einhver sænsk og hugsanlega dönsk einnig. Hér dreifðust hins vegar landnemarnir um víðan völl eftir því hvar þeir námu land og skildu þeir því mállýskuskilin eftir handan við hafið. Þetta olli því að hvergi voru skilyrði fyrir því að einhver ein mállýska úr gömlu heimkynnunum efldist á kostnað annarra. Eftir stofnun Alþingis 930 kom fólk hvaðanæva af landinu saman á Þingvöllum á hverju sumri og hefur það, ásamt öðru, vafalaust átt sinn þátt í að draga úr mállýskumun. Afleiðingin af þessu varð sú að munur á máli landnámsmanna hvarf tiltölulega fljótt, þannig að seint á 10. öld, þ.e. nokkru eftir að landnámstímanum lýkur, hefur verið orðin til ný málheild, ný vesturnorræn mállýska sem smám saman tók að þróast eftir eigin leiðum og fá sín eigin sérkenni. Mállýskuskipting kom ekki upp innan hinnar nýju tungu og hefur aldrei gert nema að mjög takmörkuðu leyti, raunar svo litlu að erlendir málvísindamenn tala gjarnan um íslensku sem tungumál án mállýskna.

3. Landið og tungan

3.1 Málleifar frá heimaslóðum

Landnámsmennirnir miðuðu áttirnar að nokkru leyti við sín fyrri heimkynni austan Atlantshafsins. Þeir fóru frá Noregi „út“ til Íslands, en í máli þeirra merkti út ‘norður’ eða ‘vestur’. Enn eru út og austur eða suður víða andstæðar áttir, til dæmis á Suðurlandi þar sem meðal annars er talað um Ytri-Rangá (hina vestari) og Eystri-Rangá, og um Út-Landeyjar (hinar vestari) og Austur-Landeyjar.

3.2 Ný orð og nýmerkingar

Landnámsmennirnir kynntust á Íslandi fyrirbærum sem þeir þekktu ekki að heiman. Vafalaust hafa þeir undrast mest yfir jarðhitanum, gufuhverum og heitu vatni, en þeir lærðu fljótt að nýta þessar auðlindir. Margir bæir eru kenndir við „reykinn“ sem lagði upp af hverum og laugum, svo sem Reykja(r)vík, Reyk(ja)holt, Reykhólar, Laugar, Varmaland, Geysir o.fl. Einnig hefur íslenska hraunið vafalaust komið þeim spánskt fyrir sjónir, því að engin eldfjöll var að finna í fyrri heimkynnum þeirra. Orðin hver og hraun voru þó fyrir í máli landnámsmannanna, en merkingin var ekki hin sama. Hver merkti einfaldlega ‘ketill’ eða ‘pottur’ og hraun merkti ‘stórgrýtisurð, grýtt land’.

Flest annað í landslagi kom landnámsmönnum kunnuglega fyrir sjónir þótt sumt vantaði eins og hávaxin tré og skógarrjóður. Það má meðal annars sjá af því að engin bæjarnöfn enda á -ruð ‘rjóður’ sem var og er algengt í Noregi, enda engir eiginlegir skógar á Íslandi sem þurfti að ryðja vegna bæjarstæða, þótt nóg hafi verið af kjarri.

4. Ritöld

Ritöld er talin hefjast á Íslandi á fyrstu áratugum 12. aldar. Að vísu eru engin rit varðveitt eldri en frá miðri öldinni eða síðari hluta hennar en oft er miðað við að ritöld hefjist þegar lög þjóðveldisins, eða hluti þeirra, voru að sögn Ara fróða skrifuð veturinn 1117–18 fyrir tilstuðlan Hafliða á Breiðabólstað í Vestur-Húnavatnssýslu.

Vafalaust hafa ýmsir kunnað að fara með latneskt letur til að skrá latínutexta alllöngu fyrr. Jafnframt eru sterkar líkur fyrir því að eitthvað hafi verið til fyrir skrifað á íslensku, því að skráning laganna getur varla hafa verið fyrsta tilraunin til að festa móðurmálið á bókfell. Við vitum að þegar um eða fyrir 900 höfðu norrænir menn á Bretlandseyjum kynnst latínuletri og notuðu það meira að segja á myntir sem norrænir víkingakonungar létu slá (til dæmis orðið Jórvík). Þótt engar heimildir séu til um það, þá er sennilegt að eitthvað hafi jafnvel verið skrifað á bækur á norrænni tungu í byggðum norrænna manna þar vestra (Sbr. Skard 1967:69). Norski sagnaritarinn Theodoricus getur þess í Noregssögu sinni frá um 1180 að Ólafur Haraldsson (d. 1030) hafi látið skrásetja lög á móðurmálinu (Skard 1967:69–70). Og einn af fyrstu trúboðsbiskupunum sem til Íslands komu var enskur maður, Bjarnharður Vilráðsson sem bar viðurnefnið hinn bókvísi. Hann var hér í nokkur ár á fyrsta fjórðungi 11. aldar.

Engar íslenskar rúnaristur eru til eldri en frá því skömmu eftir 1200 og öfugt við frændþjóðirnar virðast Íslendingar lítið eða ekkert hafa rist rúnir á steina.

  • Rúnaletur er elsta letur germanskra þjóða og var notað til að rista á steina og á tré. Stafróf rúnaletursins nefndist fuþark eftir fyrstu sex stöfum letursins. Í rúnaletrinu voru 24 stafir sem skiptust í þrjár ættir. og voru átta stafir í hverri ætt. Elstu rúnaristur eru frá því skömmu eftir Krists burð en flestar áletranir eru frá því á 3. og fram á 7. öld. Í síðari tíma norrænu rúnaletri (9. og 10. öld) fækkaði rúnunum í 16. Hér sést stafróf rúnaleturs. Engar rúnaáletranir íslenskar eru til eldri en frá því um 1200 og er talið að Íslendingar hafi af einhverjum ástæðum rist minna á steina en grannþjóðirnar gerðu. Sjálfsagt hafa hins vegar rúnir verið notaðar talsvert til að skrá á fja

  • Á Valþjófsstaðahurðinni (um 1200) má sjá rúnir á legsteini riddarans góða. Það kemur heim og saman við þá hefð sem ríkt hefur á norrænu málsvæði öldum fyrr þegar bautasteinar voru reistir. Hér má lesa: Sjá inn ríkja konung er vá dreka þenna. Þjóðminjasafnið. Ljósm. Ívar Brynjólfsson.

Óvíst er hver rúnakunnátta Íslendinga hefur verið. Í Egils sögu er þess getið að Þorgerður dóttir Egils hvatti föður sinn til að yrkja erfikvæði um syni sína nýlátna og bauðst til að „rísta á kefli“. Auðvitað er ekki víst að þetta samtal hafi nokkurn tíma farið fram en frásögnin er til marks um að höfundur eða skrásetjari Egils sögu á 13. öld hefur álitið víst að konur jafnt sem karlar á 10. öld hafi kunnað að nota rúnir.

Ýmislegt var skrifað á Íslandi á seinni hluta 12. aldar en það er á 13. öld sem sagnaritun hefst svo um munar. Á þeirri öld voru flestar helstu Íslendingasögurnar og konungasögur skrifaðar og voru þá fest á skinn fjölmörg kvæði sem geymst höfðu ævalengi í minni fólks, sum hver allt frá landnámsöld. Þessi kvæði, svokölluð dróttkvæði, eru ein mikilvægasta heimild okkar um tungumálið eins og það var fyrir ritöld og er yfirleitt nokkuð ljóst hvenær þau voru ort því að þau eru flest eftir nafnkennda menn. Fastar reglur giltu um stuðla og atkvæðagerð í dróttkvæðunum svo að þar er talsverða vitneskju að fá um framburð, auk þess sem af þeim má fá allgóða mynd af beygingum orða. Eddukvæðin eru líka mikilvæg heimild um tungumálið þótt ekki sé vitað hvenær þau voru ort. Elstu handrit sem varðveita eddukvæði eru frá 13. öld og sum kvæðanna aðeins varðveitt í einu handriti.

5. Íslensk tunga við lok landnáms

Engar beinar heimildir eru til um tungumálið frá landnámsöld og fyrri hluta þjóðveldisaldar. Við erum hins vegar svo heppin að á meðal elstu varðveittra rita er Fyrsta málfræðiritgerðin sem svo er kölluð (sjá texta hennar), merkileg og góð heimild um framburð íslenskrar tungu á 12. öld. Með hjálp hennar og ýmsum öðrum aðferðum, þar á meðal samanburði við skyld tungumál og vitnisburði dróttkvæða, má fikra sig aftur á bak með talsverðri vissu. Fátt bendir til að setningagerð hafi breyst frá 10. öld fram á þá 12. og orðaforðinn hélst einnig stöðugur. Þegar allt þetta er lagt saman, er hægt að giska nokkuð örugglega á það hvernig íslenska hljómaði jafnvel snemma á 10. öld.

6. Helstu málbreytingar 874–1500

6.1 Fornmál, miðmál, nýmál

Venja er að skipta sögu íslenskrar tungu í nokkur tímabil. Algengasta skiptingin er í fornmál frá landnámsöld til um 1350, þá miðmál til um 1550 og síðan nýmál til nútímans. Þessi skipting er ekki byggð á neinum greinilegum málfræðilegum grundvelli þótt hún sé að sumu leyti miðuð við nokkrar af helstu breytingunum sem urðu í málinu. Ártalið 1550 vísar til dæmis í reynd til sögulegra skila, siðskiptanna.

Á fyrsta tímaskeiðinu, fram til um 1200, virðast tiltölulega litlar breytingar hafa orðið á tungumálinu, en þar sem engar ritaðar heimildir eru til eldri en frá því um eða eftir miðja 12. öld, er vitneskja um málið á fyrstu þremur öldum Íslandsbyggðar nokkuð takmörkuð. Á 13. öld urðu ýmsar mikilvægar breytingar og til sama tíma má rekja upphaf annarra. Á seinni tímaskeiðunum tveimur urðu líka allmiklar breytingar.

6.2 Íslenska og norska

Um 1350–1370 er talið að leiðir skilji endanlega með íslensku og norsku. Málin höfðu þá þróast í mismunandi áttir um alllangt skeið og fjarlægst hinn sameiginlega uppruna, norskan þó hraðar en íslenskan. Íslendingar og Norðmenn hafa þó getað gert sig skiljanlega hvorir við aðra enn um sinn, jafnvel fram yfir 1500, hafi vilji verið fyrir hendi, en smám saman lokuðu breytingar á framburði og beygingum orða að mestu leyti fyrir gagnkvæman skilning.

6.3 Mállýskumunur

Lítið er vitað um mállýskumun í fornu máli. Sá munur sem var á máli landnámsmanna hvarf fljótt, líklega þegar á 10. öld, og þúsund árum síðar er mállýskumunur í íslensku enn mjög lítill, í reynd svo lítill að sumir fræðimenn neita því að á Íslandi sé um að ræða eiginlegar mállýskur.

Sumar breytingar í tungumálinu hafa ef til vill orðið missnemma í mismunandi landshlutum og þá hafa komið upp mállýskur með nýjungum annars vegar og eldri leifum hins vegar. Slíkt kann að hafa átt við um flámælið, sem að vísu er síðari alda fyrirbæri. Algengara hefur þó vafalaust verið að breyting hafi komið upp í tilteknum landshluta og breiðst síðan út smám saman. Það átti til dæmis við um stórbreytingar eins og hljóðdvalarbreytinguna og afkringingu á y-hljóðum.

Sumar málbreytingar hafa hins vegar ekki verið nógu sterkar til að haldast; þær ganga til baka og hverfa að lokum. Þá verður ástandið aftur eins og það var fyrir málbreytinguna. Dæmi um slíkt er rd-framburðurinn sem kenndur er við Vestfirði. Rd-framburður kom að öllum líkindum upp vestanlands, enda var útbreiðslusvæði hans samfelldast þar. Upphaf hans má líklega rekja til 14.–15. aldar. Þaðan breiddist hann út, norður og síðan austur fyrir. Hann virðist þó hvergi hafa orðið ráðandi heldur stungið sér niður á víð og dreif. Trúlega náði hann aldrei að festa rætur á Suðurlandi. Loks fjaraði hann út og hvarf nema á afskekktum svæðum.

7. Hljóðsaga – Framburður og breytingar á honum

7.1 Framburður

Breytingar á íslenskri tungu hafa orðið mestar og djúpstæðastar í framburðinum. Nútímafólk myndi ekki skilja mikið í máli forfeðranna frá því fyrir 1400 ef það ætti kost á að heyra þá tala. Og því lengra sem farið væri aftur, því minni yrði skilningurinn. Ýmis orð væru vafalaust skiljanleg í máli Snorra Sturlusonar frá því snemma á 13. öld, en þó færi þá líklega eins fyrir okkur og þegar við hlustum á það mál sem náskyldast er íslenskunni, færeysku. Færeyskt ritmál er Íslendingum nokkuð auðskilið en þegar við hlustum á talað mál „þá finnst manni sumt vera íslenzka, og heldur að maður skilji þá, en svo byrja þeir að kjamsa og smjatta og þá skilur maður ekki nokkurn skapaðan hlut“, eins og Hendrik Ottósson rithöfundur lætur vin sinn Gvend Jóns segja í bókinni GVENDUR JÓNS OG VIÐ HINIR (bls. 10). Er nokkuð víst að Færeyingar hafa sömu sögu að segja um íslensku.

Ýmsar breytingar er ekki hægt að tímasetja vegna þess að þær hafa hvorki skilið eftir merki í stafsetningu né skipt máli fyrir bragreglur, svo sem stuðlun og rím. Hér má nefna órödduð ‘l’, ‘m’, ‘n’ og ‘r’ á undan ‘p’, ‘t’, ‘k’ og röddunarleysi ‘n’, ‘l’ og ‘r’ á eftir ‘h’. Röddunarleysið er yngra en rödduð hljóð í orðum af þessu tagi en hvenær það hefur komið upp er ekki unnt að segja. Hið sama á við um aðblástur á ‘p’, ‘t’ og ‘k’, þ.e. h-hljóð á undan þessum samhljóðum í orðum eins og jeppi, rotta, jakki, epli, vatn, vakna og svo framvegis.

Breytingar á framburði hljóða eru margar en ekki allar jafn augljósar nútímafólki. Hér á eftir verður greint frá helstu breytingum og tekin dæmi af nokkrum smærri breytingum.

7.2 Sérhljóðakerfið

Í frumnorrænu voru 5 grunnsérhljóð.

Grunnsérhljóðin í frumnorrænu.

Auk þess voru tvíhljóðin ‘ai’, ‘au’ og ‘eu’. Hvert grunnsérhljóð (einhljóð) var ýmist langt eða stutt eftir uppruna sínum – ekki eftir því hvar það stóð í orði eins og nú er – og löngu hljóðin gátu þar að auki verið munnkveðin (eins og þau eru í íslensku nútímamáli) eða nefkveðin (eins og þau geta verið til dæmis í frönsku) ef nefhljóð fór næst á eftir þeim eða hafði gert það á frumgermönskum tíma (Halldór Halldórsson 1950:24). Alls var því um að ræða 15 mismunandi hljóðön eða fónem, sem gátu skilið eitt orð frá öðrum orðum.

Við upphaf Íslandsbyggðar hafði sérhljóðum fjölgað um fjögur vegna hljóðbreytinga sem nefndar eru hljóðvörp (sjá einnig Forsögu íslensks máls).

Stuttu sérhljóðin við upphaf Íslandsbyggðar.

Tvíhljóð voru nú einnig þrjú, ‘ei’, ‘ey’ og ‘au’. Grunnhljóðgildin voru 9, þau voru enn ýmist löng eða stutt eftir uppruna og löngu hljóðin voru ýmist munnkveðin eða nefkveðin. Alls var því um að ræða 27 mismunandi hljóðön.

Afstaða einhljóða hvers til annars innan sérhljóðakerfisins hefur þá líklega verið þessi.

Afstaða einhljóðanna í elstu íslensku.

Líklegt er að einhver munur hafi verið á hljóðgildi samsvarandi hljóða í langa og stutta kerfinu.

Ekki er öruggt að öll nefkveðnu hljóðin hafi í reynd verið sjálfstæðir hljóðungar innan kerfisins, þ.e. greint að merkingu tveggja orða. Í elsta máli og fram á 12. öld gátu öll sérhljóð orðið nefjuð á undan ‘m’ og ‘n’ (einnig tvíhljóð), en þar var aðeins um hljóðfræðilegt fyrirbæri að ræða. En stundum hafði nefhljóðið fallið á brott (þegar á frumnorrænum tíma eða fyrir hann) og skildi þá gjarnan eftir sig merki sem komu fram í því að sérhljóðið varð langt og nefkveðið. Þá voru komin fram skilyrði fyrir aðgreiningu milli orða sem byggðist eingöngu á því hvort sérhljóð var nefkveðið eða munnkveðið. Dæmi um slíkt er til dæmis að finna í nafnorðaparinu hár hvk. (‘hár’, komið af frumgerm. stofninum *hēra-) og há̇r kk. (‘háfur, hákarl’, komið af frumgerm. stofninum *hanha-), sem voru borin eins fram á 12. öld fyrir utan það að sérhljóð í síðara orðinu var nefjað.

Venja er að rita löngu sérhljóðin með broddi (á, ę́, é, í, ó, ý, ú, ǿ, ǫ́) þau stuttu broddlaus (a, ę, e, i, o, u, y, ø, ǫ). Þótt munur á löngum og stuttum sérhljóðum hafi fyrst og fremst verið lengdarmunur er þó líklegt að sum löngu hljóðin (‘á’, ‘é’, ‘ó’, ‘ę́’) hafi allsnemma farið að hljóma örlítið öðruvísi en samsvarandi stutt hljóð, þó ekkert á við það sem síðar varð þegar þessi hljóð urðu að tvíhljóðum.

7.3 Hljóðgildi sérhljóða

Hljóðgildi sérhljóðanna hefur líklega verið eftirfarandi (sbr. Stefán Karlsson 1989:7, Kristján Árnason 1983:160): ‘i/í’ hefur verið borið fram eins og ‘í’ nú, ‘e/é’ líkt og ‘i’ nú, ‘ę/ę́’ líkt og ‘e’ nú (eða ef til vill nær dönsku og sænsku ‘æ’/‘ä’), ‘y/ý’ eins og ‘y’ í dönsku, ‘ø/ǿ’ líkt og ‘ö’ eða ‘u’ nú, ‘a/á’ eins og ‘a’ er enn, ‘u/ú’ eins og ‘ú’ nú, ‘o/ó’ líklega mitt á milli ‘o’ og ‘ú’ nú og ‘ǫ/ǫ́’ líkt og ‘o’ nú, þó ef til vill líkara sænsku ‘a’ (a með o-keim). ‘Au’ hefur verið borið fram líkt og ‘á’ nú, þ.e. ‘a-ú’, en þó líklega með einhverri kringingu á fyrra partinum (sbr. Árna Böðvarsson 1951:163); ‘ei’ hefur verið eins og það er nú og ‘ey’ eitthvað líkt ‘öj’, þ.e. nálægt framburði á ‘au’ í nútímamáli, en þó varla alveg eins, eins og sjá má á sérhljóðatöflu.

Hljóðin ‘v’ og ‘j’ í upphafi orða hafa verið einskonar hálfsérhljóð. Hið fyrra hefur að öllum líkindum verið borið fram nokkuð líkt og enskt ‘w’ og hið síðara hefur ef til vill verið svolítið ‘í’-kenndara en nú.

7.4 Sérhljóðstákn í útgáfum fornrita

Í útgáfum íslenskra fornrita eru ekki nærri öll sérhljóð fornmálsins sýnd með sérstökum táknum. Nefkveðin sérhljóð eru til dæmis aldrei merkt sérstaklega, ‘ę’ er sjaldan notað, enda er það hljóð horfið úr málinu um þær mundir sem álitið er að sögurnar séu skrifaðar, og oft eru notuð táknin œ fremur en ǿ og æ fremur en ę́. Einnig eru ýmsar útgáfur fornrita með nútímastafsetningu, og er þá t.a.m. ritað ö fyrir fornt ‘ǿ’, ‘ø’ og ‘ǫ’, æ fyrir ‘ę́’, og á eða ó fyrir ‘ǫ́’

8. Sérhljóðakerfið

8.1 Breytingar fyrir 1200

Seint á forníslenskum tíma (á 11.–13. öld) fækkaði hljóðum í sérhljóðakerfinu, sem fram að því var líklega eitthvert hið stærsta sem um getur í tungumálum heimsins.

Samfall stuttu e-hljóðanna á 11. og 12. öld.

Fyrst rann stutta hljóðið ‘e’ saman við hljóðvarpshljóðið ‘ę’. Er jafnvel talið að það hafi gerst að nokkru leyti þegar á 10. öld (Hreinn Benediktsson 1962). Eftir það rímuðu saman orð eins og betr (áður bętr) og vetr. Eru þá aðgreinandi sérhljóð í íslensku máli 26 talsins.

Næst runnu löng, nefkveðin hljóð saman við þau sem voru munnkveðin og við það fækkaði aðgreinandi hljóðum um 9, úr 26 í 15. Sú breyting hefur ekki verið um garð gengin um miðja 12. öld því að í Fyrstu málfræðiritgerðinni er greint frá nefkvæðum sérhljóðum og sýnd dæmi um að þau greini orð frá öðrum orðum.

Á 11.–12. öld (sbr. Hreinn Benediktsson 1962) rann langa munnkveðna hljóðið ‘ǫ́’ saman við munnkveðið ‘á’. Eftir það varð til dæmis nefnifall eintölu og fleirtölu eins í orðinu sár (áður et. sár – ft. sǫ́r). Samsvarandi nefkveðið hljóð rann hins vegar saman við nefkveðið ‘ó’ og þannig varð til dæmis Ǫ́͘láfrÓláfr (sjá mynd).

Samfall langra hljóðvarpshljóða á 11. og 12. öld.

8.2 Tónkvæði?

Í frændmálum íslenskunnar, norsku, sænsku og í dönskum mállýskum á Suður-Jótlandi (Fischer-Jørgensen 1974:103), er til svokallað tónkvæði eða tónaáhersla. Þá er greint með tvenns konar tónfalli á milli orða sem eru að öðru leyti eins. Tónaáhersla þessi er mismunandi eftir tungumálum og mállýskum (sbr. Haugen 1976:283) en sameiginlegt er að orð sem í fornnorrænu voru eitt atkvæði hafa sérstakt tónfall (einkvæðisáherslu) en orð sem voru fleiri en eitt atkvæði hafa annað tónfall (tvíkvæðisáherslu). Dæmi um þessa tónaáherslu má heyra í framburði orðanna anden ‘öndin’ og anden ‘andinn’ í sænsku.

Sennilegt er að tónkvæðið sé gamalt í norrænum málum og hafi verið í máli landnámsmanna á Íslandi. Ýmislegt bendir til að tónkvæðið hafi ekki skipt miklu fyrir merkingu orða (Haugen 1976:283) og það hefur ekki átt auðvelt uppdráttar í hinu nýja málfélagi, enda varð íslenskan til úr blöndu margra mállýskna sem hver hefur líklega haft sína eigin gerð af tónkvæði. Þó kann að vera að það hafi lifað allt fram á 15.–17. öld, ef til vill mállýskubundið. Það gæti til dæmis skýrt hvers vegna orð sem upphaflega voru einkvæð en urðu tvíkvæð við u-innskot þegar á 13.–14. öld (fögur < fǫgr, kvk. af lo. fagr) gátu stundum ekki rímað á móti orðum sem upprunalega voru tvíkvæð (til dæmis sögur, ft. af saga) (Stefán Karlsson 1964:26–27).

8.3 Breytingar á 13. öld

Stutta hljóðið ‘ǫ’ fór allt aðra leið en samsvarandi langt hljóð. Um 1200 tók hljóðgildi þess að breytast, það frammæltist og féll saman við stutt ‘ø’.

Samfall stuttu ö-hljóðanna um 1200.

Eftir þetta er framburðurinn ‘ö’ eins og í nútímamáli og til dæmis lýsingarorðið ör (ǫrr) orðið samhljóma nafnorðinu ör (ørr kvk.). Þess má geta að á sama tíma rann ‘ǫ’ saman við ‘o’ í norsku (Hansen o.fl. 1975:23), til dæmis mǫnnum > monnum (seinna mannum þegar u-hljóðvarp gekk til baka í norsku), og er það dæmi um hvernig hljóðbreytingar voru mismunandi í systurmálunum tveimur.

Um líkt leyti eða fyrr afkringdist stutt ‘ø’ í sumum orðum og varð að ‘e’, til dæmis øxi > exi, kømr > kemr, søfr > sefr, trøðr > treðr.

Samfall langra hljóðvarpshljóða á 13. öld (æ).

Á 13. öld breyttist svo langa hljóðið ‘ǿ’ (borið fram líkt og langt ‘ö’ nú), það afkringdist og féll saman við ‘ę́’ (borið fram líkt og langt ‘e’ nú). Venja er að tákna ‘ę́’ eftir þennan samruna með æ. Snorri Sturluson (d. 1241) greindi á milli þessara hljóða en Sturla Þórðarson, bróðursonur hans, lætur ríma saman gamalt ‘ǿ’ og ‘ę́’ í kveðskap. Breytingin hefur því orðið um miðja öldina. Eftir það ríma saman orð eins og læti (þ.e. lę́ti) og bæti (áður bǿti). Þessi breyting hefur ekki orðið í skyldum málum og þannig er til dæmis upprunalegt ö-hljóð í færeyska orðinu bøla, norska orðinu bøta, sænska orðinu föra og danska orðinu dømme en ‘æ’ í samsvarandi íslenskum orðum, bæla, bæta, færa og dæma.

8.4 Sérhljóðakerfið í lok 13. aldar

Í lok 13. aldar benda allar rannsóknir til að sérhljóð hafi verið orðin 14, 7 stutt og 7 löng, og er það æði mikil fækkun frá 26–27 aðgreinandi sérhljóðum tveimur öldum fyrr.

Íslenska sérhljóðakerfið við lok 13. aldar.

Stutta kerfið er ólíkt því langa þótt jafnmörg hljóð séu í báðum: Ekkert stutt, frammælt, fjarlægt og ókringt hljóð er til (var áður ę) og ekkert langt, frammælt, miðlægt og kringt hljóð er til (var áður ǿ). Í heild er kerfið því í nokkru ójafnvægi.

Hugsanlegt er að fyrstu merki um samfall ‘y’, ‘ý’, ‘ey’ og ‘i’, ‘í’, ‘ei’ (þ.e. afkringingu á y-hljóðum) sé að finna á 13. öld. Dæmi eru um rithætti með i þar sem búast má við y, í áherslulitlum orðum eins og firir, ifir, skildi, mindi. Í kvæði eftir Kolbein Tumason (um 1200) er dæmi um rímið þykkja : mikit, en að vísu er hugsanlegt að hann hafi haft kringt hljóð í mikit. Annars er talið að þessi breyting hefjist talsvert síðar fyrir alvöru.

8.5 Gömul og ný tvíhljóð

Í nútímamáli eru fleiri tvíhljóð en í fornu máli. Þau eru til orðin úr löngum einhljóðum, en tvíhljóðun þeirra, annarra en ‘í’, ‘ý’ og ‘ú’, hófst líklega á 13. öld eða snemma á 14. öld (Hreinn Benediktsson 1959b:298). Þá breyttist ‘á’ [aː] í ‘a-ú’, ‘æ’ [ę́ː] í ‘a-í’, ‘ó’ [oː] í ‘o-ú’, ‘é’ [eː] í ‘e-í’ og svo í ‘í-e’ (> ‘je’, nú skrifað é). Breytingin á ‘æ’ í ‘a-í’ náði þó ekki að öllu leyti til Austfjarða fyrr en á 17. öld, og eru til heimildir frá þeim tíma um framburðinn ‘be’, ‘mer’ og ‘lekur’ fyrir , mær og lækur frá Austfjörðum. Enn eimir eftir af þessum framburði í stirðnuðum framburðarmyndum eins og ‘geskur’, ‘gerkvöld’ fyrir gæskur, gærkvöld; og skammt frá Kirkjubæjarklaustri er á sem heitir ýmist Grenlækur eða Grænlækur.

Ekki er auðvelt að sjá nákvæmlega hvenær löngu einhljóðin breyttust í tvíhljóð því að flestir hinir fornu bókstafir voru notaðir óbreyttir eftir sem áður. Óbeina vitneskju er þó stundum að fá af rithætti handrita, til dæmis þá að gamla tvíhljóðið ‘au’ hlýtur að hafa verið borið fram á 13. öld nálægt því sem nú er (hér um bil eins og ‘ö-í’), en ekki sem ‘a-ú’. Það sést meðal annars á því að sama tákn er oft notað fyrir ‘au’ og ‘ö’ (áður ‘ǫ’) í handritum frá 13. öld. Fyrst það var hægt þá hefur hljóðgildi verið keimlíkt, þó ekki hafi það verið hið sama.

Tvíhljóðun á ‘é’ í ‘je’ kemur fram í stafsetningu. Fyrst stefndi í að ‘é’ breyttist í ‘ei’ og eru til mörg dæmi um rithætti eins og seir fyrir sér. Sú þróun snerist við og ‘é’ breyttist í staðinn í ‘ie’ (síðar ‘je’), enda var annars hætta á að nýja tvíhljóðið félli saman við gamalt ‘ei’. Ekki verður þó algengt að rita ie fyrir eldra ‘é’ fyrr en eftir 1300.

Í sögninni eta og 1. persónu fornafninu ek/eg varð lenging og samskonar tvíhljóðun og í orðum sem höfðu upphaflegt langt ‘é’. Ekki er víst hvenær það varð en a.m.k. hefur tvíhljóðunin þar orðið allmiklu seinna en hin almenna tvíhljóðun. Í þýðingu Odds Gottskálkssonar á Nýja testamentinu, frá 1540, er t.a.m. alltaf ritað eg og eta nema einu sinni ieta. Í orðum þar sem langt ‘é’ var að fornu er svo til alltaf ritað ie í þýðingu Odds.

8.6 Hljóðgildisbreytingar

Á 14.–16. öld breyttist hljóðgildi ýmissa sérhljóða. Stuttu sérhljóðin fjarlægðust öll nokkuð, til dæmis breyttist framburður á ‘e’ úr [e] (sem líkist nokkuð framburði á ‘i’ í nútímamáli) í [ę́], ‘ö’ breyttist úr [ø] (sem líkist framburði á ‘u’ í nútímamáli) í [œ], framburður á ‘i’ breyttist úr [i] (eins og ‘í’ í nútímamáli) í [ɪ], framburður á ‘o’ breyttist úr [o] í [ɔ] og ‘u’ frammæltist, breyttist úr uppmæltu [u] (sami framburður og ‘ú’ í nútímamáli) í frammælt hljóð, [ʏ]. Hugsanlegt er að ‘y’ hafi einnig fjarlægst og nálgast [ʏ].

Erfitt er að sjá hvenær stuttu og löngu afbrigðin byrja að fjarlægjast hvert annað en líklega hefur sú þróun hafist fremur snemma. Á síðari hluta 14. aldar virðist allmikill munur vera orðinn á hljóðgildi stuttra og langra ‘a’, ‘i’, ‘o’ og ‘u’, en minni munur á stuttu og löngu ‘e’. Nokkuð víst er að á 16. öld er ‘á’ orðið að tvíhljóði eins og nú er, en ekki er ljóst hvenær það gerðist (sbr. Björn K. Þórólfsson 1925:xi).

Allar þessar breytingar ollu því að mikilvægi hljóðlengdar minnkaði, enda var nú svo komið að mismunandi hljóðgildi dugði til að greina á milli orða eins og mal og mál, vel og vél, skin og skín, hol og hól, brun og brún, og ef til vill fyl og fýl í stað hljóðlengdar áður. Þetta leiddi síðar til hljóðdvalarbreytingarinnar, þegar hljóðlengd hætti endanlega að vera merkingargreinandi og fór að ákvarðast af stöðu hljóða eða hljóðfræðilegu umhverfi. Þá varð til dæmis ‘a’ langt í nefnifallsmynd orðsins dagur, á undan einu samhljóði, en stutt í eignarfallinu dags, á undan tveimur samhljóðum en hafði áður verið stutt í báðum orðmyndum.

8.7 Afkringing á ‘y’-hljóðum

Um miðja 15. öld hófst fyrir alvöru samfall á kringdu ein- og tvíhljóðunum ‘y’, ‘ý’, ‘ey’ og ‘i’, ‘í’, ‘ei’ (þ.e. afkringing á y-hljóðum). Eldri, einangruð dæmi um þessa breytingu eru þó til allt frá 13. öld. Breytingin hófst á vestanverðu landinu, breiddist þaðan fljótlega út til Norðurlands, en náði ekki til Austurlands eða Suðurlands fyrr en á síðari hluta 16. aldar. Kringdur framburður á y-hljóðum lifði þó eitthvað fram eftir öldum, jafnvel fram yfir 1800 á Austfjörðum (Guðvarður Már Gunnlaugsson 1994:117). Um miðja 18. öld gat Eggert Ólafsson (1726–1768) um framburðinn ‘Raukiolt’ fyrir Reykholt meðal gamals fólks í Borgarfirði (sjá Árna Böðvarsson 1951:164) og enn í dag eru til dálitlar leifar af hinum forna framburði sem hafa varðveist í einstökum orðum, til dæmis framburðurinn ‘ukkar’ fyrir ykkar, ‘kjur’ f. kyrr, og örnefnin Baula og Rauðará sem í eldra máli voru Beyla og Reyðará.

8.8 Hljóðdvalarbreytingin á 15.–16. öld

Í fornu máli var það uppruni og ætterni orðs sem réð lengd sérhljóðs í áhersluatkvæði. Lengd sérhljóða skipti máli fyrir merkingu orða. Þannig hafði það verið frá alda öðli og í fyrndinni einnig í skyldum málum eins og ensku og þýsku. Í íslensku nútímamáli ræðst lengd sérhljóðsins hins vegar af því hvaða hljóð og hversu mörg koma á eftir því. Í fornu máli var til dæmis langt sérhljóð í lýsingarorðinu brúnn í öllum kynjum, föllum, stigum og báðum tölum þess og samsetningum með því, vegna þess að langa sérhljóðið var í stofni orðsins og hafði ætíð verið þar. Sérhljóðið ‘ú’ var því langt í orðmyndunum brúnn, brún, brúnt, brúnni svo og í afleiddum orðum eins og brúnka. Nú er sérhljóðið stutt í öllum þessum orðmyndum nema brún. Í fornu máli var hlutverk lengdar því annað en í nútímamáli, og hefði sögualdarmaður tekið upp á því að skipta á löngu og stuttu ‘ú’ í brúnn má búast við að það hefði orðið hér um bil jafn-illskiljanlegt og ef nútímamaður skipti á ‘í’ og ‘ú’ í sama orði.

Ekkert germanskt mál varðveitti mun langra og stuttra sérhljóða jafnlengi og íslenska, en á 15. og einkum á 16. öld tók þessi munur að hverfa. Í staðinn fyrir fasta lengd hljóða í hverju orði fór lengd sérhljóða að ákvarðast af stöðu þeirra, það er hljóðfræðilegu umhverfi. Setja má fram reglur um lengd sérhljóða eftir að þessi breyting var um garð gengin (sjá Baldur Ragnarsson 1992:132):

Sérhljóð er langt

  1. ef það stendur eitt og ber áherslu, til dæmis nöfn bókstafa, nafnorðið á og svo framvegis
  2. í lok orða sem eru eitt atkvæði, til dæmis
  3. á undan öðru sérhljóði, til dæmis búa, áin
  4. á undan einu samhljóði, ef það er stutt: lesa
  5. á undan samhljóðaklösum þar sem fyrra hljóðið er ‘p’, ‘t’, ‘k’ eða ‘s’ og hið ‘j’, ‘v’ eða ‘r’

Sérhljóð er stutt

  1. á undan löngu samhljóði, til dæmis hissa
  2. á undan tveimur samhljóðum, öðrum en ‘p’, ‘t’, ‘k’ eða ‘s’ + ‘j’, ‘v’ eða ‘r’, til dæmis hestur
  3. í áhersluleysi, til dæmis í endingum orða, til dæmis konan, og í áherslulitlum orðum eins og forsetningum ( á, í og svo framvegis), nafnháttarmerki ( ), samtengingum ( og o.fl.) og svo framvegis.

Dregið saman í eina málsgrein má segja að sérhljóð í áhersluatkvæði sé langt á undan einu eða engu samhljóði, svo og á undan tveimur samhljóðum ef hið fyrra er ‘p’, ‘t’, ‘k’ eða ‘s’ og hið síðara ‘j’, ‘v’ eða ‘r’. Annars er sérhljóð stutt. – Í samsetningum gilda þessar reglur ekki að fullu, til dæmis segja margir ‘ Ísslendingar ’, með stuttu ‘í’ og löngu ‘s’ þótt orðið ís hafi langt ‘í’ og stutt ‘s’.

Hljóðdvalarbreytingin er einhver róttækasta breyting sem gengið hefur yfir íslenska tungu. Hún gerðist auðvitað ekki skyndilega heldur hafði verið að gerjast í einar þrjár aldir, eða allt frá því svolítill munur fór að verða á löngum og stuttum afbrigðum sömu hljóða á 12. öld eða þar um bil. Talið er að upphaf hennar megi rekja til Vesturlands (Björn K. Þórólfsson 1929:79).

8.9 Merki um hljóðdvalarbreytinguna

Merki um hljóðdvalarbreytinguna sjást best í kveðskap því að eftir að hennar fór að gæta breyttust bragreglur. Í nútímamáli er áhersluatkvæði alltaf langt, en fyrir hljóðdvalarbreytinguna gat það verið stutt (létt), langt (þungt) og yfirlangt.

Atkvæðagerð og lengd atkvæða í fornu máli. Í línum b og e má sjá þær tegundir atkvæðagerðar sem ekki eru lengur til í nútímamáli, svokallað stutt atkvæði (b) og yfirlangt atkvæði (e).

Í meginatriðum gilti sú regla í kveðskap að áhersluatkvæði skyldu vera löng. Hún var að vísu oft brotin, einkum eftir að endarím kom til sögunnar, jafnvel strax á 10. öld. Má sjá dæmi um það í fyrstu vísu úr Höfuðlausn Egils Skallagrímssonar: „Vestr fórk of ver / en ek viðris ber / munstrandar mar / svo er mitt of far“, þar sem orðin ver (hvk. þf.), ber (1. p. et.), mar (kk. þf.) og far (hvk. nf.) töldust öll vera stutt atkvæði en hljóta þó að hafa borið áherslu. Lengi vel reyndu skáld þó að virða þessa reglu. Það hefur stundum verið talið merki um að hljóðdvalarbreytingin væri að hefjast eða væri hafin þegar 16. aldar skáld nota í kveðskap sínum áhersluatkvæði sem upphaflega voru stutt. Einar Sigurðsson skáld og prestur í Eydölum (1538–1626) hefur til dæmis orðin vera og gera í áhersluatkvæði í þessu erindi úr Júditarrímum:

Fyrst vill guð vér þekkjum þann
í þrenning einn að VERA;
skapara vorn og heiðrum hann
sem heiminn kunni að GERA.

Þetta kann að vera til marks um að hljóðlengd hafi verið farin að riðlast í máli Einars (sjá Björn K. Þórólfsson 1929:64). Oft er Jón biskup Arason (1484–1550) nefndur sem síðasta skáldið sem fari rétt með forna hljóðlengd í kveðskap, en þó eru til rímur frá miðri 17. öld þar sem hún er enn í gildi (Stefán Karlsson 1964). Breytingin hefur verið alllengi að breiðast yfir allt, og fram á 17. öld hafa sennilega verið til „eyjar“ þar sem forn hljóðlengd hefur verið mállýskuatriði á undanhaldi.

8.10 Flámæli

Flámæli hefur það verið kallað þegar ekki er gerður skýr greinarmunur í framburði á sérhljóðunum ‘i’ og ‘e’ annars vegar og ‘u’ og ‘ö’ hins vegar: skyrsker, sumsöm. Flámælið er að mestu leyti bundið við löngu hljóðin og birtist venjulega sem millihljóð á milli þessara hljóða eða sem hálfgert tvíhljóð (líkt ‘i-e’ og ‘u-ö’). Þessi breyting hefur gengið til baka, enda var lagst hart gegn henni um miðja 20. öld. Óvíst er um aldur flámælisins, en það hefur ekki getað komið upp fyrir hljóðdvalarbreytingu, enda er það sennilega bein afleiðing af þeim breytingum sem urðu á sérhljóðakerfinu frá 13. öld og lauk með hljóðdvalarbreytingunni. Ekki eru þekkt örugg dæmi úr rituðum heimildum um flámæli eldri en frá 19. öld, en breytingin hlýtur að vera talsvert eldri (Ásgeir Bl. Magnússon 1959:10, Hreinn Benediktsson 1959b:305–306). Orðið flámæltur kemur fyrst fyrir á bók um miðja 18. öld, en óvíst er að það merki hið sama og nú og kann að vera að merkingin hafi verið ‘svikmáll, lyginn’.

Flámælið var bundið við Suðvesturland (einkum Reykjanes), Húnavatnssýslur og Austfirði og Austurland. Þessi dreifing bendir til þess að flámælið hafi komið upp sem óháð málbreyting á þessum þremur stöðum, og þá sem eðlilegt framhald á sérhljóðabreytingum 13.–16. aldar.

9. Stöðubundnar sérhljóðabreytingar

Ýmsar breytingar hafa orðið á einstökum hljóðum eftir því hvaða hljóð voru næst þeim í orðum, þær fara því eftir stöðu hljóðanna í samhenginu. Þessar breytingar eru annars eðlis en algildar breytingar eins og samfall ‘ǫ’ og ‘ø’, svo dæmi sé tekið. Hér verður getið nokkurra breytinga af þessu tagi.

9.1 Brotthvarf áherslulausra sérhljóða

Á 12. öld og fyrr féll stutt sérhljóð í endingum víða brott á eftir löngu sérhljóði í stofni: gráan, gráum varð grán, grám. Þetta varð enn algengara á 13. öld. Síðar kom þetta sérhljóð víða inn á ný: gráan, gráum, en einnig eru dæmi um að það hafi ekki gerst, til dæmis í sögnum sem enda á ‘-á’ ( < fáa). Í sumum samböndum héldust þó sérhljóðin allan tímann, svo sem í gráir, snúa, róa. Enn má finna leifar þessarar breytingar í föstum orðasamböndum, þar sem hún hefur ekki gengið til baka, til dæmis í orðasambandinu smám saman sem hefði orðið smáum saman ef breytingin hefði aldrei orðið eða gengið að fullu til baka.

9.2 Stutt sérhljóð verða löng

Stutt ‘a’, ‘o’ og ‘u’ á undan ‘l’ og öðru samhljóði sem ekki var tannhljóð, einkum ‘m’, ‘f’, ‘p’, ‘g’ og ‘k’, lengdust. Þessi breyting hófst líklega fyrir 1200: hjalmr, halfr, hjalpa, galgi, kjalki, holpinn, folginn, holkr, fulga, bulki verða að hjálmr, hálfr, hjálpa, gálgi, kjálki, hólpinn, fólginn, hólkr, fúlga, búlki og svo framvegis. Einnig varð lenging í hals > háls og nokkru síðar í skald > skáld og fleiri orðum.

9.3 Löng sérhljóð verða stutt

Stundum styttust löng sérhljóð á undan tveimur eða fleiri samhljóðum, einkum á undan tvöföldu (löngu) samhljóði. Þannig varð t.d. mínnminn, góttgott og dróttinndrottinn. Í sumum orðum varð þessi stytting snemma og er þegar orðin útbreidd fyrir 1200. Þar má til dæmis nefna orðið hann sem áður var hánn. Af kveðskap má þó ráða að sum skáld hafi enn á 14. öld haft langt sérhljóð í orðinu dróttinn og orðmyndunum mínn og þínn (Björn K. Þórólfsson 1925:6, 43–44), svo að ekki hefur þessi breyting gengið yfir í einu vetfangi. Breytingin varð ekki heldur alls staðar, til dæmis ekki í beygingarmyndunum míns, þíns, og heldur ekki í ýmsum orðum skyldum þeim sem styttingin varð í, t.d. drótt.

9.4 Breyting á hljóðgildi sérhljóða á undan ‘ng’ og ‘nk’

Um 1300 eða fyrr tóku stutt sérhljóð að breytast á undan ‘ng’ og ‘nk’. Stutt ‘i’, ‘y’ og ‘u’ lengdust og ‘a’, ‘e’ og ‘ö’ tvíhljóðuðust (og urðu þar með einnig löng): Ingi varð ‘Iːngi’, yngri varð ‘yːngri’, ungr varð ‘uːngr’, en langa varð ‘laúnga’, lengi varð ‘leingi’ og þröngr varð ‘þröíngr’ (Noreen 1970:95–96) og svo framvegis (sbr. Stefán Karlsson 1989:9). Ekki eru dæmi um ‘o’ á undan ‘ng’ eða ‘nk’ nema í samandregnum orðmyndum eins og kongr (dregið saman úr konungr) en það fór sömu leið, tvíhljóðaðist og lengdist og varð ‘koúngr’. Gamli framburðurinn hefur varðveist að nokkru leyti á Vestfjörðum (einkum á ‘a’ og ‘ö’, langur, löng og svo framvegis) en er á undanhaldi. Þótt hinn nýi framburður sé meira en 600 ára gamall og tíðkist um allt land hefur hann ekki verið viðurkenndur í stafsetningunni. Þó hafa fáeinir rithöfundar, með Halldór Laxness í fararbroddi, tekið upp framburðarrithátt eins og þraungur, dreingur, svángur, úngur, sýngur, fíngur.

9.5 Kringing á löngu ‘a’

Á 14. öld varð sú breyting að ‘á’ (langt a) tók til sín kringingu frá undanfarandi ‘v’ og varð að ‘ó’ (löngu o) og styttist síðar í ‘o’. Við það breyttust orð eins og svá í svó/svo, váði í vóði/voði, várum í vórum/vorum, kvámu í kvómu/kvomu og síðar í komu og svo framvegis. Dæmi um að orð hafi „stirðnað“ á eldra málstigi er að finna í orðmyndum eins og þt. vóru og kómu sem enn heyrast í mæltu máli og sjást jafnvel í riti við lok 20. aldar.

9.6 Tvíhljóðun á undan ‘gi’

Á 15. öld er talið að sá framburður hafi komið upp sem nú tíðkast um mestallt land á orðum eins og lagi, vegir, stigi, bogi, hugi og lögin, þ.e. stutt tvíhljóð eða einhljóð (‘i’): [laijːɪ, veijːɪr, stijːI/stɪijːɪ, poijː, hʏijːɪ, lœijːɪn]. Þarna koma fyrir tvíhljóðin [oi] og [ʏi] (og ef til vill [ɪi] í máli sumra) sem annars eru ekki í íslensku. Þessi framburður er til kominn vegna áhrifa frá j-hljóðinu sem varð til úr önghljóðs-g ([ɣ]) á undan ‘i’. Fornan framburð má þó enn heyra í Skaftafellssýslum: [laːj#618;, vɛːjɪr, stɪːjɪ, pɔːjɪ, hʏːjɪ, lœːjɪn] en hann er orðinn fátíður.

9.7 U-innskot

Sú breyting sem er einna mest áberandi í stafsetningu þegar nútímamál er borið saman við fornmál, er innskot á ‘u’ á milli samhljóðs (annars en ‘r’) og ‘r’ í enda orðs, einkum í nefnifalli karlkynsnafnorða og lýsingarorða í karlkyni: hestur, rauður. Þetta innskot varð líka í ýmsum orðum þar sem ‘r’ var hluti af stofninum en ekki beygingarending, til dæmis í fagur, akur, bræður og systur (ft.). Í beygingu orða helst þetta ‘u’ á undan endingu sem er samhljóð, til dæmis akurs, fagurs. Þegar greini er bætt við nafnorð helst ‘u’ í karlkynsorðum (hesturinn, akurinn) en hverfur oftast í kvenkyns- og hvorugkynsorðum (lifurlifrin, hreiðurhreiðrið), þó ekki í æður, steypireyður, brúður. Í nokkrum orðum verður u-innskot þótt ‘r’ sé ekki í lok orðs, til dæmis í lipurð, fegurð.

Fyrst fór að bera á u-innskoti í lok 13. aldar en framburður mun hafa verið á reiki fram eftir 14. öld, ef til vill til loka hennar. Ýmist er ritað ‘-r’ eða ‘-ur’ allt fram á miðja 16. öld en eftir það er almennt ritað ‘-ur’. (Sjá Jón Þorkelsson 1874).

Ljóst er að þörf hefur verið fyrir innskots- eða stoðhljóð af þessu tagi í norræn mál því að hið sama gerðist í öllum frændmálunum. Í færeysku var skotið inn ‘u’ eins og í íslensku, í vesturnorsku einnig, en ‘e’, ‘æ’ eða ‘a’ í austurnorsku, sænsku og dönsku. Í meginlandsmálunum kom stoðhljóðið líka oft á milli samhljóðs og ‘l’ eða ‘n’ í enda orðs (sbr. sæ. hagel og vapen, ísl. hagl og vopn). Þótt orð sem áður höfðu talist einkvæð yrðu tvíkvæð, og tvíkvæð orð þríkvæð og svo framvegis eftir u-innskotið, breytti það líklega litlu, bæði fyrir framburð og bragreglur, því að sennilegt er að ‘r’ í orðum eins og gestr hafi hljómað nokkuð líkt og sérstakt atkvæði, verið atkvæðisbært. Sú ending sem nú varð til, -ur, var ekki alveg ný, því að hana höfðu þá þegar kvenkynsnafnorð í fleirtölu (stúlkur) og þgf. og ef. sumra orða (bróður, föður, systur, móður).

10. Samhljóðakerfið

Breytingar á samhljóðum frá elsta máli eru allmargar en þó fæstar jafnáberandi og breytingar þær sem urðu á sérhljóðum. Fáar eða engar eru kerfisbreytingar heldur eru þær bundnar við hljóðfræðilegt umhverfi, þ.e. stöðu innan orðs. Flestar og stórtækastar urðu samhljóðabreytingarnar á 14. og 15. öld, að því er menn telja.

10.1 Lokhljóð

Í fornu máli voru samhljóð flest lík því sem nú er. Þó er ekki víst að munur á ‘p’, ‘t’, ‘k’ og ‘b’, ‘d’, ‘g’ hafi verið sama eðlis og nú. Er stundum talið að fyrr töldu hljóðin hafi verið órödduð en hin síðari rödduð (og líkst þá til dæmis sænsku eða frönsku ‘b’, ‘d’ og ‘g’). Í nútímamáli eru öll lokhljóðin órödduð, og er munurinn á þeim sá að þau fyrri eru fráblásin en þau síðari ófráblásin. Hafi það einkum verið röddun sem greindi á milli ‘p’ og ‘b’, ‘t’ og ‘d’, ‘k’ og ‘g’ í fornu máli, þá er hvorki harðmælilinmæli í nútímamáli upprunalegur framburður. Úr þessu verður þó seint skorið svo að öruggt sé.

Talið er að ‘g’ hafi hvergi verið lokhljóð í fornu máli nema fremst í orði (gamall), þegar það var tvöfalt (seggr) og svo á eftir ‘n’ (langr). Annars hafi það verið önghljóð, einnig á undan ‘l’ og ‘n’ þar sem það er nú lokhljóð, til dæmis í ugla og rigna, en þar hafi önghljóð breyst í lokhljóð á 14. og 15. öld (Hreinn Benediktsson 1962:490).

10.2 Framburður ‘v’

Það hljóð sem nú er ritað ‘v’ var í fornu máli í rauninni samhljóðsafbrigði af ‘u’. Í lok orðs og á undan samhljóði var það sem ritað var ‘u’/‘v’ sérhljóð, til dæmis augu og brunnr en á undan sérhljóði var það samhljóðskennt („hálfsérhljóð“) og kringt og líktist því ‘w’ í nútímaensku: suá (= svo), søkkua (= sökkva). Hið sama átti við um ‘u’ í tvíhljóðinu ‘au’ (í fornu máli borið fram líkt og ‘á’ nú).

Ekki er gott að vita hvenær hið kringda hálfsérhljóð varð að ókringdu, tannvaramæltu samhljóði. En víst er að um miðja 18. öld hefur ‘v’ sums staðar á landinu enn verið borið fram eins og í fornu máli. Það kemur fram í frásögn náttúrufræðingsins og skáldsins Eggerts Ólafssonar (1726–1768), sem ræðir á nokkrum stöðum í ritum sínum um mállýskuatriði, en hann segir að sunnanlands og austan beri menn fram ‘úestur’, ‘úor’, ‘úirke’ (þ.e. með kringdu w-hljóði) í stað vestur, vor, virki, og ber þetta saman við jóskan framburð á ‘v’ fremst í orðum. (Sjá Árna Böðvarsson 1951).

10.3 Myndunarstaður ‘r’ að fornu og nýju

Í frumnorrænu var til tvenns konar ‘r’-hljóð, gamalt tungubroddsmælt ‘r’ eins og í nútímamáli, og framgómmælt önghljóð sem óvíst er hvernig hefur hljómað, en hefur ef til vill líkst ‘ð’ eða jafnvel rödduðu ‘s’, enda til orðið úr slíku hljóði í frumgermönsku (Skard 1967:26). Þessi hljóð eru táknuð með ‘r’ og ‘R’ í málfræðibókum. Framgómmælta önghljóðið ‘R’ féll saman við ‘r’ á víkingaöld, ef til vill á 9. öld eða fyrr, og er ekki víst að landnámsmenn hafi greint á milli þessara hljóða. Sem dæmi má taka orðið gastiR í frumnorrænu sem við nokkrar hljóðbreytingar á ef til vill 200 árum varð að gestr í forníslensku (gastiR > gęstiR > gęstR > gestr).

10.4 Vera – vesa

Þegar nútímafólk les íslensk fornrit með samræmdri stafsetningu velta margir fyrir sér orðmyndunum vesa, vas og es sem í nútímamáli eru vera, var og er. Breytingin ‘s’ > ‘r’ í þessum orðum (sagnorð og tilvísunarfornafn) mun varla orðin almenn fyrr en um 1250. Hún gerðist allmiklu fyrr í norsku eða um 1100. Til samanburðar má geta þess að í frændmálum norrænu málanna, þýsku og ensku, varð þessi breyting aðeins í sumum beygingarmyndum, sbr. þý. ich war ‘ég var’, en ich bin gewesen ‘ég hef verið’, og e. we were ‘við vorum’, en I was ‘ég var’.

10.5 Hvarf ‘v’ á undan ‘r’

Meðal eftirtektarverðari hljóðbreytinga sem urðu fyrir aðalbreytingatímann á 14.–15. öld, var hvarf ‘v’ á undan ‘r’ í orðum eins og vrangr, vreka, vríða og svo framvegis, sem urðu að rangr, reka, ríða. Í elsta kveðskap eru bæði dæmi um að ‘v’ hafi enn verið á sínum stað og að það hafi verið horfið. Þessi hljóðbreyting varð líka í færeysku en ekki í öðrum skyldum málum eins og sjá má á norsku og dönsku orðunum vrang, sænsku vrång, dönsku vrage, sænsku vräka, dönsku vride, sænsku vrida. Í ensku eru orð sem áður höfðu ‘vr’ nú borin fram án þess, þótt stafsetningin haldi því enn (‘wr’), til dæmis wrong og write. Fleiri dæmi má finna um hljóðbreytingar sem gengu með ólíkum hætti yfir skyld tungumál.

10.6 ‘fn/fl’ inni í orði

Í nútímamáli er ‘fn’ borið fram sem ‘bn’ (höfn, safn). Það var í fornu máli borið fram ‘vn’, og hefur so. hafna þannig hljómað eins og ‘havna’ en ekki ‘habna’ eins og nú. Hið sama á við um ‘fl’ (afl) sem hefur verið borið fram ‘vl’ en ekki ‘bl’ eins og nú. Breytingin úr önghljóði í lokhljóð hefur orðið á 14.–16. öld. Til eru dæmi um ritháttinn sopna og Fabni fyrir sofna og Fáfni í handritum frá seinni hluta 14. aldar en dæmi um bl fyrir fl eru yngri (Jakob Jóh. Smári 1923:10, Björn K. Þórólfsson 1925:xxvii, Ásgeir Bl. Magnússon 1981:35).

10.7 Lokhljóð í enda orðs

Um eða upp úr 1300 hafa ‘k’ og ‘t’ í enda orðs í áherslulitlu atkvæði eða í áherslulitlum smáorðum verið orðin að ‘g’ og ‘ð’: ek, mik, sik, ok, þat, hvat, at og fleiri, og endingarnar -at, -it (til dæmis lofat, mikit) fengu þá þann framburð sem enn tíðkast: eg (nú ég), mig, sig, og, það, hvað, , lofað, mikið. (Sjá til dæmis Hrein Benediktsson 1962:491). Þetta má sjá í ritum frá þessum tíma, til dæmis í bréfum af ýmsu tagi, en til eru dæmi um þessa breytingu allt frá byrjun 13. aldar, til dæmis kastað í stað kastat (Konungsbók Eddukvæða, frá lokum 13. aldar) og mjǫg í stað mjǫk (sbr. Larsson 1891:230). Forskeytið að- var í fornu máli at-, og eru enn allmörg orð til með þeirri mynd varðveittri, til dæmis athygli, athöfn, atyrða, en sum orð hafa breyst, svo sem athlátr í fornu máli sem nú er aðhlátur.

10.8 ‘rr’ > ‘r’ og ‘ss’ > ‘s’ í enda orðs

Endingin ‘-R’ (oftast nf. kk. nafnorða og lýsingarorða) rann mjög snemma saman við lokasamhljóð stofns ef það var ‘l’, ‘n’, ‘r’ eða ‘s’, einkum ef stofnsérhljóð orðsins var langt. Þannig urðu orð sem á einhverju gömlu stigi norrænnar tungu hafa verið stól-R, bein-R, stór-R, ís-R o.s.frv. að stóll, beinn, stórr og íss í vesturnorrænu. Sumir telja þetta hafa gerst á fyrri hluta 9. aldar eða enn fyrr (sbr. Brøndum-Nielsen 1932:46).

Á 14.–15. öld styttust löng ‘r’ og ‘s’ sem myndast höfðu á þennan hátt. Orð eins og herr, bjórr, hamarr, stórr urðu þá her, bjór, hamar, stór, og hauss, íss, víss, ljóss urðu haus, ís, vís, ljós o.s.frv. Breytingin virðist hafa gerst fyrr á eftir löngum sérhljóðum en stuttum.

Styttingin náði einnig til margra, e.t.v. flestra, orða með löngu ‘r’ sem ekki hafði þennan uppruna, t.d. barr og kjarr. Langt ‘s’ styttist hins vegar alls ekki ef það tilheyrði stofni orðsins, t.d. í sess, hross, viss o.fl.

Í fáeinum orðum hefur langt ‘r’ komið aftur, t.d. í kjarr og barr, fyrir áhrif frá þgf. kjarri, barri (sbr. Hrein Benediktsson 1959a:58–59). Nokkur dæmi eru um að ritað sé og borið fram ‘rr’ nú á dögum, líklega vegna áhrifa frá stafsetningunni, t.d. í orðunum fyrr, kyrr (kjurr), verr og þurr. Margir bera þessi orð þó fram með löngu sérhljóði og stuttu samhljóði (þur, ver). Sum mannanöfn eru enn fremur stundum rituð með -rr nú, til dæmis Steinarr, en þá mun oftast litið svo á að seinna r-ið sé ekki beygingarending og því ritað -rr einnig í þolfalli, og jafnvel í öðrum föllum. Í vissum orðum þar sem nú er ritað -rr-, svo sem í færri, skárri, smærri, stærri, þeirri, þeirra, var í fornu máli hins vegar stutt hljóð, færi, skári og svo framvegis.

10.9 ‘rn’, ‘rl’, ‘nn’ og ‘ll’

Á 14. öld taka að sjást dæmi um breytinguna ‘rn’, ‘rl’ > ‘dn’, ‘dl’. Má m.a. ráða það af svokölluðum öfugum ritháttum eins og Orný (1340) í stað Oddný í ritum frá þessum tíma (sbr. Stefán Karlsson 1989:16). Þá hafa ‘rn’ og ‘dn’ verið fallin saman í framburði og skrifaranum ekki verið ljóst hvenær ætti að skrifa rn og hvenær dn. Í nútímamáli er ‘rn’ og ‘rl’ oft borið fram sem ‘rdn’, ‘rdl’, en ekki er talið að sá framburður sé gamall heldur hafi hann komið upp á síðari tímum, ef til vill fyrir áhrif frá ritmáli.

Leifar af fornum ‘rn’- og ‘rl’-framburði hefur til skamms tíma mátt finna í Skaftafellssýslum en hann má heita útdauður nú.

Á 14. öld breyttist einnig langt ‘l’ (‘ll’) og ‘n’ (‘nn’) í ‘dl’ og ‘dn’. Hið fyrra gerðist alls staðar og án tillits til eiginleika nærliggjandi hljóða, t.d. í orðunum falla, ellefu, stilla, kjóll, fúll, og einnig í flestum tökuorðum, t.d. fíll, kjallari og pell. Þó er líklegt að langt ‘l’ hafi alltaf verið til í gælunöfnum, eins og Elli (Erlingur, Elliði o.fl.). Á síðari tímum hefur langt ‘l’ orðið algengt á ný með tökuorðum, svo sem núll (18. öld), gella, mylla, pallíetta, rúlla (19. öld).

Síðari breytingin, ‘nn’ > ‘dn’, varð aðeins á eftir breiðum sérhljóðum, þ.e. gömlum löngum sérhljóðum og tvíhljóðum, fránn, einn, brúnn, grænn, daunn o.s.frv., einnig í gömlum og ungum tökuorðum eins og klénn, fínn, tónn, spúnn. Á eftir grönnum sérhljóðum var ‘nn’ áfram borið fram sem langt ‘n’: hann, enn, minn, hlunn, fönn. Langt ‘n’ hélst þó á eftir ‘á’, ‘ó’, ‘ey’, ‘ú’ og svo framvegis þegar það tilheyrði greininum: ánni, eldstónni, eynni, kúnni (þgf.), tánna (ef. ft.). Annars hefur langt ‘n’ ekki verið haft á eftir breiðum sérhljóðum fyrr en með nýlegum tökuorðum eins og kúnni (úr dö. kunde). Á síðustu árum hefur þó borið á framburði með löngu ‘n’ í orðmyndunum ána, tána, brúna, lóna o.s.frv. (þf. af orðunum á, , brú, með greini); kann að vera að það sé fyrir áhrif frá þágufallinu ánni, tánni og svo framvegis.

10.10 Herðing á ‘ð’ – og mismunandi ‘l’-hljóðön

Seint á 14. öld hættu Íslendingar alveg að nota bókstafinn ‘ð’ og tóku ekki að skrifa hann aftur fyrr en eftir 1800. Í meira en 400 ár notuðust menn því við táknið d fyrir bæði önghljóðið [ð] og lokhljóðið [t]. Af þessum sökum er erfitt að segja nokkuð með vissu um breytingar á framburði ‘ð’ eftir miðja 14. öld.

Vitað er að á fyrri hluta 14. aldar breyttist ‘ð’ í ‘d’ á eftir ýmsum hljóðum, einkum í stuttu atkvæði. Þetta var í raun framhald á ævagamalli breytingu sem dæmi eru um úr fornum kveðskap, en hún var í elsta máli bundin við löng atkvæði og þá einkum á eftir löngum sérhljóðum, til dæmis hvílð sem varð að hvíld.

Sú breyting sem varð á fyrri hluta 14. aldar varð hins vegar á eftir stuttum sérhljóðum. Nú urðu þátíðarmyndir eins og talði, vanði, skelfði, kembði, fylgðitaldi, vandi, skelfdi, kembdi og fylgdi, eins og er í nútímamáli. Hið sama gerðist í nafnorðum eins og kulði, stulðr, synð og ynði sem nú urðu kuldi, stuldr, synd og yndi.

Orðmyndir með gömlu og nýju ‘nd’, sem áður hafði mátt greina á milli, hljómuðu nú eins, til dæmis nafnorðið vandi og sagnmyndin vandi (eldra vanði, af venja). Slíkt átti hins vegar ekki við um orð með gömlu og nýju ‘ld’, þótt þau væru nú rituð á sama hátt, t.d. þgf. skildi (af skjöldr) og þt. skildi (eldra skilði, af skilja). Ástæðan er sú að ‘l’ hafði haft allt annan hljóm í gömlu ‘ld’ en í gömlu ‘lð’, og svo var áfram eftir breytinguna ‘ð’ > ‘d’. Munurinn var svo mikill að skáld létu yfirleitt ekki ríma saman orð með gömlu og nýju ‘ld’. Frá miðri 14. öld hafa því verið tvö mismunandi l-hljóðön í íslensku. Orðum með gömlu og nýju ‘ld’ var haldið aðgreindum allt fram á 17. öld, gjarnan með því að gamalt ‘ld’ var skrifað ‘lld’ en nýtt var skrifað ‘ld’. (Sjá Jakob Benediktsson 1960:32; sbr. Noreen 1970:174–1755; Hreinn Benediktsson 1964:54–55; Baldur Jónsson 1982).

Önnur breyting sem tengist hljóðinu ‘ð’ er einnig talin hafa hafist um eða nokkru fyrir 1400 (Ásgeir Bl. Magnússon 1959:20). Það er herðing á ‘ð’ á eftir ‘r’, ‘f’ og ‘g’, framburður sem til var á Vestfjörðum fram á 20. öld og er venjulega nefndur rd-framburður eftir þeim þætti hans sem var mest áberandi. Þá voru orð eins og harður, hafði og sagði borin fram með ‘d’, ‘hardur’, ‘hafdi’, ‘sagdi’.

10.11 Herðing á ‘f’ á eftir ‘l’ og ‘r’

Talið er að um 1400 eða jafnvel fyrr hafi ‘lf’ og ‘rf’ orðið að ‘lb’ og ‘rb’ sums staðar á landinu, þannig að orð eins og hálfr og orf voru borin fram ‘hálbr’ og ‘orb’. Sú breyting gekk síðar til baka, en þó eru dæmi um þennan framburð allt fram á 19. öld. Í útgáfu sinni á Eyrbyggja sögu árið 1864 nefnir Guðbrandur Vigfússon (1827–1889) þennan framburð og segist muna eftir manni fæddum 1762 sem sagði ‘hálbur’, ‘álbur’, ‘kálbur’, ‘sjálbur’, ‘úlbur’, ‘silbur’, ‘kólbur’, ‘tólb’, og enn fremur að við Breiðafjörð megi enn heyra menn segja ‘þörb’ og ‘þarbt’ fyrir þörf og þarft. Þetta var allútbreidd breyting á 15., 16. og fram á 17. öld, og virðist hafa verið bundin við norðanvert Vesturland og vestanvert Norðurland, frá Borgarfirði og norður í Svarfaðardal en hörfaði svo og dó að mestu út, hélst lengst á Vestfjörðum, fram yfir síðustu aldamót (Jóhannes L. L. Jóhannesson 1924:24; Björn K. Þórólfsson 1925:xxvi; Stefán Karlsson 1989:15; Jón Helgason 1955:x).

10.12 Herðing á ‘f’ og ‘g’ á undan ‘l’ og ‘n’

Nokkru fyrir 1400 hófst herðing á önghljóðunum ‘f’ og ‘g’ (mjúku g, [ɣ]) í ‘b’ og ‘g’ á undan ‘l’ og ‘n’. Þá fengu til dæmis efla, efna, sigla og signa þann framburð sem þau hafa enn, en áður höfðu þau verið borin fram með önghljóðum, þ.e. líkt og ‘evla’, ‘evna’, ‘siɣla’ og ‘siɣna’. Þessi breyting var komin um allt land um 1600 (Jóhannes L. L. Jóhannesson 1924:110–112; Björn K. Þórólfsson 1925:xxvi–xxvii).

10.13 Mýking á ‘p’ á undan ‘t’

Á undan ‘t’ breyttist ‘p’ í ‘f’ á 14. öld. Eftir það eru orðmyndir eins og sleppti og keypti bornar fram með ‘f’. Það kemur þó ekki fram í stafsetningu nútímamáls.

10.14 ‘kn’ verður ‘hn’ í upphafi orðs

Í upphafi orðs breyttist ‘kn’ víða í ‘hn’, og mun það, eins og margar aðrar breytingar, hafa gerst á 14. öld (Hreinn Benediktsson 1962:491). Þannig varð knéhné, knífurhnífur og sögnin að kneppahneppa, en í mörgum orðum hélst ‘kn’ þó óbreytt, til dæmis í knár, kneyfa, knörr, eða til urðu tvær myndir sama orðs, til dæmis knöttur og hnöttur, knútur og hnútur, en þá er yfirleitt nokkur blæmunur eða jafnvel merkingarmunur á orðmyndunum. Í nágrannamálunum er ‘k’ víðast enn í orðum af sama uppruna, til dæmis knæ og knä í dönsku og sænsku.

10.15 ‘pn’ > ‘kn’

Þessi breyting þekkist í öllum norrænum málum en er alls staðar sjaldgæf. Mest var um hana í fornsænsku en hún þekkist í forndönsku og í norskum mállýskum og færeysku. Til dæmis heitir sérstök tegund af hvalskurðarhníf vákn á færeysku. Dæmi eru til í ísl. fornmáli um vokn fyrir eldra (og yngra) vopn og í handriti frá því um 1600 koma fyrir dæmin Eyvindr vokni og Voknafjörðr. Jón Sigurðsson forseti (1811–1879) skrifaði athugasemd við þennan stað í handritinu og virðist hafa þekkt þennan framburð. Björn M. Ólsen, fyrsti rektor Háskóla Íslands, skrifaði norrænufræðingnum þýska, Konrad Maurer, árið 1887 að hann hefði heyrt fólk í Suður-Múlasýslu og í Austur-Skaftafellssýslu kalla Vopnafjörð ‘Voknafjörð’. Ef til vill hefur þessi framburður í íslensku verið bundinn við orðin vopn og Vopnafjörður en um það er erfitt að segja. (Sjá Naert 1946:132 og áfram, Maurer 1888).

10.16 ‘n’ eða ‘nn’ í áherslulitlu atkvæði

Margir Íslendingar eiga nú á dögum erfitt með að finna hvenær rita á ‘n’ og hvenær ‘nn’ í áherslulitlu atkvæði, til dæmis farinn, góðan og svo framvegis. Er það engin furða því að þegar á 14. öld var munur á þessu tvennu orðinn lítill. Þó var enn greint vel á milli langs og stutts ‘n’ í Nýja testamentinu frá 1540 en rugling er hins vegar að finna í Guðbrandsbiblíu frá 1584. Munur á löngu og stuttu ‘n’ í áhersluleysi hélst líklega lengst á Vesturlandi, sums staðar til um 1700 eða lengur. Fræðimaðurinn Jón Ólafsson úr Grunnavík (1705–1779) segir í einu rita sinna að um miðja 18. öld megi enn heyra þennan mun í máli manna frá Snæfellsnesi og Vestfjörðum. (Jón Helgason 1970).

10.17 Aðblástur

Í íslensku og fáeinum öðrum tungumálum er til fyrirbæri sem nefnt er aðblástur. Í íslensku lýsir aðblástur sér í því að löng ‘p’, ‘t’ og ‘k’ verða að ‘hp’, ‘ht’ og ‘hk’ í framburði. Þetta á bæði við um hljóð sem upphaflega voru löng, í orðum eins og uppi, köttur, lokkur, og lengd lokhljóð sem til verða við beygingu eða orðmyndun (t.d. í hk. heitt < heit+t). Enn fremur verður aðblástur á undan samhljóðaklösum sem myndast úr ‘p’, ‘t’ eða ‘k’ og einhverju hljóðanna ‘l’, ‘m’ eða ‘n’, t.d. epli, vatn, vakna, drakma (grískt myntheiti). Má telja að í þessum samhljóðaklösum lengist ‘p’, ‘t’, ‘k’ og breytist þá um leið í ‘hp’, ‘ht’ og ‘hk’ eins og upphaflega löng lokhljóð og að hér sé því um sama fyrirbærið að ræða. Framburð langra lokhljóða af þessu tagi, eins og hann var upphaflega í íslensku, má t.d. heyra í sænsku nútímamáli, þar sem langt ‘pp’, ‘tt’ og ‘kk’ hljómar í eyrum Íslendinga ekki ósvipað löngu ‘b’, ‘t’ og ‘k’ í íslensku, og ‘pl’, ‘tn’ o.s.frv. sem ‘bbl’, ‘ddn’ o.s.frv.

Aðblástur sem orðið hefur til úr löngum lokhljóðum er m.a. að finna í færeysku, í nokkrum norskum og sænskum mállýskum, í samísku og í nokkrum skosk-gelískum mállýskum á Suðureyjum og í Skotlandi.

Ekki er vitað um aldur aðblásturs í íslensku og erfitt eða ógerlegt mun vera að komast að því, enda sjást hvergi merki um hann í rituðu máli.

10.18 ‘hv’ verður ‘kv’

Um nær allt land hefur ‘hv’ breyst í ‘kv’ í framburði. Þó er enn allmikið um fornan framburð, svokallaðan hv-framburð, á Suðurlandi, einkum í Rangárvallasýslu og Skaftafellssýslum. Sá framburður er þó á undanhaldi. Dæmi um að skrifað sé ‘kv’ fyrir eldra ‘hv’ er að finna frá 18. öld, en miklu eldri er þessi framburður varla. Breyting þessi hefur líka orðið í færeysku og að nokkru leyti í norsku.

10.19 Guð

Á 16. öld eða fyrr hófst hljóðbreyting á Norðvesturlandi sem fólst í eins konar tvíhljóðun eða innskoti ‘v’ (‘w’) á milli ‘k’ eða ‘g’ og ‘u’ eða ‘o’. Frá 16.–17. öld eru dæmi um rithætti eins og kvostur, kvosta, kvok, kvusk, gvuð og gvugna fyrir orðin kostur, kosta, kok, kusk, guð og guggna og eru þau flest úr Húnavatns- og Skagafjarðarsýslum.

Staðfest dæmi um þessa hljóðbreytingu eru fremur fá og takmörkuð, og sennilega hefur hún ekki náð mikið út fyrir vestanvert Norðurland. Hún gekk til baka alls staðar nema í orðinu guð og orðum sem dregin eru af því: guð, guðhræddur o.s.frv., Guðrún, Guðbjörg, Guðmundur, guða og sá framburður breiddist út um allt land. Breytingin varð ekki í nafninu Guttormur, líklega vegna þess að tengslin við orðið guð voru ekki lengur ljós þegar hljóðbreytingin var á ferðinni. Hið sama kann að eiga við um orðið gustuk < guðs þökk. Gælunöfnin Gubbi (Guðbrandur), Gudda, Gummi og Gunna hljóta að vera eldri en framburðurinn ‘gvuð-’, og jafnframt eldri en gælunöfnin Gvendur og Gvöndur sem bera merki um breytinguna; þau eru nokkuð algeng í ritum frá 17. öld og hafa líklega verið þekkt frá því um miðja 16. öld.

Ekki er unnt að sjá hvers vegna breyting þessi gekk til baka en framburðurinn ‘gvuð-’ kann að hafa lifað vegna þess hversu algengt orðið er. (Sjá Jón Helgason 1929).

11. Beygingakerfið

Nútímafólk getur enn lesið Íslendingasögur og aðrar fornar bókmenntir okkar vegna þess að beygingakerfi íslenskunnar hefur breyst mjög lítið frá fornu máli, mun minna en hljóðkerfið. Enn beygjast nafnorð, lýsingarorð, fornöfn og meira að segja töluorðin 1 til 4 í fjórum föllum í íslensku, þrjú kyn eru í lýsingarorðum, flestum fornöfnum og áðurnefndum töluorðum, og flókin persónubeyging í sagnorðum. Allt er þetta svo til óbreytt frá fornu máli. Í flestum nágrannamálum okkar hefur orðið mikil einföldun í beygingakerfinu. Föllin eru aðeins tvö, nefnifall og eignarfall, kynin oft bara tvö og beyging sagna mjög einfölduð.

Þegar nánar er að gáð sést þó að æðimargt er öðruvísi í nútímamáli en að fornu. Hér á eftir verða taldar ýmsar helstu breytingarnar frá fornu máli. Ýmsum smærri breytingum verður þó sleppt.

11.1 Breytingar í nafnorðabeygingu

Grundvöllur nafnorðabeygingar er hinn sami og í fornu máli. Nafnorð beygjast eftir sterkri beygingu eða veikri beygingu, beygingarendingar eru þær sömu og föllin fjögur eins og áður. Hins vegar hefur verið talsvert um flakk á milli beygingarflokka, þótt ekki beri mikið á því við fyrstu sýn. Þetta flakk hefur valdið því að nafnorð eru venjulega flokkuð á annan hátt í nútímamáli en í fornu máli.

11.1.1 Beyging sterkra karlkynsorða

Ýmis sterk karlkynsorð af a-stofni hafa tekið upp beygingu i-stofna í nefnifalli og þolfalli fleirtölu. Helst hefur það gerst í stuttstofna orðum, það er þegar rótaratkvæði er myndað af stuttu sérhljóði og stuttu samhljóði. Þannig eru orðin dalur, refur, smiður o.fl. ekki lengur dalardala, refarrefa, smiðarsmiða í nefnifalli og þolfalli fleirtölu, heldur dalirdali, refirrefi og smiðirsmiði. Við þetta hafa stundum komið upp tvímyndir af orðum.

Fáein karlkynsorð tilheyrðu ja-stofnum, en þau eru nú öll horfin yfir til i-stofnanna nema orðið niður sem enn er niðjarniðja í nf. og þf. fleirtölu; í eintölu er það reyndar oftast beygt veikt, niðjiniðja. Önnur orð sem áður tilheyrðu þessum flokki eru til dæmis vængur og beður, sem í fornu máli voru vængjar og beðjar í nf. ft.

11.1.2 Ker og ber

Hvorugkynsorð af ja-stofni beygjast í nútímamáli flest eins og í fornu máli.

Beyging ja-stofna í hvorugkyni.

Helsta einkenni þeirra er ‘j’ í þágufalli og eignarfalli fleirtölu. Þó er net oft haft án ‘j’ í þessum föllum (á netum, netafiskur) og ef til vill einnig rif og fleiri. Líklega er þessi einföldun fremur nýlegt fyrirbæri og ekki hefur komist hefð á hana. Þess vegna er oft litið á j-lausar myndir sem ranga beygingu. Í nútímamáli er nokkur óvissa um beygingu tveggja algengra orða, gler og ker. Þau töldust til a-stofna í fornu máli, og voru því j-laus. Nú fá þau oft ‘j’ í þágufalli og eignarfalli, glerja og kerja, en heldur hefur verið lagst gegn þeirri beygingu.

11.1.3 Læknar og læknirar

Orðin hellir, hirðir, læknir o.fl. tilheyra ia-stofnum. Á 15.–17. öld breyttist beyging þeirra nokkuð. Endingin ‘-r’ komst þá inn í alla beyginguna en hafði áður einungis verið í nefnifalli eintölu, hellir. Þetta gerðist fyrst í eintölunni og komu þá upp beygingarmyndir eins og helliR í þolfalli og þágufalli og helliRs í eignarfalli. Upp úr 1600 fer að bera á fleirtölumyndum eins og hellIRar í nefnifalli. Um 1800 enduðu orð af þessu tagi á ‘ir-’ í öllum föllum: hirðIRs, hellIRar, læknIRa og svo framvegis Síðar hefur gamla beygingin verið tekin upp á ný og kennd í skólum og hefur hún að nokkru leyti útrýmt nýju beygingunni, a.m.k. í fleirtölu. (Sjá Kjartan Ottósson 1987:314).

11.1.4 ‘v’ hverfur – en birtist stundum aftur

Í beygingu nafnorða voru til undirflokkar sem einkenndust af því að ‘v’ var skotið inn í beyginguna hér og þar. Í frumnorrænu voru orð í þessum flokkum mynduð með afleiðsluviðskeytunum -wa (sterk kk.- og hk.-orð), -wō (sterk kvk.-orð), -wan (veik kk.-orð) og -wōn (veik kvk.-orð). Þetta forna ‘v’ olli u-hljóðvarpi í allri beygingu þessara orða, t.d. söngr < *sangw-, týr < *tīw-, möskvi < *maskwan-, ör < *arhwō.

Í forníslensku var föst regla um það hvar ‘v’ kæmi fram í beygingunni: Á undan ‘a’ og ‘i’ í endingum en ekki á undan ‘u’ né samhljóði eða í lok orðs:

  1. kk.:
    wa-stofnar (sjá): söngr, söng, söngVi, söngs / söngVar, söngVa, söngum, söngVa;
    wan-stofnar (sjá): vöðVi, vöðVa, vöðVa, vöðVa / vöðVar, vöðVa, vöðum, vöðVa;
  2. hk.:
    wa-stofnar (sjá): högg, högg, höggVi, höggs / högg, högg, höggum, höggVa;
  3. kvk.:
    wō-stofnar (sjá): stöð, stöð, stöð, stöðVar / stöðVar, stöðVar, stöðum, stöðVa;
    wōn-stofnar (sjá): völVa, völu, völu, völu / völur, völur, völum, *völVa (engin dæmi
    um ef. ft. wōn-stofna orða eru varðveitt
    úr fornu máli)

Þessi regla er ekki lengur virk og kemur ‘v’ nú fyrir í sumum beygingarmyndum þar sem það átti heima en ekki öðrum, en hefur einnig smeygt sér á nýjum stöðum inn í beygingu sumra orða.

Fáein karlkynsorð tilheyrðu wa-stofnum. Þeirra helst eru söngur, sjór og snjór. Þau sem enn eru notuð í nútímamáli hafa sum hver haldið v-i sínu í einstökum beygingarmyndum, svo sem nf. ft. söngvar, ef. et. sjávar, nf. ft. spörvar, en önnur hafa misst það alveg. T.d. er ‘v’ horfið úr beygingu orðanna snjór, mör, Sigtryggur og Týr og að mestu úr sjór. Þágufall eintölu orðsins söngur er nú söng eða söngi en hins vegar hefur ‘v’ komist inn í þágufall fleirtölunnar, söngvum, en þar átti það alls ekki heima í fornu máli. Og til eru dæmi um að ‘v’ hafi troðið sér inn víðar: Orðið már er sjaldan notað lengur (nema sem mannsnafn, og þá án ‘v’), en hliðarmyndin mávur er komin þess í stað, með ‘v’ í öllum beygingarmyndum.

Hvorugkynsorð sem tilheyrðu wa-stofnum voru ekki mörg. Þau helstu voru böl, fjör, fræ, hræ, högg, kjöt, lyng, mjöl, smjör og öl. Hér hefur ‘v’ horfið með öllu úr beygingunni og eru orðin nú flest nauðalík a-stofna orðum eins og barn og hús. Víða má rekast á ‘v’ í afleiddum eða skyldum orðum, eins og sögnunum höggva og bölva, nafnorðunum fræva, mjölvi og smjörvi og lýsingarorðinu ölvaður.

Kvenkynsorð sem tilheyrðu wō-stofnum (sjá) voru örfá. Helst eru dögg, lögg, rögg, stöð, þröng og ör. Af þeim beygjast stöð og ör að mestu eins og í fornu máli (hafa þó bætt við sig ‘v’ í þágufalli fleirtölu) en hin hafa tekið upp beygingu i-stofna, losað sig við ‘v’, og dögg og lögg hafa stofnsérhljóðið ‘a’ í fleirtölu nema á undan ‘u’:

nútímamál
dögg, dögg, dögg, daggar
daggir, daggir, döggum, dagga

fornmál
dögg, dögg, dögg, döggVar
döggVar, döggVar, döggum, döggVa.

Orðin þröng og rögg eru nú sjaldséð og varla til nema í eintölu (þröng á þingi, taka á sig rögg). Eins og hjá karlkynsorðunum má víða finna ‘v’ í skyldum orðum, t.d. sögnunum stöðva og þröngva og lýsingarorðinu döggvaður.

Í veikri beygingu voru sérstakir w-flokkar, wan-stofnar innan karlkynsorða og wōn-stofnar (sjá) innan kvenkynsorða. Karlkynsorðin hafa flest haldið beygingu sinni sæmilega. Reyndar hafa þau bætt við sig ‘v’ á undan beygingarendingum sem hefjast á ‘u’. Sem dæmi má nefna orðin möskvi, nökkvi og vöðvi; þau hafa öll fengið ‘v’ í þágufalli fleirtölu í nútímamáli: möskVum og svo framvegis. Hliðstæð víxl má finna innan annarra beygingarflokka.

Varðveitt kvenkynsorð af wōn-stofni (sjá) eru mjög fá, þeirra helst eru völva og Röskva. Nýyrðið tölva er myndað með hliðsjón af orðinu völva og má því segja að það tilheyri þessum flokki þótt ekki sé það fornt orð. Þessi orð hafa nú ‘v’ í öllum föllum eintölu og fleirtölu.

Hrein ōn-orð (sjá) (fluga, saga, vika o.fl.) hafa alltaf verið mun fleiri en wōn-orðin, og ōn-orð sem hafa aukafallsmyndir með ‘ö’ hafa ætíð stofnsérhljóðið ‘a’ í nefnifalli (t.d. kaka, saga, stjarna). Fyrir áhrif frá slíkum orðum, svo og v-lausum myndum í aukaföllum w&33;n-orðanna sjálfra (völu o.s.frv.), fengu ýmis gömul wōn-orð nýja v-lausa nefnifallsmynd með ‘a’ og færðust þar með yfir í hóp hreinna ōn-orða. Þetta gerðist oft löngu fyrir ritöld, t.d. í orðunum gata (< *götva < *gatwōn), svala (< *svölva < *swalwōn) og tjara (< *tjörva < terwōn). Yngri eru orðmyndirnar slanga (þráður í vefstól; valslanga (vopn)) og vala (spákona, 17. öld), myndaðar á sama hátt af slöngva og völva. Áhrifsbreyting af þessu tagi er stundum sýnd með eftirfarandi jöfnu:

sögu : saga = tjöru : X

Orðmyndin X er þá mynduð með hliðsjón af þekktu og algengu mynstri. Reglan um hvar ‘v’ á heima í beygingu wōn-stofna er ekki virk lengur, en svo áhrifarík og sterk er hins vegar reglan um víxl á milli ‘ö’ og ‘a’ í aukaföllum og nefnifalli orða af þessu tagi að enn eru að koma upp tvímyndir, nefnifallsmyndir með ‘a’ í stað eldra ‘ö’. Má þar bæði nefna orðin valva (18. öld) og talva (s.hl. 20. aldar).

11.1.5 Þágufall ýmissa karlkynsorða: ‘-i’ eða ekki ‘-i’?

Í nútímamáli ríkir talsverð óvissa um endingu ýmissa sterkra karlkynsorða í þágufalli eintölu, það er hvort þar skuli vera ‘-i’ eða ekki. Í fornu máli enduðu a-stofna orð flest á ‘-i’ (armi, dali, báti og svo framvegis) en i-stofna orð voru endingarlaus (gest, vegg, mat og svo framvegis). Nú á dögum er ekki hægt, svo öruggt sé, að giska á þágufallsendingu þessara orða út frá því hvaða flokki þau tilheyrðu í fornu máli. Sum a-stofna orð eru nú oftast endingarlaus (til dæmis ís, selur, refur) eða geta verið það (til dæmis stóll), og sum i-stofna orð hafa nú oftast i-endingu (til dæmis brestur, burður, gestur) eða geta haft hana (til dæmis pyttur, sauður).

Á þessari óvissu tók að bera á 12. öld en dæmi eru þó um hana fyrr, til dæmis þgf. Þór sem í elstu varðveittum heimildum var Þóri, til dæmis í kvæðum eftir Braga hinn gamla, norskt skáld frá 9. öld.

Þetta flakk milli beygingarflokka hefur til dæmis orðið til þess að dalur (gamall a-stofn) getur varla verið annað en dal í þágufalli í nútímamáli þótt orðmyndin dali sjáist örsjaldan í bókmenntum.

11.1.6 Kvenkynsorð af ō-stofnum

Kvenkynsorð af hreinum ō-stofnum (sjá) skiptust í einkvæð orð (mön o.s.frv.) og tvíkvæð (kerling o.s.frv.). Þau hinna fyrrnefndu sem höfðu ‘ö’ eða ‘jö’ (ǫ/jǫ) í stofni (t.d. fjöður, gjörð, sök o.m.fl.) hafa tekið upp beygingu i-stofna orða (t.d. norn) í nf. og þf. fleirtölu. Þessi orð enduðu áður á ‘-ar’ í nefnifalli fleirtölu: fjaðrar, gjarðar, sakar, en enda nú öll á ‘-ir’ í nf. ft.: fjaðrir, gjarðir, sakir. Í nútímamáli virðist bera á tilhneigingu í hina áttina, þ.e. að ýmis orð sem enduðu á ‘-ir’ í nefnifalli fleirtölu séu að fá ‘-ar’ endingu: lestir, hurðir, hlíðir, vistir verða þá að lestar, hurðar, hlíðar, vistar. En einnig eru dæmi um að ō-stofna orð séu enn á leiðinni yfir í i-stofna, t.d. ft. af orðinu bifreið, en reið var ō-stofna orð í fornu máli og var þá í nf.ft. reiðar.

Sum orð af þessu tagi beygjast enn eins og áður fyrr, t.d. lifur, nál, veig, kleif, hlið og laug, og halda áfram að enda á ‘-ar’ í nefnifalli og þolfalli fleirtölu. Önnur orð geta ýmist endað á ‘-ar’ eða ‘-ir’ í nútímamáli: geil, rauf, kvísl o.fl.

11.1.7 Heiður og heiði

Á 16. öld fengu ýmis kvenkynsorð sem tilheyra iō-stofnum (sjá) nýja nefnifallsendingu (Björn K. Þórólfsson 1925:81). Orð eins og heiðR og ermR urðu þá heiðI, ermI. Gamla r-endingin í nefnifalli hélst þó í sumum orðum, einkum í sérnöfnum, og var þá skotið inn ‘u’ á undan henni: æður, steypireyður, Auður, Gerður o.fl. Fáein orð úr þessum flokki hafa færst yfir í veika beygingu, til dæmis elfr og gyltr sem nú eru elfa og gylta, nema í sérnöfnum eins og Gautelfur.

11.1.8 Um jörðu, nóttu, kerlingu – og köttu

Í fornu máli höfðu nokkur kvenkynsorð af i-stofni endinguna ‘-u’ í þágufalli eintölu: brautbrautbrautUbrautar. Í nútímamáli eru sum þessara orða ætíð endingarlaus í þágufalli, t.d. röst, borg, skuld, þjóð. Önnur fá stundum þágufallsendingu, einkum í ritmáli eða hátíðlegu máli: jörðU, sólU, moldU, foldU. Í föstum orðasamböndum og kveðskap fá þessa endingu sum orð sem annars eru yfirleitt endingarlaus, t.d. fyrir stundU, með dimmri röddU, „Í grænni lautu …“ (úr þulu í barnaleik), „… í höllu Skúla jarls“ (úr kvæði).

Fyrir kemur að endingin ‘-u’ er höfð í þolfalli í þessum orðum í nútímamáli (senda geimfar á braut um jörðu/sólu, leggja e-n í moldu) en slíkt er einungis til marks um óvissu í nútímamáli um notkun þessarar endingar.

Af öðrum stofni eru orðin grind, mörk, nótt, rönd, strönd, stöng (samhljóðsstofnar), en þau gátu öll endað á ‘-u’ í þágufalli eintölu eins og fyrrnefndu orðin. Í nútímamáli er orðið nótt eitt um þessa endingu í daglegu máli, og getur þó vel verið endingarlaust í þágufalli. Í tungubrjótsþulunni gamalkunnu „Stebbi stóð á ströndu …“ og svo framvegis, er að finna annað dæmi um varðveislu gamallar orðmyndar. Enn fremur tala margir um Danmörku, og hafa þar jafnvel ‘u’ í þolfalli líka.

Orðin kerling, drottning og ýmis önnur kvenkynsorð af flokki ō-stofna (sjá) sem enda á -ing enduðu á ‘-u’ í þágufalli í fornu máli og gera það enn. En ‘-u’ í þolfalli er ekki upprunalegt, það er til komið vegna áhrifsbreytingar á síðari tímum og þykir nú eðlilegt mál.

Orðin köttur, sonur, björn og allmörg fleiri sem tilheyrðu u-stofnum nafnorða höfðu líka ‘-u’ í beygingunni sem nú er horfið. Það var á öðrum stað en í kvenkynsorðunum hér að framan, í þolfalli fleirtölu: kettirköttuköttumkatta. En einnig hér er að finna leifar fornrar beygingar í föstum orðasamböndum eins og leggja fé á vöxtu og stemma stigu fyrir/við.

11.2 Breytingar í sagnorðabeygingu

Langflestar sagnir í íslensku beygjast eftir svokallaðri veikri beygingu (t.d. kalla, leggja, dæma, lifa). Sterkar sagnir (t.d. bíta, bjóða, bresta, bera, koma, fara) eru mun færri. Langflestar sagnir sem voru sterkar í fornu máli eru það enn, en nokkrar hafa þó færst yfir í veika beygingu. Sögnin mala, sem nú beygist eins og tala, hafði t.d. kennimyndirnar malamólmólummalinn og beygðist því eins og fara og grafa, með 1. persónu eintölu ég mel o.s.frv.

Leifar sterkrar beygingar, helst lýsingarhátt þátíðar, er oft að finna í föstum orðasamböndum:

eitthvað er málum BLANDIÐ
telja sig HÓLPINN
málinu er BORGIÐ
árásinni var HRUNDIÐ
verða SNORTINN af e-u

Þessi sagnorð eru nú á dögum annars oftast beygð veikt.

Enn fremur eru lýsingarorð eins og dofinn, galinn, slunginn, sólginn o.fl. upphaflega lh.þt. sterkra sagna sem nú eru annaðhvort horfnar eða beygjast eftir veikri beygingu (*dúfa, gala, slyngva (slyngja), svelg(j)a).

Ýmsar aðrar gamlar sterkar sagnir beygjast nú ýmist eftir veikri eða sterkri beygingu, og fer það stundum eftir stílgildi textans, t.d. hvað varðar sagnirnar snerta, verpa og þiggja. Sumar sterkar sagnir hafa tekið upp eina eða fleiri veikar beygingarmyndir jafnframt sterku myndunum og geta því beygst eftir blandaðri beygingu; má þar nefna flá (lh.þt. fláð eða flegið), skapa (þt. skapaði eða skóp) og þvo (lh.þt. þvoð eða þvegið).

Stundum hafa sterkar sagnir fengið veika beygingu á einhverju skeiði íslenskunnar en gamla beygingin aftur náð yfirhöndinni, eins og á við um sögnina nema sem bæði í fornu máli og nú beygist eftir 4. flokki sterkra sagna en gat í yngri íslensku einnig beygst á líkan hátt og dynja (ja-stofn).

Svolítið er um að sagnir flakki á milli beygingarflokka innan sterkrar beygingar. Dæmi um það eru sagnirnar troða og fela sem teljast til 4. flokks sterkra sagna og beygðust í eldra máli eins og sofa og skera. Kennimyndir þeirra voru troðatraðtráðum (eldra trǫ́ðum) – troðið og felafalfálum (eldra fǫ́lum) – folginn. Nú líkjast þessar sagnir talsvert 6. flokki sagna (eins og standa og fara).

Nokkrar sagnir hafa færst á milli flokka innan veiku beygingarinnar, einkum yfir í hinn fjölskrúðuga flokk ō-stofna (eins og t.d. kalla). Má þar nefna flysja (beygðist eins og flytja), véla (beygðist eins og væla) og spara (beygðist eins og þora).

11.3 Beyging viðtengingarháttar

Í beygingu sagna hafa orðið nokkrar breytingar sem lesendur íslenskra fornrita taka fljótt eftir (beyging veiku sagnarinnar kalla og sterku sagnarinnar nema sýna þetta vel).

  • Breytingar í sagnbeygingu. Þessi tafla sýnir þær breytingar sem orðið hafa frá fornu máli til nútímamáls í beygingu sagnarinnar að kalla í framsöguhætti og viðtengingarhætti. Þau hljóð sem breyst hafa eru rituð með upphafsstöfum í nútímadæminu.

  • Beyging sagnarinnar að nema í fornu máli og nútímamáli. Sérhljóðabreytingar eru til áherslu sýndar með upphafsstöfum.

Þessar breytingar urðu einkum í viðtengingarhætti. Í eintölu nútíðar og þátíðar fékk 1. persóna endingu 3. persónu (‘-a’ varð að ‘-i’), að öðru leyti tók viðtengingarháttur upp endingar framsöguháttar, þar sem þær voru ekki hinar sömu, og kom þá ‘u’ í stað eldra ‘i’. Best er að sýna þessar breytingar með dæmum af setningum eins og þær voru í fornu máli og eins og þær eru nú.

VIÐTENGINGARHÁTTUR, EINTALA:

fornmál:
Ek segi at ek LESA bókina (nútíð)
Ek sagða at ek LÆSA bókina (þátíð)

nútímamál:
Ég segi að ég LESI bókina (nútíð)
Ég sagði að ég LÆSI bókina (þátíð)

VIÐTENGINGARHÁTTUR, FLEIRTALA:
fornmál:
Ek segi at vit LESIM bókina (nútíð)
Ek sagða at vit LÆSIM bókina (þátíð)
Ek sagða at þit LÆSIÐ bókina (þátíð)
Ek sagða at þau LÆSI bókina (þátíð)

nútímamál:
Ég segi að við LESUM bókina (nútíðar)
Ég sagði að við LÆSUM bókina (þátíð)
Ég sagði að þið LÆSUÐ bókina (þátíð)
Ég sagði að þau LÆSU bókina (þátíð)

11.4 Miðmynd sagna

Í nútímamáli eru margar sagnir til bæði sem germyndarsagnir (til dæmis kalla) og miðmyndarsagnir (til dæmis kallast). Miðmyndarsagnir eru upphaflega þannig til komnar, að styttum gerðum af fornafnsbeygingarmyndunum mik og sik var skeytt aftan við sögnina, í 1. persónu eintölu -mk og í öðrum myndum -sk: ek kǫllumk, vit kǫllumsk, þú kallask, þit kallisk, þeir kallask og svo framvegis.

Á 13. öld tók þetta viðskeytta fornafn, -mk og -sk, að breytast í eiginlegt viðskeyti, -st eins og það er í nútímamáli. Þessi breyting tók talsverðan tíma og um sinn hafði 1. persóna miðmyndarsagna sérstaka endingu, -umst, til dæmis ek gerumst, andstætt öðrum beygingarmyndum sem höfðu endinguna -st. Á 14. öld fékk 1. persóna sagna einnig myndina -st, en þó aðeins um tíma (ef til vill vegna norskra áhrifa), því að svo virðist sem endingin -umst hafi aftur orðið alls ráðandi á 15. öld. En í lok hennar tekur aftur að bera meira á endingunni -st og smám saman hvarf hin endingin (-umst) með öllu (Kjartan Ottósson 1992:160–165).

Snemma á 17. öld varð enn ein breyting á endingum miðmyndarsagna, nú í 1. persónu eintölu í nútíð og þátíð. Þar var endingin -umst (eða -unst, í framburði) en til samræmis við beygingu germyndar (sbr. germynd „við komum“) var þá bætt við endingunni ‘-um’ aftan við ‘-st’ og við það varð til dæmis við komumstvið komustum. Á fyrri hluta 19. aldar er þessi beyging orðin svo að segja allsráðandi (Kjartan Ottósson 1992:227) en hefur síðan hörfað vegna baráttu málvöndunarmanna fyrir gömlu endingunni, -umst. Nú á dögum er þessi ending oft helst kennd viðvestfirsku en þó má víst heyra hana um allt land.

11.5 ‘ð’-viðskeyti í viðtengingarhætti þátíðar

Á 19. öld kom upp fremur afmörkuð breyting í beygingu nokkurra sterkra sagna. Hún fólst í því að í viðtengingarhætti þátíðar var skipt á eldra j-hljóði og ‘ð’. Orðmyndirnar dæi, drægi, hlægi, lægi, sæi (framburðarmyndin sjæi) og slægi urðu að dæði, dræði, hlæði, læði, sjæði og slæði. Þetta virðist hafa verið nokkuð algengt á 19. öld og fram á þá 20.; sumt þekkist enn. Breytingin virðist hafa verið bundin við Suður- og Austurland, og hefur varla verið þekkt norðar en syðst í N-Múlasýslu og ekki vestar en í Rangárvallasýslu.

Skylt þessu er tannhljóðsviðskeyti í sögnunum bera, nema og syngja, sem í viðtengingarhætti þátíðar gátu (og geta ef til vill enn) stundum orðið berði, nemdi og syngdi. Dæmin um þetta eru mun eldri en um fyrri breytinguna og benda helst til Norðurlands, ef til vill Norðurlands vestra. (Sjá Janes Oresnik 1971).

11.6 Ekki og ekkert

Á seinni hluta 14. aldar kom upp ný nefnifallsmynd af fornafninu engi, þ.e. sú orðmynd sem er einhöfð í nútímamáli, enginn, kvk. engin. Endingin er líklega til komin fyrir áhrif frá lýsingarorðum sem enda á -inn. Hvorugkynsmynd orðsins engi var ekki og var hún notuð á sama hátt og ekkert í nútímamáli: „Ekki ámæli skal hún af þessu hafa“ (Brennu-Njáls saga, 37. kafli). Í nútímamáli eru til föst orðatiltæki þar sem þessi notkun hefur varðveist: Það kom fyrir ekki ‘það var árangurslaust’. Snemma var jafnframt farið að nota ekki sem atviksorð, á sama hátt og eigi, og eru dæmi um það þegar í eddukvæðunum, t.d. „hlut veld ek mínum / hælumk þó ekki“ (Atlamál in grænlensku 84). Smám saman varð neitunin að meginhlutverki orðsins og kom þá upp þörf fyrir nýja hvorugkynsmynd. Hún varð svo til á 16. öld, fornafnið ekkert, myndað með nokkurt, eitthvert og hvk. lýsingarorða sem fyrirmynd.

11.7 Hvaða?

Nýtt spurnarorð eða spurnarfornafn, hvaða, varð til á 16. öld. Það er myndað úr orðasambandinu hvat at sem fór á undan nafnorði í þágufalli í spurningum (hvat at manni er hann?). Það dróst saman í hvaðað sem síðan styttist í hvaða. Fyrst um sinn stóð hvaða aðeins á undan nafnorðum í þágufalli en um 1600 er farið að nota það á undan hvaða falli sem var.

11.8 Tvítala hverfur í fornöfnum

Í fornu máli var auk eintölu og fleirtölu til svokölluð tvítala í persónufornöfnunum og eignarfornöfnum. Þá var ek og þú, minn og þinn notað þegar átt var við einhvern einn í 1. eða 2. persónu (rétt eins og enn er gert), en vit og þit, okkarr og ykkarr þegar talað var um eða við einhverja tvo. Vit og þit, okkarr og ykkarr, gátu ekki átt við um þrjá eða fleiri, þá voru notuð orðin vér og þér, várr og yð(v)arr. Fjögur þau síðastnefndu voru reyndar frá fornu fari einnig notuð í kurteisis- eða heiðursmerkingu í stað orðanna ek eða vit, þú eða þit, okkarr og ykkarr.

Um eða upp úr 1600 hættu menn smám saman að greina á milli tveggja og fleiri þegar rætt var um þá með persónufornöfnum, og orðin við og þið fengu almenna fleirtölumerkingu en vér og þér einskorðuðust við heiðursmerkinguna. Þessi breyting gerðist þó ekki á svipstundu, fremur en aðrar breytingar í tungumálinu, og er ekki um garð gengin fyrr en á 18. öld. Líklegt er að þessi breyting hafi hafist á Suðurlandi og dreifst þaðan um landið (Helgi Guðmundsson 1972, Hreinn Benediktsson 1964).

Breytingin í eignarfornöfnunum er annars eðlis að því leyti að okkarr, ykkarr og yð(v)arr hurfu algerlega sem sérstök fornöfn á 15. öld en í stað þeirra var farið að nota eignarföll samsvarandi persónufornafna. Áfram voru þó til eignarfornöfnin minn, þinn og vor, svo og sinn, og voru þau notuð áfram eins og verið hafði.

Leifar fornrar tvítölu finnast í nútímamáli í fornöfnunum hvor, annar, báðir, hvorugur, hvor tveggja. Þau eru aðeins notuð þegar rætt er um annan eða báða af tveimur.

11.9 Lýsingarorð

Í ja-/jo-stofnum lýsingarorða (miðrmiðJan, sekrsekJan) féll ‘-j-’ brott í ýmsum föllum allra kynja á 13.–14. öld, nema í orðinu miður sem enn hefur ‘-j-’, miðjan, miðjar og svo framvegis. Við þetta breyttust til dæmis þolfallsmyndirnar fátækJan, frægJan, ríkJan og sekJan í fátækan, frægan, ríkan og sekan eins og þær eru í nútímamáli. Nokkru seinna varð lík breyting í wa-/wō-stofnum (sjá) (fölrfölVan) þar sem ‘-v-’ féll brott á sömu stöðum. Þá urðu beygingarmyndir eins og kvikVan, styggVan og röskVankvikan, styggan og röskan. Bæði ‘j’ og ‘v’ er þó enn víða að finna í skyldum orðum og jafnvel í föstum orðasamböndum þar sem lýsingarorðsmyndir hafa geymst óbreyttar allt til þessa dags eða stirðnað sem atviksorð: að ósekJu (upphaflega þgf. et. hk. af ósekr), snöggVast (ao., upphaflega hk. í efsta stigi af lo. snöggur), ÞykkVibær o.fl. (Sjá til dæmis Hrein Benediktsson 1962:491, Björn K. Þórólfsson 1925:34–35).

Á 16. öld hætti þágufall fleirtölu í veikri beygingu lýsingarorða að hafa sérstaka mynd og varð eins og nefnifall, þolfall og eignarfall: frá hinum spökuM mönnum o.þ.h. varð frá hinum spöku eins og er í nútímamáli. Sams konar breyting varð í miðstigi og efsta stigi, þ.e. frá hinum spökuruM / hinum spökustuM mönnum o.þ.h. varð frá hinum spakari / hinum spökustu mönnum. Þessi breyting varð einnig í veikri beygingu lýsingarháttar nútíðar og þátíðar: frá hinum brott hlaupnuM / hlaupÖnduM mönnum varð að frá hinum brott hlaupnu / hlaupAndI mönnum.

Eiginn var upprunalega lýsingarháttur þátíðar af sögninni eiga og beygðist í fornu máli eins og feginn. Í þgf. eintölu var það til dæmis eignum í kk. og eiginni í kvk. Beyging þess einfaldaðist mikið á síðari hluta 15. aldar og er orðið nú að miklu leyti óbeygjanlegt.

12. Setningagerð

12.1 Nokkur sérkenni í elsta máli

Í eddukvæðum og elstu handritum sem varðveitt eru er að finna ýmis málsérkenni sem voru að mestu eða öllu leyti horfin þegar fyrstu Íslendingasögurnar voru skrifaðar.

Má þar nefna notkun smáorðanna of eða um framan við sagnir (lýsingarhátt), einkum til að tákna að einhverju væri lokið: Ykkur læt eg það gull um gefið verða ‘ég læt gefa ykkur gullið’, við hunang of tuggin ‘tuggin (eða etin) með hunangi’ (Jón Helgason 1962:68, 170, 180–182).

Annað sérkenni er endingin -at sem notuð var sem neitun á sama hátt og ekki nú á dögum. Þessari endingu var skeytt aftan við sagnir (þó ekki nafnhátt) eða við persónufornafn á eftir sögn. Hún styttist oft í -t, einkum á eftir sérhljóði, eða í -a, einkum á undan samhljóði:

baðAT hann hlennimenn flytja, þ.e. „hann bað um að þjófar yrðu ekki fluttir“
skalATtu = skal-at-tu, þ.e. „þú skalt ekki“
sagðiT honum hugr vel = sagði-at …, þ.e. „hugur sagði honum ekki vel“
skalA maðr, þ.e. „maður skal ekki“
sékkA = sé-ek-a, þ.e. „sé ég ekki“

Samtals koma þessi viðskeyti fyrir 250–300 sinnum í eddukvæðunum og eru nær eingöngu bundin við þau og annan kveðskap. Þó eru til dæmi úr óbundnu máli, til dæmis úr Íslensku hómilíubókinni svokölluðu (skinnhandrit nr. 15 4to í Konunglega bókasafninu í Stokkhólmi, frá u.þ.b. 1200): þá verðrA honum gagn at ljósi kenninga.

Loks má nefna samdregnar orðmyndir, til dæmis emK = em ek, þ.e. ‘er ég’, mæltaK = mælta ek, sás = sá es, þ.e. ‘sá er’ og vér rum = vér erum o.fl. Hér er í reynd ritað beint eftir framburði, líkt og þegar skrifað er ertu = ert þú, segirðu = segir þú eða komdu = kom þú í nútímamáli.

12.2 Setningagerð

Breytingar á gerð setninga hafa ekki orðið tiltakanlega miklar frá fornu máli til nútímamáls og eru í reynd sáralitlar ef borið er saman við breytingar á framburði. Þessi íhaldssemi tungunnar í forna setningagerð hefur sitt að segja um það hversu auðvelt það er fyrir nútímafólk að lesa fornar bókmenntir.

Meðal þess sem þó er ólíkt í fornu máli og nútímamáli er það hvernig „eigandi“ er táknaður. Í nútímamáli er gjarnan sagt spjótið hans Gunnars, hesturinn hennar Guðrúnar og svo framvegis, en það var ekki hægt í fornu máli. Þá var yfirleitt ekki notaður viðskeyttur greinir né fornafn í eignarfalli, eins og hér var gert, heldur einfaldlega sagt spjót Gunnars, hestur Guðrúnar og svo framvegis.

Ekki var heldur sagt til dæmis eyrað á Gunnari eða bógurinn á skipinu þegar rætt var um líkamshluta eða aðra hluti sem voru óaðskiljanlegir frá öðrum hlutum, heldur eyra Gunnars, bógur skipsins. Og stundum var þá notað þágufall þar sem nú er notað eignarfall: hvíslaði hann í eyra Gunnari, spjótið kom í bóg skipinu (Kristján Árnason 1983:170–172).

Það sem hér er tekið sem dæmi um forna setningargerð er ekki óþekkt í nútímamáli en er fremur sjaldgæft, og þá helst bundið við formlegt eða upphafið mál.

Sérkennileg breyting átti sér stað í orðasambandinu vera búinn að + sögn. Í fornu máli merkti setningin ég er búinn að fara hið sama og ég er tilbúinn til að fara. Á 17. öld virðist merkingin hafa snúist við og verður eftir það hin sama og er í nútímamáli, það er ég hef farið.

13. Orðaforðinn

Breytingar á orðaforðanum hafa orðið nokkrar, eins og við má búast. Ný orð hafa komið upp við breytingar á atvinnu- og lifnaðarháttum og gömul horfið úr notkun. Sum þeirra eru varðveitt í ritum en enginn vafi er á því að mörg orð hafa horfið án þess að verða nokkurn tíma fest á bók. Tökuorð eru fleiri en margan grunar en þó aðeins brot af þeim fjölda sem borist hefur inn í nágrannamálin.

13.1 Tökuorð í máli landnámsmanna

Orðaforðinn í máli landnámsmanna var að mestu norrænn. Málið var þó ekki með öllu laust við erlend áhrif þótt þau hafi verið lítil miðað við það sem síðar varð. Bæði var þar að finna eldforn tökuorð sem sum hver hafa borist í germönsk mál löngu fyrir landnám Íslands, til dæmis orðin belti, epli, járn, ketill, lín, köttur, sekkur, vín og örk. Mörg eru þessi orð af suðrænum toga, latnesk eða frönsk að uppruna. Tökuorð af þessu tagi eru hins vegar miklu færri í íslensku en öðrum Evrópumálum frá þessum tíma, til dæmis í fornháþýsku.

Fáein keltnesk tökuorð voru tekin upp á elsta tímabili íslenskunnar, til dæmis gjalt. Í Heimskringlu er sagt frá því að „ef Óðinn sendi menn sína til orrustu eða aðrar sendifarar, að hann lagði áður hendur í höfuð þeim og gaf þeim bjannak.“ Bjannak er úr keltnesku (fornírska beannacht, gelíska beannachd), og er þangað komið úr latínu benedictio = blessun.

13.2 Tökuorð í eddukvæðum og dróttkvæðum

Dálítið er af tökuorðum í eddukvæðunum. Sum eru ævagömul, t.d. aurar, ketill, köttur og vín, svo dæmi séu nefnd. Þau eru öll talin vera komin úr latínu og vera eldri en Íslandsbyggð (aureus, catīnus (< *catillus), cat(t)us, vīnum). Önnur eru yngri, t.d. þessi sem sennilega eru komin inn gegnum fornensku: bolli, dreki (úr lat. draco), gimur ‘gimsteinn’ (úr lat. gemma), hirð og stræti (úr fornensku). Nokkur eru enn fremur komin gegnum fornsaxnesku eða miðlágþýsku, t.d. dúkur, hanzki, penningur og skrá (þ.e. skinn). Örfá eru úr fornírsku, t.d. bjöð, gaflak og kartur.

Í dróttkvæðum eru tökuorðin mun fleiri. Þar er til dæmis að finna orðin akkeri, býta, djöfull, greifi, herbergi, kær, páskar, port, pundari prúður og stallari svo fáein séu nefnd. (Sjá Skard 1967:64, Fischer 1909:186–203).

13.3 Kristin áhrif

Kristin áhrif voru nokkur á íslenskt mál allt frá landnámsöld. Bæði fóru Íslendingar til annarra landa og kynntust þar kristinni menningu, og erlendir menn komu hingað, þar á meðal kristnir trúboðar. Með þessum mönnum komu ýmis tökuorð.

Eftir kristnitökuna árið 1000 fjölgaði orðum af kristnum toga verulega. Íslenskan átti það sameiginlegt með norsku að fyrstu kristilegu tökuorðin komu fremur úr ensku en þýsku, enda barst kristin trú til Íslands og Noregs fyrst og fremst frá Bretlandi.

Meðal orða sem nú bárust inn í málið voru bók og stafróf, kirkja, altari, klukka (klokka), kerti, prestur, prófastur, djákn, biskup (byskup), klaustur, musteri, skóli, munkr, kanoki, postuli (postoli), messa, sálmur, engill, kredda og fjölmörg önnur Þessi orð aðlöguðust íslenskunni fljótt, fengu beygingarendingar og tóku jafnvel hljóðvarpi (engill, sbr. lat. angelus). Einnig bárust inn orð af þýskum og enskum uppruna, svo sem synd og helvíti; sum þeirra voru tökuorð í þessum tungumálum, oftast ættuð úr latínu, sum úr grísku.

13.4 Fjöldi tökuorðanna

Gríðarmörg tökuorð koma inn á síðmiðöldum, eða frá 12. öld og fram á 16. öld. Í elstu ritum fram til miðrar 13. aldar er að finna 600–800 orð af erlendum uppruna í íslensku, og eru þar meðtaldar samsetningar og afleidd orð. Um miðja 16. öld eru tökuorð orðin fleiri en 3.000. Sitthvað hefur því gerst á þessum tíma í menningarlegu tilliti og kemur það engum á óvart. Til samanburðar má geta þess að í Íslendingasögunum, sem flestar eru skrifaðar á 13. og 14. öld, eru alls um 12.500 mismunandi orð (Eiríkur Rögnvaldsson 1990:56).

Vitaskuld hefur allstór hluti tökuorðanna verið bundinn við bækur og sum þeirra koma jafnvel aðeins fyrir einu sinni í einni bók. En samt eru þessar tölur vísbending um verulegar breytingar í orðaforðanum frá fornu máli og fram á síðmiðaldir.

13.5 Aldur tökuorða

Erfitt er að segja til um það með vissu hvenær ákveðin tökuorð hafa borist inn í málið. Nokkra hliðsjón má hafa af því hvenær þau koma fyrst fyrir í ritum, en oft er ómögulegt að ákvarða aldur handrita nánar en að þau séu skrifuð á tiltekinni öld, og 100 ára tímabil er býsna langt. Enn fremur geta orð verið til alllengi í tungunni án þess að þau komist á bók og loks skal haft í huga að mörg handrit hafa glatast og þá auðvitað allt eins þau sem geymt hafa elstu dæmi um einhver orð. Stundum er þó hægt að rekja sig áfram með óbeinum aðferðum. Til dæmis má telja víst að framburður á ‘au’, sem í elsta máli var borið fram eins og ‘á’ í nútímamáli (sbr. ‘au’ í þýsku Haus), hafi um miðja 13. öld verið orðinn líkur því sem nú er. Samkvæmt því hljóta tökuorð eins og klausa (úr miðlatínu clausa) og klaustur (úr fornensku clauster < latínu claustrum) að vera eldri en þessi breyting því að framburður á ‘au’ í þeim er hinn sami og á ‘au’ í innlendum orðum eins og laus. Ef þau hefðu komið inn í málið eftir að breytingin ‘au’ > ‘öí’ var gengin yfir, hefði ‘au’ sennilega haldið sínum upprunalega framburði og við fengið orðmyndirnar klástur og klása eins og síðar varð um tökuorðið pása (danska pause < lat. pausa, gríska pausis). (Sbr. Finnur Jónsson 1919:320).

Líku máli gegnir um orðið hæverskur, svo annað dæmi sé tekið. Það hlýtur að vera komið inn í málið áður en ‘ǫ́’ og ‘ǿ’ féllu saman á 13. öld. Hefði það komið inn síðar væri það nú borið fram með ‘ö’, ‘höverskur’. Þannig hefur stofnsérhljóð þess hljómað þegar orðið barst inn í málið og þannig er það enn í skyldum málum, til dæmis í norsku (høvisk), en þaðan er orðið sennilega komið í íslensku.

13.6 Tökuorð á 14.–15. öld

Með auknum tengslum við umheiminn á 14.–15. öld fjölgaði tökuorðum mjög. Þá bárust inn í málið ýmis orð sem algeng eru í nútímamáli, svo sem dans, frú, jómfrú, renta, treyja og fjölmörg önnur. Á fyrri hluta tímabilsins komu flest orðin úr norsku eða gegnum þýðingar. Þegar líða tók á 15. öld styrktust tengslin við Danmörku en minnkuðu við Noreg. Eftir það komu langflest tökuorð í íslensku úr dönsku, allt fram á 20. öld.

Ekki er mikið um eiginleg norræn tökuorð á þessum tíma, þ.e. orð sem eiga ættir sínar að rekja til norskra eða danskra erfðarorða því að flest orð sem bárust í málið á 14.–15. öld voru þá þegar tökuorð í frændmálunum og ættuð lengra sunnan að, mjög mörg úr lágþýsku (síðar einnig úr háþýsku) og mörg úr rómönskum málum. Fáein orð komu lengra að, til dæmis bikar, djásn og panna úr grísku, með latínu og ef til vill önnur tungumál sem milliliði. Önnur áttu jafnvel enn lengri leið að baki, til dæmis pipar sem ættað er úr fornindversku, pippalí, en barst í íslensku líklega gegnum forn- eða miðensku (pipor) sem fékk orðið úr latínu (piper) en þangað mun það komið úr grísku (péperi).

Fyrri hluti 15. aldar er í sagnfræðiritum oft nefndur „enska öldin“ vegna mikilla samskipta sem þá voru við Englendinga sem sigldu til Íslands á hverju sumri og stunduðu veiðar og kaupmennsku hér við land.

Á sjókorti sænska prestsins Olaus Magnus árið 1553 er þetta enska skip sýnt í nágrenni við Ísland. Englendingar höfðu þá stundað Íslandssiglingar af miklum krafti og fimmtánda öld er stundum kölluð Enska öldin í Íslandssögunni. (Íslandssaga til okkar daga. 1991).

Ekki er að sjá að þessi samskipti hafi skilið eftir sig nein sérstök merki í tungumálinu. Fáein tökuorð hafa þó slæðst inn, til dæmis sápa (soap), daggarður ‘hnífur’ (dagger), hafurtask ‘eigur’ (haberdash) og kokkáll ‘maður sem á ótrúa eiginkonu’ (cockold).

Seinni hluti aldarinnar hefur á líkan hátt stundum verið nefndur „þýska öldin“, en þá áttu Íslendingar allmikil samskipti við norðurþýska kaupmenn. Líklega hafa þau ekki skilið eftir meiri merki í tungumálinu en samskiptin við ensku fiskimennina á fyrri hluta aldarinnar, en erfiðara er að segja nokkuð með vissu um það, þar sem mikill hluti þeirra erlendu orða sem bárust í íslensku úr norsku og dönsku var þýskrar ættar.

13.7 Dönsk áhrif á 16.–19. öld

Danskra áhrifa tók að gæta fljótlega eftir að Íslendingar komust undir stjórn Dana. Formlega gerðist það árið 1397, þegar Kalmarsambandið komst á en fram eftir 15. öld voru samskiptin þó enn mest við Norðmenn. Frá siðaskiptum og fram á 19. öld höfðu Íslendingar sáralítil samskipti við aðrar þjóðir en Dani. Mest voru dönsku áhrifin á 16.–18. öld, einkum meðal embættismanna, enda var yfirstjórn landsins í Kaupmannahöfn og tilskipanir stjórnvalda oftast á dönsku.

Þessi koparstunga sýnir Kaupmannahöfn, séða frá Amagersundi, um það bil sem Jón Indíafari gekk þar um götur (17. öld). (Æfisaga Jóns Ólafssonar Indíafara. 1908-09).

Embættismenn þurftu bæði að hugsa og skrifa á dönsku við embættisgjörðir sínar og hafði það oft áhrif á móðurmálið. Mun minni áhrifa gætti hjá almúganum, og reyndar einnig í ritum margra embættismanna, einkum presta, þegar þeir skrifuðu annað en embættisbréf.

Á 16.–18. öld voru margir embættismenn danskir og frá 1602 til 1777 var verslun við aðra en danska kaupmenn bönnuð. Frá 1662 til 1849 var Danakonungur einvaldur yfir Íslandi. Þrátt fyrir þetta fór ekki fyrir Íslendingum eins og mörgum öðrum nýlenduþjóðum; herraþjóðin krafðist þess aldrei að mál landsmanna skyldi bannað eða að kennsla skyldi fara fram á dönsku, hvað þá að prestar skyldu tala yfir söfnuðinum á dönsku eða að guðsorðabækur mætti ekki prenta á móðurmálinu. Af þessum ástæðum meðal annars hélst íslensk tunga tiltölulega lítt snortin af dönsku, og því reyndist það málhreinsunarmönnum 19. aldar ekki óyfirstíganlegt verk að hefja hreinsun íslenskrar tungu af dönskum orðum.

Í bréfum embættismanna hvers til annars er oft mikið af tökuorðum, bæði dönskum og latneskum. Sem dæmi má taka nokkur orð úr bréfi frá séra Gunnari Pálssyni til Finns Jónssonar Skálholtsbiskups, frá 1768 (Gunnar Sveinsson 1984:205–206): klögunarlaust, rarítet, artugheit, illustrera, hágúnstugur, originall, consulera, remittera, afstaaelse, senior. Sum orðin eru ekki eiginleg tökuorð heldur framandorð, erlendar slettur, sem ekki er víst að höfundurinn hafi notað í daglegu máli.

Orð sem bárust í íslenskt mál á þessu tímabili eru mörg hver órjúfanlegur hluti íslensks orðaforða nú á dögum. Má þar nefna orð eins og brúklegur, buxur, innrétting, kvistur (á húsi), vesti, sögnin vara ‘endast’ o.m.fl.

Önnur eru sjaldgæfari og hafa mörg hver horfið aftur með öllu, svo sem flest orð sem byrjuðu á be- og bí-, t.d. behollari, bekenna, beklaga, bestikk, betalingur, betrekk, bevís, bífala, bíleggja, bínafn, bískitinn, bískæla og bíþræta. Fáein eru þó eftir, t.d. bíræfni og bísperrtur.

13.8 Reykjavík við upphaf 19. aldar

Við upphaf 19. aldar var Reykjavík hálfdanskt þorp.

Þannig sá ferðamaðurinn George Mackenzie Reykjavík af Skólavörðuholti árið 1810. Íslandssaga til okkar daga. 1991.

Þar var miðstöð verslunar og handverks og þar bjuggu helstu embættismenn landsins. Málfar í höfuðstaðnum var þá orðið svo dönskuskotið að danski málfræðingurinn Rasmus Rask fékk ekki orða bundist í bréfi frá 1813:

Annars ... held ég að íslenzkan bráðum mun útaf deyja, reikna ég að valla mun nokkur skilja hana í Reykjavík að 100 árum liðnum, en valla nokkur í landinu að öðrum 200 þar upp frá, ef allt fer eins og hingað til og ekki verða rammar skorður við reistar; jafnvel hjá beztu mönnum er annaðhvört orð á dönsku, hjá almúganum mun hún haldast við lengst.

Reyndar höfðu menn þegar hafist handa, þegar Rask skrifaði þessar línur, um að skapa íslenskan orðaforða um ýmsar nýjungar samtímans og stugga við erlendum orðum. Sú barátta óx og styrktist eftir því sem leið á öldina og eins og nútímamenn vita var Rask ekki sannspár; íslensk tunga lifir góðu lífi og ekkert bendir til að hún sé að líða undir lok. (Sjá Jakob Benediktsson 1964:104–105).

14. Ástæður fyrir litlum breytingum á íslenskri tungu

Þótt fjölmargar breytingar hafi orðið frá fornu máli til nútímamáls hafa öll grundvallaratriði í formkerfi tungunnar haldist óbreytt í meira en þúsund ár. Vissulega hefur framburður breyst talsvert, en beygingar eru að miklu leyti óbreyttar, svo og reglur um setningagerð og orðmyndun. Enn fremur er grundvallarorðaforði málsins sá sami og fyrr og málið hefur ekki klofnað í mállýskur eins og meðal nágrannaþjóðanna.

Margar ástæður eru fyrir því hversu lítt tungumálið hefur breyst. Oft er nefnd einangrunin, samfelld bókmenntahefð frá 12. öld, bókalestur og almenn lestrarkunnátta, svo og strangar reglur um rím og stuðlun í kveðskap. Allt þetta hefur einnig átt sinn þátt í því að svo að segja enginn mállýskumunur er í landinu. Alls staðar lásu menn sömu bókmenntirnar og höfðu því sömu málgerðina að miða við.

Fræðimenn eru ekki sammála um hvaða ástæður séu mikilvægastar hvað þetta varðar. Ýmsar þeirra hafa verið raktar í grein eftir Helga Guðmundsson (1977). Í stuttu máli er þessar helstar:

  1. Landnámsmenn töluðu ólíkar mállýskur. Þær blönduðust saman og sérkennin hurfu snemma að mestu eða öllu. Eftir varð tiltölulega samræmt og einsleitt mál.
  2. Íslenska er útflytjendamál. Mál útflytjenda er oft íhaldssamara en mál þeirra sem eftir sitja í heimalandinu.
  3. Landið var óbyggt og mál landnemanna lagðist því ekki ofan á annað mál sem gat haft áhrif á mál þeirra.
  4. Málið hefur verið talað tiltölulega stuttan tíma í landinu miðað við flest skyld mál.
  5. Allir íbúar hafa talað sama málið, a.m.k. frá upphafi 10. aldar (sumir þrælar og vinnumenn frá Bretlandseyjum hafa þó líklega talað keltnesk mál fyrstu áratugina).
  6. Mikil fjarlægð er til næstu málsvæða og áhrifum þeirra því settar talsverðar skorður.
  7. Landið var tiltölulega greiðfært. Talið er að ár, vötn, firðir, víðáttur og jafnvel fjöll einangri fólk mun minna en skógar.
  8. Málsvæðið er hringlaga og samgöngur voru að mestu sveit úr sveit í kringum landið. Þannig mynduðust síður einangruð jaðarsvæði með sérstökum mállýskum.
  9. Langflestir bjuggu á sveitabæjum, oft þrjár kynslóðir saman auk vinnufólks. Mikið samband var milli allra heimilismanna, en upphafs málbreytinga er stundum leitað þar sem börn og ungmenni mynda sérstaka hópa, aðskilda frá fullorðnum.
  10. Engin þéttbýlissvæði voru til þar sem málbreytingar hefðu getað náð fótfestu.
  11. Atvinnuhættir voru einhæfir og í föstum skorðum. Það gaf þjóðfélaginu festu og málinu þar með einnig.
  12. Fólk flutti oft búferlum og það hamlaði
    gegn því að sérstakir hópar einangruðust um langt skeið. Vinnufólk réð sig oft í vist fjarri heimahögum sínum og ílentist jafnvel þar. Lengi gilti bann kirkjunnar við giftingum skyldara fólks en í fjórða lið. Það stuðlaði að því að fólk leitaði út fyrir sveitina að maka.
  13. >
  14. Mikið var um ferðalög og flakk: Vermenn fóru úr sveit í verstöðvar og voru þar yfir vertíð, menn fóru saman í göngur og réttir í eigin sveitum og öðrum héruðum, víða var langt í verslunarstaði, vinnufólk fór sveit úr sveit og flakkarar voru fjölmargir.
  15. Fólksfækkun varð alloft vegna hallæra og drepsótta og þá iðulega einhverjir fólksflutningar í kjölfar þeirra.
  16. Landið var ein stjórnarfarsleg heild.
  17. Fjöldi manns kom á Alþingi hvert sumar, einkum á fyrri öldum, og dvaldist þar nokkurn tíma.
  18. Kirkjunnar menn menntuðust á fremur fáum stöðum, í Skálholti, á Hólum og í klaustrunum. Þar var allmikið fjölmenni og menn komnir víða að. Prestarnir dreifðust síðan vítt og breitt um landið.
  19. Ekki var um að ræða átthagafjötra eða lénsskipulag, sem sunnar í álfunni stuðlaði að smáum heildum og myndun mállýskna.
  20. Stéttaskipting var minni en víðast annars staðar.
  21. Erlend áhrif urðu aldrei mikil. Erlendir embættismenn fáir og kaupmenn höfðu yfirleitt ekki vetursetu.
  22. Ýmis kveðskapur og þjóðsögur lifðu í munnlegri geymd og bárust frá kynslóð til kynslóðar. Margt af því var bundið föstum reglum um form og orðfæri og mátti helst engu breyta svo ekki væri farið rangt með.
  23. Íslendingar eru bókmenntaþjóð. Ritmál hefur verið til í landinu frá 12. öld og útbreiðsla handrita og síðar prentaðra bóka mikil. Lestrarkunnátta var nokkuð almenn, misjafnt þó eftir öldum. Ævagamlir textar voru lesnir í baðstofum á kvöldin og börn lærðu jafnvel slíka texta. Trúarrit voru á íslensku. Þau voru lesin upphátt heima og upplestur og predikanir í kirkjum voru einnig á íslensku. Menn lásu upphátt, einnig þegar þeir lásu fyrir sjálfa sig – hljóðlestur tíðkaðist ekki fyrr á öldum. Bóklestur stuðlar að viðhaldi orðmynda, beyginga, orðaforða og setningarbyggingar, en síður að viðhaldi gamals framburðar.
  24. Herraþjóðin, Danir, lét Íslendinga sjálfráða um tungumál sitt og reyndi til dæmis ekki að koma dönskum guðsorðaritum inn á Íslendinga eftir siðaskipti.
  25. Staða málsins var styrk í landinu enda var það, auk þess að vera talmál, einnig laga-, kirkju- og bókmenntamál. Landsmenn voru því ekki haldnir neinum efasemdum um tungu sína þótt mál ríkisins væri danska.
  26. Frá 18. öld hefur málhreinsunarstefna eða hreintungustefna ríkt, með fornmálið að fyrirmynd.

Heimildaskrá

Árni Böðvarsson. 1951. Þáttur um málfræðistörf Eggerts Ólafssonar. Skírnir 135:156–172.

Ásgeir Bl. Magnússon. 1959. Um framburðinn rd, gd, fd. Lingua Islandica – Íslenzk tunga 1:9–25.

Ásgeir Bl. Magnússon. 1981. Um sérhljóðabreytingar á undan samhljóðaklösum með l-i. Afmæliskveðja til Halldórs Halldórssonar 13. júlí 1981, bls. 24–38. Íslenska málfræðifélagið, Reykjavík.

Baldur Jónsson. 1982. Um tvenns konar lt-framburð. Íslenskt mál 4:87–115.

Baldur Ragnarsson. 1992. Mál og málsaga. Mál og menning, Reykjavík.

Björn Th. Björnsson. 1991. Haustskip. Íslenski kiljuklúbburinn, Reykjavík.

Björn K. Þórólfsson. 1925. Um íslenskar orðmyndir á 14. og 15. öld og breytingar þeirra úr fornmálinu með viðauka um nýjungar í orðmyndum á 16. öld og síðar. Fjelagsprentsmiðjan, Reykjavík. [Endurpr. 1987: Rit um íslenska málfræði 2, Málvísindastofnun Háskóla Íslands.]

Björn K. Þórólfsson. 1929. Kvantitetsomvæltningen i islandsk. Arkiv för nordisk filologi 45:35–81.

Björn Þorsteinsson og Bergsteinn Jónsson. 1991. Íslandssaga til okkar daga. Sögufélag, Reykjavík.

Christiansen, Hallfrid. 1946–1948. Norske dialekter I–III. Tanum – Norli, Oslo.

Edda Snorra Sturlusonar. Guðni Jónsson bjó til prentunar. Íslendingasagnaútgáfan, Reykjavík 1949.

Eiríkur Rögnvaldsson. 1990. Orðstöðulykill Íslendingasagna. Skáldskaparmál I:54–61.

Finnbogi Guðmundsson. 1970. Frá Hallgrími Scheving. Árbók Landsbókasafns Íslands, 26. ár, 1969, bls. 156–208.

Finnur Jónsson. 1925. Grammatik for det islandske oldsprog. G. E. C. Gads Forlag, Kaupmannahöfn.

Finnur Jónsson. 1919. Overgangen Ä – ö (ø) i islandsk. Arkiv för nordisk filologi 35:314–320.

Fischer, Frank. 1909. Die Lehnwörter des Altwestnordischen. Palaestra LXXXV. Untersuchungen und Texte aus der deutschen und englischen Philologie. Mayer & Müller, Berlín.

Fischer-Jørgensen. 1974. Almen fonetik. Akademisk Forlag, København.

Guðvarður Már Gunnlaugsson. 1994. Um afkringingu á /y, ý, ey/ í íslensku. Málvísindastofnun Háskóla Íslands, Reykjavík.

Gunnar Sveinsson (útg.). 1984. Bréf Gunnars Pálssonar. I. Texti. Stofnun Árna Magnússonar, Reykjavík.

Halldór Halldórsson. 1950. Íslenzk málfræði handa æðri skólum. Ísafoldarprentsmiðja, Reykjavík.

Halldór Hermannsson. 1919. Modern Icelandic. Islandica Vol. XII. Cornell University Library, Ithaca, New York. [Endurprentuð 1966: Kraus Reprint Corporation].

Halldór Laxness. 1976. Sjálfstætt fólk. 4. útgáfa. Helgafell, Reykjavík.

Hansen, Eskil, Else Mundal & Kåre Skadberg. 1975. Norrøn grammatikk. Universitetsforlaget, Oslo, Bergen, Tromsø.

Haugen, Einar. 1976. The Scandinavian Languages. An Introduction to their History. Faber and Faber Limited, London.

Helgi Guðmundsson. 1977. Um ytri aðstæður íslenzkrar málþróunar. Sjötíu ritgerðir helgaðar Jakobi Benediktssyni 20. júlí 1977, bls. 314–325. Stofnun Árna Magnússonar, Reykjavík.

Helgi Guðmundsson. 1997. Um haf innan. Vestrænir menn og íslenzk menning á miðöldum. Háskólaútgáfan, Reykjavík.

Heimskringla. I–II. Ritstjórn: Bergljót S. Kristjánsdóttir, Bragi Halldórsson, Jón Torfason og Örnólfur Thorsson. Mál og menning, Reykjavík 1991.

Hendrik Ottósson. 1960. Gvendur Jóns og við hinir. Helgafell, Reykjavík.

Hreinn Benediktsson. 1959a. Nokkur dæmi um áhrifsbreytingar í íslenzku. Lingua Islandica–Íslenzk tunga 1:55–70.

Hreinn Benediktsson. 1959b. The Vowel System of Icelandic: The Survey of Its History. Word 15:282–312.

Hreinn Benediktsson. 1962. Islandsk språk. Kulturhistorisk lexikon for nordisk middelalder 7:486–493.

Hreinn Benediktsson. 1964. Upptök íslenzks máls. Þættir um íslenzkt mál eftir nokkra málfræðinga. Ritstjóri Halldór Halldórsson. Bls. 9–28. Almenna bókafélagið, Reykjavík.

Hreinn Benediktsson. 1965. Early Icelandic Script. Íslenzk handrit – Icelandic Manuscripts, Vol II. The Manuscript Institute of Iceland, Reykjavík.

Hreinn Benediktsson (útg.). 1972. The First Grammatical Treatise. University of Iceland Publications in Linguistics 1. Institute of Nordic Linguistics, Reykjavík.

Hreinn Bendiktsson. 1977. An Extinct Icelandic Dialect Feature: y vs. i. Dialectology and Sociolinguistics, Essays in Honor of Karl-Hampus Dahlstedt, bls. 28–46. Acta Universitatis Umensis. Umeå Studies in the Humanities, 12. Umeå.

Iversen, Ragnvald. 1961. Norrøn grammatikk. Sjötta útgáfa endurskoðuð. H. Aschehoug & Co. (W. Nygaard), Oslo.

Íslendingabók, sjá Sturlunga saga.

Íslendingabók, Landnámabók. Íslenzk fornrit 1. Jakob Benediktsson sá um útgáfuna. Hið íslenzka fornritafélag, Reykjavík 1968.

Íslendingasögur og þættir. I–III. Ritstjórar: Bragi Halldórsson, Jón Torfason, Sverrir Tómasson og Örnólfur Thorsson. Svart á hvítu, Reykjavík 1987.

Íslenskur söguatlas. 1. bindi: Frá öndverðu til 18. aldar. Ritstjórar: Árni Daníel Júlíusson, Jón Ólafur Ísberg og Helgi Skúli Kjartansson. Iðunn, Reykjavík 1991.

Jakob Benediktsson. 1960. Um tvenns konar framburð á ld í íslenzku. Íslenzk tunga 2:32–50.

Jakob Benediktsson. 1964. Þættir úr sögu íslenzks orðaforða. Þættir um íslenzkt mál eftir nokkra íslenzka málfræðinga. Bls. 88–109. Almenna bókafélagið, Reykjavík.

Jakob Benediktsson. 1974. Landnám og upphaf allsherjarríkis. Saga Íslands I, bls. 155–196. Hið íslenzka bókmenntafélag – Sögufélagið, Reykjavík.

Jakob Benediktsson (ritstj.). 1983. Hugtök og heiti í bókmenntafræði. Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands, Mál og menning, Reykjavík.

Jakob Jóh. Smári. 1923. Íslenzk málfræði. Bókaverzlun Ársæls Árnasonar, Reykjavík.

Jonna Louis-Jensen. 1970. »Syvende og ottende brudstykke«. Fragmentet AM 325 Iva 4to. Opuscula IV:31–60. Bibliotheca Arnamagnæana Vol. XXX. Munksgård, Kaupmannahöfn.

Jóhannes L. L. Jóhannesson. 1924. Nokkrar sögulegar athugasemdir um helztu hljóðbreytingar o. fl. í íslenzku, einkum í miðaldarmálinu (1300–1600). Bókaverzlun Sigfúsar Eymundssonar, Reykjavík.

Jón Helgason (ritd.). 1927. „Björn K. Þórólfsson: Um íslenskar orðmyndir á 14. og 15. öld og breytingar þeirra úr fornmálinu. …“ Arkiv för nordisk filologi 43:88–95.

Jón Helgason. 1929. Om ordet ‘gud’ i isländskan. Studier tillägnade Axel Kock.

Jón Helgason. 1955. The Saga Manuscript 2845, 4to in the Old Royal Collection in the Royal Library of Copenhagen. Manuscripta Islandica, Vol. 2. Ejnar Munksgaard, Kaupmannahöfn.

Jón Helgason. 1962. Tvær kviður fornar. Völundarkviða og Atlakviða með skýringum. Heimskringla, Reykjavík.

Jón Helgason. 1970. Om islandsk n og nn i tryksvag udlyd. Opuscula IV:356–360. Bibliotheca Arnamagnæana Vol. XXX. Munksgård, Kaupmannahöfn.

Jón Jóhannesson. 1956. Íslendinga saga. I. Þjóðveldisöld. Almenna bókafélagið, Reykjavík.

Jón Þorkelsson. 1874. Um r og ur í niðrlagi orða og orðstofna í íslenzku. Skýrsla Hins lærða skóla í Reykjavík.

Jón Þorkelsson. 1887. Breytingar á myndum viðtengingarháttar í fornnorsku og forníslensku. Prentsmiðja S. Eymundssonar og S. Jónssonar, Reykjavík.

Jónas Jónasson frá Hrafnagili. 1961. Íslenskir þjóðhættir. Þriðja útgáfa. Ísafoldarprentsmiðja hf., Reykjavík.

Karker, Allan. 1977. The Disintegration of the Danish Tongue. Sjötíu ritgerðir helgaðar Jakobi Benediktssyni 20. júlí 1977. Síðari hluti, bls. 481–490. Stofnun Árna Magnússonar, Reykjavík.

Kjartan Ottósson. 1987. An Archaising Aspect of Icelandic Purism: The Revival of Extinct Morphological Patterns. The Nordic Languages and Modern Linguistics 6:311–324. Helsinki.

Kristján Árnason. 1983. Íslensk málfræði. Seinni hluti. Iðunn, Reykjavík.

Kulturhistorisk lexikon for nordisk middelalder (= KLNM). Eddukvæði, 3. bindi. Islandsk språk, 7. bindi. Landnám I., 10. bindi., Landnámabók, 10. bindi. Norsk språk 12. bindi.

Kvæðakver Sighvats Þórðarsonar. Jóhannes Halldórsson bjó til prentunar. Almenna bókafélagið, Reykjavík, 1965.

Larsson, Ludvig. 1891. Ordförrådet i de älsta islänska handskrifterna. Lund.

Maurer, Konrad. 1888. Vopn und Vokn. Arkiv för nordisk filologi 4:284–288.

Naert, Pierre. 1946. Ur min färöiska kortlåda. Arkiv för nordisk filologi 61:126–152.

Nielsen, Kay. 1980. Danmarks konger og dronninger. Union håndbøger, Forlaget Hamlet, København.

Noreen, Adolf. 1970. Altnordische Grammatik I. Altisländische und altnorwegische Grammatik (Laut- und Flexionslähre) unter Berücksichtigung des Urnordischen. 5. útgáfa. Max Niemeyer Verlag, Tübingen.

Oresnik, Janes. 1971. On Some Weak Preterite Subjunnctives of Otherwise Strong Verbs in Modern Icelandic. Arkiv för nordisk filologi 86:139–178.

Ritverk Jónasar Hallgrímssonar I–IV. Ritstjórar: Haukur Hannesson, Páll Valsson og Sveinn Yngvi Egilsson. Svart á hvítu, Reykjavík 1989.

Skard, Vemund. 1967. Norsk språkhistorie. Bind 1–1523. Universitetsforlaget, Oslo.

Stefán Karlsson. 1964. Gömul hljóðdvöl í ungum rímum. Íslenzk tunga 5:7–29.

Stefán Karlsson. 1989. Tungan. Íslensk þjóðmenning VI: 3–54. Þjóðsaga, Reykjavík.

Sturlunga saga. Skýringar og fræði. Ritstjóri: Örnólfur Thorsson. Svart á hvítu, Reykjavík 1988.

Sýnisbók íslenzkra bókmennta til miðrar átjándu aldar. Sigurður Nordal, Guðrún P. Helgadóttir og Jón Jóhannesson settu saman. Bókaverzlun Sigfúsar Eymundssonar hf., Reykjavík 1953.

Turville-Petre, E.O.G. 1976. Scaldic Poetry. At the Clarendon Press, Oxford.

Vilhjálmur Þ. Gíslason. 1926. Eggert Ólafsson. Íslensk endurreisn. Önnur bók. Bókaverslun Þorsteins Gíslasonar, Reykjavík.

Wessén, Elias. 1979. De nordiska språken. Almqvist & Wiksell Förlag AB, Stokkhólmi.