Greinar

Höskuldur Þráinsson og Kristján Árnason
Íslenskar mállýskur

1. Hvað er mállýska?

Hugtakið MÁLLÝSKA er skilgreint sem málvenja sem er bundin ákveðnum landshluta eða ákveðnum hópi (stétt) fólks. Þessar málvenjur geta í raun varðað alla þætti málkunnáttunnar og málkerfisins, svo sem þessa:

a. málhljóðin og framburð þeirra
b. orðaforða og merkingu orðanna
c. beygingu orða
d. setningagerð

Mállýskumunur er til í öllum tungumálum. Sums staðar er hann einkum landshlutabundinn, annars staðar ekki síður tengdur ólíkum stéttum eða þjóðfélagshópum. Þegar talað er um íslenskar mállýskur er oftast átt við staðbundnar framburðarmállýskur, enda hafa þær verið rannsakaðar nokkuð ítarlega. Á Íslandi má þó finna mállýskumun sem varðar alla þá þætti sem taldir eru í a–d hér á undan.

Í fyrsta lagi er framburður íslenskra málhljóða nokkuð mismunandi eftir landshlutum. Flestir kannast sjálfsagt við það að Akureyringar bera orð eins og bátur eða stúlka oft öðruvísi fram en flestir Reykvíkingar, eða að einhverjir Vestfirðingar beri orðasambandið svöng langa fram á annan hátt en aðrir landsmenn, eða þá að margir Hornfirðingar geri greinarmun á orðunum lögin og laugin í framburði þótt Húnvetningar geri það ekki til dæmis. Þessum framburðareinkennum verður lýst nánar á eftir í tengslum við mállýskueinkennin harðmæli, raddaðan framburð, vestfirskan einhljóðaframburð og skaftfellskan einhljóðaframburð.

Í öðru lagi hafa flestir væntanlega orðið varir við það að sum orð eru algeng í ákveðnum landshlutum en lítið eða ekkert notuð annars staðar. Fyrir norðan og austan er til dæmis algengt að nota orðið eldhúsbekkur um það sem í ÍSLENSKRI ORÐABÓK er skilgreint sem ‘veggfast eldhúsborð með skápum’. Af þessu borði hefur þá kannski verið þurrkað með bekkjarýjunni, en hún er þó víðast kölluð borðtuska. Eins er til í dæminu að orð séu notuð í mismunandi merkingu eftir því hvar er á landinu. Þannig merkir orðið garði víðast ‘bálkur eftir endilöngu fjárhúsgólfi miðju, sem hey eða annað fóður handa kindum er sett á’, en fyrir vestan merkir orðið yfirleitt gólfrýmið báðumegin við þennan bálk, sem þá er kallaður jata.

Skilgreining og mynd úr Íslenskri orðabók.

Þetta gólfrými er hins vegar oftast kallað kró annars staðar. Alþekkt er líka að kjötpylsur eru nefndar mismunandi nöfnum eftir landshlutum, en um þær eru notuð orð eins og bjúga (algengt víða), sperðill (einkum norðanlands), grjúpán, langi o.s.frv.

Í þriðja lagi er til í dæminu að orð séu beygð á mismunandi vegu í ólíkum landshlutum. Þannig er sögnin hrekkja höfð hrekkti í þátíð víða um land en hrekkjaði annars staðar. Kyn orða getur líka verið mismunandi eftir landshlutum og beygingin þá um leið. Norðlendingar tala til dæmis oft um skíðabindinga í karlkyni (‘hann, bindingurinn’) og segja þá „Þetta eru NÝIR skíðabindingar“. Á Suðurlandi er þetta orð aftur á móti kvenkyns (‘hún, bindingin’) svo þar væri sagt „Þetta eru NÝJAR skíðabindingar“. Eins eru nöfnin á spilunum frá 5 og upp í 7 höfð í kvenkyni í sumum landshlutum (fimman, sexan, sjöan) en hvorugkyni í öðrum (fimmið, sexið, sjöið).

Í fjórða lagi er eitthvað um það að setningagerð sé mismunandi eftir landshlutum á Íslandi. Á Ólafsfirði og Siglufirði er t.d. oft sagt „Þetta er bíllinn mömmu“ og „Þarna er hjólið Gumma“ þegar annars staðar væri yfirleitt sagt „Þetta er bíllinn hennar mömmu“ og „Þarna er hjólið hans Gumma“. Sumir segja líka „Það var hrint mér“ þegar aðrir segðu „Mér var hrint“, en ekki er ennþá vitað hvort þetta er að einhverju leyti staðbundið eða hvort hér er fyrst og fremst um kynslóðamun að ræða.

Loks má nefna að einhver tengsl virðast vera á milli stéttarstöðu foreldra og þess hvort börn segja ‘MIG langar’ eða ‘MÉR langar’ (sjá grein eftir Ástu Svavarsdóttur 1982 og Ástu Svavarsdóttur, Gísla Pálsson og Þórólf Þórlindsson 1984).

Félagsstaða og þágufallsvillur. Ásta Svavarsdóttir, Gísli Pálsson & Þórólfur Þórlindsson. 1984. Fall er fararheill. Um fallnotkun með ópersónulegum sögnum. Íslenskt mál 6:33–55.

Flest þau dæmi um mállýskumun á Íslandi sem hér hafa verið nefnd varða staðbundinn mun frekar en mun tengdan þjóðfélagshópum (stéttum, kyni, aldri). Stéttbundinn mállýskumunur er áreiðanlega minni á Íslandi en víða annars staðar og munur á málfari karla og kvenna virðist ekki heldur vera mjög mikill.

2. Íslenskar mállýskuathuganir

2.1 Ýmsar athugasemdir fyrri tíðar manna um staðbundið málfar

Á árunum upp úr 1700 ferðuðust Árni Magnússon og Páll Vídalín um landið til að safna í JARÐABÓK sína. Á þessum ferðum virðast þeir félagar hafa tekið eftir ýmiss konar málfarsmun því þeir geta um slík atriði síðar. Þannig notar Árni orð eins og SUNNLENSKA, AUSTFIRSKA, VESTFIRSKA, HORNFIRSKA í ritum sínum og nefnir m.a. dæmi um austfirska framburðinn ‘e’ fyrir ‘æ’ í orðum eins og kæti, lækur, ræður, skær (verður ‘keti’, ‘lekur’, ‘reður’, ‘sker’; sbr. t.d. ÁRNI MAGNÚSSONS LEVNED OG SKRIFTER 2, bls. 237–254. Sjá líka Guðvarð Má Gunnlaugsson 1987.) Auk þessa nefnir Árni ýmislegt um staðbundinn orðaforða. Páll segir hins vegar um framburð sérhljóðsins ‘a’ á undan ‘ng’: „það er digurraddað hjá norðlenzkum, en mjóraddað hjá vestfirzkum“ (sbr. SKÝRINGAR YFIR FORNYRÐI LÖGBÓKAR, bls. 288). Líklega er Páll hér að víkja að því sem nú er nefnt vestfirskur einhljóðaframburður þótt orðalagið komi okkur spánskt fyrir sjónir og nú kannist menn lítið við það að Norðlendingar hafi sérstakan framburð á þessu hljóðasambandi.

Um það bil hálfri öld síðar ferðuðust þeir Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson um landið í vísindaskyni (sbr. FERÐABÓK EGGERTS OG BJARNA) og hafa þá vafalaust gefið gaum að ýmsum málfarsatriðum. Eggert var reyndar sérstakur áhugamaður um móðurmálið og í ritum hans má líka finna athugasemd um áðurnefnt hljóðasamband ‘ang’, en hún er á þessa leið:

ang er upphaflega ritað, en framflutningin er orðin ýmisleg. Sumir Vestfirðingar tala ang, aðrir æng, en Austfirðingar þar þvert á móti aung, og gera hverutveggju of frekt af. Norðlenzkir ganga meðalveg og næst hinni gömlu pronuntiatiu, hvörja fjallabændur í Norvegi enn tíðka, framberandi ang sem aong
(Árni Böðvarsson 1951: 168).
Hér er líka vikið að fleiri framburðarafbrigðum varðandi ‘ang’-sambandið en nú eru þekkt, þótt ekki sé auðvelt að átta sig á þessu í smáatriðum. Valdimar Ásmundsson nefnir þennan framburð líka á 19. öld, m.a. ‘æng’-framburðinn:
Vestfirðingar hafa enn hinn forna framburð grannra hljóðstafa á undan ng og nk og verður eigi að því fundið; sumir hafa þar ‘æ’-hljóð, en sá framburður er eigi rjettur
(Valdimar Ásmundarson 1878:42; sjá líka Guðvarð Má Gunnlaugsson 1987:166).
Enn má nefna að Þorvaldur Thoroddsen ferðaðist um landið í lok 19. aldar og hann gerir ýmsar athugasemdir um framburð og orðfæri, m.a. þessa:
Í Múlasýslum og Austur-Skaftafellssýslu heyrði eg ... ýms einkennileg orð, orðmyndir, orðatiltæki og latmæli, sem eg ekki hafði áður heyrt ... Sum eru algeng um stór svæði, sum fágæt, eru að eins á litlum blettum, en óþekt annarstaðar, sumstaðar hafa orðin aðra merkingu en annarstaðar o.s.frv.
(sbr. Jón Aðalsteinn Jónsson 1964:69).
Hér er Þorvaldur að ræða um staðbundinn orðaforða, en ríkulegastar upplýsingar um hann má finna í Talmálssafni Orðabókar Háskólans (sjá nánar í 2.2).

2.2 Skipulegar mállýskuathuganir á Íslandi

Björn M. Ólsen mun fyrstur manna hafa stundað skipulegar mállýskurannsóknir á Íslandi, en hann fékk styrk úr Carlsbergsjóðnum til að rannsaka málfar í einstökum héruðum á Íslandi og safna orðum úr mæltu máli. Þetta var ekki löngu eftir að mállýskurannsóknir hófust á meginlandi Evrópu (sjá Guðvarð Má Gunnlaugsson 1987:164). Birni entist ekki aldur og heilsa til að vinna úr rannsóknum sínum og birta niðurstöðurnar, en orðasafn hans mun að verulegu leyti hafa runnið inn í BLÖNDALSORÐABÓK (sjá inngang þeirrar orðabókar bls. VIII). Jón Ófeigsson, sem skrifar framburðarlýsingu fremst í Blöndalsorðabók (1920–24) hefur líka stuðst mikið við athuganir Björns, sérstaklega í kafla sínum um íslenskar framburðarmállýskur (kafla VII). Þar flokkar Jón íslenskar framburðarmállýskur í fjóra aðalflokka, en tveir þeirra falla í tvo undirflokka eins og hér er sýnt (framburðareinkennunum verður nánar lýst í kafla 3.1 hér á eftir):


I. SUNNLENSKA:
Einkenni eru einkum linmæli, óraddaður framburður og hv-framburður.
Sérafbrigði sunnlensku er VESTFIRSKA, en megineinkenni hennar eru annars vegar vestfirskur einhljóðaframburður á ‘a’og ‘ö’ á undan ‘ng’, ‘nk’ og hins vegar svokallaður rd-, gd-framburður (t.d. ‘hardur’ fyrir harður og ‘sagdi’ fyrir sagði).

II. NORÐLENSKA:
III. AUSTFIRSKA:
Einkenni helst harðmæli, óraddaður framburður (að hluta), hv-framburður.
Sérafbrigði austfirsku er að HORNFIRSKA, þ.e. rn-, rl-framburður.

IV. SUÐURNESJAMÁL:
Helsta einkenni er flámæli á ‘i’og ‘u’, sem þó kemur líka fyrir á Austfjörðum að sögn Jóns.

Hér kemur nútímamönnum líklega helst á óvart að Suðurnesjamenn skuli hafa verið taldir tala sérstaka mállýsku, enda virðist það ekki hafa verið réttmætt. Síðari tíma fræðimenn áttu líka eftir að skoða þessi mállýskumörk nánar.

Næst má telja mállýskuathuganir sem Stefán Einarsson gerði sumarið 1930 á Austfjörðum, en þar var hann einkum að skoða útbreiðslu harðmælis, raddaðs framburðar og hv-framburðar. Jón Ófeigsson hafði m.a. haldið því fram að austfirska hefði harðmæli eins og norðlenska en óraddaðan framburð og hv-framburð eins og sunnlenska, þótt raddaðs framburðar gætti reyndar nokkuð norðan til á Austfjörðum. Segja má að Stefán hafi því ekki síst verið að skoða mörk sunnlensku og norðlensku á Austfjörðum og hann birti helstu niðurstöður í greinum á íslensku og ensku (sjá einkum Stefán Einarsson 1932a,b).

Miklu ítarlegri athuganir á þessum og öðrum mállýskuatriðum er varða framburð er að finna í ritum Björns Guðfinnssonar. Í þeim er að finna nákvæmt yfirlit byggt á efnissöfnun um allt land, einkum á árunum 1940–1946. Björn gerði bæði yfirlitsrannsókn og ýmsar sérrannsóknir, en mest af því sem eftir hann liggur er byggt á yfirlitsrannsókninni (sjá Björn Guðfinnsson 1946, 1964). Björn beitti einkum svokallaðri lestraraðferð, þ.e. lét börnin lesa sérvalda mállýskutexta og merkti jafnóðum við framburðareinkenni þeirra á þar til gerðum framburðarspjöldum.

Hér sést dæmi af skráningarseðli úr rannsókn Björns Guðfinnssonar. Fangamarkið sýnir að jörn hefur ritað seðilinn sjálfur.

Alls náði yfirlitsrannsókn hans til 6520 skólabarna (strákarnir voru 3218 og stelpurnar 3302). Börnin voru úr öllum skólahverfum landsins að tíu undanskildum. Til dæmis náði rannsóknin hvorki til Grímseyjar né Vestmannaeyja. Björn tók ekki úrtak úr þeim árgangi sem hann hljóðkannaði (það voru yfirleitt 12 ára börn) heldur náði könnunin til meira en 90% af þeim árgangi í þeim skólahverfum sem farið var í. Rannsókn Björns er líklega að ýmsu leyti einstæð í sinni röð í heiminum (sjá t.d. Hrein Benediktsson 1962 og Karl-Hampus Dahlstedt 1958) og hefur gefið málfræðingum sérstætt færi á því að fylgjast með þróun íslensks framburðar á 20. öld.

Frá því laust fyrir miðja 20. öld hafa verið gerðar ýmsar athuganir á útbreiðslu orða og staðbundnum orðaforða á Íslandi. Þar ber fyrst að nefna Talmálssafn Orðabókar Háskólans, en á Orðabókinni hefur verið unnið skipulega að því að kanna orðanotkun í mæltu máli, ekki síst í þáttunum Íslenskt mál sem lengi hafa verið í Ríkisútvarpinu. Jón Aðalsteinn Jónsson (1953, 1964) og Helgi Guðmundsson (1959, 1969) eru meðal þeirra sem hafa skrifað um það efni, svo og ýmsir nemendur Helga í óbirtum B.A.-ritgerðum við Háskóla Íslands. Þá hefur svissneski prófessorinn Oskar Bandle skrifað um útbreiðslu valinna orða á Íslandi og öðrum Norðurlöndum (sjá Oskar Bandle 1967, 1997 og rit sem þar er vísað til).

Markmið þeirra Oskars Bandle og Helga var að hluta til það að reyna að afmarka mállýskusvæði á Íslandi, auk þess sem Bandle vildi freista þess að finna hvaða landshlutar í Noregi væru líkastir íslensku og færeysku í orðafari á völdum sviðum. Ólíkt Birni Guðfinnssyni freistuðu þeir þess að sýna mállýskumörkin á mállýskukortum. Þannig sýna sum kort Bandles útbreiðslu skyldra orða um ýmislegt sem varðar búfé í Noregi, Færeyjum og á Íslandi, en kort Helga útbreiðslu mismunandi afbrigða á heitum þess fugls sem oftast er nefndur jaðrakan á Íslandi.

  • Útbreiðsla norrænna orða um líkamshluta dýra. Oskar Bandle. 1967. Studien zur westnordischen Sprachgeographie. Haustierterminologie im Norwegischen, Isländischen und Färöischen. B. Kartenband. Árnastofnun, Kaupmannahöfn.

  • Fuglaheitið jaðrakan og fleiri myndir þess. Helgi Guðmundsson. 1969. Fuglsheitið jaðrakan. Afmælisrit Jóns Helgasonar 30. júní 1969, bls. 364–386. Heimskringla, Reykjavík.

Fyrstu áratugina eftir að Björn Guðfinnsson lauk sinni viðamiklu framburðarrannsókn lágu skipulegar rannsóknir á íslenskum framburðarmállýskum að mestu leyti niðri. Sænski prófessorinn Karl-Hampus Dahlstedt (1958) gerði niðurstöðurnar úr yfirlitsrannsóknum Björns þó aðgengilegri en þær höfðu áður verið með því að setja þær fram á útbreiðslukortum sem sýndu helstu mállýskumörk.

Nokkur mállýskueinkenni á sama korti. Karl-Hampus Dahlstedt. 1958. Íslenzk mállýskulandafræði. Nokkrar athugasemdir. Skírnir 132:29–63.

Útbreiðsla sumra þessara mállýskuatriða er enn svipuð þótt sum hafi hörfað meira en önnur (sjá ).

Undir 1980 fóru rannsóknir á íslenskum framburðarmállýskum að glæðast á ný. Þar reið Ingólfur Pálmason á vaðið með rannsókn á framburði í Austur-Skaftafellssýslu. Ingólfur fór í tvær efnissöfnunarferðir þangað, sumurin 1978 og 1979 og birti helstu niðurstöður í ÍSLENSKU MÁLI (1983). Hann komst m.a. að því að hinn svonefndi rn-, rl-framburður er nú næstum horfinn í Austur-Skaftafellssýslu en skaftfellski einhljóðaframburðurinn lifir þar allgóðu lífi.

Loks má hér nefna fróðlega athugun Birnu Arnbjörnsdóttur á flámæli í vesturíslensku (1987). Birna komst að því að flámæli væri áberandi einkenni á vesturíslensku. Birna telur að einungis um fjórðungur vesturfara hafi komið af þeim svæðum sem voru aðalflámælissvæðin þegar Björn Guðfinnsson gerði sína athugun. Þess vegna hljóti flámæli í vesturíslensku að hafa þróast að hluta til á sjálfstæðan hátt.

Uppruni vesturfara. Birna Arnbjörnsdóttir. 1987. Flámæli í vesturíslensku. Íslenskt mál 9:23–40.

2.3 Rannsókn á íslensku nútímamáli

Árið 1980 hófu Höskuldur Þráinsson og Kristján Árnason umfangsmikla rannsókn á íslenskum framburðarmállýskum. Þessi rannsókn hefur gengið undir nafninu RÍN (Rannsókn á íslensku nútímamáli). Rannsóknin náði til allra aldurshópa í öllum landshlutum, eða alls um 2900 þátttakenda (um 1500 karla og 1400 kvenna). Markmiðið var að ná til um það bil 100 einstaklinga í hverri sýslu, en þeir urðu þó talsvert fleiri í stærstu sýslunum, einkum þar sem þorp og kaupstaðir voru innan sýslumarkanna. Í litlum og fámennum sýslum urðu þátttakendur þó talsvert færri. Stærstu aldurshóparnir voru unglingar á aldrinum 12–20 ára (um 1150) og aldurshópurinn 46–55 ára (um 650), enda var ætlunin að bera framburð þessara hópa sérstaklega saman við framburð þess hóps sem Björn Guðfinnsson kannaði á sínum tíma (það voru unglingar um tólf ára aldur á árunum eftir 1940, en þeir voru komnir á aldurinn 46–55 ára þegar gögnum RÍN var safnað). Aldurshópurinn 21–45 ára var líka fjölmennur (um 600), en færri voru í elstu hópunum (um 300 á aldrinum 56–70 ára og um 200 voru 71 árs eða eldri).

Auk þess að beita lestraraðferð og nota að hluta til sögutexta notuðu Höskuldur og Kristján mállýskumyndir til að kalla fram einstök orð og umræður um þau. Með þessu móti var ætlunin að fá fram tal sem ekki væri bundið við lestur.

Stigi, fluga, englar. Dæmi úr framburðarkönnun RÍN. Hér er leitað mállýskuframburðar á orðunum stigi, fluga og englar, það er að segja skaftfellsks einhljóðaframburðar, flámælis og ngl-framburðar.

Helstu niðurstöður úr RÍN voru svo að einhverju leyti bornar saman við niðurstöður úr rannsókn Björns Guðfinnssonar. Þar sem efnissöfnun Björns fór fram um það bil 40 árum áður en efni RÍN var safnað gefur slíkur samanburður góða hugmynd um þróun íslenskra mállýskna á síðari hluta 20. aldar.

3. Nokkrar íslenskar mállýskur

3.1 Staðbundnar framburðarmállýskur á Íslandi

Hér á eftir fer einfaldað yfirlit yfir staðbundnar framburðarmállýskur á Íslandi. Landfræðileg mállýskumörk á Íslandi eru ekki mjög skýr og aukin umferð og samgöngur milli landshluta, ásamt útvarpi, sjónvarpi og öðrum fjölmiðlum hafa áreiðanlega stuðlað að því að draga úr staðbundnum mállýskumun. Þrátt fyrir þetta má kannski skipta staðbundnum mállýskueinkennum í þrjá flokka til gleggra yfirlits og tengja þau þá í grófum dráttum við Norðurland, Suðausturland og Vestfirði. Þetta verður gert hér, þótt í þessu felist veruleg einföldun.

3.1.1 Norðlensk mállýskueinkenni

Það er kallað HARÐMÆLI þegar menn bera fram fráblásin lokhljóð á eftir löngu sérhljóði. Hið gangstæða er þá kallað linmæli. Dæmi:

Harðmæli: api [aːpʰɪ], ýta [iːtʰa], vaki [vaːcʰɪ], vaka [vaːkʰa]
Linmæli: api [aːpɪ], ýta [iːta], vaki [vaːcɪ], vaka [vaːka]

Harðmæli er algengast á austanverðu Norðurlandi þótt harðmæltir menn finnist víðar. Þetta má sjá á útbreiðslukorti.

Harðmæli. Tíðni harðmælis í einstökum sýslum á Íslandi samkvæmt niðurstöðum RÍN. Litaskalinn sýnir meðaltíðni harðmælis fyrir alla aldurshópa í hverri sýslu eins og hér er lýst (kaupstaðir innan sýslumarkanna eru þá taldir með). Kortagerð: Jean-Pierre Biard.

Annað norðlenskt mállýskueinkenni er svonefndur RADDAÐUR FRAMBURÐUR. Þeir sem hafa raddaðan framburð bera fram raddað ‘l’, ‘m’, ‘n’ á undan ‘p’, ‘t’, ‘k’. (Þetta gildir þó ekki um l sem fer á undan t í stofni orðs. Það er yfirleitt óraddað í máli allra.) Í rödduðum framburði er ‘ð’ líka raddað á undan ‘k’. Hið gagnstæða er þá kallað ÓRADDAÐUR FRAMBURÐUR. Dæmi:

Raddaður framburður: stelpa [stɛlpʰa], hempa [hɛmpʰa], fantur [fantʰʏr], maðkur [maðkʰʏr]
Óraddaður framburður: stelpa [stɛl̥pa], hempa [hɛm̥pa], fantur [fan̥tʏr], maðkur [maθkʏr]

Raddaði framburðurinn þekkist fyrst og fremst norðaustanlands en hann er þó sjaldgæfari þar en harðmælið. Þetta má sjá á útbreiðslukorti.

Raddaður framburður. Tíðni raddaðs framburðar í einstökum sýslum á Íslandi samkvæmt niðurstöðum RÍN. Litaskalinn sýnir meðaltíðni raddaðs framburðar fyrir alla aldurshópa í hverri sýslu (kaupstaðir meðtaldir). Kortagerð: Jean-Pierre Biard.

Svonefndur ngl-framburður tíðkast líka helst á Norðurlandi þótt honum bregði fyrir annars staðar. Honum má lýsa með dæmi:

ngl-framburður: dingla [tiŋkla]
framburður annarra: dingla [tiŋla]

Eins og hér er sýnt með hljóðritun er munurinn fólginn í því að í ngl-framburðinum heyrist lokhljóðið ‘g’ greinilega en í framburði annarra kemur aðeins fram uppgómmælt nefhljóð á undan ‘l’ í orðum af þessu tagi. Eins og sjá má af útbreiðslukorti er þessi framburður algengastur á austanverðu Norðurlandi.

ngl-framburður. Tíðni ngl-framburðar í einstökum sýslum á Íslandi samkvæmt niðurstöðum RÍN. Litaskalinn sýnir meðaltíðni ngl-framburðar fyrir alla aldurshópa í hverri sýslu eins og hér er lýst (kaupstaðir meðtaldir). Kortagerð: Jean-Pierre Biard.

Loks má nefna bð-, gð-framburð, en hann má sýna svo með dæmum:

bð-, gð-framburður: hafði, sagði [hapðɪ, sakðɪ]
framburður annarra: hafði, sagði [havðɪ, saɣðɪ]

Eins og hljóðritunin á að sýna felst bð-, gð-framburðurinn í því að borin eru fram lokhljóðin ‘b’ og ‘g’ í þessum orðum en ekki samsvarandi önghljóð. Nú virðist bð-, gð-framburður vera að hverfa og hann finnst einkum í máli elstu kynslóðanna og þá helst á norðanverðu landinu eins og fram kemur á útbreiðslukorti.

bð- gð-framburður. Tíðni bð, gð-framburðar í einstökum sýslum á Íslandi samkvæmt niðurstöðum RÍN. Litaskalinn sýnir meðaltíðni bð, gð-framburðar fyrir alla aldurshópa í hverri sýslu eins og hér er lýst (kaupstaðir meðtaldir). Kortagerð: Jean-Pierre Biard.

3.1.2 Mállýskueinkenni á Suðausturlandi

Það er nefndur HV-FRAMBURÐUR þegar menn nota uppgómmælta önghljóðið [x] í framstöðu orða sem eru rituð með ‘hv-’. Andstæðan er nefnd kv-framburður. Eins og fram kemur af eftirfarandi dæmum eru til þrenns konar afbrigði af hv-framburði:

hv-framburður: hver, hvalur [xvɛːr, xvaːlʏr], [xʷɛːr, xʷaːlʏr], [xɛːr, xaːlʏr]
kv-framburður: hver, hvalur [kʰvɛːr, kʰvaːlʏr]

Fyrri tvö afbrigðin af hv-framburði sem hér eru sýnd eru venjulega nefnd kringd af því að varirnar koma þá við sögu við myndun [x]-hljóðsins en síðasta afbrigðið er nefnt ókringt. hv-framburður finnst víðar en á Suðausturlandi þótt hann virðist einna sterkastur þar, eins og fram kemur á útbreiðslukorti. Eins og sýnt verður í kafla 3.2 er hv-framburðurinn á hröðu undanhaldi, einnig á þeim svæðum þar sem hann er algengastur.

hv-framburður. Tíðni hv-framburðar í einstökum sýslum á Íslandi samkvæmt niðurstöðum RÍN. Litaskalinn sýnir meðaltíðni ngl-framburðar fyrir alla aldurshópa í hverri sýslu eins og hér er lýst (kaupstaðir meðtaldir). Kortagerð: Jean-Pierre Biard.

Svonefndur SKAFTFELLSKUR EINHLJÓÐAFRAMBURÐUR er einkum bundinn við Suðausturland eins og nafnið bendir til. Þeir sem hafa þann framburð bera fram löng einhljóð á undan ‘-gi-’ (frb. [jɪ]). Andstæðan er nefnd tvíhljóðaframburður. Muninn má sýna með hljóðrituðum dæmum:

Einhljóðaframburður: magi, lögin, Hugi, sigi [maːjɪ, lœːjɪn, hʏːjɪ, sɪːjɪ]
Tvíhljóðaframburður: magi, lögin, Hugi, sigi [maijːɪ, lœijːɪn, hʏijːɪ, sijːɪ]

Einhljóðaframburðurinn helst ennþá sæmilega í Skaftafellssýslum og er líka nokkuð áberandi í Suður-Múlasýslu og Vestmannaeyjum eins og fram kemur á útbreiðslukorti. Honum bregður líka fyrir annars staðar á landinu.

Skaftfellskur einhljóðaframburður. Tíðni skaftfellsks einhljóðaframburðar í einstökum sýslum á Íslandi samkvæmt niðurstöðum RÍN. Litaskalinn sýnir meðaltíðni ngl-framburðar fyrir alla aldurshópa í hverri sýslu eins og hér er lýst (kaupstaðir meðtaldir). Kortagerð: Jean-Pierre Biard.

Loks er að nefna RN-, RL-FRAMBURÐ sem var algengur í Austur-Skaftafellssýslu fyrr á öldinni en er nú að hverfa þar. Þeir sem hafa þennan framburð skjóta ekki inn lokhljóði í ‘rn-’, ‘rl’-sambönd eins og aðrir landsmenn. Munurinn verður þá þessi:

rn-, rl-framburður: Árni, Sturla [aurnɪ, stʏrla]
framburður annarra: Árni, Sturla [aurtnɪ, stʏrtla]

Í rannsókn RÍN kom rn-, rl-framburður aðeins fyrir í 9% tilvika í Austur-Skaftafellssýslu en víðast annars staðar varð hans alls ekki vart.

3.1.3 Vestfirsk mállýskueinkenni

Það er nefndur VESTFIRSKUR EINHLJÓÐAFRAMBURÐUR þegar menn bera fram einhljóð á undan ‘ng’, ‘nk’ þar sem aðrir hafa tvíhljóð. Þetta er mest áberandi í dæmum með ‘a’og ‘ö’ eins og þessum:

vestfirskur einhljóðaframburður: langur, töng [laŋkʏr, tʰœŋk]
framburður annarra: langur, töng [lauŋkʏr, tʰœiŋk]

Vestfirski einhljóðaframburðurinn virðist nú á hröðu undanhaldi þótt hans gæti ennþá nokkuð á Vestfjörðum, einkum í máli eldra fólks. Útbreiðslu hans má sjá á útbreiðslukorti.

Vestfirskur einhljóðaframburður. Tíðni vestfirsks einhljóðaframburðar í einstökum sýslum á Vestfjörðum samkvæmt niðurstöðum RÍN. Litaskalinn sýnir meðaltíðni einhljóðaframburðar á sérhljóðunum a og ö á undan ng, nk fyrir alla aldurshópa í hverri sýslu á Vestfjörðum eins og hér er lýst (kaupstaðir meðtaldir). Kortagerð: Jean-Pierre Biard.

Annað framburðaratriði sem einkennir mál manna á Vestfjörðum er VESTFIRSK ÁHERSLA. Hún er fólgin í því að leggja aðaláhersluna á forsetninguna í sambandinu atviksorð + forsetning + fornafn, en aðrir landsmenn hafa meiri áherslu á atviksorðinu í þessu sambandi. Dæmi:

vestfirsk áhersla: framan Í þig [framan ̍iːðɪɣ]; út ÚR mér [ut ̍uːrmjɛr]
áhersla annarra: framan í þig [̍fraːmaniðɪɣ]; út úr mér [̍uːturmjɛr]

Vegna þess að sérhljóðalengd er háð áherslu, hefur vestfirska áherslan áhrif á hana eins og sýnt er í hljóðrituninni.

Eðli sínu samkvæmt kemur vestfirska áherslan aðeins fyrir í samfelldu máli. Hún kemur ekki fyrir í lestri nema hjá þeim sem lesa verulega liðlega. Þess vegna er dálítið erfitt að rannsaka útbreiðslu hennar skipulega. Rannsóknir RÍN benda til þess að hún finnist um alla Vestfirði en tíðnitölur fyrir hana á útbreiðslukorti eru áreiðanlega of lágar af ástæðum sem þegar er lýst.

Vestfirsk áhersla. Tíðni vestfirskrar áherslu í einstökum sýslum á Vestfjörðum samkvæmt niðurstöðum RÍN. Litaskalinn sýnir meðaltíðni vestfirskrar áherslu fyrir alla aldurshópa í hverri sýslu á Vestfjörðum eins og hér er lýst (kaupstaðir meðtaldir). Kortagerð: Jean-Pierre Biard.

3.2 Mállýskueinkenni tengd þjóðfélagshópum

3.2.1 Dæmi um framburðarnýjungar í máli yngstu kynslóðanna

Flestir vita að ungt fólk notar annan orðaforða en fullorðið fólk eða gamalt. Færri vita kannski að framburður getur verið býsna mismunandi eftir kynslóðum. Hér verða fyrst nefndar tvær framburðarnýjungar sem virðast einkum finnast í máli yngri kynslóðanna.

Svonefndur KS-FRAMBURÐUR er fólginn í því að bera fram [ks] í orðum þar sem aðrir bera fram [xs]. Þetta á t.d. við um orð sem skrifuð eru með bókstafnum ‘x’ (eða með ‘-gs-’ eða með ‘-ks-’). Dæmi:

ks-framburður: vaxa, hugsa [vaksa, hʏksa]
framburður annarra: vaxa, hugsa [vaxsa, hʏxsa]

Hér sést að þeir sem hafa ks-framburð nota uppgómmælt lokhljóð á undan ‘s’ þar sem aðrir nota uppgómmælt önghljóð. Þessi nýjung virðist býsna algeng í máli ungs fólks víða um land en hún er mun sjaldgæfari í máli eldri kynslóðanna, eins og sést á súluriti.

ks-framburður. Tíðni ks-framburðar meðal einstakra aldurshópa (%). Tölurnar sýna meðaltalstíðni fyrir allt landið. Kortagerð: Jean-Pierre Biard.

Önnur framburðarnýjung í máli yngstu kynslóðarinnar, sjaldgæfari en ks-framburðurinn, er svonefnt HÖGGMÆLI. Það er fólgið í því að nota svokallað raddbandalokhljóð í stað munnlokhljóðs á undan ‘n’. Raddbandalokhljóð er lokhljóð sem myndast með því að raddböndin eru klemmd saman og það er táknað með [ʔ] í hljóðritun. Mun höggmælis og annars framburðar má því sýna eins og hér er gert:

höggmæli: Ragnar [raʔnar]
annar framburður: Ragnar [raknar]

Þessi framburður virðist enn sem komið er helst tíðkast í Reykjavík, ef marka má gögn RÍN, og þar er hann algengastur hjá yngstu kynslóðinni þótt hann sé greinilegur minnihlutaframburður þar. Þetta má sjá á súluriti.

Höggmæli. Tíðni höggmælis meðal einstakra aldurshópa í Reykjavík (%). Kortagerð: Jean-Pierre Biard.

/P>
3.2.2 Staðbundin mállýskueinkenni og aldur

Sum þeirra staðbundnu mállýskueinkenna sem hér hefur verið lýst eru á undanhaldi. Þetta má bæði sjá með því að bera niðurstöður RÍN saman við niðurstöður úr rannsókn Björns Guðfinnssonar en einnig með því að bera saman tíðni þessara framburðareinkenna hjá einstökum aldurshópum. Á súluriti má t.d. sjá að tíðni hv-framburðar og flámælis á ‘i’, ‘u’ á landsvísu er mun minni í yngstu aldurshópunum en þeim eldri.

hv-framburður og flámæli eftir aldri. Tíðni hv-framburðar og flámælis á i, u á landsvísu (%). Kortagerð: Jean-Pierre Biard.

Nokkuð önnur mynd kemur fram ef litið er á harðmæli á landsvísu á þennan hátt. Það framburðareinkenni virðist algengast hjá „fólki á besta aldri“ ef litið er á dæmið á landsvísu. Þetta má sjá á súluriti.

Harðmæli eftir aldri. Tíðni harðmælis á landsvísu í mismunandi aldurshópum (%). Kortagerð: Jean-Pierre Biard.

Hér skal ekki fullyrt um ástæðurnar fyrir þessu, en e.t.v. tengist þetta því að harðmæli þyki fínn framburður sem ástæða sé til að temja sér þegar menn taka þátt í kapphlaupi vinnumarkaðarins. Þó er rétt að nefna að afstaða almennings til mismunandi mállýskna hefur lítið verið könnuð hér á landi.

Loks má skoða stöðu nokkurra staðbundinna framburðareinkenna á þeim svæðum þar sem þau tíðkast helst. Þá kemur í ljós að sum þeirra eru á allhröðu undanhaldi á þessum svæðum.

  • Raddaður framburður eftir aldri (Skagafjarðarsýsla, Eyjafjarðarsýsla, Suður-Þingeyjarsýsla, Norður-Þingeyjarsýsla, Norður-Múlasýsla). Tölurnar sýna meðaltalstíðni fyrir svæðið sem er auðkennt á kortinu. Þetta framburðareinkenni er greinilega á undanhaldi, þ.e. sjaldgæfara í yngri aldurshópunu

  • bð-, gð-framburður eftir aldri (Austur-Húnavatnssýsla, Skagafjarðarsýsla, Eyjafjarðarsýsla, Suður-Þingeyjarsýsla). Tölurnar sýna meðaltalstíðni fyrir svæðið sem er auðkennt á kortinu. Þetta framburðareinkenni er greinilega á undanhaldi, þ.e. sjaldgæfara í yngri aldurshópunum en hinum eldri. Kortagerð: Jean-Pierre Biard.

  • rn-, rl-framburður eftir aldri (Austur-Skaftafellssýsla). Tölurnar sýna meðaltalstíðni fyrir svæðið sem er auðkennt á kortinu. Þetta framburðareinkenni er greinilega á undanhaldi, þ.e. sjaldgæfara í yngri aldurshópunum en hinum eldri. Kortagerð: Jean-Pierre Biard.

  • Harðmæli eftir aldri (Austur-Húnavatnssýsla, Skagafjarðarsýsla, Eyjafjarðarsýsla, Suður-Þingeyjarsýsla, Norður-Þingeyjarsýsla, Norður-Múlasýsla, Suður-Múlasýsla). Tölurnar sýna meðaltalstíðni fyrir svæðið sem er auðkennt á kortinu.Þetta mállýskuatriði virðist halda sér allvel eða að minnsta kosti. ekki vera á hröðu undanhaldi (þetta eru ekki nákvæmar tölur en þær eru vísbending). Kortagerð: Jean-Pierre Biard.

  • ngl-framburður eftir aldri (Skagafjarðarsýsla, Eyjafjarðarsýsla, Suður-Þingeyjarsýsla, Norður-Þingeyjarsýsla). Tölurnar sýna meðaltalstíðni fyrir svæðið sem er auðkennt á kortinu.Þetta mállýskuatriði virðist halda sér allvel eða að minnsta kosti. ekki vera á hröðu undanhaldi (þetta eru ekki nákvæmar tölur en þær eru vísbending). Kortagerð: Jean-Pierre Biard.

Þetta á t.d. við umraddaðan framburð, bð-, gð-framburð, rn-, rl-framburð og vestfirskan einhljóðaframburð. Í öllum tilvikum eru þessi framburðaratriði sjaldgæfari hjá yngri aldurshópunum og sum þeirra eru nánast horfin í þeim hópum. Ýmis önnur staðbundin framburðareinkenni halda sér betur, þ.e. lítill munur er á tíðni þeirra í einstökum aldurshópum. Þannig er t.d. um harðmæli, ngl-framburð og skaftfellskan einhljóðaframburð eins og sýnt er á súluritunum. Ekki er ljóst hvað veldur því að sum staðbundin framburðareinkenni halda sér betur en önnur en sjálfsagt koma þar ýmsir samverkandi þættir við sögu (sjá t.d. umræðu hjá Höskuldi Þráinssyni og Kristjáni Árnasyni 1992 og í ritum sem þar er vísað til).

3.2.3 Dæmi um kynbundinn mállýskumun

Stundum er sagt að konur tali oftar „á innsoginu“ en karlar, segi t.d. ‘já’, ‘nei’ og dragi að sér andann um leið. Þetta er erfitt að sýna með hljóðritun en það má heyra þetta á hljóðdæmi:

innsogsframburður: já, nei
venjulegur framburður: já, nei

Tengsl þessa framburðar við kyn hafa ekki verið rannsökuð skipulega.

Í ýmsum erlendum mállýskurannsóknum hefur komið fram að konur eru fljótari til en karlar að leggja niður staðbundnar mállýskur sem eru á undanhaldi og að sama skapi líklegri til að taka upp framburðarnýjungar sem eru í sókn ( Breytileiki í máli). Finna má merki um þetta í íslenskum mállýskum. Þannig er hv-framburður nokkru sjaldgæfari á landsvísu í máli kvenna en karla en nýjungin ks-framburður aftur á móti algengari.

Dæmi um kynbundinn mállýskumun á Íslandi. Tölurnar sýna meðaltalstíðni fyrir allt landið. Fyrra dæmið er um mállýsku á undanhaldi en það síðara framburðarnýjung sem virðist vera í sókn. Kortagerð: Jean-Pierre Biard.

Svipuð mynd kemur í ljós ef litið er á tölur fyrir framburðarmállýskur sem eru staðbundnari en þessar, svo sem raddaðan framburð, bð-, gð-framburð, rn-, rl-framburð og vestfirskan einhljóðaframburð.

  • Raddaður framburður eftir kynferði (Skagafjarðarsýsla, Eyjafjarðarsýsla, Suður-Þingeyjarsýsla, Norður-Þingeyjarsýsla og Norður-Múlasýsla). Tölurnar sýna meðaltalstíðni fyrir þetta mállýskuatriði sem er á undanhaldi á svæðinu sem aukennt er á kortinu. Það er sjaldgæfara í máli kvenna en karla (þetta eru ekki nákvæmar tölur en þær eru vísbending). Kortagerð: Jean-Pierre Biard.

  • Tvíhólfa a. Á þessari mynd úr AM 343 fol, Svalbarðsbók, frá um 1330-1340) sést greinilega að 'a' er tvíhólfa, en ekki einshólfs eins og í skrift nútímans (og skáletri) og ekki heldur eins og í beinu prentletri (a). Ljósmynd: Jóhanna Ólafsdóttir, Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi.

  • bð-, gð-framburður eftir kynferði (Austur-Húnavatnssýsla, Skagafjarðarsýsla, Eyjafjarðarsýsla og Suður-Þingeyjarsýsla). Tölurnar sýna meðaltalstíðni fyrir þetta mállýskuatriði sem er á undanhaldi á svæðinu sem aukennt er á kortinu. Það er sjaldgæfara í máli kvenna en karla (þetta eru ekki nákvæmar tölur en þær eru vísbending). Kortagerð: Jean-Pierre Biard.

  • Vestfirskur einhljóðaframburður á a + ö með hliðsjón af kynferði (Vestur-Barðastrandarsýsla, Vestur-Barðastrandarsýsla, Vestur-Ísafjarðarsýsla, Norður-Ísafjarðarsýsla, Strandasýsla). Tölurnar sýna meðaltalstíðni fyrir þetta mállýskuatriði sem er á undanhaldi á svæðinu sem aukennt er á kortinu. Það er sjaldgæfara í máli kvenna en karla (þetta eru ekki nákvæmar tölur en þær eru vísbending). Kortagerð: Jean-Pierre Biard.

Í öllum tilvikum er um að ræða mállýskuatriði á undanhaldi á þeim svæðum þar sem þeirra gætir eitthvað á annað borð og þá eru konurnar fljótari að taka upp nýjungina og leggja gamla framburðinn niður.

Þessi munur milli framburðar karla og kvenna verður miklu minni og stundum enginn ef litið er á staðbundnar mállýskur sem halda sér betur, eins og til dæmis harðmæli og ngl-framburð á norðanverðu landinu og skaftfellskan einhljóðaframburð á Suðausturlandi.

  • Harðmæli (Austur-Húnavatnssýsla, Skagafjarðarsýsla, Eyjafjarðarsýsla, Suður-Þingeyjarsýsla, Norður-Þingeyjarsýsla, Norður-Múlasýsla, Suður-Múlasýsla). Tölurnar sýna meðaltalstíðni fyrir þetta mállýskuatriði sem tíðkast á svæðinu sem er auðkennt á kortinu og er nokkuð stöðugt þar (að minnsta kosti ekki á hröðu undanhaldi). Það er álíka algengt í máli kvenna og karla (þetta eru ekki nákvæmar tölur en þær eru vísbending). Kortagerð: Jean-Pierre Biard.

  • ngl-framburður með hliðsjón af kynferði (Skagafjarðarsýsla, Eyjafjarðarsýsla, Suður-Þingeyjarsýsla, Norður-Þingeyjarsýsla). Tölurnar sýna meðaltalstíðni fyrir þetta mállýskuatriði sem tíðkast á svæðinu sem er auðkennt á kortinu og er nokkuð stöðugt þar (að minnsta kosti ekki á hröðu undanhaldi). Það er álíka algengt í máli kvenna og karla (þetta eru ekki nákvæmar tölur en þær eru vísbending). Kortagerð: Jean-Pierre Biard.

  • Skaftfellskur einhljóðaframburður með hliðsjón af kynferði (Suður-Múlasýsla, Austur-Skaftafellssýsla, Vestur-Skaftafellssýsla, Vestmannaeyjar). Tölurnar sýna meðaltalstíðni fyrir þetta mállýskuatriði sem tíðkast á svæðinu sem er auðkennt á kortinu og er nokkuð stöðugt þar (að minnsta kosti ekki á hröðu undanhaldi). Það er álíka algengt í máli kvenna og karla (þetta eru ekki nákvæmar tölur en þær eru vísbending). Kortagerð: Jean-Pierre Biard.

Áreiðanlega má finna fleiri dæmi um málfarsmun kvenna og karla á Íslandi, t.d. í orðaforða, en rannsóknir á kynbundnum málfarsmun í íslensku eru á frumstigi.

3.2.4 Stéttbundnar mállýskur?

Eins og áður er getið hafa litlar rannsóknir verið gerðar á sambandi málfarsatriða og stéttarstöðu á Íslandi, enda stéttamunur ef til vill ekki eins ljós hér og víða annars staðar. Hér verða aðeins nefnd tvö dæmi um hugsanleg tengsl stéttar og málfarsatriða.

Ásta Svavarsdóttir hefur kannað fallanotkun skólabarna með nokkrum ópersónulegum sögnum. Nánar tiltekið var hún að skoða svonefnda ÞÁGUFALLSSÝKI, þ.e. þá málvenju að nota fremur þágufall en þolfall með sögnum eins og langa, vanta og segja þá ‘MÉR langar’ og ‘HONUM vantar’ (sjá grein Ástu 1982 og grein Ástu, Gísla Pálssonar og Þórólfs Þórlindssonar 1984). Fram kom að nokkur tengsl virðast vera á milli fallanotkunar og stéttarstöðu á þann veg að börn úr lægri stéttum voru líklegri til að nota þágufall með þessum sögnum en börn úr hærri stétt. Þetta má sjá á mynd úr grein Ástu og félaga (1984).

Félagsstaða og þágufallsvillur. Ásta Svavarsdóttir, Gísli Pálsson & Þórólfur Þórlindsson. 1984. Fall er fararheill. Um fallnotkun með ópersónulegum sögnum. Íslenskt mál 6:33–55.

Þetta tengist sjálfsagt þeirri staðreynd að lengi hefur verið kennt í skólum að þágufallssýki væri rangt mál. Sá stéttarkvarði sem notaður var í rannsókn Ástu og félaga tengist m.a. menntun og skólagöngu og langskólagengnir menn hafa augljóslega verið þjálfaðir lengur en óskólagengnir í því að forðast þágufallssýki. Þetta kann að endurspeglast í málfari barna þeirra.

Annað dæmi má sækja í athuganir RÍN. Í grein um málfar Reykvíkinga segja Höskuldur Þráinsson og Kristján Árnason að marktæk tengsl séu milli harðmælis og menntunar hjá Reykvíkingum, þannig að harðmæli fari vaxandi með aukinni menntun. Þetta sýna þeir á línuriti.

Línurit yfir tengsl harðmælis og menntunar. Höskuldur Þráinsson og Kristján Árnason. 1984. Um reykvísku. Íslenskt mál 6:113–134.

Eins og þeir benda á er ekki alveg ljóst hvernig á að skýra þetta. Harðmæli er að verulegu leyti staðbundinn framburður og algengastur á Norðurlandi og e.t.v. er hlutfall Norðlendinga hærra í hópi menntamanna í Reykjavík en í öðrum hópum þar, af því að þeir Norðlendingar sem flytjast til Reykjavíkur eru kannski líklegri til að vera menntamenn en ómenntaðir.

Hér verður ekki rætt frekar um hugsanleg tengsl stéttarstöðu og málfarseinkenna í íslensku, en fróðlegt væri að kanna þau nánar.

Heimildaskrá

Árni Böðvarsson. 1951. Þáttur um málfræðistörf Eggerts Ólafssonar. Skírnir 125:156–172.

Árni Magnússon. 1930. Árni Magnússons levned og skrifter 2. Kaupmannahöfn 1930.

Ásta Svavarsdóttir. 1982. „Þágufallssýki“. Breytingar á fallanotkun í frumlagssæti ópersónulegra setninga. Íslenskt mál 4:19–62.

Ásta Svavarsdóttir, Gísli Pálsson & Þórólfur Þórlindsson. 1984. Fall er fararheill. Um fallnotkun með ópersónulegum sögnum. Íslenskt mál 6:33–55.

Bandle, Oskar. 1967. Studien zur westnordischen Sprachgeographie. Haustierterminologie im Norwegischen, Isländischen und Färöischen. A. Textband. B. Kartenband. Árnastofnun, Kaupmannahöfn.

&alvorulangtstrik;. 1997. Islandsk dialektgeografi. Problem og resultat. Íslensk málsaga og textafræði, ritstj. Úlfar Bragason. Bls. 9–21. Stofnun Sigurðar Nordals, Reykjavík.

Birna Arnbjörnsdóttir. 1987. Flámæli í vesturíslensku. Íslenskt mál 9:23–40.

Blöndalsorðabók = Íslensk–dönsk orðabók. Ritstjóri Sigfús Blöndal. Kaupmannahöfn og Reykjavík, 1920–24. [Ljósprentaðar útgáfur 1952 og 1980, kostaðar af Íslensk-dönskum orðabókarsjóði, Reykjavík.]

Dahlstedt, Karl-Hampus. 1958. Íslenzk mállýskulandafræði. Nokkrar athugasemdir. Skírnir 132:29–63.

Eggert Ólafsson. 1943. Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar um ferðir þeirra á Íslandi árin 1752–1757. Íslensk þýðing eftir Steindór Steindórsson. Ísafoldarprentsmiðja, Reykjavík.

Guðvarður Már Gunnlaugsson. 1987. Íslenskar mállýskurannsóknir. Yfirlit. Íslenskt mál 9:163–174.

Helgi Guðmundsson. 1959. Máki, mákur. Lingua Islandica – Íslenzk tunga 1:47–54.

&alvorulangtstrik;. 1969. Fuglsheitið jaðrakan. Afmælisrit Jóns Helgasonar 30. júní 1969, bls. 364–386. Heimskringla, Reykjavík.

Hreinn Benediktsson. 1961–62. Icelandic Dialectology: Methods and Results. Lingua Islandica – Íslenzk tunga 3:72–113.

Höskuldur Þráinsson og Kristján Árnason. 1984. Um reykvísku. Íslenskt mál 6:113–134.

Höskuldur Þráinsson og Kristján Árnason. 1986. Um skagfirsku. Íslenskt mál 8:31–62.

Höskuldur Þráinsson og Kristján Árnason. 1992. Phonological Variation in 20th Century Icelandic. Íslenskt mál 14:89–128.

Ingólfur Pálmason. 1983. Athugun á framburði nokkurra Öræfinga, Suðursveitunga og Hornfirðinga. Íslenskt mál 5:29–51.

Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns.

Jón Aðalsteinn Jónson. 1953. Lítil athugun á skaftfellskum mállýskuatriðum. Afmæliskveðja til próf. dr. phil. Alexanders Jóhannessonar háskólarektors 15. júlí 1953 frá samstarfsmönnum og nemendum, bls. 139–150. Helgafell, Reykjavík.

&alvorulangtstrik;. 1964. Íslenzkar mállýzkur. Halldór Halldórsson (ritstj.): Þættir um íslenzkt mál eftir nokkra íslenzka málfræðinga, bls. 65–87. Almenna bókafélagið.

Jón Ófeigsson. 1920–23. Træk af moderne islandsk Lydlære. Sigfús Blöndal (ritstj.): Íslensk-dönsk orðabók, bls. XIV–XXVII. Kaupmannahöfn og Reykjavík.

Kristján Árnason. 1987. Icelandic Dialects Forty Years Later: The (Non-)survival of Some Northern and South-Eastern Features. Pirkko Lilius og Mirja Saari (ritstj.): The Nordic Languages and Modern Linguistics 6, bls. 79–92. Helsinki University Press, Helsinki.

Kristján Árnason og Höskuldur Þráinsson. 1983. Um málfar Vestur-Skaftfellinga. Íslenskt mál 5:81–103.

Páll Vídalín. 1854. Skýringar yfir Fornyrði Lögbókar þeirrar, er Jónsbók kallast. Hið íslenzka bókmenntafélag, Reykjavík.

Stefán Einarsson. 1932a. Um mál á Fljótsdalshéraði og Austfjörðum 1930. Skírnir 106:33–54.

&alvorulangtstrik;. 1932b. Icelandic Dialect Studies 1. Austfirðir. Journal of English and Germanic Philology 31:537–572.

Valdimar Ásmundarson. 1878. Stuttar rjettritunarreglur með málfræðilegum skýringum. Reykjavík.