Greinar

Svandís Svavarsdóttir
Táknmál og táknmálskennsla

1. Hvað er táknmál?

Táknmál er mál sem talað er með höndum, svipbrigðum og hreyfingum andlits, munns og líkama og skynjað með sjón. Táknmál er talað af heyrnarlausum um allan heim og líta þeir á það sem sitt móðurmál.

2. Málsamfélagið

Alls staðar þar sem tveir eða fleiri heyrnarlausir koma saman er talað táknmál. Fæstir heyrnarlausir eiga heyrnarlausa foreldra og læra þeir því táknmálið ekki fyrst og fremst af foreldrum sínum heldur af öðrum heyrnarlausum. Sumir segja að heyrnarlausir séu í rauninni málminnihlutahópur og táknmálið sé minnihlutamál. Táknmálið er móðurmál heyrnarlausra en er ekki víða viðurkennt sem slíkt þótt sífellt séu að bætast í hópinn ný lönd sem viðurkenna táknmál sem móðurmál heyrnarlausra. Alls staðar í heiminum er baráttan fyrir löggildingu táknmáls sem móðurmáls efst á blaði hjá félögum heyrnarlausra.

2.1 Táknmál í heiminum

Táknmál heimsins eru fjölmörg. Hvert land hefur sitt táknmál og í mörgum löndum eru töluð ýmis afbrigði sama táknmálsins, eins konar mállýskur. Skyldleiki táknmálanna er oft ólíkur skyldleika raddmálanna í viðkomandi löndum. Til dæmis er bandaríska táknmálið talið töluvert skylt því franska en nánast ekkert skylt því enska. Heyrnarlaus Bandaríkjamaður á auðveldara með að tala við heyrnarlausan Frakka en heyrnarlausan Breta! Íslenska táknmálið er að líkindum skyldast því danska. Fyrir því eru að minnsta kosti tvær ástæður. Sú fyrri er að fram eftir nítjándu öldinni var enginn skóli fyrir heyrnarlausa á Íslandi og því eðlilegast að senda nemendur til Danmerkur. Önnur ástæðan er sú að lengi vel voru kennarar heyrnarlausra menntaðir í Danmörku.

2.2 Aldursmunur

Táknmál breytist mjög hratt. Táknmálið sem aldraðir í samfélagi heyrnarlausra tala er því töluvert ólíkt því sem unga fólkið talar. Heyrnarlaus unglingur getur átt í erfiðleikum með að skilja gamalt heyrnarlaust fólk. Geta má sér til um ástæður þessa. Ein gæti verið sú að táknmál á sér ekkert ritmál og festist þess vegna ekki í sessi á sama hátt og mál sem eiga sér ritmál. Auk þess er táknmál ekki opinbert mál og er þess vegna hvergi til staðlað.

2.3 Kynjamunur

Svo virðist sem táknmál karla og kvenna sé dálítið ólíkt. Munurinn liggur fyrst og fremst í því að táknrýmið er stærra hjá körlunum og svo því að handformin eru grófari. Eins virðast sum tákn frekar vera notuð af konum en körlum og öfugt. Þetta hefur að vísu lítið verið rannsakað en einhver munur virðist vera til staðar.

2.4 Félagsleg staða málsins

Táknmál er ekki viðurkennt móðurmál heyrnarlausra þó að heyrnarlausir sjálfir líti á það sem móðurmál sitt. Félagsleg staða málsins er því veik. Heyrnarlausir fara af þessum sökum á mis við allar upplýsingar í samfélaginu sem eru á talaðri íslensku. Þar er um að ræða allt útvarpsefni og mest allt íslenskt sjónvarpsefni. Heyrnarlausir geta aðeins fylgst með því efni sem er textað á sjónvarpsskjánum. Af þessum sökum er til dæmis erfitt fyrir heyrnarlausa að fylgjast með innlendum fréttum, stjórnmálum, skemmtiefni og fleiru. Ef táknmál væri viðurkennt sem móðurmál heyrnarlausra gætu heyrnarlausir fengið betri aðgang að upplýsingum og þjónustu á táknmáli og þannig að samfélaginu.

3. Misskilningur um táknmál

Margs konar misskilningur ríkir um táknmál. Það er eðlilegt þar sem þekkingin á málinu er af skornum skammti. Með aukinni fræðslu um táknmál eyðist misskilningurinn.

3.1 Er táknmál ekki mál?

Sumir halda að táknmál sé ekki raunverulegt mál heldur einhvers konar merkjakerfi. Táknmál er fullgilt, sjálfsprottið og náttúrlegt mál sem lýtur sömu lögmálum og öll önnur náttúrleg mál. Táknmál er ekki búið til af kennurum eða túlkum fyrir heyrnarlausa heldur hefur orðið til við sammannlega þörf okkar allra til að hafa samskipti við annað fólk.

3.2 Er táknmál bara teikningar út í loftið?

Sumir halda að táknmál sé bara teikningar út í loftið, mál þar sem aðeins er hægt að tala um áþreifanlega hluti eins og hús, tré og blóm. Þetta er ekki rétt. Á táknmáli er hægt að tala um hvaðeina, tilfinningar og trúarbrögð, heimspeki og stjórnmál.

3.3 Er táknmál alþjóðlegt?

Sumir halda að táknmál sé alþjóðlegt og allir heyrnarlausir í heiminum geti því talað saman. Þetta er ekki rétt. Táknmál er mismunandi eftir löndum. Fólki gæti dottið í hug að það væri sniðugt að táknmál væri alþjóðlegt, en táknmáli er ekki hægt að stýra frekar en öðrum málum. Enginn getur ákveðið hvernig tiltekið táknmál skuli vera eða að táknmál skuli verða alþjóðlegt.

3.4 Er táknmál þjóðtungan töluð með höndunum?

Sumir halda að íslenskt táknmál sé íslenska töluð með höndunum. Orðaröðin sé sú sama og málkerfið eins. Þetta er ekki rétt. Táknmál er sérstakt mál sem hefur sína eigin málfræði sem er gjörólík málfræði íslenskunnar. Orðaröðin virðist vera frjálsari, orðasafnið ólíkt og beygingakerfið gjörólíkt.

4. Uppbygging táknmálsins

Í sérhverju tákni er um að ræða ákveðna grunnhluta táknsins: Handform, myndunarstað, afstöðu og hreyfingu. Talað er um að hjá rétthentum sé hægri höndin sú virka en sú vinstri óvirk. (Stundum líka talað um ríkjandi og víkjandi hönd.)

4.1 Smæstu einingar málsins

Sum tákn eru mynduð einungis með annarri hendinni en önnur með báðum. Þegar tákn eru mynduð með báðum höndum eru þau tvenns konar. Annars vegar svokölluð spegiltákn þar sem báðar hendur hafa sama handformið og sömu hreyfinguna. Dæmi:

  • TÁKNMÁL

  • SKÓLI

  • LEIKFIMI

Hins vegar er um að ræða tákn þar sem önnur höndin er virk en hin óvirk. Óvirka höndin er þá myndunarstaður táknsins og hefur eitt algengustu handformanna. Dæmi:
  • SPYRJA

  • KAUPA

  • HÆTTA VIÐ

4.1.1 Handform

Með handformi er átt við lögun handarinnar meðan á myndun táknsins stendur. Hvert táknmál hefur sín handform. Handform íslenska táknmálsins eru u.þ.b. 40 talsins. Þau breytast mikið í samfelldu tali. Algengustu handformin eru þau einföldustu. Í íslenska táknmálinu eru það þessi fjögur: A, S, B, 5.

Þessi handform eru líka algengust í táknmáli barna, svo og við samlaganir og brottföll og loks í táknum sem eru mynduð með báðum höndum, en handformið er ekki eins.

4.1.2 Myndunarstaður

Myndunarstaður er staðurinn á líkamanum þar sem táknið er myndað. Oft er tákn myndað í frjálsu rými, fyrir framan táknarann, stundum á óvirku hendinni og stundum annars staðar á líkamanum. Dæmi:

  • MAMMA

  • GÓÐUR

  • ÍSLAND

  • GAMAN

  • KVÍÐI

  • STRÁKUR

Þegar talað er táknmál horfist fólk í augu. Ekki er horft á hendurnar eða táknið sjálft. Því er táknið í rauninni myndað í jaðri sjónsviðsins og þess vegna eru takmörk fyrir því hversu fjölbreytileg myndun þess getur verið. Myndunarstaðir geta verið nær hver öðrum nálægt miðju sjónsviðs í andliti en í jaðri sjónsviðsins, t.d. við maga. Af þessum sökum eru mun fleiri tákn mynduð nálægt miðju sjónsviðsins.

4.1.3 Afstaða

Með afstöðu handarinnar er átt við hvernig höndin snýr þegar táknið er myndað.

4.1.4 Hreyfing

Einn meginhluti táknsins er hreyfing. Nánast öll tákn fela í sér hreyfingu þótt misflókin sé. Einfaldasta hreyfingin er snerting eða hreyfing til hægri eða niður.

  • Snerting

  • Hreyfing til hægri

  • Hreyfing niður

Aðrar hreyfingar eru mun flóknari (Dæmi: ÞORI EKKIMISSKILNINGURTRÚI EKKILEIKSKÓLIKLÁR).
  • ÞORI EKKI

  • MISSKILNINGUR

  • TRÚI EKKI

  • LEIKSKÓLI

  • KLÁR

4.1.5 Svipbrigði, munnhreyfingar og líkamsstaða

Allan tímann sem táknmál er talað er andlitið hreyft. Munnurinn er á ferð og flugi og líkaminn færist til hægri og vinstri. Allt hefur þetta málfræðilega þýðingu. Sumar munnhreyfingar eru skyldubundnar og þannig hluti af tákninu. Þetta tákn telst ekki rétt myndað ef munnhreyfingin fylgir ekki með.

Sama gildir um munnhreyfinguna í tákninu AFBRÝÐISAMUR.

Afbrýðisamur

Stundum eru munnhreyfingar og svipbrigði notuð til að auka við merkingu, t.a.m. að herða á merkingu lýsingarorða (Dæmi: FEITURMJÖG FEITUR).

  • Feitur

  • Mjög feitur

Munurinn á þessu tvennu felst aðeins í svipbrigðunum. Svipurinn felur þá í sér viðbótarmerkingu og er notaður eins og atviksorð. Loks geta svipbrigðin gegnt setningarlegu hlutverki. Munurinn á spurningu og fullyrðingu getur til dæmis legið í svipbrigðunum einum saman. Táknmál án svipbrigða og munnhreyfinga er óskiljanlegt og málfræðilega rangt.
  • Spurning

  • Fullyrðing

4.1.6 Flóknari samsetningar

Sum tákn eru flókin í uppbyggingu. Til dæmis geta verið tvö ólík handform í einu og sama tákninu eða tveir ólíkir myndunarstaðir eða jafnvel hvort tveggja.

  • Tvö ólík handform í einu og sama tákninu.

  • Tveir ólíkir myndunarstaðir.

  • Tvö ólík handform og tveir ólíkir myndunarstaðir.

4.2 Beygingar

Mörgu í táknmáli svipar til þess sem við erum vön að tala um sem beygingar. Tákn geta beygst í persónum, tölu, tíð og fleiri formdeildum.

4.2.1 Persóna

Sumar sagnir sýna persónubeygingu. Í sumum sögnum er hægt að sýna bæði frumlag og andlag sagnarinnar:

  • 2.p. SENDA 1.p.

  • 1.p. SENDA 2.p.

  • 1.p. SENDA 3.p.

  • 2.p. KENNA 1.p.

  • 1.p. KENNA 2.p.

  • 1.p. KENNA 3.p.

Aðrar sagnir eru þannig að einungis er hægt að sýna andlagið:

  • LÁTA VITA 1.p.

  • LÁTA VITA 2.p.

4.2.2 Tíð

Tíð er tjáð með ýmsum hætti í táknmáli. Oft eru notaðar svokallaðar tímalínur. Atburðum er þá raðað upp á þessa línu í tiltekinni röð eftir því sem þeir koma fyrir.

Munnhreyfing getur einnig gefið tíð til kynna og svo ef til vill hreyfiháttur sagnarinnar sem um ræðir.

4.2.3 Tala

Tölu er hægt að sýna með svokallaðri dreifingu. Þá er táknið endurtekið í hálfhring fyrir framan táknarann.

Einnig er hægt að sýna fleirtöluna með sérstöku tákni á eftir nafnorðatákninu.
Tölu er hægt að sjá í andlagi sagna sem taka persónubeygingu Dæmi:

  • 1.p. KENNA 2.p.-FT

  • 2.p. KENNA 1.p.-FT

4.3 Setningar

Setningafræðilegar upplýsingar koma gjarnan fram í svipbrigðum. Þetta gildir meðal annars um já/nei-spurningar, hv-spurningar, kjarnafærslu og skilyrðissetningar.

4.3.1 Já/nei spurning

Já/nei-spurning er spurning sem eðlilegt er að svara annað hvort með já eða nei. Dæmi: Ert þú að fara? og Finnst þér gaman í skólanum?

  • Ert þú að fara?

  • Finnst þér gaman í skólanum?

Með spurningum af þessu tagi er augabrúnum lyft og hakan látin síga lítillega. Þetta er ekki ólíkt þeim svip sem heyrandi fólk setur upp við sömu tækifæri. Hins vegar er það svo að í táknmáli hafa þessi svipbrigði beinlínis setninga- og merkingarfræðilega þýðingu.

4.3.2 Hv-spurning

Hv-spurning er spurning sem hefst á spurnarorði: hvar, hver, hvað, hvernig o.s.frv. Með þessum spurningum er sett í brýnnar og fitjað upp á nefið (Dæmi: HVER ER ÞETTA? – HVAÐ FINNST ÞÉR SKEMMTILEGAST Í SKÓLANUM? – HVERNIG FERÐU HEIM?)

  • HVER ER ÞETTA

  • HVAÐ FINNST ÞÉR SKEMMTILEGAST Í SKÓLANUM

  • HVERNIG FERÐU HEIM

4.3.3 Kjarnafærsla

Með kjarnafærslu er átt við þá tegund setninga þar sem meginefni setningar, umræðuefnið sjálft, er flutt fremst í setninguna áður en um það er fjallað (Dæmi: FUNDURINN Í GÆR, MÉR FANNST HANN GANGA VEL. – HÚSIÐ Á HORNINU, MAMMA BÝR ÞAR). Svipurinn sem um ræðir fylgir aðeins kjarnanum. Svipurinn er nánast sá sami og við já/nei-spurningar en við bætist að líkaminn er færður lítið eitt til hliðar meðan kjarninn er sagður.

  • FUNDURINN Í GÆR, MÉR FANNST HANN GANGA VEL

  • HÚSIÐ Á HORNINU, MAMMA BÝR ÞAR

4.3.4 Skilyrðissetning

Dæmi um skilyrðissetningu er setning eins og. „Ef það rignir verð ég heima.“ Skilyrðishluti setningarinnar, „Ef það rignir“ er sýndur með því að lyfta augabrúnunum, opna augun vel og reigja höfuðið lítið eitt aftur og til hliðar. Þegar skilyrðinu er lokið er dálítið hlé áður en setningunni er lokið með „verð ég heima“ og andlitið verður slakt, svipurinn hlutlaus.

4.4 Málsnið

Eins og í öðrum málum er hægt að tjá sig misformlega á táknmáli. Málsnið velur mælandinn eftir aðstæðum, viðmælanda og umræðuefni. Auðvitað er ekki um að ræða annað hvort formlegt eða ófomlegt mál heldur frekar misformlegt mál.

4.4.1 Óformlegt

Óformlegt táknmál er hraðara en formlegt. Jafnvel er þá talað aðeins með annarri hendinni. Meira er um brottföll og samlaganir og táknrýmið oft minna en í formlegu tali. Ýmis svipbrigði eru meira áberandi. Óformlegt táknmál er oftast notað í tveggja manna tali, venjulegu spjalli.

4.4.2 Formlegt

Formlegt táknmál er nákvæmt í allri myndun. Táknrýmið er jafnan stórt og allar hreyfingar stórar og nákvæmar. Svipbrigði eru hins vegar hófstilltari. Málið er skipulagt og ryþminn jafn og taktfastur. Formlegt táknmál sést helst í fyrirlestrum og ræðum, í sjónvarpi og við aðrar formlegar aðstæður.

5. Máltaka táknmáls/máluppeldi

Máltaka táknmálsins lýtur að mestu leyti sömu lögmálum og máltaka raddmála. Eitt er þó verulega frábrugðið, eða sú staðreynd að heyrnarlaus börn eiga að jafnaði foreldra með annað móðurmál. Foreldrarnir þurfa að læra táknmál eftir að heyrnarleysið er staðfest og læra málið því oft jafnhliða barninu.

5.1 Næmiskeið máltökunnar

Næmiskeið máltökunnar er hið sama hjá heyrandi börnum og heyrnarlausum. Heyrnarlaus börn þurfa því að fá öflugt málumhverfi sem fyrst til þess að máltakan megi verða sem eðlilegust. Af þeim sökum er mikilvægt að allir sem umgangast barnið tali táknmál, og langmikilvægast að allir tali táknmál alltaf þegar barnið er nærri.

5.2 Máluppeldi

Við leiðum ekki oft hugann að máluppeldi. Okkur er eiginlegt að tala við börn á ákveðinn hátt, á okkar eigin máli. Hins vegar vefst okkur tunga um tönn þegar kemur að því að tala við börn frá öðrum löndum þótt við jafnvel höfum þjóðtungu þeirra á valdi okkar. Hverjar eru reglur um einföldun og orðaforða þegar rætt er við börn á þessu tiltekna máli? Þegar heyrandi foreldrar eignast heyrnarlaust barn þurfa þeir að vera meðvitaðir um það hvað felst í máluppeldi og beita því á táknmáli. Fyrst og fremst þarf barnið að eiga táknmálsumhverfi hjá fjölskyldu sinni. Það er brýnt að barnið sjái málið sitt í notkun jafnvel þótt ekki sé verið að tala til þess. Í gegnum málið lærum við nefnilega líka ýmsar samskiptareglur, félagslega hegðun, umburðarlyndi og leiðir til að leysa ágreining. Barn sem fer á mis við þessi atriði er líklegt til að eiga í verulegum vandræðum félagslega. Það þarf að tala við barnið um hvaðeina sem fyrir augu ber og síðast en ekki síst að lesa fyrir barnið, þ.e. að þýða fyrir barnið sögur á táknmál, kynna það fyrir bókum þannig að það átti sig á því að bækur eru annar heimur og lykill að menntun og þekkingu.

5.3 Lykill að menntun

Heyrnarlaust barn sem hefur fengið sterkar málfyrirmyndir og öflugt táknmálsumhverfi eignast blæbrigðaríkt, lifandi og kraftmikið táknmál. Slíkt barn á greiðari aðgang að umheiminum en það barn sem ekki er öruggt í táknmáli. Ástæðan er sú að táknmálið er lykill að þekkingu. Vegna þess að barnið hefur samskipti á valdi sínu, kann hegðunarreglur samfélagsins og hefur þekkingu á umhverfi sínu, hefur það þann grunn sem menntun byggir á. Á táknmálinu er hægt að útskýra allt sem fyrir augu ber og ef skólinn og kennararnir hafa vald á táknmálinu getur barnið fengið kennslu á við heyrandi barn. Rannsóknir hafa sýnt að heyrnarlaus börn ná best valdi á því að lesa og skrifa á þjóðtungunni hafi þau lært að lesa á forsendum táknmálsins. Þá er allt útskýrt fyrir þeim á táknmáli og þjóðtungan og táknmálið lært jöfnum höndum með samanburði, umræðum, greiningu og skapandi starfi. Til að heyrnarlaust barn geti öðlast fullgilda menntun þarf það að hafa aðgang að bókum og öðru efni og leiðin til læsis liggur í gegnum táknmálið.

6. Umritun táknmáls

Ýmsar tilraunir hafa verið gerðar til þess að búa til umritunarkerfi fyrir táknmál. Flest þessi kerfi hafa það að markmiði að unnt sé að umrita táknmál til að geyma tákn eða rannsaka táknmál. Ekki er þá gert ráð fyrir því að kerfið sé notað af heyrnarlausum til að skrifa bréf eða skilaboð né til þess að varðveita menningu og bókmenntir. Tvö kerfi hafa virkað best, annað er þýskt og er kennt við staðinn þar sem það var fundið upp og er kallað HamNoSys (Hamburger Notation System). Hitt er danskt kerfi sem er ættað frá Bandaríkjunum upphaflega en er einfaldlega kallað Tegnskrift.

6.1 HamNoSys

Sýnishorn af HamNoSys - kerfi til að umskrifa táknmál.

HamNoSys er umritunarkerfi sem er fyrst og fremst ætlað til rannsókna. Því er ætlað að sýna nákvæmlega handform, myndunarstað, afstöðu og hreyfingu hvers tákns. Kerfið er ættað frá Þýskalandi og stendur heiti kerfisins fyrir Hamburger Notation System eða umritunarkerfið frá Hamborg.

6.2 Tegnskrift

Sýnishorn af Tegnskrift - danska táknkerfinu til að umskrifa táknmál

Danska kerfið Tegnskrift nálgast frekar að vera einskonar teikning af táknunum þar sem brugðið er upp stílfærðri mynd af mannveru og inn á myndina bætt ýmsum örvum og táknum til að sýna hreyfingu táknsins.

7. Táknmálstúlkun

Táknmálstúlkun er sérstakt fag og krefst mikillar þekkingar bæði á táknmáli og íslensku og að auki á menningu og samfélagi heyrnarlausra.

7.1 Eðli táknmálstúlkunar

Táknmálstúlkur tekur við frummálinu, þýðir í huganum og tjáir samsvarandi merkingu á þýðingarmálinu, allt á sama tíma. Túlkur þarf að vera trúr frummálinu en samt sem áður að vera meðvitaður um muninn á menningu og hugmyndaheimi heyrandi og heyrnarlausra og bæta við þeim upplýsingum sem menningarmunurinn krefst. Stundum þarf túlkur að túlka andrúmsloft og stemningu. Einnig þarf túlkur að láta heyrnarlausa manneskju hafa aðgang að upplýsingum um umhverfishljóð eins og rigningarhljóð, ungbarnagrát eða hávaða í flugvél ef samhengið krefst þess. Í sérhvert skipti þarf túlkurinn að vega og meta hversu mikilvægar upplýsingarnar eru í þessu tiltekna samhengi. Þannig er túlkurinn ekki hlutlaus þýðingarvél eða textavél heldur fagmanneskja sem sífellt vegur og metur allt umhverfið og tekur fjölda ákvarðana á hverri mínútu.

7.1.1 Lotutúlkun

Lotutúlkun felst í því að túlkurinn tekur fyrst við frummálinu, þýðir síðan og tjáir merkinguna loks á þýðingamálinu. Þessi tækni er helst notuð þegar mjög mikilvægt er að merkingin sé hárrétt eða þegar túlkurinn hefur vegna aðstæðna ekki vald á snartúlkun.

7.1.2 Snartúlkun

Snartúlkun felst í því að viðtaka, úrvinnsla og tjáning fer fram á sama tíma. Þessi tegund túlkunar er algengust í allri táknmálstúlkun.

7.2 Menntun túlka

Lengst af voru fæstir táknmálstúlkar með sérstaka menntun til starfsins og þá var enginn greinarmunur gerður á aðstoðarmönnum og túlkum. Nágranni sem var treyst við símatúlkun var líka notaður í læknaviðtali. Presturinn sem táknaði messu var fenginn til að fara með í viðtal til tryggingasölumannsins. Þetta heyrandi fólk bauð hugsanlega fram ráð og tók jafnvel ákvarðanir. Við vitum núna að „hjálp“ af þessu tagi gæti hafa endurspeglað þau viðhorf að heyrnarlausir gætu ekki borið ábyrgð á eigin viðskiptum, félagslegum eða persónulegum málum án inngrips heyrandi manneskju. Túlkun af þessu tagi á vitaskuld líka rætur að rekja til stöðu heyrnarlausra sem voru til skamms tíma mjög einangraður hópur sem hafði farið á mis við menntun og samfélagsþátttöku.

Núna er táknmálstúlkun sérstakt fag sem krefst víðast hvar á Vesturlöndum menntunar á háskólastigi. Á Íslandi hafa nokkrir túlkar verið menntaðir í samvinnu Háskóla Íslands og Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra.

8. Fingrastafrófið

Til er fingrastafróf í hverju landi, notað til þess að stafa orð eða nöfn fyrir heyrnarlausa. Stöfun er ekki eiginlegur hluti af táknmálinu heldur nokkurs konar hjálpartæki þegar þörf er á beinum ívitnunum í þjóðtunguna með einhverjum hætti. Fingrastafrófið er ekki alþjóðlegt frekar en aðrir hlutar táknmálsins. Þó hafa verið gerðar tilraunir til þess að auka útbreiðslu svokallaðs alþjóðlegs fingrastafrófs til þess að auðvelda samskipti.

8.1 Íslenska fingrastafrófið

Hér sést íslenska stafrófið og ef smellt er á staf birtist tákn hans í fingrastafrófinu:

  • A

  • Á

  • B

  • C

  • D

  • Ð

  • E

  • É

  • F

  • G

  • H

  • I

  • Í

  • J

  • K

  • L

  • M

  • N

  • O

  • Ó

  • P

  • R

  • S

  • T

  • U

  • Ú

  • V

  • W

  • X

  • Y

  • Ý

  • Z

  • Þ

  • Æ

  • Ö

8.2 Alþjóðlega fingrastafrófið

Hér sést alþjóðlega fingrastafrófið og og ef smellt er á staf birtist tákn hans í fingrastafrófinu:

  • A

  • B

  • C

  • D

  • E

  • F

  • G

  • H

  • I

  • J

  • K

  • L

  • M

  • N

  • O

  • P

  • Q

  • R

  • S

  • T

  • U

  • V

  • W

  • X

  • Y

  • Z

9. Samtalið og samskiptareglur í táknmáli

Táknmálssamtalið lýtur að nokkru leyti öðrum lögmálum en samtal heyrandi fólks. Til að mynda þurfa þeir sem taka þátt í samtalinu að sjá hverjir aðra. Sameiginlegt sjónsvið þeirra sem taka þátt í samtalinu er kallað samtalsrými.

Ef þarf að ná athygli táknmálstalandi manneskju er hendi veifað í átt til hennar. Önnur leið er að snerta hana létt á öxl og halla sér inn í sjónsviðið um leið. Enn önnur aðferð er að banka í einhvern þann flöt sem viðkomandi snertir, annaðhvort borð eða þá að stappa í gólf. Aðferðin að stappa í gólf eða banka í borð er oft notuð þegar þarf að ná athygli hjá mörgum í sömu andrá. Einnig er þá hægt að blikka ljósi tvisvar til þrisvar sinnum með því að kveikja og slökkva til skiptis. Þessar aðferðir sjást á myndböndunum hér á eftir.

  • Ef þarf að ná athygli táknmálstalandi manneskju er hendi veifað í átt til hennar.

  • Önnur leið er að snerta hana létt á öxl og halla sér inn í sjónsviðið um leið.

  • Enn önnur aðferð er að banka í einhvern þann flöt sem viðkomandi snertir, annaðhvort borð eða þá að stappa í gólf.

  • Einnig er þá hægt að blikka ljósi tvisvar til þrisvar sinnum með því að kveikja og slökkva til skiptis.

Þegar tveir standa hvor andspænis öðrum og þriðji maður þarf að komast framhjá er eðlilegast að reyna að trufla sem minnst og ganga hiklaust á milli þeirra án þess að trufla með afsökunarbeiðni eða öðrum málalengingum.