Greinar

Þóra Björk Hjartardóttir
Breytileiki í máli

1. Mállýska

Á sama hátt og við öll erum ólík í útliti tala engir tveir einstaklingar nákvæmlega eins jafnvel þótt þeir hafi sömu tungu að móðurmáli. Svo getur virst sem um sé að ræða málfarslega sérvisku hvers og eins, eða einstaklingsbundinn mun, en í flestum tilvikum er sá munur sem við greinum í málfari einstaklinganna kerfisbundinn. Með því er átt við að hann er ekki tilviljanakenndur heldur fylgir ákveðnu mynstri og er bundinn ákveðnu landsvæði eða tilteknum hópi fólks. Slíkur munur í málfari fólks kallast mállýskumunur. Hugtakið mállýska er reyndar gjarnan notað um mál tiltekins hóps manna sem greinist frá máli annarra hópa í fleiri en einu málfarslegu atriði, en um einstök málfarsleg atriði sem eru breytileg er hugtakið málbreyta fremur notað. Sjaldgæft er að fólk tali hreina mállýsku þegar um er að ræða minnihlutamállýsku, þ.e. mállýsku sem ekki er ríkjandi heldur einungis töluð af afmörkuðum hópi. Hjá flestum er mállýskan meira og minna blönduð en með því er átt við að fólk notar þau tilbrigði sem einkenna mállýskuna í mismiklum mæli, sumir meira en aðrir, en enginn þó í öllum tilvikum.

Öll samfélög eru lagskipt að einhverju leyti; við tilheyrum öll einhverjum þjóðfélagshópi og eigum uppruna okkar á ákveðnu landsvæði.

Fiskverkakona og forstjóri. Teikning: Jón Óskar.

Þessi lagskipting endurspeglast í málfari okkar að meira eða minna leyti og því má segja að allir tali einhverja mállýsku. Af því leiðir að mállýskur eru til í öllum tungumálum, þótt fjölbreytni þeirra sé vissulega mismikil. Breytileikinner að vísu afar mismunandi, í sumum löndum er hann mjög mikill, jafnvel svo mikill að fólk á erfitt með að skilja hvert annað, en í öðrum er hann tiltölulega lítill eins og hér á Íslandi.

1.1 Málbrigði

Ekkert tungumál myndar eina órofa samstæða heild og er talað eins af öllum við allar aðstæður. Þvert á móti einkennist sérhvert tungumál af málbrigðum, eða breytileika, af margs konar tagi. Með því er átt við að sum málfarsleg atriði eru til í fleiri en einni mynd eða einu tilbrigði. Notkun á hinum mismunandi tilbrigðum er ekki tilviljanakennd heldur bundin ytri aðstæðum svo sem búsetu, félagslegri stöðu og málaðstæðum hverju sinni. Málbrigði má finna á öllum sviðum tungumálsins; í framburði, beygingum, setningagerð og orðafari. Sem dæmi um málbrigði í íslensku má nefna að á Vestfjörðum er algengt að borið sé fram einhljóð í orðum eins og ‘langur gangur’ þar sem aðrir hafa tvíhljóð.

1.2 Málbreyta

Þau mállegu atriði sem eru til í fleiri en einni mynd eru nefnd málbreytur. Hinar mismunandi myndir eða birtingarform málbreytnanna nefnast tilbrigði. Í orðunum ‘langur gangur’ höfum við málbreytuna (a) og eru tilbrigði hennar einhljóðaframburður annars vegar og tvíhljóðaframburður hins vegar. Margar málbreytur eru flestu fólki ómeðvitaðar, þ.e. fólk gerir sér almennt ekki grein fyrir breytileikanum. Slíkar málbreytur nefnast vísir. Sem dæmi um vísi í íslensku mætti nefna ngl-framburð. Þær málbreytur hins vegar sem fólk er sér meðvitað um eru nefndar merki og er harðmæli líklega eitt skýrasta dæmið í íslensku um breytu af því tagi. Oftast tekur fólk þá einungis eftir breytileikanum en einnig er þekkt að lagt sé ákveðið mat á slíkar breytur, eða tiltekin tilbrigði þeirra; þau þykja ekki til eftirbreytni og eru jafnvel fordæmd. Flámælið er gott dæmi um tilbrigði í íslensku sem hefur verið fordæmt.

2. Uppruni mállýskna

Hvernig verða mállýskur til? Af hverju talar fólk sem talar sama tungumál ekki nákvæmlega eins? Hver er orsök breytileika í máli? Ekkert endanlegt svar er til við þessum spurningum en líklegasta skýringin er sú að breytileiki og þar með mállýskur sé afleiðing málbreytinga. Ýmiss konar hindranir eða takmörkuð samskipti á milli landsvæða eða ólíkra þjóðfélagshópa eiga sinn þátt í því að málbreytingar sem upp koma einhvers staðar, á afmörkuðu svæði eða innan tiltekins hóps, ná ekki að dreifast út meðal allra málnotenda á sama hraða eða á sama hátt. Það geta jafnvel liðið margar aldir frá því að málbreyting kemur upp og þangað til hún hefur náð að breiðast út til alls málsamfélagsins. Þannig kemur upp sú staða að hluti málnotenda heldur í gamalt tilbrigði málbreytunnar á meðan annar hópur hefur tileinkað sér nýja tilbrigðið.

Af þessu leiðir að í tungumálum þar sem málbreytingar hafa einhverra hluta vegna verið fáar og smáar eru yfirleitt ekki mjög fjölskrúðugar mállýskur. Þó er ekkert tungumál svo einsleitt að ekki megi finna í því einhvern breytileika. Þetta á t.d. við um íslensku. Stærð lands eða fjöldi þeirra sem talar tiltekið tungumál hefur ekki endilega áhrif á fjölbreytileika mállýskna. Þannig er t.d. mállýskumunur mun meiri í Færeyjum en á Íslandi þrátt fyrir að Færeyjar sé bæði minna land en Ísland og miklu færri búi þar en á Íslandi.

3. Mállýskumörk

Það er gjarnan talað um að fólk t.d. tali norðlensku eða vestfirsku og er þá átt við tiltekið málfar sem einkennir fólk frá viðkomandi landsvæðum. Okkur verður ekki skotaskuld úr því að benda á heimkynni þessara mállýskna á korti en málið vandast hins vegar þegar skilgreina á hvar hver mállýska byrjar og hvar hún endar. Hvar talar fólk t.d. skaftfellsku? Jú, í Skaftafellssýslum augljóslega. En hættir fólk þá algerlega að tala skaftfellsku á vestursýslumörkunum við Rangárvallasýslu og tala allir í Skaftafellssýslum ‘jafnmikla’ skaftfellsku? Spurningar sem þessar vakna óneitanlega þegar reynt er að skilgreina mállýskumörk en samkvæmt orðanna hljóðan eru mállýskumörk mörk á milli tveggja mállýskna. Hins vegar getum við sjaldnast greint svo skörp skil að við getum sagt að hér endi ein mállýska og önnur taki við, heldur er oftast um að ræða stigsmun eða samfellu á milli tveggja mállýskna. Það er þó yfirleitt auðveldara að greina skil í notkun á einstökum tilbrigðum en á mállýskum sem heild. Þetta getur átt við hvort heldur um er að ræða staðbundnar mállýskur eða mállýskur tiltekinna þjóðfélagshópa.

3.1 Brigðalína

Brigðalína er kölluð lína sem daga má á korti til að sýna landfræðilega útbreiðslu orða eða annarra málfarslegra atriða sem breytileg eru. Með brigðalínu má þannig afmarka svæði þar sem tiltekið orð eða tilbrigði málbreytu er notað.

3.2 Blendingssvæði

Á sumum landsvæðum má greina margar brigðalínur sem liggja nokkuð þétt saman og mynda einskonar knippi sem greinir að tvö mállýskusvæði. Brigðalínurnar falla þó sjaldnast saman né liggja alveg samsíða heldur skerast þær meira og minna og því er ekki unnt að greina skörp skil á milli svæðanna heldur er um stigsmun að ræða frá einni mállýsku til annarrar; svæðið er eins konar blendingssvæði tveggja mállýskna. Blendingssvæði eru gjarnan á landsvæðum þar sem eru einhverjar náttúrulegar hindranir, svo sem ár eða fjallgarðar, eða umdæmismörk eða menningarleg skil af einhverju tagi frá fornu fari.

Brigðalínur. Hér sést brigðalínuknippi yfir þvert Frakkland sem skiptir landinu í tvö aðalmállýskusvæði. Á sama svæði má einnig greina menningarskil af ýmsu tagi og má þar nefna ólíka gerð húsþaka og mismunandi venjur í sambandi við sáningartíma akranna, en hvort tveggja á auðvitað rætur sínar að rekja til ólíks veðurfars. Einnig má nefna að lengi vel giltu ekki sömu lög í suðurhluta landsins og norðurhlutanum og lágu mörkin um sama svæði og brigðalínuknippið (sjá Chambers & Trudgill 1980: 111, 122).

3.3 Kjarnasvæði

Landsvæði sem fáar eða engar brigðalínur liggja um eru nefnd kjarnasvæði. Umhverfis þau liggja síðan blendingssvæði sem greina þau frá öðrum kjarnasvæðum. Á kjarnasvæðunum eru aðalheimkynni hverrar mállýsku, þar er hún sterkust. Kjarnasvæðin eru jafnframt upphafssvæði málbreytinga, þaðan hafa þær breiðst út til nærliggjandi svæða. Kjarnasvæðin eru oft borgir eða aðrar miðstöðvar menningar og samgangna.

3.4 Mállýskusamfella

Mállýskusamfella kallast það þegar ferðast má yfir stórt svæði án þess að verða nokkurn tíma var við mörk á milli mállýskna þrátt fyrir smábreytingar sem engu að síður verða á málinu frá einum stað til annars. Á þennan hátt myndast keðja eða samfella mállýskna án þess að greina megi sérstök kjarnasvæði og blendingssvæði. Á þessari samfellu eru samliggjandi mállýskur alltaf skiljanlegar innbyrðis en ef svæðið sem samfellan nær yfir er mjög stórt þá er hugsanlegt að mállýskurnar á jöðrunum séu ekki lengur innbyrðis skiljanlegar.

Litaskali. Mállýskusamfellu má líkja við litrófið t.d. frá gulu yfir í rautt. Það fer ekkert á milli mála að á endunum eru tveir ólíkir litir, gulur og rauður. Hins vegar er hægt að renna augunum frá gula fletinum og til hægri yfir í þann rauða án þess að greina nokkurs staðar nein skil eða mörk.

Dæmi um slíka mállýskusamfellu má finna í Skandinavíu, þ.e. á svæði því sem ríkin Noregur, Svíþjóð og Danmörk ná yfir. Annað dæmi er þýska málsvæðið sem nær allt norðan frá Hollandi og suður til Sviss.

3.5 Innbyrðis skiljanleiki

Lykilhugtak í sambandi við skilgreiningu á mállýskum og hvar eigi að draga mörkin á milli mállýskna annars vegar og ólíkra mála hins vegar er innbyrðis skiljanleiki. Eigi málnotendur sem tala á einhvern hátt ólíkt ekki í neinum erfiðleikum með að skilja hver annan eru þeir sagðir tala ólíkar mállýskur. Sé munurinn hins vegar það mikill að hann hindri skilning er fólk sagt tala ólík tungumál.

Þessi viðmiðun á hins vegar augljóslega ekki alltaf jafnvel við því að önnur atriði en málleg ráða því oft hvað er kallað sjálfstætt tungumál og hvað mállýskur eins og sama máls. Sem dæmi um slíkt má nefna hollensku og þýsku. Norðan frá Hollandi og allt suður til Sviss er ekki unnt að greina nein skörp mállýskuskil; svæðið er ein mállýskusamfella. Íbúar beggja vegna landamæra Þýskalands og Hollands skilja hverjir aðra bærilega en engu að síður eru þeir sagðir tala ólík tungumál. Hins vegar geta íbúar í Norður-Þýskalandi og Suður-Þýskalandi átt í erfiðleikum með að skilja hverjir aðra, og tala þó sömu tungu, nema þeir grípi til ríkismáls til þess að auðvelda samskipti. Hér eru það því augljóslega landamæri og menningarsöguleg rök sem ráða því hvað er kallað hollenska og hvað þýska en ekki málleg rök. Sígilt dæmi þar sem þessu er öfugt farið er að finna í Kína. Íbúar þessa víðfeðma ríkis eru sagðir tala kínversku þó svo að þær mállýskur sem talaðar eru í nyrðri hlutanum og þeim syðri séu langt í frá að vera skiljanlegar innbyrðis. Hér er það því hin stjórnarfarslega eining sem er viðmiðunin auk þess sem ritmálið sameinar alla Kínverja.

4. Mállýskunánd

Í samskiptum fólks sem talar ólíkar mállýskur en þó skiljanlegar innbyrðis gætir oft einhverra mállegra áhrifa; fólk lagar mál sitt að máli viðmælenda. Þannig má nefna að Sunnlendingur gæti farið að kalla ‘hosur’ ‘leista’ í samskiptum við Norðlendinga þar sem sokkaplögg af þessu tagi ganga almennt undir þessu heiti á Norðurlandi – og öfugt. Séu slík samskipti viðvarandi geta þau leitt til mállýskublöndunar.

4.1 Aðlögun

Þegar fólk ræðist við lagar það oft mál sitt ósjálfrátt að máli viðmælandans. Slík aðlögun getur átt sér stað á hvaða sviði málsins sem er. Dæmi um aðlögun í framburði væri að harðmæli færi að bregða fyrir í máli fólks sem ekki væri sá framburður eiginlegur í samskiptum þess við Norðlendinga sem hafa flestir þann framburð. Löngun til samsömunar með viðmælendum, meðvituð eða ómeðvituð, býr oft að baki slíkri aðlögun; fólk vill nálgast eða líkjast viðmælanda sínum eða þeim hópi sem hann tilheyrir. Aðlögun getur leitt til ofvöndunar ef mál viðmælandans nýtur meiri virðingar í samfélaginu, en með því er átt við að fólk notar málleg atriði sem eru hærra metin mun víðar heldur en almenn málvenja segir til um.

Þessu getur einnig verið öfugt farið þannig að fólk leitist við að greina sig félagslega frá viðmælendum sínum, meðvitað eða ómeðvitað. Fólk heldur þá fast í sína eigin málnotkun, þá málnotkun sem er einkennandi fyrir þann hóp sem það tilheyrir. Dæmi um slíka mállega aðgreiningu má heyra í máli tiltekinna menningarhópa, eins og svartra Bandaríkjamanna. Annað dæmi og nærtækara mætti nefna að í framhaldsskólum tíðkast gjarnan tiltekin málnotkun; notuð eru viss orð eða orðasambönd sem hafa ákveðna skírskotun fyrir þá sem þar dvelja, en litla sem enga fyrir utanaðkomandi. Þegar nemendur úr ólíkum skólum keppa innbyrðis, t.d. í kappræðum eða spurningakeppni, lætur hópurinn í ljós samsömun sína, og greinir sig þá um leið frá hinum, með því m.a. að nota þetta einkennandi mál hópsins.

4.2 Mállýskublöndun

Afleiðing af langtíma samskiptum fólks sem talar ólíkar mállýskur getur orðið sú að ýmis málleg atriði sem eru með ólíkum hætti í hinum mismunandi mállýskum blandist meira og minna. Slík mállýskublöndun getur síðan leitt til þess að upp komi ný mállýska. Þetta er ekki óalgengt í útflytjendamálum og margar borgarmállýskur eru einnig orðnar til á þennan hátt. Í báðum tilvikum er samankominn á einn stað fjöldi fólks sem upprunninn er af ýmsum landsvæðum. Þannig hefur t.d. sú enska sem töluð er í Ástralíu myndast og ekki er ólíklegt að íslenska hafi orðið þannig til á sínum tíma sem blanda úr hinum ýmsum vesturnorsku mállýskum.

5. Mállýskurannsóknir

Málfræðingar tóku að rannsaka mállýskur á skipulagðan hátt á 19. öld. Miklar framfarir áttu sér stað í málvísindalegum rannsóknum og aðferðafræði á 19. öld; menn uppgötvuðu skyldleika ýmissa tungumála og settu fram kenningar um hlutverk reglulegra hljóðalögmála í því sambandi. Til að færa rök fyrir kenningum sínum þurftu málfræðingar að leita vísbendinga í mállýskum og þannig hófust skipulagðar rannsóknir á þeim. Fljótlega varð mállýskufræði að sjálfstæðri grein með sína eigin aðferðafræði. Lengi vel fékkst mállýskufræðin einungis við staðbundnar mállýskur en upp úr 1960 fara að ryðja sér til rúms ný viðhorf og ný aðferðafræði þar sem sjónum er beint að hvers kyns breytileika í máli.

5.1 Hefðbundin mállýskufræði

Hefðbundin mállýskufræði sem þróaðist í tengslum við söguleg málvísindi á 19. öld fæst við að athuga landfræðilega dreifingu tiltekinna framburðaratriða, beygingarmynda eða orða. Niðurstöðurnar eru gjarnan settar fram á landakorti þar sem brigðalínur eru dregnar til að sýna útbreiðslu tiltekinna tilbrigða í máli og þannig er hægt að gera sér grein fyrir kjarnasvæði og blendingssvæði þeirra.

Dæmi um mállýskukort. Hreinn Benediktsson 1961.

Í hefðbundinni mállýskufræði er val á málhöfum, þ.e. þeim sem gefa upplýsingar um þau atriði sem verið er að rannsaka, ekki tilviljanakennt heldur er leitað til roskins fólks í dreifbýli sem lítt hefur dvalist utan heimkynna sinna og þykir ábyrgt og frótt um eldri tíma og verða þá í flestum tilvikum karlar fyrir valinu. Ástæða þessa er sú að í hefðbundinni mállýskufræði er leitast við að draga fram elstu formin; hina hreinu og upprunalegu mállýsku, og er hún talin varðveitast best hjá hinum elstu sem lítt hafa hleypt heimdraganum. Að það eru fremur karlar en konur sem veljast sem málhafar stafar hins vegar af hefðbundnum hugmyndum um hlutverkaskiptingu kynjanna.

5.2 Breytileikafræði

Í tengslum við viðhorf sem fram koma á sjöunda áratugnum þar sem litið er á tungumálið sem félagslegt fyrirbrigði var farið að líta á mállýskur í víðara ljósi en eingöngu út frá landfræðilegri dreifingu mállegra atriða því að ljóst var að málbrigði, eða breytileika í máli, var ekki síður að finna í tengslum við félagslega stöðu, svo sem aldur, stétt og kynferði. Þannig tala í raun allir mállýsku, unglingar í stórborgum ekkert síður en gamlir karlar í sveitum. Áherslan færðist frá leitinni að upprunalegri og óspilltri mállýsku að því að kanna málbrigði á öllum sviðum. Markmiðið með slíkum rannsóknum er ekki einungis að kanna útbreiðslu tiltekinna mállegra atriða heldur ekki síður að varpa ljósi á gang málbreytinga þar sem breytileikinn er í raun hin sýnilega afleiðing þeirra. Ljóst er að aðferðafræðin sem notuð var í hefðbundnum mállýskurannsóknum dugði ekki, hvorki valið á málhöfum né aðferðir við úrvinnslu gagnanna. Málhafar voru nú valdir af handahófi og áttu þannig að gefa þverskurð af málsamfélaginu. Farið var að nota hugtakið málbreyta um málleg atriði sem birtast í fleiri en einni mynd og þróaðar voru aðferðir til þess að mæla hversu mikið sérhver málhafi og sérhver þjóðfélagshópur notar tiltekið mállegt atriði. Einn helsti frumkvöðull þessarar aðferðafræði er bandaríski málfræðingurinn William Labov.

6. Breytileiki í máli

6.1 Staðbundin málbrigði

Með staðbundnum málbrigðum er átt við kerfisbundinn mun í málfari fólks sem tengdur er búsetu þess. Slíkur munur getur myndast þegar samgangur fólks á milli landsvæða er takmarkaður, t.d. vegna náttúrlegra hindrana svo sem skóga, fjallgarða eða stórfljóta. Þannig má, eða mátti áður fyrr, sums staðar í Evrópu t.d. ferðast á milli þorpa sem hvert um sig hafði sín séreinkenni í máli. Þetta gildir ekki nema í litlum mæli á Íslandi sem hefur sérstöðu að því leyti hve málbrigði, eða breytileiki í máli er lítill. Staðbundin málbrigði eru fjölskrúðugri í stöðugu samfélagi þar sem fólk ferðast lítið út fyrir sitt heimahérað og hefur lítil kynni af málfari annarra; mállýskublöndun á sér þá síður stað. Aukin samskipti fólks og samgöngur síðustu áratugi hafa orðið þess valdandi að staðbundin málbrigði eru víðast hvar á undanhaldi. Þetta þýðir samt ekki að dregið hafi úr muni á málfari fólks, heldur gætir hans nú frekar á milli ólíkra þjóðfélagshópa óháð búsetu.

6.2 Félagsleg málbrigði

Félagsleg málbrigði er kerfisbundinn munur á máli fólks sem bundinn er félagslegri stöðu af einhverju tagi. Slíkur munur verður til vegna takmarkaðra samskipta fólks sem tilheyrir ólíkum þjóðfélagshópum. Um getur verið að ræða aldursbundinn mun, mun tengdan stétt, kynferði eða menningarheild.

Það sem hér segir um félagsleg málbrigði byggist fyrst og fremst á niðurstöðum erlendra rannsókna því að rannsóknir á þessu sviði í íslensku eru litlar að vöxtum að undanskildum athugunum á málfarsmuni tengdum aldri fólks. Ekki er þó ólíklegt að svipað mynstur og staðfest hefur verið í ótal rannsóknum um hinn vestræna heim megi einnig finna hérlendis. Varlega skal þó fara með fullyrðingar í þessum efnum því að íslenskur veruleiki gæti reynst annar, þó ekki sé nema vegna þeirrar sérstöðu hér á landi hve breytileiki í máli er tiltölulega fáskrúðugur.

6.2.1 Aldur

Það er alltaf einhver munur á málfari kynslóðanna og birtist hann einna skýrast í málnotkun unglinga sem oft er nokkuð frábrugðin málnotkun hinna sem eldri eru. Þetta á ekki hvað síst við um orðafar en snertir einnig aðra þætti tungumálsins. Sá munur sem við greinum í máli hinna ólíku aldurshópa á sér tvenns konar rætur. Annars vegar skapast hann af raunverulegri málbreytingu; yngri kynslóðin hefur tileinkað sér einhverja nýjung en eldri kynslóðin heldur í eldra tilbrigðið. Sem dæmi um augljósan mun í málfari eftir aldri má nefna hinn svokallaða bð-, gð- framburð sem áður var útbreiddur norðanlands en gætir nú aðeins í máli eldra fólks. ks-framburður er dæmi um framburð sem rekja má til nýlegra málbreytinga og er einungis að finna í máli yngri kynslóða. Það sama má segja um nýju þolmyndina sem svo hefur verið nefnd.

Af öðrum toga er sú málnotkun sem bundin er vissu aldursskeiði; málnotkun sem breytist síðan eftir því sem fólk eldist.

Aldursbundin málnotkun. Í þessum textabrotum úr skáldsögu sem ætluð er unglingum má sjá skýr dæmi um breytilega málnotkun eftir aldri sögupersónanna.

Þannig fylgir unglingsárunum gjarnan tiltekin málnotkun sem á öllum tímum fær eldra fólk til að hrista höfuðið. Þegar unglingarnar vaxa síðan úr grasi eldist þessi málnotkun af þeim og þeir fara að tala líkar fullorðnum. Einnig hafa rannsóknir sýnt að gamalt fólk talar öðruvísi en fólk á miðjum aldri. Það hefur verið skýrt á þá leið að gamalt fólk leitist ekki eins við að nota þau tilbrigði sem eru hærra metin í málsamfélaginu og þeir sem yngir eru gera gjarnan. Ástæðan sé sú að hinir eldri, sem dregið hafa sig í hlé af vinnumarkaðnum, sækist ekki eins eftir viðurkenningu samfélagsins og yngra fólk. Árétta ber að hér er hvorki verið að tala um breyttan framburð sem rekja má til ellihrumleika í talfærum né mun sem stafar af raunverulegri málbreytingu, heldur er um að ræða breytingar á félagslegri stöðu fólks sem áhrif hafa á málnotkun þess.

6.2.2 Stétt

Öll samfélög eru lagskipt að einhverju leyti; lífsgæðunum er misskipt og þegnarnir eru ekki metnir á sama hátt. Sumir njóta virðingar, og þar með valda og áhrifa, í krafti starfs síns, menntunar eða einfaldlega erfða. Aðrir hins vegar njóta hvorki sérstakrar virðingar né hafa nokkur völd í samfélaginu. Í sumum samfélögum er stéttskipting mjög rótgróin og sýnileg; það fer ekki milli mála hvar í samfélagsstiganum fólk stendur. Í öðrum samfélögum ríkir meiri jöfnuður, þar er stéttskiptingin hvorki eins áberandi né afgerandi en engu að síður er hún ætíð til staðar í einhverjum mæli.

Erlendar rannsóknir hafa leitt í ljós að málnotkun er oft bundin stétt á þann hátt að sum máltilbrigði er einkum að finna í máli þeirra sem ofar standa í þjóðfélagsstiganum en annarra gætir fyrst og fremst í máli þeirra sem lægra eru settir í samfélaginu. Máltilbrigði njóta einnig mismikillar virðingar í samfélaginu, sum þykja einfaldlega fínni en önnur og helst virðing gjarnan í hendur við stétt; mál efri stéttanna er álitið fínna en mál lægri stéttanna. Það leiðir til þess að við formlegar málaðstæður hefur fólk tilhneigingu til þess að laga mál sitt að máli efri stéttanna. Þetta á sér fyrst og fremst stað þegar um er að ræða málbreytur sem fólk gerir sér grein fyrir, þ.e. breytur sem eru merki. Stundum getur viðleitni fólks til að laga mál sitt að því máli sem virðingar nýtur leitt til ofvöndunar, en með því er átt við að tiltekin tilbrigði eru notuð mun víðar heldur en almenn málvenja segir til um. Slíkt má einkum heyra í málnotkun millistéttarinnar; þeirrar stéttar sem er hreyfanlegust og sækist helst eftir viðurkenningu samfélagsins. Sem dæmi um ofvöndun má nefna framburðinn á orðinu stúdentarþegar lokhljóðið ‘d’ verður fráblásið í stað framburðar með ófráblásnu lokhljóði. Í slíkum tilvikum hefur viðleitni fólks til að temja sér harðmæli, sem ekki er sá framburður eiginlegur, leitt til þess að öll lokhljóð í innstöðu verða fráblásin, líka þau sem eru aldrei fráblásin hjá þeim sem eru harðmæltir.

Þó svo að íslenskt samfélag sé að mörgu leyti einsleitt er það ekki ólagskipt; það er t.d. munur á högum verkamannsins og framkvæmdastjórans og því áliti sem þeir njóta vegna starfa sinna. Engin ástæða er til að ætla annað en að áhrifa slíkrar lagskiptingar gæti einnig hér á landi í málfari og virðingu fyrir máli hinna ólíku hópa, þó svo að því sé stundum mælt í móti. Má í því sambandi nefna niðurstöður rannsóknar sem gerð var á hinni svonefndu þágufallssýki meðal skólabarna. Í ljós kom að hún var mun útbreiddari meðal barna sem komu frá verkamannaheimilum heldur en barna úr efri lögum þjóðfélagsins, eða m.ö.o. hún reyndist vera stéttbundin (sjá Ástu Svavarsdóttur 1982; Ástu Svavarsdóttur, Gísla Pálsson og Þórólf Þórlindsson 1984):

Stéttbundin málnotkun. Í skáldverkum er stundum reynt að nota þágufallsýki eða önnur frávik í fallanotkun til þess að sýna lága þjóðfélagsstöðu persóna, sem hafa einnig oftar en ekki orðið undir í lífinu á einhvern hátt eða eru fulltrúar fyrir hið slæma, eins og þessi dæmi úr tveimur skáldverkum frá ólíkum tímum sýna.

Óbeinar vísbendingar eru um að flámæli sé einnig bundið þjóðfélagslegri stöðu þó svo að það hafi ekki verið rannsakað skipulega. Það nýtur lítillar virðingar og er ekki viðurkennt mál.

Það málfar sem meiri virðingar nýtur laðar þó ekki alla að sér heldur getur þessu verið þveröfugt farið þannig að mál lægri stéttanna þyki eftirsóknarvert. Í slíkum tilvikum er um að ræða löngun fólks, meðvitaða sem ómeðvitaða, til að samsama sig tilteknum hópi, en málnotkun er eitt skýrasta dæmið um slíka samsömun. Málið verður þá einskonar ytra merki um samstöðu og hópkennd. Stundum getur tilgangurinn beinlínis verið fólginn í uppreisn eða storkun gegn samfélaginu og viðteknum gildum þess. Rannsóknir hafa hins vegar leitt í ljós að margir sem telja sér trú um að þeir noti máltilbrigði sem minni virðingar njóta gera það í reynd ekki og að það eru karlar fremur en konur sem sækjast eftir lægra metnum máltilbrigðum.

6.2.3 Kynferði

Komið hefur í ljós í fjölmörgum erlendum rannsóknum að kynbundinn munur er á málfari fólks á þann hátt að konur nota í ríkari mæli en karlar þau máltilbrigði sem njóta meiri virðingar eða eru útbreiddari. Þetta á við um hvort heldur er framburð, beygingar eða setningagerð, en hefur þó mest verið rannsakað í tengslum við framburð. Hér á landi hefur þetta lítið verið rannsakað en þó eru vísbendingar um að það sama gildi hér að einhverju leyti. Þannig leiddi t.d. rannsókn á framburði Skagfirðinga í ljós að karlar voru almennt harðmæltari en konur (sjá Höskuld Þráinsson og Kristján Árnason 1986). Harðmæli er minnihlutaframburður og þó svo að hann virðist njóta meiri virðingar heldur en hitt tilbrigði málbreytunnar, linmæli, hefur það ekki áhrif hér, heldur er það útbreiðslan sem skiptir máli; það tilbrigði sem útbreiddara er nýtur þannig í vissum skilningi meiri virðingar. Þó ber að taka fram að þetta samspil virðingar og útbreiðslu, og hugsanlega breytileg viðhorf ólíkra þjóðfélagshópa til málbreytna, hefur lítt verið kannað og því óvarlegt að fullyrða mikið í þeim efnum. Annað dæmi sem nefna má um kynbundinn mun á málfari er, að í rannsókn sem gerð var á framburði Vestur-Skaftfellinga kom í ljós að meðal þeirra sem flust höfðu til Reykjavíkur höfðu konur frekar en karlar lagt af skaftfellska einhljóðaframburðinn og tekið upp tvíhljóðaframburð sem er ríkjandi tilbrigði. Munur eftir kynjum hjá þeim sem enn bjuggu í heimahögunum var hins vegar mun minni (sjá Guðvarð Má Gunnlaugsson 1984).

Nokkurs munar gætir einnig í orðafari kynjanna á þann hátt að sum orð eru fyrst og fremst notuð af konum en önnur af körlum. Að hluta til hefur þetta skapast vegna ólíks starfsvettvangs kynjanna lengi vel, þannig að orðforði eins sviðs er konum tamari en körlum einfaldlega vegna þess að þeir hafa haft takmörkuð kynni af því – og svo öfugt. Þannig má t.d. nefna orð sem lúta að heimilishaldi annars vegar og svo hins vegar orðafar sem snýr að vélum og viðgerðum. Einnig virðast viss orð sem ekki eru bundin ákveðnum starfssviðum vera notuð í misríkum mæli af körlum og konum, og sum jafnvel svo til eingöngu af öðru kyninu.

Líklega velkist enginn í vafa um hvort kynið hefur orðið í dæmi (A) og er snuprað fyrir orðanotkun í dæmi (B) (Pétur Gunnarsson. 1978. Ég, um mig, frá mér til mín, bls. 16-17; 37). Væntanlega gildir það sama í dæmi (C) (Einar Kárason. 1994. Kvikasilfur, bls. 137).

Þó svo að við höfum nokkuð mótaðar hugmyndir um hvaða orð það eru sem konur taka sér frekar í munn en karlar, og öfugt, er þess að geta að raunverulegar rannsóknir á því í íslensku eru litlar að vöxtum og því ber að fara varlega með fullyrðingar í þá veru. En engu að síður virðast niðurstöður þeirra athugana sem gerðar hafa verið styðja við almennar hugmyndir um sértækan orðaforða kynjanna (sjá Steinunni Stefánsdóttur 1987; Álfheiði Ingimarsdóttur o.fl. 1994), þó svo ítarlegri rannsókna sé þörf. Þess má einnig geta að það er ekki einungis í orðavali sem um kynbundinn mun er að ræða heldur hafa fjölmargar erlendar rannsóknir einnig leitt í ljós kynbundinn mun í samtalsvenjum.

6.2.4 Menningarheild

Með menningarheild er átt við hóp af fólki sem finnur samhljóm í gegnum sameiginleg trúarbrögð, kynþátt eða einhvern menningarfélagslegan hóp. Samsömun með hópnum og þeim gildum sem þar ríkja er oft mikil og fólk skilgreinir sig sem hluta af hópnum og greinir sig þannig um leið frá öðrum hópum. Menningarheild þarf ekki að vera bundin tilteknu ríki eða tungumáli heldur getur náð út yfir það og eru gyðingar gott dæmi um slíka heild. En hópa af þessu tagi, afmarkaðar menningarheildir, má einnig finna innan eins og sama ríkis og málsamfélags. Eitt sem einkennir þá gjarnan slíka hópa er tiltekin málnotkun, málnotkun sem sameinar fólk sem telur sig tilheyra hópnum. Eitt skýrasta dæmið um málnotkun sem bundin er menningarheild er mál svartra Bandaríkjamanna, einkum fólks úr neðri lögum þjóðfélagsins. Sú enska sem svartir tala er að verulegu leyti frábrugðin ensku annarra Bandaríkjamanna og telst vera alveg sérstök mállýska með sín séreinkenni.

6.3 Aðstæðubundin málbrigði

Við tölum ekki eins við öll tækifæri, mál okkar er breytilegt eftir aðstæðum hverju sinni, umræðuefni og viðmælendum. Sumar aðstæður krefjast formlegs málsniðs en við aðrar aðstæður er eðlilegra að nota óformlegt mál. Þessa gætir ekki einungis í orðavali heldur líka í setningagerð, beygingum og framburði. Notkun á mismunandi tilbrigðum málbreytna getur þannig verið bundin ólíkum málaðstæðum, annað tilbrigðið frekar notað við formlegar aðstæður en hitt við óformlegar. Þetta á einungis við um þær málbreytur sem eru merki. Málbreytur sem eru vísar hegða sér ekki á þennan hátt; breytileikinn kemur ekki fram við ólíkar málaðstæður.

Heimildir

Álfheiður Ingimarsdóttir, Birna Lísa Jensdóttir, Hrafnhildur Þorgrímsdóttir og Þóra Magnea Magnúsdóttir. 1994. Hóra, hlussa, perri, proffi. Mímir 41:16–22.

Ásta Svavarsdóttir. 1982. „Þágufallssýki“. Breytingar á fallnotkun í frumlagssæti ópersónulegra setninga. Íslenskt mál 4:19–62.

____. 1994. Hvernig er orðafari kvenna til skila haldið í íslenskum orðabókum? Gullastokkur færður Gunnlaugi Ingólfssyni fimmtugum 4. desember 1994, bls. 13–17. Reykjavík.

Ásta Svavarsdóttir, Gísli Pálsson og Þórólfur Þórlindsson. 1984. Fall er fararheill. Um fallnotkun með ópersónulegum sögnum. Íslenskt mál 6:33–55.

Ásta Svavarsdóttir og Þóra Björk Hjartardóttir. 1996. Breytileiki í máli. Erindi um íslenskt mál, bls. 95–109. Íslenska málfræðifélagið, Reykjavík.

Björn Guðfinnsson. 1946. Mállýzkur I. Ísafoldarprentsmiðja, Reykjavík.

___. 1964. Um íslenzkan framburð. Mállýzkur II. Ólafur M. Ólafsson og Óskar Halldórsson unnu úr gögnum höfundar og bjuggu til prentunar. Studia Islandica 23. Heimspekideild Háskóla Íslands og Bókaútgáfa Menningarsjóðs, Reykjavík.

Cameron, Deborah og Jennifer Coates. 1988. Some problems in the sociolinguistic explanation of sex differences. Coates, Jennifer and Deborah Cameron (ritstj.). Women in Their Speech Communities. New Perspectives on Language and Sex, bls. 13–26. Longman, London.

Coates, Jennifer. 1993. Women, men and language: a sociolinguistic account of gender differences in language. 2. útg. Longman, London.

Crystal, David. 1992. An Encyclopedic Dictionary of Language and Languages. Blackwell, Oxford.

Crystal, David. 1997. The Cambridge Encyclopedia of Language. 2. útg. Cambridge University Press, Cambridge.

Guðvarður Már Gunnlaugsson. 1984. Tölfræðileg málvísindi (eða málfræðileg tölvísindi). Íslenskt mál 6:177–181.

____. 1987. Íslenskar mállýskurannsóknir. Yfirlit. Íslenskt mál 9:163–174.

Holmes, Janet. 1997. Women, language and identity. Journal of Sociolinguistics 1/2:195–223.

Höskuldur Þráinsson og Kristján Árnason. 1992. Phonological Variation in 20th Century Icelandic. Íslenskt mál 14:89–128.

Maling, Joan og Sigríður Sigurjónsdóttur. 1997. The "New Passive" in Icelandic. Hugehs, Elizabeth, Mary Hughes og Annabel Greenhill (ritstj.). Proceedings of the 21st Annual Boston University Conference on Language Development, bls. 378–389. Cascadilla Press, Sommerville, Massachusetts.

Höskuldur Þráinsson og Kristján Árnason. 1986. Um skagfirsku. Íslenskt mál 8:31–62.

Sigurður Jónsson, Guðvarður Már Gunnlaugsson og Höskuldur Þráinsson. 1992. Mállýskudæmi. 2. útg. Málvísindastofnun Háskóla Íslands, Reykjavík.

Stefán Karlsson. 1993. Að hneigja upp á i. Orðaforði heyjaður Guðrún Kvaran 21. júlí 1993, bls. 103–106. Reykjavík.

Steinunn Stefánsdóttir. 1987. Um mun á orðavali karla og kvenna. Mímir 35:17–27

Trudgill, Peter. 1992. Introducing Language and Society. Penguin English Linguistics. Penguin, London.